Grafarvogsblaðið 4.tbl 2013

Page 10

10

GV

Fréttir Katrín Jakobsdóttir er í 1. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík norður:

Fjölbreytni er lykilatriði - Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna í yfirheyrslu „Við höfum alltaf talað um „eitthvað annað“ í umræðum um atvinnumál. Það þýðir að fólk fái að njóta hugmynda sinna og hæfileika, frekar en að stjórnvöld einblíni á risastórar lausnir sem hafa óafturkræf áhrif á umhverfið og vond áhrif á efnahagslífið,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og frambjóðandi í fyrsta sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Katrín gefur sér tíma úr kosningabaráttunni til að setjast niður með blaðamanni. Hún kemur sér fyrir, róleg og örugg í fasi. Hún viðurkennir að dagskráin sé strembin. „Ég er eðli málsins samkvæmt á stöðugum þeytingi,“ segir hún. Það eru margir fundir, sjónvarpskappræður að ógleymdum skyldunum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sem hún hefur stýrt undanfarin rúm fjögur ár. „Ætluðum við bara að tala um mig? Átti ekki að ræða málefnin,“ segir Katrín brosandi. - Við vorum að tala um atvinnulífið, segir blaðamaður. Fólkið er atvinnulífið „Fólkið í landinu er auðvitað atvinnulífið,“ segir Katrín. „Það er svo mikilvægt að hafa fjölbreytni. Við getum ekki einblínt á risalausnir eða álver sem öllu eiga að bjarga. Langflest fyrirtæki eru lítil og meðalstór. Þetta skiptir máli. Á þessu kjörtímabili höfum við athugað vel hinar skapandi greinar. Við létum í fyrsta sinn kortleggja umfang þeirra, og veltan í listgreinum, hönnum og fleiri sýnir okkur hvað hinar skapandi greinar skipta okkur miklu máli. Ekki aðeins dags daglega, þar sem við njótum afrakstursins í öllu okkar daglega lífi, heldur líka í efnahagslegu tilliti. Þetta er á við álframleiðsluna í landinu. Er umhverfisvænt og byggir á hugviti og sköpun. Þetta er atvinnuvegur sem veltir hundruðum milljarða króna á hverju ári. Sama má segja um þekkingariðnaðinn, nýsköpun og rannsóknir sem hefur verið gerður að forgangsverkefni á þessu kjörtímabili.“ Blaðamaður kinkar kolli og spyr um áherslurnar hjá Vinstri grænum fyrir kosningarnar. Áherslan á kynjajafnrétti „Auðvitað er áherslan á fólkið,“ segir Katrín. „Við leggjum megináherslu á jafnrétti kynjanna, jöfnuð í samfélaginu og jafnrétti kynslóðanna. Þetta endurspeglast í verkum okkar og stefnu,“ segir hún. „Við sjáum þetta til dæmis í einu af okkar mikilvægustu áherslumálum sem er að stytta vinnuvikuna. Fólk verður að geta lifað af laununum sínum, en líka notið lífsins með sínum nánustu. Við höfum lagt hamrað á þessu,“ segir Katrín. Hún rifjar upp stöðuna sem var uppi þegar Vinstri græn fóru í ríkisstjórn. Réttlát skipting

„Aðstæður í samfélaginu eftir hrun hafa kallað á að við höfum öll orðið að leggjast á eitt. Það verður ekki litið framhjá því að við tókum við ríkissjóði í hundruð milljarða króna mínus en ef slíkur halli er til langframa þýðir það yfirþyrmandi vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Nú erum við að komast upp á núllið. Það blasti við atvinnuleysi og verðbólga. Það hefur tekist að halda hvoru tveggja í skefjum. Auðvitað hefur þetta verið varnarbarátta og við erum fyrst núna að komast af stað með okkur raunverulegu baráttumál, að byggja hér upp réttlátt samfélag þar sem lífsgæðum er skipt með réttlátum og jöfnum hætti. Það er mikið verk óunnið enn. Ég vil ekki heldur eigna okkur Vinstri grænum einum þennan mikilvæga árangur. Þetta er hins vegar allt að koma og það sem mest er um vert er að okkur hefði ekki tekist þetta nema vegna þess að við gerðum þetta saman. Og nú þurfum við að halda áfram,“ segir Katrín. Hún heldur áfram og segist vilja ræða skatta. „Það sem gert hefur verið af ríkisstjórninni og í þinginu skiptir auðvitað máli. Við höfum umbreytt skattkerfinu í þágu þeirra sem minnst hafa. Þeir sem lægstar hafa tekjurnar bera hlutfallslega minni byrðar en þeir sem hafa hæstar tekjur. Ég hef sagt að skattprósentan sem slík sé ekki heilög. En það er grundvallarmál að við höldum réttlátu skattkerfi. Þetta er einfaldlega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur öll. Skattarnir fjármagna velferðarþjónustuna. Það er mikilvægt við getum öll notið þessarar þjónustu. Það var alls ekkert sjálfgefið þegar við tókum við að kreppan lenti ekki af mestum þunga á þeim fátækustu.“ Velferðarmálin í fyrsta sæti - Hvað er framundan? „Við leggjum mikla áherslu á skólamál, heilbrigðismál og velferðarmálin í víðasta skilningi. Við þurfum að tryggja að skólarnir okkar séu vel fjármagnaðir. Ég hef sjálf lagt fram frumvarp um að hluta námslána verði breytt í styrk. Síðan höfum við sett á oddinn að efla heilsugæsluna. Hún á að vera fyrsti viðkomustaður okkar í heilbrigðiskerfinu. Það er mjög mikilvægt, hvort sem við búum hérna í borginni eða úti á landi, að við eigum sem greiðastan aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu, Við leggjum líka áherslu á að þjónusta sálfræðinga verði hluti af heilbrigðiskerfinu og tannlækningar líka,“ segir Katrín. Brýnast að bæta kjörin Hún bætir við: „Á ég að tala um fæðingarorlofið?“ Blaðamaður jánkar. „Við ætlum að styrkja það og bæta. Við viljum hækka tekjuþakið og gera fleirum kleift að taka fæðingarorlof. Við erum þegar búin að samþykkja lög um að lengja fæðingarorlofið

en við þurfum enn að gera betur. Þetta er svo mikilvægur tími og það skiptir máli fyrir okkur sem manneskjur að við tökum höndum saman sem samfélag og gerum hverju öðru mögulegt að verja þessum mikilvæga tíma með börnunum okkar. En auðvitað er eitt allra brýnasta verkefnið að bæta kjörin,“ segir Katrín. - Nú koma kannanir sem sýna að það er enn umtalsverður munur á launum karla og kvenna. Nýjasta könnun sýnir 123 þúsund króna launamun á mánuði hjá fullvinnandi fólki. Hvað ætlið þið að gera í þessum efnum? Jafnréttismál eru fyrir stráka og stelpur „Við leggjum sérstaka áherslu á að mikilvægi fólks sem starfar í heilbrigðis-, menntaog velferðarkerfinu verði metið til launa. Auðvitað eru allir þakklátir þessu fólki sem leggur mikið á sig fyrir okkur hin á hverjum einasta degi. Við sýnum það í viðmóti okkar, en það þarf líka að sjást í launaumslaginu,“ segir Katrín og bætir því við að kynbundinn launamunur sé ólíðandi, „Sem betur fer, þá hefur þessi tiltekni munur minnkað aðeins eftir hrun. En við þurfum líka að gera betur og munum gera það, eins og ég nefndi áðan. Við skulum líka hafa í huga að jafnréttismál eru ekkert síður fyrir strákana en stelpurnar.“ Síminn hringir. Katrín lítur á símann. „Þetta má bíða í smá stund,“ segir hún og brosir og segir að nú verði umhverfismál á dagskrá. Grettistaki lyft í umhverfismálum „Við skulum ekki gleyma því,“ segir hún, „að við gerðum mikilvægar breytingar á skipan ráðuneyta. Umhverfisráðuneytið heitir nú umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Þetta er liður í þeirri mikilvægu hugsun að öll auðlindanýting verður að taka mið af hagsmunum umhverfisins og hagsmunum almennings. Við erum að taka ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir. Þær verða líka að fá að njóta vafans við alla ákvarðanatöku. Við höfum haft þessa áherslu allt kjörtímabilið, enda eru umhverfismálin ein af meginstoðum okkar stefnu. Ég get nefnt rammaáætlunina sem var mikilvægur áfangi og náttúruverndarlögin sem við náðum í gegn þrátt fyrir mikla andstöðu. Þar var lögfest varúðarreglan í íslenskum umhverfisrétti sem er risaskref í umhverfismálum. Við höfum staðið fyrir friðlýsingum. Ég get nefnt Dimmuborgir og Hverfjall og friðlandið í Þjórsárverum hefur verið stækkað. Þetta eru gríðarlega mikilvægir áfangar. Við höfum gert verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxársvæðið og við getum litið okkur aðeins nær, við sem búum hérna í borginni. Við höfum lagt áherslu á almenningssamgöngur og fellt niður tolla af reiðhjólum. Allt skiptir þetta máli.“ Alvöru umhverfisráðherrar úr VG

Katrín Jakobsdóttir er formaður Vinstri grænna og skipar fyrsta sæti á lista flokksins í Reykjavík norður. Síminn hringir aftur. „Ég verð að taka þetta,“ segir Katrín. Það er í mörg horn að líta fyrir flokksformann í miðri kosningabaráttu, sem líka stýrir stóru ráðuneyti. Blaðamaður fær sér kaffi á meðan, en skömmu síðar snýr Katrín aftur. Það sést greinilega á henni að brýnt mál hefur verið leyst. Hún sest niður að nýju. „Umhverfisráðherrar VG hafa að mínu mati verið alvöru umhverfisráðherrar.“ segir hún alvarleg á svip. „Það skiptir máli fyrir okkur öll og líka langt inn í framtíðina hversu góðum árangri við höfum náð í umhverfismálunum. Það sýnir sig alls staðar að það skiptir máli að VG sé við stjórn,“ bætir hún við. Enn hringir síminn. Katrín lýkur símtalinu fljótt og vel, en það er alveg ljóst að fleiri verkefni bíða. En blaðamann langar að vita hvernig gangi í kosningabaráttunni. Barnafólk í brennidepli „Mér finnst hún ganga vel. Það er gaman að fara um og hitta fólkið og heyra í því hljóðið. Ég finn líka hvert sem ég kem, að það eru mörg mál sem brenna á fólki. Auðvitað hugsa margir um kjörin og skuldirnar sínar, en sem betur fer sjá fleiri og fleiri til lands í þeim efnum. En ég heyri líka á fólki að það er fjölmargt annað sem skiptir máli. Við erum ánægð með okkar áherslur, það er enginn vafi á því.

Við höfum rætt um 50-60 milljarða króna svigrúm á næsta kjörtímabili til þess að bæta kjörin. Þar erum við líka að tala um vaxtabætur og barnabætur. Og við skulum alls ekki gleyma því hversu mikilvægt það er að gæta hagsmuna þeirra sem minnst hafa. Við leggjum ríka áherslu á barnafólk, en ekki síður kjör og aðbúnað aldraðra og öryrkja.“ Engar kosningabrellur Katrín bætir við „ Það getur verið erfitt að sætta sig við það að góðir hlutir gerast hægt. Það er auðvitað auðvelt að stíga fram fyrir kosningar og lofa gulli og grænum skógum, bjóða fram risavaxnar brellur sem lausn á öllum vanda, án þess að segja nokkuð nánar um útfærslu eða kostnað,“ segir Katrín og hallar sér fram. - Nú hringir síminn hjá þér stöðugt, þú ert formaður í stjórnmálaflokki, ráðherra og í kosningabaráttu og áttu ekki líka þrjú börn? Svo er alltaf eins og það sé svo létt yfir þér. Hvernig ferðu að? „Þetta getur auðvitað verið mikið púsluspil,“ segir Katrín. „En þetta hefst allt saman. Ég á góða að, bæði heima og í pólitíkinni,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Ísland á nýjum tímamótum, nú ræður þú stefnunni! Nú er komið að okkur kjósendum landsins að gefa tóninn fyrir næstu 4 ár. Þau 16 þúsund sem ganga til kosninga í fyrsta sinn standa eflaust frammi fyrir þeim vanda að velja á milli framboða en það eru mun fleiri kjósendur sem eru í sömu sporum og þurfa að spyrja sig: Hvað á ég að kjósa í komandi kosningum? Hvernig get ég nýtt mitt atkvæði á ábyrgan hátt sem hefur þau áhrif að færa stjórn landsins í hendurnar á hæfu, ábyrgðaríku, heiðarlegu fólki. Þannig að velferð þjóðarinnar og hagsæld verði vaxandi í komandi framtíð fyrir þjóðina alla? Framboðslistar hafa aldrei verið svona margir. Það eitt segir okkur mikið um mat og viðhorf á störfum þingsins. Það lýsir einnig í raun þeim áhyggjum og vantrausti sem hefur skapast á milli þings og þjóðar. Því er mikilvægt að við, hinir almennu kjósendur, gefum okkur góðan tíma til að kynna okkur stefnumál og útfærslur framboðanna en einnig þurfum við að skoða hvaða fólk stendur á bak við þau. Nú sem aldrei fyrr verðum við að taka ábyrgð á atkvæði okkar. Það er ekki nægilegt fyrir kandídata framboðanna að beita kjaftaganginum einum saman og skella fram glæstum loforðum ef þau eru ekki útfærð á sannfærandi og skiljanlegan hátt, sett tímamörk og verkáætlun uppgefin. Það er lágmarks krafa að framboðin séu búin að legga þetta upp vel útfært, annars eru tilboðin ekkert annað en lottó fyrir okkur kjósendur. Það þekkjum við allt of vel í gegnum tíðina. Nú er nóg komið af slíku.

Við þurfum að spyrja okkur: Hvaða reynslu höfum við af stöfum einstakra alþingismanna og flokka þeirra? Hvaða einstaklingar eða flokkar samræmast okkar hugmyndafræði, um gott og gefandi samfélag? Hver er framtíðarstefna flokkanna, ekki bara til næstu 4 ára heldur til framtíðar litið? Reynslan hefur sýnt okkur, því miður, að alltof oft taka fulltrúar meirihlutans upp einskonar alræðisvald sem lúta aðeins þeim reglum sem þau sjálf ákveða. Oft án vitundar þjóðarinnar. Einnig þykir það ekki neitt tiltökumál að brjóta öll kosningaloforð. Kjósendur hafa svo oft verið leiddir eins og lömb til slátrunar með gylliboðum um velsæld og velferð af brosmildum orðhákum sem eftir kosningar breytast í blóðþyrsta valdafíkla. Þessu þarf að breyta strax. Þingmenn hafa verið staðnir að verki með að telja sig ekki þurfa að fara að lögum. Við höfum orðið vitni að slíku framferði. Ef lögin henta ekki vitleysunni í stjórnvöldum, þá gefa þeir yfirlýsingar um að fara í kringum lögin til að ná fram vilja sínum! Er það viðhorf í lagi? Þingmenn bera mikla ábyrgð og þurfa að vera öðrum fremri í siðferði og þurfa að vera í fararbroddi í að bera virðingu fyrir þjóðinni og þeim lögum sem í gildi eru. Það er frumskilyrði þess að við séum ekki talin til spilltustu þjóðfélaga þar sem stjórnvöldum er ekkert heilagt. Kjósendur þurfa einnig að fara í gegnum það, hver voru kosningaloforð síðust stjórnar. Hvað var efnt og hvað ekki? Af hverju? Var forgangsröðun rétt hjá ríkisstjórnarflokkunum? Stóð stjórnarandstaðan sig í sínu starfi? Er þörf á

nýjum vinnubrögðum á stjórnarheimilinu? Hvar er skjaldborgin um heimilin? Hvar er gegnsæið í öllum fjármálum ríkisins? Svona má lengi telja. Við höfum heyrt að það sé gríðarlegur fjöldi sem ætlar ekki að kjósa sama flokk og í síðustu kosningum. Þjóðin hefur nú val á fjölmörgum framboðum. Mörg fram-boðin, þ.a.m. nýju framboðin, eru með góða og í sumum tilfellum vel ígrund-aða stefnuskrá og hafa kynnt nýjar áherslur. En standast þær frekari skoð-un? Í hverju felast áherslubreytingarnar? Hverjar eru tillögur framboðanna til að: - Bregðast við skuldavanda heimilanna? Ýmsar útfærslur hafa verið kynntar. En einnig þarf að skoða tekjuþátt og framfærsluþátt heimilanna svo þau geti rétt úr kútnum og hjálpað sér sjálf. - Í málefnum aldraðra og öryrkja? Er hægt að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld? - Í Mennta- og menningarmálum? Eru nýjar áherslur í námstækni og nýjum tækifærum sem miða að því að efla börn og ungmenni enn frekar til að takast á við lífið í framtíðinni? Þá bæði andlega, líkamlega og vitsmunalega. - Í Samgöngumálum? Hvar liggja áherslurnar í samgöngum? Vegagerð flugsamgöngum? Er

staðsetning flugvallarins einkamál höfuðborgarsvæðisins? Getur verið að strandsiglingar geti dregið úr álagi og hættum á vegakerfi landsins? - Í Heilbrigðis og velferðarmálum? Víða erlendis er lögð mun meiri áhersla á forvarnir sem grípa inn í áður en einstaklingur verður mjög sjúkur og þarf á dýru úrræði að halda. Er skynsamlegt að byggja nýjan Landsspítala á þeim stað sem fyrirhugaður er, við þessar aðstæður? Kannski þurfum við að hugsa það mun betur. Forsendur hafa breyst á þeim tíma sem liðinn er frá upphaflegu hugmyndinni. Er mikilvægara að verja fjármagni í að reka spítalana, hækka laun starfs-

El­ísa­bet­Gísla­dótt­ir, formaður Íbúasamtaka Grafarvogs, skrif­ar: manna til að koma í veg fyrir flótta fagfólks eða kaupa nauðsynleg tæki? Það er komin tími til að endurskoða félagsmálin? Fátækt á ekki að eiga sér stað í velferðarríki eins og okkar. Við þurfum aftur á móti að stuðla að því að hjálpa einstaklingum til sjálfshjálpar. Fjármál ríkisins eru að vísu svo falin að þjóðin hefur ekki forsendur til að meta stöðuna í þeim málaflokki svo vel sé. Þannig er gegnsæið í dag.

Þó vita allir að tekjur þurfa að vera meiri en gjöld. Þjóðin þarf að framleiða og flytja út meira en gert er í dag til að standa undir þeim ríkisútgjöldum og þeirri velferð sem við stefnum að. Eigum við að ganga í Evrópusambandið já / nei? Erum við tilbúin að ganga í það? Vitum við hverju við þurfum að fórna? Eigum við kannski á hættu að missa hluta eða allt sjálfstæði okkar í hendur þess? Hafa allar þjóðirnar sem gengið hafa í þetta samband talið það hafa verið gæfuspor? Einhverjir hljóta kostirnir að vera. Við erum þó búin að leggja mikið í viðræður og því væri líklega skynsamlegt að ljúka þeim í stað þess að snúa við á miðri leið frá hálfnuðu verki. Þá vitum við aldrei hvað var í pakkanum. Eru auðlindir þjóðarinnar örugglega í eigu hennar? Landið er og á að vera í eigu þjóðarinnar. Minnug þess að skelfilegustu stríð aldanna hafa verið vegna landvinninga. En sú auðlind sem fellst í mannauði landsins er það sem mestu máli skiptir til að skapa þær aðstæður sem við öll viljum hafa. Hann er vannýttur. Á sama tíma og við þurfum á öllum vinnandi höndum að halda, erum við að missa dýrmætt vinnuafl úr landi. Hverjar eru hugmyndir flokkanna að nýta þessa auðlind? Skapa ný störf með því að blása lífi í atvinnulífið. Valdið verður í höndum þjóðarinnar í nokkrar mínútur í kjörklefanum á meðan við merkjum við þann flokk sem við treystum best. Verum vel undirbúin og veljum af skynsemi þann flokk sem við treystum til að gæta að hagsmunum þjóðarinnar allrar. Elísabet Gísladóttir


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.