Ritrýnd grein | Peer review
Heilsutengd lífsgæði sjúklinga eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm: Lýsandi ferilrannsókn
ÚTDRÁTTUR Tilgangur Tilgangur rannsóknarinnar er að lýsa lífsgæðum sjúklinga eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm á þremur tímapunktum: á sjúkrahúsinu daginn eftir aðgerð (T1), sex vikum (T2) og sex mánuðum (T3) eftir útskrift, með það að markmiði að greina hvaða einkenni og bakgrunnsþættir hafa forspárgildi við lífsgæði sjúklinganna sex vikum og sex mánuðum eftir aðgerð.
Aðferð Þetta er framsýn, lýsandi ferilrannsókn framkvæmd á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þýðið voru allir þeir sem fóru í liðaskiptaaðgerð á mjöðm frá 15. janúar til 15. júlí árið 2016. Heilsutengd lífsgæði voru metin með mælitækinu SF-36v2. Línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að greina áhrifaþætti líkamlegra og andlegra heilsutengdra lífsgæða á T2 og T3.
Niðurstöður Meðalaldur þátttakenda (n = 101) var 66,2 ár og karlar voru 48,5% þeirra. Á T2 voru 11 (10,9%) þátttakendur byrjaðir að vinna og á T3 41 (40,6%). Meirihlutinn (75,2%) var með einhvern annan sjúkdóm en þann sem leiddi til aðgerðar og 78,2% hafði náð sér vel/mjög vel á T2 og 73,2% á T3. Algengustu einkennin á öllum þremur tímapunktunum voru erfiðleikar með hreyfingu, verkir, þreyta og úthaldsleysi. Heilsutengd lífsgæði jukust milli tímapunktanna þriggja. Að vera byrjaður að vinna og að hafa náð sér vel eftir aðgerð skýrði 47,3% af breytileika í líkamlegu heilsufari lífsgæða á T2 og að hafa náð sér mjög vel skýrði 52,6% breytileikans á T3. Að vera án annarra sjúkdóma skýrði 32,4% af breytileika í andlegu heilsufari lífsgæða á T2 og að hafa náð sér mjög vel ásamt því að kynlíf og svefnleysi valdi ekki vanlíðan á T3 skýrði 49,2% breytileikans á T3.
Ályktun Heilsutengd lífsgæði bötnuðu almennt eftir aðgerðina. Við útskrift þurfa sérstaka athygli og fræðslu sjúklingar með aðra sjúkdóma og þeir sem eru ekki í vinnu. Frekari eftirfylgd skyldi leggja áherslu á sjúklinga sem sofa illa og meta eigin bata ekki góðan
Lykilorð:
Lífsgæði, liðskiptaaðgerðir, sjúklingar, hjúkrun, bati.
HAGNÝTING RANNSÓKNARNIÐURSTAÐNA „Hvers vegna ættir þú að lesa þessa grein?“ Nýjungar: Fyrsta íslenska rannsóknin sem birtir niðurstöður um lífsgæði sjúklinga eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm. Hagnýting: Nýta má niðurstöðurnar til að bæta þjónustu við þennan sjúklingahóp. Þekking: Þekking skapast um hvað hefur áhrif á heilsutengd lífsgæði sjúklinga eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm. Nýta má þá þekkingu til þess að meta hvað skal leggja áherslu á varðandi meðferð og umönnun þessa sjúklingahóps. Áhrif á störf hjúkrunarfræðinga: Niðurstöðurnar leggja hjúkrunarfræðingum lið í að kortleggja þá þætti sem skipta máli varðandi heilsutengd lífsgæði þessa sjúklingahóps og þeir geta notað niðurstöðurnar í þróun meðferðar og við eftirfylgni sjúklinga eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm.