
2 minute read
Viðtal - Hugrún Rúnarsdóttir
VIÐTAL
Hvað heitir þú?
Hugrún Rúnarsdóttir.
Hvað ert þú gömul?
27 ára á þessu ári.
Hugrún Rúnarsdóttir
Hvar og hvaða nám stundaðir þú?
Fyrst kláraði ég náttúrufræðibraut frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, síðan lá leið mín í grafíska miðlun sem ég kláraði, ég sleppti þó sveinsprófinu og fór beint í Vefskólann þar sem ég útskrifaðist úr vefþróun.
Mælir þú með náminu sem þú ert búin að læra?
Já, 100%. Ég er mjög ánægð að hafa klárað grafíska miðlun og farið síðan í Vefskólann. Það sem ég lærði í grafískri miðlun kom sér síðan mjög vel í Vefskólanum. Bæði hönnunar grunnurinn, forritin sem við notuðum og að vera búin að læra grunninn í HTML og CSS.
Hvernig finnst þér þessi tvö nám spila saman?
Mjög vel, grafísk miðlun er frábær grunnur fyrir Vefskólann og sem stafrænn hönnuður hefur það oft komið sér vel að hafa lært prenthönnun líka.
Hvað fannst þér skemmtilegast við námið?
Hvað það er stór hlutur af því verklegur og síðan samfélagið sem myndast. Það er æðislegt að vera inn í bekk sem verður svona samheldinn.
Hvað fannst þér mest krefjandi við námið?
Í minningunni er það útskriftarsýningin og þá undirbúningurinn að henni, hún var krefjandi en líka rosalega skemmtileg!
Hvaða möguleika fannst þér námið opna fyrir þér?
Grafísk miðlun opnaði fyrir mér möguleikana á að fara t.d. í Listaháskólann sem var upprunalega planið mitt með að fara í grafíska miðlun. En síðan frétti ég af Vefskólanum og lærði smá í forritun í náminu mínu í grafískri miðlun og þá fannst mér það lang mest spennandi. En annars hefði ég auðvitað líka getað farið að vinna sem prentsmiður og ef ég hefði gert það hefði ég að öllum líkindum reynt að fá vinnu við að setja upp tímarit eða komast inn á auglýsingastofu.
Hvað varðar Vefskólann þá opnaði það fyrir mér hugbúnaðargeirann og vefstofur. Ásamt því að geta farið í áframhaldandi nám í hönnun, forritun eða verkefnastjórnun svo eitthvað sé nefnt.
Hvar starfar þú og við hvað?
Í dag starfa ég hjá Aranja sem er hugbúnaðarhús. Þar starfa ég sem Digital Designer, eða stafrænn hönnuður.
Hver eru þín helstu verkefni í vinnunni?
Að hanna og skipuleggja uppsetningu á öppum, vefsíðum og hugbúnaði.
Hvað finnst þér skemmtilegast við vinnuna þína?
Að fá að hanna flotta vöru með skemmtilegu „contenti“ í góðu flæði, það er lang skemmtilegasta sem ég geri.
Hvað finnst þér mest krefjandi við vinnuna þína?
Það getur verið mjög krefjandi að þurfa að vera „creative“ alla daga alltaf. Það getur farið rosalega eftir hvernig dagsformið manns er, hvernig það gengur. Það truflar mig stundum, að geta ekki „búið til“ endalaust.