
13 minute read
4 Fundur Péturs og Jóbalds á Allensléttunni
Jóbald fæddist á ferðalagi. Um borð í fljótapramma milli Gent og Brugge. Ættmenni hans höfðu verið fljótafólk í margar kynslóðir og sjálfur eyddi hann barnæsku sinni á vatnavegum Evrópu.
Jóbald var trúhneigður, án þess þó að vera bundinn ákveðinni kirkjudeild. Hann er, eins og líklega flest fólk, blanda góðs og ills og hann hefur reynt að sníða trú sína eftir þessum eiginleikum. Trúarbrögð hans falla í flestu saman við trúarbrögð eskimóa, með þeim smávægilega mun þó, að þar sem eskimóinn kemur sér upp mörgum og sífellt nálægum sálum, einbeitir Jóbald sér að einni sál, sinni eigin. Eins og eskimóarnir lætur hann hins góða í engu getið. Það er þarna og því ber ekki að breyta. Aftur á móti hefur hann vakandi auga með hinum lánlausari hliðum eigin sálarlífs og skjóti fram í dagsljósið úr djúpi minninganna þótt ekki sé nema ávæningi af misgjörðum fortíðarinnar, hefur hann þegar í stað þjáningarfulla baráttu fyrir eigin hreinsun. Hann lítur á sjálfan sig sem hinn mesta syndara og hreinsanirnar geta oft virst öfgafullar í augum óviðkomandi; já, jafnvel hlægilegar.
Hann frelsaðist rigningardag einn að vetri til í lítilli kapellu í kolanámubænum Junet. Kapellan var í kurteislegri fjarlægð frá
HÚS FEÐRA MINNA I | 31
mjórri gangstéttinni, klemmd milli tveggja íbúðarhúsa í eigu hins opinbera. Jóbald dróst að daufu, gulu ljósi, sem týrði gegnum rúðuna í hurðinni og hann gekk inn til að verða ekki gegnblautur.
Hvað það var sem greip hann er ekki gott að segja. Ef til vill var það aðeins andrúmsloftið í hálfmyrkvuðu húsinu, sem aðeins var lýst upp af tveimur vaxljósum við altarið; ef til vill var það sitrandi regnið sem myndaði dómadagshljóð er það féll á blikkþakið. Einnig getur verið að þarna hafi aðeins myndast tilviljanakennd hugmynd sem fylgt var eftir með fleiri hugmyndum og þróaðist loks í viðbrögð gagnvart tilverunni. Það er erfitt um að segja. Víst er þó að þegar hann yfirgaf kapelluna mörgum klukkustundum síðar og regnið var fyrir löngu stytt upp, var hann gripinn „einhverju“. Hann leit á sig sem syndara og með það sem grunn byggði hann upp nýjan og örðugan lífsstíl. Þær fjölmörgu syndir, sem fram að þessu hafði ekki verið skenkt mikil hugsun, bólgnuðu upp og tóku á sig ótrúlegar víddir. Þó er rétt að geta þess hér, til að fyrirbyggja misskilning, að annarra manna syndir skiptu Jóbald engu máli.
Árið eftir frelsunina réðist hann á hollenska skipið Hoope van Scheveningen og á þeim tima var hann að eigin áliti heimsins mesti núlifandi syndari; hugsun sem kom honum til að grípa andann á lofti.
Með Hoope van Scheveningen kom hann til skóganna miklu, langt fyrir sunnan Fynesfjörðinn. Hann strauk af skipinu og stefndi inn í skógana, norður eftir. Raunverulegt takmark ferðarinnar var honum ekki ljóst. Hann óskaði einungis kyrrðar og rýmis fyrir margar ruglingslegar hugsanir sínar.
Pétur hitti hann á Allensléttunni. Meira en aldarfjórðungur er nú liðinn frá hinum minnisverða fundi feðra minna. Meðan á ferðinni stóð hafði skotið upp í huga hans atviki sem átt hafði sér stað meðan hann var enn um borð í fjölskylduprammanum.
32 | HÚS FEÐRA MINNA I
Allensléttunnan. Ljósm.: óþekktur
Þegar hann var drengur voru engin salerni um borð í bátunum. Allt var losað beint frá borðstokknum í fljótið. Jóbald og Gerður systir hans höfðu kvöld eitt setið á lúgubrúninni og séð þegar konan á nágrannabátnum kom sér dæsandi fyrir til að skila of umfangsmikilli kvöldmáltíðinni í fljótið. Stórbrotinn afturendinn skein sem rísandi máni og Gerður, freistarinn, hafði hvíslað að hann þyrði ekki. En hann þorði. Hann hafði þrifið slengivaðinn úr vasanum, sett fallegan ávalan stein í leðrið og – súpp; hann þaut af stað eins og hvæsandi byssukúla.
HÚS FEÐRA MINNA I | 33
Ó, hvílík hljóð! Konan sló út höndunum og valt aftur fyrir sig. Það var ekki fyrr en vatnið laukst aftur yfir höfði hennar að skelfingarfullt veinið hljóðnaði.
Þessi ómennsku hljóð komu aftur í hugarfylgsni Jóbalds með fullum styrk þennan dag sem hann gekk eftir Allensléttunni. Þar sem hann hafði um langt skeið verið í vandræðum með umtals verða synd, greip hann höndum tveim þessa óknytti barnæskunnar sem tylliástæðu til að æfa hreinsandi hegningaraðferð. Hann fann sér hæfilegan stein, greip um hann báðum höndum og slengdi honum hátt í loft upp. Svo kom hann sér eldsnöggt fyrir á líklegum lendingarstað og beið með lokuð augu og axlirnar dregnar upp að eyrum. Hann varð að endurtaka þessa framkvæmd mörgum sinnum áður en hnullungurinn skall með friðþægingarsmelli á höfði hans. Því miður reyndist steinninn vera stærri en honum hafði virst í heilagri vitfirringu sinni og hann valt um koll á lyngið, illa meiddur af reiði Herrans. Í því ástandi fann Pétur hann.
Það gerist ekki oft að maður hitti ókunnuga á landsvæði félaganna
Við rætur Ungfrú Mollý.

34 | HÚS FEÐRA MINNA I Ljósm.: óþekktur
og það er í hæsta máta sjaldgæft að rekast á þá meðvitundarlausa. Pétur sótti vatn í poll af leysingarvatni og skvetti í andlit þess ókunnuga. Hann sló blíðlega á fölar kinnarnar og lagði safaríka mosató á blæðandi hvirfilinn. Stuttu síðar lauk Jóbald upp augunum. Hann horfði beint inn í stórt, skeggjað andlit með tveimur mjög bláum og undrandi augum. „Jesús,“ hvíslaði hann. „Ert þú Jesús?“ „Ekki beint Jesús,“ svaraði Pétur feimnislega. „Hér kalla menn mig Pétur.“ „Vissulega ert þú Jesús,“ sagði sá særði og hristi sig. Hann reis stynjandi upp á annan olnbogann. „Stattu upp og færðu þig aðeins frá, svo ég geti miðað þig almennilega út.“
Pétur hlýddi þolinmóður. Hann reis á fætur og steig nokkur skref aftur á bak.
Jóbald athugaði hann gaumgæfilega. Hann sá stórgerða kubbslega mannveru í segldúksbuxum og skinnstakki. Hann settist upp og néri sitt stóra nef. Þetta var ekki beinlínis eftirmynd af þeim Jesú sem nældur hafði verið upp á trékross í þröngri káetu æskuprammans. Ekki gat hann heldur, nú þegar augun voru komin í samt lag, ímyndað sér að þessi vera hefði nokkurn tíma verið lítið, sætilmandi jesúbarn í kjöltu hinnar heilögu jómfrúr. „Þú hefur sjálfsagt rétt fyrir þér, félagi,“ sagði hann loks. „Jesús ertu að minnsta kosti ekki. Þessi steinn hlýtur að hafa verið fjandi stór.“
Pétur brosti. „Hreint og beint bjarg, félagi. Ekki furða þótt þú sért dálítið þokukenndur. Á vissan hátt gæti ég raunar, hreint hugmyndafræðilega, verið Jesús, en ef við eigum að halda okkur við staðreyndir, þá er ég sem sagt Pétur frá Ungfrú Mollý. Komir þú að sunnan hefurðu áreiðanlega heyrt margt um mig og félagana.“
Jóbald þreifaði varfærnislega á vaxandi kúlunni. „Helvíti, hvað hún stækkar,“ tautaði hann. Svo beindi hann sársaukafullu augnaráði að
HÚS FEÐRA MINNA I | 35
Pétri. „Ég heiti Jóbald og ég hef aldrei heyrt þig nefndan. En það er ugglaust því að kenna að ég forðast fólk.“ „Það er leitt.“ Pétur togaði í eyrnasnepilinn. „Það eru svo margir líflegir strákar niðri á Bananaströndinni. En sérhver maður hefur sínar ástæður til að lifa eins og hann gerir og ég er ekki sá að ég spyrji neins.“
Jóbald benti með stífum þumalfingri á brjóst sér. „Hér sérðu mann sem ekki hefur tíma til líflegs lífernis. Ég er blátt áfram svartur af synd, Pétur. Sennilega er ég mestur núlifandi syndara.“ „Það var stórkostlegt,“ hrópaði Pétur hrifinn. „Hvílík hundaheppni að maður skuli rekast á heimsins mesta syndara á miðri Allensléttunni. Ekki svo að skilja að mér komi það við, Jóbald, en hvern fjandann hefurðu gert?“ „Ef þú spyrð mig hvað ég hef ekki gert, myndi svarið vera léttara,“ svaraði Jóbald þunglega. „Einhver bölvuð innri rödd dregur í sífellu fram í dagsljósið nýjar syndir handa mér.“ „En þú hlýtur þá að hafa gert alveg gífurlega mikið af þér, úr því að röddin getur sífellt verið að,“ áleit Pétur. „Ég þekki til dæmis marga morðingja hér uppfrá, en þeir hafa aldrei minnst á einhverja innri rödd. En kannski er morð heldur ekki raunveruleg synd. Ég á við, það geta komið þau tilfelli að morð sé nánast mannúðarverk. Sjálfur hef ég framið fleiri skammarstrik en dagar eru í lífi gamals manns, en innri rödd þekki ég enga.“ „Fjöldi syndanna hefur enga þýðingu,“ útskýrði Jóbald. „Það eru ekki syndirnar sem slíkar sem skapa syndarann, Pétur. Maður þarf að reyna lengi áður en maður verður góður syndari. Það er ekkert sem hægt er að hlaupa í. Ástundun og heilbrigði eru tvö af skilyrðunum, en jafnvel þótt það sé fyrir hendi er engan veginn gefið að eitthvað verði úr manni. Maður verður eiginlega að vera útvalinn, ef svo má segja. Maður verður að leita lengi áður en maður finnur.“
36 | HÚS FEÐRA MINNA I
„Þetta hljómar ekki auðveldlega,“ sagði Pétur með áherslu. „Maður verður bersýnilega að vera feikilega þolinmóður.“ Hann hallaði sér makindalega upp að bakpokanum sínum, ákafur í langar og nytsamlegar samræður. „Hvað hefur þú fundið, Jóbald?“ „Jú, sjáðu til. Ég hef komist að því að Jóbald Gerrit Oegeest er mestur núlifandi syndara. Ég er kominn það langt að ég játa á mig allar syndir jafnóðum og þær eru sendar á mig. Ég el þær, hlúi að þeim eins og maður hlúir að blómum í garði og þær þrífast; verða stórar og sterkar, þar til ég gríp utan um þær og kippi þeim upp með rótum.“ „Ekki er létt að skilja þetta, félagi. Þessi samlíking með blómin var of erfið,“ sagði Pétur. „En mig grunar hvað þú ert að fara. Gefum okkur það nú að ég stæli refi úr gildru nágranna míns og æli síðan á þessari synd innra með mér. Heldur þú þá að hún myndi vaxa og verða loks eins stór og svört og ef ég hefði til dæmis stolið einum af hundunum hans?“ „Örugglega,“ sagði Jóbald ákveðinn. „Og hún gæti orðið enn stærri ef þú vandaðir þig vel.“ „Ekkert er verra en að stela hundi,“ sagði Pétur alvarlegur. „Jæja, þá látum við hundinn duga,“ svaraði Jóbald tillitssamur. „Ég held raunar að það yrði nógu erfitt fyrir þig að koma syndinni upp í hundsstærðina. Ég get sagt þér það, Pétur, að það er ekkert eins erfitt og að ná tangarhaldi á syndinni. Við mennirnir höfum ógrynnin öll af afsökunum. Þú verður að halda fast við jafnvel hinn viðurstyggilegasta verknað. Reyna að hugsa í myndum, sjá allt fyrir þér; hvernig þú skríður að gildrunni, hvernig þú losar refinn úr steingryfjunni, hvernig þú læðist heim á leið með þýfið jafnframt því sem þú hlakkar yfir snjónum sem fellur og mun hylja sporin eftir þrúgurnar þínar. Ef þú kallar þessar myndir fram í huga þér aftur og aftur mun syndin vaxa og að lokum fylla svo mikið að heili þinn
HÚS FEÐRA MINNA I | 37
rúmar ekki meira. Ó, það er svo dásamlegt, svo dásamlegt, Pétur og þú þarfnast lausnar og færð hana. Sumir eru sterkir og geta öðlast lausn með því að ákalla góðan guð. Aðrir verða að leita hjálpar hjá hinu illa og sársaukafulla. Mér er um megn að bera syndina einn og því er hið illa sjálfsagt fremur guð minn en hið góða. Þar er hjálpina að finna. Og þú munt komast að raun um að það er léttara að bera krossinn þegar nokkrir eru um það. Krossinn er svo þungur að maður tekur ekki eftir því hver hann er, félaginn sem hjálpar til.
Reyndu sjálfur, Pétur, að hugsa þér refaþjófnað. Komdu þér vel fyrir og einbeittu hugsun þinni að refnum sem þú stalst.“
Pétur kom sér fyrir. Hann starði upp í gráhvít skýin, sem voru eins og digrir vindlar á safírbláum himninum. „Sjáðu refinn fyrir þér,“ sagði Jóbald lágt. „Þarna liggur dýrið með brotinn hrygginn eftir fallbrettið. Sérðu skottið, sem sést svo vel? Já, svo fjarlægir þú steinana; varlega Pétur. Lyftir svo undir fallbrettið, svona og svo út með djöfsa. Virtu hann bara fyrir þér smástund; þú hefur nægan tíma. Fínt skinn, ekki satt? Hrafnarnir hafa ekki fengið ráðrúm til að kroppa í hann þennan. Hann er nýveiddur, svei mér þá. Og nú opnar þú bakpokann og lætur þennan litla, hvíta félaga síga niður í myrkrið. Svo þurfum við að reisa gildruna upp á endann aftur. Pinnana á sinn stað og steinana þar sem þeir eiga að liggja. Leggðu þá eins og þeir voru, Pétur; ekkert flaustur. Mundirðu eftir að hafa með þér kjöt á agnið? Gott, þá er allt eins og það var áður en refurinn gekk í gildruna. Sérðu þetta fyrir þér? Stækka myndirnar? Einbeittu þér nú, maður; sjáðu þetta fyrir þér aftur og aftur. Nýturðu syndarinnar? Finnurðu hvernig hún liðast í gegnum þig eins og eiturslanga? Hvernig hún bítur þig og lætur sitt arma eitur lama andstöðuna gegn þjófnaðinum? Og nú komum við að hinni innri rödd. Hún talar, Pétur; heyrirðu í henni?“ „Ég heyri í henni.“ Pétur kinkaði kolli annars hugar.
38 | HÚS FEÐRA MINNA I
Heimamenn. Ljósm.: óþekktur

Jóbald þorði varla að draga andann af spenningi. „Og hvað segir hún?“ hvíslaði hann hás.
Pétur svaraði djúpri, hrærðri röddu, án þess að hafa augun af skýjunum: „Hún segir að þetta skinn muni fara á toppverði á voruppboðinu. Djöfull gott skinn.“
Jóbald andvarpaði djúpt. Hann lagðist þunglega við hlið Péturs. „Þú hefur ekki hæfileikana,“ sagði hann vonsvikinn. „Það verður aldrei neitt úr þér, ekki einu sinni miðlungssyndari. Þú ert ekki útvalinn, Pétur.“ „Ég gerði mitt besta, félagi,“ svaraði Pétur. Hugur hans dvaldi enn við hið fagra refaskinn. „Við getum ekki allir öðlast þína ríkulegu hæfileika.“
Jóbald stundi aftur. „Heimsins mesti núlifandi,“ tautaði hann og hrifningin hríslaðist niður hryggjarlengju hans.
HÚS FEÐRA MINNA I | 39
„Þungur kross hlýtur það að vera,” sagði Pétur vorkunnsamlega. „Einstakt.“ Jóbald þreifaði varlega á kúlunni sinni. „Og svo getur það verið svo djöfull sárt.“
Feður mínir tilvonandi lágu og horfðu út yfir breiða sléttuna. Þeir lágu með malpoka sína undir höfðunum og hendurnar spenntar yfir magann. Þeir lágu lengi þögulir og eins og þreifuðu á þögn hvors annars. Öðru hverju leit annar á hinn og þegar augu þeirra mættust brostu þeir dálítið feimnislega. Skyndilega sagði Pétur: „Við erum nokkrir sem höfum slegið okkur saman handan Willsonhæðanna.“ Hann benti með þumlinum yfir öxlina í áttina að Gæsaskarði. „Við rætur Ungfrú Mollýar,“ bætti hann við. „Ungfrú Mollýar?“ Jóbald leit spyrjandi á hann. „Já, fjallið fékk þetta nafn í höfuðið á stelpu í Downty. Hún kom hingað uppeftir á tíunda áratugnum, þegar menn leituðu gulls þarna niður frá og hún hafði víst mikla löngun til að gera, þú veist. Hængurinn var bara sá að í þessum landshluta fannst ekki einn einasti maður sem áhuga hafði á að klífa hana.“ „Skömm er að heyra þetta,“ sagði Jóbald. „Það er alltaf skömm þegar kona sem raunverulega hefur áhuga fer til spillis. Einn góðan veðurdag ætla ég að klífa fjallið, til heiðurs ungfrú Mollý.“ „Það gleður áreiðanlega sál þeirrar gömlu gæru, hvort heldur hún er nú uppi eða niðri. Það hefur áreiðanlega enginn gert neitt áður henni til heiðurs.“ „Slík fjallganga verður auðvitað að undirbúast gaumgæfilega,“ útskýrði Jóbald. „Það dugar ekki að hlaupa bara upp fjallið.“ „Nei, það dugar ekki. Það er gegnumrotið,“ sagði Pétur, „og það er hreint ekki fagurt fjall að klifra í.“ „Hvað fegurðina snertir,“ sagði Jóbald, „þá skiptir hún ekki máli meðan maður er að klífa. Ég er viss um að það sem maður sér ofan af tindi Ungfrú Mollýar er óvenjulega fagurt. Fjöll og konur eru
40 | HÚS FEÐRA MINNA I
ekki svo ólík, Pétur. Þegar maður er kominn alla leið fær maður laun sín og alla þá fegurð sem maður getur óskað sér.“ „Þú hefur sjálfsagt meiri reynslu í þess háttar en ég.“ Pétur benti aftur fyrir sig yfir öxlina. „Ef þú ert að hugsa um að undirbúa fjallgönguna er þér velkomið að búa hjá okkur. Við munum ekki trufla þig, ekki heldur ef þú ert upptekinn við útrekstur eða önnur erfið verkefni.“
Jóbald sneri höfðinu og leit í áttina að Ungfrú Mollý. „Ég gæti vel hugsað mér að heimsækja ykkur um hríð,“ svaraði hann. „Ég þarfnast kyrrðar og nýrra vina. Auk þess hef ég heitið því að klífa Ungfrú Mollý.“
Og þannig varð það. Til mikillar gleði fyrir íbúa hússins og gagns og hamingju fyrir hinn sérstæða aðkomumann sem fann hvíldarstað fyrir sínar fjölmörgu syndugu hugsanir við hlíðar Ungfrú Mollýar (sem hann kleif vorið 1934 eftir ársundirbúning). Frá umræddum degi á Allensléttunni hefur Jóbald deilt lífinu með vinum sínum, allt frá daglegum félagsskap til hálfs föðurhlutverks, eftir að ég kom í heiminn.
Í næsta kafla ætla ég að segja frá því, hvernig Aviaja kom í húsið.
HÚS FEÐRA MINNA I | 41
42 | HÚS FEÐRA MINNA I