Stefnir - 1. tbl. 60. árg. 2010

Page 1

STEFNIR Sumar 2010

TÍMARIT UM ÞJÓÐMÁL

1. tbl. 60. árg.

80 ÁRA AFMÆLISRIT SAMBANDS UNGRA SJÁLFSTÆÐISMANNA


EFNI BLAÐSINS

3

SNÚUM VÖRN Í SÓKN Víðir Smári Petersen

4

ÁVARP FORMANNS Ólafur Örn Nielsen

6

EIGA KARLAR AÐ PISSA SITJANDI? Guðrún Anna Atladóttir

8

FRELSISBARÁTTA Í 80 ÁR – SAGA SUS

14

ÁBYRGÐ SKAL FRELSINU FYLGJA Þorsteinn Friðrik Halldórsson

15

STOLTUR FRJÁLSHYGGJUMAÐUR Egill Örn Gunnarsson

16

TÆKIFÆRIN ERU TIL STAÐAR Óli Björn Kárason

18

FORRÆÐISHYGGJA ER SKRÍTIÐ FYRIRBÆRI Hafsteinn Ragnarsson

20

VIÐTAL VIÐ ÁSDÍSI HÖLLU BRAGADÓTTUR

24

SKÝRSLAN SEM ENGINN LAS Stefán Einar Stefánsson

27

ÁTTHAGAFJÖTRAR MENNTAKERFISINS Arnór Gunnar Gunnarsson

28

VIÐTAL VIÐ STEPHEN PARKINSON

30

RÉTTARRÍKIÐ Á UMBROTATÍMUM Brynjar Níelsson

32

ENDURREISN FRJÁLSHYGGJUNNAR Gísli Freyr Valdórsson

Stefnir 1. tbl., 60. árg. 2010 Útgefandi: Samband ungra sjálfstæðismanna Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Víðir Smári Petersen Umbrot: Sævar Guðmundsson Prentun: Leturprent Ljósmyndir: Steinar Þór Ólafsson og Hafsteinn Ragnarsson Forsíðumynd: Kristinn Pálsson Ritnefnd Stefnis frá vinstri: Hafsteinn Ragnarsson, Egill Örn Gunnarsson, Þorsteinn Friðrik Halldórsson, Víðir Smári Petersen, Guðrún Anna Atladóttir, Gísli Freyr Valdórsson og Arnór Gunnar Gunnarsson.

2


SNÚUM VÖRN Í SÓKN SUS fagnar um þessar mundir tvöföldu afmæli. Annars vegar á sambandið sjálft 80 ára afmæli og hins vegar er Stefnir 60 ára. Þrátt fyrir þessi merku tímamót hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei staðið verr. Frá því á síðasta landsfundi snemma árs 2009 hefur Sjálfstæðisflokkurinn nefnilega verið í stöðugri vörn. Honum er kennt um efnahagshrunið og styrkjamálið var ekki til að bæta ástandið. Auk þess kom skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis mjög illa út fyrir flokkinn. Í stað þess að horfa fram á við og boða nýja tíma pakkaði Sjálfstæðisflokkurinn í vörn. Líklega er það vegna þess að forysta Sjálfstæðisflokksins gerði ekkert, nákvæmlega ekkert, til þess að verjast árásum vinstri manna fyrstu mánuðina eftir efnahagshrunið. Frasinn „skipbrot nýfrjálshyggjunnar“ fékk að hljóma í fjölmiðlum án þess að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hreyfðu litla fingur til varnar sjálfstæðisstefnunni. Varnarræðan hefði t.d. getað falist í því að segja að þetta væri ekki fall hinnar klassísku stefnu frjálslyndis sem hefur einkennt Sjálfstæðisflokkinn heldur fall þeirrar undarlegu blöndu jafnaðarstefnu sem var við lýði á Íslandi á undanförnum 20 árum. Það kerfi einkenndist af lélegu eftirliti, háum sköttum og vaxandi ríkisbákni. Þegar litið er til baka í sögu SUS, eins og gert er í grein hér í blaðinu, sést greinilega að sambandið hefur ávallt staðið sig í stykkinu í baráttunni fyrir auknu frelsi og minni ríkisafskiptum. Mörg baráttumál hafa þótt

öfgafull í fyrstu en þykja nú sjálfsögð. Sumir forystumanna Sjálfstæðisflokksins á liðnum árum voru virkir í SUS og gagnrýndu þingmenn og ráðherra fyrir að vera gungur þegar kom að sköttum og vaxandi ríkisbákni. Þessir sömu menn þöndu hins vegar ríkissjóð svo mikið í valdatíð sinni að lengi verður í minnum haft. Hefðu þeir framkvæmt það sem þeir sjálfir boðuðu á sínum yngri árum, hefði líklega farið betur fyrir þjóðinni. Til þess að almenningur hafi trú á stjórnmálaflokki verður stjórnmálaflokkurinn sjálfur að hafa trú á sjálfum sér. Stjórnmálaflokkur verður þess vegna að vera heiðarlegur, staðfastur og samkvæmur sjálfum sér. Sjálfstæðisflokkurinn uppfyllti engin af þessum skilyrðum í kjölfar efnahagshrunsins. Í dag eru sóknarfærin okkar en Sjálfstæðisflokkurinn er hræddur og skelfur eins og lauf í vindi. Bæði hræðist hann sína eigin stefnu og fólkið í landinu. Enginn forystumaður þorir að hafa skoðanir, af ótta við það að sjálfstæðisstefnan eigi ekki lengur upp á pallborðið hjá þjóðinni. Af þeirri ástæðu er öllum málum pakkað inn í einhverjar óljósar umbúðir til þess að reyna að láta hlutina líta betur út. Jafnvel ganga sumir þingmenn svo langt að þeir kjósa gegn eigin sannfæringu og virðist Sjálfstæðisflokkurinn í mörgum málum hafa dregið lappirnar og gefist upp, t.d. í umræðum um kynjakvóta, vatnalög og hin ýmsu boð og bönn vinstri stjórnarinnar. Það sýnir heigulshátt og það síðasta sem þjóðin þarfnast núna

eru heiglar. Þjóðin þarf flokk sem talar umbúðalaust og þorir að hafa skoðanir. Sjálfstæðisflokkurinn verður þess vegna að blása til sóknar á nýjan leik. Segja vinstri stjórninni stríð á hendur. Sannfæra þjóðina um að hækkandi skattar og hatur á erlendu fjármagni sé ekki rétta leiðin út úr efnahagsþrengingunum. Til þess að hægt sé að blása til sóknar verður flokkurinn að vera með hreint borð. Biðjast þarf afsökunar á þætti flokksins í hruninu og því hvernig hann kom fram við þjóðina í kjölfar efnahagshrunsins. Trúverðugleiki er nefnilega ekki sjálfgefinn heldur þarf að vinna fyrir honum. Þær greinar sem birtast hér í blaðinu bera þess merki að ungir sjálfstæðismenn séu ekki sáttir við flokkinn í dag. Greinarnar virðast að mörgu leyti vera ákall um nýja tíma. Tíma staðfestu og stefnumörkunar. Það er mikil eftirvænting úr grasrótinni að Sjálfstæðisflokkurinn fari aftur til síns gamla sjálfs og berjist fyrir hagsmunum millistéttarinnar, fólksins í landinu. Ekki hagsmunum fárra útvaldra. Snúum vörn í sókn! Víðir Smári Petersen


ÁVARP FORMANNS KÆRU FÉLAGAR, Um þessar mundir fagnar Samband ungra sjálfstæðismanna 80 ára afmæli sínu og mun starfsárið því einkennast af glæsilegri afmælisdagskrá. Lögð verður áhersla á að rifja upp það markverða og áhugaverða sem SUS hefur tekið sér fyrir hendur í gegnum árin. Ungir sjálfstæðismenn hafa ávallt gegnt veigamiklu hlutverki fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Fjölmargir flokksmenn hefja pólitíska göngu sína í ungliðahreyfingunni og eignast þar marga af sínum bestu vinum og samstarfsfélögum til framtíðar. SUS þjónar þó ekki eingöngu þeim tilgangi að afla flokknum nýrra krafta. Sambandið hefur í gegnum tíðina gegnt mikilvægu aðhaldshlutverki og er því réttilega nefnt samviska flokksins. Ungir sjálfstæðismenn hafa í gegnum tíðina margsinnis sett mál á dagskrá sem hafa þótt umdeild í fyrstu og ekki líkleg til

4

vinsælda. Í fyllingu tímans hefur þeim þó verið unnið brautargengi uns öllum þykja þau vera sjálfsögð. Helsta hlutverk SUS er og verður að berjast fyrir frelsi einstaklingsins og frelsi í viðskiptum, gegn ofríki ríkisvaldsins, aukinni skattheimtu og forsjárhyggju stjórnmálamanna sem finna sig knúna til að kenna öðrum hvernig þeir eiga að haga lífi sínu. Stjórnlyndir menn munu alltaf láta til sín taka og ljóst er að baráttan fyrir frelsinu hættir aldrei og ekki má taka neinum hlut sem sjálfsögðum. Með tilkomu nýrra samskiptamáta og þeirrar staðreyndar að Sjálfstæðisflokkurinn situr ekki í ríkisstjórn hafa aðstæður ungra sjálfstæðismanna breyst svo um munar. Erfitt er að ná eyrum fólks og hefur stjórn SUS þurft að finna nýjar leiðir til að koma baráttumálum sínum á framfæri.

Hvergi verður kvikað frá því markmiði þessarar stjórnar að afla Sjálfstæðisflokknum meira fylgis meðal ungs fólks. Það er ekki eingöngu verkefni SUS heldur verkefni allra flokksmanna. Margt hefur áunnist í þeim leiðangri að undanförnu eins og nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar bera með sér og er ég þakklátur fyrir hönd þess unga fólks sem valist hefur í trúnaðarstörf á vegum flokksins í nýliðnum kosningum og í kjölfar þeirra. Ég vil nýta tækifærið og óska öllum núverandi og fyrrum félagsmönnum Sambands ungra sjálfstæðismanna til hamingju með 80 ára afmælið og þakka öllu því góða fólki sem hefur lagt sambandinu lið síðastliðna átta áratugi. Þetta er afmæli okkar allra! Ólafur Örn Nielsen Formaður SUS


SKATTAOKUR RÍKISINS Á ÁFENGI Nú er svo komið að álögur ríkisins á áfengi hafa náð þeim hæðum að venjulegt fólk verður að hugsa sig vandlega um ef það ætlar að leyfa sér að neyta áfengis. Skattaokur ríkisins bitnar ekki síst á þeim sem lægstar hafa tekjurnar, ungu fólki og námsmönnum. Ekki má gleyma að fólk hefur þegar greitt ríflegan tekjuskatt af launum sínum áður en það fer út í búð. Stefnir gerði úttekt á áfengisverði miðað við núgildandi lög og reglur. Hér má sjá skattlagningu ríkisins, álagningu og innkaupsverð Vínbúðanna sem hlutfall af dæmigerðum áfengistegundum.

LÉTTVÍN 750 ml, 13,5% alc, 1999 kr. Innkaupsverð 36,3% 725 kr.

BJÓR 500 ml, 5% alc, 349 kr. Innkaupsverð 35,2% 123 kr.

Álagning

Álagning

6,5% 130 kr.

6,3% 22 kr.

Skattar

Skattar

57,2% 1144 kr.

58,4% 204 kr.

STERKT ÁFENGI 700 ml, 40% alc, 4999 kr.

Innkaupsverð 19% 949 kr.

Skattar

Álagning

78,7% 3936 kr.

2,3% 114 kr.

Skattar eru áfengisgjald og virðisaukaskattur. Álagning er lögákveðin og reiknast sem hlutfallstala af innkaupsverði.

HVER FJÁRMÁLARÁÐHERRANN á fætur öðrum hefur hækkað skatta á áfengi. Það er ekki síst á ábyrgð ráðherra Sjálfstæðisflokksins að þróunin hefur verið með þessum hætti. Því verða sjálfstæðismenn að breyta í framtíðinni.

5


EIGA KARLAR AÐ PISSA SITJANDI? Í UPPHAFI VAR LJÓSIÐ. Í UPPHAFI SKAPAÐI GUÐ MANNINN Í SINNI MYND OG ÞURFTI LJÓS TIL. HVÍLDIST SVO. ÞÁ SKAPAÐI GUÐ KONUNA ÚR RIFBEINI OG MOLD. HVÍLDIST SVO. SVO SKAPAÐI MAÐURINN LAZY-BOYINN - OG HVÍLDIST. MIKLU SEINNA TÓK MAÐURINN UPP RYKSUGU, UNDRANDI Á SVIPINN, EN HVÍLDIST EKKI. Á MEÐAN NÝTTI KONAN TÆKIFÆRIÐ OG SETTIST Í LAZYBOYINN OG HVÍLDIST. HIÐ ÓUMFLÝJANLEGA VAR HAFIÐ. MISRÉTTI HEFUR ALLTAF VERIÐ TIL Saga lífs á jörðu er löng en mannkynssagan er stutt. Að sama skapi er saga misréttis löng en saga jafnréttis stutt. Þótt hér verði fjallað um jafnrétti og mismunun með kynin í huga má ekki gleyma því að misrétti er síður en svo bundið við kynjamismunun. Misrétti hefur ekki síður verið bundið mismunun kynþátta, þjóðfélagsstétta og þar fram eftir götunum. 20. öldin var öld leiðréttinga. Í upphafi hennar voru þeir menn einir frjálsir sem á því höfðu efni. Ungt par gat ekki stofnað heimili nema að það ætti jarðarskika. Langamma mín, sem enn er á lífi, var á meðal þeirra fyrstu giftra kvenna á Íslandi sem fengu almennan kosningarétt. Hér á landi fengu fyrstu konurnar kosningarétt árið 1882. Einungis þær sem áttu sig sjálfar, eins og kallað var, og greiddu ríkinu skatta, máttu kjósa. Á

6

áratugunum tveimur eftir 1900 fengu allar konur kosningarétt og jafnan rétt til náms og embætta. Það er ekki lengra síðan. Eftir það má segja að konur hafi tekið að saxa jafnt og þétt á kynbundið forskot karla svo að með sama framhaldi má alveg eins búast við því að jafnréttiskeflið flytjist í hendur karla. Jafnréttisbarátta undanfarinna áratuga hefur einkennst af kvenréttindabaráttu, sem snúist hefur um réttindi kvenna. Nú er talað um jafnrétti. Það að kvenréttindabaráttan hafi þróast og orðið að jafnréttisbaráttu tel ég merki um góða og farsæla framvindu í sögu okkar. LÖG UM JAFNRÉTTI MEGA EKKI VERÐA ÓLÖG Oft er deilt um það hvort rétt sé að binda jafnrétti kynjanna á öllum sviðum í lög. Hér er rétt að hafa það í huga að slík löggjöf felur oft í sér réttarbót til kvenna í þeim tilfellum þar sem staða karla er sterkari fyrir. Þetta er

hins vegar angi af þeirri umræðu hversu mikið skuli yfirhöfuð binda í lögum. Eiga lög að taka til allra smáatriða eða eiga lög að vera leiðbeinandi umgjörð? Andstæðingar þjóðabandalaga eins og Evrópusambandsins gera t.d. óspart grín að sköpunargleði skriffinnanna svokölluðu í Brussel að njörva allt niður með lögum og reglum. Ef við lítum til sjálfstæðisstefnunnar sem felur í sér einstaklingsfrelsi og frelsi í samkeppni þá inniheldur hún augljóslega skýlausa jafnréttishugsjón. Í stjórnarskrá lýðveldisins er öllum einstaklingum, af báðum kynjum, gert jafnhátt undir höfði. Ef sjálfstæðishugsjónin og lýðveldisfyrirkomulagið er haft að leiðarljósi ætti ekki að vera þörf á sérstökum lagasetningum um jafnrétti eða kynjahlutföll. Sagan kennir okkur að grundvallargildi hugsjónarinnar verði ekki tryggð á öllum


sviðum nema með því að þau endurspeglist í löggjöfinni. Með því er gildum haldið á lofti í verki. Fáir efast um það í dag að konur eigi að njóta kosningaréttar og kjörgengis til jafns á við karla en sá var ekki veruleikinn fyrir nokkrum mannsöldum. Ég tel að heppilegt sé að tryggja jafnrétti með lögum á mikilvægum, breiðum sviðum til að flýta fyrir því óumflýjanlega, að kynin standi jöfn. Við megum þó ekki gleyma okkur í því að kynbinda jafnréttið þannig að það komi í veg fyrir frjálsa samkeppni einstaklinga og veiti öðru kyninu forskot á hitt. Jafnrétti er réttindi eða réttur þess sem hallari fæti kann að standa, ekki skylda eða kvöð. LÖG UM JAFNRÉTTI EÐA LÖG UM KVAÐIR Óhætt er að halda því fram að sýnilegustu jafnréttismarkmið nútímans tengist atvinnumarkaði, launum og stöðum. Þrátt fyrir að bilið hafi minnkað á milli kynjanna má enn greina verulegan mun. Kynbundinn launamunur er ríkjandi á flestum sviðum vinnumarkaðarins hvort heldur sem litið er til hins opinbera eða einkageirans. Reyndar kemur það á óvart að munurinn virðist vera meiri hjá hinu opinbera en einkafyrirtækjum. Í könnun félagsvísindastofnunar HÍ frá árinu 2008 um kynbundinn launamun á íslenskum vinnumarkaði, komu fram athyglisverðar niðurstöður. Þar kom í ljós að karlar sem störfuðu hjá hinu opinbera voru með 28,4% hærri laun en konur í sömu störfum. Í einkageiranum reyndist þessi kynbundni launamunur talsvert lægri eða 22,4%. Einnig kom í ljós að launamunur kynjanna var meiri þegar litið var til búsetu. Þegar á heildina var litið reyndist kynbundinn launamunur á landsbyggðinni 38% og því mun meiri en á höfuðborgarsvæðinu. Af þessum niðurstöðum félagsvísindastofnunar má draga þá ályktun að jafnrétti kynjanna sé best tryggt þar sem frelsi og fjölbreytileiki ríkir á vinnumarkaði.

Fjölbreytileiki vinnumarkaðar er mestur í þéttbýli og frelsi er meira þegar ríkisafskiptum lýkur. Í viðskiptalífinu hafa mun fleiri karlar verið áberandi í lykilstöðum en konur. Stjórnir fyrirtækja hafa með afgerandi hætti verið skipaðar körlum. Með lögum sem samþykkt voru á Alþingi hinn 4. mars 2010 voru gerðar breytingar á lögum um hlutafélög sem varða meðal annars kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Þar er kveðið á um að jafnréttis kynjanna skuli gætt þegar um er að ræða félög af tiltekinni stærð eða umfangi, en markmið laganna er að tryggja báðum kynjum jafnan aðgang að stjórnarsetu. Þetta eru athyglisverð lög að því leyti að jafnréttið var alltaf til staðar. Þetta eru því ekki lög um jafnrétti heldur lög um kvöð. Leiða má líkur að því að svona aðferð geti svo sannarlega aukið jafnræði meðal kynjanna ef hallar á annað. En þá þarf að ganga lengra - alla leið. Það þarf að taka upp þennan nýja þráð og spinna stærri vef. Ef við ætlum að ganga hreint til verks þarf t.d. að setja lög um að: •

lágmarki skuli 45% kennara í hverjum skóla vera karlar

lögbundin verði ný stétt ljósfeðra

ákveðið hlutfall bifvélavirkja á hverju verkstæði séu með brjóst

banna sérstaka karla- og kvennaklúbba

eigi sé heimilt að mynda íþróttasveitir eða flokkaíþróttir eftir kynjum

karlar skuli að öllu jöfnu pissa sitjandi

Þetta er hin rétta nálgun til að ná fram fullkomnu jafnrétti, þar sem munur kynjanna hverfur og við þekkjum ekki stelpu frá strák. Það verður jafngilt að vera stelpustrákur og strákastelpa. Í anda þessa voru því gerð hörmuleg mistök þegar súludans var bannaður hér á dögunum.

Auðvitað átti að setja kynjakvóta í stað banns. VERKEFNIN FRAMUNDAN Þótt ég hafi hér að framan amast við að lög um jafnrétti verði lög um kvaðir og að lög þurfi yfir höfuð um allt, má auðvitað hugsa sér að sett séu tímabundin lög til að betrumbæta það sem miður fer eða til að flýta ákveðinni þróun. Það var e.t.v. rétt að beita jákvæðri mismunun eins og það er kallað til að vinna tapaðan tíma fyrir blökkumenn í Bandaríkjunum. Þeir voru svo sannarlega beittir misrétti af verstu sort – þeir voru þrælar. Það er hins vegar verið að misbjóða grunnhugtakinu jafnrétti þegar sett eru lög um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja. Í öllu falli hlýtur það að leiða til þess að áfram verði haldið á sömu braut. Hvað með fulltrúa starfsmanna; eiga þeir ekki rétt á sínum fulltrúa? Nú eða þá aðfluttir Íslendingar. Hvað um samynhneigða, eiga þeir enn einu sinni að vera útundan? Víst eru verkefnin enn fyrir hendi þótt komið sé fram á 21. öldina. Ég gat þess í upphafi að hún langamma mín var meðal fyrstu kvenna til að öðlast kosningarétt. Hvernig væri nú að gera bragarbót á lögunum enn á ný þannig að atkvæði mitt verði jafngilt atkvæði frænda míns vestur á fjörðum? Guðrún Anna Atladóttir


í 80 ár

FRELSISBARÁTTA SAMBAND UNGRA SJÁLFSTÆÐISMANNA VAR STOFNAÐ Á ÞINGVÖLLUM ÞANN 27. JÚNÍ 1930 OG FAGNAR ÞVÍ 80 ÁRA AFMÆLI SÍNU UM ÞESSAR MUNDIR. Fyrsti formaður sambandsins var Torfi Hjartarson og var tilgangur SUS að sameina og samræma starfsemi félaga ungra sjálfstæðismanna um land allt. Á stofnfundinum var markmið sambandsins lögfest. Sagði svo í lögunum um markmiðin: a) Að vinna að því, að Ísland taki að fullu öll mál sín í eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina. b) Að efla í landinu þjóðlega, víðsýna og frjálslynda framfarastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis, með hagsmuni allra stétta fyrir augum. Með þessum orðum var lagður grunnur að þeim hugmyndum sem fylgt hafa SUS í gegnum árin. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur

8

hafi mátt taka þessi orð meira til fyrirmyndar á undanförnum árum, í stað þess að þenja út ríkisbáknið, er ljóst að SUS hefur aldrei misst sjónar af þessum tilgangi. Það er ástæða þess að ungt fólk tekur mark á SUS, því félagið er samkvæmt sjálfu sér og er rödd samviskunnar fyrir annars tækifærissinnaða stjórnmálamenn Sjálfstæðisflokksins. Fyrstu skrefin – 4. áratugurinn Fyrsta áratuginn frá stofnun SUS var Sjálfstæðisflokkurinn að mestu í stjórnarandstöðu og vinstri menn í stjórn. Af því tilefni lýsti Torfi Hjartarson, fyrrverandi formaður SUS, framsóknarmönnum og sósíalistum á þennan hátt árið 1937: „Í þessum flokkum eru ófrjálslyndir menn, sem

vilja leyfa fátt, banna margt og skipulagsbinda allt, og einræðisgjarnir menn, sem ekki hika við að traðka á rétti manna með ofríki og ofbeldi vegna flokkahagsmuna og jafnvel eiginhagsmuna“. Þessi orð Torfa virðast því miður líka geta átt við árið 2010 þar sem vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar virðist eingöngu vilja leyfa fátt og banna margt. Auk þess að berjast gegn ofríki ríkisvaldsins og vaxandi einokun börðust SUS mikið fyrir sjálfstæði landsins á 4. áratugnum. Vildi sambandið ná lífsgæðum nágrannalandanna sem fyrst til þess að tryggja hið frjálsa samfélag betur.


Skattar, kapítalismi og kommúnismi – 5. áratugurinn Á næstu árum og áratugum varð eitt helsta baráttumál SUS að skattar væru sem lægstir. Undir stjórn vinstri manna og framsóknarmanna höfðu orðið miklar skatta- og tollahækkanir. Í þessu andrúmslofti steig SUS fram og sagði sköttum stríð á hendur. Virtist á þessum tíma allt sem hreyfðist vera skattlagt. Lögðust vinstri menn jafnvel það lágt að hreyfa það sem ekki hreyfðist, bara til að geta skattlagt það. Þannig var háleiguskattur, verðhækkunarskattur, öl- og kaffibætisskattur, skemmtanaskattur, veitingaskattur og jafnvel sykurskattur. Var það stefna SUS að skattar yrðu bæði lækkaðir og skattkerfið einfaldað með því að fækka þessum ótrúlegu sköttum. Ástæðan var einföld; fólkið í landinu átti að uppskera eins og það sáði. Þessi skattastefna var mjög í samræmi við það andrúmsloft sem var að gerjast á vesturlöndum á 5. og 6. áratug síðustu aldar. Taldi SUS að einstaklingar gætu orðið sínir eigin atvinnurekendur með því að bjóða vinnu sína. Að gera verkamann að fjármagnseiganda og skapa hverjum vinnandi manni tækifæri var undirstaða þess kapítalisma sem SUS boðaði. Þetta var öfugt við hina köldu hönd kommúnismans sem boðuð var á sama tíma, austar í álfunni. Kommúnistar voru höfuðandstæðingar lýðræðissinna í SUS. Var það mat SUS að miklu frekar ætti að stofna til frekara samstarfs við Bandaríkin um efnahagslega og varnarlega samvinnu, í stað þess að verða að enn einu alræðisríkinu í Evrópu eins og vinstri menn vildu. Viðskipti og bókaútgáfa – 6. áratugurinn Á 6. áratug síðustu aldar var SUS fyrsta hreyfingin til að tala fyrir því að setja á stofn almennan

9


verðbréfamarkað. Þannig var lagður grunnur að enn frjálsari markaði sem samt yrði undir sterku eftirliti, enda hefur það ávallt verið skoðun SUS að frelsi fylgi ábyrgð og hóflegt eftirlit. Bjarni Benediktsson, síðar formaður Sjálfstæðisflokksins, tók sig til og stofnaði Almenna bókafélagið á þessum árum. Átti það að verða mótvægi við vinstrisinnaða bókaútgáfu í landinu á þeim tíma. Þótti Bjarna ískyggileg áhrif kommúnista hafa náð fótfestu í listum og menningu. Það gerðist líka á þessum tíma að Ragnhildur Helgadóttir, sem var á þeim tíma á SUS-aldri, settist á þing og hóf að tala málefnum fjölskyldunnar og heimilisins í samræmi við sjálfstæðisstefnuna. Hún átti stóran þátt í að sýna að sjálfstæðisstefnan og stefna SUS var ekki sniðin að viðskiptafrelsi og utanríkismálum heldur einnig að hinum mýkri málum. Viðreisnarárin – 7. áratugurinn SUS stóð dyggilega að baki forystu flokksins á þessum árum, enda voru mörg framfaraskref stigin. Einkenndist hugmyndabaráttan aðallega af umræðu um Evrópusamvinnu og menntamál. Vildu SUS-

10

arar styrkja EFTA samstarfið, enda er það grundvöllurinn að því viðskiptafrelsi sem hefur komið íslenskum neytendum til góða á undanförnum árum. Virðist að öðru leyti hafa verið einhvers konar lágdeyða yfir SUS á þessum árum, enda Sjálfstæðisflokkurinn í stjórn allan áratuginn og virtist SUS lítið hafa haft aðhald með forystu flokksins. Báknið burt – 8. áratugurinn Aðhald með flokknum var hvað mest á áttunda áratug síðustu aldar. Þá fór fyrst að bera á hugtakinu frjálshyggju og flutti Jónas H. Haralz merkilega ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1973. Sagði hann að ástæða þess að frjálshyggjan væri jafn lífseig og raun bæri vitni á Vesturlöndum var að undir þeirri stefnu væri maðurinn fær um að starfa, vaxa og þroskast í frjálsu samfélagi við aðra menn og fær um að vera sinnar eigin gæfu smiður. Árið 1975 fór SUS hart í gagnrýni sinni á útþenslu ríkisbáknsins og varð frægt slagorðið „Báknið burt“, sem hleypt var af stokkunum árið 1977 undir forystu Friðriks Sophusson, þáverandi formanns SUS. Þótti útþenslan vera ósamrýmanleg þeirri

frjálshyggju og valddreifingu sem Sjálfstæðisflokkurinn átti að hafa að leiðarljósi. Þjóðviljinn og aðrir vinstri fjölmiðlar brugðust ókvæða við þessum hugmyndum SUS. Töldu þeir hugmyndir SUS um niðurskurð mjög róttækar og jafnvel hættulegar. Annað gott baráttumál SUS á þessum tíma var baráttan fyrir frjálsu útvarpi. Margar greinar voru skrifaðar og fundir haldnir um efnið en vinstri, forræðisþenkjandi menn, voru ekki á þeim buxunum. Þá var einnig lögð áhersla á það mikilvæga mannréttindamál að leiðrétta misvægi atkvæða í kjördæmum landsins. Er því miður enn svo í dag að sá sem kýs á Patreksfirði hefur helmingi verðmætara atkvæði en sá sem kýs í Kópavogi. Einkavæðing – 9. áratugurinn Í formannstíð Vilhjálms Egilssonar og Geirs H. Haarde á árunum 1981-1987 var mikið barist fyrir einkavæðingu og niðurskurði ríkisútgjalda. Fjórar auglýsingasíður voru keyptar í Morgunblaðinu í tíð Vilhjálms þar sem hugmyndir SUS um niðurskurð voru kynntar. Tekið var bæði á stórum og smáum


liðum og hvergi slakað á. Mættu þessar góðu hugmyndir gríðarlegri andstöðu ýmissa sérhagsmunahópa. Þá var lagt til sölu ríkisfyrirtækja og einkarekstur í skóla- og heilbrigðiskerfi. SUS hefur ávallt talið að fyrirtækjum sé best borgið utan ríkisins. Þannig sagði Magnús Jónsson árið 1931: „Fyrirtæki, sem rekin eru af ríki, eru ævinlega illa rekin. Dæmi upp á þetta er Póstur og sími. En við erum svo vanir því, eins og það er, að við erum hættir að veita því eftirtekt, hve illa þau eru rekin. Væri gaman að sjá hvernig því yrði tekið, ef til dæmis vefnaðarvöruverslun væri rekin með sömu reglum“. Er þetta síðan botnað með orðunum: „Burt með ríkisreksturinn“. Þetta er gegnumgangandi stef í stefnu SUS og er ljóst að hefði þeim verið fylgt betur á síðustu árunum fyrir hrun hefðum við verið í betri stöðu eftir efnahagshrunið. Þannig hefði ríkisbáknið vaxið mun minna og fyrirtæki hefðu verið einkavædd á betri máta. Eitt af þeim meginmálum sem SUS barðist fyrir á fyrri hluta 9. áratugarins var frjálst útvarp, en það hafði verið sígilt baráttumál

sambandsins undanfarinn áratug. Varð SUS loks að ósk sinni árið 1986 þegar útvarp og sjónvarp var gefið frjálst og hafa Íslendingar notið góðs af frá þeim tíma. Eins og gildir um svo mörg baráttumál SUS var mikil andstaða við það í upphafi og SUS-arar úthrópaðir sem öfgamenn. Nú þykja mörg fyrrverandi baráttumál SUS vera hin sjálfsögðustu mál og enginn vinstri maður þorir að hreyfa athugasemdum við þeim, þó inni í þeim syngi oft vitleysingur. Dæmi um þetta er bjórfrumvarpið, sem menn á borð við Steingrím J. Sigfússon börðust hatrammlega gegn en þykir í dag sjálfsagðasti hlutur. Í tíð Árna Sigfússonar, sem formanns SUS á árunum 19871989, litu nokkur ný baráttumál dagsins ljós. Þannig fór SUS í fyrsta sinn af alvöru að ræða um umhverfis- og dagvistunarmál. Voru settar fram ítarlegar tillögur um sölu ríkisjarða og að söluhagnaðinum yrði varið til landgræðslu sem og vel útfærðar tillögur um einkarekin dagheimili á vegum foreldra, fyrirtækja og félagasamtaka.

Ísland tækifæranna – 10. áratugurinn Í tíð Davíðs Stefánssonar sem formanns SUS árið 1989-1993 var lagður grunnur að ítarlegri stefnumörkun í sambandi við Evrópusamstarf á komandi árum. Vegna þeirrar miklu stefnumörkunar sem átti sér stað á sviði Evrópusamvinnu þurfti að huga vel að grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Af því tilefni gaf SUS út sérstök blöð Stefnis sem sneru eingöngu að sjávarútvegi og landbúnaði á árinu 1991. Var lögð þung áhersla á að varðveita einkaeignarréttinn sem fylgdi kvótakerfinu og að ekki væri rétta leiðin að landbúnaðurinn væri ríkisstyrktur. Aflétting hafta af landbúnaði myndi leiða til aukinnar velsældar fyrir neytendur og þar með landið í heild. Áfram hélt umræðan um ESB í formannstíð Guðlaugs Þórs Þórðarssonar, frá árunum 19931997. Það var skoðun SUS að hagsmunum landsins væri best borgið utan ESB. Með EESsamningunum væru samskiptin við sambandið nægilega tryggð til þess að tryggja nauðsynlegt viðskiptafrelsi.

11


Þá virðist almenn ánægja hafa verið með yfirskrift Friðriks Sophussonar þáverandi fjármálaráðherra um nýja skipan í ríkisrekstri. Fólst sú skipan í því að meta hvaða hlutverki ríkið átti að gegna og hvaða störfum það átti ekki að sinna, m.a. með niðurskurði og einkavæðingu. Virðist þarna hafa verið maður sem sinnti sínum gömlu hugsjónum um báknið burt. Svolítið sem fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu mátt temja sér. Í tíð Ásdísar Höllu Bragadóttur sem formanns á árunum 19971999 var hrundið af stað með slagorðinu „Ísland tækifæranna“. Mikill landflótti menntamanna (e. braindrain) hafði verið farinn að gera vart við sig og greip SUS til sinna ráða. Töluðu SUSarar af miklum þunga um aukið frelsi í viðskiptum og ný tækifæri í menntamálum og nýsköpun. Meðal nýrra mála sem komu til á þessum tíma voru hugmyndir um flatan skatt sem sóttar voru til Steve Forbes. Einnig virðist hafa verið megn óánægja með það að ríkisvaldinu væri að vaxa fiskur um hrygg í valdatíð Sjálfstæðisflokksins og meira að segja er gengið svo langt í 1. tbl.

12

Stefnis árið 1998 að spyrja hvort það væri nokkuð lengur munur á vinstri og hægri í íslenskri pólítík. Dýrðarljóminn og hrunið – 21. öldin Skemmtilegt er að líta til þess að á árunum 1999-2001 þegar Sigurður Kári Kristjánsson var formaður var strax byrjað að kræla á hugtakinu „nýfrjálshyggja“ í orðræðu vinstri manna. Þessi misskilningur og hugtakaruglingur átti eftir að taka á sig nýja og undarlegri mynd rúmlega 10 árum síðar. Einnig mótmælti SUS hinum víðfræga Öryrkjadómi frá árinu 2000 þar sem niðurstaðan var sú að óheimilt væri að skerða örorkubætur öryrkja vegna tekna maka hans. Að öðru leyti var Sjálfstæðisflokkurinn á blússandi siglingu, mældist með rúmlega 50% fylgi meðal ungs fólks og einkavæðing var ekki lengur níðyrði, eins og segir svo skemmtilega í 1. tbl. Stefnis frá 2001. Þá var formaðurinn áberandi í þjóðfélagsumræðunni og frelsið hafði loksins unnið sigur. Á árunum 2003-2005, meðan Hafsteinn Þór Hauksson var formaður, blómstraði heimasíðan

www.sus.is. Þá voru dagleg greinaskrif og var heimur bloggsins og heimasíðna að opnast upp á gátt. Helsta málgagn SUS varð netið og var vefsíðan vel sótt. Mikið var skrifað og ályktað gegn gríðarlegum ríkisútgjöldum og hvatt til meiri aðhalds og skattalækkana, auk þess sem miðstýring í stjórnsýslunni var gagnrýnd. Þá voru hugmyndir um ávísanakerfi í menntakerfinu stórt baráttumál sambandsins, sambandið styrktist í andstöðu sinni við ESBaðild og gagnrýndi hið fræga fjölmiðlafrumvarp. Í síðustu stjórninni fyrir hrun, í tíð Borgars Þórs Einarssonar, frá 2005-2007, var sjónum að miklu leyti beint að umheiminum. Fréttir frá Írak og Darfúr-héraði í Súdan settu svip á þjóðfélagsumræðuna og harmaði SUS þau voðaverk sem þar voru framin. Auk þess vakti barátta SUS gegn opinberri birtingu álagningarskráa mikla og verðskuldaða athygli. Loks lagði stjórnin töluvert upp úr umhverfismálum og hélt milliþing árið 2006 undir yfirskriftinni „Umhverfið er okkar“. Á fyrri hluta tímabils síðustu stjórnar, meðan Þórlindur Kjartansson gegndi formennsku


árin 2007-2009, var m.a. barist fyrir ýmsum mannréttindamálum. Til dæmis hvatti stjórnin til þess að ráðamenn sniðgengju Ólympíuleikana í Peking vegna þeirra mannréttindabrota sem eiga sér stað í Kína á hverjum degi undir stjórn alræðisstjórnarinnar. Þá hvatti SUS til þess að starfsemi Íbúðalánasjóðs yrði endurskoðuð og hvatti til þess að ríkið myndi ekki skipta sér af fasteignalánum. Ágætt hefði verið fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að hlusta á þennan boðskap, í stað þess að efna kosningaloforð Framsóknar frá árinu 2003 um 90% íbúðalán sjóðsins. Á síðari hluta stjórnartíðar sinnar heyjuðu SUS-arar hetjulega baráttu til þess að endurreisa orðspor Sjálfstæðisflokksins í kjölfar efnahagshrunsins. Þannig var hvatt til þess að endurreisn efnahagskerfisins yrði í anda sjálfstæðisstefnunnar og harmað var hversu ríkisútgjöld voru aukin á tíma Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir þennan góða boðskap dugðu hvatningarorðin skammt, enda gerðu æðstu menn flokksins lítið til þess að koma flokknum til varnar á opinberum vettvangi. Því fór sem fór.

Núverandi stjórn SUS hefur reynt að leggja metnað og þunga í að gagnrýna þær vafasömu aðgerðir sem vinstri stjórnin hefur farið í. Þannig hefur SUS gagnrýnt harkalega skattahækkanir og hvatt fremur til skattalækkana, svo venjulegar fjölskyldur geti séð sér farborða. Með fyrstu verkum nýrrar stjórnar var t.d. að leggja til gríðarlegan niðurskurð í ríkisrekstri, til að brúa fjárlagagatið. Þá var SUS öflugt í baráttunni gegn ESBaðild og Icesave-ánauðinni sem felld var eftirminnilega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einnig hefur stjórn SUS verið eina stjórnmálahreyfingin sem vakið hefur máls á þeirri aðför að tjáningarfrelsi sem nýtt fjölmiðlafrumvarp er sem nú liggur fyrir Alþingi. Lokaorð Af öllu þessu er augljóst að SUS hefur aldrei skeikað frá sinni stefnu, enda ekki ástæða til. Sú stefna sem SUS hefur barist fyrir er stefna mannréttinda og frelsis. Aldrei hefur verið jafn nauðsynlegt fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að hlusta á rödd grasrótarinnar og SUS. Hefðu þingmenn hlustað örlítið betur á undanförnum áratugum

værum við betur sett en við erum í dag. Það eina sem hægt er að gera nú, eftir að skaðinn er skeður, er að þingmenn skafi eyrnaskítinn úr eyrunum og stígi niður af sínum háa hesti. Að lokum gef ég Birgi Kjaran, fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins orðið, sem lýsti á sínum tíma stefnu Sjálfstæðisflokksins með þessum orðum: „Viðhorf Sjálfstæðisstefnunnar byggist á trúnni á manninn, þroskamöguleika hans, hæfni til þess að stjórna sér sjálfur, til að velja og hafna og til að leita sjálfur eigin lífshamingju án þess að troða öðrum um tær eða þurfa á fyrirsögn eða handleiðslu annarra manna að halda um eigin mál. Í krafti trúarinnar á manninn telja sjálfstæðismenn, að einstaklingurinn skuli njóta mannhelgi, og að frumréttur hans sé frelsið, andlegt frelsi og efnahagslegt frelsi.“ Grein þessi er byggð á eldri ritum Stefnis og grein Þórs Sigfússonar úr Stefni frá árinu 1990 um 60 ára afmæli SUS.

13


ÁBYRGÐ SKAL FRELSINU FYLGJA

Í

kjölfar efnahagshrunsins hafa ýmsir bent á frjálshyggjuna sem orsök þess. Þær ásakanir eiga sér enga stoð enda gagnrýndu frjálshyggjumenn mikið hinn vaxandi húsnæðislánamarkað í Bandaríkjunum árið 2007 sem varð upphafið af hinu alþjóðlega efnahagslega áfalli. INNLÁNSTRYGGINGAR Hrun íslensku bankanna má að mestu rekja til óábyrgrar framgöngu í útlánastarfsemi. Fífldirfska í bland við mannlega breyskni gróf undan stoðum bankanna. En hvað hvatti forsvarsmenn bankanna til að fara svo illa með fjármuni? Jú, þeir höfðu nefnilega tryggingu, ríkistryggingu í formi innlánatryggingar, sem átti að vernda almenning frá hremmingum. Þegar ríkið ábyrgist innstæður í bönkum gjörbreytist hugarfar fólks. Peningum innstæðueigenda er ráðstafað með óæskilegum hætti, án sérstaks tillits til áhættu, því ríkið ábyrgist jú greiðslu ef illa fer. Skilaboð ríkisins eru einföld: „Þið getið geymt peninga ykkar í hvaða banka sem ykkur lystir, við ábyrgjumst þá.“ Ef ríkisábyrgðin yrði afnumin þyrfti hver viðskiptavinur að bera traust til þess sem sæi um fjármuni hans, traust byggt á þekkingu. Þetta tiltekna traust yrði að öllum líkindum endurgoldið með

14

betri meðhöndlun fjármuna og meiri gaumgæfni. Hæfi banki að lána einhverjum afglöpum háar fjárhæðir myndi hann tapa viðskiptavinunum. Innstæðueigendur þyrftu þá að meta stöðu hvers banka og starfsemi hans áður en ákvörðun væri tekin. Slíkt er þegar gert á flestum sviðum. Þegar kaupa á bíl eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á valið, t.d. árgerð, bilanatíðni og keyrsla. Vandi viðskiptavinurinn ekki valið kann hann að sitja uppi með ónýtan bíl. Bætti ríkið tap hvers sem tekur glórulausa ákvörðun í bílakaupum yrðu skattgreiðendur viti sínu fjær. Sú er einmitt raunin í bankakerfi okkar. Versta form frelsis er frelsi án ábyrgðar. Hver og einn verður að sýna skynsemi í ráðstöfun síns eigin fjár ella mun hann tapa fénu fyrir fullt og allt. Sá hugsunarháttur að ríkisstjórnin geti þvingað hvern einstakling með valdi til að greiða fyrir tap annarra borgara samfélagsins ætti fyrir löngu að vera grafinn. BJÖRGUN FYRIRTÆKJA Hrun húsnæðislánamarkaðar Bandaríkjanna árið 2007 hafði keðjuverkandi áhrif, sem umturnuðu ýmsum atvinnugreinum. Umsvifamikil fyrirtæki, svo sem tryggingarisinn AIG, Lehman bankinn og hið fornfræga bílafyrirtæki Chrysler urðu gjaldþrota. Bandaríska

ríkisstjórnin ákvað að dæla gríðarlegum fjárhæðum í þessi fyrirtæki og önnur, að Lehmanbræðrum undanskyldum. Þess konar framkvæmd er þekkt undir enska heitinu „bail-out“. Réttlæting framkvæmdarinnar var sú að þessi tilteknu fyrirtæki væru of stór til að falla, atvinnuleysi ykist, viðskipti fyrirtækisins við aðrar greinar féllu niður sem myndi enn fremur fækka störfum. Með öðrum orðum væru keðjuverkunaráhrifin svo mikil. Þessar staðhæfingar eru sannar en fjárhagslegur styrkur ríkisins til fyrirtækjanna er ekki lausnin. Til að fjármagna styrkina þarf að skattleggja almenning eða taka lán sem mun þó að lokum leiða til aukinnar skattheimtu. Styrkurinn er aðeins færsla fjármagns, störf haldast á kostnað annarra – oft og tíðum á kostnað miklu fleiri starfa. Munurinn liggur í hagkvæmni. Fyrirtækin fóru á hausinn vegna þess að þau gátu ekki framleitt og selt varning sinn á jafnskilvirkan og ódýran hátt og önnur. Leggist þau á spena ríkisins hyglir það óhagkvæmni í framleiðslu og er ríkið því að takmarka hagkvæma verðmætasköpun. Samfélagið er verðmætum fátækara. Auk þess hefur viðbætta skattbyrðin og vaxandi skuldir ríkisins lamandi áhrif á efnahagslífið allt. Geta má að bandaríska ríkisstjórnin hefði getað afnumið tekjuskatt í um það bil þrjú ár í stað þess að styrkja fyrirtækin, svo gríðarlegar eru þessar styrkgreiðslur. Með slík fjárráð milli handanna hefðu skattborgarar án efa stórbætt ástandið og skapað störf með auknum sparnaði og neyslu. Þorsteinn Friðrik Halldórsson


STOLTUR FRJÁLSHYGGJUMAÐUR Í KJÖLFAR EFNAHAGSHRUNSINS HAFA MARGIR ÁKVEÐIÐ AÐ VARPA ÁBYRGÐINNI Á FRJÁLSHYGGJUNA. ÞAÐ ER MERKILEGT ÞAR SEM FLESTIR RÁÐHERRAR ÍSLANDS FRÁ EINKAVÆÐINGU BANKANNA HAFA VERIÐ HREINRÆKTAÐIR JAFNAÐARMENN, ÞÓTT HELMINGUR ÞEIRRA HAFI VERIÐ KJÖRINN Á ÞING FYRIR SJÁLFSTÆÐISFLOKKINN. Í ljósi ríkisábyrgðar á innlánum, ríkisreknum húsnæðislánum, stækkandi ríkisbákni og þess að menn báru oft ekki ábyrgð á eigin lántökum né öðrum gjörðum sínum, þá er með engu móti hægt að halda því fram að hér hafi ríkt frjálshyggja. Frjálshyggja gengur út á að einstaklingurinn beri ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum og skaði ekki aðra með hegðun sinni. Frjálshyggjan er mjög falleg stefna sem byggir á frelsi einstaklingsins til athafna, en elur ekki á ríkiskúgunum eins og flestar aðrar stjórnmálastefnur. Ég mun ekki láta fjölmiðla, Steingrím J. eða Jóhönnu Sigurðardóttur segja mér að frjálshyggja sé einhver græðgisstefna sem sé upphafið að öllu illu, því eins og sjá má hafa fullyrðingar þeirra um að frjálshyggja hafi ríkt hér á Íslandi síðustu ár enga stoð í raunveruleikanum. Það að þú sért frjálshyggjumaður þýðir einfaldlega að þú berð virðingu fyrir öðrum einstaklingum og þeirra lífi. Frjálshyggjumenn eru mótfallnir því að setja lög um það hvernig aðrir haga lífi sínu svo framarlega sem þeir skaða ekki aðra á meðan. Frjálshyggjumenn

myndu aldrei banna þér að reykja heima hjá þér eða á skemmtistaðnum þínum. Þeir myndu ekki þvinga þig til að ferðast með einn farþega í bíl um helgar. Þeir myndu ekki takmarka áfengissölu við eina búð og einn opnunartíma. Þannig mætti lengi telja. Á Alþingi Íslendinga er fullt af góðu fólki sem reynir að gera sitt besta fyrir einstaklingana í landinu. Hins vegar vill svo til að hugsjónir þeirra stuðla að einhverju allt öðru. Það ótrúlegasta er að þetta fólk skuli ekki enn þá gera sér grein fyrir því að skerðing á frelsi einstaklingsins hefur nánast undantekningarlaust skaðleg áhrif á velferð fólksins í landinu. Sagan sannar það. Það er kannski ekki skrítið að þeir sem bjóða sig fram til að stjórna örlögum annarra séu ekki miklir frjálshyggjumenn. Allir kannast við dæmi um barn sem fær svo mikið upp í hendurnar að það ræður ekki við eigið líf og á erfitt með að taka sín fyrstu skref út í lífið, enda aldrei þurft að bera ábyrgð á neinu. Ríkið er að gera það sama við okkur og óhæfu foreldrarnir í því tilviki. Ríki sem greiðir atvinnulausu fólki jafnhá laun og þau sem bjóðast á almennum markaði er að skapa

fleiri vandamál en það leysir. Ég á vini sem festast í slíkum viðjum og það sama gildir eflaust um marga lesendur þessarar greinar. Frjálshyggjan vill að fólk taki ábyrgð á sínum gjörðum alveg eins og góðu foreldrarnir sem láta börnin sín mæta áskorunum einfaldlega vegna þess að þeim þykir vænt um þau. Engum er greiði gerður með því að vera stanslaust bjargað af ríkinu, geri menn mistök. Þá er verið að stuðla að því að menn hjakki í sama farinu og geri sömu mistök aftur og aftur. Flestir vita að frelsi til athafna og velmegun þjóða haldast í hendur. Sorglegt er að horfa upp á það að hér séu ráðherrar við völd sem tala gegn frelsinu og auki ríkiskúganir. Það er eitthvað sem ég sætti mig ekki við og mun berjast gegn. Ég er stoltur frjálshyggjumaður sem elska frelsið og mun aldrei láta neinn segja mér neitt annað! Egill Örn Gunnarsson


TÆKIFÆRIN ERU TIL STAÐAR „Sjálfstæðisflokkurinn stendur á krossgötum og glímir við innri og ytri vanda. Hvernig forystumönnum og liðsmönnum flokksins tekst að leysa vandann getur haft gríðarleg áhrif á þróun íslenskra stjórnmála og þjóðfélagsins alls. Hagsmunirnir sem eru í húfi eru miklir og þar skipta hagsmunir Sjálfstæðisflokksins minnstu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu áratugum verið kjölfesta í íslenskum stjórnmálum og ef sú kjölfesta brestur getur þjóðfélagið allt skaðast.“

16

Þannig komst ég að orði í umdeildri grein sem birtist í tímaritinu Þjóðmálum sem kom út nokkrum vikum fyrir hrun íslenska fjármálakerfisins í október 2008. Greinin sem bar yfirskriftina, Flokkur í ólgusjó, vakti litla hrifningu meðal forystumanna Sjálfstæðisflokksins sem voru spurðir álits á henni í fjölmiðlum. Þegar greinin var skrifuð grunaði mig ekki að nokkru síðar stæðu Íslendingar frammi fyrir efnahagslegu hruni með skelfilegum afleiðingum. Og aldrei kom mér til hugar að nokkrum mánuðum síðar ætti

Sjálfstæðisflokkurinn eftir að bíða mesta afhroð í sögu sinni þegar gengið var til þingkosninga í apríl 2009 – átta mánuðum eftir hrunið og nær tíu mánuðum eftir að greinin var skrifuð. Ég hefði að líkindum beitt pennanum með allt öðrum hætti hefði ég séð hvað framtíðin bar í skauti sér. PÓLITÍSK MISTÖK Síðla sumars 2008 hélt ég því fram að staða Sjálfstæðisflokksins hafi aldrei á síðari tímum, verið viðkvæmari og erfiðari. Ástæðurnar voru nokkrar. Flokksmenn voru (og eru) ekki


samstíga í afstöðunni til aðildar Íslands að Evrópusambandinu, erfiðleikar í efnahagsmálum, sem þá þegar höfðu skotið rótum, höfðu dregið úr vinsældum forystumanna flokksins og sú mynd að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar stæði ráðalaus og aðgerðarlítil hafði náð að festast í hugum landsmanna. Pólitískur sirkus í Reykjavík hafði aukið á erfiðleika flokksins og dregið úr trúverðugleika. Ég taldi það einnig hafa verið stórkostleg pólitísk mistök að leiða Samfylkinguna til valda í ríkisstjórnarsamstarfi eftir þingkosningar 2007. Slíkt bæri feigðina í sér enda helsta markmið Samfylkingarinnar að ganga á hólm við Sjálfstæðisflokkinn og leysa hann af sem stærsta og öflugasta stjórnmálaafl landsins. Þá var Samfylkingin í sárum eftir kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn kastaði pólitískri líflínu til flokksins og þáverandi formanns hans, með því að bjóða til ríkisstjórnarsamstarfs.

og sannað að þessi gagnrýni átti rétt á sér.

Pólitísk og hugmyndafræðileg staða Sjálfstæðisflokksins var vond löngu áður en hrunið skall á með öllum sínum þunga. Þrátt fyrir að flokknum hefði tekist að hrinda í framkvæmd mörgum af helstu stefnumálum sínum, voru margir flokksmenn ósáttir. Óánægjan beindist ekki síst að því hvernig ríkisbáknið hafði þanist út og útgjöld ríkissjóðs hækkað stórkostlega. Í huga margra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hafði virðing fyrir opinberu fé – sameiginlegum fjármunum landsmanna – farið þverrandi hjá kjörnum fulltrúum flokksins. Stór hluti efnahagslífsins var án samkeppni og lítið þokaðist í þeim efnum. Í áðurnefndri grein hélt ég því fram að ábyrgðarleysi við stjórn ríkisfjármála hefði leitt til þess að ekki hafi verið hægt að reka skynsama peningastefnu. Þess vegna væru efnahagslegir erfiðleikar okkar meiri en annars þyrfti að vera. Sagan hefur sýnt

Á því rúma ári sem liðið hefur frá því að Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að sætta sig við verstu útreið í kosningum frá stofnun, hefur ýmislegt breyst. Vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, hefur reynst máttlaus við endurreisn efnahagslífsins og bæði lengt og dýpkað kreppuna. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa einnig náð vopnum sínum að hluta og komið fram af meiri sannfæringu og sjálfstrausti en áður. Þetta skynja kjósendur og einmitt þess vegna urðu úrslit sveitarstjórnakosninganna í maí síðastliðnum flokknum hagstæð, þó vonbrigði hafi orðið í nokkrum sveitarfélögum. Raunar má halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé í stórsókn nær allsstaðar á landinu. En verkið er bara rétt að byrja og það gleðilega er að sóknarfærin eru gríðarleg, sé rétt haldið á spilunum.

Sjálfstæðisflokkurinn missti tengslin við baklandið – millistéttina. Sambandið við atvinnurekendur hafði rofnað og fulltrúar launþegasamtaka áttu erfitt uppdráttar innan flokksins. Forystumenn í atvinnulífinu voru því ekki lengur sú kjölfesta sem þeir höfðu verið í áratugi í starfi og stefnu Sjálfstæðisflokksins. Litlir og meðalstórir atvinnurekendur fundu ekki þann stuðning sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði alla tíð veitt og millistéttin náði ekki eyrum forystumanna flokksins. Óveðursský höfðu því hrannast upp í kringum Sjálfstæðisflokkinn löngu fyrir hrun fjármálakerfisins – hrunið magnaði aðeins pólitíska erfiðleika og lamaði flokkinn í öllu starfi. Að þessu leyti má halda því fram að úrslit alþingiskosninganna á síðasta ári hafi ekki átt að koma neinum á óvart og raunar hafi niðurstaðan verið skárri en búast hefði mátt við.

ALDREI SKEMMTILEGRI TÍMI Líklega hefur aldrei verið skemmtilegri tími til þess að taka þátt í starfi ungra sjálfstæðismanna um allt land en einmitt nú. Aldrei hafa félög ungra verið í betri aðstöðu til að hafa áhrif á störf og stefnu flokksins en þegar allt skipulag og vinnubrögð eru til endurskoðunar. Hvernig ungir sjálfstæðismenn standa að verki getur haft mikil áhrif á það hvort Sjálfstæðisflokknum í heild tekst að ná aftur fyrri áhrifum í íslenskum stjórnmálum. Ungir sjálfstæðismenn eiga að taka af skarið og leiða kröfuna um að Sjálfstæðisflokkurinn snúi sér aftur til baklandsins. Þeir eiga að berjast fyrir því að skorin verði upp herör gegn því óheilbrigða viðskiptaumhverfi sem náði að festa hér rætur á síðustu árum. Þeir þurfa að leiða baráttuna fyrir því að spilin verði stokkuð og gefið verði upp á nýtt af sanngirni. En um leið verða ungir sjálfstæðismenn að leggja til atlögu við hugmyndafræði ofstjórnar og ofbeldis sem er að festa rætur. Þeir eiga að ganga á hólm við hugmyndafræði sem ætlar að hneppa allt íslensk athafnalíf í fjötra eftirlits og opinberra hafta. Á hátíðastundum hefur því verið haldið fram að ungir sjálfstæðismenn séu samviska Sjálfstæðisflokksins. Hafi flokkurinn einhverntíma þurft á sérstökum varðmönnum fyrir grunnhugsjónir sínar þá er það nú. Ungir sjálfstæðismenn eiga að vera í fararbroddi þeirra sem innleiða ný vinnubrögð í íslensk stjórnmál og þeir eiga að koma þeim skýru kröfum á framfæri við alla kjörna fulltrúa flokksins, á Alþingi og í sveitarstjórnum, að nú sé tími kominn til að standa vörð um frelsi einstaklinganna til orðs og athafna – að grunnstefið í sjálfstæðisstefnunni sé heilagt. Óli Björn Kárason

17


FORRÆÐISHYGGJA LEIÐIR AF SÉR ÁBYRGÐARLEYSI Ef ríkið hleypur alltaf undir bagga með fólki þegar á móti blæs, fer fólk að treysta á það og tekur áhættu án ábyrgðar. Einstaklingar og fyrirtæki taka betur ábyrgð á eigin gjörðum ef ríkið er ekki til staðar til að bjarga þeim þegar illa fer.

FORRÆÐISHYGGJA ER SKRÍTIÐ FYRIRBÆRI

S

ættum okkur við það; maðurinn er ófullkominn. Ákvarðanir okkar í lífinu geta verið ýmist góðar eða slæmar, eða allt þar á milli. Sú hugmynd að vilja banna einhverjum að taka vonda ákvörðun er mjög mannleg. Ef þú trúir því að einhver ákvörðun sé slæm eða heimskuleg er það mannlegt af þér að vilja koma í veg fyrir að aðrir geri þau mistök að taka þá ákvörðun. Með þessu er hins vegar verið að stýra hegðun fjöldans og hindra þannig einstaklinginn að lifa því lífi sem hann hefði sjálfur kosið. Þeir sem aðhyllast þessa forræðishyggju gera sér ekki grein fyrir því að þeir sjálfir eru ófullkomnir. ÓFULLKOMIN MANNESKJA GETUR EKKI HAFT VIT FYRIR ANNARRI ÓFULLKOMINNI MANNESKJU Einn af stærstu göllum forræðishyggjunnar hefur alltaf verið að þeir sem ráða, eins og t.d. alþingismenn, eru sjálfir mennskir og ófullkomnir. Þeir, eins og aðrir, eru ekki undanskildir mistökum og ranghugmyndum. Við lifum í fjölbreyttu samfélagi þar sem siðferði getur verið nokkuð afstætt. Eflaust þarf að byggja stjórnarfar á einhvers konar siðferði, en þegar við lifum í samfélagi þar sem mismunandi siðferðisgildi ríkja er ekki hægt að gera upp á milli gilda með lagasetningu.

18

Til langs tíma máttu Íslendingar varla brosa á föstudaginn langa því hann var heilagur dagur. Í þá daga sem aðeins ein sjónvarpsstöð var til sýndi hún „viðeigandi efni“ þennan heilaga dag. Kvikmyndahús, veitingahús og aðrir afþreyingarstaðir áttu að vera lokaðir öllum, þar með talið þeim sem ekki aðhylltust kristna trú. Með þessu var reynt að þröngva upp á fólk siðum og venjum annarra og allir steyptir í sama mót. Það er grunnurinn að forræðishyggju og jafnframt það sem grefur undan henni. Hvernig þætti venjulegu fólki á Íslandi í dag ef það mætti ekki fara í bíó í Rhamadan mánuðinum? Þeir sem vilja þröngva sínum gildum upp á aðra halda oftast að það sé vel meint. Hugsun þeirra felst í því að þeirra skoðanir og tilfinningar hljóti að vera þær einu réttu, fyrir alla, allsstaðar. Það er hins vegar ekki gott að telja sig svo alvaldan. Ef einhver vill borða feitar pylsur í öll mál, er það ekki ríkisins að banna honum það jafnvel þótt það sé óhollt fyrir hann og geti stytt líf hans umtalsvert. Á sama hátt og hverjum og einum er frjálst að úða í sig óhollum mat, vill ríkið setja hömlur á reykingar fullorðins fólks þótt þær þurfi ekki að vera óhollari en slæmt mataræði.

Forræðishyggjan er skrítið fyrirbæri. Hún getur ýmist byggst á tilfinningasemi, ranghugmyndum eða geðþótta. Hún getur skert persónuleg réttindi og frelsi að ástæðulausu með því að gera sjálfsagðan hlut að glæp. Velmeinandi fólk er allt í einu orðið að þrjótum og glæpamönnum. Það fólk heldur áfram að fremja „glæpinn“ en eftirlitlaust. Margoft hefur sannast að forræðishyggjan er léleg stefna en er þó óskiljanlega vinsæl meðal almennings. Flestum finnst eðlilegt að um leið og manneskja er komin í ráðastöðu, sem þarf ekki einu sinni stuðning meirihluta þjóðarinnar, hafi hún allt í einu rétt til að ráðskast með einkalíf fólks. Setjum þetta í samhengi: Ókunnug manneskja bannar þér að gera eitthvað sem henni finnst vera rangt og hótar að læsa þig inni í herbergi ef þú ferð ekki að hennar skipunum. Engum myndi líka það né líða þetta, en um leið og manneskjan er komin í ráðastöðu, stéttina fyrir ofan almennan borgara, er þetta allt í lagi. Er það svo vitlaust að spyrja sig hvort það sé ekki bara betra ef fólk fær að gera það sem það vill svo lengi sem það skaði ekki annan, jafnvel þó það skaði sig sjálft? Hafsteinn Ragnarsson


SAMBAND UNGRA SJÁLFSTÆÐISMANNA... ...vill lækka áfengiskaupaaldur.

...vill auka valfrelsi í menntakerfinu.

...vill lága skatta á einstaklinga.

...vill lækka og afnema ýmsa tolla og skatta, m.a. til þess að fólk geti verslað ódýrar á netinu.

...vill fækka ráðuneytum. ...vill að ríkið eyði minni peningum. ...vill að samkynhneigðir hafi jafnan rétt og gagnkynhneigðir.

...vill minnka umsvif hins opinbera í atvinnulífinu.

...vill skilja að ríki og kirkju.

...vill að áfengi sé selt í matvörubúðum.

...hafnar inngöngu í Evrópusambandið.

...vill afnema gjaldeyrishöftin.

...vill endurskoða gjaldmiðilsmál þjóðarinnar.

...vill ekki að ríkið skipti sér af því hvað þú gerir í frítíma þínum.

Ef þú vilt taka þátt og fylgjast með starfinu getur þú fylgst með www.sus.is eða skoðað facebook síðu sambandsins. 19


ÁSDÍS HALLA: UNGT FÓLK VILL FÁ VAL OG FRELSI ÁSDÍS HALLA BRAGADÓTTIR, VAR KJÖRIN FORMAÐUR SUS ÁRIÐ 1997. HÚN ER EINI KVENFORMAÐUR SUS Í 80 ÁRA SÖGU SAMBANDSINS. STEFNIR RÆDDI VIÐ HANA UM FRELSI, ÁBYRGÐ OG JAFNRÉTTI. „Við vorum þarna hópur fólks, meirihlutinn konur, sem vildi sjá meiri ferskleika í SUS. Við vildum brjóta upp fylkingarnar í ungliðastarfinu og tryggja að ákveðnar áherslur kæmust betur áleiðis,“ segir Ásdís Halla aðspurð um aðdraganda framboðs hennar til formanns SUS árið 1997. Um hindranir við formannsframboði hennar segir Ásdís Halla að þær hafi verið fyrir hendi. „Ég var m.a. spurð á fundum; „Bíddu kona! Áttu ekki barn? Hvernig getur þú verið formaður?”. Ég vissi ekki alveg hvernig átti að svara þessu vegna þess að ég átti erfitt með að trúa því að fólk teldi raunverulega að ung kona með barn gæti ekki stjórnað SUS. En við unnum vel í baráttunni og það var rosalega gaman, kynntumst fullt af fólki, tókum slaginn alla leið og undirbjuggum okkur allan tímann eins og það yrðu sterk mótframboð. Á endanum hafðist þetta og árin tvö í SUS voru virkilega skemmtileg,“ segir hún.

20

ÍSLAND TÆKIFÆRANNA Um helstu áherslur sínar og þeirra sem stóðu með henni að framboðinu á þessum tíma segir Ásdís Halla að stærsta hugmyndaverkefnið hafi gengið undir nafninu Ísland tækifæranna. „Við sáum það, eins og núna, að fullt af ungu fólki vildi flytja til útlanda. Við þurftum því að spyrja okkur hvað við gætum gert til að Ísland yrði dýnamískt og kröftugt samfélag,“ segir Ásdís Halla. „Við gerðum skoðanakönnun meðal ungs fólks þar sem við könnuðum af hverju ungt fólk vildi flytja, hvað það vildi gera og svo framvegis. Niðurstaðan var í anda okkar hugmynda og það var ljóst að fólk vildi fá vinnu, lága skatta, getað menntað sig og fengið tækifæri til að spreyta sig á Íslandi.“ Þannig segir Ásdís Halla að það sem hún kallar hugmyndapakkann Ísland tækifæranna hafi orðið til. Horft hafi verið til þess hvernig hægt

væri að byggja landið upp svo að hér yrðu tækifæri, bæði fyrir ungt fólk og aðra. Sem dæmi nefnir Ásdís Halla að mikið hafi verið horft til aukins valfrelsis, m.a. á öllum skólastigum. VAL Í NÁMI OG HEILBRIGÐISKERFI „Við komum líka fram með hugmyndir um að fólk ætti í raun og veru að geta valið milli allrar þeirrar þjónustu sem hið opinbera veitir og mun veita áfram. Við búum í þannig samfélagi að við gerum ráð fyrir að hið opinbera muni halda áfram að reka stóran hluta heilbrigðiskerfisins og meginþorra skólanna enn um sinn. Við litum svo á að ef það ætti að vera þannig þá ætti fólk í það minnsta að geta valið á milli, t.d. í hvaða leikskóla það setti börnin sín og að grunnskólanemendur gætu valið við hvaða grunnskóla þeir stunduðu nám.“ Ásdís Halla segir að þegar hún hafi orðið bæjarstjóri í Garðabæ árið 2000 hafi hún tekið þátt í


að láta stóran hluta af þessum hugmyndum verða að veruleika. Nú sé t.a.m. ríflega helmingur barna í einkareknum leikskólum í Garðabæ. „Fólk í Garðabæ hefur val, þannig að þegar að það ætlar að skrá barnið sitt í leikskóla í dag þá kynnir það sér alla skólana vel. Í grunnskólanum er það líka þannig að þegar að börnin eru fimm ára fá foreldrarnir kynningu á öllum skólunum og velja síðan þann skóla sem þeir telja að henti barninu þeirra best. Það leiddi til þess að einkaskólarnir höfðu sömu tækifæri og hinir skólarnir til að kynna sína möguleika. Bæjarbúarnir kynna sér þetta og gera kröfur sem leiðir til þess að skólarnir keppast við að mæta væntingum íbúana,“ segir Ásdís Halla. GÓÐAR MINNINGAR ÚR SUS Aðspurð segist Ásdís Halla eiga margar skemmtilegar minningar frá SUS-árunum. „Þegar ég hugsa til baka þá fannst mér einna skemmtilegast að vera í kosningabaráttunni sjálfri. Vinnan við að móta hugmyndirnar okkar, finna leiðir til að vinna þvert á fylkingar og fara um landið til að hitta sem flesta var ógleymanlegt,“ segir Ásdís Halla og rifjar upp að meðal annars hafi hún og Hanna Birna Kristjánsdóttir keyrt út um allt land til að hitta fólk.

„Þegar við gátum ekki keyrt flugum við. Vinur vinar okkar var að taka einkaflugmannspróf og þurfti að fara í æfingatíma. Við þurftum að spara peninga og fengum því far með litlu flugvélinni til Vestmannaeyja og út og suður. Þar hittum við fullt af ungu fólki og rökræddum um hugmyndir.“ En Ásdís Halla segist þó líka eiga minningar um togstreitu í starfinu. „Það eiga ekki allir að vera sammála í þessu starfi. Það er hollt og gott að rökræða og það er mikilvægur hluti af SUSstarfinu. Mikil togstreita skapaðist um nokkrar hugmyndir og hvaða hugmyndir ættu að vera í forgangi. Ég man sérstaklega eftir togstreitunni þegar við fórum að ræða um fæðingarorlof karla,“ segir Ásdís Halla. „Ég leit alltaf á mig sem talsmann frelsis, talsmann einkaframtaks en þó með mikilli ábyrgð. Ég var með lítið barn á þessum tíma og upplifði það mjög sterkt að vinnumarkaðurinn leit ekki með svipuðum augum á konur og karla. Ungar konur fengu síður vinnu vegna þess að menn gerðu ráð fyrir að þær færu í fæðingarorlof en ekki karlarnir. Þegar við sögðum að fæðingarorlof ætti að vera fyrir konur og karla og að karlar ættu að hafa sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs þá varð mikill ágreiningur innan SUS, sem færðist síðan inn á landsfund. Fólk spurði hvort við værum ekki talsmenn hins frjálsa vals og þess að foreldrar ættu að geta ákveðið þetta sjálfir. Mér fannst sjálfri erfitt að komast að þeirri niðurstöðu að þrír mánuðir af fæðingarorlofinu ættu að vera bundnir við feður en mér fannst þetta hið eina rétta miðað við

aðstæður. Ég er sannfærð um að nýja fyrirkomulagið hefur bætt samfélagið og haft í för með sér að feður hafa svigrúm til að sinna börnunum sínum betur.“ STJÓRNMÁLIN EKKI NÆGILEGA SKEMMTILEG „Fólk gerir það sem því finnst áhugavert og þegar konur og ungt fólk tekur ekki þátt í stjórnmálum þá er það vegna þess að stjórnmálin eru ekki nægilega skemmtileg,“ segir Ásdís Halla. „Því hefur stundum verið haldið fram að ungt fólk og konur hafi ekki áhuga á stjórnmálum. Því er ég ósammála. Ég held að konur og ungt fólk hafi bullandi áhuga á stjórnmálum því að stjórnmálin eru samfélagið og allt umhverfið sem við lifum í. En þegar stjórnmálin eru leiðinleg hefur fólk ekki áhuga. Ef þú boðar alltaf til funda á laugardagsmorgnum klukkan tíu til að ræða um mislæg gatnamót eða aðrar vegaframkvæmdir þá mætir fólk á fundina sem hefur áhuga á samgöngumálum og hefur ekkert þarfara að gera á laugardagsmorgnum klukkan tíu. Þegar í ljós kemur að ungt fólk og fjölskyldufólk mætir ekki þá þýðir ekkert að segja: ,,Þau hafa ekki áhuga á stjórnmálum!“ Réttara er að segja að fundarefnið og tíminn

21


henta þeim ekki og því eigum við sem stjórnmálaflokkur að gera hlutina öðruvísi.“ Ásdís Halla segir að augljóslega þurfi að fara öðruvísi að hlutunum. Hún nefnir sem dæmi að í Garðabæ hafi verið sagt á tímabili: ,,Konur eru ekki að mæta á fundina. Þær hafa ekki áhuga á stjórnmálum.“ Hún hafi verið ósammála því og hennar leið til að bæta þetta hafi verið að halda leiðtoganámskeið fyrir konur á tíma sem þeim hentaði, t.d. seinni part dags og á kvöldin. „Það eru sex eða sjö ár síðan ég gerði þetta fyrst og ég hugsaði með mér að það væri flott ef það kæmu 20-30 konur. Það komu 200 konur. Það var allt fullt og biðlisti. Við þurftum að gera þetta aftur og þá komu 200 konur. Aftur var fullt hús og biðlisti,“ segir Ásdís Halla og bætir við að um 5 þúsund konur hafi núna sótt námskeiðin hjá henni frá byrjun. ,,Þetta hefur verið einstaklega gefandi og það hefur veitt mér mikla gleði að sjá konurnar ljóma af krafti og áhuga þegar þær lýsa því með hvaða hætti þær langar að bæta samfélagið sitt.“ Um það hvort stjórnmálaflokkar sinni þörfum ungs fólks nægilega telur Ásdís svo ekki vera. „Ég held að það sé aðallega vegna þess að ungt fólk er ekki virkjað nógu vel innan flokkanna. Það eru of miklar girðingar milli SUS og flokksstarfsins almennt. Ungt fólk hefur flottar hugmyndir sem fá ekki nægilega mikið vægi.“ Hún telur þó að sjálfstæðisstefnan eigi fullt erindi við ungt fólk. „Vegna þess að í ungu fólki er kraftur, frumkvæði, áhugi og metnaður. Ungt fólk vill fá að blómstra, vill hafa val og vill hafa frelsi. Ég upplifi það líka að ungt fólk er ábyrgðarfullt og vill ekki haga sér með ábyrgðarlausum hætti,“ segir Ásdís Halla. „Það unga fólk sem ég sé mest af og fylgist mest með finnst mér eiga svo mikinn hljómgrunn með hugmyndafræði

22

Sjálfstæðisflokksins um einstaklingsframtakið, um að við eigum að gefa fólki tækifæri, um að fólk eigi að fá að fikra sig áfram, gera mistök, læra af þeim, standa á lappir aftur og halda áfram. Það eigi ekki að vera ríkisvald eða sveitarfélög sem taka allar helstu ákvarðanir fyrir þig. Ég held að það sé meginástæðan fyrir því að ungt fólk eigi að vinna með og kjósa Sjálfstæðisflokkinn.“ SKERPUM Á HUGMYNDAFRÆÐINNI Ásdís Halla er hugsi yfir stöðu Sjálfstæðisflokksins í dag. „Sú gagnrýni kom um tíma á Sjálfstæðisflokkinn að hann væri búinn að ýta undir of mikið frelsi, að hann hefði gefið einstaklingnum of mikið svigrúm, að hann hefði einkavætt of mikið. Flokksforystan var líka gagnrýnd fyrir að hafa of ákveðnar skoðanir og lítið umburðarlyndi fyrir ólíkum sjónarmiðum. Smám saman varð Sjálfstæðisflokkurinn hræddur við að vera gagnrýndur fyrir þessa hluti og skrúfaði frá hinum megin. Skref fyrir skref fór Sjálfstæðisflokkurinn inn í ákveðna skel úrræðaleysis, of lítilla aðgerða og of takmarkaðra skoðana. Flokkurinn hafði verið gagnrýndur fyrir að sjá hlutina annað hvort sem svarta eða hvíta og viðbrögðin voru þau að smám saman varð allt muskugrátt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því verið of óttasleginn í dálítinn tíma að mínu mati – of mikið eins og óyddaður blýantur,“ segir hún. „Mér finnst það ekki fara Sjálfstæðisflokknum nægilega vel og ég vil sjá hann sterkari, kjarkaðri og kraftmeiri. Ég vil sjá hann taka upp harðari baráttu gegn atvinnuleysi, skattahækkunum, fyrningarleið, höftum og öðru því sem takmarkar okkur sem einstaklinga og samfélag. Með þessu er ég ekki að gagnrýna neinn einn einstakling heldur miklu frekar þá menningu sem smám saman hefur verið að hreiðra um sig á

„SKREF FYRIR SKREF FÓR SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN INN Í ÁKVEÐNA SKEL ÚRRÆÐALEYSIS, OF LÍTILLA AÐGERÐA OG OF TAKMARKAÐRA SKOÐANA“ undanförnum árum í samfélaginu öllu. Undanfarnar vikur og mánuði finnst mér ég hins vegar skynja jákvæðar breytingar. Sveitarstjórnarkosningar fóru víðast hvar mjög vel og mér finnst flokkurinn vera í góðri sókn. Við eigum að halda áfram á þeirri braut og landsfundurinn nú er mikilvægur vettvangur fyrir okkar forystufólk til að skerpa á hugmyndafræðinni okkar og sækja fram af krafti.“ Ásdís Halla segist vilja sjá Sjálfstæðisflokk sem gefi skýrari línur. Samfélagið er í krísu og ekkert samfélag kemst út úr krísu með vettlingatökum. „Mér finnst t.d. skrýtið þegar ég heyri sveitarstjórnarmenn okkar monta sig af því að „fullnýta tekjustofna“ eða þegar Sjálfstæðisflokkurinn ákveður að taka upp nefskatt til að reka RÚV. Mér finnst líka skrýtið þegar Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir í sveitafélögum að atvinnulausir eigi að fá frítt í sund og á bókasöfn,“ segir Ásdís Halla. „Ég veit að það er ögrandi af mér að segja það. En fólk með lægstu launin hefur það alveg jafn slæmt og þeir sem eru atvinnulausir. Ef menn telja að atvinnulausir séu með of lágar bætur þá á bara viðurkenna það og hækka þær bætur. En það á ekki að búa til þannig kerfi að við séum alltaf að flækja kerfið með plástrum út og suður. Svona ákvarðanir eru órökréttar og teknar vegna þess að þær virðast hljóma


vel rétt fyrir kosningar. Mér finnst að Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekki að taka þátt í svona ákvörðunum. Það sama á við um tónlistarhúsið sem nú er verið að reisa í Reykjavík á þeirri forsendu að það sé svo atvinnuskapandi. Ríkisstjórnin tekur aukna skatta af einstaklingum og fyrirtækjum sem neyðast þá til þess að segja upp fólki. Síðan er hluti skattanna notaður til að setja í sjóði sem nýttir eru til ,,atvinnuskapandi“ verkefna þar sem fólk er m.a. ráðið til að flokka skjöl hjá ríkisstofnunum. Það er ekki heil brú í þessu og tími til kominn að samfélagið sameinist gegn frekari skattahækkunum. Sem betur fer hafa flestir sjálfstæðismenn í sveitarfélögunum ekki hækkað útsvarið og það var frábært að sjá hvernig borgarstjórnarflokkurinn okkar náði að hagræða í rekstri borgarinnar og skila rekstarafgangi án þess að hækka útsvarið.“ EKKI FYLGJANDI KYNJAKVÓTUM Ásdís Halla rekur nú sitt eigið fyrirtæki ásamt Ástu Þórarinsdóttur sem hún kynntist í SUS-starfinu. Um stöðu kvenna í atvinnurekstri segir Ásdís Halla að

nýlegar kannanir sýni að konum hafi síðastliðið ár aftur fækkað í stjórnum fyrirtækja og að þrátt fyrir að konum hafi fjölgað á Alþingi og í sveitastjórnum séu þær enn mun færri en karlarnir. Hún segist þó ekki vera hlynnt kynjakvóta. „Kynjakvóti gefur konum röng skilaboð. Hann segir að það þurfi kvóta til að þær komist áfram því þær geti það ekki á eigin verðleikum,“ segir Ásdís Halla. „Á sama tíma finnst mér svolítið snúið að segja þetta því að ég hef ekki lausnina. Prófkjör, til dæmis, eru hrikalega íhaldssöm og jafnvel afturhaldssöm. Prófkjör gefa nýju fólki yfirleitt ekki tækifæri og leiða ekki til nægilega mikillar endurnýjunar. Ungum konum sem hafa áhuga á að taka þátt í pólitík af fullri alvöru gengur yfirleitt ekki nægilega vel í prófkjörum. Það er slæmt og ég hef miklar áhyggjur af því. Og þótt það þyki ekki eins lýðræðislegt þá talaði ég til dæmis mjög mikið fyrir því í Garðabæ síðast að það yrði stillt upp á lista. Ég veit að þetta hljómar ekkert alltof vel fyrir marga Sjálfstæðismenn sem telja að prófkjör séu eina lýðræðislega leiðin, en eftir að hafa fylgst

með prófkjörum í áratugi þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þau eru ekkert sérstaklega lýðræðisleg.“ EKKI MEIRI SKATTAHÆKKANIR Að lokum gefur Ásdís Halla ríkisstjórninni nokkur ráð um aðgerðir til að efla íslenskt atvinnulíf. „Stóra málið er að hætta þessari skattpíningu og hleypa fjárfestingum af stað. Stóra málið er að ríkisstjórnin hætti að trúa því að við getum skattlagt okkur út úr þessari kreppu. Það verður ekki gert,“ segir Ásdís Halla. „Það skiptir máli að ríkisstjórnin taki vel í þann áhuga sem bæði íslenskir og erlendir aðilar hafa á uppbyggingu hérna, að menn taki vel í hugmyndir um heilbrigða uppbyggingu atvinnulífsins, hvort sem það byggist á virkjun vatnsfalla eða hugvits. Samfélagið á að taka fagnandi þeim einkaaðilum sem eru tilbúnir að taka þá fjárhagslegu áhættu að setja fjármagn í uppbyggingu atvinnulífsins en því miður er það ekki svo hjá ríkisstjórninni. Meira og minna eru allar nýjar og stórar hugmyndir sem koma á borð kæfðar í fæðingu.”

23


SKÝRSLAN SEM ENGINN LAS Stundum hefur verið haft á orði að mest ólesna bók heimsins sé Biblían. Undir það má taka þó einnig sé viðurkennt að engin bók hafi haft jafnmikil áhrif á menningu okkar og samfélag og hún. Nú höfum við Íslendingar þó eignast annað rit sem er mjög svo ólesið en afar áhrifamikið. Það er skýrsla sú sem Rannsóknarnefnd Alþingis um orsakir og aðdraganda bankahrunsins, skilaði af sér 12. apríl síðastliðinn. Um engan íslenskan texta í samtíðarsögu okkar hefur jafnmikið verið rætt og ritað og hafa fjölmiðlar gert hana að nýju helgiriti sínu. Er það svo sem ekki að undra, enda var skýrslunnar lengi beðið. Ljóst er að þörf var á einhvers konar uppgjöri eftir áfallið sem þjóðin varð fyrir í upphafi októbermánaðar 2008 og mikilvægt að draga upp einhvers konar heildarmynd af þeim atburðum sem áttu sér stað í aðdraganda hrunsins. HVAÐ HEFUR SKÝRSLAN AÐ GEYMA Í níu bindum er farið í gegnum ótalmarga þætti er lúta að bankakerfinu sjálfu, eigendum þess, því regluverki sem halda átti utan um það og svo einnig einstaka aðra þætti eins og umfjöllun um bankakerfið í fjölmiðlum. Í fljótu bragði getur reynst erfitt að henda reiður á heildarsamhengi skýrslunnar og sást það einna best á forsíðufyrirsögnum stærstu dagblaðanna hér á landi, degi eftir útkomu hennar. Á forsíðu Fréttablaðsins var slegið upp eftirfarandi fyrirsögn: „Enginn gekkst við ábyrgð“ og undirfyrirsögn var: „Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði

24

af sér skýrslu um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna í gær. Ráðherrar, seðlabankastjórar og forstjóri FME eru sakaðir um mistök og vanrækslu í starfi. Stærstu hluthafar bankanna fengu óeðlilegan aðgang að lánsfé.“ Á forsíðu Morgunblaðsins stóð í fyrirsögn „Ábyrgðin bankanna“ og í þremur punktum sem henni fylgdu var sagt: „Grunur um refsiverða háttsemi hjá bönkunum og málum vísað til ríkissaksóknara“, „Eigendur bankanna áttu óeðlilegan aðgang að lánsfé að því er virðist í krafti eignar sinnar“ og „Mikið skorti á að unnið væri að viðbúnaðarmálum ríkisins á skipulegan og vandaðan hátt“. Mikið var gert úr ólíku fréttamati fjölmiðlanna tveggja og gekk það svo langt að kvöldfréttastjóri Morgunblaðsins, Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, sagði upp störfum. Ekki þekkir undirritaður til þekkingar fréttastjórans á innihaldi rannsóknarskýrslunnar, en af lestri hennar og þeim atburðum sem síðan hafa orðið, bendir flest til þess að fréttamat Morgunblaðsins hafi að mörgu leyti verið skynsamlegra og nær raunveruleikanum en það sem átti birtingarmynd sína á forsíðu

Fréttablaðsins hinn sama dag. Má í því tilliti ekki aðeins vísa til gagna í skýrslunni um umgengni stærstu eigenda bankanna um fjárhirslur þeirra, heldur einnig gang rannsóknar sérstaks saksóknara um bankahrunið og stefnu slitastjórnar Glitnis á hendur stærstu eigendum og stjórnendum bankans fyrir hrun. Ljóst er að ásakanir þær sem þar eru bornar fram og ekki síður þær ástæður sem hljóta að liggja að baki handtöku æðstu stjórnenda Kaupþings í maímánuði 2010, renna stoðum undir það að megin ábyrgð hrunsins hvíli á herðum þeirra sem mestu réðu í íslensku fjármálalífi. EFTIRLITSAÐILAR OG GERENDUR Með nokkurri einföldun má halda því fram að tvær öndverðar skoðanir takist á um það hverjar orsakir bankahrunsins voru. Annar hópurinn telur að eigendur bankanna og stjórnendur hafi gengið fram með ófyrirleitnum, glannalegum og raunar vafasömum hætti. Síðari hópurinn hefur fært rök fyrir því að ábyrgðin hvíli á herðum stjórnvalda, annars vegar vegna einkavæðingar bankanna og hins


vegar vegna slælegs eftirlits og vanmáttugs aðhalds gagnvart bönkunum. Í því sambandi er mikilvægt að velta fyrir sér orsökum og afleiðingum og þeirri spurningu hvað það í raun var sem olli því að bankarnir gátu ekki staðist þá ágjöf sem fólst í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu. Í þeim vangaveltum hlýtur fólki fljótlega að verða ljóst að eftirlit sem slíkt getur ekki með sjálfstæðum hætti lagt bankakerfi á hliðina nema þá mögulega með gáleysislegum yfirlýsingum sem rýrt geta traust á fyrirtækjunum. Ekkert slíkt henti hér á landi. Aðgerðir og framganga eigenda og stjórnenda bankanna urðu til þess að grunnstoðir þeirra urðu feisknar og hlutu að láta undan þegar harðnaði á dalnum. Þó augljóst sé hvar hin eiginlega ábyrgð á hruninu liggur er ekki þar með sagt að ekki hafi eftirlitsaðilar gert mistök. Það er vissulega hlutverk þeirra sem hafa opinbert eftirlit með höndum að koma í veg fyrir að gengið sé á svig við lög í landinu. Það hlutverk er hins vegar til komið vegna þeirrar staðreyndar að menn og konur freistast til þess að gera það sem andstætt er lögum og viðmiðum samfélagsins, og sú freisting getur oft tekið á sig svo ofsafengnar myndir að eftirlitsaðilum reynist erfitt að rísa fullkomlega undir því hlutverki sem þeim er ætlað að gera. Til dæmis má nefna í því sambandi það hlutverk lögreglu og tollayfirvalda að koma í veg fyrir innflutning fíkniefna til landsins. Þar eru stórir sigrar unnir í hverri viku en þrátt fyrir það deyr fólk enn af neyslu fíkniefna, fjölskyldur splundrast og framtíðardraumar eru deyddir í einni svipan. Dettur þó nokkrum í hug að hrópa á rannsókn vegna vanrækslu tollgæsluyfirvalda? Staðreynd málsins er sú að oft reynist örðugt að koma járnum á þá sem svífast einskis og virða að vettugi leikreglur samfélagsins.

EKKI GALLALAUST VERK Þrátt fyrir hið mikla argaþras sem orðið hefur um það hver raunverulega beri ábyrgð á hruninu í árslok 2008, hefur skýrslan varpað ljósi á margt sem áður var á huldu – að minnsta kosti fyrir þeim sem opnir eru fyrir því að horfa til staðreynda fremur en pólitískra slagorða. Það er hins vegar mikilvægt að ekki verði farið að líta á skýrsluna sem heilagan sannleik sem ekki megi ræða og gagnrýna. Í skýrslunni er ekki aðeins vísað til staðreynda heldur einnig dregnar ályktanir á grundvelli þeirra. Þær ályktanir eru tímanlega skilyrtar og eflaust eiga frekari upplýsingar eftir að koma upp á yfirborðið í fyllingu tímans sem að nokkru geti breytt dómi sögunnar. Þessari grein er ekki ætlað að draga úr trúverðugleika skýrslunnar. Hins vegar er nauðsynlegt að nefna til sögunnar ákveðin dæmi til þess að renna frekari stoðum undir þá skoðun að ekki megi líta á skýrsluna sem óskeikula og yfir gagnrýni hafna. Þar langar mig til að nefna tiltekið dæmi sem tengist umfjöllun starfshóps um siðferði og starfsreglur, en sá hópur hafði umsjón með ritun áttunda bindis skýrslunnar. Þar er m.a. reynt að draga upp mynd af orðræðu síðustu ára og hvernig þjóðfélagið virtist leggjast á árar með viðskiptalífinu. Fær forseti lýðveldisins sinn skerf af gagnrýni sem og flestir sem atkvæðamiklir hafa verið á sviði þjóðfélagsins síðustu tvo áratugi. Þó virðist höfundum áttunda bindisins alveg sjást yfir þá einkennilegu þróun sem varð í stjórnmálalífinu hér á landi um miðjan síðasta áratug og fólst í því að stærsti vinstriflokkur landsins lagðist þungt á árar með þeim sem umsvifamestir urðu í viðskiptalífinu. Vísa ég þar sérstaklega til tveggja ræðna sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti í Borgarnesi á árinu 2003. Þóttu þær merkileg stefnuyfirlýsing Samfylkingarinnar og sáu

forsvarsmenn hennar ástæðu til að kaupa heilopnu í dagblöðum landsins undir dýrðina svo lýðum yrði ljóst hverju stefnt yrði að, kæmist flokkurinn til valda. Þar tók Ingibjörg upp hinn svokallaða „blair-isma“, en svo hefur sú aðferðafræði Tony Blair verið nefnd sem fólst í því að taka stöðu með viðskiptajöfrum og vinna á sitt band. Bar stefnubreyting Verkamannaflokksins árangur og Blair komst til valda rétt eins og Ingibjörg Sólrún. Aðferðafræðin virkaði. Þar riðlaðist hins vegar jafnvægi sem samfélaginu hefur einatt verið nauðsynlegt og falist hefur í því að sterkir flokkar til vinstri í stjórnmálum, veiti kapítalískri hugmyndafræði eðlilegt og þarft aðhald. Borgarnesræðurnar voru þess eðlis og boðuðu svo afgerandi stefnubreytingu að það má telja afar óheppilegt að þeim skuli ekki hafa verið gerð skil í umfjöllun starfshópsins. Hvað veldur skal ósagt látið. SÖGULEGT HLUTVERK SKÝRSLUNNAR Áhrif rannsóknarskýrslunnar eru mikil. Hún er nú þegar orðin söguleg heimild og í heildina litið má þakka það framtak. Þegar vísað verður til hennar á komandi árum er einnig mikilvægt að minnast þeirra hluta hennar sem ekki voru gefnir út á prenti en fela í sér merkilegar staðreyndir og viðhorf. Þar vísast til andmæla sem embættismenn og ráðherrar gripu til á grundvelli þess réttar sem þeim er tryggður. Það sem þar kemur fram er misburðugt en varpar þó ljósi á ólík viðhorf manna á þeim atburðum sem leiddu til þess stóra storms sem skall á landinu í október 2008. Þarft væri að koma andmælum þessum á prent hið fyrsta. Stefán Einar Stefánsson


ÓGEÐSDRYKKUR

VINSTRI STJÓRNARINNAR £ 2.350.000.000 € 1.329.242.850 120.000.000.000 kr. 94.300.000.000 kr. 1 stk. 1 stk. 1 stk. 1 stk. 1 tsk.

lánsábyrgð vegna Icesave við Breta lánsábyrgð vegna Icesave við Hollendinga halli á rekstri ríkissjóðs vaxtagreiðslur af erlendum skuldum ESB umsókn tekjuskattshækkanir virðisaukaskattshækkanir gjaldskrárhækkanir estragon

estrógen

Hitið pott þangað til verðbólgan byrjar að malla. Bætið við skattahækkunum og sjóðið við vægan hita eða allt þar til þið þolið ekki meira. Saxið ESB umsóknina í smáa bita og látið marínera í Icesave lánsábyrgðum. Blandið saman við landann sem þið þurftuð að kaupa vegna þess að þið höfðuð ekki efni á að fara í ríkið. Sjáið til þess að öll hráefnin hafi verið kynjagreind af fagmanneskju og hellið ógeðsdrykknum því næst í mjólkurbikar. Munið svo að gefa með ykkur, því drykkurinn er sameign þjóðarinnar!

26


ÁTTHAGAFJÖTRAR MENNTAKERFISINS

Á

landi eins og Íslandi er menntun einn af mikilvægustu þáttum lífs okkar ef við viljum spjara okkur vel í amstri hversdagsins. Við njótum þeirra forréttinda að þegar kemur að menntun standa okkur fjölmargir valmöguleikar til boða. Val á framhaldsskóla hefur einhver mestu áhrif á menntun okkar, persónuleika og félagslíf. Verðum við nördinn í MR, listaspíran í MH, dekurdrósin í Versló eða þaðan af verra? Það er óhætt að segja að valið sé erfitt fyrir nemendur en það bliknar þó í samanburði við valið hjá framhaldsskólunum sjálfum. Margir skólar verða fyrir því að fleiri sækja um en komast að og þarf þá að grípa til ýmissa aðgerða til þess að skólayfirvöld geti valið á sem sanngjarnastan hátt. Ein af leiðunum sem skólar hafa farið, er að velja helst nemendur sem búa í nágrenni við þann tiltekna skóla. Nýlega var gerður samningur milli menntamálaráðuneytisins og framhaldsskóla landsins þess efnis að 45% nemenda sem skólar taka inn skulu vera úr nágrenni þeirrar menntastofnunar. En hefur sú leið jákvæð áhrif á menntun Íslendinga?

forðast fjandann. En sé hverfisskóli til staðar veldur það því að miklar líkur eru á því að þessir tveir „félagar“ lendi í sama skólanum. Þótt hverfaskipting þessi hafi farið fremur lágt, a.m.k. miðað við þau áhrif sem hún hefur á menntakerfið, má segja að hér sé um að ræða grundvallarbreytingu á því valfrelsi og þeim fjölbreytileika sem einkenna á þessi fjögur bestu ár lífs manns. Skólaganga ungmenna verður eins konar happdrætti. Ef til vill völdu foreldrar einhvers húsnæði sem er nálægt framhaldsskóla sem hentar honum alls ekki – og það er ekkert sem viðkomandi getur gert í því. Einhverjir myndu eflaust segja: „Leggja harðar að sér,“ en það er samt sem áður ósanngjarnt ef ungmenni þurfa að leggja enn harðar að sér en þeir sem voru svo heppnir að búa í nágrenni við óskaskólann. Arnór Gunnar Gunnarsson

Litróf framhaldsskólanna er mjög fjölbreytt og hver skóli sérhæfður. Því geta tilvonandi framhaldsskólanemar valið þann skóla sem hentar þeim best. Hins vegar er augljóst að þessi breyting skerðir valið og þrengir hringinn mjög, þ.e. hún virðist hafa það að markmiði að steypa alla einstaklinga í sama mót. Þeir nemendur sem hafa lagt harðar að sér í námi eiga að sjálfsögðu að eiga þess kost vænstan að fara í krefjandi framhaldsskóla, skóla sem samsvarar þörfum þeirra sem námsmenn. Það sama gildir um sæmilega nemendur og þá sem eru með sértæka námsörðugleika. Einnig gerir hverfaskipting þolendum eineltis erfitt fyrir. Ef einelti á sér stað í grunnskólum fer fórnarlambið oft í annan framhaldsskóla en gerendur til þess að

27


ARFLEIFÐ BROWNS: 4,5 MILLJÓNIR Á HVERN BRETA STEPHEN PARKINSON, 26 ÁRA GAMALL BRETI, VAR EIN AF AÐALSPRAUTUNUM Í KOSNINGABARÁTTU BRESKA ÍHALDSFLOKKSINS Í KOSNINGUNUM Í MAÍ SÍÐASTLIÐNUM. STEFNIR TÓK HANN TALI RÉTT EFTIR KOSNINGARNAR. Hvernig skipulagði Íhaldsflokkurinn kosningarnar síðastliðið vor? Var flokkurinn að einhverju leyti með áhyggjur af gengi hinna flokkanna? „Undirbúningur okkar hófst fljótlega eftir þingkosningarnar árið 2005. Í kjördæmum þar sem við höfðum tapað með mjög litlum mun voru frambjóðendur endurvaldir strax til að hefja baráttuna að því að koma sér á þing í næstu kosningum. Það þýddi auðvitað mikla vinnu fyrir þá, en það skilaði sínum árangri á endanum,“ segir Stephen og bætir við að ekki hafi verið eytt miklu púðri í að hugsa um hina flokkana, Verkamannflokkinn eða Frjálslynda demókrata. Hvers vegna heldurðu að Íhaldsflokkurinn hafi ekki verið í ríkisstjórn frá 1997? „Kosningarnar árið 1997 voru mikið áfall fyrir Íhaldsflokkinn. Við fengum fæstu þingmenn síðan frá árinu 1906 og okkar minnsta fylgi á landsvísu frá árinu 1832. Frá þeim tímapunkti varð ljóst að það þurfti mikla vinnu til þess að sannfæra fólk um að við höfðum breyst og að við ættum skilið að stjórna Bretlandi aftur“. Stephen segir af hreinskilni að það hafi tekið flokkinn langan tíma að læra af þessari reynslu. „Til að byrja með héldum við að meðbyrinn yrði sjálfkrafa með

28

okkur aftur en þetta var ekki svo einfalt. Við þurftum að sýna fólkinu að við hefðum þróast frá 10. áratug síðustu aldar og að við hefðum nýjar lausnir við þeim vandamálum sem voru að hrjá þjóð okkar. Við áttum góða frambjóðendur og fórum í góðar kosningabaráttur, en þangað til að við gátum orðið trúverðugur flokkur aftur, dugði það ekki til.“ Hvað finnst þér um einmenningskjördæmaskipan í breskum kosningum? „Ég er mikill fylgismaður einmenningskjördæmisins. Í fyrsta lagi er mjög auðvelt fyrir kjósendur að skilja það, enda þurfa þeir bara að setja X fyrir framan nafn frambjóðandans sem þeir vilja að verði þingmaður og sá sem fær flest atkvæði vinnur. Önnur kosningakerfi eru miklu flóknari og kjósendur hafa minna vægi við að velja sjálfir hvað þeir vilja. Þar sem listakosningar eru við lýði er hið raunverulega vald innan stjórmálaflokkanna og í prófkjörum sem þar eru haldin. Mér finnst það röng leið. Annar stór kostur við einmenningskjördæmin er að það eru sterk bönd á milli hvers þingmanns og þess kjördæmis sem hann kemur frá, sem þýðir að allir þekkja sína þingmenn og eiga auðveldara með að ná sambandi við þá.“

Stephen segir að það hafi verið sérstaklega mikilvægt í kosningunum í vor. Komið hafði í ljós að margir þingmenn höfðu misnotað sjóði ríkisins og kjósendur í þeim kjördæmum gátu mjög auðveldlega refsað þeim og hent þeim út af þingi ef þeim fannst þeir eiga það skilið. Hvað finnst þér um samstarfið við Frjálslynda demókrata? Munu vera einhverjar hindranir í samstarfinu? „Auðvitað hefði ég mun frekar viljað að Íhaldsmenn hefðu unnið fleiri sæti og verið í hreinum meirihluta í þinginu en ég er ánægður með að við erum komin aftur í ríkisstjórn. Samstarf við Frjálslynda demókrata þýðir sterka og stöðuga ríkisstjórn sem þarf að hreinsa til eftir Verkamannaflokkinn. Það eru mörg svið þar sem mikill samhljómur er á milli flokkanna og það eru líka nokkrar hindranir í veginum, en David Cameron og Nick Clegg eru staðráðnir í að setja þjóðarhagsmuni ofar flokkshagsmunum,“ segir Stephen. Hver heldur þú að verði forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar? „Stærsta verkefnið verður að koma hagkerfinu aftur í gang og ráðast í að lækka skuldirnar sem Verkamannaflokkurinn skapaði.


Stephen Parkinson ásamt David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.

„HINN ALMENNI BRETI SKAMMAST SÍN Í RAUN FYRIR AÐ VERKAMANNAFLOKKURINN HAFI MISNOTAÐ HRYÐJUVERKALÖGIN GEGN ÍSLENSKU BÖNKUNUM.“ Þökk sé Gordon Brown þá skuldar hver íbúi í Bretlandi um 4,5 milljónir króna (23.000 pund). Fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar verður því að greiða úr þessum skuldum með því að skera niður útgjöld án þess að það bitni á grunnþjónustunni. Það er fyrirséð að það verða margar erfiðar ákvarðanir sem gætu gert ríkisstjórnina óvinsæla um tíma en David Cameron hefur verið mjög hreinskilinn um þessa erfiðu tíma“. Heldur þú að hinn frjálsi markaður í Bretlandi hafi orðið fyrir skaða eftir fall flestra stóru bankanna? „Bankarnir hafa svo sannarlega verið óvinsælir síðustu mánuði og eru jafnvel óvinsælli en stjórnmálamenn í Bretlandi núna!“ segir Stephen léttur. „Ég held hins vegar að það sé ekki hinu frjálsa hagkerfi að kenna. Við höfum þó lært mikilvæga lexíu. Reglukerfið fyrir bankana virkaði ekki

og við verðum að treysta á fleiri atvinnuvegi en einn til tvo, t.d. voru fjármálakerfið og fasteignabólan stærstu atvinnuvegir Bretlands fyrir hrun,“ segir Stephen. Bretland þurfi hagkerfi með meira jafnvægi sem er drifið áfram af sparnaði og fjárfestingum í gegnum framleiðslufyrirtæki Bretlands. „Þá er einnig mikilvægt að við séum framarlega í nýjum tækifærum á borð við græna orku og hátækni.“ Hvað finnst þér um að Íslendingar greiði Icesave reikningana? „Ég held að Bretar séu ekki reiðir gagnvart hinum almenna Íslendingi vegna Icesave – við erum eiginlega reiðari að geta ekki flogið vegna öskunnar úr eldfjöllunum ykkar!,“ segir Stephen og hlær. Hann segir hina raunverulegu ábyrgð ekki vera hjá Íslendingum heldur Verkamannaflokknum. Fjármálaráðuneytið og fjármáleftirlitið í Bretlandi vissu að íslenskir bankar voru

áhættusamir en sátu með hendur í skauti sér. „Hinn almenni Breti skammast sín í raun fyrir að Verkamannaflokkurinn hafi misnotað hryðjuverkalögin gegn íslensku bönkunum. Það sendi slæm skilaboð til Íslendinga.“ Eru skattar of háir í Bretlandi og ætlar Íhaldsflokkurinn að lækka þá á kjörtímabilinu? „Já, skattar eru alltof háir í Bretlandi sem stendur, en því miður hefur hin nýja ríkisstjórn lítið rúm til þess að lækka þá.“ Stephen segir að nú séu áform uppi um að minnka skattbyrði á þá sem hafa minnst á milli handanna, enda urðu þeir verst úti í ósanngjarnri skattastefnu Verkamannaflokksins. Þá vill hann einnig að skattar verði lækkaðir verulega til þess að nýsköpunarfyrirtæki geti átt auðveldara uppdráttar. „Til dæmis með því að lækka skatta verulega á fyrstu tíu störfin sem eru sköpuð hjá nýjum fyrirtækjum.“ Þegar næstu ár, sem einkennast af niðurskurði, eru yfirstaðin, vill Stephen sjá að skattar lækki mikið svo að fólk geti átt meira af þeim peningum sem það vinnur fyrir.

29


RÉTTARRÍKIÐ Á UMBROTATÍMUM Umræða um stöðu réttarríkisins hefur aðeins borið á góma í kjölfar Hrunsins. Ekki er víst að allir sem þátt hafa tekið í þeirri umræðu skilji hugtakið og hvað í því felst. Stjórnvöldum í Ráðstjórnarríkjunum sálugu og í Þriðja ríkinu þýska töldu að réttarríkið væri í hávegum haft í þeirra þjóðskipulagi og er svo jafnan í alræðis- og einræðisríkjum af margvíslegum sortum. Þeir sem höfðu uppi háværar kröfur um að útrásarvíkingar og bankamenn yrðu fangelsaðir strax eftir hrunið telja sig örugglega sérstaka stuðningsmenn réttarríkisins og ríkulegra mannréttinda. Því er nauðsynlegt áður en lengra er haldið að gera grein fyrir helstu reglum réttarríkisins. Ein af meginreglum réttarríkis er að þeir sæti refsingu sem framið hafa verknað sem refsing er lögð við í lögum. Að sama skapi er óheimilt að refsa manni, nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem refsing er lögð við í lögum. Önnur grunnregla er sú að allir eigi rétt til réttlátrar málsmeðferðar vegna ákæru um refsiverða háttsemi fyrir

30

óhlutdrægum dómstóli innan hæfilegs tíma. Mikilvægasta regla réttarríkisins er sú, að hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Þegar ástand í samfélögum er ótryggt og fólki er heitt í hamsi eða það telur sig hafa harma að hefna er hætt við að ofangreindar grunnreglur réttaríkisins þvælist fyrir „réttlætinu“ eða pólitískum markmiðum. Við heyrum gjarnan að útrásarvíkingar og bankastjórnendur eigi að vera í gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi um meinta refsiverða háttsemi þeirra og að eignir þeirra verði gerðar upptækar nú þegar. Fyrr náist ekki fram réttlæti og sátt í samfélaginu. Kröfur af þessu tagi eru þekktar í mannkynssögu síðustu alda. Þeir sem hafa séð gamlar kúrekamyndir muna kannski eftir þeirri algengu senu að hengja meintan bófa í næsta tré til að fullnægja réttlætinu enda óvíst að von væri á dómara í bæinn á næstu dögum. Oftar en ekki reyndist meintur bófi saklaus þótt flest benti til sektar þegar snaran var sett um hálsinn.

Við heyrum einnig að slaka eigi á sönnunarkröfum í málaflokkum þar sem sönnun á refsiverðri háttsemi getur verið erfið og jafnvel eigi að snúa henni við. Þeir sem slíkar kröfur gera tengjast oftar en ekki hópum sem hafa pólitísk og hugmyndafræðileg markmið. Verst af öllu er að þeir sem þessar kröfur gera telja þær stórkostlegt mannréttindamál. Regla réttarríkis um að þeir skuli sæta refsingu sem framið hafa refsiverðan verknað er ekki alltaf í hávegum höfð hér á landi. Stundum af pólitískum ástæðum, en alltaf er vísað til réttlætis. Dæmi um þetta er svikið fé úr almannatryggingum og atvinnutryggingarsjóði. Það virðist hafa verið tekin pólitísk ákvörðun um að krefjast ekki refsingar þótt rannsókn þessara mála hafi sýnt fram á milljarða fjársvik og hverjir hinir seku séu. Jafnvel er ekki gerð krafa um endurgreiðslu á hinni ólögmætu auðgun. Í tengslum við bankahrunið hafa margir bankamenn og aðrir sem tengdust viðskiptum fengið réttarstöðu grunaðra manna við


og mannréttindi hafa ótt og títt krafist uppstokkunar í Hæstarétti, þegar sýknudómar hafa verið kveðnir upp í málum sem eru þeim hugleikin. Sömu hópar hafa jafnvel gengið svo langt að verðlauna saksóknara og lögreglu þegar ákært hefur verið í málum sem eru þeim þóknanleg. Verðlaunaveitingar af þessu tagi eru auðvitað fjarstæðukenndur pólitískur spuni og gerður í því skyni að reyna að hafa áhrif á handhafa ákæruvalds og dómara.

rannsókn sérstaks saksóknara. Nokkrir, sem sloppið hafa við það, hafa samt fengið stöðu grunaðra manna hjá fjölmiðlamönnum, bloggurum, fræðimönnum og jafnvel stjórnmálamönnum. Finnst fáum nokkuð athugavert við að væna alla þessa nafngreindu „grunuðu menn“ um alvarlega glæpi á opinberum vettvangi. Alþingi hefur meira að segja sett lög um að sérreglur gildi um útrásarvíking í viðskiptum þar sem stjórnvöld koma að og er þá vísað til siðferðissjónarmiða. Aðrir „grunaðir” mega helst ekki vera í störfum sem einhver ábyrgð fylgir. Þetta ástand líkist æ meira tímabili í sögu Bandaríkjanna sem kennt er við öldungardeildarþingmanninn McCarthy en hann var duglegur á opinberum vettvangi að ásaka menn um kommúnisma og þar með landráð. Með slíkar ásakanir á bakinu fylgdi krafan um að grunaðir menn störfuðu ekki í opinberri þjónustu eða gegndu ábyrgðarstöðum. Á endanum þorði enginn að ráða hina meintu kommúnista í vinnu. Úr því að þetta gat gerst í lýðræðisríki

eins og Bandaríkjunum, sem er sannarlega svartur blettur í sögu þeirra, má ætla að hið sama geti gerst á Íslandi nútímans haldi menn ekki vöku sinni. Mikilvægt er að læra af sögunni í þessu efni sem öðrum. Það er í andrúmslofti eins og því, sem nú ríkir hér á landi, að ástæða er til að hafa áhyggjur af réttaríkinu. Prófsteinn réttarríkisins er ekki hvernig það virkar á meðan allt leikur í lyndi, heldur hvernig það verndar borgarana undir pólitísku álagi og þrýstingi, þegar veruleg vandamál og ágreiningur kemur upp í samfélaginu. Það er því mikilvægt við þessar aðstæður að ákæruvaldi og dómstólum verði gert kleift að leysa úr þeim málum sem til þeirra kasta kemur. Má þá ekkert til spara, enda mikið í húfi. Það eru nefnilega margir sem leggja mikið á sig til að grafa undan trausti og trúverðugleika ákæruvalds og dómstóla í því skyni að veikja réttarríkið. Það byrjaði allnokkru fyrir hrun, þegar pólitískir þrýstihópar, sem kenna sig jafnan við kvenfrelsi

Eftir Hrunið hefur bæst í hóp þeirra sem reynt hafa að grafa undan trausti dómstóla með kröfu um að allir dómarar verði reknir vegna þess að þeir séu óhæfir til að dæma í þeim málum, sem kunna að tengjast útrásarvíkingum og bankamönnum. Er helst svo að skilja að réttlætiskennd dómaranna sé minni en almennings, auk þess að hafa verið skipaðir af dómsmálaráðherrum úr Sjálfstæðisflokknum í flestum tilvikum. Málflutningur af þessu tagi hefur verið áberandi hjá nokkrum stjórnmálamönnum og einum háskólaprófessor, sem þó ætla mætti að bæri meira skynbragð á það en flestir aðrir hversu mikilvægt er fyrir réttarríkið að dómstólar hafi tiltrú og traust almennings. Handhafar ákæruvalds og dómarar eru ekki óskeikulir frekar en aðrir dauðlegir menn og hvorki þeir né aðrir sem starfa í réttarkerfinu veigra sér við gagnrýni, þótt erfitt sé fyrir dómara að taka þátt í opinberri umræðu um störf sín. En krafa um hreinsanir innan dómskerfisins hefur ekki heyrst í Evrópu síðan alræðisstjórnir fasista og kommúnista komust til valda. Slíkar kröfur heyrðust síðast í valdatíð herforingjastjórnarinnar í Pakistan. Er þetta félagsskapurinn sem við viljum vera í til þess að réttlætið nái fram að ganga? Brynjar Níelsson lögmaður

31


ENDURREISN FRJÁLSHYGGJUNNAR

BARÁTTA HUGMYNDANNA HELDUR ÁFRAM FYRIR RÚMUM 30 ÁRUM TÓKU NOKKRIR UNGIR SJÁLFSTÆÐISMENN SIG SAMAN OG GÁFU ÚT MERKILEGA BÓK UNDIR FORYSTU KJARTANS GUNNARSSONAR. BÓKIN UPPREISN FRJÁLSHYGGJUNNAR ÁTTI Á ÞESSUM TÍMA FULLT ERINDI Í ÞJÓÐFÉLAGSUMRÆÐUNA OG ÞAÐ MERKILEGA ER AÐ HÚN Á ENN FULLT ERINDI VIÐ OKKUR ÖLL. Í bókinni lögðu menn á borð við Davíð Oddsson, Jón Steinar Gunnlaugsson, Hannes H. Gissurarson, Friðrik Sophusson, Björn Bjarnason og Geir H. Haarde ásamt fleirum, fram hugmyndir og orðræðu um frjálshyggjuna auk þess sem þeir gagnrýndu harkalega þáverandi forystu flokksins – sem þeir þó studdu. Flestir þeirra sem komu að bókinni áttu síðar eftir að herja harða baráttu fyrir frelsinu næstu árin og áratugina. Samband ungra sjálfstæðismanna var, þegar bókin var gefin út, við það að verða 50 ára. Í sumar fagna ungir sjálfstæðismenn 80 ára afmæli sambandsins. Við það tilefni er rétt að staldra við, heiðra baráttu þeirra sem á undan hafa gengið og jafnframt að horfa fram á veginn og undirbúa þær baráttur sem framundan eru. Í inngangi að Uppreisn frjálshyggjunnar ritar Kjartan Gunnarsson með eftirfarandi hætti: „Það er löngu tímabært

32

að snúa sókn kommúnista og annarra afturhaldsmanna á Íslandi niður. Hugmyndafræði öfundarinnar hefur of lengi ráðið of miklu í samskiptum manna á Íslandi [...].“ Um stuðningsmenn frjálshyggjunnar skrifaði Kjartan fyrir 30 árum: „Þeir vilja standa vörð um sameiginlegan menningararf lýðræðisríkjanna, frelsi og framtak þess fólks, sem þau byggir. Þessa baráttu mega Íslendingar ekki láta framhjá sér fara, og það mega menn vita, að skammt er í glötun þjóðfrelsisins, þegar einstaklingsfrelsið er glatað.“ Þessi orð eiga að öllu leyti við enn þann dag í dag þó kommúnistar hafi síðan þá hætt að kalla sig kommúnista þar sem jafnaðarmaður, umhverfissinni, jafnréttissinni og vinstri maður kann að hljóma betur í eyrum manna. Víglínan er þó enn sú sama, stjórnlyndir menn á móti frjálslyndum mönnum.

BARÁTTA HUGMYNDA Einn góður maður sagði einu sinni að þegar vinstri mönnum gengi vel gengi þjóðinni illa en þegar þjóðinni gengi vel gengi vinstri mönnum illa. Það eru orð með rentu eins og komið hefur á daginn. Þeir hægri menn, sem fyrir örfáum árum héldu e.t.v. að vinstri grýlan væri dauð, hafa heldur betur vaknað upp við vondan draum í fyrra þegar á Íslandi tók við völdum ríkisstjórn sem að mestu var samansett af fyrrum liðsmönnum Alþýðubandalagsins. Talað er um vorið 2009 sem vinstra vorið, en í tíu ár þar á undan höfðu hörðustu vinstri menn á Íslandi upplifað kaldan vetur þar sem ekki var óskað eftir aðkomu þeirra að stjórn landsins. Hvað sem líður daglegu amstri stjórnmálanna þá er stjórnmálabaráttan fyrst og fremst barátta hugmynda. Einhver kann að undrast harkalega orðanotkun þegar


talað er um víglínur og baráttur á vettvangi stjórnmálanna.

sjálfgefið þó einhverjir kynnu að hafa haldið svo.

Staðreyndin er þó sú að baráttan um hugmyndafræðina tekur aldrei enda. Það ætti öllum að vera ljóst. Baráttan á stjórnmálavettvangi er í raun einföld; annars vegar eru það stjórnlyndir menn sem telja að hið opinbera sé best til þess fallið að segja til um hvernig einstaklingurinn lifir lífi sínu og hins vegar eru það frjálslyndir menn sem telja að einstaklingurinn sé sjálfur fullfær um að taka ákvarðanir um eigið líf. Þetta er grunnurinn að endalausri baráttu, sem á köflum verður harkaleg, jafnvel blóðug því miður.

GAGNRÝNI UNGLIÐA EÐLILEG

HÆGRI MENN GLEYMDU FRELSINU Hafandi sagt þetta verður að viðurkennast að hægri menn hafa undanfarin ár verið værukærir um hugmyndafræðina. Barátta þeirra manna sem nefndir voru hér í upphafi skilaði því að bæði einstaklingar og fyrirtæki fóru að hafa það svo gott að lúxusvandamál á borð við umhverfismál, jafnréttismál (femínisma) og það hvar bæta mætti í þegar útþanið velferðarkerfi voru orðin meginefni stjórnmálaumræðunnar síðustu árin fyrir bankahrun. Við gleymdum grunninum að því hvað það er sem gerir samfélagið gott - frelsið. Sumir hægri menn þorðu jafnvel ekki að kenna sig við frjálshyggju af ótta við pólitískan rétttrúnað, enda virtist frelsið kannski vera búið að festa sig í sessi og orðið aukaatriði. Stóraukin útgjöld ríkisins síðustu ára, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, mikil aukning opinberra starfsmanna og loks björgun einkabankanna gefur þó ekki til kynna að hér á landi hafi frjálshyggjan ráðið ferð. Nú þegar vinstri grýlan birtist í allri sinni mynd – og það er alls ekki fögur mynd – þurfa frjálslyndir menn að undirbúa sig undir harða baráttu. Frelsið er vígi sem þarf að verja og það er ekki

Þeir sem skrifuðu á sínum tíma Uppreisn frjálshyggjunnar hikuðu sem fyrr segir ekki við að gagnrýna þáverandi forystu Sjálfstæðisflokksins. Það þarf ekki að koma nokkrum manni á óvart að ungliðahreyfing flokksins, sem oft er kölluð samviska flokksins, sé gagnrýnin á forystu hans. Sú gagnrýni er á köflum harkalegri en gagnrýnin sem kemur utan frá en er þó ætluð til uppbyggingar en ekki niðurrifs. Um leið og ungir sjálfstæðismenn hætta að gagnrýna forystuna, fari hún út af sporinu, er baráttan töpuð, enda er eitt af meginhlutverkum ungliðahreyfingarinnar að halda forystu flokksins við efnið. Kjörnir fulltrúar flokksins þurfa þess vegna ekki að láta það koma sér á óvart þegar ungliðar gagnrýna þá. Þegar öllu er á botninn hvolft þurfa þeir meira á ungliðunum að halda heldur en ungliðarnir á þeim. Ef ungliðahreyfing Sjálfstæðisflokksins, sem ekki er bundin af stjórnarsáttmálum eða öðrum samstarfsamningum við aðra flokka, stendur ekki vörð um frelsið þá gerir það enginn. Þetta hafa menn vitað í þau 80 ár sem SUS hefur starfað. Samband ungra sjálfstæðismanna er eina starfandi stjórnmálahreyfingin á hægri vængnum. Það er ekki hlutverk sambandsins að sækja inn á miðjuna í von um óstöðugt fylgi, heldur ber ungliðahreyfingunni að standa vörð um hugmyndabaráttuna á hægri vængnum. Þegar ískaldur andardráttur vinstri stjórnarinnar blæs niður hálsmál frelsisþenkjandi manna átta menn sig á mikilvægi þessa. NÆSTA KYNSLÓÐ TAKI VIÐ KEFLINU Þeir menn sem hér voru taldir upp í byrjun eiga mikið hrós skilið fyrir baráttu sína. Þeir

börðust á vígvelli sem margir duga skammt á og lögðu til þess miklar persónulegar fórnir. Í dag er enn sótt að þeim þó allir hafi þeir hætt daglegum afskiptum af stjórnmálum. Það gefur aðeins til kynna að þeir hafi gert eitthvað rétt. En hlutverki þeirra er ekki lokið þó þeir hafi hætt afskiptum af stjórnmálum. Þeim ber ákveðin skylda til þess að koma keflinu í hendurnar á þeim sem yngri eru og eru tilbúnir að hlaupa með það. Þeir gerðu vel en þeir gerðu ekki nóg. Maður gerir aldrei nóg í baráttunni fyrir frelsinu. Nú hvílir sú skylda á þeim að þeir deili af reynslu sinni til yngri kynslóða. Greini frá hugmyndum sínum og baráttuaðferðum, rækti tengsl við unga fólkið, deili mistökum sínum og því sem hefði betur mátt fara, en umfram allt hvetja unga fólkið til að missa ekki móðinn. Við sem yngri erum ættum að líta til baráttu þeirra og taka hana til fyrirmyndar. Við sem störfum í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins í dag ber ákveðin skylda til að draga af reynslu þeirra, læra af mistökum þeirra og virða það sem vel var gert. Um leið eigum við að keppa að því að gera meira en þeir gerðu og gera það betur. Þeir hafa rutt margar hindranir úr vegi, og skulu hafa þökk fyrir, en enn eru fjölmargar hindranir á veginum til frelsis sem þeir eiga ekki eftir að yfirstíga. Það kemur í hlut okkar sem yngri erum að ryðja þær hindranir úr vegi. Við skulum vona að eftir 30 ár verði einhver sem þakki okkur fyrir baráttuna, vilji draga af reynslu okkar og mistökum en sjái jafnframt að enn sé langt í fullnaðarsigur frelsisins. Gísli Freyr Valdórsson


KROSSGÁTA SUS 4

DREGIÐ VERÐUR ÚR INNSENDUM LAUSNUM 1. OKTÓBER 2010.

7

1. VERÐLAUN: 10.000 KR. GJAFABRÉF Í KRINGLUNA

12

2

3

5

6

8

9

10

11

13 15

16

2. VERÐLAUN: DAVÍÐ ODDSSON Í MYNDUM OG MÁLI 1948-2008 3. VERÐLAUN: UPPREISN FRJÁLSHYGGJUNNAR

1

14

17

18

19

20

21

22

23

24 26

27

ÚRLAUSNIR SENDIST Í PÓSTI TIL SKRIFSTOFU SUS, VALHÖLL, HÁALEITISBRAUT 1, 105 REYKJAVÍK, EÐA Á SUS@ SUS.IS MERKT KROSSGÁTA.

6. Sósíalískur þjóðernissinni er... 7. Uppreisn... 8. The colour of poo is... 11. Þráinn Bertelsson sagði að 5% þjóðarinnar væru... 14. „Ég var mjög lengi að jafna mig á því að eiga strák.“ 15. Ævilöng skuldabyrði. 18. Ráðherrann sem aldrei var með í ráðum. 20. Sjálfstæðisflokkurinn varð til eftir sameiningu 21. Sjúklega dýrt tónlistarhús. 23. Hvað er lausnarorðið?

28 29

30

1. Hver er uppáhalds lögga Vinstri grænna?

LÓÐRÉTT

LÁRÉTT

2. Formaður órólegu deildarinnar.

Frjálslynda flokksins og...

25

3. 17.200 krónur á ári. 4. Hvað vildu vinstrimenn að væri enn þá bannað árið 1989? 5. Forseti Alþingis er duglegur á... 9. VefÞjóðviljinn. 10. Fram þjáðir menn í þúsund löndum. 12. Pylsa með engu nema sinnepi kallast... 13. Hvað hét Godzilla endurgerð Kim Yong Il? 16. Ríkisstyrktur landbúnaður heftir... 17. Hvað er blátt og sveipað 12 stjörnum? 19. Carmel-by-the-Sea, California.

24. Fór með aðahlutverkið í Naked Gun.

22. „Don’t be economic girlie-men!“

26. 1991-2004.

25. Hvað finnst Steingrími J. gaman að hækka?

29. SUS er ... ára.

27. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks var

30. Nokkrir góðir dagar án...

mynduð í... 28. Við hvaða fugl má ekki dansa lengur?

34


VIÐ ÞÖKKUM EFTIRTÖLDUM STUÐNINGINN

Vísir útgerð Hafnargötu 16 240 Grindavík

Byggingarfélag Gylfa og Gunnars Borgartúni 31 105 Reykjavík

Brynja verslun Laugavegi 29 101 Reykjavík

Grand Hótel Reykjavík hf. Sigtúni 38 105 Reykjavík

Listasafnið Hótel Holt Bergstaðarstræti 37 101 Reykjavík

Vélvík ehf. Höfðabakka 1 110 Reykjavík

Tannlæknastofa Þórarins Sigþórssonar Hafnarstræti 37 101 Reykjavík

Geislatækni ehf. Suðurhrauni 12C 210 Garðabæ

Verkfræðistofa Suðurnesja ehf. Víkurbraut 15 230 Reykjanesbæ Kjörís Austurmörk 15 810 Hafnarfirði Dynjandi ehf. Skeifunni 3H 108 Reykjavík Brynjar Þór Níelsson, hrl. Lágmúla 7 108 Reykjavík Gunnar Eggertsson hf. Sundagörðum 6 104 Reykjavík Talnakönnun hf. Borgartúni 23 104 Reykjavík Ólafur Þorsteinsson ehf. Vatnagörðum 4 104 Reykjavík Fasteignamarkaðurinn Óðinsgötu 4 101 Reykjavík Raföld ehf. Grásteini 810 Hveragerði Ljósvakinn ehf. Vesturvör 30B 200 Kópavogi Glófaxi ehf. Ármúla 42 108 Reykjavík Íspan hf. Smiðjuvegi 5 200 Kópavogi Útgerðafélagið Frigg ehf. Tryggvagötu 11 101 Reykjavík Ellert Skúlason hf. Fitjabraut 2 260 Njarðvík Pétursey Flötum 31 900 Vestmannaeyjum Matur og Menning ehf. Hverfisgötu 15 101 Reykjavík

Stálskip ehf. Trönuhrauni 6 220 Hafnarfirði Formprent Hverfisgötu 78 101 Reykjavík Deloitte hf. Smáratorgi 3 200 Kópavogi

Þórsberg ehf. Strandgötu 25 460 Tálknafirði Hraðfrystihús Hellissands hf. Hafnarbakka 1 360 Hellissandi Árborg ehf. Bankavegi 6 800 Selfossi Snæland Grímsson ehf. Langholtsvegi 115 104 Reykjavík Jón Snorri Sigurðsson Jöklafold 16 112 Reykjavík

Ísfélag Vestmannaeyja Strandvegur 28 900 Vestmannaeyjum

Lögfræðistofa Tryggva Viggósonar Kringlunni 7 103 Reykjavík

BK Hreinsun Iðuvöllum 11B 230 Reykjanesbæ

Pípulagningarverktakar ehf. Langholtsvegi 109 104 Reykjavík

Lögsýn ehf. Skipholti 50D 105 Reykjavík

Húsaklæðning hf. Hólmaslóð 2 101 Reykjavík

GS Varahlutir Bíldshöfða 14 110 Reykjavík

Baldur Pokagerð Kumbaravogi 825 Stokkseyri

Perlan veitingahús Öskjuhlíð 105 Reykjavík

Fjárvakur ehf. Reykjavíkurflugvelli 101 Reykjavík

Kjaran ehf. Síðumúla 12-14 108 Reykjavík

Lögfræðistofa Suðurnesja hf. Hafnargötu 51 230 Reykjanesbæ

John Lindsay hf. Klettagörðum 23 104 Reykjavík

HGK ehf. Laugavegi 13 101 Reykjavík

Gæfumunir ehf. Grandavegi 47 107 Reykjavík

Pizzan Smiðsbúð 9 210 Garðabæ

Guðmundur Arason ehf. Skútuvogi 4 104 Reykjavík

Sjá viðmótsprófanir ehf. Klapparstíg 28 101 Reykjavík

Skalli v/Vesturlandsveg Grjóthálsi 8 110 Reykjavík

Vefmiðlun ehf. Skipholti 50c 105 Reykjavík

Þorbjörn hf. Hafnargötu 12 240 Grindavík

Icelandair Group hf. Reykjavíkurflugvelli 101 Reykjavík

35


Nei.

„SUS GAGNRÝNIR NÚVERANDI RÍKISSTJÓRN HARÐLEGA FYRIR AÐ SÆKJA UM AÐILD AÐ EVRÓPUSAMBANDINU“

„SUS TELUR AÐILD ÍSLANDS AÐ EVRÓPUSAMBANDINU ÓÁSÆTTANLEGA“

„EVRÓPUSAMBANDIÐ ER TOLLABANDALAG OG GENGUR ÞVÍ GEGN GRUNDVALLARHUGSJÓN SUS UM FRJÁLSA VERSLUN Á HNATTRÆNUM GRUNDVELLI“ Úr ályktun 40. sambandsþings SUS um utanríkismál.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.