The Icelandic Journal of Nursing | 2. tbl. 2025 | 101. árgangur
Wendill Galan Viejo, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild, er fyrsti erlendi karlmaðurinn sem situr í stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og er einnig brautryðjandi í námi fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga
Efnisyfirlit
8 16 22 24 14
8
staða á fyrirsjáanlegum vanda
Leiðtoginn: Bylgja Kærnested, forstöðuhjúkrunarfræðingur í hjarta- og augnþjónustu Landspítala
14 Vaktin mín – Lena María Árnadóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku
16 Viðtal – Wendill Galan Viejo, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild E6 í Fossvogi, er fyrsti erlendi hjúkrunarfræðingurinn sem situr í stjórn Fíh og er einnig brautryðjandi á nýrri námsleið fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga sem hafa lokið hjúkrunarnámi erlendis og vilja fara í meistaranám hér á landi
22 Vaktin mín – Viktor Andersen, hjúkrunarfræðingur á deild 12G
24 Viðtal – Ásta Hannesdóttir er elsti núlifandi hjúkrunarfræðingurinn á Íslandi og man tímana tvenna
30 Tímarit hjúkrunarfræðinga er 100 ára og hér er farið yfir sögu tímaritsins
38 Viðtal – Bjarnheiður Böðvarsdóttir og Þorbjörg Steinarsdóttir, skólahjúkrunarfræðingar á Selfossi, gerðu rannsókn sem staðfestir að offita hefur aukist hjá grunnskólabörnum
40
42
44
48
50
Ráðsetefna Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) fór fram í Helsinki í júní þangað sem fjöldi hjúkrunarfræðinga mætti frá Íslandi
Trúnaðarmaðurinn: Sólveig Tryggvadóttir
Viðtal – Guðríður Ringsted, geðhjúkrunarfræðingur og teymisstjóri í öldrunargeðteymi Landspítala, segir fagfólk teymisins oft vinna með flókinn og fjölþættan vanda
Trúnaðarmaðurinn: Sólveig Tryggvadóttir
Háskólakennarinn: Arnrún Halla Arnórsdóttir kveður kennarastarfið eftir 20 ár við Háskólann á Akureyri 54 Aðalfundur Fíh í máli og myndum
56
Hjúkrunarfræðingar gengu saman á Úlfarsfell á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga þann 12. maí og ritstýran mætti með myndavélina til að fanga stemninguna á staðnum
58 Ný viðmið um æðri menntun og prófgráður
62 Ritrýnd grein: Áhrif fiskroðs á gróanda húðtökusvæða: Slembuð íhlutunar forransókn
ÁTil hamingju með
100 ára afmælið
rið er 1925. Danski konungurinn ræður yfir eyjunni fögru í
Norður-Atlantshafi og Íslendingar eru rétt um það bil 100 þúsund talsins. Þetta ár, þann 17. júní var Sjúkrahús Ísafjarðar á Eyrartúni vígt. Mannréttindaleiðtoginn Malcolm X fæddist í maímánuði og Margaret Thatcher, sem gjarnan var kölluð járnfrúin, og var fyrsta kona Bretlands til að verða bæði forsætisráðherra og leiðtogi breska Íhaldsflokksins fæddist í október 1925.
Það merkilega gerðist líka árið 1925, í júnímánuði, kom fyrsta tölublað Tímarits hjúkrunarfræðinga út en þá hét það Tímarit Fjelags íslenskra hjúkrunarkvenna. Tímaritið hefur því verið gefið út í heila öld og af því tilefni er grein í þessu tölublaði þar sem farið er yfir sögu tímaritsins. Það eru ekki öll tímarit sem ná því að verða 100 ára, fæst ná því ef út í það er farið.
Í fyrstu ritstjórn tímaritsins sátu Guðný Jónsdóttir, Sigríður Eiríksdóttir og Kristjana Guðmundsdóttir. Tilgangurinn með tímaritinu var fyrst og fremst að efla skilning á faginu og í leiðara fyrsta tölublaðsins sem kom út fyrir hundrað árum stendur: „Við eigum að skrifa það allar. Við eigum að leggja það besta af þekkingu okkar og reynslu í það, af trú á málstað okkar og framsóknarhug. Undir því er líf þess komið.“ Og í desember þetta sama ár skrifar Guðný Jónsdóttir: „Okkur nægir ekki fjelagsblað. Við þurfum prentað tímarit – við þurfum að standa í lifandi sambandi við þjóðina sem við vinnum hjá, kenna henni, fræða og leiðbeina.“
Það er ljóst að dugnaður og framtakssemi einkenndi hjúkrunarfræðingana sem réðust í það metnaðarfulla verkefni að gefa út tímarit hjúkrunarfræðinga því prenttæknin var ekki upp á marga fiska árið 1925. Tímaritið var fyrstu árin vélritað og sett upp á borðstofuborðinu heima hjá Sigríði Eiríksdóttur, á æskuheimili Vigdísar Finnbogadóttur sem seinna varð fyrst kvenna í heiminum til að verða kosin forseti í lýðræðislegum kosningum. Kraftur kvenna virðist hafa verið mikill á þessu heimili, þær mæðgur báðar miklir kvenskörungar sem hafa skráð nöfn sín í sögubækurnar.
Árið 1965, á 40 ára afmæli tímaritsins skrifaði Sigríður Eiríksdóttir um hvað knúði þær áfram í útgáfu tímarits: „Okkur varð fljótlega Ijóst, að varðandi hjúkrunarmál, nám, laun og kjör var hér óplægður akur, sem ógerningur væri að koma í rækt, nema með því að berjast fyrir umbótum bæði í ræðu og riti. Stjórnar- og heil-
brigðisyfirvöld þyrftu að íhuga kröfur tímans og leiðrétta margvíslegt ranglæti, sem viðgekkst vegna fáfræði og sinnuleysis,“ skrifaði Sigríður sem talaði líka um að vinnutími væri óhæfilega langur, smithætta mikil í starfi og að þjappa þyrfti stéttinni saman um kjör sín og stöðu í þjóðfélaginu, „ ... en þar skorti hinar ungu hjúkrunarkonur oft skilning og framsýni.“
Skrifaði Sigríður Eiríksdóttir fyrir 60 árum og ljóst að margt hefur áunnist síðan þá en baráttan heldur samt áfram og hjúkrunarfræðingar eru enn að berjast fyrir bættum kjörum, betri aðbúnaði og að fá fleiri karla til að læra hjúkrunarfærði svo fátt eitt sé nefnt. Og nú hundrað árum eftir að fyrsta tölublað tímarits hjúkrunarfræðinga kom út er erlendur karlmaður á forsíðunni. Það er hann Wendill Galan Viejo, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild E6, sem á síðasta aðalfundi var kjörinn í stjórn Fíh. Óhætt er að segja að Wendill sé að ryðja brautina því hann er fyrsti erlendi hjúkrunarfræðingurinn sem situr í stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hann er líka fyrstur til að fara sérstaka námsleið fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga sem hafa lokið hjúkrunarnámi erlendis en hann og vinkona hans tóku 45 ECTS-einingar í viðbót á grunnnámsstigi til að geta haldið áfram í meistaranámið.
Í stað þess að ljúka 90 ECTS-einingum eins og venjulega, þurftu þau því að klára 120 ECTS-einingar fyrir meistaranámið. „Við tvö erum í raun frumkvöðlar á þessari nýju námsleið og erum að ryðja brautina fyrir aðra hjúkrunarfræðinga sem eru í sömu sporum og við vorum og vilja fara í meistaranám.“ segir Wendill í forsíðuviðtali tímaritsins á þessum 100 ára tímamótum.
Í tilefni afmælisins tók ég líka viðtal við elsta núlifandi hjúkrunarfræðing á Íslandi sem er hin 101 árs gamla Ásta Hannesdóttir. Það var einstaklega gaman og gefandi að hitta Ástu á heimili hennar í Garðabæ og spjalla við hana um liðna tíma en hún starfaði til að mynda á Vífilstöðum þegar berklafaraldurinn geisaði um heiminn og á geðspítala í Hróarskeldu.
Hafið það sem allra best í sumar og njótið haustsins, kæru hjúkrunarfræðingar, og sjáumst á Hjúkrun 2025 á Akureyri í lok september, þar verður fjör.
Tímarit hjúkrunarfræðinga
Suðurlandsbraut 22 · 108 Reykjavík
Sími: 540 6400
hjukrun.is
Útgefandi: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Hjartastuðtæki ættu að vera staðalbúnaður í öllum fyrirtækjum.
ÞaðSumarið er tíminn
er ánægjulegt að segja frá því að afar góður gangur er í endurnýjun stofnanasamninga hjúkrunarfræðinga á flestum stöðum um landið. Eins og margir muna var miðlægur kjarasamningur hjúkrunarfræðinga við ríkið undirritaður í nóvember 2024. Samkvæmt 11. grein hans eru stofnanasamningar órjúfanlegur hluti heildarsamningsins og því ekki seinna vænna en að ganga frá þeim af festu.
Í stofnanasamningum nú leggur Fíh mikla áherslu á að innleiða starfsþróunarkerfi sem styður við faglega þróun hjúkrunarfræðinga og styrkir um leið hjúkrunarþjónustu stofnana. Þessi áhersla samræmist ákvæðum í nýlegum kjarasamningum þar sem m.a. er kveðið á um 10 daga árlega til sí- og endurmenntunar, auk stofnunar Starfsþróunarseturs hjúkrunarfræðinga. Af þessum sökum teljum við hjá Fíh eðlilegt og mikilvægt að setja formlegan ramma utan um þessa þætti kjarasamningsins í gegnum markvisst starfsþróunarkerfi sem nýtist öllum aðilum. Það er einkar gleðilegt hversu vel flestar stofnanir taka þessu kerfi og leggja mikla vinnu í nýja samninga.
Í byrjun júní sóttu um 130 íslenskir hjúkrunarfræðingar glæsilega ráðstefnu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga, ICN. Það var ánægjulegt að sjá hversu margir flottir fulltrúar mættu frá Íslandi með erindi og veggspjöld. Samtök hjúkrunarfélaga Norðurlandanna NNF voru með heilmikla dagskrá á ráðstefnunni sem heppnaðist afar vel. Haldin var norræn móttaka þar sem yfir 1.000 hjúkrunarfræðingar af Norðurlöndunum mættu í glæsilega viðburðahöll Alvars Aalto og skemmtu sér saman. NNF stóð einnig fyrir dagskrá í aðalsal ráðstefnunnar og kynnti þar það nýjasta og áhugaverðasta sem hjúkrunarfræðingar Norðurlanda hafa fram að færa. Fulltrúi okkar Íslendinga var Þorsteinn Jónsson, sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun og sagði hann frá því hversu framarlega við á Íslandi erum í hermikennslu en hjúkrunarfræðingar hafa leitt þá þróun hér á Íslandi með miklum glæsibrag.
Fyrir ráðstefnuna var haldið þing ICN þar sem samþykkt var ályktun sem fordæmir ofbeldi gegn hjúkrunarfræðingum og heilbrigðisstarfsfólki á átakasvæðum. Hjúkrunarfræðingar flýja nefni-
lega ekki átakasvæði þegar stríð geisa, heldur hlúa að þeim sem þurfa á aðstoð að halda. Þegar horft er til sögu hjúkrunar kemur berlega í ljós að hjúkrunarfræðingar hafa alla tíð staðið í fremstu víglínu. Í Krímstríðinu sýndi Florence Nightingale hvernig hreinlæti, næring og góður aðbúnaður gat lækkað dánartíðni hermanna og í íslenskum sögum er Halldóra Gunnsteinsdóttir talin hafa verið fyrsta hjúkrunarkonan. Fræg er frásögn úr Víga-Glúms sögu þegar hún batt sár óvina og sinnti af alúð með orðunum „skulum vér binda sár þeirra manna, er lífvænir eru, ór hvárra liði sem eru“. Sagan undirstrikar siðferðileg gildi hjúkrunar og þá skyldu sem hjúkrunarfræðingar bera gagnvart öllum einstaklingum, óháð uppruna eða stöðu. Það er þó ljóst að til að hjúkrunarfræðingar geti sinnt mikilvægu hlutverki sínu, þurfa þeir að fá að starfa óhultir og við öruggar aðstæður. Á það verður aldrei of oft minnt.
Dagana 25.–26. september næstkomandi verður vísindaráðstefnan HJÚKRUN 2025 haldin í Hofi á Akureyri. Ráðstefnan verður glæsileg, með spennandi gestafyrirlesurum og áhugaverðum erindum. Fjöldi ágripa barst og verður dagskráin því fjölbreytt og full af nýrri þekkingu. Ég hvet hjúkrunarfræðinga eindregið til að mæta, hitta kollega, drekka í sig fróðleik og njóta samveru. Ég minni jafnframt á að ráðstefnan er styrkhæf hjá Starfsþróunarsetri hjúkrunarfræðinga, þar sem styrkupphæðin hefur verið hækkuð og getur numið allt að 600.000 kr. á hverju 24 mánaða tímabili.
Nú er sumarið að ná hámarki og margir að taka út sín kærkomnu sumarfrí. Það er öllum nauðsynlegt að hlaða batteríin og skapa tilbreytingu í lífinu. Eins og hjúkrunarnemar á ICN orðuðu svo vel: „Það er ekki hægt að mæta til starfa með tóm batterí, það verður að hlaða þau svo orkan sé til staðar þegar á þarf að halda“.
Ég óska ykkur öllum kærleiksríks, gleðilegs og gefandi sumars. Megið þið njóta og endurheimta orku fyrir líkama og sál.
Helga Rósa Másdóttir formaður
Tovertafel
skjávarpi
Tovertafel er gagnvirkur skjávarpi sem breytir hvaða yfirborði sem er í leiksvæði fullt af gleði, virkni og tengingu. Tovertafel notar innrauða skynjara og sérsniðinn hugbúnað til að hvetja til hreyfingar, samskipta og samveru.
Af hverju Tovertafel?
Eykur félagslega virkni og örvar samskipti. Styrkir tengsl milli umönnunaraðila og skjólstæðinga. Sérsniðið fyrir minnismeðferðir Stuðlar að jákvæðri hegðun og minnkar
Icepharma Velferð er leiðandi í mótun heilsuog velferðarsamfélags framtíðarinnar. Við bjóðum margvíslegar lausnir fyrir þig og þína
Átakanleg staða á fyrirsjáanlegum vanda
Texti: Helga Rósa Másdóttir og Ari Brynjólfsson
Í lok árs 2024 barst beiðni frá Ríkisendurskoðun (RE) til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) um álit félagsins á framvindu tillagna sem settar voru fram í tveimur skýrslum, Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga og Mönnun hjúkrunarfræðinga
Einnig var óskað eftir afstöðu Fíh til tillagna er lagðar voru fram í skýrslunni Mönnunarviðmið í hjúkrun sem kom út í nóvember 2024. Að lokum var spurt hvort Fíh byggi yfir tölfræði um þróun og samsetningu stéttarinnar þar sem slíkar upplýsingar eru ekki tiltækar hjá hinu opinbera.
Fíh fór kerfisbundið yfir áðurnefndar skýrslur og skilaði áliti sínu á framvindu á tillögunum. Einnig sendi Fíh Ríkisendurskoðun samantekt og umræðu um fjölda hjúkrunarfræðinga af erlendu þjóðerni þar sem skortur var á umræðu eða athygli á því í áðurnefndum skýrslum. Finna má svör Fíh í skýrslunni Árangur stjórnvalda varðandi mönnun og menntun hjúkrunarfræðinga - Álit Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna úttektar Ríkisendurskoðunar
Nú hefur RE unnið úr svörum Fíh ásamt öðrum upplýsingum og gefið út stjórnsýsluúttekt undir heitinu Landspítali – Mönnun og flæði sjúklinga
Úttekt RE sýnir afar slæma stöðu mála innan Landspítala (LSH) og heilbrigðiskerfisins alls hvað varðar mönnun heilbrigðisstarfsfólks og flæði sjúklinga. RE gerir athugasemdir við það hversu litlar efndir heilbrigðisyfirvöld fylgja eftir tillögum um úrbætur, sér í lagi um uppbyggingu hjúkrunarrýma og hversu lítil yfirsýn og stjórnun er yfir heilbrigðiskerfinu í heild sinni.
Viðurkenning fæst á því að stærsti vandi varðandi flæði sjúklinga á LSH er ekki á færi spítalans að leysa en ofurálag, óskilvirkni og hættulegar aðstæður skapast í starfsemi spítalans stóran hluta ársins þegar ekki er hægt að útskrifa einstaklinga sem lokið hafa meðferð. Einnig er ítarlega fjallað um mönnun á LSH þar sem kemur fram að sett hafi verið viðmið um að hlutfall hjúkrunarfræðinga eigi ekki að vera lægra en 60%, þar sem bein tengsl eru á milli hjúkrunarmönnunar og gæða þjónustunnar.
Það hlutfall hefur aldrei farið yfir 50% frá árinu 2019 og engin viðleitni verið í átt til hækkunar. Má því draga þá ályktun að gæði hjúkrunar, öryggi og þjónusta við sjúklinga sé verulega ábótavant.
Í úttektinni eru settar fram tólf megintillögur og eru þar þær veigamestu þær nákvæmlega sömu og Fíh hefur ítrekað bent á. Það er, að auka yfirsýn yfir framboð og eftirspurn heilbrigðisþjónustu, gera heildstæða áætlun um hvernig skuli bregðast við aukinni þörf fyrir þjónustuna og skorti á mannafla og stýra aðgerðum í samræmi við þá áætlun. Fíh hefur bent stjórnvöldum á mikilvægi þess að stofna embætti yfirhjúkrunarfræðings í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Hlutverk slíks embættis væri að leiða stefnumótun og áætlanagerð varðandi hjúkrunarþjónustu á landsvísu, sem samkvæmt úttekt RE er brýnt og full ástæða til að ráðast í. Ein birtingarmynd á skorti á yfirsýn er einmitt vöntun á opinberri tölfræði um þróun og samsetningu heilbrigðisstétta.
Önnur tillaga beinir því til stjórnvalda að þróa og innleiða mönnunarviðmið auk þess að nýta mannauðinn betur með endurskoðun á verkaskiptingu stétta. Þessi tvö atriði hafa verið ein helstu baráttumál Fíh, að koma á mönnunarviðmiðum og víkka starfssvið sérfræðinga í hjúkrun en unnið er að þeim í dag með heilbrigðisráðuneyti sem er jákvætt.
Lestri úttektarinnar fylgir átakanleg mynd af hörmulegri stöðu flæðis sjúklinga, skorti á hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki og því hve lítið hefur verið gert af að bregðast við þessari afar fyrirsjáanlegu þróun.
Fíh væntir þess að núverandi heilbrigðisráðherra sem hefur djúpa og yfirgripsmikla þekkingu á málaflokknum úr fyrri störfum sínum sem landlæknir beiti sér ásamt Alþingi af fullum þunga við að snúa þessari þróun við, tryggja öryggi sjúklinga og bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks.
Skýrslur Fíh og Ríkisendurskoðunar má nálgast á hjukrun.is undir Félagið > Útgáfa > Skýrslur.
Hjúkrun 2025
25. - 26. september 2025 // Hofi Akureyri
Ráðstefnan Hjúkrun er uppskeruhátíð hjúkrunarfræðinga þar sem við komum saman til að fagna því sem hefur áunnist í faginu og deila nýjustu þekkingu
Dagskráin er fjölbreytt, með áhugaverðum fyrirlestrum, hvetjandi umræðum og tækifærum til að læra og tengjast öðrum
Skráning er opin á radstefna.hjukrun.is
Boðsfyrirlesarar
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir
Árún K. Sigurðardóttir
Ingibjörg R. Þórðardóttir
Aðalfyrirlesarar
Ingibjörg Jónsdóttir
Prófessor í lýðheilsu í Svíþjóð
Margrieta Langins
Yfirhjúkrunarfræðingur hjá WHO
Jónatansdóttir
Elisabeth Klinke
Steinunn
Marianne
Leiðtogi í hjúkrun
Góður leiðtogi þarf skýra sýn og getu
til að koma henni í framkvæmd
Bylgja Kærnested, forstöðuhjúkrunarfræðingur í hjarta- og augnþjónustu
Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Bylgja Kærnested hefur starfað á hjartadeild Landspítalans í hartnær þrjá áratugi. Hún var hjúkrunardeildarstjóri á hjartadeild 14EG í 14 ár frá árinu 2010 og ásamt frábæru teymi tókst henni að skapa þar einstaka liðsheild og frábæran starfsanda sem skilaði sér í því að deildin hefur ekki þurft að glíma við manneklu. Á síðasta ári tók Bylgja við nýju starfi og er nú forstöðuhjúkrunarfræðingur hjarta- og augnþjónustu Landspítalans. Hún segir starfið vera spennandi áskorun og Landspítalinn er að hennar mati besti vinnustaður landsins, þar slær hjartað og hún hrósar samstarfsfólki sínu í hástert sem hún segir vera framúrskarandi. Bylgja segir að góður leiðtogi þurfi m.a að vera sýnilegur og til staðar, þolinmóður og skynsamur í ákvarðanatöku
Guðmundssyni, leiðsögumanni og ferðafélaga. Við eigum samtals fimm uppkomin börn og einn yndislegan ömmustrák, Loga
Hvers vegna valdir þú að verða hjúkrunarfræðingur?
Ég vissi í raun ekkert hver Florence Nightingale var og átti engan nákominn í hjúkrunarstétt þegar ég ákvað, eftir stúdentspróf frá Kvennaskólanum í Reykjavík, að fara í hjúkrun. Það var tilviljun frekar en köllun sem réði för en sennilega var það áhugi minn á samskiptum, heilsu og velferð fólks sem vó þyngst. Núna í seinni tíð hefur líka bæst við áhugi á þróun í hverskyns heilsutækni, stafrænum lausnum og þá hvernig þær auka öryggi sjúklinga og bæta þjónustuna.
Hvert lá svo leiðin eftir útskrift? Ég útskrifaðist árið 1997 og hóf þá störf á hjartadeild Landspítala og ég hef verið þar nánast alveg síðan. Í upphafi sinnti ég almennri hjúkrun en hef einnig tekið þátt í kennslu og ýmsum þróunarverkefnum á spítalanum. Fljótlega þróaðist áhugi minn á faglegri þróun og umbótaverkefnum innan hjúkrunar. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum innleiðingarverkefnum sem snúa að verklagi, nýjungum í meðferð og samvinnu milli starfsstétta. Samhliða starfi mínu á hjartadeildinni sinnti ég endurlífgunarmálum á Landspítalanum og gegndi formennsku í hjúkrunarráði í tvö ár, frá 2008 til 2010. Í báðum þessum hlutverkum fékk ég dýrmæta reynslu af stefnumótun, teymisvinnu og
faglegri forystu innan heilbrigðiskerfisins. Árið 2005 lauk ég svo meistaraprófi í stjórnun frá Háskóla Íslands. Lokaverkefni mitt fjallaði um teymisvinnu og úthlutun verkefna meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Landspítalanum. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig skýrt verkskipulag getur stutt við betri nýtingu mannauðs og aukið starfsánægju. Sú vinna varð grundvöllur frekari áhuga míns á stjórnun, starfsþróun og gæðum í hjúkrun.
Hvenær tókst þú við starfi deildarstjóra á hjartadeildinni?
Ég tók við sem hjúkrunardeildarstjóri á hjartadeild 14EG árið 2010 og gegndi því starfi í 14 ár. Með frábæru teymi tókst okkur að skapa einstaka liðsheild og frábæran starfsanda á deildinni. Þetta hefur skilað sér í því að við höfum aldrei þurft að glíma við manneklu og enn er mikil aðsókn í að starfa á deildinni. Hjartadeildin er að mínu mati eitt af flaggskipum spítalans enda stærsta legudeildin og eina sérhæfða hjartadeild landsins. Landspítali er minn staður, þar slær hjartað og að mínu mati er þetta besti vinnustaður landsins. Samstarfsfólk er framúrskarandi og það er einmitt einkennandi fyrir spítalann að þar starfar fólk sem hefur einlægan áhuga á mannlegum samskiptum og vill láta gott af sér leiða.
Árið 2024 tók ég við nýju starfi sem er spennandi áskorun en í kjölfar skipuritsbreytinga spítalans er ég nú forstöðuhjúkrunarfræðingur í hjarta- og augnþjónustu Landspítalans.
Í hverju felst helst munurinn á starfi forstöðuhjúkrunarfræðings og starfi hjúkrunardeildarstjóra?
Þetta er mikil breyting fyrir mig sem alltaf hef verið í hringiðunni þar sem verkefnin eru oftast bráð og áríðandi. Sem hjúkrunardeildarstjóri var mitt starf í framlínunni, ég sá um daglega starfsemi og vann náið með öðrum stjórnendum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, nemum og öðrum starfsmönnum. Áhersla hjúkrunar-
„Hjartadeildin er að mínu mati eitt af flaggskipum spítalans enda stærsta legudeildin og eina sérhæfða hjartadeild landsins.“
deildarstjóra er að veita starfsfólkinu stuðning, vera til staðar og bregðast hratt við daglegum áskorunum. Í mínu starfi sem forstöðuhjúkrunarfræðingur snýst verkefnið meira um stóru myndina; stefnumótun, gæðamál, umbætur og faglega þróun hjúkrunar fyrir alla hjarta- og augnþjónustuna. Ég vinn náið með stjórnendum eininganna, framkvæmdastjóra sviðsins og öðrum forstöðuhjúkrunarfræðingum. Mér er umhugað um að leiða hjúkrunarþjónustuna í samræmi við stefnu Landspítala og gagnreynda þekkingu. Ég legg áherslu á að við byggjum upp öflugt teymi framlínustjórnenda og að auka samráð til að samræma verklag þvert á klínísk svið. Gæði þjónustunnar eru ávallt í fyrirrúmi og að sjúklingar fái örugga og góða þjónustu – við erum hér fyrir þá. Styðja þarf við starfsþróun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og hvetja þá til að sækja sér frekara nám. Mér finnst skipta svo miklu máli að skapa umhverfi þar sem starfsfólk fær tækifæri til að vaxa í starfi.
Hvað er það mikilvægasta sem hefur áunnist á þessum árum sem þú hefur starfað og hverju ertu stoltust af?
Síðustu 25 ár hafa orðið miklar framfarir í meðferð hjarta- og augnsjúklinga. Við sjáum flóknari inngrip, betri lyf og háþróuð tæki sem hafa breytt horfum sjúklinga. Sjúklingahópurinn hefur breyst og fólk lifir lengur með langvinna sjúkdóma. Hjúkrunarfræðingar gegna sífellt stærra og sérhæfðara hlutverki og leiða til dæmis göngudeildirnar sem er vaxandi starfsemi. Ég er stolt af því að hafa tekið þátt í þessari þróun og byggt upp sterka liðsheild þar sem er mikill eldmóður og góður starfsandi. Ég hef fengið að vaxa með þróuninni og lagt mitt af mörkum til að tryggja gæðahjúkrun og öryggi sjúklinga.
„Við viljum helst verja mestum tíma í umönnun frekar en pappírsvinnu.“
Hvaða eiginleika þarf góður leiðtogi í hjúkrun að hafa?
Góður leiðtogi þarf skýra sýn og getu til að leiða hana áfram. Hlutverk hans snýst um að styðja faglega þróun starfsfólks, tryggja öryggi sjúklinga og greiða götu fólks með tengslamyndun og áhrifum. Ég lít á mig sem þjón sem skapar skilyrði fyrir starfsfólk til að sinna starfi sínu af fagmennsku og alúð. Það krefst þess að leiðtogi þarf að vera sýnilegur og til staðar, hlusta á starfsfólk og skapa opið upplýsingaflæði þar sem allir leggja sitt af mörkum. Leiðtogi þarf að sama skapi að vera þolinmóður og skynsamur í ákvarðanatöku og styrkja liðsheildina, þú nærð ekki langt nema að hafa liðið með þér.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í þínu starfi?
Stærsta áskorunin fyrir mig var að skipta um starfsvettvang; að fara úr því að vera í hringiðunni þar sem allt gerist hratt og verkefnin eru bráð, yfir í stjórnunarstarf þar sem ég þarf að horfa til lengri tíma og vinna að stóru myndinni. Þetta krafðist mikillar hugarfarsbreytingar.
Önnur stór áskorun er að samræma verklag þvert á klínísk svið og byggja upp öflugt teymi framlínustjórnenda. Þar þarf að efla samráð og tryggja gott upplýsingaflæði milli allra. Fjárhagsleg ábyrgð og áætlanagerð eru líka krefjandi þættir sem fylgja stöðunni; að ná jafnvægi milli gæða þjónustu og fjárhagslegs ramma.
Að tryggja stöðuga faglega þróun og bjóða starfsfólki tækifæri til að vaxa í starfi á sama tíma og við þurfum að halda uppi góðri daglegri þjónustu er líka áskorun. Þrátt fyrir þessar áskoranir finnst mér mjög gefandi að geta haft áhrif á stefnumótun og gæðamál og vinna að því að sjúklingar fái bestu mögulegu þjónustu.
Hver eru þín bjargráð í stjórnunarstarfi?
Í mínu starfi hef ég þróað nokkur lykilbjargráð sem hafa reynst mér vel. Fyrst og fremst reyni ég að einfalda ferla og halda fókus á aðalmarkmiðið sem er betri þjónusta við sjúklinga. Ég forðast að láta pappírsvinnuna taka yfir og einbeiti mér að því sem raunverulega skiptir máli. Ég legg mikla áherslu á að vera sýnileg og til staðar fyrir starfsfólkið til að byggja upp traust og tengsl.
Sterkt samstarf við aðra stjórnendur og þverfagleg samvinna eru lykilatriði og eins finnst mér mikilvægt að byggja upp öflugt teymi með góðu upplýsingaflæði þar sem allir geta lagt sitt af mörkum. Ég nýti tækni og stafrænar lausnir til að létta álag og bæta þjónustuna og legg áherslu á að hlusta á starfsfólkið og auka samráð.
Ertu meðvituð um að efla leiðtogahæfileika þína til þess að verða betri yfirmaður?
Já, ég vinn mjög markvisst að því og tel það nauðsynlegt í þessu starfi. Leiðtogahlutverkið snýst um tengslamyndun, notkun breytingalíkana og nýsköpun. Ég legg áherslu á að hlusta á starfsfólkið, vera tilbúin að taka ákvarðanir og stýra nauðsynlegum breytingum en um leið að rækta liðsheildina og traustið í teyminu.
Þegar ég fór úr hjúkrunardeildarstjórastarfinu í núverandi starf krafðist það, eins og ég hef áður komið inn á, hugarfarsbreytinga hjá mér en þessi umbreyting hefur kennt mér mikilvægi þess að þróa stöðugt nýja hæfileika. Góð liðsheild byggist á gagnkvæmu trausti og virðingu og þegar starfsmenn fá að blómstra í starfi náum við bestum árangri fyrir sjúklingana og það er þessi árangur sem hvetur mig til að halda áfram að læra og þróast sem leiðtogi. Í grunninn snýst þetta um að vera þjónn sem skapar skilyrði fyrir starfsfólk til að sinna starfi sínu af fagmennsku og alúð.
Hvernig sérðu að hjúkrun hér á landi muni þróast næstu 10 árin?
Hjúkrunarstarfið mun halda áfram að þróast hratt og ég sé spennandi möguleika fram undan. Við munum sjá enn meiri tækni innleidda í daglegu starfi – stafrænar lausnir og jafnvel gervigreind sem styður ákvarðanatöku og eykur öryggi sjúklinga. Hjúkrunarfræðingar verða sífellt sérhæfðari og taka stærra hlutverk í meðferð, endurhæfingu og forvörnum. Tæknin mun létta álag og auka faglegt svigrúm. Þverfagleg samvinna verður að sama skapi enn mikilvægari með áherslu á heildræna nálgun. Á sama tíma þurfum við án efa að takast á við mönnunarvandann sem er stöðug áskorun. Út frá reynslu minni af hjartadeildinni, þar sem við höfum aldrei þurft að glíma við manneklu, sé ég að árangur næst þegar áhersla er lögð á faglega starfsþróun, að valdefla starfsmenn og skapa liðsheild.
Ég tel að fjarheilbrigðisþjónusta muni aukast en með henni getum við veitt samfellda, einstaklingsmiðaða þjónustu og fylgst með sjúklingum heima og eftir útskrift. Hins vegar mun mannlegi þátturinn ávallt skipta sköpum – nærveru, umhyggju og klíníska innsæinu verður aldrei hægt að skipta út fyrir tæknilausnir.
Hvernig leysum við mönnunarvandann að þínu mati?
Mönnunarmál eru eitt af stóru úrlausnarefnunum. Mikil samkeppni er um sérhæfða hjúkrunarfræðinga og þegar vantar fólk leggst aukið álag á þá sem fyrir eru. Lykilatriðið er að skapa vinnuumhverfi þar sem starfsfólk finnur að það sé metið að verðleikum. Umhverfið þarf að vera hvetjandi og styðjandi og að skapa umhverfi þar sem starfsfólk fær tækifæri til að vaxa í starfi og þróast faglega. Horfa þarf til tæknilausna til að létta álagið og svo þarf auðvitað að endurskoða verklag reglulega til að nýta mannafla sem best. Mikilvægt er að einfalda ferla þar sem mögulegt er og forðast að láta óþarfa pappírsvinnu taka yfir. Landspítali er að mínu mati frábær vinnustaður og þar starfar fólk sem hefur einlægan áhuga á mannlegum samskiptum og vill láta gott af sér leiða. Þetta viðhorf og þessi mikli eldmóður er ómissandi til að laða að og halda í gott starfsfólk.
Draumastarfið ef þú myndir skipta um starfsvettvang?
Ef ég myndi skipta um starfsvettvang þá dreymir mig um að reka lítið krúttlegt sveitahótel einhvers staðar í fallegu umhverfi. Ég hef
Bylgja og Elna Albrectsen, aðstoðardeildarstjóri á hjartadeildinni.
farið í margar yndislegar ferðir um landið með manninum mínum sem er leiðsögumaður og elskar að þvælast um landið þvert og endilangt. Við höfum kynnst mörgum skemmtilegum stöðum og fólki á ferðalögum okkar. Mér finnst hugmyndin um að taka á móti gestum frá öllum heimshornum mjög spennandi, að fá að kynnast nýju fólki, hlusta á sögur þess og stuðla að því að fólk upplifi það besta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki og þetta væri fullkomin leið til að sameina það ást minni á náttúrunni. Ég verð samt að segja að hjúkrun er mín köllun og ég elska starfið mitt en stundum er gaman að láta sig dreyma í allt aðra átt.
Hvernig gengur þér að samræma vinnu og einkalíf?
Það getur reynst erfitt að finna þetta jafnvægi, sérstaklega í krefjandi starfi, en ég geri mitt besta til að skilja vinnuna eftir ég fer heim. Fjölskyldan og vinirnir skipta mig miklu máli og ég forgangsraða tíma með þeim. Eins hef ég fundið góðar leiðir til að hlúa að sjálfri mér og þar má nefna að ég hleyp með vinkonum mínum en við hittumst nokkra morgna í viku og hlaupum hring saman – það gefur mér bæði hreyfingu og frábæran félagsskap. Ég kann vel að slaka á og þá finnst mér gaman að prjóna, lesa góða bók eða verja tíma með fjölskyldu eða vinum. Ég er mikil félagsvera og finnst aldrei of margt fólk í kringum mig og mér finnst sérstaklega gaman að leika við Loga ömmustrákinn minn, það gefur mér mikið.
Auðvitað reynir starfið stundum á jafnvægið en þá reyni ég að gefa sjálfri mér svigrúm og hugsa um grunnþætti eins og nægan svefn og hollt mataræði. Í starfi mínu er mikilvægt að þekkja eigin takmörk og þora að biðja um hjálp eða deila ábyrgð þegar álagið verður of mikið. Ég finn líka mikinn styrk í því að ræða við aðra. Þetta snýst um að finna jafnvægi milli þess að gefa af sér í starfi og þess að hlúa að sjálfri sér – og það þarf að endurnýja reglulega!
Með góðri skipulagningu og hjálp frá frábæru fólki, bæði heima og í vinnu, tekst mér að halda ágætu jafnvægi.
Þarf yfirmaður að eyða miklum tíma í skrifræði og skipulag?
Við viljum helst verja mestum tíma í umönnun frekar en pappírsvinnu. Skrifræðið á þó oft rétt á sér til að tryggja gæði og öryggi –hluti af því stuðlar beinlínis að betri umönnun en það er mikilvægt að það verði ekki of yfirþyrmandi. Það þarf að þjóna skýrum tilgangi og styðja við starfsemina, ekki hindra hana. Í mínu starfi reyni ég að takast á við þetta með því að einfalda ferla og passa að missa ekki sjónar á markmiði mínu sem er betri þjónusta við sjúklinga. Ef skrifræði fer að vinna gegn þessu markmiði þarf að endurskoða viðkomandi ferla og nýta tæknilausnir þar sem við getum.
Hvernig myndir þú vilja bæta hjarta- og augnþjónustu í landinu?
Framtíðarsýn mín er að við getum veitt sjúklingnum framúrskarandi, heildræna þjónustu á heimsmælikvarða. Við erum þegar með mjög öflugt teymi sérfræðilækna og hjúkrunarfræðinga sem vinna þétt saman en ég vil sjá enn frekari samþættingu þjónustunnar – allt frá bráða- og gjörgæsluhjúkrun yfir í endurhæfingu og eftirfylgd eftir útskrift. Þegar nýtt húsnæði Landspítala rís á næstu árum vonumst við til að fá mun betri aðstöðu sem auðveldar okkur að veita nútímalega þjónustu í fremstu röð.
Landspítali er nú að horfa til þess að leggja aukna áherslu á að sinna fólki í fjareftirlit bæði í forvörnum og í þeim tilfellum sem fólk er að glíma við langvinna sjúkdóma, ekki aðeins bráðameðferð. Með aukinni notkun fjarheilbrigðisþjónustu og stafrænum lausnum er hægt að fylgjast með sjúklingum eftir útskrift, styðja þá til
Mynd úr einkasafni.
dæmis í lífsstílsbreytingum og grípa fyrr inn í ef aðstæður versna. Ég tel enn fremur mikilvægt að efla rannsóknir og nýsköpun þannig að við séum stöðugt að þróa betri meðferðir og hjúkrun. Markmiðið er að hver sjúklingar fái samfellda, örugga og einstaklingsmiðaða þjónustu og að starfsfólkið hafi allar forsendur til að vaxa og blómstra í starfi.
Fagleg fyrirmynd?
Ég á margar fyrirmyndir úr leik og starfi. Ég hef alltaf dáðst að sýnilegum leiðtogum sem stíga fram og taka sæti við borðið. Þeir sem njóta trausts og byggja upp liðsheild, eru til staðar og kunna að hlusta. Mínar fyrirmyndir eru oft einstaklingar í framlínu – fólk sem gengur í verkin. Ég ber mikla virðingu fyrir klínískri hvers kyns færni og hrífst af fólki sem tekur sjálft sig ekki of hátíðlega.
Hvaða leiðtogar í samfélaginu finnst þér skara fram úr?
Mér finnst þeir skara fram úr sem byggja störf sín á heiðarleika, skýrri sýn og mannlegum gildum – hvort sem það eru stjórnendur í heilbrigðiskerfinu eða aðrir sem hafa áhrif með hógværð og góðum mannlegum gildum. Nefni sem dæmi biskupinn okkar, Guðrúnu
Karls Helgudóttur, en hún stígur fram af æðruleysi, samkennd og ákveðni – mér finnst hún flott.
Fallegasta land?
Það er án vafa Ísland. Náttúran, fjölbreytnin og endalausir möguleikar til að upplifa nýja hluti og fegurð. Ísland er einstakt og ekkert annað land slær það út.
Ef þú ættir eina ósk?
Fyrir utan hið hefðbundna sem manni dettur fyrst í hug við þessa spurningu, þá væri óskin sú að við öll sem störfum í heilbrigðisþjónustu upplifðum tilgang, virðingu og raunverulegan stuðning. Að störf okkar skipti máli og að við fengjum tækifæri til að vaxa. Þegar við nærum hvert annað, nærum við líka sjúklingana og samfélagið allt – og þannig getum við veitt fyrsta flokks umönnun.
Að lokum, hvað á að gera í sumarfríinu?
Í sumarfríinu ætla ég að ferðast um landið. Að ferðast er mín besta leið til að hlaða batteríin, að komast út í þessa fjölbreyttu náttúru sem við eigum hér á landi.
„ ... leiðtogi þarf að vera sýnilegur og til staðar, hlusta á starfsfólk og skapa opið upplýsingaflæði þar sem allir leggja sitt af mörkum.“
Bylgja
Lena María Árnadóttir – hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku
Fjöldinn á biðstofunni bara toppurinn á ísjakanum
Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Það er mánudagur og það er annar í hvítasunnu sem er frídagur hjá flestum en ekki endilega hjá þeim starfa í heilbrigðisgeiranum. Ég á vakt í dag og vakna við vekjaraklukkuna sem hringir klukkan 7:15. Ég græði nokkrar mínútur í rólegheitum – barnið er hjá föðurfjölskyldunni og þessi morgun því rólegri en vanalega. Líkaminn er samt ekki alveg að vinna með mér, hann er stífur og þreyttur eftir 26 km í Hengilshlaupinu í Hveragerði um helgina. En jæja, á fætur kemst ég með herkjum. Enginn morgunmatur í dag. Græja mig hratt og vel og skutla mér beint í bílinn og stefni á bráðamóttökuna í Fossvogi, minn góða vinnustað síðustu fimm árin. Í raun get ég sagt mitt annað heimili. Aksturinn þangað er orðinn vélrænn og það hefur einu sinni gerst að ég mætti á vakt og var enn með barnið í aftursætinu, hafði gleymt að keyra það í leikskólann.
Ég fyllist alltaf þakklæti og stolti þegar ég mæti til vinnu því þetta er einstakur vinnustaður og fólkið sem þar starfar er ekkert minna en ofurhetjur. Bráðamóttökunni er skipt í fimm svæði: A, B, C, D og triage. Verkefnin mismunandi og maður stillir sig inn í hvert hlutverk eftir því hvar nafnið lendir á töflunni. Skipulagið er ekki sýnilegt fyrr en vaktin hefst, svo það er alltaf smá spenna þegar maður leitar að nafninu sínu í upphafi vaktar. Í dag er ég á triage. Jæja, áfram gakk. Tveir hjúkrunarfræðingar manna biðstofuna á svona frídögum, innflæðið krefst þess og það er nóg að gera. Ég næ mér í fjólubláan Collab-drykk úr sjálfsalanum, hann er ískaldur og ferskur og fyrstu þrír soparnir snilld en svo versnar hann fljótt þegar hann hitnar.
Fólk fer að streyma inn á bráðamóttökuna. Triage er krefjandi og maður þarf að hafa skarpa yfirsýn og öryggi í ákvarðanatöku. Komurnar í dag eru fjölbreyttar; slappleiki, kviðverkir, nýrnasteinar, andleg vanlíðan, máttminnkun, dofi, blóðnasir, þvagteppa, sár á fingri, aðskotahlutur í auga, fráhvörf, líkamsárás, svimi, hjartsláttaróregla og einfaldlega þreyta. Við sinnum öllum – metum eftir alvarleika og ráðleggjum. Sumir fá meðferð hjá okkur, aðrir eru beðnir um að leita annað, þó ekki alltaf viljugir til þess. Alltaf þarf þó að hlusta, horfa og taka faglega ákvörðun með sjúklinginn í forgrunni. Oft snúum við okkur beint til kollega á
öðrum deildum til dæmis bráðadagdeild, kvennadeild eða á heilsugæslu, listinn er langur.
Á bráðamóttökunni vinnum eftir ákveðnu verklagi til að tryggja samfellu í þjónustunni, lífsmörk eru tekin strax, mat á verkjum, hvort þarf að taka blóðprufur, leggja einstakling í rúm eða ekki og mikilvægt er að fylgjast áfram með; virka verkjalyfin sem voru gefin, eru lífsmörk að breytast, þarf að breyta forgangsröðun? Vaktin líður hratt eins og alltaf, biðstofan fyllist, biðin lengist. Fólk spyr aftur og aftur um biðtíma, sem skiljanlega getur verið erfitt að skilja, það sem sést á biðstofunni er bara toppurinn á ísjakanum.
Ég finn að ég er að verða svöng. Oft missum við sem þarna störfum af hefðbundnum hádegismat en þá reddar maður sér oft með ristaðri brauðsneið
með smjöri og osti, eitthvað sem allir starfsmenn Landspítalans kannast við. En í dag náði ég í hádegismat á LSH bistro og þar var fiskur í boði sem verður bara að duga!
Vaktin líður hratt og var bæði krefjandi og fjölbreytt en sem betur fer voru engin alvarleg slys eða andlát. Ég fer alltaf þakklát heim eftir vakt þegar svo ber undir. Erfiðustu málin eru þegar börn eða ungt fólk á í hlut, þau ná inn að beini, ef við getum orðað það þannig, og það tekur tíma og orku í úrvinnslu. Við erum jú öll mannleg og flest okkar sem þarna störfum erum bara fjölskyldufólk eins og flestir sjúklingarnir sem við sinnum.
Á leiðinni heim man ég að ég á eftir að hlusta á síðasta þáttinn af uppáhaldshlaðvarpinu mínu og kveiki á því í bílnum, Á vettvangi eftir Jóhannes Kristjánsson sem var framleitt fyrir Heimildina og
tekið upp á bráðamóttökunni sjálfri. Þetta er magnað stöff og fær mig til að sjá eigin starfsvettvang frá öðru sjónarhorni. Það er gott að kúpla sig úr vinnunni með vinnuna í eyrunum finnst mér. Margir myndu telja það einhvers konar klikkun en það er svona þegar maður vinnur á mögnuðum stað með mögnuðu fólki sem ég fæ aldrei nóg af. Ég get ekki mælt nógu mikið með því að fólk hlusti á þessa góðu og fræðandi þætti, sem okkur á bráðamóttökunni þykir mjög vænt um.
Þreytt en þakklát hjúkka leggst á koddann að kvöldi annars í hvítasunnu; þakklát fyrir hjúkrunarfræðimenntunina, starfið og þennan lífsstíl sem fylgir því að vera hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans.
Wendill Galan Viejo, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild E6
Dýrmætt að tilheyra samfélagi þar sem mennsk gildi, umhyggja,
virðing og jafnræði skiptir máli
Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir og úr einkasafni
Wendill Galan Viejo, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild E6 í Fossvogi, var á síðasta aðalfundi Fíh þann 15. maí kjörinn í stjórn félagsins og á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga 12. maí varði hann meistaraverkefni sitt við Háskóla Íslands með glæsibrag. Það er óhætt að segja að Wendill sé að ryðja brautina því hann er fyrsti erlendi hjúkrunarfræðingurinn sem situr í stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og bara það er fínasta tilefni til viðtals, fyrir utan annað sem hann hefur afrekað.
Wendill, alltaf kallaður Dill, mætti á Suðurlandsbrautina þar sem Fíh er til húsa og við fengum okkur sæti inni á Sigríðarstofu, sem heitir eftir fyrsta formanni félagsins, Sigríði Eiríksdóttur. Þar inni er sérlega notalegt að sitja og spjalla, klukkan er að ganga fjögur og of seint að fá sér koffín, við látum vatn nægja og fáum okkur hraunbita með. Við vindum okkur beint í spjall og ég spyr Dill hvað honum finnist um þetta nýja hlutverk að sitja í stjórn félagsins. Hann brosir og svarar einlægur og hógvær að sér finnist það vera mikill heiður að sitja í stjórn félagsins en að því fylgi líka mikil ábyrgð. „Ég vil vera málsvari erlendra hjúkrunarfræðinga hér á landi og auka sýnileika þeirra með því að vera góð fyrirmynd. Ég ætla líka að leggja mitt af mörkum til að auka framboð af námskeiðum fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga sem starfa á Íslandi,“ svarar hann og nefnir í því samhengi að gott væri að fá námskeið í leiðtogafærni því margir erlendir hjúkrunarfræðingar séu komnir í stjórnunarstöður.
Wendill segist aðspurður hafa komið til Íslands fyrir tíu árum en hann er fæddur og uppalinn á Filippseyjum: „Ég kom hingað vegna þess að mig langaði að prófa að starfa við hjúkrun í öðru landi og upplifa ný ævintýri. Frænka mín var þá flutt til Íslands og starfaði í heimahjúkrun, hún hvatti mig mikið til að koma hingað því hér vantaði hjúkrunarfræðinga. Svo horfði ég á bíómynd sem heitir The Secret Life of Walter Mitty með Ben Stiller, sem er að hluta tekin upp hér á landi og þá kolféll ég fyrir landslaginu. Myndin var tekin upp um sumar og landslagið var svo ólíkt því sem ég hafði áður séð og svo ofsalega fallegt. Ég fór þá að kynna mér landið betur og þegar frænka mín sagði mér að lífsgæði hér á landi væru mun betri en á Filippseyjum ákvað ég að slá til og koma. Ég hugsaði með mér að ég gæti þá alltaf farið til Bretlands ef mér líkaði ekki á Íslandi því ég tala líka reiprennandi ensku. Ég kom hingað árið 2015, þá 24 ára og það fyrsta sem ég tók eftir var að Íslendingar bjóða alltaf góðan daginn og eru þeir flestir mjög vinalegir,“ segir hann brosandi á lýtalausri íslensku. „Ég er fæddur og uppalinn í Cebu á Filippseyjum þar sem búa þrjár milljónir manna og mér leið eins og ég væri að koma í sveit þegar ég kom hingað sem var mjög góð tilbreyting. Hér á landi er miklu meiri ró og næði sem er gott fyrir sálina. Mér líður mjög vel á Íslandi og eftir að hafa búið hér í áratug líður mér eins ég sé orðinn Íslendingur en ég hef ekki
gleymt heimalandinu og fer reglulega til Filippseyja en samt ekki eins oft og mig myndi langa því þetta er sólarhringsferðalag,“ segir hann og hlær.
Hlutfall karla í hjúkrun miklu hærra á Filippseyjum Hér á landi eru um það bil 5% hjúkrunarfræðinga karlar en hvernig er staðan í heimalandi Dill, læra fleiri karlmenn hjúkrun þar en hér? „Já, miklu fleiri, þar eru rúmlega 25% hjúkrunarfræðinga karlar og ég held að hlutfallið fari bara hækkandi.“ Og aðspurður um ástæðuna fyrir þessum mikla mun segir hann að á Filippseyjum sé ekki litið á hjúkrun sem kvennastarf eins og virðist vera raunin hér á landi og að strákum þar finnst því ekkert athugavert við það að velja sér hjúkrun sem framtíðarstarf. „Þegar ég var á lokaári í menntaskóla komu tveir karlkyns hjúkrunarfræðingar inn í bekkinn til þess að kynna námið fyrir okkur. Ég var þarna 17 ára og eftir að hafa hlustað á þá var ég alveg ákveðinn í að læra hjúkrun. Þeirra reynsla og upplifun af starfinu heillaði mig og eins þessi fjölbreytni sem fylgir starfinu en á Filippseyjum geta hjúkrunarfræðingar starfað á sjúkrabílum eða sjúkrahúsum og fara gjarnan til annarra landa til starfa. Þar leika launin stóran þátt og ef ég tek mig sem dæmi þá hef ég það mun betra launalega séð sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi en í heimalandinu. Þar dugðu launin ekki fyrir ferðalögum eða öðrum munaði, bara þessu nauðsynlega. Þannig var staðan að minnsta kosti fyrir tíu árum þegar ég var þar að vinna, þau hafa hækkað síðan vegna þess að það var svo mikill flótti úr stéttinni til annarra landa en launahækkunin kom því miður of seint því svo margir hjúkrunarfræðingar voru farnir,“ útskýrir hann og samtalið fer út í aðra sálma.
Litli bróðir byrjaður að læra hjúkrun við H.A. Dill talar um heimahagana hinum megin á hnettinum og ég spyr hvort hann fái oft heimþrá? „Já, sérstaklega fyrstu árin. Ég á foreldra og tvo bræður og mjög gaman að segja frá því að annar þeirra er fluttur til Íslands og byrjaður í fjarnámi í hjúkrun við H.A. Hann er líka að klára sjúkraliðann en það er bara vegna þess að hann var byrjaður í því námi áður en hann fór í hjúkrun og vildi klára það,“ útskýrir Dill stoltur og bætir við að ekki skorti gáfurnar eða dugnaðinn: „Hann var búinn að klára nám í viðskiptafræði áður en hann flutti hingað fyrir þremur árum og hann talar nánast
„Í
síbreytilegu samfélagi eru erlendir hjúkrunarfræðingar ómetanleg auðlind sem getur mætt vaxandi þörfum nútímaheilbrigðiskerfis.“
reiprennandi íslensku. Við búum saman og erum mjög nánir bræður en það hefur verið erfitt fyrir foreldra mína að missa okkur báða til Íslands. Ég verð líka að nefna að ég sakna líka mikið matarhefðanna á Filippseyjum og hráefnisins. Ég elska að borða og ef það er veisla á Filippseyjum þá er yfirfullt veisluborð af kræsingum. Fyrir mér er eldamennska hálfgerð hugleiðsla, eldamennska er mín ástríða og ég nýt mín í botn í eldhúsinu þar sem ég eyði löngum stundum í að elda góðan mat.“ En hvers vegna elti hann ekki þá ástríðu og fór í kokkanám? Hann hlær innilega og segist hafa nefnt það á sínum tíma en að vinir hans hafi þá sagt við hann að hann væri of klár til að verða kokkur, hann ætti frekar að verða læknir eða hjúkrunarfræðingur. „Ég sá það líka sem kost að ef ég væri heilbrigðismenntaður gæti ég hjálpað fjölskyldumeðlimum mínum ef þeir veiktust. Þótt ég sé ekki lærður kokkur þá elska ég að dunda mér yfir pottunum en ég elda bara filippseyskan mat þrátt fyrir að hafa búið hér í heilan áratug,“ segir hann og hlær dátt, en segist samt vera búinn að aðlagast því að borða líka íslenskan mat og að sér finnst lax og humar mjög góður matur og fiskur almennt.
Heilbrigðiskerfið miklu betra á Íslandi en á Filippseyjum
Oft er sagt glöggt er gests augað, sérð þú kosti við íslenska heilbrigðiskerfið samanborið við heimalandið? „Það er miklu betra heilbrigðiskerfi á Íslandi, hér fá allir sömu þjónustuna, ég
tók strax eftir því og það er mjög jákvætt. Hér þarf fólk ekki að kaupa rándýrar tryggingar til að fá góða heilbrigðisþjónustu. Ég starfaði á gjörgæsludeild á einkasjúkrahúsi á Filippseyjum og þar voru öll tæki og aðbúnaður í sama gæðaflokki og hérlendis en á ríkisspítölum er staðan allt önnur og miklu verri og þjónusta líka lélegri. Fagfólkið sækir síður í að starfa á ríkisspítölunum og margar ástæður liggja þar að baki en ein þeirra er að þar er bara einn hjúkrunarfræðingur á hverja 20–50 skjólstæðinga. Til samanburðar eru sex til átta skjólstæðingar á hvern hjúkrunarfræðing á einkareknu spítölunum og því mikill munur á álagi, fyrir utan aðstæður og aðbúnað.“
Dill ákvað að skella sér í meistaranám og varði meistaraverkefnið sitt þann 12. maí síðastliðinn. Hvað kveikti áhugann á framhaldsnámi? „Hugurinn leitaði alltaf í stjórnunarnám eftir útskrift árið 2012 því það hefur alla tíð blundað í mér að vera leiðtogi. Það má segja að það sé í mínum karakter að sækjast í stjórnunarstörf, ég var til dæmis formaður stúdenta í Cebu Doctorsʹ University, háskólanum sem ég lærði við og það var kannski kveikjan að því að ég hóf meistaranám í hjúkrunarstjórnun við H.Í. 2023,“ segir hann en bætir við að þótt hann sé búinn að verja meistararitgerðina sé hann ekki útskrifaður og stefni á útskrift í febrúar á næsta ári. „Í upphafi sótti ég reyndar um meistaranám í gjörgæsluhjúkrun og háskólinn samþykkti umsóknina en tveimur vikum síðar fékk ég tölvupóst þar sem kom fram að umsókn minni hefði verið hafnað vegna þess að grunnskólaárin mín voru færri sem
Wendill í Vestmannaeyjum og Heimaklettur í bakgrunni.
var mjög svekkjandi og skrýtið. Ég er með B.Sc.-gráðu í hjúkrunarfræði og hef fengið hjúkrunarleyfi á Íslandi til að starfa en komst samt ekki í meistaranám. Til að leysa þetta mál setti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands á laggirnar sérstaka námsleið fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga sem hafa lokið hjúkrunarnámi erlendis. Þannig tókum ég og vinkona mín 45 ECTS-einingar í viðbót á grunnnámsstigi til að geta haldið áfram í meistaranámið sem reyndist vera mjög góður undirbúningur. Það var gagnlegt að kynnast íslenska menntakerfinu en á sama tíma var þetta líka mikið álag. Í stað þess að ljúka 90 ECTS-einingum eins og venjulega, þurfum við því að klára 120 ECTS-einingar fyrir meistaranámið. Við tvö erum í raun frumkvöðlar á þessari nýju námsleið og erum að ryðja brautina fyrir aðra hjúkrunarfræðinga sem eru í sömu sporum og við vorum og vilja fara í meistaranám. Eftir á að hyggja má segja að þetta hafi verið blessun í dulargervi og eins klisjukennt og það kann að hljóma þá er það þannig að þegar einar dyr lokast opnast aðrar og ég vona innilega að erlendir hjúkrunarfræðingar fari í framhaldsnám hér á landi ef hugurinn leitar þangað.
,,Við erum í raun frumkvöðlar þessarar námsleiðar og ruddum brautina fyrir hina. Að mínu mati var þetta blessun í dulargervi …“
Dill skoðaði í meistaraverkefni sínu reynslu erlenda hjúkrunarfræðinga sem koma til Íslands að starfa og rannsókn hans heitir: Samspil einstaklings og kerfis – Reynsla erlendra hjúkrunarfræðinga á íslensku háskólasjúkrahúsi: Eigindleg rýnihóparannsókn. Segðu mér aðeins nánar frá þessari rannsókn og hvers vegna þú valdir að skoða þetta sérstaklega?
„Hingað til hefur aðlögun erlendra hjúkrunarfræðinga sem starfa í íslenska heilbrigðiskerfinu ekki verið mikið rannsökuð og það vakti áhuga minn á að skoða það nánar auk þess snertir þetta efni mig persónulega, þar sem ég hef sjálfur gengið í gegnum þetta ferli aðlögunar og samþættingar í íslenska heilbrigðiskerfinu. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á reynslu erlendra hjúkrunarfræðinga sem starfa á háskólasjúkrahúsi Íslands og að greina þá lykilþætti sem stuðla að árangursríkri aðlögun þeirra að vinnuumhverfinu. Með því að framkvæma eigindlega rannsókn með rýnihópaviðtölum gafst erlendum hjúkrunarfræðingum tækifæri til að deila hugmyndum sínum, skoðunum, viðhorfum og reynslu. Jafnframt veitti það þátttakendum vettvang til að skiptast á skoðunum um hvernig bæta megi þjónustu við erlenda hjúkrunarfræðinga sem starfa í íslenska heilbrigðiskerfinu. Þrjátíu erlendir hjúkrunarfræðingar tóku þátt í rannsókninni og voru gögnin greind með tveggja þrepa aðferð; innihaldsgreiningu og svo túlkunargreiningu (interpretive description) til að gefa betri innsýn.“
Hjúkrunarfræðingar í leit að betri vinnuaðstæðum og lífsgæðum
Hann segir flæði hjúkrunarfræðinga milli landa vera áberandi í nútímaheilbrigðisþjónustu. „Á síðustu þremur árum hefur fjöldi erlendra hjúkrunarfræðinga sem starfar hér á landi aukist úr 6% í 11% af starfandi hjúkrunarfræðingum. Hjúkrunarfræðingar flytja oft frá löndum með lægri tekjur til ríkari landa í leit að auknum starfs- og menntunartækifærum, betri vinnuaðstæðum og lífsgæðum. Innflytjendur, og fólk erlendis frá, sem eru í hjúkrun
leggja til mikilvæga þekkingu, fjölbreytta sýn og klíníska færni sem eflir heilbrigðisþjónustu viðtökulandsins. Samhliða mæta þeir þó ýmsum áskorunum í nýju umhverfi. Aðlögun erlendra hjúkrunarfræðinga að íslensku heilbrigðiskerfi felur í sér flókið og síbreytilegt ferli sem krefst tíma, úrræða og stuðnings. Helstu áskoranir sem mæta þeim í þessu ferli eru tungumálatengd vandamál, takmarkaður stuðningur og faglegar hindranir. Cross-Cultural Adjustment- líkan var notað til að skilja þær flóknu áskoranir sem erlendir hjúkrunarfræðingar standa frammi fyrir.
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þátttakendur kunnu flestir að meta samvinnumenningu sem þeir upplifðu hér á landi en þeir stóðu frammi fyrir tungumálaerfiðleikum og sumir töluðu um útilokun sem ógnaði aðlögun þeirra. Margir fundu fyrir þrýstingi að sanna sig stöðugt og höfðu upplifað hunsun og höfnun. Þátttakendur töluðu um miklar áskoranir í samskiptum, forystu og námi, sérstaklega þegar kom að símtölum. Nokkrir lýstu tilvikum þar sem aðgengi að tækifærum reyndist ójafnt en margir upplifðu faglega endurnýjun í starfsumhverfi sem einkenndist af flatara skipuriti og hóflegra, mannúðlegra vinnuálagi. Margir töluðu um íslenska veðurfarið og að það hafi verið krefjandi að aðlagast framandi veðurfari Íslands, sem þeir höfðu vanmetið fyrir flutning.
Í viðtölum mínum kom ítrekað fram að skortur væri á skipulagðri og markvissri móttöku fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga. Einn þátttakandi lýsti upplifun sinni með áhrifaríkri myndlíkingu þegar hann sagði: „Það er bókstaflega ekkert skipulag þegar kemur að því að taka á móti nýliðum. Þú ert í raun bara að synda úti á opnu hafi. Ef þú drukknar, þá drukknarðu. Og kannski, ef þú ert heppinn, veiða þau lík þitt upp.“ Þetta fannst mér mjög sláandi. Þátttakendur töluðu líka um að vera settir í verkefni sem þeir höfðu ekki reynslu af án nægilegs undirbúnings eða stuðnings, sem varpar ljósi á skort á formlegri aðlögun og hafði í sumum tilvikum í för með sér alvarlegan misskilning í umönnun sjúklinga,“ segir Dill alvarlegur í bragði og bætir við að nauðsynlegt sé að auka meðvitund um ýmis atriði sem þyki kannski augljós og einföld í daglegu starfi hjúkrunarfræðinga en geti reynst óljóst og krefjandi fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga.
Fjölbreytileikinn þarf að vera viðurkenndur sem styrkleiki
Dill segir að margt jákvætt hafi líka komið í ljós í viðtölum sínum við hjúkrunarfræðingana, meðal annars að þeim líkaði flestum vel að búa og starfa á Íslandi. „Við verðum að styðja við faglega og félagslega aðlögun þeirra á skilvirkan hátt ef við viljum halda í erlenda hjúkrunarfræðinga sem hingað koma. Það skiptir sköpum að heilbrigðisstofnanir viðurkenni og nýti þá sérstöku hæfni og fjölbreyttu sjónarhorn sem þessir hjúkrunarfræðingar búa yfir. Fjölbreytileikinn þarf að vera viðurkenndur sem styrkleiki. Í síbreytilegu samfélagi eru erlendir hjúkrunarfræðingar ómetanleg auðlind sem getur mætt vaxandi þörfum nútímaheilbrigðiskerfis. Fjárfesting í erlendum hjúkrunarfræðingum er lykilforsenda. Með markvissri tungumálaþjálfun, góðri aðlögun og skýrum tækifærum til starfsþróunar er þeim skapað rými til að vaxa í starfi, aðlagast með öryggi og leggja af mörkum til öflugs heilbrigðiskerfis.
Aðspurður segist Dill tengja við margar af þeim áskorunum sem viðmælendur hans töluðu um eins og veðrið og skammdegið: „Þetta mikla skammdegi og myrkur á veturna er mörgum erfitt. Þegar ég flutti hingað vissi ég ekki að D-vítamín hefði áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu og enginn sagði mér að ég þyrfti að taka D-vítamín.
Ég kem frá landi þar sem oftast eru 25-35 gráður allt árið um kring og þetta kalda veðurfar hér var áskorun fyrir mig en ég finn að líkaminn minn hefur aðlagast íslensku veðurfari því þegar ég fer heim er ég að kafna út hita sem er magnað,“ segir hann og hlær innilega.
Það kemur fram í rannsókn þinni að sumir höfðu upplifað rasisma á Íslandi, kom það á óvart? „Já, að einhverju leyti kom það mér á óvart, sérstaklega í ljósi þess að Ísland er oft talið samfélag sem leggur mikla áherslu á jafnrétti og mannréttindi. Hins vegar sýna niðurstöðurnar að fordómar og mismunun geta birst á ýmsa vegu, stundum opinskátt en oft eru þetta duldir eða óbeinir fordómar í formi útilokunar eða skorts á tækifærum. Þessi reynsla dregur fram mikilvægi þess að ræða menningarlega næmni og virðingu fyrir fjölbreytileika innan heilbrigðisgeirans og að stuðla að vinnuumhverfi þar sem öll upplifa virðingu, sanngirni og réttlæti. Þátttakendur bentu á að hér á landi skorti stundum virðingu fyrir menningu annarra. Í ljósi þess að fjöldi hælisleitenda og innflytjenda hefur flust til Íslands á undanförnum árum, skiptir máli að mæta þeim með umhyggju, virðingu og nærgætni. Erlendir hjúkrunarfræðingar gegna lykilhlutverki í þessu samhengi, enda eru þeir ómetanleg auðlind, ekki aðeins vegna þekkingar sinnar og reynslu, heldur einnig vegna þess að þeir geta oft betur sett
sig í spor sjúklinga af ólíkum menningarheimum og jafnvel átt auðveldara með að skilja tungumál þeirra.“
Hver eru næstu skref með þetta verkefni, ætlar þú að nýta þér niðurstöðurnar á einhvern hátt? „Það er mér sannur heiður að fá tækifæri til að kynna rannsóknarverkefnið mitt á Novo-ráðstefnunni 2025 og á International Council of Nurses-ráðstefnunni í Helsinki. Ég mun jafnframt kynna niðurstöður rannsóknarinnar á Hjúkrun 2025 ráðstefnunni á Akureyri í haust,“ segir Dill stoltur og nefnir að þær Dr. Marianne Klinke og Dr. Helga Bragadóttir, sem voru leiðbeinendur hans hafi veitt sér ómetanlegan stuðning, hvatningu og faglega leiðsögn í gegnum allt ferlið. „Það var mikil gæfa að hafa haft þær báðar með mér í þessu mikilvæga verkefni.“
Dill var nýlega ráðinn verkefnastjóri við menntadeild Landspítala og tekur þátt í vinnuhópi sem endurskoðar verklag í ráðningu, aðlögun og starfsþróun erlendra hjúkrunarfræðinga. Niðurstöðurnar munu nýtast sem leiðarljós í þeirri vinnu. Hann segist líka ætla að nýta sér niðurstöður rannsóknarinnar til að stuðla að markvissari þjónustu og öflugri stuðningi við erlenda hjúkrunarfræðinga hér á landi. „Félagið hefur jafnframt hvatt stjórnvöld til að gera kröfu um íslenskukunnáttu hjá hjúkrunarfræðingum af erlendum uppruna sem skilyrði fyrir
Wendill í vinnunni.
Á ráðstefnu.
starfsleyfi, og var ályktun þess efnis samþykkt á aðalfundi félagsins. Einnig er lögð áhersla á að móta skýra stefnu um ráðningu erlendra hjúkrunarfræðinga, í takt við leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN),“ segir hann ánægður með að vera kominn í stjórn Fíh.
En hvað finnst honum best við að búa á Íslandi og starfa við hjúkrun? „Að mínu mati er það besta hversu öruggt og rólegt samfélagið hérna er. Hér hef ég fundið jafnvægi milli vinnu og einkalífs, sem hefur haft jákvæð áhrif á heilsu mína og vellíðan. Náttúran er stórbrotin og alltaf innan seilingar, hvort sem það er í göngutúrum, sundferðum eða einfaldlega í friðsælu umhverfi til að slaka á eftir vakt. Í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur finn ég fyrir miklu trausti og sjálfstæði. Ég tek þátt í ákvarðanatöku um umönnun sjúklinga og get lagt mitt af mörkum á faglegan hátt. Samskiptin við sjúklinga og samstarfsfólk eru oft mjög persónuleg og einlæg og það veitir mér mikla ánægju að vita að
ég geri gagn á hverjum degi. Sem erlendur hjúkrunarfræðingur voru fyrstu mánuðirnir áskorun, sérstaklega tungumálið og aðlögunin að íslensku vinnumenningunni. En með stuðningi frá vinnustaðnum og samstarfsfólki fann ég fljótt öryggi. Ég hef lært mikið og þroskast bæði faglega og persónulega. Í upphafi sagði ég við sjálfan mig að lykillinn að því að ná árangri og vaxa í starfi sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi væri að læra íslensku. Núna starfa ég sem túlkur hjá Alþjóðasetri Íslands og tek virkan þátt í starfi jafnréttisnefndar Landspítala,“ segir hann á lýtalausri íslensku og eftir smá umhugsun bætir hann við: „Það sem stendur upp úr er þessi tilfinning að tilheyra samfélagi þar sem mennsk gildi, umhyggja, virðing og jafnræði skipta máli, bæði innan og utan vinnustaðarins. Það gerir það að verkum að ég get ekki aðeins unnið mínu fagi af heilindum, heldur líka átt gott og innihaldsríkt líf hér á Íslandi.“ Og við látum það vera lokaorðin og kveðjumst með handabandi eftir áhugavert og innihaldsríkt spjall.
„Hér á landi er miklu meiri ró og næði sem er gott fyrir sálina. Mér líður mjög vel á Íslandi og eftir að hafa búið hér í áratug líður mér eins ég sé orðinn Íslendingur ...“
Wendill og fjölskylda hans.
Viktor Andersen – hjúkrunarfræðingur á deild 12G
Draumavakt að hafa einn sjúkling á hverju sérsviði
Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Ég er í 100% starfi á 12G sem er hjarta-, lungnaog augnskurðdeild og legudeild nýrnasjúklinga og þar sem mér finnst fátt betra en að sofa út á morgnana er ég í 50% næturvaktastarfi og tek eins fáar morgunvaktir og ég get. Fegurðin við starfið á 12G er hvað deildin er fjölbreytt vegna allra sérsviða hennar og hvað þar er einstaklega góður starfsandi.
Þennan dag er ég á kvöldvakt, vakna klukkan 13:30 og fer að græja mig fyrir vaktina. Karlaklefinn á Landspítalanum við Hringbraut er undir barnadeildinni og ég mæti því aðeins fyrr en venjulega því það tekur mig alveg fimm mínútur að ganga þaðan á mína deild.
Ég mæti rúmlega þrjú og á leiðinni inn á vaktherbergi kem ég við á kaffistofunni og fæ mér kaffibolla til að hafa á meðan ég kynni mér sjúklingahópinn og fer yfir rapportið. Ég fæ munnlegt rapport frá vaktstjóra morgunvaktarinnar um stöðu deildarinnar og hve mörg legupláss eru laus hjá okkur. Í upphafi þessarar kvöldvaktar höfum við tvö laus gangapláss. Ég fer svo að lesa mér til um sjúklinga mína áður en ég heilsa upp á þá en yfirleitt er ég með fjóra til fimm sjúklinga á minni ábyrgð á hverri vakt. Að þessu sinni er ég með fjóra: Einn post-op CABG; einn post-op VATS, einn með lokastigs nýrnabilun og í kviðskilun og einn post-op vitrectomy. Þar að auki er ég vaktstjóri þessa vaktina.
Vaktirnar eru mjög misjafnar eftir dögum, það var nóg að gera þessa kvöldvakt og mörg og fjölbreytt verkefni en mínir sjúklingar á þessari vakt heyrðu hver undir sinni sérgrein. Það er einmitt draumavakt að mínu mati þegar ég er með einn sjúkling á hverju sérsviði.
Sá fyrsti sem ég kíki á er nýkominn af gjörgæslu eftir kransæðahjáveituaðgerð (e. coronary artery bypass surgery ) og ber sig nokkuð vel. Ég fer yfir íhluti hjá honum sem eru brjóstholsdren; utanáliggjandi gangráðsvírar; miðlægur bláæðaleggur og þvagleggur. Ég upplýsi viðkomandi um að drenin verði fljótlega tekin eftir að sérfræðingur var búinn að gefa grænt ljós á að það mætti fjarlægja þau.
Næsti sjúklingur fór deginum áður í brjóstholssjáraðgerð á lunga eða VATS (e. video-assisted thoraco-
scopic surgery) og er enn með brjóstholsdrenið út af loftleka. Hann er með rafmagnsdren sem er með stillanlegt sog sem þarf ekki að tengja í vegg og hefur því mun meira svigrúm til að hreyfa sig en hjartasjúklingar sem fá Atrium-dren. Ég skoða skjá rafmagnsdrensins og hversu mikill loftleki hefur verið á síðustu klukkustundum og hversu mikill vessi er í safnkassa drensins.
Þriðji sjúklingurinn var í glerhlaupsaðgerð (e. vitrectomy) fyrir tveimur dögum og er með hækkaðan augnþrýsting eftir aðgerðina. Viðkomandi fær dreypingu í aðgerðarauga reglulega yfir daginn og vel er fylgst með verkjum hjá honum.
Fjórði og síðasti sjúklingurinn er með langvinna nýrnabilun og með lífhimnubólgu sem getur komið fyrir hjá einstaklingum í kviðskilun. Viðkomandi fær aðstoð við kviðskilunina sjálfa og sýklalyf í kviðskilunarvökva. Einnig þarf að taka reglulega sýni í frumutalningu úr kviðskilunarvökvanum.
Innlagnastjóri heyrir í mér og ég upplýsi hann um legustöðu deildarinnar og hann verður svo í sambandi við mig hvað bráðainnlagnir varðar.
Næst fer ég að undirbúa hjartasjúklinginn undir drenatöku, ég set xylocain-gel þar sem dren liggja og gef smá skammt af morfíni í æð á undan. Það er alltaf betra að það séu tveir hjúkrunarfræðingar þegar þarf að taka hjartadren, þannig að ég fæ einn með mér í það verkefni. Eftir að við fjarlægjum drenin þarf sjúklingurinn að liggja fyrir næsta hálftímann, hann er tengdur sírita til að fylgjast vel með púlsinum.
Klukkan er orðin fimm og ég geri allt tilbúið fyrir næstu kviðskilun hjá nýrnasjúklingnum, ég þarf að dæla ABX IP í kviðskilunarpoka sem á að renna inn eftir að búið er að tæma kvið. Í leiðinni tek ég sýni í frumutalningu. Vegna þess að viðkomandi er með lífhimnubólgu fær hann verk í kviðinn ef hann stendur lengi tómur, ég passa að vökvinn dælist inn þegar það eru komnir rúmir 2 l af tæmingunni.
Það er komið að heimsóknartíma á deildinni og þá geng ég á milli sjúklinga og spjalla við aðstandendur sem eru oft með spurningar varðandi framhaldið.
Þá er klukkan orðin sex sem þýðir að sjúklingar fá lyf og kvöldmat. Ég ásamt sjúkraliðanum, sem er með mér í teymi, aðstoðum hjartasjúkling fyrir kvöldmatinn og þegar hann hefur borðað fáum við hann til að taka smá göngutúr. Við settum súrefnismettunarmæli á hann áður því hjartaskurðsjúklingar eiga það stundum til að falla í mettun þegar þeir fara á hreyfingu. Hann gengur með súrefniskút og gerir öndunaræfingar áður en við aðstoðum hann við að fara aftur upp í rúm þar sem passa þarf að hafa 90 gráðu halla undir höfði, annars rífur í bringuskurðinn.
Við fáum svo lungnasjúklinginn til að koma á göngu en það er ekki bara svo sjúklingur fái hreyfingu heldur líka til að sjá hvort loftleki verði meiri og hvort meiri vessi komi í safnkassann.
Þá heyrir innlagnastjóri heyrir í mér og þarf að fá að leggja inn tvo sjúklinga í lánspláss á 12G, á ganginn af bráðamóttökunni. Annar þeirra er á vegum sérsviðs meltingar og hinn á vegum kviðarholsskurðteymis. Innlagnarástæður eru kviðverkir og botnlangabólga. Deildin sem ég starfa á er aðallánadeild Hringbrautarinnar og við náum nú oftast að redda því þegar það vantar legupláss. Þar sem ég er vaktstjóri er það í mínum verkahring að úthluta þessum sjúklingum til annarra hjúkrunarfræðinga á
vaktinni, við hinkrum eftir rapporti frá bráðamóttökunni áður en þeir verða sendir yfir til okkar.
Það er komið kvöld og sumir inniliggjandi sjúklingar þurfa að fá verkjastillingu. Ég fer því næst yfir umbúðir hjá skurðsjúklingum og skipti um umbúðir hjá hjartasjúklingi yfir utanliggjandi gangráðsvírunum og set þar lítinn Opsite post-op-plástur. Það á alltaf að gera daglega og þrífa með saltvatni.
Áður en ég fer í að taka til lyfin sem eru gefin klukkan tíu förum við með hjartasjúklinginn í svolitla göngu og eftir þá göngu hrekkur hann í hratt gáttatif. Ég heyri þá í vakthafandi lækni á skurðsviði sem gefur í kjölfarið fyrirmæli um Cordarone-innspýtingsdreypi.
Áður en vaktinni lýkur mæli ég augnþrýsting hjá augnsjúklingnum og heyri í kjölfarið í vakthafandi deildarlækni á augnsviði sem ráðleggur að gefa Mannitol-dreypi.
Fyrir vaktaskipti geri ég upp vaktina og set í framvindunótur. Ég fer yfir sírita hjartasjúklingsins og geri upp rafmagnsdren lungnasjúklingsins. Ég geng út af deildinni sáttur eftir kvöldvaktina því verkefnin púsluðust vel saman miðað við fjölda þeirra. Annasöm en góð vakt og ég held heim á leið.
Ásta Hannesdóttir er elsti núlifandi hjúkrunarfræðingurinn
Hóf hjúkrunarnám lýðveldisárið 1944
Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir og úr einkasafni
Ásta Hannesdóttir er elsti núlifandi hjúkrunarfræðingur á Íslandi en hún varð 101 árs þann 7. maí síðastliðinn. Ásta býr ein í huggulegri íbúð á Garðatorgi þar sem blómin hennar fá að njóta sín innan um falleg listaverk og lífsglaða húsfreyju. Ásta var gift Karli Guðmundssyni verkfræðingi sem lést árið 2014 og eignuðust þau hjónin eina dóttur, Hólmfríði árið 1963, auk þess átti Karl eina dóttur fyrir. Ásta segist vera rík kona, hún á nokkur barnabörn og enn fleiri barnabarnabörn og er dugleg að hitta afkomendur sína.
Ritstýran heyrði í Ástu og fékk að kíkja til hennar í kaffispjall um námsárin og störf hennar sem hjúkrunarfræðingur fyrr á tímum en Ásta hóf hjúkrunarnám sama ár og Ísland fékk sjálfstæði árið 1944 og upplifði því sögulega tíma. Berklafaraldurinn reið yfir heimsbyggðina og ekki var búið að finna upp lyf við fjölmörgum sjúkdómum sem í dag eru til lyf við. Tæknin sem og tíðarandinn hefur breyst mikið síðan Ásta útskrifaðist úr hjúkrun og hélt út í heim.
Fyrst verðum við að spyrja hver galdurinn sé, hvernig kona fari að því að lifa í meira en heila öld og bera aldurinn svona vel. „Ætli það sé ekki bara að vera kát og glöð, ekki get ég þakkað genunum fyrir langlífið en ég hef haft það gott í gegnum tíðina, lifað góðu lífi og ekki fengið neina alvarlega sjúkdóma. Ég hef verið heppin hvað það varðar en ég er svolítill klaufi og hef stundum verið að detta og brjóta mig en það er bara af því það getur verið svo mikill asi á mér,“ segir hún og hlær innilega. Ásta er einstaklega ern og hress og það var áhugavert að spjalla við hana og fá að heyra um það sem hún upplifði sem hjúkrunarfræðingur. Við tyllum okkur niður í gamalt og sjarmerandi sófasett í betri stofunni og Ásta kemur með fulla skál af konfektmolum og kaffi áður en við hefjum viðtalið og spyrjum hana hvers vegna hún vildi verða hjúkrunarfræðingur? „Ég ólst upp í litlu þorpi norður í landi, á Hvammstanga. Þar var læknishús og lítill spítali var áfastur við húsið þangað sem ég mætti í bólusetningar og slíkt. Svo þegar kom að því að ég fór að huga að því hvað mig langaði að gera í framtíðinni varð mér hugsað til litla spítalans og ég ákvað að tala við hjúkrunarfræðing sem starfaði þar því mig langaði svo að prófa að vinna við hjúkrun. Ég fékk þá vinnu á Hvíta bandinu við að sinna sjúklingum og mér líkaði svo vel að ég ákvað á sækja um nám í hjúkrunarfræði strax um haustið,“ útskýrir hún brosandi en á þessum árum var Kristín Thoroddsen skólastjóri Hjúkrunarskólans.
Á skólabekk í sex vikur
Það var lýðveldisárið 1944 sem Ásta byrjaði í náminu og þá var kennt á Landspítalanum. „Það voru sex nemar teknir inn að hausti og svo aðrir sex að vori. Við byrjuðum á því að fara á sex vikna námskeið, Sigríður Bachmann var kennarinn okkar og hún kenndi okkur á tæki og tól, svo áttum við að læra að baða og fengum dúkkur til að æfa okkur á. Sigríður kenndi okkur að sjálfsögðu einnig að búa vel um rúm og fleira, það farið yfir þetta helsta. Eftir þessar sex vikur á skólabekk var okkur svo réttur fatabunki sem í var kjóll, svunta og blæja og svo áttum við bara að mæta strax næsta morgun inn á deild og byrja að vinna sem nemar,“ útskýrir hún og hlær enda tímarnir breyttir og nemar í hjúkrun sitja talsvert
lengur en sex vikur á skólabekk. „Ég bjó á heimavist á námsárunum og ég og ein önnur vorum í risherbergi á Landspítalanum. Okkur var sagt að hafa ekki áhyggjur því við yrðum vaktar fyrsta morguninn því við áttum að mæta snemma og byrja að vinna. Nema hvað það gleymdist að vekja okkur og við vöknuðum skelfingu lostnar allt of seint og þutum niður á deildirnar en við áttum að vera hvor á sinni deildinni en þá voru alltaf kvennadeild og karladeild. Ég mæti voðalega skömmustuleg, allt of seint á fyrstu vaktina og deildarstjórinn rétti mér þegjandi stóran trébakka með fjórum matarskömmtum sem ég átti að fara með til sjúklinga. Hún var ekki ánægð með mig og þessi fyrsti morgun situr í minningunni. Eins man ég vel eftir því þegar ég missti eitt sinn þunga trébakkann með öllum matarskömmtunum á í gólfið,“ segir hún og hlær og bætir við að það hafi ekki mikil kennsla átt sér stað heldur áttu þær sem voru nemar aðallega að fylgjast með hjúkrunarkonunum að störfum og læra af þeim. „Við mættum snemma til vinnu, stundum átti ég að mæta á vakt klukkan 6, ég upplifði að allt þyrfti að líta svo vel út áður en læknarnir mættu á stofugang sem var eftir morgunmat. Við vorum því oft sveittar að klára morgunverkin áður en þeir kæmu, við vorum að snyrta sjúklingana og þurftum að passa að hafa allt snyrtilegt á stofunum,“ útskýrir hún og fær sér mola.
Þótti spennandi að fara út á land að vinna
Ásta segir að fyrsta námsárið hafi farið í að flakka á milli deilda, þær hafi fylgt hjúkrunarfræðingum eftir og svo fengið tíma með læknum af þessum deildum og námsbækur sem voru á dönsku sem þær áttu að lesa. „Eftir þetta fyrsta ár vorum við allar sendar út á land og þá var ég ásamt annarri send til Ísafjarðar. Ég var þá orðin 21 árs og mér þótti voðalega spennandi að fá að fara á út á land að vinna. Þá var nýr hjúkrunarforstjóri, kona yfir sjúkrahúsinu sem var nýkomin frá Englandi þar sem hún hafði starfað öll stríðsárin og hún var ekki mikið að spá í að kenna okkur nemunum. Við vorum bara látnar vinna á hjúkrunardeild þarna eina önn og lærðum voða lítið, það gerðist tvisvar að við vorum kallaðar inn á skurðdeild þar sem við fengum að fylgjast með og læra. Það var
Þarna fyrir utan Vífilsstaði lágu sjúklingar kappklæddir til að fá ferskt loft. Ásta segir að beddar hafi verið úti fyrir þá veikustu en að þeir sjúklingar sem hafi verið minna veikir hafi gjarnan fengið sér göngutúr um svæðið í kring, þarna hafi verið mikið af ungu fólki og mörg góð kynni átt sér stað.
þegar maður kom inn eftir alvarlegt sjóslys og svo þegar kona kom inn til að fæða, mér fannst það svo spennandi því ég hafði aldrei séð fæðingu þrátt fyrir að eiga fimm yngri systkini,“ segir hún brosandi og bætir við að hún hafi ekki lært mikið þetta hálfa ár sem hún var nemi á Ísafirði: „Það hefði verið hægt að gera betur og kenna okkur meira. Eftir Ísafjörð vorum við sendar á Vífilsstaði sem var berklaspítali, þar vorum við í umönnun sjúklinga og það kom fyrir að ég var eini hjúkrunarfræðingurinn á kvöldvakt. Yfirlæknirinn Helgi Ingvarsson bjó þá í læknisbústaðnum á Vífilsstöðum og hann sagði mér að hringja í sig eins og skot ef ég þyrfti á honum að halda. Svo gerðist það að sjúklingur var farinn að kasta upp blóði
og ég hringdi og hann kom hlaupandi á náttfötunum, Helgi var rosalega góður læknir og bar mikla umhyggju fyrir sjúklingunum sem hann sinnti dag og nótt.“
Þegar Ásta var nemi á Vífilsstöðum voru ekki komin lyf við berklum sem virkuðu, þau komu seinna og þá varð bylting í baráttunni. Hún segir að á þessum tíma hafi mikil áhersla verið lögð á að hafa hreint og gott loft hjá berklasjúkum og gluggar hafi því iðulega verið opnir upp á gátt á Vífilstöðum og sjúklingarnir lágu líka mikið úti undir berum himni. „Fólkið var bara dúðað og sett út í ferska loftið, það var það eina sem hægt var að gera á þessum tíma,“ útskýrir hún þegar hún rifjar upp berklafaraldurinn sem þarna geisaði.
Sérstök upplifun að starfa á geðsjúkrahúsi í Hróarskeldu
Strax eftir útskrift leitaði hugur Ástu út fyrir landsteinana, hana þyrsti í ævintýri. „Mér fannst mest spennandi að komast til útlanda að vinna því ég hafði aldrei farið neitt, hafði ekki einu sinni stigið upp í flugvél og úr varð að ég og ein önnur fórum saman til Danmerkur. Þar fórum við að vinna á geðveikrahæli í Hróarskeldu sem var rosaleg upplifun því ég hafði aldrei unnið á geðdeild. Geðsjúkrahúsið var stórt, þetta voru margar byggingar og við vorum báðar á deild sem var eingöngu fyrir konur og var í stóru húsi, karlarnir voru svo í öðru húsi. Þetta var í mars og það var
ágætlega hlýtt úti og sjúklingarnir voru allir settir út á morgnana og voru hafðir úti í garði allan daginn. Þetta voru mjög veikar konur og ekkert sem beið þeirra nema vistin þarna. Margar þeirra voru bundnar á höndum og aðrar voru með poka svo þær myndu ekki klóra og slíkt því þær þóttu ofbeldisfullar,“ útskýrir hún hugsi og aðspurð hvort það hafi sett mark sitt á hana að hafa starfað á stórum geðspítala í öðru landi svona nýútskrifuð segir hún svo vera: „Þetta var skrýtin upplifun, til dæmis máttu ekki vera nein glerílát og matardiskarnir voru úr þunnu áli og þeir flugu oft um allan garðinn og stundum með matnum á ef fólki líkaði ekki maturinn eða eitthvað annað. Það var lítið um samskipti við sjúklingana því þeir töluðu sama og ekkert og það kom því ekki að sök að ég talaði ekki reiprennandi dönsku. Það var ágætur
,,Þetta voru mjög veikar konur og ekkert sem beið þeirra nema vistin þarna. Margar þeirra voru bundnar á höndum og aðrar voru með poka svo þær myndu ekki klóra og slíkt því þær þóttu ofbeldisfullar.“
lærdómur að fá að kynnast þessum veruleika en það var lítið hægt að gera fyrir sjúklingana nema bara gefa þeim að borða og koma þeim í háttinn og slíkt.
Starfaði á berklaspítala í Noregi og skurðstofu í Svíþjóð
Eftir fimm mánuði á stóra geðsjúkrahúsinu í Hróarskeldu fóru þær Kristín Þorsteinsdóttir, sem útskrifaðist á sama tíma og Ásta og fór með henni til Danmerkur, að vinna á endurhæfingardeild í útjaðri Kaupmannahafnar þar sem þær kynntust endurhæfingarhjúkrun í nokkra mánuði. „Eftir ár í Danmörku ákváðum við að fara næst til Noregs því okkur langaði ekki heim strax. Við hófum störf á berklaspítala í Bergen og þar var skortur á ýmsu eftir stríðsárin því Noregur fór illa út úr þeim tíma. Þarna kynntumst við annarri hjúkrunarkonu frá Íslandi og við fórum svo þrjár saman til Svíþjóðar eftir eitt ár í Bergen. Þá fór ég að vinna á skurðstofu við að undirbúa sjúklinga fyrir aðgerðir og annað slíkt en ég hafði aldrei unnið á þannig deild áður og þótti það góður lærdómur,“ segir hún þegar hún rifjar upp fyrstu árin í starfi sem voru í þremur löndum og ár í hverju landi en hvar þótti henni best að búa, í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð? „Ég kunni best við mig í Danmörku,“ svarar hún án umhugsunar og segir svo að eftir þrjú ár fjarri heimahögunum hafi þær vinkonurnar ákveðið að tíma-
Ásta í stofunni heima í Garðabæ.
bært væri að flytja aftur til Íslands. „Og þá sigldum við heim með Gullfossi því við höfðum aldrei áður ferðast með skipi og urðum að prófa það. Um borð kynntumst við tveimur íslenskum hjúkrunarkonum, önnur var forstöðukona á Vífilsstöðum og hin á Kleppi og þær vildu endilega fá okkur í vinnu. Mig langaði meira að fara á Vífilsstaði en þar var ekkert húspláss laust en það var laust lítið hús fyrir okkur á Kleppi svo það varð úr að við ákváðum að fara þangað í smá tíma og vorum þar í svona fimm mánuði. Þá var okkur boðið að koma að vinna hjá Heilsuverndarstöðinni sem okkur þótti spennandi, ég fór að vinna á berklavarnardeildinni en þá var starfsemin í litlu húsi við hliðina á Alþingishúsinu." Á þessum tíma var verið að byggja Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg. Ásta segir að það hefi verið mikið að gera á deildinni sem hún starfaði. „Flesta daga var móttaka fyrir fólk sem var í eftirliti eftir að hafa verið veikt eða var að koma í skimun því sumir voru einkennalausir og þá var mikilvægt að skima. Á þessum tíma voru sem betur fer komin lyf við berklum en við vorum mikið að skima fyrir sjúkdómnum, til dæmis skólabörn, þá fórum við inn í bekki og settum plástur á börnin og ef það komu litlar bólur undan plástrinum voru það líklega berklar og þá var fylgst vel með þeim börnum, þau gegnumlýst og gefin lyf.“
Fór í framhaldsnám í heilsugæsluhjúkrun
Eftir að hafa starfað í um eitt ár á berklavarnardeildinni langaði Ástu að fara í meira nám. „Það var hægt að fara til Árósa í eins árs framhaldsnám í heilsugæsluhjúkrun sem ég gerði. Ég snéri svo aftur til starfa á Heilsuverndarstöðinni en starfsemin fluttist í nýtt húsnæði við Barónsstíg sem hafði verið sjö ár í byggingu. Húsið var vígt árið 1957 en fyrsta deildin tók til starfa 1953. Ég var þar þangað til ég gifti mig og eignaðist dóttur okkar árið 1963. Þá hætti ég að vinna í nokkur ár, við byggðum okkur hús á Bakkaflöt og þegar Hólmfríður okkar var orðin sjö ára langaði mig að fara að vinna aftur. Vífilsstaðaspítali var í göngufæri við heimilið okkar, ég fékk vinnu þar og það var því örstutt að fara í vinnuna sem var þægilegt,“ útskýrir Ásta brosandi, hún segist hafa verið ánægð á Vífilsstöðum og aðspurð hvað standi upp úr svarar hún einlæg: „Mér þótti bara svo gaman að vinna við hjúkrun og hefði ekki viljað starfa við neitt annað. Ég kynntist mörgu góðu fólki og við sex sem vorum saman í náminu vorum alla tíð góðar vinkonur,“ segir hún brosandi, sátt við ævistarfið og lífið. Við klárum síðustu konfektmolana úr skálinni og förum svo út í góða veðrið þar sem Ásta sýnir mér sumarblómin sín. Hún hlúir augljóslega vel að blómunum því þau dafna vel í litla garðinum hennar. Ég fæ að taka nokkrar myndir af Ástu sem einstaklega sjarmerandi og yndisleg kona og við kveðjumst með faðmlagi. Þetta er eitt af þessum viðtölum sem eiga eftir að sitja í minningunni, einstök saga og hlý nærvera Ástu.
Á útskriftardaginn færði móðir Helgu Sigurðsson
þeim öllum rós sem þær festu á sig fyrir myndatöku. Á myndinni eru Ásta Hannesdóttir, Kristín Þorsteinsdóttir og Helga Sigurðsson í neðri röð. Í efri röð, talið frá vinstri eru Helga Svanlaugsdóttir, Jóna Guðmundsdóttir og Halldóra Bernharðs.
Ásta Hannesdóttir á námsárunum, rétt rúmlega tvítug og rétt að hefja lífið.
Of mikið sumar ?
Flynise – 24 klukkustunda virkni við ofnæmi
Flynise filmuhúðaðar töflur innihalda 5 mg af virka efninu deslóratadíni sem er ofnæmislyf ætlað til meðferðar á einkennum ofnæmiskvefs og ofsakláða. Flynise er ætlað fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri. Kynnið ykkur notkunarleiðbeiningar, varnaðarorð og frábendingar áður en lyfið er notað. Lesið vandlega upplýsingar á umbúðum og fylgiseðli fyrir notkun lyfsins. Leitið til læknis eða lyfjafræðings sé þörf á frekari upplýsingum um áhættu og aukaverkanir. Sjá nánari upplýsingar um lyfið á www.serlyfjaskra.is Markaðsleyfishafi: Teva B.V. Umboðsmaður: Teva Pharma Iceland ehf.
Hundrað ára saga tímaritaútgáfu hjúkrunarfræðinga
Tímarit hjúkrunarfræðinga 100 ára
Texti: Ari Brynjólfsson
Í júní 2025 voru liðin 100 ár frá því fyrsta tölublað Tímarits hjúkrunarfræðinga kom út, hét ritið þá
Tímarit Fjelags íslenskra hjúkrunarkvenna. Tímaritið hefur eðlilega tekið miklum breytingum á heilli öld og vaxið í takt við tímann og tíðarandann en hjúkrunarfræðingar og fagið hafa alla tíð verið rauði þráðurinn í tímaritinu.
Í ritstjórn fyrsta tímaritsins sátu Guðný Jónsdóttir, Sigríður Eiríksdóttir og Kristjana Guðmundsdóttir, að frumkvæði Guðnýjar. Frá upphafi hafa ávallt verið minnst þrír til fjórir hjúkrunarfræðingar í ritstjórn eða ritnefnd tímaritsins. Tilgangurinn með tímaritinu var fyrst og fremst að efla skilning á faginu. „Við eigum að skrifa það allar. Við eigum að leggja það besta af þekkingu okkar og reynslu í það, af trú á málstað okkar og framsóknarhug. Undir því er líf þess komið,“ segir í leiðara fyrsta tölublaðsins sem kom út í júní árið 1925. Og tímaritið lifir vegna þess að hjúkrunarfræðingar eru tilbúnir að leggja til þess efni og miðla þannig þekkingu sinni. „Okkur nægir ekki fjelagsblað. Við þurfum prentað tímarit – við þurfum að standa í lifandi sambandi við þjóðina sem við vinnum hjá, kenna henni, fræða og leiðbeina,“ skrifaði Guðný í desember 1925.
Guðný Jónsdóttir. Sigríður Eiríksdóttir.
Fyrsta tímaritið kom út í júní 1925. Þá var það fjölritað og svo dreift til hjúkrunarfræðinga.
Fjölritað án ljósmynda og íburðar
Tímaritið kom út fjórum sinnum á ári fyrst um sinn og var fjölritað með vélritunarletri án allra ljósmynda eða íburðar. Hjúkrunarfræðingar fengu blaðið sent til sín ókeypis en það var einnig selt í lausasölu um tíma. Engar auglýsingar voru í tímaritinu sökum kreppu í þjóðfélaginu. Efnistök voru allt frá upplýsingum um alþjóðleg samskipti félagsins til fróðleiks sem þýddur var úr erlendum fræðiritum. Tilkynnt var um ráðningar hjúkrunarfræðinga í deildarstjórastöður í blaðinu og einnig mátti finna tilkynningar ef hjúkrunarfræðingar gengu í hjónaband. Öll tölublöðin, hundrað ára saga Tímarits hjúkrunarfræðinga, eru varðveitt á Landsbókasafni Íslands og aðgengileg á Hjúkrun.is og í gegnum vefinn Tímarit.is. Þökk sé góðrar varðveislu á þessum Kristjana Guðmundsdóttir.
dýrmæta sagnaarfi hjúkrunarfræðinga á Íslandi þá má finna ýmsar upplýsingar um hvernig félagið var rekið í árdaga þess og hvað var hjúkrunarfræðingum ofarlega í huga.
Tímaritið var fyrstu árin vélritað og sett upp á borðstofuborðinu heima hjá Sigríði Eiríksdóttur, og æskuheimili Vigdísar Finnbogadóttur sem átti eftir að verða forseti Íslands. Sigríður sem var formaður frá 1924-1960 skrifaði á 40 ára afmæli tímaritsins árið1965 um hvað knúði þær áfram í útgáfu tímarits þrátt fyrir að vera fámenn stétt og þær sjálfar reynslulausar á ritvellinum: „Okkur
Á fyrstu árum tímaritsins mátti reglulega lesa um byggingu fyrsta sumarhúss hjúkrunarfræðinga sem var að lokum reist í Mosfellsdal. Eftir að sumarhúsið, sem taldi 50 fermetra, reis mátti svo reglulega lesa um slælega umgengni þar.
varð fljótlega Ijóst, að varðandi hjúkrunarmál, nám, laun og kjör var hér óplægður akur, sem ógerningur væri að koma í rækt, nema með því að berjast fyrir umbótum bæði í ræðu og riti. Stjórnarog heilbrigðisyfirvöld þyrftu að íhuga kröfur tímans og leiðrétta margvíslegt ranglæti, sem viðgekkst vegna fáfræði og sinnuleysis,“ skrifaði Sigríður. „Vinnutími var óhæfilega langur, smithætta mikil í starfi og þar af leiðandi öryggisleysi. Hjúkrunarnám óskipulagt og einungis stuðzt við þær stúlkur, sem af eigin rammleik höfðu brotizt til útlanda til náms. Auk þess þurfti — og það skipti ekki minnstu máli — að þjappa sjálfri stéttinni saman um kjör sín og stöðu í þjóðfélaginu, en þar skorti hinar ungu hjúkrunarkonur oft skilning og framsýni.“ Nánar má lesa um upphafsár tímaritsins í viðtali við Sigríði frá árinu 1975, á hálfrar aldar afmæli þess.
Hjúkrunarkvennablaðið Árið 1935 tók tímaritið breytingum og varð Hjúkrunarkvennablaðið, var það ákveðið samkvæmt tillögu ritstjórnar þar sem eldra nafnið þótti of langt og tímaritið ávallt kallað Hjúkrunarkvennablaðið í daglegu tali. Í fyrsta tölublaðinu það árið var merki
félagsins fyrst sett á forsíðu tímaritsins og var þar á hverju einasta tölublaði áratugina á eftir. Á þeim tíma mátti finna umræður um byggingu sumarbústaðar sem væri eingöngu ætlaður hjúkrunarfræðingum. Með því að fletta fram í tímann má nánast fylgjast með umræðu um staðarval til fjáröflunar til að byggja sumarbústaðinn, allt þangað til hann var tilbúinn til notkunar í lok árs 1936. Síðla árs 1940 ritaði húsnefndin pistil um slæma umgengni í bústaðnum auk þess sem búið væri að skipta um skrá þar sem allir lyklarnir væru ónýtir. Það leynist ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt í tímaritinu og gaman að glugga í gömul blöð.
Fyrsta tímaritið sem var prentað í prentsmiðju, fyrsta myndin var af fyrsta árgangi Hjúkrunarkvennaskóla Íslands.
Í febrúar 1936 kom út fyrsta tölublaðið sem var prentað í prentsmiðju, þar með var hægt að setja á forsíðuna ljósmynd af fyrsta árgangi Hjúkrunarkvennaskóla Íslands. Þá var kreppan einnig í rénum og auglýsingar tóku að birtast í tímaritinu. Í því tölublaði skrifaði Sigríður Eiríksdóttir formaður. „Fyrir framan mig á borðinu liggur tímaritið okkar frá byrjun, 42 tölublöð. Raddir hafa heyrst um það, að tímaritið, hafi ekki náð tilgangi sínum, hafi fram að þessum tíma ekki verið hinni íslensku hjúkrunarkvennastétt samboðið. Ég skal engan dóm leggja á það mál, en í fámennri stétt, sem til skamms tíma hefur ekki einu sinni getað gert kröfur hliðstæðrar undirstöðumenntunar undir hjúkrunarnámið, er varla að við því að búast, að blað þeirra sé með þeim ritsnilldarblæ, sem einkennir tímarit þau, sem rituð eru af þaulvönum mönnum,“ skrifaði Sigríður. „Hitt býst ég við, að allir þeir er sanngirni unna, muni viðurkenna, að við lestur íslenska tímaritsins í heild, komi í ljós mikill fróðleikur um framþróun íslensku hjúkrunarkvennastéttarinnar, sögu hennar og baráttu undanfarin ár.“
Á þessum tíma var Þorbjörg Árnadóttir hjúkrunarfræðingur mjög virk í að ræða um menntun og gæðamál. Hún hafði lært í Danmörku og Bandaríkjunum og var það henni mikið kappsmál
að störf hjúkrunarfræðinga væru í hæsta gæðaflokki. „Hugsjónir hjúkrunarkvennastéttarinnar hafa að mörgu leyti breyst á síðustu árum,“ skrifaði Þorbjörg árið 1937. „Hjúkrunarkonan sem vakti nótt og dag yfir einum sjúkling og eyðilagði heilsu sína á örfáum árum, er að hverfa úr sögunni. Í stað hennar kemur nútíma hjúkrunarkonan sem á að vera kennari og leiðbeinandi almennings, bæði í því, hvernig verjast megi sjúkdómunum og líka hjálpari, þegar veikindi ber að höndum.“
Tímaritið hefur að geyma ýmsar áhugaverðar upplýsingar úr starfi félagsins, þar á meðal þessa tilkynningu frá 1941 um að Sigríður Eiríksdóttir hugðist segja af sér sem formaður. Við útgáfu næsta tölublaðs hafði henni greinilega snúist hugur en hún átti eftir að gegna embættinu 17 ár til viðbótar.
Stríðsárin
Norrænt- og alþjóðlegt samstarf lá niðri á stríðsárunum. Kom þó fram að send hafi verið samúðarskeyti til landa sem ráðist var á, auk þess sem félagið tók þátt í fjáröflunum. Var ákveðið síðar að styrkja ekki aðrar þjóðir en Norðurlandaþjóðirnar á meðan styrjöldinni stóð. Fjallað var ítarlega um stöðuna í Danmörku þar sem hjúkrunarfræðingum var kennt að nota gasgrímur auk þess sem vaka þurfti þriðju hverju nótt á loftvarnarhjálparstöðvum. Hér á landi voru ellefu hjúkrunarfræðingar í hjálparsveit sjálfboðaliða ef til kæmu loftárásir eða aðrar hernaðaraðgerðir.
Petrína Þorvarðardóttir starfaði sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi í Birmingham öll stríðsárin, hún skrifaði ítarlega grein við stríðslok þar sem hún fór yfir ástandið á meðan því stóð. „Þegar loftárásir fóru að harðna, var alltaf sofið niðri í loftvarnarbyrgjum.
Okkur voru gefnar 10 mínútur frá því að merkin voru gefin, til þess að vera komnar niður í byrgin með rúmfatnað og klæddar vinnufötum og með gasgrímur við höndina, ef illa færi,“ skrifaði Petrína. „Það var óskemmtilegt að heyra nótt eftir nótt tugi flugvéla sveima uppi yfir og kasta sprengjum allt í kring. Marga nóttina unnum við við birtuna af eldunum allt í kringum okkur, því að gluggarnir brotnuðu og ljósin biluðu.“ Lýsti hún flestum sjúklingunum sem rólegum og sagði starfsfólkið samtaka í sínum störfum. „Máttum við oft þakka fyrir að komast lífs af eftir nóttina.“
Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands í takt við nýtt
nafn félagsins
Strax nokkrum mánuðum eftir að stríðinu lauk hélt stór hópur hjúkrunarfræðinga út á Norðurlandaþing, umfjallanir um slíkar ráðstefnur voru mjög áberandi í tölublöðunum á árunum á eftir.
Einnig var töluvert af fræðsluefni auk frásagna af hjúkrunarfræðingum við nám í Bandaríkjunum, Svíþjóð og víðar. Burðarás tímaritsins á þessum árum var að segja frá félagsstörfum auk þess að birta launatöflur og fleira slíkt efni. Einnig var töluvert um þýddar greinar sem og greinar eftir lækna.
Árið 1959 skipti félagið um nafn og varð að Hjúkrunarfélagi Íslands, í samræmi við það var ákveðið að breyta heiti tímaritsins
í Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands. Við þau tímamót var tekið upp nýtt útlit þar sem forsíðan var prentuð í einum lit ásamt efnisyfirliti sem var þá neðst á forsíðunni. Þegar tímaritið fagnaði 40 ára afmæli sínu árið 1965 skrifaði Sigríður Eiríksdóttir að það væri hennar ósk að tölublöðunum myndi fjölga úr fjórum í sex á ári, ósk sem raungerðist árið 1996. Hún skrifaði einnig um mikilvægi þess að halda á lofti öllum þeim vandamálum hjúkrunarfræðinga sem væru efst á baugi hverju sinni, bæði hvað varðar fræðslu og kjaramál. „Kröfur til þeirra sem taka að sér forystuna og standa í „eldinum“, ef svo má segja, eru nefnilega ekki alltaf sanngjarnar, og er ungu kynslóðinni nauðsyn að vita, að sérhver sigur í menntaog kjaramálum hennar hefur kostað þrotlausa vinnu og áhuga þeirra, sem um málin hafa fjallað. Á þessu sviði hefur tímaritið verið okkur ómetanlegt og eru greinarnar orðnar margar í því, sem fjalla um þróun hjúkrunarstéttarinnar, námskröfur hennar og vinnukjör,“ skrifaði Sigríður fyrir sextíu árum síðan.
Árið 1969 hóf ritstjórnin sjálf að vera með pistla fremst í blaðinu, þáttur sem hefur haldið sér meira en minna síðan. Byrjaði þar ritstjórinn Elísabeth P. Malmberg á að minnast á óvenjumargar greinar um störf hjúkrunarfræðinga. „Greinarnar bera vott um áhuga fyrir starfinu og velvild og skilningi á málgagni stéttarinnar, og ber að lofa þessa viðleitni,“ skrifaði hún.
Ingibjörg Árnadóttir tók við sem ritstjóri árið 1970 og var hún ritstjóri tímaritsins næstu tvo áratugina. „Hefur það verið óumræðilega gefandi verkefni að safna saman því besta lesefni sem fáanlegt er hverju sinni til eflingar hjúkrunarmálum og hjúkrunarstétt og koma því til skila,“ skrifaði Ingibjörg áður en hún fór í stutt námsleyfi árið 1987. „Samstarfið við ritstjórn hefur verið mjög mikilvægt því svo að margþætt starf sem markmiðssetning, efnisval, efnisgerð, umbrot, uppsetning og dreifing tímarits verður aldrei
Forsíða Hjúkrunar frá 1979, í tilefni af 60 ára afmæli félagsins voru formönnum frá árinu 1924 stillt upp. Sitjandi frá vinstri: Sigríður Eiríksdóttir og María Pétursdóttir. Standandi frá vinstri: Svanlaug Árnadóttir, Anna Loftsdóttir og Ingibjörg Helgadóttir.
unnið af einstaklingi. Í samvinnu og skoðanaskiptum verður hið skapandi starf sem er burðarás góðs fagtímarits.“ Það voru orð að sönnu sem hafa staðist tímans tönn.
Árið 1978 var nafni tímaritsins breytt aftur, þá í Hjúkrun, var það gert eftir tillögu ritnefndar sem taldi það heiti henta betur á forsíðu en Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands. Á sama tíma var ákveðið að „hressa“ upp á forsíðuna eins og komið er inn á ritstjórnarpistli í fyrsta tölublaðinu, hver árgangur átti þá að hafa sérstakan lit.
Tímarit FHH
Á árunum 1984 til 1992 gaf Félag háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, FHH, út árlegt tímarit sem innihélt að mestu fræðigreinar. Eintök af því tímariti voru nú í vor afhent Landsbókasafni í tilefni af 100 ára afmæli tímaritaútgáfunnar og eru því loks aðgengileg á Tímarit.is. Tilgangur tímaritsins var að vera vettvangur fyrir fagleg skrif og vera hvati til fræðilegra skrifa á sviði hjúkrunar.
Í þeim níu tölublöðum sem komu út birtust ótal fræðigreinar ásamt heimildaskrá. Má þar nefna klíníska hjúkrun í fortíð, nútíð og framtíð, fjölskyldumeðferðir, umönnun alzheimersjúklinga, hugtakaþróun í hjúkrun, hjúkrun og stjórnmál, ásamt hugmyndafræði hjúkrunarrannsókna. FHH var stofnað 1978 og var minna félag en Hjúkrunarfélag Íslands. Félögin tvö hófu sameiningarviðræður og í kjölfar jákvæðrar niðurstöðu í atkvæðagreiðslu um sameiningu félaganna var ákveðið að sameina tímaritin í Tímarit hjúkrunarfræðinga árið 1993. Félögin sameinuðust svo formlega í Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga í janúar 1994 við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu.
Tímaritið í núverandi mynd hefur haldist nokkuð stöðugt frá árinu 1993, það einkennist af greinum eftir hjúkrunarfræðinga, viðtölum við hjúkrunarfræðinga og fræðilegu efni. Má segja að þarna hafi komið saman áherslur tímarita beggja félaganna með
birtingu fræðilegra greina í bland við annað áhugavert efni. Bryndís Kristjánsdóttir kom inn árið 1996 sem fyrsti ritstjórinn sem ekki var menntaður hjúkrunarfræðingur. Tók hún fram í sínum fyrsta ritstjórapistli að tvær raddir væru sífellt á lofti um tímaritið, frá þeim sem vildu helst hafa rannsóknargreinar og annað fræðilegt efni í því, og þeim sem vildu frekar hafa léttara efni. Ákveðið hafi verið að fara bil beggja og birta bæði fræðilegt og léttara efni er tengist faginu og félagsmönnum. Sú ritstjórnarlína hefur í megindráttum haldist síðan.
Árið 1996 voru gefin út sex tölublöð, fram til ársins 2017 voru svo gefin út fimm tölublöð á ári. Með tilkomu vefsíðu félagsins og boðleiða í gegnum samfélagsmiðla var ekki talin þörf á fleiri en þremur tölublöðum á ári og hefur sú tilhögun haldið sér til dagsins í dag.
Þorgerður Ragnarsdóttir, áður ritstjóri Tímarits hjúkrunarfræðinga, skrifaði um ósk sína í leiðara fyrsta tölublaðsins árið 1993, eða fyrir rúmlega þrjátíu árum. „Við skulum skrifa það öll. Við skulum leggja það besta af þekkingu okkar og reynslu í það, af trú á málstað okkar og framsóknarhug, ... þegar það kemur til okkar fátæklegt, eigum við að minnast þess að við höfum sjálf brugðist því. Og þar skulum við ekki láta staðar numið. Því sem þar birtist og almenning varðar skulum við miðla áfram svo að allir landsmenn viti hvað það er sem hjúkrunarfræðingar eru að fást við. Undir því er líf okkar sem starfsstéttar komið.“ Tímarit hjúkrunarfræðinga hefur nú verið gefið út í heila öld, það hefur verið málgagn hjúkrunarfræðinga, birt fjöldann allan af ritrýndum greinum og átt sinn þátt í framþróun fagsins. Auk þess hafa birst áhugaverð og skemmtileg viðtöl við hjúkrunarfræðinga og meðal annars viðtal við Sigríði Eiríksdóttur sem birtist í blaðinu árið 1975 og er endurbirt núna af tilefni 100 ára afmæli tímaritsins.
Svona leit forsíða fyrsta tölublaðs tímaritsins út árið 1965.
Forsíða frá árinu 1936.
Stutt spjall við Sigríði Eiríksdóttur
Viðtal við Sigríði Eiríksdóttur í tilefni af 50 ára afmæli tímaritsins, gefið út í 2. tbl. 1975. Merkt G.Í.Í. og Ingibjörgu Árnadóttur ritstjóra. Á fundi hjúkrunarkvenna í apríl 1925 var útgáfa blaðsins ákveðin og segir í formála fyrir fyrsta tölublaðinu að markmið blaðsins sé að halda áhugamálum stéttarinnar vakandi, efla þau og útbreiða. Í stórt var ráðist af fámennum en hugdjörfum hópi, þar sem á árinu 1925 var aðeins 21 hjúkrunarkona í félaginu en með störfuðu 12 aukafélagar.
Sigríður hefur, eins og kunnugt er, unnið ötullega að hjúkrunarog heilbrigðismálum allt frá því hún kom heim frá námi á þriðja tug aldarinnar og var hún m.a. formaður Hjúkrunarfélags Íslands á árunum 1924-1960 og með aðra höndina við blaðið allan þann tíma. Þegar flett er árgöngum blaðsins dylst engum að Sigríður á þar mikinn fjölda greina.
Við spurðum Sigríði, hver hafi verið aðdragandinn að því að hjúkrunarkonur réðust í útgáfu félagsblaðs.
„Á þessum árum var hjúkrunarstarfið á byrjunar- og mótunarstigi hér á landi og var okkur því brýn nauðsyn á að fá boðbera til að halda okkar málum vakandi og til að ná til allra í stéttinni. Nokkuð var um útgáfu fagrita, t.d. minnist ég þess að iðnaðarmenn, læknar, verkfræðingar og, að mig minnir, ljósmæður hafi gefið út fagrit fyrir þennan tíma. Í fyrsta tölublaði er drepið á að framtíð blaðsins sé undir hjúkrunarkonum sjálfum komin og er þar að finna setninguna: Við eigum að skrifa það allar.“
Var söfnun efnis ekki erfið?
„Eins og að líkum lætur vildi það brenna við að sömu konurnar skrifuðu mest í blaðið. Blaðið hefur að sjálfsögðu verið upp og ofan að gæðum en einna mesta deyfð finnst mér ríkja yfir því um 1960.“
Hvernig var hjúkrunarkonum fjárhagslega kleift að ráðast í blaðaútgáfu?
„Í fyrstu fjölgaði hægt í stéttinni og auðvitað hefði ekki verið hægt að ráðast í þetta „stórfyrirtæki“, ef ekki hefði komið til ókeypis vinna okkar sem að blaðinu stóðu. Kostnaður var greiddur úr félagssjóði og blöðin send heim til allra félagskvenna. Lengi vel var blaðið selt í lausasölu en seldist alla tíð lítið þannig.
Á fyrstu árunum var aldrei unnt að fá auglýsingar, því að höft og kreppuráðstafanir orsökuðu það að kaupmenn sögðust ekkert hafa að selja og þar af leiðandi ekkert að auglýsa. Það er ekki fyrr en eftir 1935 að auglýsingar fara að birtast að einhverju ráði í blaðinu.“
Hvernig unnu þið blaðið fyrstu árin?
„Blaðið var sett upp og vélritað heima hjá mér fyrstu árin. Var þá borðstofuborðið „kontorinn“ þar sem allt flaut af blöðum og bókum þar til bunkað var upp á kvöldin, en þetta þótti heldur ósjarmerandi og óvenjulegt á þessum tíma. Fjölritun á blaðinu fengum við hjá Pétri Guðmundssyni, útgáfumanni, sem tók okkur sérlega vel.
Ég vil geta þess að bæjarbúar voru okkur hjúkrunarkonum afar góðviljaðir, enda ófá sporin okkar í bæjarhjúkrun þar sem þörfin var mikil á aðstoð og aðhlynningu.
Blaðið var fjölritað fram til ársins 1936, eða 42 tölublöð, en þá var ákveðið að ráðast í að láta prenta það og sýndi sig að blaðið stóð undir sínum kostnaði að ári liðnu, enda þá orðið tiltölulega auðvelt að fá auglýsingar.“
Hvað var helst skrifað um fyrstu árin?
„Um launakjör var mikið rætt og ritað, enda laun okkar mjög léleg auk þess sem ætlast var til að hjúkrunarkonan væri alltaf reiðubúin til vinnu, hvenær og hvar sem var. Ef við sáumst á götu
Sigríður Eiríksdóttir.
Sigríður Eiríksdóttir.
„privatklæddar“ mátti oft heyra: „Nei sko, hjúkrunarkonan á frí í dag.“ Um lífeyrissjóð var talsvert mikið ritað, en honum hafði þá þegar verið komið á fyrir danskar hjúkrunarkonur.
Einnig þýddum við erindi úr erlendum tímaritum auk frétta af merkisatburðum á sviði hjúkrunar. Nokkrar greinar birtust frá hjúkrunarkonum erlendis þar sem þær lýsa starfi sínu á hinum ýmsu stofnunum.
Allar skýrslur Samvinnu hjúkrunarkvenna á Norðurlöndum er að finna í blaðinu. Auglýsingar um lausar stöður og stöðuveitingar birtum við en einnig var getið um utanferðir og heimkomur íslenskra hjúkrunarkvenna en á þessum árum var ekki hægt að læra hjúkrun til fulls hér á landi.
Með tilkomu Landspítala og síðan Hjúkrunarskóla Íslands færðist námið hingað heim og tekur þá að fjölga hraðar í stéttinni. Ég get þess til gamans að þegar Hjúkrunarskóli Íslands tók inn nemendur,
10 stúlkur, annað eða þriðja árið sem hann starfaði, kallaði einn af þremur þáverandi prófessorum á Landspítalanum á mig og innti mig eftir því hvort við ætluðum strax að fara að skapa atvinnuleysi í stéttinni.
Að lokum, Sigríður. Hvernig finnst þér Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands vera í dag?
„Ég hef verið mjög ánægð með blaðið síðustu árin. Mér finnst það bæði fróðlegt og vel úr garði gert í alla staði.“
Ritstjórn blaðsins árið 1975 leitaði heimilda um útgáfu elstu tímarita er fjallað hafa um heilbrigðismál á Íslandi og komst að því að elsta tímaritið er Eir – Tímarit handa alþýðu um heilbrigðismál, gefið út á árunum 1899-1900. Læknablaðið, hóf útgáfu 1915. Ljósmæðrablaðið, gefið út á árunum 1922-1975. Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands, hóf útgáfu 1925.
Sigríðarstofa í húsnæði Fíh heitir eftir Sigríði Eiríksdóttur sem var fyrsti formaður félagsins og þar inni eru mublur og persónulegir munir sem voru í hennar eigu.
Skólahjúkrunarfræðingum á Selfossi fannst vanta úrræði
Offita barna stórt samfélagslegt vandamál
Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Þær Bjarnheiður Böðvarsdóttir og Þorbjörg Steinarsdóttir, skólahjúkrunarfræðingar á Selfossi, tóku eftir því að úrræði skorti fyrir börn á grunnskólaaldri sem eru að glíma við ofþyngd eða offitu. Þær ákváðu að bregðast við og fengu skólahjúkrunarfræðinga á öllu Suðurlandi til liðs við sig og gerðu rannsókn. Fyrstu niðurstöður þeirra staðfesta að offita hefur aukist hjá grunnskólabörnum og meira hjá börnum á landsbyggðinni þar sem um 30% barna er yfir kjörþyngd samkvæmt skimunum og 10% af þeim með offitu. Niðurstöður þeirra gefa líka sterklega til kynna að snemmtæk íhlutun virkar. Ritstýran fékk sér bíltúr á Selfoss og spjallaði við þær stöllur Bjarnheiði og Þorbjörgu um rannsóknina sem verður vonandi til þess að snúa þróuninni við og vekja foreldra og samfélagið til umhugsunar um mikilvægi heilbrigðis þegar kemur að andlegri og líkamlegri líðan barna.
Rannsóknina gerðu þær Bjarnheiður og Þorbjörg ásamt tveimur sérnámslæknum í heimilislækningum, þeim Írisi Óskarsdóttur og Eyrúnu Önnu Stefánsdóttur. Vignir Sigurðsson, barnalæknir á HSU, var leiðbeinandi þeirra á HSU ásamt Árúnu Sigurðardóttur, prófessors við Háskólann á Akureyri. Fyrstu niðurstöðu staðfesta, eins og fyrr segir, að offita hefur aukist hjá grunnskólabörnum en um það bil þriðjungur barna á grunnskólaaldri á landsbyggðinni er yfir kjörþyngd samkvæmt skimunum. Af þeim eru 10% með offitu. Hlutfallið er lægra á höfuðborgarsvæðinu og rannsókn þeirra sýnir að snemmtæk íhlutun er mikilvæg til að snúa þróuninni við. Samfélagið allt þarf að standa saman í baráttunni gegn offitu því annars geta börn þróað með sér ýmis heilsufarsvandamál eins og efnaskiptavillu, sykursýki 2, hjarta- og æðasjúkdóma og önnur líkamleg og andleg heilsufarsvandamál sem fylgja offitu. Minni skjátími, betra aðgengi að íþróttaiðkun, reglulegir matartímar með fjölskyldunni og margt fleira á sinn þátt í betri heilsu barnanna okkar.
Slæm félagsleg staða foreldra ekki ástæðan hérlendis
Offita hjá börnum hér á landi hefur aukist og sérstaklega á landsbyggðinni, hvað veldur og hvers vegna fitna börn á landsbyggðinni frekar en borgarbörnin? „Við vitum það ekki alveg, sambærilegar rannsóknir í öðrum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við benda til að slæm félagsleg staða foreldra sé meginástæðan en í okkar rannsókn virðist það ekki vera tilfellið. Af þeim sem tóku þátt í okkar rannsókn voru 20% foreldra á örorku og meirihlutinn var með hátt menntunarstig en svo vitum við ekki hvort að þeir einstaklingar sem afþökkuðu þátttöku voru með lægra menntunarstig. Okkar niðurstöður eru alla vega ekki í takt við niðurstöður sambærilegra rannsókna á offitu skólabarna í öðrum löndum. Vert er að taka fram að skilgreiningin á offitu í okkar rannsókn var ef barn var tveimur staðalfrávikum fyrir ofan meðaltal á vaxtakúrfu þá fengu foreldrar þess boð um að taka þátt í rannsókninni,“ útskýrir Bjarnheiður.
Þær segja engin úrræði hafa verið í boði fyrir þessi börn sem eru með offitu fyrir utan Heilsuskóla barnaspítalans. „Heilsuskólinn er þriðju línu þjónusta, ekkert skipulagt úrræði hefur verið í boði hjá heilsugæslunni og ekkert á landsbyggðinni. Við vildum bæta úr þessu og fengum skólahjúkrunarfræðinga á öllu Suðurlandi til
liðs við okkur. Skólabörn eru venju samkvæmt skimuð með því að mæla hæð og þyngd í fyrsta, fjórða, sjöunda og níunda bekk. Allir foreldrar barna í fyrsta, fjórða og sjöunda bekk (6, 9 og 12 ára) sem voru með offitu samkvæmt skimunum fengu boð um að taka þátt í rannsókninni okkar. Alls voru þetta 97 börn af öllu Suðurlandi úr þessum árgöngum en foreldrar eða forráðamenn 48% þeirra þáðu að taka þátt sem er hátt þáttökuhlutfall miðað við svipaðar rannsóknir í Bandaríkjunum til dæmis. Við fundum ekki margar sambærilegar rannsóknir þar sem rannsakendur teygja sig til úrtaksins með því að bjóða þátttöku.“
Mikilvægt að efla sjálfstraustið og jákvæða heilsuhegðun
„Rannsóknin hófst í september 2024. Íhlutunin fólst í mánaðarlegum viðtölum við 47 börn og foreldra þeirra í sex mánuði á heilsugæslustöð barnsins eða í fjarviðtali. Þar var farið yfir heilsufar, teknar blóðprufur og vandinn kortlagður og stuðningur veittur varðandi svefn, skjátíma, næringu, hreyfingu og andlega líðan. Nú er rannsókninni lokið og við erum að vinna úr niðurstöðum en þær gefa sterklega til kynna að íhlutunin skilaði árangri; svefninn varð betri hjá flestum börnunum, flest fóru að stunda íþróttir og foreldrar fóru að taka mataræðið og matarinnkaup í gegn. Þetta skilaði sér í leiðréttingu á vaxtarkúrfu sem þýðir að þyngdaraukning stöðvast hjá meirihlutanum. Markmiðið með íhlutuninni var að reyna að bæta líkamlega og andlega heilsu þessara barna og fyrstu niðurstöður okkar benda til að það hafi tekist. Við tókum viðtöl við öll börnin ásamt foreldrum þeirra og sum þeirra töluðu um að þyngdaraukningin hefði áhrif á líðan þeirra og þá ræddum við það á uppbyggilegan hátt, það er svo mikilvægt að taka skömmina í burtu og efla sjálfstraustið og jákvæða heilsuhegðun. Við tókum líka blóðprufur hjá börnunum í 4. og 7. bekk. Blóðprufuniðurstöðurnar sýndu að hátt hlutfall barnanna var með insúlínviðnám en 61% níu ára barna var með insúlínviðnám og 83% 12 ára barna. Áhrifin af meðferðinni virtust vera meiri hjá yngri börnunum sem þýðir að það er betra að grípa fyrr inn í. Forstigseinkenni sykursýki 2 auka líkurnar til muna á að þau fái sykursýki á næstu tíu árum. Það kom líka í ljós að 90% barnanna voru með D-vítamínskort,“ segir Þorbjörg sem er merkilegt í ljósi þess hve mikið er talað um að börn þurfi að taka lýsi.
Bjarnheiður Böðvarsdóttir og Þorbjörg Steinarsdóttir, skólahjúkrunarfræðingar á Selfossi.
Stórt samfélagslegt vandamál
Þær eru sammála um að aukin offita grunnskólabarna sé að stórum hluta samfélagslegt vandamál þótt vissulega geti það einnig verið genatengt eða orsakast af veikindum. „Þetta er stórt samfélagslegt vandamál að okkar mati, auglýsingar á gjörunnum matvælum ýta undir ofþyngd og þá erum við tala um skyndibita, gosdrykki og aðra óhollustu. Mikil skjánotkun, of lítill svefn, minni hreyfing og fleiri þættir vega líka þungt. En það er mikilvægt að taka það fram að þyngdaraukning getur líka orðið af félagslegum ástæðum, kannski hefur barnið orðið fyrir áfalli eða foreldrið og það því ekki í stakk búið að hugsa vel um næringu barnsins. Orsakir fyrir offitu barna geta verið margþættar og flóknar og það sem við erum að gera með því að fá börnin í viðtöl er að komast að því hvers vegna barnið þyngdist svona mikið. Kannski var það skilnaður foreldra eða að foreldrar voru sjálfir að glíma við andlegan vanda. Þegar við vitum rót vandans er auðveldara að vinna með hann,“ útskýrir Bjarnheiður.
„Það kom líka í ljós að 90% barnanna voru með D-vítamínskort.“
Mikilvægt að skapa umgjörð og vera góð fyrirmynd
Hvernig snúum við þessari þróun við og hver er helsta áskorunin á þeirri vegferð að ykkar mati? „Það þarf að auka aðgengi að íþróttaiðkun fyrir börn sem búa í dreifbýli, of þung börn eru með
lélegra þol og það þarf að taka tillit til þess svo þau gefist ekki upp, reyna frekar að finna styrkleika hvers og eins svo börn hætti ekki í íþróttum. Aðgengismál hafa líka áhrif og börn í dreifbýli taka frekar skólabíl en að ganga eða hjóla í skólann og svo er minna framboð af íþróttum sem hægt er að æfa í minni bæjarfélögum á landsbyggðinni. Allt hefur þetta áhrif og skiptir máli. Niðurstöður úr blóðprufum sýndu að börnin í yngsta hópnum sem voru í 4. bekk áttu auðveldra með að snúa þróuninni við sem bendir til að snemmtæk íhlutun á þessum aldri reynist vel,“ segir Bjarnheiður og þá liggur beinast við að spyrja hvað foreldrar og uppalendur geti gert til að styðja við börnin? „Það skiptir máli að borða reglulega yfir daginn, að borða morgunmat og kvöldmat saman sem fjölskylda til dæmis, að skapa umgjörð og vera góð fyrirmynd þegar kemur að matarvenjum. Eins er mikilvægt að byrja strax þegar barn er að byrja að fá fasta fæðu að kynna hollan og fjölbreyttan mat fyrir barninu. Að hafa barn á brjósti a.m.k. fyrstu sex mánuðina er einnig verndandi þáttur fyrir offitu. Eins er mikilvægt að barnið borði ekki eitt inni í herbergi eða fyrir framan skjá, heldur að fjölskyldan borði saman án símtækja. Við töluðum mikið um skjánotkun því hún er einn áhrifaþátturinn í aukinni offitu barna,“ segir Bjarnheiður og Þorbjörg bætir við: „Auðvitað verða foreldrar þá að vera meðvitaðir um sína skjánotkun til að vera góð fyrirmynd. Einnig teljum við að foreldrar þurfi að gefa sér og fjölskyldu sinni tíma til að sinna heilbrigðu líferni. Stundum þarf að draga úr stressi og streitu, staldra við og horfa á eigin lífsvenjur. Taktu barnið með í göngutúrinn, spjallið saman á leiðinni og eflið tengslin, hvetjið barnið til að hlaupa, hoppa, æfa jafnvægi o.s.frv. á leiðinni, slá
Bjarnheiður og Þorbjörg fyrir utan Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
tvær flugur í einu höggi. Að bæta lífsvenjur er langtímaverkefni og mikilvægt að ætla sér ekki of mikið í einu. Þess vegna erum við svo ánægðar með að Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur ákveðið að halda áfram með þetta verkefni þannig að við getum fylgt okkar börnum eftir og boðið fleiri börnum úrræðið. Vonandi getum við svo þróað móttökuna áfram.“
Bjarnheiður mun kynna sínar niðurstöður á Hjúkrun 2025 sem verður í Hofi á Akureyri í haust og Þorbjörg mun kynna sinn hluta næsta vetur, sennilega á Sjónaukanum, ráðstefnu Háskólans á
Akureyri. Íris og Eyrún munu svo kynna sinn hluta rannsóknarinnar á ráðstefnu ECOG í nóvember 2025 í Uppsala í Svíþjóð.
Að loknu áhugaverðu spjalli við þær Þorbjörgu og Bjarnheiði á heilsugæslunni á Selfossi göngum við saman út í góða veðrið þar sem þær stilla sér upp fyrir myndatöku áður en við kveðjumst með þá von í brjósti að þessi þarfa rannsókn og niðurstöður hennar verði til þess að heilsa grunnskólabarna muni batna í framtíðinni.
Íslenskir hjúkrunarfræðingar
áberandi á ICN í Helsinki
Ráðstefna Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) fór fram í Messukeskus-ráðstefnuhöllinni í Helsinki í júní síðastliðnum þar sem fjöldi hjúkrunarfræðinga mætti frá Íslandi enda ekki langt að skreppa til Finnlands. Um 130 hjúkrunarfræðingar flugu héðan til Finnlands en ICN heldur alþjóðlega ráðstefnu á tveggja ára fresti þar sem hjúkrunarfræðingar alls staðar að úr heiminum koma saman til að fræðast um það nýjasta sem er að gerast í faginu ásamt því að kynnast kollegum frá öllum heimshornum.
Um 7.000 hjúkrunarfræðingar frá öllum heimshornum mættu á ICN-ráðstefnuna og um 500 sérfræðingar á sínum sviðum innan hjúkrunar voru með erindi eða kynningar en mikil gróska er í faginu og hröð þróun á mörgum sviðum. Ráðstefnan var síðast haldin í Helsinki fyrir 100 árum og var það fyrsta ráðstefna ICN sem Ísland sendi fulltrúa á en þeir voru þá, árið 1925 aðeins tveir talsins.
Þorsteinn Jónsson, sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun og forstöðumaður HermÍs, hélt erindi í stærsta sal ráðstefnunnar um reynslu Íslendinga af nútímafærni- og hermisetri. Vakti hans erindi mikla lukku enda Ísland mjög framarlega á þessu sviði.
Texti: Ari Brynjólfsson
Helga Rósa Másdóttir og Hulda Björg Óladóttir, sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs Fíh.
José Luis Cobos Serrano, hjúkrunarfræðingur frá Spáni, er nýkjörinn forseti ICN.
Helga Rósa Másdóttir, formaður Fíh; Guðbjörg Pálsdóttir og Ólafur G. Skúlason sem bæði eru fyrrverandi formenn Fíh.
Þorsteinn Jónsson var frábær fulltrúi Íslands á stóra sviðinu í Helsinki þar sem hann hélt áhugavert erindi um Hermisetrið.
Glaðbeittir hjúkrunarfræðingar í ráðstefnuhöllinni.
Formenn félaga hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum.
Stór og flottur hópur íslenskra hjúkrunarfræðinga var mættur til Finnlands á ICN.
Formenn hjúkrunarfélaga alls staðar að úr heiminum komu saman og þá var að sjálfsögðu tekin hópmynd.
Trúnaðarmaðurinn
Nafn: Sólveig Tryggvadóttir
Aldur: 53 ára
Starf: Hjúkrunarfræðingur í blóðskilun á gjörgæsludeild SAk
Hvenær og hvar og hófst þú störf sem hjúkrunarfræðingur?
Ég byrjaði að vinna á fæðinga- og kvensjúkdómadeild SAk árið 2000 þegar ég var í hjúkrunarfræðináminu og hélt áfram að starfa á þeirri deild fyrst eftir útskrift. Fór svo að starfa á handlækningadeild sem síðar sameinaðist bæklunardeild og var þar í áratug en samhliða því starfaði ég líka á innritunarmiðstöð. Ég var í hlutastarfi sem formaður stjórnar hjúkrunarráðs frá 2015-2020 en síðastliðin tólf ár, eða frá árinu 2013, hef ég starfað á gjörgæsludeild þar sem hefur verið starfrækt blóðskilun frá árinu 2015. Ég hef sinnt starfi verkefnastjóra þar síðustu ár.
Hversu lengi hefur þú verið trúnaðarmaður?
Ég tók við sem trúnaðarmaður hjúkrunarfræðinga á SAk árið 2022.
Fyrir hve marga hjúkrunarfræðinga ertu tengiliður sem trúnaðarmaður?
Við erum þrír trúnaðarmenn á SAk og þar starfa um 250 hjúkrunarfræðingar. Hinir trúnaðarmennirnir eru Elva Sigurðardóttir og Heiða Hauksdóttir, algjörlega magnaðar báðar tvær.
Hefur þú sótt þér fræðslu eða námskeið sem nýtist þér sem trúnaðarmaður?
Ég hef tekið grunnnámskeið trúnaðarmanna Fíh og mætt á þrjár kjararáðstefnur Fíh sem haldnar hafa verið á Selfossi.
Hvaða námskeið stendur upp úr og hefur gagnast þér best?
Allt hefur þetta gagnast mér en skemmtilegast hefur verið að fara á kjararáðstefnurnar, þar hafa trúnaðar-
menn m.a. unnið að kröfugerð fyrir miðlæga kjarasamninga. Það sem stendur upp úr er samt að þar hafa trúnaðarmenn alls staðar að af landinu tækifæri til að hittast og efla tengslin sín á milli.
Hefur það eflt þig sem starfskraft og/eða manneskju að vera trúnaðarmaður?
Já, mér finnst bæði eflandi og gefandi að vera trúnaðarmaður. Mér hefur alltaf fundist mikilvægt að þekkja vel réttindi okkar hjúkrunarfræðinga og hef lagt mig fram um að kynna mér vel kjara- og stofnanasamninga. Mér finnst gott að fá traust til að aðstoða hjúkrunarfræðinga sem leita til mín og oftast getum við leyst úr málum með okkar yfirmönnum og/eða með fulltrúum Fíh.
Hvaða áskorunum mætir þú helst sem trúnaðarmaður á vinnustað?
Það er áskorun þegar samstarfsfólk mitt er óánægt með kjarasamninga og þegar því finnst stofnunin okkar ekki vera að standa sig. Þegar hjúkrunarfræðingar eru orðnir langþreyttir á að bíða eftir nýjum stofnanasamningi og finnst þeir vera að dragast aftur úr í launum miðað við aðrar stofnanir. Það hefur líka verið áskorun að ræða um vaktahvatann sem alltaf er talað um ef fleiri en tveir hjúkrunarfræðingar koma saman.
Nefndu þrjá eiginleika sem góður trúnaðarmaður þarf helst að hafa?
Baráttukraft, réttlætiskennd og að vera góður hlustandi.
Hvað er það besta við starf þitt?
Það besta við starfið mitt á blóðskilun er að fá að kynnast náið fólki sem er í blóðskilun og fá að aðstoða það í sínum veikindum. Það allra besta er samt að sjá
Umsjón: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
á eftir þeim frá okkur sem fá ígrætt nýra, þau sem það geta. Að vera hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu er krefjandi starf en það sem mér finnst svo mikilvægt, og má aldrei gleyma, er þessi mannlegi þáttur að styðja og vera til staðar fyrir sjúklinginn og aðstandendur.
Hvernig tekstu á við erfið mál sem upp koma á vinnustaðnum?
Á gjörgæsludeild er alveg einstaklega góður deildarstjóri, Brynja Dröfn, sem ég get alltaf leitað til og rætt við um hvað eina sem upp kemur í vinnunni. Við sem erum trúnaðarmenn á SAk hittumst oft og ræðum málin. Við erum líka í mjög góðu sambandi við starfsmenn Fíh og þangað getum við alltaf leitað ef erfið mál koma upp. Þá á ég líka góðar vinkonur sem eru hjúkrunarfræðingar og gefa sér alltaf tíma fyrir eflandi samskipti og svo verð ég að nefna að góður göngutúr með Eyrúnu vinkonu minni eftir erfiða vakt, gerir allt betra.
Hver eru áhugamálin utan vinnutíma?
Ég var spurð að þessu fyrir nokkrum árum þegar börnin mín voru lítil og ég var á kafi með þeim í þeirra áhugamálum. Þá var svarið golf og fótbolti en það voru ekki beint mín áhugamál, heldur hafði ég bara áhuga á börnunum mínum og því sem þau voru að gera. En núna, nokkuð mörgum árum seinna, þá er svarið nokkurn veginn það sama. Ég hef áhuga á að spila golf í góðum félagsskap og fylgist mikið með fótbolta. Ég er mjög spennt fyrir EM kvenna í fótbolta í sumar og hef fulla trú á að okkar konur standi sig vel þar. Svo finnst mér gaman að ferðast með fjölskyldu og vinum og njóta augnabliksins með góðan kaffibolla og bók.
Þín fyrirmynd í starfi?
Ég hef unnið með mörgum frábærum hjúkrunarfræðingum alls staðar þar sem ég hef starfað og hef reynt að tileinka mér það sem mér finnst gott í fari þeirra. Árið 2007 til 2009 fórum við fimm hjúkrunarfræðingar á skurðlækningadeild saman í fram-
haldsnám í hjúkrun við hjúkrunarfræðideild H.Í. Þetta var nám á meistarastigi og við útskrifuðumst með diplómagráðu í hjúkrun aðgerðasjúklinga. Þær sem voru með mér í þessu námi eru allar fyrirmyndir mínar í hjúkrun. Af handlækningadeild langar mig samt að nefna tvær góðar fyrirmyndir sem eru Sigfríður Héðinsdóttir og Kristrún Þóra Ríkharðsdóttir.
Þegar ég færði mig yfir á gjörgæsludeildina árið 2013 tóku á móti mér frábærir hjúkrunarfræðingar og þar á ég sérstaklega tvær fyrirmyndir í hjúkrun sem eru faglega mjög færar, hafa alltaf reynst mér vel og ég myndi treysta best ef á þyrfti að halda. Það eru Guðfinna Þorláksdóttir og Steinborg Hlín Gísladóttir.
Fallegasti staður á Íslandi?
Ég bjó bæði á Þórshöfn og Kópaskeri þegar ég var að alast upp og mér finnst umhverfið á þessum stöðum sérstaklega fallegt. Dettifoss, Ásbyrgi, Öxarfjörður, Melrakkaslétta og Langanes eru líka allt svæði sem eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Akureyri er samt minn heimabær og þar finnst mér fallegasta bæjarstæði landsins.
Ertu með markmið fyrir 2025?
Markmiðið fyrir árið 2025 var að komast á golfmót hjúkrunarfræðinga með trúnaðarmönnum á SAk en við erum allar þrjár byrjendur í golfinu. Það verður hins vegar ekki af því í ár því á sama tíma er ráðstefna Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) í Helsinki í Finnlandi og við erum allar að fara þangað. Ég hlakka mikið til að fara á þessa ráðstefnu með góðum hópi hjúkrunarfæðinga frá SAk. Þátttakendur verða um 7.000 hjúkrunarfæðingar og þar af 120 frá Íslandi. Ég ætla svo í ferð til Ítalíu í haust með Heiðu trúnaðarmanni og mökum okkar. Þar verður örugglega eitthvað rætt um kaup og kjör og hvað mætti gera betur. Ætli markmiðið fyrir árið 2025 sé ekki bara að lifa og njóta.
Guðríður Ringsted geðhjúkrunarfræðingur
Öldrunargeðteymi tekur til starfa á Landspítala
Ragnheiður H. Eiríksdóttir Bjarman | Myndir: Úr einkasafni
Þó svo að ýmislegt mætti betur fara í geðþjónustu á Íslandi og málaflokkurinn líði fyrir fjárskort, líkt og endurtekið er bent á í opinberri umræðu, er stöðugt unnið að umbótum og þróun þjónustu á bak við tjöldin.
Í fyrra var til að mynda stigið mikilvægt skref í geðþjónustu Landspítala þegar öldrunargeðteymi var sett á laggirnar og hóf starfsemi. Öldrunargeðteymið er verkefni á vegum Nönnu Briem, framkvæmdastjóra geðþjónustu Landspítala, og hefur verið í bígerð í einhvern tíma þar sem unnið er eftir þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum, þar sem segir meðal annars að þróa skuli ráðgefandi teymi með sérhæfingu á sviði geðheilbrigðis aldraðra. Gert er ráð fyrir að verkefnið muni þróast í ákveðnum skrefum til ársins 2030.
Teymið skipa Guðríður Ringsted, geðhjúkrunarfræðingur sem er teymisstjóri, Jökull Máni Þrastarson hjúkrunarfræðingur, Katla Marín Stefánsdóttir sálfræðingur og Thomas Brieden öldrunargeðlæknir. Þau tvö síðastnefndu unnu að undirbúningi teymisins í fyrra og hjúkrunarfræðingarnir komu svo til starfa í vor á þessu ári. Teymið telst nú fullmannað og starfsemi er hafin. Undirbúningur var unninn í samstarfi við verkefnastjóra og deildarstjóra en teymið tilheyrir meðferðareiningu lyndisraskana á geðsviði. Verkefnastjóri frá miðlægri verkefnastofu Landspítala styður teymið áfram.
Hækkandi aldur þjóðar
Eins og vel er þekkt gera mannfjöldaspár ráð fyrir fjölgun eldra fólks og þar af leiðandi horfum við fram á aukinn fjölda einstaklinga sem mun glíma við flókinn heilsufarsvanda, þar með talið geðrænar áskoranir.
einstaklinga sem hafa glímt við geðrænar áskoranir allt sitt líf en einnig einstaklinga sem greinast með geðrænan vanda seinna á ævinni.
Svona starfar teymið
Nú er öldrunargeðteymi Landspítala fyrst og fremst ráðgefandi teymi á legudeildum Landspítala og þjónustan miðast við einstaklinga sem eru 65 ára og eldri. Fagfólk á legudeildum Landspítala getur sent „beiðni um ráðgjöf“ til dæmis vegna einstaklings sem liggur inni og glímir við þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Teymið ákveður í sameiningu hvaða fagaðili fer í vitjun á deild til að meta líðan hjá þeim sem um ræðir. Eftir vitjun fjallar teymið um hvað sé best að ráðleggja og sendir svo svar á beiðanda. Teymið vinnur þannig saman á þverfaglegum grunni, þó svo að einn fari í hverja vitjun og skili svari til beiðanda. Oft dugar þessi ráðgjöf þannig að fagfólk á deild geti veitt nauðsynlega þjónustu en stundum þarf að endurmeta líðan og fylgja einstaklingum eftir.
Flestar beiðnir koma frá læknum eða hjúkrunarfræðingum á legudeildum Landspítala. Teymið er líka í samvinnu við BORG (Bráðaog ráðgjafaþjónusta geðsviðs) um að ráðleggja um mál sem varða fólk 65 ára og eldra. Samstarf við Landakot er einnig mikilvægt enda margir af skjólstæðingum teymisins sem dvelja þar. Thomas öldrunargeðlæknir hefur að auki getað svarað beiðnum frá öðrum stofnunum varðandi lyfjaráðgjöf.
Fjöldi einstaklinga í hverjum aldurshópi. (Hagstofa Íslands).
Samkvæmt tölum frá Hagstofu íslands voru Íslendingar á aldrinum 65 ára og eldri 54.229 árið 2021 en mannfjöldaspá segir að þessi hópur verði um 118.758 manns árið 2069.
Vegna lækkandi fæðingartíðni fer hlutfall aldraðra hratt vaxandi en á næsta ári verður fjöldi eldra fólks meiri en fjöldi yngra fólks og bilið á eftir að aukast með árunum. Börn á aldrinum 0-14 ára voru tæp 19% árið 2020 en verða tæp 15% árið 2040. Þau sem eru 65 ára og eldri voru 14,5% árið 2020 en verða rúm 20% árið 2040.
Nú þegar er mikil þörf fyrir stuðning við aldraða sem glíma við geðraskanir á borð við kvíða og þunglyndi. Bæði er um að ræða
Að svo stöddu er öldrunargeðteymið einungis ráðgefandi teymi en ekki meðferðarteymi. Framtíðarsýnin er að geta boðið upp á eftirfylgd og meðferð í göngudeildarþjónustu og að auka þjónustu og samstarf við heilsugæslu og hjúkrunarheimili.
Geðhjúkrunarfræðingur með dýrmætan bakgrunn í öldrunarþjónustu
Guðríður Ringsted geðhjúkrunarfræðingur er teymisstjóri öldrunargeðteymis Landspítala. Hún starfaði í öldrunarþjónustu í um tvo áratugi áður en hún ákvað að fara yfir í geðhjúkrun og var í fyrsta hópnum í nýju klínísku meistaranámi sem útskrifaðist vorið 2024. „Ég byrjaði að vinna í aðhlynningu árið 2003 á bráðaöldrunarlækningadeild B4. Eftir það vissi ég að ég vildi vinna við hjúkrun. Ég byrjaði svo að vinna sem hjúkrunarfræðingur eftir útskrift 2008 á hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi til
Texti:
árið 2022 þegar ég fór í mitt sérnám í geðhjúkrun. Ég vann síðan á heilsugæslunni í Borgarnesi þangað til núna í apríl 2025 en þá hóf ég störf á geðsviði Landspítala.“
Guðríður, sem oftast er kölluð Dúdda, er fjögurra barna móðir og býr í sveit á Vesturlandi ásamt eiginmanni, börnum og fjölmörgum dýrum. Hún er líka söngkona og lærður jógakennari. Hún ætlaði reyndar bara að vinna eitt sumar í Brákarhlíð: „Ég var spennt fyrir því að fara í bráðahjúkrun eða ljósmæðranám. Sú áætlun breyttist aðeins vegna barneigna og vellíðunar í Brákarhlíð. Ég hafði alltaf mest yndi af því að eiga samtal við mitt fólk í þar. Fólk hefur frá svo ótalmörgu og merkilegu að segja. Á tímabili langaði mig að gerast rithöfundur svo ég gæti skrifað þessar ævisögur því mér þykir mikilvægt að við þekkjum sögu forfeðra og formæðra okkar. Ég fann að það hjálpaði mörgum mikið að fá tíma og rými til að tjá sig. Í Brákarhlíð vann ég líka mikið eftir Eden hugmyndafræðinni en það er leið til að mæta einmanaleika, leiða og hjálparleysi. Margt úr þeirri hugmyndafræði nýtist einmitt vel í öldrunargeðhjúkrun. Ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að ég valdi þessa leið – ég elska að hlusta á og tala við þá sem þrá að á þá sé hlustað.“
Dúdda segist hafa notið sín í sérnáminu í geðhjúkrun: „Það var vægast sagt skemmtilegt en á sama tíma krefjandi, erfitt, dýpkandi og styrkjandi. Það sem stendur upp úr er tilfinning og vissa um að vera orðin meiri fagmanneskja og mun öruggari í starfi. Ég eignaðist líka frábærar og skemmtilegar skólasystur og fullt af nýjum kunningjum og vinum.“
Dúdda er ekki bara hjúkrunarfræðingur og jógakennari, hún er einnig tónlistarkona; „Já, ég tala stundum um „fyrra lífs-Dúddu“ og „núverandi Dúddu“. Í fyrra lífi var ég mjög virk í tónlistar-
bransanum og tók meira að segja hlé á grunnnáminu í hjúkrun til að ferðast um heiminn og spila hér og þar með hljómsveitinni Worm Is Green. Við gáfum út nokkrar plötur og fylgdum þeim mismikið eftir. Núna er ég orðin miklu meiri hjúkrunarfræðingur en er samt enn þá að grúska í tónlistinni, bæði með hljómsveitinni en líka í sólóverkefninu mínu undir nafninu Mystic Manta. Hljómsveitin spilaði síðast opinberlega á tónleikum í Kína 2013 en við erum enn þá að framleiða músík. Ég er ekki hætt og ef einhver skyldi vilja fá okkur aftur á svið, þá má skoða það,“ segir hún brosandi og vert er að nefna að áhugasamir lesendur geta fundið tónlist Dúddu á streymisveitum.
Flókinn vandi sem reynir á fagþekkingu
Hjúkrunarþörf aldraðra getur verið mikil og víðfeðm, ekki síst þegar kemur að þeim sem eru mjög veikir og liggja inni á sjúkrahúsi með geðræn einkenni. Þannig vinnur fagfólkið í öldrunargeðteyminu oftast með flókinn og fjölþættan vanda: „Við þurfum alltaf að skoða vel bakgrunn og sögu einstaklings, útiloka óráð og athuga aðra líkamlega þætti. Svo er alltaf mikilvægt að skoða hvað skjólstæðingurinn vill og þá jafnvel ræða meðferðaróskir. Þegar ráðgjafarbeiðni er svarað reynir á fagþekkingu og reynslu hjúkrunarfræðings, hvað varðar hjúkrunarmeðferðir, lyfjameðferðir og allt almennt líkamsmat. Við skoðum og notum okkar skynfæri til að meta hvern og einn en erum líka í því mikilvæga hlutverki að hlusta og meðtaka það sem skjólstæðingurinn er að segja okkur. Oft vilja einstaklingar ræða mjög gömul og óuppgerð mál, alveg aftur í barnæsku, eins og einelti, missi eða önnur áföll. Svo eru aðrir sem ekki hafa löngun til að tjá sig mikið og það ber okkur að virða. Langflest hafa þó þurft að tjá sig hingað til eða hafa mikla þörf fyrir að á þau sé hlustað.“
Virði hjúkrunar
Þegar fólk eldist þá fylgja stundum geðræn einkenni á borð við kvíða og þunglyndi en slík einkenni eru ekki merki um heilbrigða öldrun, ekki frekar en heilabilun og óráðs- eða geðrofseinkenni. Dúdda bendir á að þegar um er að ræða fjölþættan vanda, marga undirliggjandi sjúkdóma, fjöllyfjanotkun og hrumleika, þá sé hjúkrun mjög mikilvæg: „Það eru til þekkt meðferðarlíkön innan öldrunargeðhjúkrunar sem ég hef haft til hliðsjónar við þróun hjúkrunar innan teymisins. Til dæmis „the 4Ms framework“ þar sem lögð er áhersla á „what Matters, Medication, Mentation and Mobility“ (það sem máli skiptir, lyf, hugræna getu og hreyfanleika). Markmiðið með þessum ramma er að tryggja að aldraðir fái einstaklingsmiðaða umönnun sem eykur líkur á betri heilsu og vellíðan.“
Saga öldrunargeðhjúkrunar er frekar stutt en Dúdda hefur haft ánægju af að kynna sér þau fræði: „Í minni stuttu leit hef ég komist að því að Dr. Mary Starke Harper er með þeim fyrstu sem sá til þess að öldrunargeðhjúkrun varð sérfræðinám upp úr 1970. Hún var virtur hjúkrunarfræðingur í Bandaríkjunum sem vann meðal annars í því að byggja upp heilbrigðiskerfið með sinni ráðgjöf. Hún fann og sá að þörf væri á því að öldrunarhjúkrun og geðhjúkrun þyrftu að samtvinnast og varð talskona þess að byggja upp hóp öldrunargeðhjúkrunarfræðinga. Vegna þessa eru nú til samtök öldrunargeðhjúkrunarfræðinga í Bandaríkjunum sem hafa það markmið að bæta geðheilsu aldraðra þar í landi. Ég sé fyrir mér að halda áfram að grúska og verða sjálf sérfræðingur í öldrunargeðhjúkrun hér á landi og halda þá áfram að vinna í því að veita samfélaginu það sem þarf í takt við tímann og fólksfjölgunina,“ segir hún að lokum.
Trúnaðarmaðurinn
Nafn: Hugrún Eva Valdimarsdóttir
Aldur: 34 ára
Starf: Hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni á Akranesi
Umsjón: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Hvenær og hvar og hófst þú störf sem hjúkrunarfræðingur?
Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 2017 og byrjaði að vinna á meðgöngu- og sængurlegudeild strax eftir útskrift. Samhliða náminu starfaði ég á barnadeild, gjörgæsludeild og á hjúkrunarheimilum á landsbyggðinni.
Hversu lengi hefur þú verið trúnaðarmaður?
Ég hóf störf á heilsugæslunni á Akranesi fyrir rúmlega ári síðan og hef verið trúnaðarmaður síðan í janúar á þessu ári. Ég var líka trúnaðarmaður á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Höfn í Hornafirði frá 2020 til 2023 þegar ég starfaði þar.
Hvað ertu tengiliður fyrir marga hjúkrunarfræðinga sem trúnaðarmaður?
Við erum þrettán hjúkrunarfræðingar sem hér störfum.
Hefur þú sótt þér fræðslu eða námskeið sem nýtist þér sem trúnaðarmaður?
Já, ég hef farið á trúnaðarmannaráðstefnur og trúnaðarmannanámskeiðin sem hefur reynst mér vel. Svo hef ég sökkt mér ofan í launatöflur og lesið kjarasamninga vel.
Hvaða námskeið stendur upp úr og hefur gagnast þér best?
Trúnaðarmannanámskeiðin hafa verið mjög gagnleg og ég verð líka að nefna að ég hef samt lært mest á því að ræða við þær sem starfa á kjarasviði Fíh ef upp koma mál sem ég fæ álit eða aðstoð hjá þeim með.
Hefur það eflt þig sem starfskraft og/eða manneskju að vera trúnaðarmaður?
Já, mér finnst það hafa eflt mig mikið. Þá sérstaklega hvað varðar að standa á mínu og ég er betur meðvituð um að gefa ekki vinnuna mína. Það hjálpar líka mjög mikið að þekkja vel kjarasamninga hjúkrunarfræðinga og hafa þá alltaf á bak við sig.
Hvaða áskorunum mætir þú helst sem trúnaðarmaður á vinnustað?
Mér finnst ég aðallega mæta skilningsleysi hjá framkvæmdastjórum stofnana, þeim sem horfa bara á excel-skjalið og skipuritið. Í því samhengi finnst mér oft gleymast að við erum manneskjur og skjólstæðingar okkar eru líka manneskjur, það virðist oft skorta skilning á því.
Hugrún ásamt börnum sínum.
Nefndu þrjá eiginleika sem góður trúnaðarmaður þarf helst að hafa?
Hann þarf að vera heiðarlegur, áreiðanlegur og ákveðinn að mínu mati.
Hvað er það besta við starf þitt?
Mannlegi þátturinn, að vera í samskiptum við og fá að kynnast fólki og þegar maður sér árangur og að skjólstæðingum líður betur, sár gróa og svo mætti lengi telja.
Hvernig tekstu á við erfið mál sem upp koma á vinnustaðnum?
Ég reyni fyrst og fremst að vera eins hlutlaus og ég mögulega get og sæki stuðning við að leysa erfið mál hjá Fíh.
Hver eru áhugamálin utan vinnutíma?
Mér finnst rosalega gott að sitja og púsla og hlusta á gott hlaðvarp eða hljóðbók, skreyta kökur eða sauma út, annars reyni ég líka að komast á crossfit-æfingu þegar tækifæri gefst.
Hver er þín fyrirmynd í lífinu?
Vigdís Finnbogadóttir og Ragga Gísla.
Fallegasti staður á Íslandi?
Dettifoss.
Hvers vegna fórstu í hjúkrunarfræði?
Það var aldrei planið að verða hjúkrunarfræðingur, ég stefndi alltaf á að fara í læknisfræði en þegar ég kynnti mér bæði störfin
nánar áttaði ég mig á því að líklega ætti hjúkrunarfræði betur við mig svo ég ákvað að slá til og skráði mig í hjúkrunarfræði.
Hvað var það besta við námsárin?
Allir samnemendurnir, það myndast svo sterk tengsl því við vorum öll að berjast í gegnum krefjandi nám á sama tíma.
Finnst þér eitthvað hafa vantað í námið?
Nei, ekki neitt námslega séð en það vantaði oft meiri sveigjanleika og þá sérstaklega fyrir nemendur sem voru með fjölskyldu.
Langar þig í framhaldsnám í hjúkrun?
Ég er byrjuð í framhaldsnámi og er búin með eina önn í meistaranámi í krabbameins- og líknarhjúkrun og ég stefni á að klára það hægt og rólega á næstu árum.
Gætir þú hugsað þér að starfa við fagið í öðru landi?
Já, það hefur blundað í mér lengi að fara til Noregs eða Svíþjóðar og prófa að starfa sem hjúkrunarfræðingur í öðru landi og hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.
Draumastarfið?
Að starfa í líknarteymi við ráðgjöf og annað varðandi líknar- og lífslokameðferðir
Hver eru markmið fyrir 2025?
Fjölga gæðastundum með drengjunum mínum, hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í haust og byrja aftur í masters-náminu mínu.
Hugrún á leiðinni á vakt.
Háskólakennarinn Arnrún Halla Arnórsdóttir
Kveður kennarastarfið eftir 20 ár við H.A.
Texti: Sigríður Elín Ásmundsdóttir | Myndir: Úr einkasafni
Menntun: Hjúkrunarfræði B.Sc.-gráða, kennslufræði dipl.ed, heilbrigðisog lífsiðfræði M.Sc., heimspeki ½ M.A. og væntanleg M.Phil.-doktorsgráða í hagnýtri siðfræði.
Starfsheiti: Aðjúnkt við Hjúkrunarfræðideild, heilbrigðis-, viðskiptaog raunvísindasvið Háskólans á Akureyri.
Hvernig myndir þú lýsa þér í fimm orðum?
Skipulögð, jákvæð, kröftug, nákvæm og metnaðarfull.
Af hverju hjúkrunarfræði?
Af því ég elti ástina til Akureyrar og valdi úr fimm greinum sem voru þá í boði við Háskólann þar. Líklega var valið byggt á gömlum draumi um læknisfræði en engu síður var það svolítið blint. Þetta er þó ákvörðun sem ég hef aldrei séð eftir enda þroskaði bæði námið og starfið mig mjög sem manneskju og víkkað sjóndeildarhringinn. Ég uppgötvaði líka fljótt að hjúkrunarfræðin átti líklega mun betur við mig en læknisfræðin.
Af hverju kennsla frekar en klíník?
Ég var nú lengi í klíník meðfram störfum mínum sem háskólakennari, líklega ein 15 ár, en þá snéri ég mér alveg að kennslunni og þar á ég heima. Ég hef mikinn metnað sem kennari og hef alltaf lagt áherslu á að skila hjúkrunarfræðinemum eins vel undirbúnum fyrir raunveruleika starfsins og hægt er. Þannig hefur áhersla mín á samskipti sem faglegan færniþátt starfsins ekki farið fram hjá neinum sem hafa setið tíma
hjá mér. Að eiga í góðum og valdeflandi samskiptum við skjólstæðinga er grunnur þess að geta byggt upp meðferðarsamband sem gagnast skjólstæðingum og áskorunum út frá þeirra forsendum.
Hver er þín sérgrein?
Ég mundi telja að siðfræði heilbrigðisstétta væri mín sérgrein en einnig heilsugæsluhjúkrun, heimahjúkrun, öldrunarhjúkrun og sérstaklega hjúkrun fólks með heilabilun. Þarna liggur bæði mín klíníska reynsla sem og áherslur mínar í kennslu og rannsóknum.
Hvað heillaði þig við þessar sérgreinar?
Fyrsta klíníska námið mitt var á lokaðri deild fyrir fólk með heilabilun. Ég var tvítug, algjörlega blaut á bak við bæði eyrum og hafði varla komið inn á sjúkrahús, hvað þá inn á svona deild. Ég grét reyndar á hverjum degi fyrstu vikuna en þarna heillaðist ég af þeirri krefjandi hjúkrun sem hjúkrun þessa skjólstæðingahóps er. Þarna sá ég líka hvað umönnun þessara einstaklinga skiptir gríðarlega miklu því einkenni sjúkdóma eins og alzheimer koma mismunandi fram hjá einstaklingum og hægt er að búa til falleg og gefandi stundir sem færa þeim ró í sinni ringulreið. Þá er umönnun fjölskyldna fólks með heilabilun líka eitthvað sem er mikil áskorun en hægt er að hafa svo heilandi áhrif ef rétt er að farið og styðja fólk í gegnum þá sorg sem fer af stað þegar ástvinur greinist með sjúkdóm sem veldur heilabilun. Ég hef mesta reynslu í öldrunarhjúkrun sem að mínu áliti er fjölbreyttasta og skemmtilegasta hjúkrunin sem þjálfar bæði yfirsýn og innsæi hjúkrunarfræðingsins. Öldrunarhjúkrun heillaði mig frá upphafi og ég vildi bara vera í henni í náminu mínu og fékk bágt fyrir enda átti ég að æfa mig í alvöruhjúkrun, fékk ég oft að heyra. Þetta viðhorf lýsir þröngsýni og þekkingarleysi á öldrunarhjúkrun og ég vona að þetta viðhorf sé að breytast, ég ræði við nemendur mínar um mikilvægi
þessarar hjúkrunar enda er hún vaxandi grein miðað við mannfjöldaspár og hækkandi meðalaldur. En mín sérgrein er nú líka siðfræði heilbrigðisstétta og notenda, þar liggur öll mín viðbótarmenntun utan hjúkrunarfræðinnar. Í siðfræðinni fann ég svolítið svörin sem mig vantaði þegar ég kláraði hjúkrunarfræðina, því tók ég meistarapróf mitt í heilbrigðis- og lífsiðfræði og er nú við það að verða doktor í hagnýtri siðfræði
Þyrstir þig í fleiri háskólagráður?
Ég er nú líkalegast að verða södd, enda langþráð doktorsgráða í farvatninu. Ég hugsa að ég bæti við mig stjórnun ef ég fer í meira nám en í bili ætla ég bara að lesa glæpasögur og ljóð.
Ef þú hefðir ekki lært hjúkrunarfræði hvað hefðir þú þá lært?
Ætli ég hefði ekki endað í bókmenntafræði, hugurinn leitaði þangað þegar lífið tók U-beygju. Ég hefði svo líklega haldið áfram námi í einhverju skapandi, kannski handritaskrifum. Mig dreymir enn um að skrifa leikrit eða gefa út ljóðabók. Þá togaði leiklistin alltaf í mig en ég hefði líklega ekki valið hana þar sem mig skorti sjálfstraustið sem hjúkrunarfræðin færði mér svo.
Hvaða fög kennir þú?
Ég kenni siðfræði heilbrigðisstétta, vöxt og þroska, samskipti og faglegt tengsl, umönnun fólks með heilabilun í öldrunarhjúkrun, samskiptafræði og krefjandi atferlistruflanir, siðfræði í þjónustu við fólk með heilabilun og svo einstaka tíma í öðrum námskeiðum eins og siðfræði rannsókna á meistarastigi í námskeiði þar.
Hvað er það besta við kennarastarfið?
Að sjá þegar það kviknar á perunni hjá nemanda. Það er fátt sem toppar það. Þegar ég sé að ég er að ná til nemenda og að það sem ég segi, og sú færni sem ég er að leggja inn hjá þeim, muni skila sér beint til framtíðarskjólstæðinga þeirra. Það er best.
Hver var þinn uppáhaldskennari
á námsárunum?
Siggi Bjarklind sem kenndi mér í hjúkrunarfræðinni í H.A. átti huga minn og hjarta. Hann kenndi með hjartanu og gafst aldrei upp á að ögra okkur nemendum og hvetja okkur áfram. Hann var líka alltaf léttur og skemmtilegur og lagði áherslu á að námið ætti að vera skemmtilegt. Það er eitthvað sem ég hef einnig lagt ríka áherslu á í minni kennslu og það kemur beint frá honum. Þá fannst mér Hafdís Skúladóttir, lektor við H.A., líka alveg einstakur kennari. Góð og uppbyggjandi alla tíð og lagði svo ríka áherslu á mikilvægi réttrar nálgunar gagnvart skjólstæðingum og að starfið snérist um þá en ekki okkur. Hún kenndi mér svo margt og ég var svo heppin að fá svo að kenna við hlið hennar þegar ég hóf störf sem kennari við H.A. Hún er algjör fyrirmyndarkennari.
Hverjar eru helstu áskoranir háskólakennarans?
Áskoranir eru eitthvað sem ég hef alltaf horft á með jákvæðum augum. Mínar helstu áskoranir eru þær að ná til nemenda og hvetja þá áfram í erfiðu námi og undirbúa þá fyrir krefjandi störf, án þess að þreyta þá um of. Kenna þeim að hlúa vel að sjálfum sér en um leið að gefa af sér í starfi. Þannig er hægt að höndla betur þá streitu sem starfið getur valdið. Ef þetta er auðvelt þá ertu að gera eitthvað vitlaust, segi ég alltaf. Finnst það bara góð mantra og eitthvað sem mikilvægt er að hafa hugfast. Að eitthvað sé krefjandi er jávætt og ég reyni að gera mína nemendur meðvitaða um það.
Aðrar áskoranir og frekar neikvæðar eru líklega akademíska umhverfið sem gefur voða lítið fyrir það ef þú ert góður kennari en þar hefur öll mín orka legið undanfarin 20 ár. Það hefur hins vegar ekki skilað mér neinu í akademísku tilliti, þá er ég að vísa í rannsóknarstig, framgang í starfi o.s.frv., sem mér finnst fremur órökrétt og því hef ég nú lagt háskólakennsluna á hilluna og kennt minn síðasta tíma í H.A. í bili.
Uppáhaldskennslustofan þín að kenna í?
Ég myndi segja M101 í H.A. sem er fyrirlestrarsalur með upphækkuðum bekkjum fyrir nemendur. Þar hef ég náð besta spjallinu við nemendur og lært að kenna þannig að ég nái til allra í salnum.
Eitthvert fag sem þér finnst vanta í námið?
Já, meiri kennslu í samskiptum og samtvinningu þeirra við klínískt nám. Þá er ég ekki að segja að ekkert sé talað um samskipti í klíníska hluta námsins en mér finnst oft of mikil áhersla á verklega þætti og samskiptaþátturinn gleymist stundum. Dæmi má nefna ef nemandi kann að taka blóðþrýsting en hvað á að segja við skjólstæðing áður, á meðan og eftir? Mér finnst vanta að talað sé meira um samskipti sem raunverulegan færniþátt sem hægt sé að þjálfa og í raun eitthvað sem þarf stöðugt að vera að þjálfa allan starfsferilinn.
Hressasti kennarinn á kennarastofunni?
Í minni tíð í hjúkrun við H.A. var það pottþétt Siggi Bjarklind. Núna held ég að bæði Kristín Linda og Svala Berglind slái mér við. Ég geri þó mitt besta og hef verið með óumbeðin uppistönd um allt milli himins og jarðar fyrir nemendur t.d um breytingaskeið kvenna. Hver er eftirminnilegasta kennslustundin?
Í gegnum mitt nám er það án nokkurs vafa verklegt sjúkrapróf hjá Ingvari Teits í heilsufarsmati. Ég tók þáverandi kærasta með mér í prófið sem var utan hefðbundins próftíma. Og já, ég fékk kviðskoðun og Ingvari fannst ég ekki finna nárapúlsinn alveg nógu vel svo hann vippaði sér niður í nára kærastans sem lá fölur og stífur í sjúkrarúminu. Ógleymanlegt augnablik.
Hjá mér sjálfri er það líklega þegar ég ætlaði að vera töff og skrifa orðið hámhorf á ensku á glærurnar mínar og skrifaði bench watching sem er víst eitthvað allt annað. Það var mikið hlegið en lesblindan mín getur búið til mjög skemmtilega brandara, að mér forspurðri. Annars er alltaf eitthvað óvænt í kennslustundum hjá mér, galsinn fylgir mér alltaf og aldrei að vita hvert hann leiðir mig og nemendur mína.
Flottasta fyrirmyndin þín í hjúkrunarfræði?
Rósa sem var kennarinn minn á öðru ári í klíníska náminu mínu á lyfjadeildinni á Akureyri. Hún kenndi mér margt af því sem ég bý enn að í dag og þá sérstaklega hvað varðar fyrirmyndarsamskipti við bæði skjólstæðinga og aðstandendur. Þá á Birna Ingólfsdóttir sjúkraliði sérstakan stað í hjúkrunarhjartanu mínu því hún kenndi mér allt sem ég kann í samskiptum við fólk með heilabilun, Birna er mikil fagmanneskja.
Eiginleikar sem þú tileinkaðir þér í kennarastarfinu?
Fyrst og fremst að koma hreint og beint fram, vera einlæg í samskiptum við nemendur og sýna metnað í að matreiða námsefnið þannig að það kveiki áhuga hjá nemendum. Heiðarleiki, traust, einlægni og virðingarverð framkoma eru eiginleikar sem ég hef lagt áherslu á að tileinka mér og einnig að efla ábyrgðartilfinningu nemenda á sínu námi.
Hvernig tilfinning er að útskrifa nemendur?
Stórkostleg. Að sjá nemendur sem sátu sveittir yfir siðfræðinni með mér á fyrsta ári í samkeppnisprófum, koma svo til mín á öðru ári, leitandi og fróðleiksþyrsta í samskipti og fagleg tengsl, sem koma svo aftur til mín á þriðja ári, þá reynslunni ríkari. Að sjá þá svo þegar þeir eru komnir á fjórða ár í öldrunarhjúkrun,
þar sem styrkleikar hvers og eins koma í ljós og metnaðurinn skín úr augum þeirra er gefandi. Mér finnst algjör forréttindi að hafa fengið að fylgja eins mörgum nemendum í gegnum námið og ég hef fengið að gera.
Hvernig mætti bæta hjúkrunarfræðinámið að þínu mati?
Með aukinni áherslu á klíník í meistara- og doktorsnámi. Punktur. Þó að allir þurfi að kunna að lesa fræðilegar greinar, tileinka sér gangreynda þekkingu og hafa grunn í rannsóknum á heilbrigðissviði, þá verður að mínu mati að gefa nemendum aukið tækifæri til að sérhæfa sig klínískt og halda tengslum við raunveruleikann á gólfinu. Það er mikilvægt bara til að sjá hvað það er sem þarf að rannsaka betur og hverju þessar rannsóknir eiga að skila skjólstæðingunum sjálfum. Ég myndi vilja sjá aukna áherslu á sérþekkingu hjúkrunarfræðinga á aðlögun og valdeflingu þegar sjúkdómar ryðja sér inn í líf fólks. Þar liggur jú okkar sérþekking og henni má lyfta hærra.
Hvernig myndir þú sannfæra áhugasama um að skella sér í nám í hjúkrunarfræði?
Ef þú vilt fara í þroskandi nám, með óendanlega fjölbreyttum möguleikum á framtíðarstarfi þá skundar þú í hjúkrunarfræði. Þetta er nám sem gefur nemendum ótrúlega fjölbreyttan grunn á mismunandi sérsviðum strax í grunnnáminu sem gerir það að verkum að nemendur eru betur undirbúnir til að velja sér starfsvettvang sem hentar þeirra styrkleikum og áhugasviði.
Hvernig nærir þú andann?
Ég fer út að ganga með hundana mína, helst upp á fjöll. Horfi á heimildamyndir og þætti um allt milli himins og jarðar. Les, allt frá ljóðum til fræðigreina. Faðma fjölskylduna mína. Fer til útlanda, í góðum hópi eða bara ein þar sem ég sit á þá kaffihúsi eða á strönd og les og fylgist með mannlífinu. Að lokum verð ég að nefna hvað það er nærandi að fá hlátursköst með vinkonum.
Hvað gleður þig mest í lífinu?
Að sjá afkvæmin mín þroskast og dafna vel og fallega eins og þau hafa sem betur fer gert, þar er ég heppin. Að eiga falleg andartök með eiginmanninum. Að sinna starfi mínu vel og finna þakklæti nemenda. Að horfa á og lesa brandara um þetta dásamlega breytingaskeið sem ég er á.
Hvernig fáum við fleiri karlmenn til að læra hjúkrun?
Með því að hætta að tala um karlmenn í hjúkrun, tala heldur bara um hjúkrunarfræðinga. Í þessu samhengi situr samtal sem ég átti við einn karlkyns nemenda minn svo í mér en hann sagði þessa setningu: Ég þoli ekki að heyra að ég sé góður karlkyns hjúkrunarfræðingur – ég vil bara vera góður hjúkrunarfræðingur. Ég legg mikla áherslu á það í minni kennslu að færni í umhyggju hefur ekkert með kyn að gera. Það skiptir engu máli af hvaða kyni þú ert, það skiptir máli hvernig manneskja þú ert, þannig að ég segi bara niður með kynjagleraugun og upp með mennskugleraugun.
Ég held líka að það skipti máli að halda umræðunni um starfið uppi því hjúkrunarfræðingar eru ekki kvennastétt heldur hópur fræðilegra sérfræðinga sem gegna lykilhlutverki í heilbrigðiskerfinu, frá stjórnun til framkvæmda. Þá held ég að fleiri karlar komi í hjúkrun.
Ef þú ættir eina ósk fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi?
Auka traust milli fagstétta og minnka flækjustigið fyrir skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra. Kerfin styðja ekki nógu vel við fólk í oft, erfiðustu áskorunum lífsins.
Falin perla í náttúru Íslands?
Verð að nefna þessar þrjár; Reykjaströnd í Skagafirði, Reykjadal í Þingeyjarsveit og Kópasker í Öxarfirði.
Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu þínu?
Hvíla mig eftir rosalegan vinnuvetur, ég ætla skreppa erlendis og sinna fjölskyldunni, jafnt dýrum sem mönnun. Ég ætla líka að endurskoða mínar sjálfsumhyggjurútínur sem eru allar í ólagi eftir mikið en skemmtileg álag undanfarin ár.
„Að eiga í góðum og valdeflandi samskiptum við skjólstæðinga er grunnur þess að geta byggt upp meðferðarsamband sem gagnast skjólstæðingum og þeirra áskorunum, út frá þeirra forsendum.“
Formannsskipti á aðalfundi
Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga var haldinn fimmtudaginn 15. maí á Hilton Reykjavík Nordica og í fjarfundi. Við lok fundarins tók Helga Rósa Másdóttir við sem formaður félagsins en hún var kjörin með tæplega 64% atkvæða hjúkrunarfræðinga í mars síðastliðnum. Í ræðu sinni á vel sóttum aðalfundi þakkaði hún Guðbjörgu Pálsdóttur, fyrrverandi formanni Fíh, fyrir sín störf í þágu félagsins síðustu níu ár. Aðalfundinum lauk svo með því að Guðbjörg var kvödd með óvæntum fjöldasöng sem leiddur var af engum öðrum en Páli Óskari Hjálmtýssyni.
Ritstýran var á staðnum og fangaði stemninguna. Leyfum myndunum að tala sínu máli.
Guðbjörg Pálsdóttir gaf Helgu Rósu Másdóttur barmnælu með merki félagsins að gjöf þegar hún tók við sem formaður.
Helga Rósa Másdóttir tekur formlega við sem formaður Fíh.
Páll Óskar kom Guðbjörgu Pálsdóttur skemmtilega á óvart þegar hann mætti óvænt á sviðið þegar hún var nýbúin að slíta fundinum.
Páll Óskar Hjálmtýsson var leynigestur á fundinum. Hann leiddi fjöldasöng í salnum og sumir dilluðu sér í takt við tónlistina.
Þær Steinunn, María og Eva Hjörtína tóku glaðbeittar á móti hjúkrununarfræðingum þegar þeir mættu á aðalfundinn á Hilton.
Þessir hjúkrunarfræðingar fengu rannsóknarstyrk B-hluta Vísindasjóðs.
Mynd: Eyþór Árnason.
Fimm hjúkrunarfræðingar fengu hvatningarstyrk.
Alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga fagnað með göngu á Úlfarsfell
Texti og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Alþjóðlegur dagur hjúkrunarfræðinga er 12. maí og Fíh ákvað að fagna deginum með því að hóa hjúkrunarfræðingum saman í göngu sem er nýbreytni hjá félaginu. Yfir hundrað hjúkrunarfræðingar hittust við rætur Úlfarsfells þar sem þær Dagmar Heiða Reynisdóttir og Dóra Mjöll Hauksdóttir, hlaupagarpar og hjúkrunarfræðingar, sáu um upphitun áður en hópurinn hélt af stað upp á Úlfarsfell. Fínasta gönguveður var þótt sólin léti ekki sjá sig. Gleðin var við völd og góð stemning í hópnum sem var sammála um að gera þetta að árlegum viðburði á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga enda sérlega viðeigandi að hittast og eiga heilsueflandi og nærandi samveru í tilefni dagsins.
Ritstýran mætti á svæðið í gönguskónum og myndaði gleðina í göngunni.
Ný viðmið um æðri menntun og prófgráður
– áhrif á nám í hjúkrunarfræði
Vakin er athygli hjúkrunarfræðinga á því að 31. október sl. voru ný viðmið um æðri menntun og prófgráður auglýstar í B-deild
Stjórnartíðinda og tóku þá þegar gildi. Viðmið frá því í maí 2011 féllu þar með úr gildi. Viðmiðunum er einkum ætlað að skýra hæfni- og gæðaramma háskólanáms hér á landi og samræma íslenska hæfnirammann þeim evrópska. Nýju viðmiðin skerpa á muni á prófum til prófgráðu s.s. BS- og MS-/MA-gráðu og námi sem veitir ekki aðgang að næsta námsstigi. Áhugasömum er bent á að kynna sér vel þessi viðmið. Nýju viðmiðin sem gilda um alla háskóla á Íslandi, hafa í megindráttum tvenns konar áhrif á nám við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands.
A. Örnám í stað viðbótardiplóma
Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild hefur boðið upp á stutt 30 eininga viðbótardiplómanám á meistarastigi á sérsviðum hjúkrunar og heilbrigðisvísinda í fjölmörg ár. Í náminu tileinkar nemandi sér sérhæfða þekkingu og skilning á tilteknu sérsviði hjúkrunarfræði. Dæmi um námsleiðir eru hjúkrun langveikra, hjúkrun aðgerðasjúklinga og hjúkrunarstjórnun.
Nýju viðmiðin kveða á um að lokapróf á meistarastigi verður að vera að lágmarki 60 einingar og er þá talað um lokapróf á meistarastigi, þannig að ekki er heimilt lengur að bjóða upp á 30 eininga viðbótardiplómanám.
Hins vegar kveða breytingarnar á um að hægt sé að bjóða upp á svokallað örnám sem getur verið allt að 59 einingar. Hér eftir verður því boðið upp á 30 eininga örnám til sérhæfingar. Örnám má nýta upp í námslok á sama námsstigi en námslok geta aldrei byggst einvörðungu á örnámi samkvæmt viðmiðunum. Þeir sem lokið hafa 30 eininga viðbótardiplómanámi geta líkt og áður fengið þær einingar metnar inn í meistaranám.
Deildin mun jafnframt bjóða upp á styttra örnám sem og 60 eininga lokapróf á meistarastigi. Við bendum hjúkrunarfræðingum á að fylgjast vel með námsframboði deildarinnar.
B. Ekki verður unnt að meta 30 einingar úr BS-námi í hjúkrunarfræði inn í meistaranám í hjúkrunarfræði frá og með árinu 2027 Undanfarin níu ár hefur sú regla verið í gildi við Háskóla Íslands, að „Nemandi sem lokið hefur fjögurra ára B.S.-námi í hjúkrunar-
fræði getur fengið allt að 30 einingar metnar inn í meistaranám í hjúkrunarfræði...“ Nýju viðmiðin kveða á um að ekki megi lengur meta námseiningar af lægra háskólaþrepi sem ígildi eininga á hærra háskólaþrepi, séu þær hluti af kjarnahæfni námsins. Hins vegar er eftir sem áður heimilt að meta valfög á öðru námsstigi sem ekki mynda kjarna námsgráðunnar og sem styðja við þverfaglegt nám. Þetta þýðir að áfram má samkvæmt ákveðnum skilyrðum hverju sinni meta ákveðinn fjölda eininga úr grunnnámi t.d. úr sálfræði eða félagsfræði inn í nám í hjúkrunarfræði eða ljósmóðurfræði á meistarastigi.
Að beiðni deildarforseta hefur deildinni verið veittur aðlögunartími til haustsins 2026, að þessum viðmiðum. Hjúkrunarfræðingar sem hefja meistaranám árin 2025 og 2026 geta því, líkt og undanfarin ár, fengið allt að 30 einingar metnar úr BS-námi sínu. Athygli hjúkrunarfræðinga er vakin á þessu.
Háskóli Íslands hefur í áratugi verið í forystu í Evrópu og á heimsvísu, hvað nám í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði varðar, og mun leggja kapp á að halda þeirri vegferð áfram. Hjúkrunarog ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands vinnur nú, ásamt Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri og í samstarfi við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og stjórnendur og leiðtoga í hjúkrun, að endurskoðun námskrár í hjúkrunarfræði þannig að áfram megi bjóða upp á öflugt gæðanám sem mætir þörfum framtíðar. Það eru því spennandi tímar fram undan. Frekari upplýsingar um námsframboð má finna á heimasíðu deildarinnar https://hi.is/hjukrunar_og_ljosmodurfraedideild og hægt er að senda fyrirspurnir um nám á hjukrun@hi.is
Helga Bragadóttir, prófessor og deildarforseti
Herdís Sveinsdóttir, prófessor og formaður rannsóknanámsnefndar Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar, Heilbrigðisvísindasviðs, Háskóla Íslands
Kynning fyrir heilbrigðisstarfsfólk
Stórkaup býður upp á kynningar og ráðgjöf við innkaup og notkun á ABENA þvaglekavörum.
Með kynningunni vilja sérfræðingar Stórkaups tryggja að hver einstaklingur fái vöru við hæfi sem stuðlar að betri nýtingu og meiri þægindum. Rétt notkun á réttri vöru leggur grunn að jákvæðri upplifun notenda og hámarkar árangur vörunnar.
Markmiðið er að gera innkaup hagkvæmari og notkun auðveldari bæði fyrir notendur og þjónustuaðila.
Bókaðu kynningu fyrir þinn vinnustað í síma 515 1500 eða á storkaup@storkaup.is
Stillanlegir þrýstingsvafningar frá Juzo
Áhrifarík meðferð við bjúg og langvinnum sárum.
Juzo stillanlegir þrýstingsvafningar eru byltingarkennd vara til meðferðar á bjúg á útlimum og langvinnum sárum. Hönnun vörunnar einfaldar til muna hefðbundna vafningsmeðferð, bæði sparar hún mannafla og mun skemmri tíma tekur að vefja meðferðarsvæðið. Með einfaldari vafningsmeðferð er einnig stuðlað að auknu sjálfstæði einstaklinga og betri meðferðarheldni sem skilar sér í betri árangri.
Þrýstingsvafningana má nota allan sólarhringinn. Ástæðan fyrir því er að efnið hefur háan vinnuþrýsting en lágan hvíldarþrýsting. Þrýstingurinn er 30-60mmHg eða sem svarar þrýstingsflokki 3-4. Í daglegu amstri gefa vafningarnir mjög góðan þrýsting en í hvíld er lítill þrýstingur og því ekki of mikið álag á kerfið. Hár vinnuþrýstingur er áhrifaríkasta leiðin til að vinna á bláæðasárum og bjúg. Vafningarnir koma í stöðluðum stærðum.
Þrýstingsvafningana er hægt að aðlaga að breyttu ummáli á einfaldan og fljótlegan hátt. Sterkur riflás er á vafningunum sem hægt er að færa til að aðlaga þrýstingsmeðferðina að þörfum hvers og eins. Einnig er hægt að bæta við framlengingu ef þörf er á. Herða þarf vafningana reglulega til halda uppi þrýstingi ef því sem bjúgurinn minnkar.
Sérstök hönnun á endum vafninganna kemur í veg fyrir myndun bjúgs á milli vafningslaga. Lítil grip efst og neðst
á vafningunum auðvelda að koma þeim haganlega fyrir. Ef opin sár eru á því svæði sem verið er að meðhöndla verður fyrst að hylja þau sárasvæði með viðeigandi sára umbúðum áður en vafningarnir eru settir á. Mælt er með að nota Juzo undirsokk til að halda sáraumbúðum á sínum stað undir þrýstingsvafningunum. Undirsokkurinn er úr mjúku efni og án þrýstings.
Þrýstingsvafningar á fætur skiptast í fjóra hluta; fyrir læri, hné, fótlegg og fót. Þrýstingsvafningar fyrir hendur skiptast í tvo hluta; fyrir handlegg og hendi.
Hægt er að snúa vafningunum við til að velja lit, þeir eru eru svartir á annarri hliðinni og drappaðir á hinni. Vafningana má þvo í þvottavél á 30°C
Stuðlaberg heilbrigðistækni ehf. býður fagaðilum og almenningi vandaðar heilbrigðisvörur og faglega ráðgjöf. Meðal starfsfólks eru hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfi, sjúkraþjálfari, þroskaþjálfi og aðrir sérfræðingar í velferðartækni.
Í sýningarsal Stuðlabergs á efstu hæð Stórhöfða 25 er fjölbreytt úrval hjálpartækja til sýnis og prófunar. Stuðlaberg býður margskonar hjálpartæki sem eru í samningi við Sjúkratryggingar.
Gígja Grétarsdóttir og Úlfhildur Guðjónsdóttir hjúkrunarfræðingar Stuðlabergs sinna ráðgjöf vegna Juzo þrýstingsvara.
Fyrirspurnir sendist á stb@stb.is.
„ Við hjá Bjargi endurhæfingu höfum mjög góða reynslu af Juzo vafningum bæði fyrir hendur og fætur. Meðferðin býður upp á þrýstingsmeðferð bæði á nóttu og degi og er sú eina sem býður upp á það hér á landi. Það getur gjörbreytt meðferð og árangri enda mikilvægt fyrir marga að nota vafninga allan sólarhringinn.
Það að einstaklingar geti aukið þrýstinginn jafnóðum og bjúgur minnkar er líka lykilatriði til að ná meiri árangri og það er ekki hægt með stöðluðum eða sérsaumuðum sokkum og ermum.“
Þórdís Úlfarsdóttir, sjúkraþjálfari á Bjargi endurhæfingarstöð á Akureyri
Áhrif fiskroðs á gróanda húðtökusvæða: Slembuð íhlutunar forrannsókn
doi: 10.33112/th.0101.2.1
ÚTDRÁTTUR
Tilgangur
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna áhrif fiskroðs á þætti sem eru mikilvægir fyrir gróanda húðtökusvæða samanborið við notkun gataðrar filmu. Algengast hefur verið að nota gataða filmu á húðtökusvæði en áhrif fiskroðs á þætti tengda gróanda húðtökusvæða hafa ekki verið skoðuð áður hér á landi.
Aðferð
Framskyggn slembuð íhlutunar forrannsókn. Þýðið voru allir á Íslandi 18 ára og eldri sem fóru í húðágræðslu á Landspítala, frá september 2022 til maí 2023 og var hverjum þátttakanda fylgt eftir í 14 daga. Sáramatstækið TIME, matslisti á gróanda húðtökusvæða, 5D kláðakvarðinn, mat á næringarástandi frá Landspítala og verkjakvarði (0-10) voru notuð. Einnig var spurt um aldur, kyn, reykingar, undirliggjandi sjúkdóma og lyf.
Niðurstöður
Alls tóku 16 einstaklingar þátt í forrannsókninni. Þeim var slembiskipt í tvo hópa, íhlutunarhóp sem fékk fiskroð (n=8) á húðtökusvæðið og samanburðarhóp sem fékk gataða Tegaderm®-filmu (n= 8). Meðalaldur var 70 ár (spönn 37-90). Ástæður fyrir húðflutningi voru krabbamein (n=8), slys (n=7) og sýking í kjölfar aðgerðar (n=1). Hjá sex þátttakendum af 16 gréru sárin á tveimur vikum. Allir voru með einn eða fleiri þætti sem geta haft letjandi áhrif á gróanda. Algengustu áhrifaþættir voru: aldur, krabbamein og blóðþynning. Af þeim sex sem gréru voru fjórir með fiskroð og voru þeir með fleiri letjandi þætti en þeir sem gréru með filmu. Einn þátttakandi með filmu fékk sýkingu í húðtökusvæði. Meðaltal verkja þeirra sem voru með filmu var hærra (M=1,7) en þeirra sem voru með fiskroð (M=0,6). Ekki var hægt að greina mun á kláða eftir tegundum umbúða.
Ályktanir
Niðurstöður þessarar forrannsóknar gefa vísbendingar um að umbúðir úr fiskroði geti reynst góður meðferðarkostur fyrir viðkvæma hópa t.d. hjá þeim sem hafa undirliggjandi sjúkdóma, eru vannærðir og á lyfjum sem geta haft áhrif á gróanda. Huga verður að þeim þáttum sem geta haft letjandi áhrif á gróanda húðtökusvæða og reyna að koma í veg fyrir fylgikvilla.
Nýjungar: Þetta er fyrsta rannsóknin hér á landi þar sem borin er saman notkun á fiskroði og Tegaderm®-filmu á húðtökusvæði.
Hagnýting: Niðurstöðurnar sýna mikilvægi þess að veita einstaklingsmiðaða meðferð og að hjúkrunarfræðingar meti þá áhrifaþætti sem geta haft letjandi áhrif á gróanda húðtökusvæða.
Þekking: Horfa verður sérstaklega á undirliggjandi sjúkdóma og áhrifaþætti gróanda sára eins og t.d. aldur og krabbamein þegar umbúðir eru valdar og veita þannig einstaklingsmiðaða meðferð.
Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Rannsóknin sýnir mikilvægi þess að samræma vinnulag/verkferla hjúkrunarfræðinga til þess að bæta þjónustu við þennan hóp einstaklinga.
Höfundar
BERGLIND ÓLÖF SIGURVINSDÓTTIR
Hjúkrunarfræðingur, MS1,2
Dr. HAFDÍS SKÚLADÓTTIR
Hjúkrunarfræðingur, Ph D1
LOVÍSA BALDURSDÓTTIR
Sérfræðingur í hjúkrun, MS2
Dr. GUNNAR AUÐÓLFSSON
Yfirlæknir2
1Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri
2Landspítali
Áhrif fiskroðs á gróanda húðtökusvæða: Slembuð íhlutunar forrannsókn
INNGANGUR
Hlutþykktar húðágræðsla (e. split-thickness skin graft) er aðgerð sem oft er framkvæmd til að hraða gróanda sára t.d. eftir slys, alvarlegar sýkingar, fullþykktar brunasár eða þegar fjarlægja þarf húðæxli. Húðágræðsla er einnig notuð þegar lítill gróandi er í sári eins og í langvinnum sárum (Asuku o.fl., 2021; Humrich o.fl., 2018). Eðlilegur sáragróandi er flókið ferli sem skiptist í fjóra fasa sem skarast: storkufasi (e. hemostasis), bólgufasi (e. inflammation), vaxtarfasi (e. proliferation) og að lokum enduruppbygging (e. remodeling) og myndun örvefs. Til að sár geti gróið verða allir fjórir fasarnir að koma fram í réttri röð og á ákveðnum tíma (Ellis o.fl., 2018; Rowan o.fl., 2015). En ýmsir fylgikvillar geta hægt á eða komið í veg fyrir gróanda sára eins og til dæmis sýking (Ratliff, 2023). Við hlutþykktar húðágræðslu verður til sár í efsta lagi húðarinnar á þeim stað þar sem húðin er fjarlægð og er nefnt húðtökusvæði (Bidigare, 2023). Húðtökusvæðið getur oft valdið meiri sársauka, kláða og óþægindum en sárið sem upphaflega átti að græða (Asuku o.fl., 2021).
Þegar árangursrík sárameðferð er veitt ættu húðtökusvæði að gróa á 10-14 dögum (Bidigare, 2023; Kazanavičius o.fl., 2017). Það er þó ekki alltaf raunin því ýmsir fylgikvillar geta komið upp sem hægja á gróanda svo sem sýkingar og ofholdgun. Að auki geta ýmsir aðrir þættir haft letjandi áhrif á gróanda sára eins og aldur sjúklings, næringarástand, undirliggjandi sjúkdómar (t.d. krabbamein og sykursýki), reykingar, verkir, kláði, stærð sárs og lyf (t.d. sterar, blóðþynning og frumuhemjandi lyf) sem einstaklingar taka að staðaldri (mynd 1) (Ratliff, 2023; Singh, o.fl., 2017). Heildrænt mat á sjúklingi er því lykilatriði til að veita fullnægjandi sárameðferð (Moor o.fl., 2019). Enn fremur geta réttar umbúðir hjálpað við að mynda kjöraðstæður fyrir gróanda sára (Bidigare, 2023; Gushiken o.fl., 2021).
Mynd 1: Þættir sem hafa letjandi áhrif á gróanda sára. (Ratliff, 2023; Singh o.fl. (2017)
Rannsóknir á húðflutningi hafa beinst að mestu að meðferð sárs sem á að græða. Færri rannsóknir skoða áhrif sáraumbúða sem geta hraðað gróanda og minnkað líkur á aukaverkunum í húðtökusvæði (Aly o.fl., 2018; Brown og Holloway, 2018; Chalwade o.fl., 2022). Hefðbundnar umbúðir sem notaðar eru á húðtökusvæði hér á landi er götuð Tegaderm®-filma (3M, e.d.) sem innri umbúðir og þurrar grisjur sem ytri umbúðir.
Í klínískri samanburðarrannsókn Dornseifer o.fl. (2011) á muninum á gataðri filmu (hefðbundinni pólýúretan filmu, tegund ekki tilgreind) og Aquacel® (n=50) kom í ljós að sár 86% einstaklinga sem meðhöndluð voru með gataðri filmu voru gróin á tíunda degi en aðeins 54% þeirra sem voru með Aquacel® sem innri umbúðir. Þeir sem voru með gataða filmu fundu marktækt minna til í húðtökusvæðinu. Kazanavičius o.fl. (2017) gerðu slembaða samanburðarrannsókn á notkun algengra umbúða á hlutþykktar húðágræðslu. Þátttakendum (n=97) var skipt jafnt upp í fjóra hópa. Bornar voru saman fjórar tegundir af umbúðum: svampur, svampur með sílíkonlagi, filma (TBF group og Mepitel-filma) og grisjur. Húðtökusvæði þeirra einstaklinga sem fengu filmuumbúðir gréru að meðaltali hraðar en þeirra sem fengu hinar þrjár tegundirnar af umbúðum. Einnig voru verkirnir sem metnir voru á verkjaskalanum VAS (e. visual analouge scale) skástir og stóðu yfir í styttri tíma hjá þeim sem fengu filmu á húðtökusvæði. Sömuleiðis þurfti færri umbúðaskipti þar sem meðhöndlað var með filmu en hjá þeim sem fengu svamp.
Vegna þess hve umbúðir eru mikilvægar við meðferð sára er brýnt að rannsaka frekar umbúðir sem hraða gróanda sára og draga úr líkum á fylgikvillum. Fiskroð frá fyrirtækinu Kerecis er affrumað þorskroð sem ríkt er af prótínum og náttúrulegum fjölómettuðum Omega-3 fitusýrum, sem hjálpa líkamanum að endurnýja skemmdan vef. Fiskroðið inniheldur bandvef sem er áþekkur mannshúð og því vel til þess fallinn að styðja innvöxt fruma (Skúli Magnússon o.fl., 2015). Ein af ástæðum þess að byrjað var að nota fiskroð á sár eru meðal annars þessar fjölómettuðu fitusýrur sem taldar eru hafa bólguminnkandi áhrif og hamlandi áhrif á bakteríur og veirur (Skúli Magnússon o.fl., 2015). Í tveimur kerfisbundnum fræðilegum samantektum erlendis á notkun fiskroðs í sárameðferð kom í ljós að sár gróa hraðar með fiskroði, sársauki er minni og betri útkoma er á örum samanborið við hefðbundna meðferð (Ibrahim o.fl., 2023; Luze o.fl., 2022).
Badois o.fl. (2019) framkvæmdu forrannsókn (n =21) á áhrifum fiskroðs á gróanda húðtökusvæða samanborið við hefðbundnar umbúðir, vaselínvættar grisjur samanber Jelonet. Niðurstöðurnar sýndu að sár þeirra sem fengu fiskroð á húðtökusvæðin (n=11) gréru helmingi hraðar en hinna sem fengu hefðbundnar umbúðir (n=10). Einnig kom fram að notkun fiskroðs dró úr sársauka og líkum á sýkingu. Enginn með fiskroð fékk sýkingu en 60% þeirra sem voru meðhöndlaðir með hefðbundnum umbúðum fengu sýkingu. Ekki kemur fram í þeim rannsóknum sem skoðaðar voru hvort þættir eins og undirliggjandi sjúkdómar, lyf eða vannæring hafi haft áhrif á gróanda sáranna sem meðhöndluð voru. Aðallega var verið að skoða hraða gróanda, verki og líkur á sýkingum en meðferð með fiskroði hefur gefið góða útkomu hvað varðar þessa tilteknu þætti.
Markmið þessarar forrannsóknar er að kanna áhrif fiskroðs á gróanda húðtökusvæða. Í fyrsta lagi verður skoðað hvort gróandi gangi hraðar fyrir sig þegar fiskroð er notað á húðtökusvæði en þegar notuð er götuð Tegaderm®-filma. Í öðru lagi verður kannað hvort fiskroð fækki tilvikum sýkingar og í þriðja lagi hvort fiskroð dragi úr verkjum og kláða. Þetta er fyrsta rannsókn sinnar tegundar á Íslandi.
AÐFERÐ
Um er að ræða forrannsókn (e. Pilot study) sem er megindleg framskyggn, slembuð íhlutunarrannsókn (e. Prospective, randomized, Intervention Study). Gagnaöflun hófst í byrjun september
2022 þegar leyfi frá Vísindasiðanefnd (VSN-22-081) og vísindarannsóknanefnd Landspítala lágu fyrir. Ákveðið var að bera saman tvenns konar viðurkenndar umbúðir, annars vegar fiskroð frá Kerecis (Skúli Magnússon o.fl., 2015) og hins vegar Tegaderm®-filmu frá 3M (3M, e.d.). Kerecis styrkti rannsóknina með því að gefa fiskroðsumbúðir. Fyrirtækið Rekstrarvörur gáfu Mepilex®-svampa (Mölnlycke, e.d.), sem notaðir voru sem ytri umbúðir. Að öðru leyti komu fyrirtækin ekki að rannsókninni. Gögn voru skráð í töflureiknisforritið Excel og var lýsandi tölfræði reiknuð þar, meðal annars tíðni, meðaltal og spönn en vegna smæðar úrtaks var ekki viðeigandi að greina gögn frekar (Polit og Becker, 2017).
Þátttakendur
Þýðið voru þeir sem voru 18 ára og eldri og fóru í húðágræðslu á Landspítala, frá september 2022 til maí 2023. Útilokaðir frá þátttöku voru einstaklingar með brunaáverka á meiri en 10% af líkamsyfirborði, á ónæmisbælandi lyfjum, á meira en 10 mg af sterum á sólarhring eða með ofnæmi fyrir fiski. Á rannsóknartímabilinu sem stóð yfir í átta mánuði komu 25 þátttakendur til greina í rannsóknina. Tveir afþökkuðu þátttöku og fimm uppfylltu ekki þátttökuskilyrði. Fengust því 16 þátttakendur í úrtakið (mynd 2).
Framkvæmd
Rannsakandi og yfirlæknir gerðu nákvæmar vinnuleiðbeiningar um hvernig búa átti um húðtökusvæðið í skurðaðgerðinni með hliðsjón af vinnuleiðbeiningum framleiðanda fiskroðs, ýmist með fiskroði eða filmu, til að tryggja að allir lýtalæknar notuðu sömu aðferð. Rannsakandi valdi þátttakendur, skráði upplýsingar og sá um framkvæmd rannsóknar. Innköllunarstjóri og hjúkrunarfræðingar dagdeildar skurðlækninga öfluðu upplýsts samþykkis og hjúkrunarfræðingar legu- og göngudeildar tóku þátt í mati á sárum með mælitækjum rannsóknarinnar eftir að hafa fengið leiðsögn við notkun þeirra. Rannsakandi fékk upplýsingar frá innköllunarstjóra þegar ákvörðun lá fyrir um að einstaklingur færi í húðágræðslu. Þá var bakgrunnsupplýsingum aflað úr Heilsugátt ásamt því að fengnar voru upplýsingar um staðsetningu og stærð húðtökusvæðis úr aðgerðarskrá. Aflað var upplýsinga um kláða í húðtökusvæði hjá þátttakendum í gegnum hjúkrunarskráningu. Þátttakendum var slembiskipt í tvo hópa. Slembiskipt var þannig að settir voru jafn margir miðar í innsigluð umslög, með orðunum Tegaderm®-filma og fiskroð. Umslögin voru síðan sett í plastvasa og geymd í umbúðakassanum sem notaður var við aðgerðirnar. Þegar þátttakandi hafði fengið kynningarbréf og skrifað undir samþykkisyfirlýsingu um að taka þátt í rannsókn var valið úr þessum plastvasa fyrir hverja aðgerð. Algengast var að þátttakendur lægju inni í nokkra daga eftir aðgerð og færu svo heim. Þátttakendur komu síðan í endurkomu á 5.–7. degi og aftur á 14. degi og var þá húðtökusvæðið myndað ásamt því að gróandi var metinn.
Matstæki
Þau matstæki sem voru notuð í rannsókninni voru eftirfarandi: Sáramatstækið Tissue, Infection, Moisture og Edge (TIME), 5 D kláðakvarðinn, mat á næringarástandi frá Landspítalanum og verkjakvarðinn Numeric Rating Scale (NRS). Í endurkomum var notað sérstakt matsblað sem rannsakandi bjó til í samstarfi við hjúkrunarfræðinga á sáramóttöku, til að auðvelda mat á gróanda í sári og voru á því blaði leiðbeiningar um hvernig átti að skipta á umbúðum á sári í endurkomum á 5.–7. degi og aftur á 14. degi.
Matsblaðið sem útbúið var af rannsakanda og hjúkrunarfræðingum sáramóttöku tók mið af viðurkenndu sáramatstæki, TIME, sem oft er notað af heilbrigðisstarfsfólki til að gera skipulagt og gagnreynt mat á sárabotni og til að þróa einstaklingsmiðaða sárameðferð (Brown og Flanagan, 2013; Moore o.fl., 2019).
Þátttakendur fylltu út 5-D kláðakvarðann í endurkomu á 14. degi. Kláðakvarðinn skiptist í fimm þætti sem greina kláða síðustu tvær vikurnar. Þannig er metið hversu lengi kláðinn varir, hversu mikill hann er, hvort hann sé að versna eða skána, hvort hann hafi áhrif á athafnir daglegs lífs og hvar kláðinn er staðsettur á líkamanum (Amtmann o.fl., 2017; Elman o.fl., 2010).
Næringarástand þátttakenda var metið með matsblaði sem notað er á Landspítalanum. Þetta matsblað er í klínískum leiðbeiningum um næringu sjúklinga og er útbúið af starfsmönnum Landspítala (Anna Friðriksdóttir o.fl., 2011). Það samanstendur af sjö spurningum sem hver um sig gefa mismunandi mörg stig. Notaður er eftirfarandi kvarði: 1) litlar líkur á vannæringu 2) ákveðnar líkur á vannæringu og 3) sterkar líkur á vannæringu.
Þátttakendur mátu verki sína á hverjum degi í heila viku frá aðgerð með verkjakvarðanum NRS frá 0-10, þar sem 0 stendur fyrir enga verki og 10 fyrir mestu mögulegu verki (Goldberg og Rosa, 2023).
NIÐURSTÖÐUR
Þátttakendum sem uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar var boðið að taka þátt í rannsókninni (sjá mynd 2). Einnig má sjá á mynd 2 ástæður fyrir minna úrtaki.
Þáttakendur sem komu til greina á rannsóknartímanum (n=25)
Tveir afþökkuðu
þátttöku (n=25)
Útilokandi þættir (n=5)
• Uppfylltu ekki skilyrði
• Bruni meiri en 10% (n=2)
• Ónæmisbælandi lyf (n=1)
• Meira en 10 mg sterar (n=10)
• Fiskiofnæmi (n=0)
• Húðtökusvæði er of stórt (n=2)
Ástæður fyrir minna úrtaki
• Mönnunarvandi innan LSH
• Fáar aðgerðir gerðar
• COVID 19, veikindi starfsfólks
• Bráðaaðgerðir
Samþykktu þátttöku (n=18) Slembiskipt í hópa
Íhlutunarhópur (Fiskroð) (n=9)
• Fengu meðferð (n=8)
• Fengu ekki meðferð (búið að draga þátttakanda í samanburðarhóp en ekki gerð húðágræðsla (n=1)
Íhlutunarhópur (Fiskroð) (n=8)
Úrtak (n=16)
Samanburðarhópur (Filma) (n=9)
• Fengu meðferð (n=8)
• Fengu ekki meðferð (búið að draga þátttakanda í samanburðarhóp en ekki gerð húðágræðsla (n=1)
Samanburðarhópur (Filma) (n=8)
burðarhópur fékk gataða Tegaderm® filmu (n=8). Flestir þátttakendanna (n=10) voru á aldrinum 70-90 ára (M= 70 ár) (spönn 3790). Meginástæður fyrir húðflutningi voru krabbamein (n=8), slys (n=7) og sýking sem kom í kjölfar aðgerðar hjá einum einstaklingi.
Áhrifaþættir á hraða gróanda
Allir þátttakendur voru með einn eða fleiri áhrifaþátt sem mögulega gætu hafa seinkað gróanda (tafla 1). Meðal slíkra áhrifaþátta voru blóðþynning (n=13), krabbamein (n=8), ákveðin eða sterk hætta á vannæringu (n=7), reykingar (n=4) og sykursýki tegund 2 (DM II) (n=3). Enn fremur voru húðtökusvæði þátttakenda misstór, frá 5x5 cm til 8x10 cm að stærð. Nokkrir þátttakenda (n=4) voru með alvarlega sjúkdóma eins og hjartabilun, nýrnabilun og bólgusjúkdóm. Einungis einn þátttakandi var settur á stera á því tímabili sem fylgst var með gróanda húðtökusvæða. Gréri sár þess einstaklings á tveimur vikum og fékk hann fiskroðsumbúðir.
Tafla 1. Áhrifaþættir á gróanda húðtökusvæða sem voru til staðar hjá þátttakendum (n=16)
Þátttakendur
Alls tóku 16 einstaklingar þátt, 11 karlmenn og fimm konur. Íhlutunarhópur fékk fiskroð (n=8) á húðtökusvæði og saman-
Í töflu 2 má sjá þá sex þátttakendur þar sem sár gréru á tveimur vikum, kynjaskiptingu og þá áhrifaþætti á gróanda húðtökusvæða sem skoðaðir voru sérstaklega. Af þessum sex þátttakendum voru fjórir með fiskroð og tveir með filmu. Þegar skoðaðir voru sérstaklega þeir sem fengu fiskroð og sár gréru hjá kom í ljós að einu þátttakendurnir eldri en 70 ára sem sár gréru hjá fengu báðir fiskroð. Það sem þeir áttu sameiginlegt var að hvorugur reykti eða var á blóðþynningu. Báðir voru með krabbamein og ákveðnar/ sterkar líkur á vannæringu. Sár tveggja þátttakenda gréru þrátt fyrir að þeir reyktu og voru þeir yngri en 70 ára. Hjá þeim fjórum þátttakendum þar sem sár gréru og voru með fiskroð voru almennt fleiri áhrifaþættir sem gátu seinkað gróanda en hjá þeim þar sem sár gréru og voru með filmu. Meðal annars krabbamein (n=3), ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu (n=3), DM II (n=1), blóðþynningu (n=2) og reykingar (n=2). Þeir tveir sem voru með filmu voru báðir undir 70 ára aldri og hvorki með krabbamein eða DM II og höfðu litlar líkur á vannæringu. Á meðal áhrifaþátta sem geta seinkað gróanda þeirra sem gréru og voru með filmu voru blóðþynning (n=2) og reykingar (n=1).
Mynd 2: Flæðirit: Val þátttakenda og skipting í hópa.
Tafla 2. Þátttakendur (n=6) með sár sem gréru á 14 dögum Áhrifaþættir
Á rannsóknartímabilinu gréru ekki sár tíu þátttakenda, þar af voru fjórir með fiskroð og sex með filmu (tafla 3). Allir nema einn (n=9) voru á blóðþynningu og meirihlutinn (n=8) eldri en 70 ára.
Tafla 3. Þátttakendur (n=10) með sár sem gréru ekki
Helmingur (n=5) þeirra sem voru með sár sem gréru ekki voru með krabbamein en þeir voru allir eldri en 70 ára. Flestir (n=3) sem fengu fiskroð og gréru ekki voru með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu. Tveir þátttakendur sem voru yngri en 70 ára og sár gréru ekki hjá höfðu litlar líkur á vannæringu. Eini þátttakandinn með fiskroð sem var yngri en 70 ára og sár gréri ekki hjá var með bólgusjúkdóm. Eini þátttakandinn með filmu sem var yngri en 70 ára og sár gréri ekki hjá var með DM II og reykti. Sá þátttakandi sem var með minnsta sárið fékk umbúðirnar fiskroð en sár hans gréri ekki á tveimur vikum. Hann var jafnframt á blóðþynningu, eldri en 70 ára og með ákveðnar líkur á vannæringu.
Fækkar fiskroð tilvikum sýkinga í húðtökusvæðum?
Engir þátttakendur með fiskroð fengu sýkingu í húðtökusvæði.
Aðeins einn þátttakandi í rannsókninni fékk sýkingu í húðtökusvæði og var settur á sýklalyf vegna þess. Sá einstaklingur var með filmu og var 88 ára. Meira en helmingur þátttakenda (n=10) var á sýklalyfjum til fyrirbyggingar eða vegna annarra orsaka (tafla 1).
Aðeins einn þeirra sem gréri var ekki á fyrirbyggjandi sýklalyfjum og var hann með fiskroð.
Dregur fiskroð úr verkjum og/eða kláða í húðtökusvæði?
Flestir þátttakendur (n=10) mátu verki á húðtökusvæði meiri en í sárinu sem reynt var að græða með húðflutningi. Meðaltal verkja þeirra sem voru með filmu var hærra (M=1,7) en þeirra með fiskroð (M=0,6). Upplýsingar um nákvæma verki vantaði hjá þremur þátttakendum. Almennt voru verkir ekki miklir að mati þátttakenda en fyrstu vikuna mátu flestir (n=11) verkina á bilinu 1-3. Mestir verkir í húðtökusvæðinu voru á fyrstu vikunni eftir aðgerð en einungis fimm þátttakendur sögðust finna fyrir verkjum í lok annarrar viku frá aðgerð. Þeir þátttakendur sem voru enn með verki í húðtökusvæðinu á 14. degi voru ekki grónir og mátu verki á bilinu 1-4 skv. verkjakvarðanum Numeric Rating Scale (NRS). Sá þátttakandi sem var með hvað mesta verki í húðtökusvæðinu var sá sem fékk sýkingu í sárið en hann mat verki allt upp á 5 á verkjakvarðanum.
Einungis sex einstaklingar fylltu út 5D kláðakvarðann, þrír með fiskroð og þrír með filmu. Vegna þess hve rannsóknin dróst á langinn láðist í mörgum tilvikum að fylgja því eftir að þátttakendur fylltu út kláðakvarðann. Í skráningum hjúkrunarfræðinga kom fram að flestir þeirra þátttakenda sem voru inniliggjandi á rannsóknartímabilinu höfðu kvartað undan kláða og jafnvel meira en undan verkjum í húðtökusvæði. Flestir þátttakendur voru þó sammála um að það væri þó nokkur eða mikill kláði í húðtökusvæðinu þá 14 daga sem fylgst var með þátttakendum. Ekki var hægt að greina mun á kláða hjá þátttakendum eftir því hvort þeir voru með filmu eða fiskroð.
UMRÆÐUR
Líkur
Ákveðnar
Í þessari lýsandi rannsókn voru hraði gróanda, sýkingar, verkir og kláði borin saman hjá 16 sjúklingum sem fengu ýmist fiskroð á húðtökusvæði eða filmu og heilsufarslegir bakgrunnsþættir þeirra skoðaðir. Þar sem þetta er forrannsókn og úrtak lítið geta niðurstöður einungis gefið vísbendingar um möguleg áhrif og tillögur að frekari rannsóknum.
Húðtökusvæði flestra þátttakenda (n=10) gréru ekki á tveimur vikum. Kemur það talsvert á óvart því almennt benda rannsóknir til þess að hlutþykktarsár eins og húðtökusvæði eigi að gróa á 10-
14 dögum (Aly o.fl., 2018; Bidigare, 2023; Kazanavičius o.fl., 2017). Fyrir þessu kunna að vera nokkrar ástæður. Allir þátttakendur í þessari rannsókn voru með einn eða fleiri áhrifaþætti sem mögulega gætu seinkað gróanda. Meðalaldur þeirra var 72 ár en búast má við því að sár hjá þeim sem eldri eru grói hægar (Ratliff, 2023; Romanowski og Sen, 2022).
Í slembaðri íhlutunarrannsókn Hecker o.fl. (2022) á áhrifum þriggja mismunandi umbúða á gróanda húðtökusvæða (n=46) gréru sárin að meðaltali á 14-16 dögum. Meðalaldur þátttakenda var 49 ár, sem er 23 árum lægra en meðalaldur í þessari rannsókn. Einnig voru einstaklingar með krabbamein undanskildir í rannsókn Hecker o.fl. (2022) en helmingur þátttakenda í þessari forrannsókn var með krabbamein. Sjúklingar með krabbamein eru almennt í meiri hættu á að sár þeirra verði langvinn vegna undirliggjandi sjúkdóms, fylgikvilla lyfja, skurðaðgerða eða geislameðferðar (Stoll o.fl., 2021). Krabbamein getur mögulega verið ástæða hægari gróanda hjá þátttakendum í þessari forrannsókn en þrír þátttakendur með krabbamein gréru og fengu þeir allir fiskroð.
Badois o.fl. (2019) báru saman hefðbundna meðferð og fiskroð á húðtökusvæði og fylgdust með hraða gróanda, verkjum og sýkingum hjá þátttakendum sem allir voru með krabbamein á höfði eða hálsi og þurftu húðflutning (n=21). Niðurstöður þeirra sýna að meðaltími gróanda húðtökusvæða hjá þátttakendum sem fengu hefðbundna meðferð var 67,9 dagar sem var helmingi lengra en hjá þeim sem fengu fiskroð, 31,4 dagar sem er þó helmingi lengri tími en rannsóknir telja almennt að húðtökusvæði grói (Bidigare, 2023; Kazanavičius o.fl., 2017). Þetta gæti verið vísbending um að gróandi sé hægari hjá þeim sem eru með krabbamein.
Í samanburðarrannsókn Yoon o.fl. (2022) á 52 brunasjúklingum var metinn munur á gróanda hlutþykktar og fullþykktar brunasára með notkun fiskroðs umbúða og umbúðum gerðum úr nautgripahúð.
Sár þátttakenda sem fengu fiskroð á sár sín gréru að meðaltali tveimur dögum hraðar en þeirra sem fengu nautgripahúð. Meðaltími gróanda húðtökusvæða þeirra sem fengu fiskroð var 10,7 dagar.
Sár þátttakenda sem gréru með fiskroði í þessari rannsókn voru með mun fleiri letjandi þætti fyrir sáragróanda en sár þeirra sem gréru með filmu. Fjórir af sex þátttakendum sem voru með sár sem gréru og voru með fiskroð, gréru þrátt fyrir háan aldur, sykursýki, hættu á vannæringu, inntöku stera og krabbamein. Getur það gefið ákveðna vísbendingu um að fiskroð henti vel á húðtökusvæði hjá einstaklingum eldri en 70 ára og hjá þeim sem eru með einhverja áhrifaþætti sem hafa letjandi áhrif á gróanda sára. Samkvæmt niðurstöðum tilvikarannsóknar Dorweiler o.fl. (2018) (n=8) hentar fiskroð vel á flókin sár en í Sviss þar sem þeir starfa hefur notkun þess lofað góðu.
Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á bakteríu- og veiruhemjandi eiginleika fiskroðs (Gomathy o.fl., 2023; Skúli Magnússon o.fl., 2015). Í forrannsókn Badois o.fl. (2019) fékk enginn sýkingu af þeim sem voru með fiskroð en hins vegar helmingur þeirra sem fengu hefðbundna meðferð. Einungis einn þátttakandi í þessari rannsókn fékk sýkingu í húðtökusvæði en hann var með filmu. Þar sem flestir (n=10) voru á sýklalyfjum til fyrirbyggingar, eða af öðrum ástæðum, hefur það mögulega einnig haft áhrif á það hversu fáir fengu sýkingu.
Rannsóknir á fiskroði hafa gefið til kynna að notkun fiskroðs dragi úr verkjum í sári (Hecker o.fl., 2022; Ibrahim o.fl., 2023; Luze o.fl., 2022). Í þessari rannsókn var meðaltal verkja hjá þeim sem voru
með filmu einum heilum hærra (M=1,7) en hjá þeim sem voru með fiskroð (M=0,6). En svipaðar niðurstöður koma fram í forrannsókn Badois og félaga (2019) þar sem helmingur þátttakenda sem fékk hefðbundna meðferð voru með verki ≥ 3 á VAS en enginn í hópi þeirra sem fékk fiskroð hafði svo mikla verki. Vert er að skoða þetta frekar í stærri rannsókn.
Ekki var unnt að greina mun á kláða hjá þátttakendum eftir tegund umbúða. Engu að síður kvörtuðu inniliggjandi þátttakendur oft meira undan kláða en verkjum. Því er vert að skoða það nánar. Wallner o.fl. (2022) gerðu afturskyggna tilvikarannsókn á notkun fiskroðs á djúpan húðbruna eftir ensímhreinsun (n=12). Niðurstöður þeirra gefa til kynna að notkun fiskroðs á djúpan annarrar gráðu bruna gefi betri raun en húðflutningur hvað varðar gæði örmyndun, sveigjanleika og þykkt húðar sem og æðavirkni og litarmun á gróinni húð. Enn fremur virtist fiskroð minnka sársauka og kláða.
Helsti styrkur þessarar rannsóknar var að rannsóknin var íhlutunarrannsókn þar sem slembiskipt var í hópa. Jafnmargir þátttakendur voru í hópunum og voru einnig jafnmargir í eldri aldurshópnum.
Helstu veikleikar rannsóknarinnar voru hins vegar hversu fáir þátttakendur fengust í rannsóknina. Lítið úrtak hafði þau áhrif að ekki var hægt að skoða tölfræðileg sambönd á milli hópanna og þar af leiðandi ekki hægt að alhæfa. Ekki var stýrt í hópana og var kynjahlutfall þátttakenda ójafnt. Einnig voru þátttakendur með mismunandi undirliggjandi vandamál og ekki jafnt í hvorum hóp fyrir sig af t.d. þeim sem höfðu litlar eða sterkar líkur á vannæringu, voru með DM2, krabbamein eða eftir stærð sára.
Götuð Tegaderm®-filma eru umbúðir sem koma ekki tilbúnar heldur kemur filman heil og ógötuð í pakkningu. Hún er götuð með hníf á skurðstofunni og í vissum tilvikum voru götin of stór og festust því þurru grisjurnar í húðtökusvæðinu og ollu þá óþægindum og jafnvel stærra sári. Því er mikilvægt að gæta þess að gera ekki of stór göt á filmuna þegar hún er götuð. Þó er áríðandi að götin séu nægilega stór svo blóð og vessi komist undan filmu en safnist ekki fyrir og verði æti fyrir bakteríur.
Það sem olli hvað mestum vandræðum bæði fyrir starfsfólk og þátttakendur voru ytri umbúðir. Í flestum tilfellum runnu ytri umbúðir, grisjur og Haftelast® (Lohmann-rauscher, e.d.) niður læri þátttakanda nema ef þeir voru rúmliggjandi. Þetta var vandamál hjá báðum hópum því báðir voru með sömu ytri umbúðir. Það er því mikilvægt að finna betri lausn á festingu ytri umbúða, einkum ef þær eru á útlimum, svo sem að nota hólk eins og Tubifast® eða líma þær betur.
Erfiðlega gekk að fá þátttakendur í úrtak rannsóknar (mynd 2). Gagnaöflun tók tvöfalt lengri tíma en áætlað var í upphafi en miðað var við tölur um fjölda aðgerða fyrri ára frá Landspítalanum. Þröng þátttökuskilyrði og óviðráðanlegar aðstæður á sjúkrahúsinu urðu þess valdandi að aðeins 16 þátttakendur fengust í rannsóknina þó stefnt hafi verið að því að fá 20. Til að fá fleiri þátttakendur hefði verið ákjósanlegt að hafa rýmri þátttökuskilyrði. Enn fremur komu margir starfsmenn Landspítala að vali á sjúklingum í rannsóknina.
Fyrir þá sem hyggjast framkvæma stærri framskyggna, slembaða íhlutunarrannsókn, þar sem borinn er saman gróandi húðtökusvæða með ólíkum umbúðum er lagt til: Í fyrsta lagi að gæta þess að rannsóknartími sé nægilega langur og þátttökuskilyrði séu ekki of þröng og takmarki ekki um of fjölda þátttakenda. Árlega fá
tiltölulega fáir sjúklingar húðflutning á Íslandi og því er mikilvægt að ná til sem flestra. Því væri æskilegt að gera ráð fyrir sjúklingum á öllum aldri, óháð stærð sára og því hvort viðkomandi sé á sterum eða frumuhemjandi lyfjum. Í öðru lagi þarf að fylgjast lengur með hverjum þátttakanda, í a.m.k. 4-8 vikur, eða þar til öll sár eru gróin. Í þriðja lagi er mikilvægt að aðili rannsóknar sé ávallt til staðar bæði á skurðstofu og legu- og göngudeild til að fylgjast með að vinnuleiðbeiningum og rannsóknaráætlun sé fylgt.
Umbúðir úr fiskroði eru dýrari en filmuumbúðir. Hjá ungum heilbrigðum einstaklingum gróa sárin almennt á tveimur vikum og getur þá filma hentað ágætlega fyrir þá einstaklinga. Niðurstöður þessarar forrannsóknar gefa vísbendingu um að umbúðir úr fiskroði geti reynst góður meðferðarkostur fyrir viðkvæma hópa en huga verður að þeim þáttum sem geta haft letjandi áhrif á gróanda húðtökusvæða og reyna að koma í veg fyrir fylgikvilla. Mikilvægt er að þeir sjúklingar sem þurfa á húðflutningi að halda fái einstaklingsbundna meðferð og þannig réttar umbúðir sem henta þeim. Þannig má bæta verulega þjónustuna við þennan sjúklingahóp í framtíðinni. Einnig þarf að skoða hvort og hver sé ávinningur fyrir sjúkling og stofnun af því að hægt sé að velja á milli fleiri tegunda umbúða, svo sem umbúða úr fiskroði þrátt fyrir að þær séu dýrari. Þörf er á að framkvæma stærri rannsókn til að geta metið betur áhrif fiskroðs á gróanda húðtökusvæða m.a. með stærra úrtaki og lengra rannsóknartímabili en gert var í þessari forrannsókn.
ÞAKKIR
Við viljum þakka öllum þátttakendum fyrir að taka þátt í rannsókninni og gera hana þannig að veruleika, ásamt öllum starfsmönnum Landspítala og á öðrum heilbrigðisstofnunum sem aðstoðuðu á einn eða annan hátt. Einnig viljum við þakka fyrirtækinu Kerecis fyrir að styrkja rannsóknina með því að gefa fiskroðsumbúðir ásamt Rekstrarvörum fyrir að gefa mepilex-svampumbúðir. Einnig viljum við þakka Samtökum um sárameðferð á Íslandi (SUMS), Minningarsjóði Maríu Finnsdóttur og Minningarsjóði Adolfs Hjartarsonar fyrir að styrkja rannsóknina.
ENGLISH SUMMARY
The use of acellular fish skin on the healing of donor site: Randomized intervention study
doi: 10.33112/th.0101.2.1
Sigurvinsdottir, B.O., Skuladottir, H., Baldursdottir, L., Audolfsson G.
ABSTRACT
Aim
Study the impact of fish skin dressings on important factors for healing of donor sites compared to the use of a punctured film. Punctured films are generally used on donor sites. The influence of fish skin dressings on factors related to healing of donor sites have not been studied before in Iceland.
Method
The pilot study method was a prospective, randomized, intervention study. The study population was everyone in Iceland 18 years of age and older that had a split thickness skin transplant at Landspítali –University Hospital, from September 2022 till May 2023. Participants were observed for 14 days. The TIME wound assessment tool, the Skin Graft Healing Assessment List, the 5D Itch Scale, the Landspitali Nutritional Assessment, and Pain Scale (0-10) were used. Participants were asked about age, gender, smoking status, underlying diseases, and medications as well.
Results
Sixteen participated in the study and were randomized into two groups. The experimental group (n=8) was treated with fish skin dressings and the control group with a punctured Tegaderm® film (n=8). The average age of participants was 70 (range 37-90). Participant’s reasons for transplant were cancer (n=8), accidents (n=7) and infection after an operation (n=1). Six wounds fully healed in two weeks. All participants had one or more conditions that can impact wound healing negatively. Most common were age, cancer, and anticoagulation. Four of the six wounds that healed were treated with fish skin and they had more negative factors than the two participant’s wounds that healed with film dressings. One participant treated with film developed an infection. Average pain for participants with film dressings was higher (M=1,7) compared to those with fish skin dressings (M=0,6). Discomfort due to itching wasn‘t noticibly different between the two groups.
Conclusions
The results of this preliminary study provide evidence that fish skin dressings seem to be a good choice for vulnerable groups, e.g. those with underlying diseases, are malnourished, and are on medications that may affect healing. Attention must be paid to conditions that suppress wound healing and attempt to prevent complication.
Keywords
Donor site, wound healing, acellular fish skin, film dressing, pain
Correspondent berglind.olof@gmail.com
HEIMILDIR
Aly, M. E. I., Dannoun, M., Jimenez, C. J., Sheridan, R. L. og Lee, J. O. (2018). Opperative wound management. Í D. N. Herndon (ritstjóri), Total burn care (5. útgáfa) (bls. 156-173). Elsevier.
Amtmann, D., McMullen, K., Kim, J., Bocell, F. D., Chung, H., Bamer, A., Carrougher, G. J., Gerrard, P., Schneider, J. C. og Holavanahalli, R. K. (2017). Psychometric properties of the modified 5-D itch scale in a burn model system sample of people with burn injury. Journal of Burn Care & Research, 38(1), e402-e408. https://doi.org/10.1097/ BCR.0000000000000404
Anna Friðriksdóttir, Birna Jónsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Jón Örvar Kristinsson, Kristinn Sigvaldason og Páll Helgi Möller (2011). Klínískar leiðbeiningar um næringu sjúklinga Landspítali Háskólasjúkrahús.
Asuku, M., Yu, T., Yan, Q., Böing, E., Hahn, H., Hovland, S. og Donelan, M. B. (2021). Split-thickness skin graft donor-site morbidity: A systematic literature review. Burns, 47(7), 1525-1546. https://doi.org/10.1016/j.burns.2021.02.014
Badois, N., Bauër, P., Cheron, M., Hoffmann, C., Nicodeme, M., Choussy, O., Lesnik, M., Poitine, F. C. og Fromantin, I. (2019). Acellular fish skin matrix on thin-skin graft donor sites: A preliminary study. Journal of Wound Care, 28(9), 624-628. https://doi. org/10.12968/jowc.2019.28.9.624
Bidigare, C. (2023), Burns. Í M. M. Harding (ritstjóri). Lewis´s medical-surgical nursing: Assessment and management of clinical problems (12. útgáfa) (bls. 494-514). Elsevier. Brown, A. og Flanagan, M. (2013). Assessing skin integrity. Í M. Flanagan (ritstjóri), Wound healing and skin integrity: Principles and practice (bls. 52-65). John Wiley & Sons. Brown, J. E. og Holloway, S. L. (2018). An evidence-based review of split-thickness skin graft donor site dressings. International Wound Journal, 15(6), 1000-1009. https://doi. org/10.1111/iwj.12967
Chalwade, C., Kumar, V., Suresh, A. og Chalwade, C. S. (2022). Use of minced residual skin grafts to improve donor site healing in split-thickness skin grafting. Cureus, 14(3). https:// doi.org/10.7759/cureus.23453
Dornseifer, U., Lonic, D., Gerstung, T.I., Herter, F., Fichter, A.M., Holm, C., Schuster, T. og Ninkovic, M. (2011). The ideal split-thickness skin graft donor-site dressing: a clinical comparative trial of a modified polyurethane dressing and aquacel. Plastic and Reconstructive Surgery, 128(4), 918-924. https://doi.org/10.1097/PRS.0b013e3182268c02
Dorweiler, B., Trinh, T. T., Dünschede, F., Vahl, C. F., Debus, E. S., Storck, M. og Diener, H. (2018). The marine Omega3 wound matrix for treatment of complicated wounds: A multicenter experience report. Gefasschirurgie, 23(Suppl 2), 46-55. https://doi. org/10.1007/s00772-018-0428-2
Ellis, S., Lin, E. J., og Tartar, D. (2018). Immunology of wound healing. Current Dermatology Reports, 7, 350-358. https://doi.org/10.1007/s13671-018-0234-9
Elman, S., Hynan, L. S., Gabriel, V. og Mayo, M. J. (2010). The 5-D itch scale: A new measure of pruritus. British Journal of Dermatology, 162(3), 587-593. https://doi. org/10.1111/j.1365-2133.2009.09586.x
Goldberg, J. I. og Rosa, W. E. (2023). Pain. Í M. M. Harding (ritstjóri), Lewis´s medical- surgical nursing: Assessment and management of clinical problems (12. útgáfa) (bls. 119-145). Elsevier.
Gomathy, M., Paul, A. J. og Krishnakumar, V. (2023). A systematic review of fish-based biomaterial on wound healing and anti-inflammatory processes. Advances in Wound Care, 13(2), 83-96. https://doi.org/10.1089/wound.2022.0142
Gushiken, L. F. S., Beserra, F. P., Bastos, J. K., Jackson, C. J. og Pellizzon, C. H. (2021). Cutaneous wound healing: An update from physiopathology to current therapies. Life, 11(7), 665. https://doi.org/10.3390/life11070665
Hecker, A., Lumenta, D. B., Brinskelle, P., Sawetz, I., Steiner, A., Michelitsch, B., Friedl, H., Gmainer, D., Kamolz, L. og Winter, R. (2022). A randomized controlled trial of three advanced wound dressings in split-thickness skin grafting donor sites: A personalized approach? Journal of Personalized Medicine, 12(9), 1395. https://doi.org/10.3390/ jpm12091395
Humrich, M., Goepel, L., Gutknecht, M., Lohrberg, D., Blessmann, M., Bruning, G., Diener, H., Dissemond, J., Hartmann, B. og Augustin, M. (2018). Health-related quality of life and patient burden in patients with split-thickness skin graft donor site wounds. International Wound Journal, 15(2), 266-273. https://doi.org/10.1111/iwj.12860
Ibrahim, M., Ayyoubi, H. S., Alkhairi, L. A., Tabbaa, H., Elkins, I. og Narvel, R. (2023). Fish skin grafts versus alternative wound dressings in wound care: A systematic review of the literature. Cureus, 15(3). https://doi.org/10.7759/cureus.36348
Kazanavičius, M., Cepas, A., Kolaityte, V., Simoliuniene, R. og Rimdeika, R. (2017). The use of modern dressings in managing split-thickness skin graft donor sites: A single-centre randomised controlled trial. Journal of Wound Care, 26(6), 281-291. https://doi. org/10.12968/jowc.2017.26.6.281
Luze, H., Nischwitz, S. P., Smolle, C., Zrim, R. og Kamolz, L. (2022). The use of acellular fish skin grafts in burn wound management: A systematic review. Medicina, 58(7), 912. https:// doi.org/10.3390/medicina58070912
Moore, Z., Dowsett, C., Smith, G., Atkin, L., Bain, M., Lahmann, N.A., Schultz, G.S., Swanson, T., Vowden, P. Weir, D., Zmuda, A. og Jaimes, H. (2019). TIME CDST: An updated tool to address the current challenges in wound care. Journal of Wound Care, 28(3), 154-161. https://doi.org/10.12968/jowc.2019.28.3.154
Polit, D. F. og Beck, C. T. (2017). Nursing research: Generating and assessing evidence for nursing practice (10. útgáfa). Lippincott Williams & Wilkins.
Ratliff, C. R. (2023), Inflammation and healing. Í M. M. Harding (ritstjóri). Lewis´s medicalsurgical nursing: Assessment and management of clinical problems (12. útgáfa) (bls. 179198). Elsevier.
Romanowski, K. S. og Sen, S. (2022). Wound healing in older adults with severe burns: Clinical treatment considerations and challenges. Burns Open, 6(2), 56-74. https://doi. org/10.1016/j.burnso.2022.01.002
Rowan, M. P., Cancio, L. C., Elster, E. A., Burmeister, D. M., Rose, L. F., Natesan, S., Chan, R. K., Christy, R. J. og Chung, K. K. (2015). Burn wound healing and treatment: Review and advancements. Critical Care, 19, 243. https://doi.org/10.1186/s13054-015-0961-2
Singh, S., Young, A. og McNaught, C. (2017). The physiology of wound healing. Surgery (Oxford), 35(9), 473-477.
Skúli Magnússon, Baldur Tumi Baldursson, Hilmar Kjartansson, Guðný Ella Thorlacius, Ívar Axelsson, Óttar Rolfsson, Pétur Henry Petersen og Guðmundur Fertram Sigurjónsson. (2015). Affrumað roð: Eðliseiginleikar sem styðja vefjaviðgerð. Læknablaðið, 101(12), 567573. http://dx.doi.org/10.17992/lbl.2015.12.54
Stoll, J. R., Noor, S. J., Dusza, S. W. og Markova, A. (2021). Skin substitutes for the treatment of chronic wounds in patients with cancer: A retrospective case series. Journal of the American Academy of Dermatology, 85(5), 1331-1333. https://doi.org/10.1016/j. jaad.2020.10.064
Wallner, C., Holtermann, J., Drysch, M., Schmidt, S., Reinkemeier, F., Wagner, J. M., Dadras, M., Sogorski, A., Houschyar, K. S., Becerikli, M., Lehnhardt, M. og Behr, B. (2022). The use of intact fish skin as a novel treatment method for deep dermal burns following enzymatic debridement: A retrospective case-control study. European Burn Journal, 3(1), 43-55. https://doi.org/10.3390/ebj3010006
Yoon, J., Yoon, D., Lee, H., Lee, J., Jo, S., Kym, D., Yim, H., Hur, J., Chun, W. og Kim, G. (2022). Wound healing ability of acellular fish skin and bovine collagen grafts for split-thickness donor sites in burn patients: Characterization of acellular grafts and clinical application. International Journal of Biological Macromolecules, 205, 452-461. https://doi. org/10.1016/j.ijbiomac.2022.02.055