Ársskýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-13

Page 1

SKÝRSLA STJÓRNAR KVENNAHREYFINGAR SAMFYLKINGARINNAR 2012 – 2013


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

Efnisyfirlit 1. Ávarp formanns 2. Stjórn Kvennahreyfingarinnar 3. Opnir fundir Kvennahreyfingarinnar a. Ungar Samfylkingarkonur b. Konur og framboð c. Prófkjör og tengslanet kvenna d. Hvað segja formannsefnin um jafnréttismálin 4. Fundir Kvennahreyfingarinnar á landsbyggðinni a. Fundur Kvennahreyfingarinnar á Akureyri b. Fyrirhugaðir fundir Kvennahreyfingarinnar á Ísafirði og Selfossi 5. Námskeiðahald a. Námskeið Kvennahreyfingarinnar og SffR b. Námskeið Kvennahreyfingarinnar og Samfylkingarfélagsins í Kópavogi 6. Ályktanir a. Ályktun stjórnar Kvennahreyfingarinnar um framboð og konur b. Ályktun stjórnar Kvennahreyfingarinnar vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2012 c. Ályktun stjórnar Kvennahreyfingarinnar vegna ákvörðunar velferðarráðherra 2. október 2012 d. Ályktun Kvennahreyfingarinnar um konur til forystu 7. Greinaskrif a. Grein í tilefni 19. Júní b. Grein um Kvennaþing PES og konur á atvinnumarkaði 8. Kvennahreyfing Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ 9. 19. júní ganga 10. Landsfundur Samfylkingarinnar 1. - 3. febrúar 2013 11. Tekið á móti sænskum flokkssystrum 12. Bréf vegna kynbundins launamunar 13. Ársreikningar kvennahreyfingarinnar 14. Ársþing Kvennahreyfingarinnar 2013

2


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

1. Ávarp formanns Kæru Samfylkingarkonur Það hefur verið sönn ánægja að starfa sem formaður Kvennahreyfingarinnar síðastliðið ár. Það ber fyrst og fremst að þakka þeirri frábæru og ötulu stjórn sem kosin var á síðasta kvennaþingi og öllum þeim Samfylkingarfélögum sem hafa tekið þátt í viðburðum á vegum Kvennahreyfingarinnar. Samstarfið bæði innan stjórnar og við flokksfélaga hefur verið bæði gott og ánægjulegt. Mér er það sannur heiður að hafa verið treyst til þess að leiða hreyfinguna og tala fyrir jafnréttismálum. Við settum okkur skýr markmið í byrjun, sem eru að gera Kvennahreyfinguna að vettvangi fyrir konur til þess að hittast, mynda tengsl og styðja hver aðra. Við höldum kvenfrelsi á lofti og veitum flokknum aðhald í jafnréttismálum. Við styðjum konur í flokknum með ýmsum aðgerðum og vekjum athygli á þeirra störfum. Við sýnum að í Samfylkingunni starfar virk kvennahreyfing sem lætur til sín taka og sendum frá okkur ályktanir og greinar um jafnréttismál. Við settum okkur þá stefnu að hafa flesta viðburði Kvennahreyfingarinnar opna báðum kynjum, því mikilvægt er að karlmenn taki þátt í umræðum um jafnréttismál og jafnréttisbaráttunni. Mikill árangur hefur náðst í jafnréttisbaráttunni undir forystu Samfylkingarinnar og fyrsta kvenkynsráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur. Má þar nefna að í fyrsta sinn eru jöfn kynjahlutföll meðal ráðherra í ríkisstjórn, jafnari kynjahlutföll meðal æðstu ráðamanna innan stjórnsýslunnar, búið er að lögbinda 40% hlutfall hvors kyns í stjórnum lífeyrissjóða og fyrirtækja, innleidd hefur verið austurríska leiðin, aðgerðaráætlun gegn mansali og bann við kaupum á vændi. Þá hefur kynjuð fjárlagagerð verið innleidd og jafnlaunastaðall útbúinn til að beita í baráttunni gegn kynbundnum launamun. Þessum áföngum ber að fagna á sama tíma og halda verður baráttunni áfram. Erfitt reynist að uppræta rótgróin viðhorf til kvenna sem annars flokks vinnuafls, sem endurspeglast í stöðuveitingum og kynbundnum launamun, sem hefur áhrif á fjárhag kvenna alla starfstíð og lífeyri. Þá verðum við að horfast í augu við að hér er útbreitt kynbundið ofbeldi gegn konum sem réttarkerfinu mistekst hrapalega að takast á við og ekki hefur framkvæmd laga um austurísku leiðina eða bann við kaup á vændi staðist væntingar. Þá eru viðhorf ungs fólks til kvenna umhugsunarverð sem og hlutgerving kvenna í fjölmiðlum og áhrif klámvæðingarinnar. Ljóst er að hvergi má slaka á í baráttunni fyrir jöfnum rétti og því að konur og karla njóti sömu tækifæra. Það þarf pólitískan vilja og bætta forgangsröðun til þess að berjast gegn því kynjamisrétti sem ríkir í samfélaginu. Við sem erum í Samfylkingunni, Jafnaðarmannaflokki Íslands, trúum á jafnaðarhugsjónina þar sem allir eiga að hafa jöfn tækifæri í lífinu til að þroska hæfileika sína og ná lífsmarkmiðum sínum. Til þess að konur njóti sömu tækifæra og karlar verður að halda baráttunni áfram. Það er á ábyrgð okkar jafnaðarmanna að halda kyndlum jafnréttisbaráttunnar á lofti og hættum ekki fyrr en jafnrétti er náð. Hrafnhildur Ragnarsdóttir formaður Kvennahreyfingarinnar 3


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

2. Stjórn Kvennahreyfingarinnar Á ársþingi Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 13. apríl 2012 var kosin nýr formaður og ný stjórn. Formaður var kosin Hrafnhildur Ragnarsdóttir. Aðalmenn: Heiða Björg Hilmisdóttir, Margrét Lind Ólafsdóttir og Rósa G. Erlingsdóttir. Varamenn: Álfheiður Katrín Jónsdóttir, Dagbjört Gunnarsdóttir, Margrét Óskarsdóttir. Valgerður Bjarnadóttir var fulltrúi þingsflokks í stjórn kvennahreyfingarinnar. Ákveðið var á fyrsta stjórnarfundi að Heiða Björg Hilmisdóttir yrði varaformaður og Dagbjört Gunnarsdóttir ritari. Fyrsti stjórnarfundur var haldinn 23. apríl. Þeirri hefð var haldið að boða ávallt bæði aðalmenn og varamenn. Ákveðið var að nýta vefsvæði til umræðu og hafa fundi eftir þörfum.

3. Opnir fundir Kvennahreyfingarinnar Ungar Samfylkingarkonur Eitt fyrsta verk stjórnar var að boða til fundar með ungum Samfylkingarkonum, sem haldinn var 25. apríl. Markmið fundarins var að auka þátttöku ungra kvenna í Kvennahreyfingunni og eiga gott samtal um jafnréttismál. Það var mjög öflugur fundur, skemmtilegar umræður og langur verkefnalisti sem spratt út frá fundinum sem stjórn Kvennahreyfingarinnar hefur haft að leiðarljósi í sínum verkum. Konur og framboð Kvennahreyfinginn hélt opinn fund um framboð og konur á Hallveigarstíg þann 24. maí undir yfirskriftinni „Framboð fyrir alla, konur og karla?“. Rósa G. Erlingsdóttir hélt fyrirlestur um áhrif prófkjara á konur og kosti og galla opinna og lokaðra prófkjara. Í kjölfarið sendi Kvennahreyfingin frá sér ályktun sem fagnaði því að tillögur að framboðsreglum framkvæmdastjórnar færi eftir tillögum umbótaskýrslunnar um að opnum prófkjörum væri hætt. Enn fremur lögðum við til að eingöngu skráðir og virkir flokksfélagar gætu tekið þátt í flokksvali, en það eru þeir sem hafa greitt árgjald eða verið skráðir í flokkinn í tiltekinn tíma. Fundarstjóri var Hrafnhildur Ragnarsdóttir. Prófkjör og tengslanet kvenna Prófkjör nálguðust og ákvað Kvennahreyfingin því að halda opinn fund um prófkjör og tengslanet kvenna þann 21. september 2012, til að konur gætu hist, deilt reynslu sinni af prófkjörum, myndað tengslanet og veita nýrri konum tækifæri til að leita til þeirra sem hefðu meiri reynslu. Framsögur héldu Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir fyrrum varaborgarfulltrúi, Katrín Júlíusdóttir verðandi fjármálaráðherra og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingkona. Fundarstjóri var Hrafnhildur Ragnarsdóttir.

4


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

Hvað segja formannsefnin um jafnréttismálin Þann 18. janúar 2013 bauð Kvennahreyfingin formannsefnunum Árna Páli Árnasyni og Guðbjarti Hannessyni til fundar á Hótel Holti til að ræða jafnréttismál og sitja fyrir svörum um þennan málaflokk. Mikið fjölmenni var á fundinum og sköpuðust miklar og öflugar umræður um jafnréttismál. Fundarstjóri var Hrafnhildur Ragnarsdóttir.

4. Fundir Kvennahreyfingarinnar á landsbyggðinni Stjórn Kvennahreyfingarinnar leggur mikið upp úr því að styrkja starfið á landsvísu og hvetja konur um allt land til að mynda kvennahreyfingar og efla stuðningsnet sín. Þannig ákvað stjórn Kvennahreyfingarinnar að fara um landið og hitta konur á landsbyggðinni. Ákveðið var að halda fundi á Akureyri, Ísafirði og Selfossi. Eru fundirnir skipulagðir í samstarfi við Samfylkingarkonur á viðkomandi svæði og lögð áhersla á kosningabaráttuna framundan. Er fundarherferðin farin undir slagorðinu Hvaða kosningamál skipta konur máli? Fundur Kvennahreyfingarinnar á Akureyri Þann 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna hélt Kvennahreyfingin opinn fund með konum á Akureyri. Framsögur héldu Hrafnhildur Ragnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Erna Indriðadóttir. Fundarstjóri var Heiða Björg Hilmisdóttir og með lokaorð fór Dagbjört Pálsdóttir. Fyrirhugaðir fundir Kvennahreyfingarinnar á Ísafirði og Selfossi Haldinn verður fundur á Ísafirði 22. mars næstkomandi með sama fyrirkomulagi og á Akureyri. Þá verður að öllum líkindum fundur á Selfossi 5. apríl. Vonumst við eftir að sem flestar konur á Vestfjörðum og fyrir austan sjái sér fært að mæta.

5. Námskeið Kvennahreyfingarinnar Námskeið Kvennahreyfingarinnar í samstarfi við SffR Kvennahreyfingin stóð fyrir námskeiði um konur og stjórnmál frá 1. október til 12. nóvember í samstarfi við Reykjavíkurfélagið SffR. Námskeiðið var haldið einu sinni í viku í sjö vikur. Markmið þess var að auka vitund um mikilvægi stjórnmálaþátttöku kvenna í lýðræðissamfélagi og þess að raddir kvenna heyrist. Fyrri hlutinn fjallaði um íslenska kvennasögu, stjórnmálaþátttöku kvenna og áhrif þeirra á samfélagið. Síðari hlutinn fjallaði um þróun jafnréttislöggjafarinnar og þátttöku kvenna á alþjóðavettvangi. Námskeiðið var öllum opið gegn hóflegu gjaldi.

5


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

Námskeið Samfylkingarfélagsins í Kópavogi í samstarfi við Kvennahreyfinguna Samfylkingarfélagið í Kópavogi í samstarfi við Kvennahreyfinguna stendur nú fyrir námskeiði til að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í starfi félagsins, auk þess sem námskeiðinu er ætlað að styrkja konur í flokksstarfinu og efla tengsl þeirra kvenna sem starfa í Samfylkingunni á höfuðborgarsvæðinu. Námskeiðið er haldið 6., 13. og 20. mars frá 18.00-21.00. Lögð er áhersla á að blanda saman fyrirlestrum og umræðum og efla tengsl þátttakenda. Fyrstu tvö skiptin eru haldnir tveir aðskildir fyrirlestrar með umræðum, en þriðja skiptið er nokkurs konar vinnusmiðja þar sem þátttakendur fá fræðslu og þjálfun í bland.

6. Ályktanir Ályktun Kvennahreyfingarinnar um prófkjör og framboðsaðferðir Kvennahreyfing Samfylkingarinnar stóð fyrir opnum fundi 24. maí 2012 um prófkjör og framboðsaðferðir undir yfirskriftinni Framboð fyrir alla, konur og karla? Á fundinum var dregin upp mynd af stöðu kvenna í norrænum stjórnmálum og fjallað um helstu skýringar og kenningar um stjórnmálaþátttöku kvenna. Leitað var skýringa á því hvers vegna íslenskar konur voru lengur að brjóta sér leið í gegnum hið svokallaða glerþak og konur á hinum Norðurlöndunum. Í því samhengi var litið til framboðsaðferða en sérstaða Íslands felst meðal annars í því að hér hefur frá því snemma á 8. áratugnum verið algengt að styðjast við prófkjör við val á framboðslista. Í kjölfar þessa fundar ályktaði stjórn Kvennahreyfingarinnar vegna tillögu að nýjum reglum um aðferðir við val á framboðslista flokksins sem lagðar voru fyrir flokksstjórnarfund 8. og 9. júní 2012. Stjórn Kvennahreyfingarinnar fagnar að í fyrirliggjandi tillögum framkvæmdarstjórnar Samfylkingarinnar sé farið að tilmælum umbótanefndar um að opnun prófkjörum verði ekki framhaldið við val á framboðslista. Í því augnamiði að koma í veg fyrir smölun fyrir flokksval telur stjórn Kvennahreyfingarinnar brýnt að tryggja að einungis skráðir og virkir flokksmenn geti komið að vali á framboðslista - skráður og virkur félagsmaður teljist sá sem greitt hafi árgjald til síns félags og/eða sá sem skráður hefur verið í flokkinn í tiltekinn tíma fyrir flokksval. Stjórnin gerir eftirfarandi breytingatillögur við tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Ný grein 4.2: Kosningarétt í flokksvali eða á kjörfundi hafa allir félagsmenn í Samfylkingunni með lögheimili í viðkomandi kjördæmi eða sveitarfélagi, sem náð hafa 16 ára aldri á valdegi og hafa skráð sig í viðeigandi flokksfélag að minnsta kosti 3 mánuðum fyrir flokksval/ kjörfund. Viðbót við grein 5.5 Efstu sæti lista: Tryggt skal að jafnmargar konur og karlar leiði lista flokksins í kjördæmunum sex. 6


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

Ályktun stjórnar Kvennahreyfingarinnar vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2012 Þann 20. júní sendi Kvennahreyfingin frá sér ályktun vegna brots á jafnréttislögunum í stöðu skrifstofustjóra í forsætisráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar harmaði Kvennahreyfingin brotið, en lýsti ánægju með að Jóhanna Sigurðardóttir baðst afsökunar og virti úrskurð kærunefndar jafnréttismála. Samfylkingin hefur verið í fararbroddi í jafnréttismálum um árabil. Flokkurinn hefur kennt sig við kvenfrelsi og femíniskar áherslur sem frá upphafi hafa verið undirstaða stefnumála hans. Pólitísk ábyrgð okkar jafnaðarmanna gagnvart málaflokknum og jafnréttislögunum er mikil. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra virti úrskurð kærunefndar jafnréttismála frá mars 2011. Hún hefur leitað sátta og beðist velvirðingar á þeim miska sem málið kann að hafa valdið. Nýfallinn dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sem lagði til grundvallar niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála frá mars 2011 um að forsætisráðherra hefði gerst brotleg við lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 10/2008 er alvarlegur fyrir stjórnsýslu forsætisráðuneytisins. Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar ályktar að draga megi þann lærdóm af málinu að málsmeðferð ráðningarferilsins hafi ekki verið nægilega vönduð. Kvennahreyfingin telur brýnt að ráðningar falli að lögum og tryggt verði að komið sé í veg fyrir ósamræmi við gerð hæfnismats umsækjanda í stöður innan stjórnsýslunnar. Stjórnin fagnar að með niðurstöðu Héraðsdóms hafi kærunefnd jafnréttismála fengið þann sess sem breytingar á jafnréttislögum árið 2008 ætluðu henni. Þær breytingar voru gerðar undir forystu Samfylkingarinnar og Jóhönnu Sigurðardóttur í jafnréttismálum. Kvennahreyfing Samfylkingarinnar telur áhuga sjálfstæðiskvenna í Reykjavík á jafnréttismálum eftirtektarverðan og hvetur Sjálfstæðisflokkinn til að setja jafnréttismál í öndvegi. Með árangur fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar á sviði jafnréttismála í huga göngum við stoltar til verkefna framtíðarinnar. Minna má á að í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa jafnréttismál verið eitt af helstu baráttumálum meirihlutans á Alþingi. Sem dæmi hafa fjárlög og efnahagsáætlanir tekið mið af ólíkri stöðu kvenna og karla, innleidd var aðgerðaáætlun gegn mansali, þarfir kvenna voru settar í öndvegi í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, kaup á vændi voru bönnuð, sett voru bindandi ákvæði í lög um hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða og fram er komið frumvarp um jafnlaunastaðal í baráttunni gegn kynbundnum launamun.

Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar harmar ákvörðun velferðarráðherra Kvennahreyfingin sendi frá sér ályktun 2. október 2012 sem harmaði ákvörðun Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um að hækka laun forstjóra Landsspítalans á sama tíma og spítalinn og starfsfólk þess hefur þurft að þola niðurskurð og uppsagnir. Kvennahreyfing Samfylkingarinnar lýsir yfir óánægju sinni með þá ákvörðun Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, að hækka laun forstjóra Landspítalands um 450 þúsund krónur á mánuði. Kvennahreyfingin minnir á að aðrar starfsstéttir 7


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013 sem á spítalanum starfa hafa þurft að þola kjaraskerðingu, bæði í launum og með skertu starfshlutfalli. Þá má ekki gleyma þeim gríðarlega fjölda uppsagna sem átt hafa sér stað innan spítalans, en um 400 manns hefur verið sagt upp á síðustu árum, að stórum hluta konum í láglaunastörfum. Á meðan launakjör starfsfólks Landsspítalans hafa ekki verið bætt síðan almenn kjaraskerðing varð er ótækt að ráðherra geti einhliða og án aðkomu kjararáðs hækkað laun forstjórans um mörg hundruð þúsund krónur á mánuði. Þó Kvennahreyfingin styðji heilshugar hærri laun innan hins opinbera og að hið opinbera sé samkeppnishæft um gott starfsfólk er ákvörðun ráðherra ekki réttlætanleg á meðan öðru „ómissandi“ starfsfólki eru enn boðin skert kjör. Eitt helsta baráttumál Samfylkingarinnar er aukinn tekjujöfnuður og samfélagssátt. Það er ekki í samræmi við stefnu flokksins að standa fyrir ofurlaunum og auka á ójöfnuð. Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingar harmar þessa ákvörðun ráðherra og hvetur til þess að í stað þess að hækka eingöngu laun við þann sem hefur hæstu launin, að skoða launauppbyggingu innan heilbrigðiskerfisins og víðar hjá hinu opinbera heildrænt. Bæta þarf kjör annars starfsfólks og setja þar starfsfólk sem tekið hefur á sig kjaraskerðingu í forgang.

Treystum konum til forystu - Ályktun stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar Þann 6. nóvember 2012 sendi stjórn Kvennahreyfingarinnar frá sér ályktun og hvatti til þess að konum yrði treyst til forystu ekki síður en körlum og að við tryggðum jöfn kynjahlutföll í forystusveitinni í prófkjörum. Samfylkingin er og á að vera til framsækið forystuafl í jafnréttispólitík. Bæði þar sem kjörnir fulltrúar flokksins koma að málum og í ekki síst í eigin ranni. Samfylkingin verður að vera trú sinni stefnu um jafnrétti karla og kvenna og vera óhrædd við að brjóta niður kynjamúra og breyta þannig samfélaginu til hins betra. Það hefur Samfylkingin gert á liðnum árum og því á hún að halda áfram. Í þrígang höfum við í Samfylkingunni valið okkur konu sem formann og fyrstu konurnar í embættum forsætisráðherra, fjármálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra koma úr okkar röðum. Í ríkisstjórnum Jóhönnu Sigurðardóttur var þeim sögulega áfanga einnig náð að konur urðu í fyrsta sinn jafnmargar og fleiri en karlar í ríkisstjórn á Íslandi. Undir forystu Samfylkingarinnar hefur ríkisstjórnin tryggt jafnan hlut karla og kvenna meðal ráðuneytisstjóra og í nefndarstörfum á vegum Stjórnarráðsins og lög hafa nú verið sett sem tryggja a.m.k. 40% þátttöku hvors kyns í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða. Til þessa þurfti styrk og þor Samfylkingarinnar. Nú hefur Samfylkingin stigið enn eitt skref í átt til aukinna áhrifa kvenna og samþykkt fléttu- eða paralista í öllum kjördæmum. Mikilvægt er að tryggja að konur og karlar skipi forystusæti á framboðlistum til jafns og karlar. Fyrir kosningarnar 2009 leiddi kona aðeins einn lista af sex. Það er í okkar höndum að láta það ekki gerast aftur. Það á ekki að vera þannig í nútímalegum jafnaðarmannaflokki að karlar leiði og konur fylgi. Nú er tækifæri fyrir alla flokksfélaga í Samfylkingunni að sýna í verki að þeir vilji að flokkurinn verði áfram brjóstvörn og brimbrjótur femínismans á Íslandi. Ekki bara í orði, heldur einnig á borði. Stjórn kvennahreyfingar Samfylkingarinnar skorar á alla sanna femínista að styðja konur til forystu. Breytum samfélaginu og byrjum hjá okkur sjálfum. 8


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

7. Greinaskrif Grein stjórnar Kvennahreyfingarinnar í tilefni 19. júní 2012 Stjórn Kvennahreyfingarinnar skrifaði saman grein í tilefni þess að þennan dag fyrir 97 árum fengu íslenskar konur fyrst kosningarétt. Í dag er baráttudagur kvenna. 19. júní árið 1915 hlutu íslenskar konur fyrst kosningarétt, með aldursákvæði, en 5 árum síðar var lögfest fullt og skilyrðislaust jafnræði með konum og körlum um kosningarétt og kjörgengi. Ingibjörg H. Bjarnason var fyrsta konan kosin á þing árið 1922 af sérstökum kvennalista. Konur voru framan af ekki mjög áberandi í stjórnmálum. Frá kjöri Ingibjargar og fram til 1971 áttu að jafnaði aðeins ein eða tvær konur sæti á þingi og á tveimur kjörtímabilum átti engin kona sæti á þingi. Framboð Vigdísar og sérstök kvennaframboð í upphafi 9. áratugarins breyttu ásýnd íslenskra stjórnmála og ekki var aftur snúið, konur sýndu að þær vildu, þorðu og gátu. Konur hafa nú setið á þingi í 90 ár en það var þó ekki fyrr en í síðustu alþingiskosningum 2009 sem konur urðu í fyrsta skipti yfir 40% þingmanna og sá sögulegi viðburður átti sér stað að kona, Jóhanna Sigurðardóttir, varð forsætisráðherra. Hún og ríkisstjórn hennar tóku við eins konar þrotabúi eftir 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir einhverja alvarlegustu stöðu þjóðarbúsins í sögu lýðveldisins hefur á síðustu þremur árum tekist að stýra landinu í átt að aukinni hagsæld, jöfnuði og kynjajafnrétti. Það má því segja að með kjöri fyrstu hreinu vinstri stjórnar lýðveldisins undir forystu jafnaðarmanna að hlutfall kvenna og karla hafi orðið jafnara en nokkru sinni áður við stjórn landsins. Af níu ráðherrum eru fimm konur og einnig í fyrsta sinn er kona fjármálaráðherra. Í stjórnarsáttmálanum frá 2009, sem er einn sá ítarlegasti í sögu íslenska lýðveldisins, kemur skýrt fram sú krafa af hálfu meirihluta kjósenda að leiða til öndvegis ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis. Í þessum sáttmála var einnig kveðið á um að kynjuð hagstjórn yrði höfð að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórn, sem þýðir að fjármálum ríkisins verði hagað þannig að niðurskurður komi ekki verr niður á konum en körlum og að verkefni verði kynjagreind svo ekki fari t.d. eingöngu fjármagn í að skapa hefðbundin karlastörf eða að annað kynið fái fleiri tækifæri á kostnað hins. Meirihluti æðstu ráðamanna stjórnsýslunnar er nú í fyrsta sinn skipaðir konum, af tíu ráðuneytisstjórum eru fimm konur og í fyrsta sinn í sögunni ná konur í ráðum og nefndum á vegum stjórnarráðsins 40% markinu. Þá er búið er að lögbinda 40% hlutfall hvors kyns í stjórnum lífeyrissjóða og fyrirtækja, sem þegar er farið að hafa áhrif á skipan þessarar mikilvægu stofnana og kemur að fullu til framkvæmda á næsta ári. Mikilvægt er að muna að það var núverandi stjórnarmeirihluti sem innleiddi austurísku leiðina, innleiddi aðgerðaráætlun gegn mansali, bannaði kaup á vændi og hefur hert baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi svo um munar. Því ber að fagna að í dag er starfandi sérstök ráðherranefnd um jafnréttismál sem tryggir áherslu ríkisstjórnarinnar á jafnréttismál. Ýmislegt fleira hefur áunnist á þeim stutta tíma sem ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna hefur setið við völd sem ekki verður upptalið hér. Við eigum hinsvegar langt í land með að ná þeim jöfnuði sem við viljum hafa. Bregðast þarf strax við kynbundnum launamuni innan hins opinbera. Við bindum vonir við jafnlaunastaðalinn sem kynntur verður í dag sem er verkfæri til að vinna 9


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013 gegn kynbundnum launamun. Þá mun aðgerðaráætlun stjórnvalda til að taka á kynbundnum launamun hjá hinu opinbera birtast á næstunni. Það er á ábyrgð okkar kjósenda að tryggja að þetta starf haldi áfram. Það er á okkar ábyrgð að hér sé samfélag sem byggi á jöfnuði, réttlæti og jafnrétti en ekki misskiptingu og mismunun. Að auður landsins dreifist jafnt og að við fáum öll sömu tækifæri í lífinu sama hvaðan við komum, hvers kyns við erum eða hver við erum. Við þurfum að hafa þetta í huga í hvert sinn sem við göngum að kjörborðinu og tryggja að bæði kynin eigi sér talsmenn og að ungt fólk alist upp við það að hér sé sjálfsagður hlutur að bæði kynin eigi sér fyrirmyndir á öllum sviðum þjóðlífsins. Konur og karlar þurfa að kjósa konur til jafns við karla. Við konur höfum náð langt í okkar baráttu fyrir kvenfrelsi og kvenréttindum en víða er enn verk að vinna. Sífellt þarf að vera á verði og þess vegna þarf að kjósa rétta fólkið í valdastöður. Það skiptir máli að konur og karlar hafi jafn mikið vægi. Það skiptir máli hverjir stjórna.

Grein í kjölfar þátttöku formanns Kvennahreyfingarinnar á Kvennaþingi “Party of European Socialists (PES)” Þann 27. september fór formaður Kvennahreyfingarinnar, Hrafnhildur Ragnarsdóttir, á Kvennaþing PES í Brussel. Var umræðuefni þingsins þær hindranir sem konur verða fyrir á atvinnumarkaðnum um alla Evrópu. Hrafnhildur skrifaði í kjölfarið grein um þingið og stöðu kvenna á vinnumarkaði. Bitið í krónur kvenna Á kraftmiklu þingi kvenna á vegum PES, sem er flokkur sósíal demókrata á Evrópuþinginu, voru til umræðu þær hindranir sem verða á vegi kvenna á atvinnumarkaðnum. Innan Evrópu eru hindranirnar mismiklar og missýnilegar en alls staðar þær sömu. Konum er mismunað í stöðuveitingum og launum og niðurskurður á opinberri þjónustu kemur verr niður á konum en körlum, þar sem konur bera enn að mestu ábyrgð á börnum og heimilishaldi. Þegar skorið er niður í daggæslu barna bitnar það fremur á konum og þegar störf eru skert og gerð að hlutastörfum eru það oftar störf kvenna. Eftir efnahagshrunið 2008 hafa stjórnvöld þurft að skera niður útgjöld og afla aukinna tekna. Í mörgum tilfellum, einnig á Íslandi, hefur þessi niðurskurður orðið í opinberri þjónustu, þar með talið í grunnþjónustu innan velferðarkerfisins. Það eru fyrst og fremst konur sem starfa við umönnun. Þegar niðurskurður verður í umönnunarþjónustu verða áhrifin á konur tvíþætt. Í fyrsta lagi þá missa margar konur vinnuna eða þurfa að sætta sig við skert starfshlutfall og/eða lægri laun. Í öðru lagi þýðir skert þjónusta við þá sem þurfa á umönnun að halda að konur innan fjölskyldunnar minnka við sig vinnu eða hverfa af vinnumarkaði til þess að sinna ættingjum sínum eða börnum. Það þarf nefnilega alltaf að veita umönnunina, en með þessum aðgerðum stjórnvalda færist hún frá því að vera launuð vinna yfir í ólaunaða vinnu. Þessar aðgerðir skerða þannig fjárhagslegt sjálfstæði kvenna og möguleika til að sinna starfsframa sínum. Ísland sker sig ekki úr að þessu leyti og á allt það sama við hér. Við efnahagshrunið misstu karlar fyrr vinnuna innan einkageirans en áhrifin innan hins opinbera voru lengur að koma fram og misstu konur því vinnuna seinna. Það skýtur þó skökku við að á meðan stjórnvöld fóru í átak við að skapa hefðbundin karlastörf þá voru þau á 10


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013 sama tíma að skera niður hefðbundin kvennastörf, t.d. með fjöldauppsögnum innan heilbrigðisgeirans. Staðalímyndin um mikilvægi atvinnu fyrir karlmenn er því lífseig. Þá eykur niðurskurður innan velferðarkerfisins álag á konur hér eins og annars staðar, sérstaklega þegar skorin er niður þjónusta við börn, aldraða og fatlaða. Því er gjarnan haldið fram að konur ættu að velja sér önnur störf. Þær sem velji umönnunarstörf séu með því að sætta sig við lág laun. Þetta er rangt. Það er ekki hægt að segja að konur velji röng störf. Það eru hefðbundin störf kvenna sem eru rangt metin og menntun kvenna sem er rangt metin. Við verðum að flytja ábyrgðina þangað sem hún á heima, sem er hjá þeim sem taka ákvarðanir og fara með völdin í samfélaginu. Ef konur á Íslandi myndu leggja niður störf myndi samfélagið og grunnstoðir þess hætta að virka. Að meta vinnuframlag kvenna minna en vinnuframlag karla er samfélagsmein sem stjórnvöld og atvinnurekendur þurfa að vinna bug á. Þá hefur því líka verið haldið fram að lausnin felist í því að fá karlmenn til þess að sinna hefðbundnum kvennastörfum og þá hækki launin. En sú hugmynd er í raun bara hugmynd um að sneiða framhjá vandanum. Á meðan við metum störf kvenna jafn lítils og raun ber vitni fáum við mjög fáa karlmenn til þess að sinna þeim. Það hefur ekki og mun ekki takast að laða karlmenn almennt að hefðbundnum kvennastörfum. Við verðum að byrja á réttum enda. Það er, að meta störf kvenna að verðleikum og gera þau aðlaðandi í augum bæði karla og kvenna. Ungar konur á vinnumarkaði Ungum konum reynist oft erfiðara að fá vinnu í Evrópu en ungum mönnum þar sem ungar konur eru taldar síðra vinnuafl vegna ábyrgðar á ungum börnum og heimilishaldi. Þeim er gjarnan boðin síðri störf en ungum mönnum og lægri laun. Atvinnurekendur viðhalda þannig íhaldssömum viðhorfum til kvenna og stjórnvöld styðja þá oft enn frekar með því að bjóða ekki upp á daggæslu og setja skatta og reglugerðir sem hvetja konur til þess að vinna ólaunaða vinnu innan veggja heimilisins. Það er alveg ljóst, og mörg dæmi sýna, að opinber þjónusta til barnafjölskyldna er algert grundvallaratriði svo ungar konur detti ekki út af vinnumarkaðnum og eigi jafnvel ekki afturkvæmt. Því fleiri konur sem eru á vinnumarkaðnum og því hærri laun sem þær fá, því hærri skatta greiða þær og því meiri tekjur fara til ríkisins. Þannig verða til meiri peningar til þess að halda úti barnagæslu og annarri opinberri þjónustu. Það er því þjóðhagslega hagkvæmt að konur fái betri störf og betri laun. Sérmeðferðin Konur hafa verið útilokaðar frá opinberu athafnalífi svo árþúsundum skiptir og eitt stærsta vandamálið við vinnumarkaðinn er hversu honum er yfirgnæfandi stýrt af körlum og karllægum gildum. Með útilokun kvenna hafa orðið til neikvæðar staðalmyndir á konum, fordómar og mismunun sem enn er ýtt undir í almennri þjóðfélagsumræðu og fjölmiðlum. Hér þarf að uppræta gömul viðhorf og koma nýrri hugmyndafræði og gildum að innan vinnumarkaðarins. Fiskurinn rotnar út frá höfðinu, sagði ein kona á PES þinginu, þess vegna þurfum við að byrja frá toppnum. Stjórnvöld þurfa að vera tilbúin til þess að beita sértækum aðgerðum, kynjakvótum og skattaívilnunum til fyrirtækja sem vinna gegn kynjamismunun og öðrum leiðum til þess að leiðrétta stöðu kvenna. Með því er ekki verið að búa til sérmeðferð á konum heldur hið gagnstæða, að hætta sérmeðferð á 11


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013 konum. Að hætta að koma fram við konur eins og annars flokks vinnuafl heldur meta þær til jafns við menn í launum og stöðuúthlutunum.

8. Kvennahreyfing Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ Kvennahreyfing Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ var stofnuð til að styrkja tengslanet kvenna á Suðurnesjum og efla samkennd kvenna um málefni sem tengjast svæðinu. Kvennahreyfingin var stofnuð í þeim tilgangi að hvetja konur til að taka þátt í samfélaglegum málefnum, beita sér í pólitískri baráttu og að raddir kvenna heyrðust einnig svæðinu til heilla. Tvennir fundir voru haldnir á síðasta ári um atvinnu- og skólamál. Fyrri fundurinn var haldinn í janúar 2012. Gestir fundarins voru þau Hjörtur Guðbjartsson fulltrúi Samfylkingarinnar í Atvinnu-og hafnarráði Reykjanesbæjar, sem kynnti fyrir okkur atvinnustefnu bæjarins. Í ljósi þess að mikil áhersla er lögð á stóriðju vöknuðu vissulega spurningar um hversu mikil áhersla væri lögð á karllæg störf og umræður urðu nokkrar um þá staðreynd. Björk Guðjónsdóttir fulltrúi Vaxtasamninga SSS kynnti þá möguleika sem Reykjanesbær hefur til að sækja styrki og lagði áherslu á að fólk hefði ekki verið nægilega duglegt við að sækja í fjármagn til að leggja í atvinnuuppbyggingu. Aðstæður eru að skapast í Eldey fyrir eldhuga og duglegt fólk sem er með góðar hugmyndir. Auk þess er fyrirhugað að bæta enn við þjónustu og atvinnu-og þróunarfélagið Heklan er í burðarliðnum. Linda Ásgrímsdóttir fulltrúi Vinnumálastofnunar Suðurnesja kynnti atvinnuleysistölur og ræddi um þær ráðstafanir sem fyrir dyrum standa. Þar kom hún inn á vinnustaðasamninga og þá menntun sem stendur fólki til boða sem nú er atvinnulaust til lengri eða skemmri tíma. Seinni fundurinn var um tengsl atvinnu og skóla var haldinn í mars 2012. Gestir fundarins voru þær Guðjónína Sæmundsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, sem kynnti starfsemi miðstöðvarinnar. Kom fram í máli hennar að gríðarleg aukning hafi verið á námsframboði sem haldist vissulega í hendur við atvinnuleysið á svæðinu. Hún kom inn á mikilvægi samstarfs símenntunar og vinnustaða. Þá ræddi hún um raunfærnimat og aukna möguleika fólks úr mismunandi stéttum til að fá starf sitt metið til eininga og möguleika á námi í framhaldi af því. Dagný Gísladóttir fulltrúi frá Atvinnuþróunarfélaginu Heklunni kynnti starsemina í Eldey og sagði frá þeim fyrirtækjum sem nú hafa hreiðrað um sig þar. Mikil gróska er á Ásbrú bæði hvað varðar menntun og nýsköpun og var virkilega gaman að heyra hvað fólk er fullt af bjartsýni og von. Þann 10. maí 2012 var haldinn fundur með Oddnýju G. Harðardóttur fjármálaráðherra. Oddný upplýsti okkur um stöðu efnahagsmála og þann niðurskurð sem þjóðin hefur mátt þola á síðastliðnum árum. Þá kynnti Oddný fyrir okkur forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og hugmyndir um nýtingu skattpeninga til uppbyggingar atvinnulífs. Þá ítrekaði hún hversu mikilvægt það væri fyrir hagsæld að styðja sérstaklega við barnafjölskyldur í landinu. Aðalfundur Kvennahreyfingarinnar 2012 var haldinn 4.október. Eftir venjuleg aðalfundarstörf, þar sem stjórnin hlaut einróma endurkjör var haldinn opinn fundur með Samfylkingarfélaginu í Reykjanesbæ. Efni fundarins var kosning um tillögur Stjórnlagaráðs. Gestir fundarins voru þau Ómar Ragnarsson og Valgerður 12


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

Bjarnadóttir alþingiskona og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ómar sat í Stjórnlagaráði og Valgerður fór með forystu stjórnarskrármálsins á Alþingi. Þeim tókst á einstakan hátt að skýra stjórnarskrármálið. Fullt var út úr dyrum og margar góðar spurningar vöknuðu sem fyrirlesurum okkar tókst að skýra nánar fyrir fundarmönnum. Almenn ánægja var með þennan fund sem jafnframt var fyrsti sameiginlegi fundurinn sem haldinn var af Kvennahreyfingunni og Samfylkingarfélaginu í RNB. Þann 8. nóvember 2012 var haldinn kvennagleði á kosningaskrifstofu Oddnýjar Harðardóttur að Hafnargötu 31 í Reykjanesbæ. Fundurinn var haldinn í tilefni framboðs Oddnýjar til prófkjörs. Boðið var upp á tónlist og rabb. Sveindís Valdimarsdóttir formaður Kvennahreyfingarinnar bauð konur velkomnar, Eldar (Valdimar og Björgvin) fluttu okkur nokkur vel valin lög og frambjóðandinn Oddný hélt ræðu. Þetta var ánægjuleg kvöldstund í góðum félagsskap. Það er skemmst frá því að segja að Oddný hlaut kosningu í 1. sæti í Suðurkjördæmi og fögnum við því sérstaklega. Jólagleði var haldinn þann 7. desember sem var tileinkuð Ellý (Eldey) Vilhjálms. Hún er alþjóð kunn og ættuð úr Höfnum á Reykjanesi. Lesið var upp úr bók Margrétar Blöndal og hlustað á tónlist Ellýjar, sem var einstök. Stjórn Samfylkingarinnar hefur haldið stjórnarfundi að jafnaði annan hvern mánuð frá stofnun og þeir fundir hafa verið nýttir til undirbúnings og stefnumótunar. Síðasta ár var atvinnuþema megin málefnið. Starfsárið sem nú er hafið mun verða tileinkað pólitík. Hugmyndir okkar eru að efla tengslanet kvenna enn fremur á svæðinu og kortleggja okkar áherslur. Málefni fjölskyldunnar – málefni innflytjenda – lýðræði og mannúðarmál eru okkur hugleikin og munum við fyrst og fremst vinna að þeim á komandi ári.

9. 19. júní ganga Á kvenréttindadaginn þann 19. júní 2012 stóð stjórn Kvennahreyfingarinnar fyrir afskaplega vel heppnaðri og fjölmennri kvennasögugöngu. Var þess minnst að íslenskar konur (eldri en 40 ára) fengu kosningarétt þann sama dag fyrir tæpum hundrað, árið 1915. Var gengið um Þingholtin og miðbæinn undir leiðsögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur sem lauk með því að hópurinn skálaði fyrir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur á Bríetarreit.

10. Landsfundur 2013 Á landsfundi 1.-3. febrúar 2013 stóð Kvennahreyfingin fyrir málstofu um tvenn lög sem sett hafa verið á núverandi kjörtímabili, bann við kaup á vændi og austurísku leiðina sem varðar heimilisofbeldi og framkvæmd þeirra. Guðrún Ögmundsdóttir hélt inngangserindi og stýrði umræðum. Komu áhugaverð sjónarmið fram og öflugar umræður. Ljóst er að fylgja þarf framkvæmd laganna betur eftir og setja þessi mál ofar í forgangsröðinni.

13


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

Kvennahreyfingin stóð einnig fyrir kynningarbási og gaf út bækling um starf Kvennahreyfingarinnar fyrir Landsfundinn.

11. Tekið á móti sænskum flokkssystrum Í lok júlí tókum við á móti sænskum flokkssystrum okkar og áttum við þær gott samtal um áherslur í kvennahreyfingarstarfinu. Í Svíþjóð snýst baráttan mikið til um réttinn til fullrar vinnu, þar sem konum eru gjarnan boðin hlutastörf og bera þar með skertan hlut frá borði fjárhagslega. Á sama tíma eru áherslur okkar á Íslandi fremur þær að útrýma kynbundnum launamun. Lærðum við mikið af þessu samtali og þáðum fallegan blómavasa eftir sænskan hönnuð sem prýðir eitt fundarherbergja Hallveigarstígs.

12. Bréf vegna kynbundins launamunar Í maí 2012 sýndu launakannanir að kynbundinn launamunur hefði aukist innan hins opinbera. Stjórn Kvennahreyfingarinnar brást hratt við og sendi bréf til allra ráðherra Samfylkingarinnar og krafðist aðgerða til þess að vinna á móti þessari þróun og eyða kynbundnum launamun.

13. Ársreikningar

Ársreikningar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012 2012 Gjöld

2011 Tekjur

Gjöld

Frá flokknum*

600.000

Máttarstólpar

160.000

Auglýsingar

2010 Tekjur 164.456

45.808

Ársþing Aðrir fundir og námskeið

674.360

Erlent samstarf

161.193

Annar kostnaður

8.990

Samtals:

306.500

221.957

1.066.500

Gjöld

307.300

Tekjur 701.510

290.460 236.944

689.900 348.500

48.292 69.650 1.066.500 401.400

401.400

1.050.010

1.050.010

* Á fjárhagsáætlun flokksins voru áætlaðar 600 þús. til kvennahreyfingarinnar 700 þús. árið 2011,og 1 millj. kr. árið 2010. Framlög skv. fjárhagsáætlun flytjast ekki á milli ára ef þau eru ekki fullnýtt á fjárhagsárinu.

14


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

Dagskrá; 15.00 Innskráning 15.30 Aðalfundarstörf a) b) c) d) e) f)

Ársskýrsla stjórnar Reikningar Lagabreytingar Umræður Kynning á frambjóðendum Ályktanir, breytingatillögur og umræður

17.15 Konur og kosningabaráttan

Sigrar í jafnréttisbaráttunni - stutt inngangsorð Oddný G. Harðardóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar

Kraftur kvenna Katrín Júlíusdóttir varaformaður Samfylkingarinnar og fjármála- og efnahagsráðherra

Kosningabaráttan framundan Íris Björg Kristjánsdóttir verkefnastjóri kosningabaráttunnar Niðurstöður kosninga, umræður og kosning um ályktun

Femínískur flokkur í kosningabaráttu Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar og þingmaður 18.00 Atkvæðagreiðslu stjórnarkjörs lýkur

Fundarstjóri Margrét K. Sverrisdóttir formaður framkvæmdastjórnar 15


Skýrsla stjórnar Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 2012-2013

Umsjón með aðalfundarstörfum Hrafnhildur Ragnarsdóttir formaður Kvennahreyfingarinnar

19.30 Hátíðarkvöldverður - fordrykkur, þriggja rétta máltíð og frábær skemmtun Veislustjóri Unnur Tryggvadóttir Flóvenz málefnastýra Ungra jafnaðarmanna

Kvennakórinn Katla tekur nokkur skemmtileg lög yfir fordrykknum Húmor í leik og starfi - dauðans alvara Edda Björgvinsdóttir leikkona

Matseðill - Hvannagrafinn lax með sinnepssósu, hrærðum eggjum og hrökkbrauði - Lambainnanlæri með kartöfluköku, rótargrænmeti og kraftmiklu lambasoði - Lagskipt súkkulaðikaka með vanilluís

Kostnaður - Fundargjald og kvöldverður 6.500 krónur - Fundargjald án kvöldverðar 1.500 krónur

Framboð til stjórnar Framboð til stjórnar skulu berast kjörstjórn. Kvennahreyfingin auglýsir því eftir öflugum konum til þess að sitja í stjórn hreyfingarinnar næsta árið. Kosið er til formanns sérstaklega en jafnframt eru kjörnir þrír aðalfulltrúar stjórnar og þrjár konur til vara. Kjörstjórn skipa Helena Mjöll Jóhannsdóttir, Kristín Sævarsdóttir og Unnur Kristjánsdóttir. Framboð berist með tölvupósti á unnurk@gmail.com

16


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.