
3 minute read
Hallur og Gamli Nói mætast í tónmenntinni
from Fréttabréf TKÍ
by tonmennt
Hallur Guðmundsson tónmenntakennari í Breiðagerðisskóla
Ég var beðinn um að „skrúfa saman“ stuttan pistil…
Advertisement
Það fyrsta sem mér datt í hug var „Be careful what you wish for“ og þau sem þekkja mig vita hvað ég er að meina. En ég skal reyna að halda þessu á sæmilega virðulegum nótum, G og C#.
Ég er tiltölulega nýr í hópi tónmenntakennara en hef reynt ansi margt. Ég tók við starfinu af dásamlegri konu sem hætti sökum aldurs. Hún er af gamla skólanum og gerði það vel. Ég, þjóðlagarokkari, þungarokkari, progghundur og poppkjáni sem var líka 1. tenór í alls kyns kórum í gegnum tíðina, tók við. Stökkið frá því að spila á 6 strengja rafbassa og kontrabassa í balkan-brjálæðis-rokkbandi og þunglyndis-köntríbandi yfir í tónmenntakennarann er gríðarstórt en þetta er eitt skemmtilegasta stökk sem ég hef tekið. Böndin eru bæði hætt og ég hættur í kórum í bili þannig að ég hafði ekkert að gera í mússíkinni.
Það fyrsta sem ég gerði var að lesa mig í gegnum Aðalnámskrá grunnskóla skoða viðmið. En þetta rit er það ruglingslegasta sem ég hef handleikið. Ég áttaði mig svo á því að Aðalnámskráin sagði mér bara að gera það sem ég vildi… eða, sko, ég ákvað það bara.
Og ég hef verið að gera það sem ég vil. Mín sýn á starfið er umfram allt að vekja áhuga á tónlist í víðara samhengi og viðhalda áhuganum. Með áhuganum laumar maður svo fræðunum inn.
Í 1. bekk er unnið með rímorð í íslensku, ég dýrka samþættingu náms. Ég fór að skoða hvernig ég gæti notað það. Illa undurbúinn taldi ég mig hafa fundið töfralausnina. GAMLI NÓI! Svo hófst kennslustundin.
„Gamli Nói keyrir kassabíl, hann kann ekki að stýra, brýtur alla gíra…“
Sko, krakkar! Stýra og Gíra… Guðgeir, viltu hætta að lemja Ásrúnu með sleglinum!
Ásrún, ekki slá Guðgeir með D# nótunni úr stafspilinu!
Alla vega! Stýra og Gíra, það rímar!
Ég bað krakkana að koma með rímorð og reyndi að búa til vers um gamla Nóa með þeim rímorðum. Hús, mús, lús, bíll fíll… já bara allir klassíkerarnir í rímorðum 6 ára barna. Ég reyndi að hnoða saman „Gamli Nói er að kaupa hús, hann fékk ekki hús, bara gamla mús…“ og fleira í þessum dúr. Það gekk hálf asnalega. Og þegar mig rekur í slíkan rogastans þá fer hausinn í gang (ADHD einkennið að vinna verk eftir skilafrest). Allt í einu voru komin þrjú vers af þeim gamla.
„Gamli Nói er að syngja lag, hann kann ekki að syngja, lætur símann hringja…“ og stoppaði þar, lék það að síminn hringdi í vasanum mínum, greip hann og svaraði skólastjóranum og var með smá leikatriði út frá því. Sá gamli var líka að spila lag og lét hljóðfærið bila með tilheyrandi leikþætti. Að lokum var það gamli Nói að baka brauð, hann kann ekki að baka, þetta er orðin kaka… Þarna hugsaði ég með mér að neyðin kenndi naktri konu að spinna og var ánægður og það voru komnar frímínútur.
En versið þar sem sá gamli svarar símanum þótti svo vel heppnað að sumir nemendur hafa ítrekað heimtað það sungið aftur og aftur. Ég hætti að verða við þeirri ósk frekar snemma. Í lok vetrar spurði ég krílin hvað þeim hefði fundist skemmtilegast í vetur og jú, all nokkur sögðu það vera gamla Nóa að hringja. Ég dæsti.
Hvað hef ég lært? Jú, undirbúningur er mikilvægur. En líka að vera ekki of sniðugur og spontant… það kemur í bakið á manni aftur og aftur og aftur… En það er bara svo ógeðslega gaman.
