4. Fundur Péturs og Jóbalds á Allensléttunni Jóbald fæddist á ferðalagi. Um borð í fljótapramma milli Gent og Brugge. Ættmenni hans höfðu verið fljótafólk í margar kynslóðir og sjálfur eyddi hann barnæsku sinni á vatnavegum Evrópu. Jóbald var trúhneigður, án þess þó að vera bundinn ákveðinni kirkjudeild. Hann er, eins og líklega flest fólk, blanda góðs og ills og hann hefur reynt að sníða trú sína eftir þessum eiginleikum. Trúarbrögð hans falla í flestu saman við trúarbrögð eskimóa, með þeim smávægilega mun þó, að þar sem eskimóinn kemur sér upp mörgum og sífellt nálægum sálum, einbeitir Jóbald sér að einni sál, sinni eigin. Eins og eskimóarnir lætur hann hins góða í engu getið. Það er þarna og því ber ekki að breyta. Aftur á móti hefur hann vakandi auga með hinum lánlausari hliðum eigin sálarlífs og skjóti fram í dagsljósið úr djúpi minninganna þótt ekki sé nema ávæningi af misgjörðum fortíðarinnar, hefur hann þegar í stað þjáningarfulla baráttu fyrir eigin hreinsun. Hann lítur á sjálfan sig sem hinn mesta syndara og hreinsanirnar geta oft virst öfgafullar í augum óviðkomandi; já, jafnvel hlægilegar. Hann frelsaðist rigningardag einn að vetri til í lítilli kapellu í kolanámubænum Junet. Kapellan var í kurteislegri fjarlægð frá
HÚS FEÐRA MINNA I | 31