
4 minute read
Kúba - eins og að ferðast aftur í tímann
Havana, Kúba Ljósm.: Margrét Lilja
Að ferðast til Kúbu er smá eins og að ferðast aftur í tímann. Þar er að finna mikið af gömlum fallegum byggingum og maður sér nánast bara eldgamla fornbíla á götunum. Það er ekki annað hægt en að verða strax ástfangin af landinu, menningin er svo lifandi, litrík og skemmtileg og fólkið er svo hlýlegt og allir vilja hjálpa.
Internet er takmarkað í Kúbu og ekki allir sem hafa efni á þeim munaði. Fólk er ekki með internet heima hjá sér og til þess að nota internet þarf að kaupa sérstök inneignarkort með interneti sem dugar aðeins í takmarkaðan tíma og nota þau svo á sér til gerðum „símasvæðum“, en það eru garðar sem eru merktir sem símasvæði og aðeins þar næst netsamband með inneignarkortunum. Vegna þessa þá upplifði maður það að sjá hvað heimamenn lifa meira í núinu. Þau hafa ekki jafn mikið af afþreyingu í símunum og tölvunum eins og tíðkast mikið í vesturlöndunum. Fólk sat í ruggustólum fyrir utan heimili sín og fylgdist með mannlífinu, eldri karlar sátu úti að spila Dominoes, unglingarnir hópuðust saman á götuhornum og spiluðu tónlist úr „boombox“ sem þau héldu upp á öxlinni á sér, krakkarnir höfðu engan leikvöll eða fótboltavöll og voru bara að leika sér með bolta á malarvegunum. Þó að sumir hefðu kannski ekki mikið á milli handanna þá sá maður hvað þau voru hamingjusöm og nægjusöm.
Á ferðalögum mínum hef ég alltaf verið svolítið fiðrildi og plana vanalega ekkert mikið fram í tímann, ég kaupi t.d. alltaf bara miðann út og sé svo til hvenær ég kem heim, ég er aldrei búin að plana alla ferðina mína og veit sjaldnast hvaða áfangastaður eða land sé næst. Þessi ferðamáti reyndist mér frekar erfiður í Kúbu þar sem maður þarf að vera frekar undirbúinn þegar maður kemur þangað… sem ég var ekki. En það endaði þó allt vel og gerði góða ferðasögu.

Karlar að spila Dominoes, Kúba Ljósm.: Margrét Lilja


Það sem ég hefði viljað vita áður en ég fór til Kúbu innifelur aðallega það að vera búin að gera ráð fyrir að vera ekki með neitt internet þegar maður lendir og því vera búin að undirbúa mig í samræmi við það.
En hérna koma nokkur góð ráð…
• Hlaða niður „offline“ korti af landinu. Það er bæði hægt í Google Maps en það er líka til app sem heitir Maps.me og þar er einnig hægt að hlaða niður „offline“ korti. • Vera búinn að vista inn á „offline“ kortið heimilisfangið á stöðunum sem maður er að gista á. • Vera með útprentun eða skjáskot af öllum bókunum og gögnum sem maður gæti þurft að hafa. • Vera búinn að bóka gistingu fyrstu næturnar (ég var sem betur fer búin að því). • Vera búinn að kynna sér hvar og hvernig maður finnur internet inneignarkort og hvernig þau virka. • Vera búinn að kynna sér hvað það er sem maður vill skoða á stöðunum sem maður mun fara á og skrifa það niður svo maður þurfi ekki að eyða internetkortinu í það.
Það sem ég gerði, og mæli mikið með að gera er að gista heima hjá heimafólki í svo kölluðu „casa particular“. Það gerir upplifunina svo einstaka og maður kynnist menningu landsins mun betur.
Havana, Kúba Ljósm.: Margrét Lilja
Staðir sem ég mæli með að skoða á Kúbu: Havana
Höfuðborg Kúbu, ótrúlega litrík og lifandi borg. Í Havana mæli ég með að hafa ekkert eitthvað of mikið planað hvað maður ætlar að skoða heldur bara rölta um og leyfa ferðinni að ráða, maður gæti eytt endalausu dögunum í að rölta um götur borgarinnar án þess að leiðast.
Vinales, Kúba Ljósm.: Margrét Lilja
Vinales
Lítið sveitaþorp í vesturhluta Kúbu. Þar er lítið um bílaumferð en maður sér mjög mikið af fólki á hestbaki og mikið um að fólk noti kýr með kerrur í eftirdragi til að ferja hluti á milli. Í Kúbu er mikið um tóbaks- og vindlagerð og er sérstaklega mikið um það í Vinales, en ég mæli með að fara á „tobacco farm“ og skoða hvernig ferlið fer fram. Einnig rækta þau mikið kaffi og mér fannst einnig mjög fróðlegt að sjá hvernig það fór fram. Ég mæli einnig með að fara í hestaferð um Vinales Valley, ótrúlega skemmtileg upplifun og falleg náttúra.
Trinidad
Litríkur og fallegur lítill bær í vesturhluta Kúbu. Ég mæli með að rölta um bæinn og skoða öll litríku húsin, skoða kirkjuna og fara upp í turninn – þar er ótrúlega fallegt 360° útsýni yfir allan bæinn. Í nálægð við bæinn er svo að finna eina af fallegustu ströndunum á suðurströnd Kúbu, en hún heitir Playa Ancon. Einnig er mikið af fallegri náttúru í kringum Trinidad.
Ég var í tvær vikur á Kúbu, en ég mæli með að vera a.m.k. í tíu daga.
Kúba er magnað land sem hefur upp á svo mikið að bjóða.
Texti: Margrét Lilja Stefánsdóttir