Menningarstefna Múlaþings 2024-2030
Listir og menning í Múlaþingi

Útgefandi: Múlaþing
Ritstjórn: Aðalheiður Borgþórsdóttir
Umbrot: Esther Ösp Gunnarsdóttir, Austurbrú Forsíðumynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir, Austurbrú. Frá BRAS 2022 í Selskógi.
Inngangur
Múlaþing fól atvinnu- og menningarsviði að vinna lista- og menningarstefnu fyrir nýsameinað sveitarfélag í september 2022.
Í framhaldi af vinnustofu Austurbrúar um menningarstefnu Austurlands hófst vinna við lista- og menningarstefnu Múlaþings undir stjórn Aðalheiðar Borgþórsdóttur menningarmálastjóra, Heiðdísar Hólm Guðmundsdóttur og Jónínu Brá Árnadóttur verkefnastjóra menningarmála. Forstöðufólk safna og menningarstofnana Múlaþings var boðað til samtals, sem og listamenn og áhugafólk um listir og menningarstarf í sveitarfélaginu.
Múlaþing er nýtt sveitarfélag með mikla möguleika á að vaxa sem eitt helsta sveitarfélag landsins hvað varðar skapandi greinar og uppbyggingu á menningu og listum. Sveitarfélagið vill hlúa vel að þessum geira og styðja hann á sem fjölbreyttastan hátt. Múlaþing vill skapa jarðveg fyrir sjálfbæran rekstur, fjölga störfum, hlúa að grasrót jafnt sem fullþroska og þróaðri starfsemi á sviði lista og skapandi greina.
Múlaþing vill horfa á heildarmyndina, gefa íbúum orðið og býður þeim að borðinu sem starfa á sviðinu til þess að framfylgja lista- og menningarstefnu sem flestir geta tengt við og fundið sig í.
Horfa þarf til lista- og menningarstefnu Múlaþings við gerð aðalskipulags sveitarfélagsins1 og þá sérstaklega þegar horft verður til opinna svæða. Taka skal tillit til varðveislu menningarverðmæta er felast m.a. í aldursfriðuðum húsum, fornleifum og öðrum mannvistarleifum sem vert er að varðveita og hlúa að m.a. sem innleggi í menningartengda ferðaþjónustu.
Við undirbúning stefnunnar voru ýmsar stefnur annarra sveitarfélaga skoðaðar, Sóknaráætlun Austurlands, Svæðisskipulag Austurlands og menningarstefna Fljótsdalshéraðs frá 2019. Menningarstefna Íslands 2013, Menningarsókn - aðgerðaáætlun til 2030, heimsmarkmið og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna voru höfð til hliðsjónar við gerð stefnunnar.
Þakkir fá öll þau sem gáfu sér tíma til að mæta á fundi til að ræða um listir og menningu í Múlaþingi og lögðu þannig sitt af mörkum við gerð stefnunnar. Sérstakar þakkir fá öll þau sem hafa gefið af sér til lista- og menningarmála í sveitarfélaginu í gegnum tíðina og þannig gefið lífinu aukið gildi.
Menningarstefna Múlaþings var samþykkt á fundi byggðarráðs 18. júní 2024
Aðalheiður Borgþórsdóttir, Jónína Brá Árnadóttir og Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir

Menningarstefnan og menningarlífið
Meginstefið í lista- og menningarstefnu Múlaþings er að allir íbúar hafi jöfn tækifæri til að njóta og/ eða vera þátttakendur í skapandi starfi. Annað stef stefnunnar er að til verði fjölbreytt aðstaða til listsköpunar og að það verði eftirsóknarvert fyrir listafólk að búa og starfa í öllum kjörnum Múlaþings. Menningarstefna Múlaþings byggir á fjórum stoðum sem hver styður við meginmarkmið stefnunnar:
Ævilöng inngilding
Stuðningur við listamenn
Menning og listir í öllum kjörnum
Menningararfur, menningarverðmæti og safnastefna
Menning og listir er mikilvæg atvinnugrein sem fjölmargir starfa við. Listsköpun byggir oft á rannsóknum sem skapa nýja þekkingu og nýja sýn á hlutina. Fjölmargir íbúar leggja skapandi starfi lið í formi sjálfboðavinnu sprottna af þörfinni til að skapa fjölbreytt lista- og menningarlíf. Sveitarfélagið styður við og tekur slíku framlagi opnum örmum.
Þær menningarstofnanir sem Múlaþing rekur að hluta eða öllu leyti gegna allar mikilvægu hlutverki við framkvæmd lista- og menningarstefnunnar og í menningarlífi Múlaþings.
Sláturhús menningarmiðstöð er lykilstofnun við framkvæmd lista- og menningarstefnunnar og leggur sérstaka áherslu á sviðslistir. Skaftfell miðstöð myndlistar hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna þó hún sé ekki rekin af sveitarfélaginu en hefur þaðan bæði móralskan og fjárhagslegan stuðning. Tvær af þremur menningarmiðstöðvum á Austurlandi eru nú í Múlaþingi en þær starfa báðar samkvæmt samningi ríkisins og sveitarfélaga á Austurlandi um listir og menningarmál.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er staðsett á Egilsstöðum.
Mynd: Jessica Auer

Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Ríkarðshús á Djúpavogi eru þau söfn sem Múlaþing rekur að hluta eða öllu leyti og gegna hlutverki sínu með söfnun, varðveislu, rannsóknum og miðlun á sögu og menningu svæðisins. Tækniminjasafn Austurlands gegnir einnig mikilvægu hlutverki en er sjálfseignastofnun styrkt af sveitarfélaginu. Bókasöfn Héraðsbúa, Djúpavogs og Seyðisfjarðar eru í eigu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið rekur þar að auki félagsheimili og menningarhús víða í sveitarfélaginu.
» Múlaþing leggur áherslu á að þau sem njóta stuðnings sveitarfélagsins á menningarsviðinu hafi í heiðri vönduð vinnubrögð og bjóði upp á faglega starfsemi og þjónustu. Lista- og menningarstefnan tengist Sóknaráætlun Austurlands2 sem tekur mið af stefnu sveitarfélagsins í afmörkun áhersluverkefna í Sóknaráætlun Austurlands hverju sinni. Lista- og menningarstefna Múlaþings er æðsta stefna sveitarfélagsins í lista- og menningarmálum og tekur mið af Svæðisskipulagi Austurlands.3
» Múlaþing setur sér að vinna eftir stefnunni við gerð starfs- og fjárhagsáætlana.
» Gert er ráð fyrir að aðgerðaráætlun stefnunnar verði tekin til endurskoðunar í maí ár hvert og afgreidd samhliða gerð fjárhagsramma sveitarfélagsins.
2 Austurbrú: Sóknaráætlun Austurlands
3 SSA: Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044


Stuðningur við listir og menningu
Frá upphafi sameinaðs sveitarfélags hafa verið veittir menningarstyrkir árlega, í tveimur úthlutum á ári.
Á árunum 2021-2024 (aðeins fyrri úthlutun er lokið árið 2024 þegar þetta er skrifað) var sótt um samtals tæpar 92 milljónir vegna menningarverkefna, en heildarkostnaður verkefna er 375.843.044 kr.
Alls hafa 148 verkefni á þessum árum fengið styrki til fjölbreyttra menningarog listviðburða, samtals að upphæð 34.603.000 kr.
Mikilvægi menningarstyrkja er ótvírætt, en með þeim hefur verið hægt að gefa grasrót sveitarfélagsins byr undir báða vængi, ásamt því að styðja rótgróna viðburði og allt þar á milli.
Aðstaða, hátíðir og stofnanir
Menningarlíf í Múlaþingi er byggt upp af fjölmörgum aðilum, viðburðum og þáttum sem saman mynda lifandi menningarsamfélag:
Hátíðir og viðburðaraðir
Dagar myrkurs
Bláa kirkjan
Bræðslan
LungA hátíð
Hammondhátíð
Ormsteiti
BRAS
List án landamæra
Smiðjuhátíðin
Skógardagurinn mikli
Cittaslow sunnudagur
Regnbogagangan
List í ljósi
Rúllandi snjóbolti
Vor/Wiosna
Haustroði
Jólakötturinn markaður
Rithöfundalestin
Tónlistarstundir
Sumar í Fjarðaborg
Þorrablót
Áramót
Sjómannadagur
Þjóðhátíðardagur
Útilistaverk
Tvísöngur
Eggin í Gleðivík Útlínur
Símaklefinn
Frelsi
Menningarmiðstöðvar og viðburðarými
Sláturhúsið, sviðslistamiðstöð
Skaftfell, myndlistamiðstöð
ARS LONGA, nýlistasafn
Álfakaffi
Kiosk108
Herðubíó
Herðubreið
Fjarðaborg
Langabúð
Valaskjálf
Iðavellir
Tungubúð
Arnórstaðir
Tehúsið
Gletta
Tankurinn
Skúlptúrgarðurinn
LungA lýðskóli
Menntaskólinn á Egilsstöðum
Hallormsstaðarskóli
Ströndin studio
Samfélag
LungA lýðskóli
Hallormsstaðarskóli
Menntaskólinn á Egilsstöðum
Tónlistarfskólar
Leikskólar
Grunnskólar
Sagnabrunnur
Sögufélag Austurlands
Sinfoníuhljómsveit Austurlands
LungA hátíð – listasmiðjur
Leikfélag Seyðisfjarðar
Leikfélag Fljótsdalshéraðs
Kórastarf
Hljómsveitir
Samtök listafólks á Austurlandi

Söfn og setur
Héraðsskjalasafn Austfirðinga
Minjasafn Austurlands, Kjarvalshvammur
Bókasöfn Héraðsbúa, Seyðisfjarðar og
Djúpavogs
Langabúð - Eysteinsstofa og
Ríkharðssafn
Tækniminjasafn Austurlands
Útgáfa
Félag ljóðaunnenda á Austurlandi
Múlaþing
Glettingur
Bóndavarðan
Austurfrétt / Austurglugginn
Vinnurými og gestavinnustofur
Heima
Skaftfell
Sláturhúsið
Prentverk Seyðisfjarðar
Netagerðin
Herðubreið

Ævilöng inngilding 1
Markmið árið 2030: Menningarstarf sveitarfélagsins er aðgengilegt öllum, hvort sem er til sköpunar eða þátttöku í menningarstarfi.
Menningarlífið endurspeglar fjölbreytileika mannlífsins og stendur öllum opið, þannig að öll skynji hlutdeild sína í því, hafi jafnt aðgengi og geti tekið þátt á eigin forsendum.
Leiðir:
» Skipulagt listastarf barna og ungmenna verður eflt. Lykilatriði í slíkri þróun er að listastarf sé eðlilegur hluti af tómstundarframboði í sveitarfélaginu, í samstarfi við stofnanir og sjálfstætt starfandi listafólk.
» Menningarstofnanir sveitarfélagsins og samstarfsaðilar á sviði menningar og lista gegna lykilhlutverki og vinna sameiginlega að fræðslu- og viðburðaráætlun sérstaklega sniðinni að börnum á öllum skólastigum.
» Menningarstofnanir sveitarfélagsins vinna samkvæmt jafnréttisáætlun4 og menningarstefnu Múlaþings. Sveitarfélagið er í virku samtali við íbúa um menningu. Stofnanir viðhalda öflugu tengslaneti listafólks á svæðinu.
» Söfn og menningarstofnanir vinna að sameiginlegum áætlunum um hvernig best er að koma til móts við mismunandi þarfir einstaklinga og hópa með það að markmiði að vinna gegn menningarlegri aðgreiningu og auka aðgengi. Sérstaklega er hugað að nálgun við jaðarsetta hópa; fólk með ólíkan tungumála- og menningarbakgrunn, aldraða og fólk með fötlun.
» Upplýsingar um framboð á menningu, um menningarviðburði og -stofnanir, tækifæri og stuðning í menningu og listum eru aðgengilegar öllum og lögð er áhersla á að ná til fjölbreytts hóps. Menningarviðburðir á vegum stofnana sveitarfélagsins eru kynntir á áberandi hátt og með góðum fyrirvara.
Hugtakið inngilding er nýtt, en það er íslensk þýðing á enska orðinu inclusion. Inngilding felur í sér að fólki sé tryggður aðgangur sem annars gæti verið útilokað eða jaðarsett frá tækifærum eða úrræðum.
4 Múlaþing: Jafnréttisáætlun
Stuðningur við listamenn
Markmið árið 2030: Gott er að starfa sem listamaður í Múlaþingi.
Vel er hlúð að listafólki búsettu í sveitarfélaginu. Fjölbreytt menningarstarfsemi er mikilvægur þáttur í atvinnulífi sveitarfélagsins og hefur að auki víðtæk afleidd áhrif, ekki bara í efnahagslegu tilliti heldur einnig eflingu heilsu og vellíðan, skapandi virkni, hópvinnufærni, staðarstolts, kröftugum anda, umburðarlyndi og ýmsu sem gerir sveitarfélag að eftirsóknarverðum stað til að búa á. Sveitarfélagið fagnar nýliðun og nýjum verkefnum með stuðningi í ýmsum myndum. Menningarhús og önnur lifandi rými styðja við gott yfirbragð sveitarfélagsins þar sem fólki finnst gott að vera og búa. Umhverfið stuðlar að fagmennsku og atvinnusköpun á sviði lista og menningar. Húsnæði styður við sköpun, skipulagningu, samskipti og framsetningu á listum.
Leiðir:
» Listafólk fær sanngjörn laun fyrir vinnu sína þegar það starfar fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess. Sveitarfélagið leggur áherslu á að kaupa vinnu listafólks á svæðinu.
2» Húsnæði í eigu sveitarfélagsins er aðgengilegt fyrir menningarstarf og skoðuð eru tækifæri til að nýta húsnæði sem er í biðstöðu.
» Múlaþing leggur áherslu á að þeir sem njóta stuðnings sveitarfélagsins hafi í heiðri vönduð vinnubrögð og bjóði upp á faglega starfsemi.
» Í menningarstofnunum sveitarfélagsins starfar fólk með fagþekkingu á viðkomandi sviði. Sótt er utanaðkomandi fagþekking eins og við á til að styðja sem best við faglegt menningarumhverfi.
» Rekstrargrundvöllur og fagmennska menningarstarfs sem sannað hefur gildi sitt er stutt með samstarfsamningum til lengri tíma.
» Sveitarfélagið styður við áhugahópa og grasrótarstarf á sviði menningar- og lista, m.a. með fjárframlagi í formi styrkja. Allar listgreinar fá jafnt vægi.
» Alþýðulist fær rými til að blómstra.
List í ljósi á Seyðisfirði. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir


Menning og listir í öllum kjörnum
Markmið árið 2030: Menning og listir eru sýnilegar í öllum kjörnum Múlaþings.
Styrkur sveitarfélagsins liggur í fjölbreytni þess og hlúð er að sérstöðu, sögu og menningarverðmætum hvers kjarna fyrir sig. Menningararfur svæðisins er aðgengilegur íbúum og gestum. Listir og fagurfræði skipa veigamikinn sess við mótun opinberra bygginga og opinna svæða. Listaverk glæða almannarými lífi, skapa sérstöðu og bæta staðaranda.
Sérstaklega er tekið tillit til frumkvæðis frá íbúum og íbúar hafa bein áhrif á menningarlíf í sínu nærumhverfi.
Leiðir:
» Hlúð er að þeim lista- og menningarhátíðum sem fram fara árlega í kjörnunum.
» Sveitarfélagið skapar svigrúm fyrir nýsköpun sprottna hjá íbúum.
» Menningarhúsum staðanna er gert kleift að starfrækja og byggja upp aðstöðu, hlúð er sérstaklega að nýsköpun.
» Stutt er við frumkvæði um söguritun eftir því sem við á og geta er til hverju sinni. Hvert tilfelli er metið eftir mikilvægi, utanaðkomandi fjárstuðningi og faglegri nálgun.
» Merkingar og upplýsingaskilti við staði sem hafa menningar- og sögulegt gildi eru yfirfarin og uppfærð reglulega og eftir þörfum þar sem við á.
» Samvinna milli kjarna er sterk og á milli er frjálst flæði upplýsinga. Samstarf menningarstofnana, safna og annarra samstarfsaðila hefur verið eflt.
» Samstarf og samnýting rýma, t.d. bókasafna, menningarmiðstöðva og félagsheimila við uppsetningu á farandsýningum og tónleikum (vinnurými, verkstæði, tæki og tól) er öflugt.
» Opin svæði í umsjón sveitarfélagsins eru notuð til menningarstarfsemi og hlutverk þeirra á því sviði skilgreint.
» Upplýsingar um nýtingu, aðgengi og aðstöðu á menningarrýmum og opnum svæðum eru aðgengilegar á miðlum Múlaþings.
» Til er skrá yfir listaverk í eigu sveitarfélagsins og skýrt verklag um varðveislu þeirra, viðhald og útlán.


Menningararfur, -verðmæti og safnastefna
Markmið árið 2030: Í Múlaþingi er hlúð að menningararfi sveitarfélagsins og honum miðlað með fjölbreyttum hætti til allra hópa samfélagsins. Hlúð er að söfnum og setrum sem í sveitarfélaginu starfa og þeim búið húsnæði sem hæfir starfsemi þeirra. Bókasöfnin í Múlaþingi eru samfélagsmiðjur þar sem öll eru velkomin á eigin forsendum og einskis er krafist af nokkrum. Gott samstarf er á milli skóla og safna um safnfræðslu, námskeið og fleira. Það er sameiginleg ábyrgð samfélagsins að vernda menningar- og náttúruarf landsins, stuðla að faglegri umgengni og tryggja jafnt aðgengi að arfinum.
Leiðir:
Söfn og setur:
» Söfn og setur í Múlaþingi standa vörð um menningararf svæðisins og sinna af metnaði öllum grunnþáttum safnastarfs, þ.e. söfnun, varðveislu, skráningu, rannsóknum og miðlun.
» Söfnin í Múlaþingi taka virkan þátt í samfélagslegri umræðu, taka af skarið og skapa samtal um samfélagslega mikilvæg mál. Sterk tengsl safna, safnkosts og samfélags fela í sér drifkraft og verðmætasköpun.
» Söfnin hafa inngildingu að leiðarljósi í sínu starfi til að tryggja öllum íbúum Múlaþings, á öllum æviskeiðum, aðgengi að menningarstarfi og -arfi.
» Söfnin í Múlaþingi hafa mikilvæga stöðu þegar kemur að fræðslu, skilningi og vitund um menningarog náttúruarfinn. Þar gegnir mannauður safna lykilhlutverki.
» Söfnin eiga í öflugu samstarfi sín á milli og við fjölbreytta aðila, bæði innanlands og utan.
» Söfnin í Múlaþingi eru samfélagslega ábyrg, þau huga að sjálfbærni á öllum sviðum safnastarfs og eru vettvangur nýsköpunar.
» Söfnin starfa eftir siðareglum ICOM, Alþjóðaráði safna.5
» Í söfnunum eru til staðar innviðir, starfsemi og mannauður aðgengilegur árið um kring sem í felast tækifæri til nýtingar fyrir heimafólk og gesti. Möguleikar í vetrarferðaþjónustu sem vert er að hafa í huga.
Samfélagsmiðja er heiti sem notað er um stað þar sem öll eru velkomin á eigin forsendum og einskis er krafist af nokkrum. Þú getur verið í friði með sjálfum þér eða átt samskipti við aðra, fengið þér kaffibolla, lesið bók, notað aðstöðuna til að skapa, sótt fyrirlestra og notið menningar.
5 Safnaráð: Íslandsdeild alþjóðaráðs safna
6 Alþingi: Bókasafnslög
Byggingararfur:
» Vinna við verndarsvæði í byggð hefur verið unnin í öllum kjörnum Múlaþings. Mikilvægi menningararfsins er dregin fram í dagsljósið, gömlum byggingum í eigu sveitarfélagsins er gefið nýtt hlutverk þar sem við á og menningararfurinn gerður sýnilegur.
Bókasöfn:
» Almenningsbókasöfn eru menningar-, upplýsinga- og menntastofnanir reknar af sveitarfélaginu. Allir íbúar skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna.
» Nútímabókasöfn eru samfélagsmiðjur, þriðja rými íbúa, s.s. hlutlaus staður sem hvorki er heimili, vinna né skóli. Þau eru athvarf fyrir notendur. Bókasöfn eru einn af fáum stöðum þar sem fólk getur verið innandyra endurgjaldslaust.
» Bókasöfnin í Múlaþingi eru í samstarfi við leik- og grunnskóla sveitarfélagsins, önnur söfn, félagasamtök og aðra sem óska þess að nýta aðstöðuna.
» Standa þarf vörð um sérstöðu hvers safns. Hvert bókasafn hefur sinn sjarma og karakter.
» Bókasöfn eru lögbundin og starfa samkvæmt bókasafnalögum nr. 150 frá 28.12.2012.6


Innleiðing stefnu, leiðir og markmið
Kostnaðarmat, ábyrgð og árangursmælikvarðar.
Eigi stefna að virka sem verkfæri þarf markvisst að innleiða hana í stjórnsýslu sveitarfélagsins, meðal starfsfólks og stjórnenda innan menningarstofnana, grasrótar, áhugamanna og íbúa. Stefnan sem hér er lögð fram tekur m.a. mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna7
Árið 2030 verður menningarstefna Múlaþings endurskoðuð og ávinningur metin. Virði menningar og lista er margþætt og nær ekki eingöngu til efnahagslegra áhrifa. Það nær einnig til tilfinningalegra, vitsmunalegra, persónulegra og samfélagslegra ávinninga. Atvinnu- og menningarmálasvið gerir tillögu til byggðaráðs um menningarstefnu Múlaþings.
Með stefnunni er lögð fram tímasett aðgerðaáætlun með kostnaðarmati, tímasetningum og ábyrgðaraðilum í þeim tilgangi að markmið stefnunnar raungerist og til að forðast það að til verði enn eitt plagg sem endar ofan í skúffu engum til gagns.






5 Sameinuðu þjóðirnar: Heimsmarkmiðin
Hvert er virði lista og menningar?
Þegar rætt er um virði í tengslum við listsköpun og menningarstarfsemi fer ekki einni sögu af því hvernig skal meta virðið. Í raun getur verið vandasamt að benda á virði menningar og menningarafurða þar sem ekki er einungis um að ræða efnahagslegt virði heldur virði fyrir samfélagið í heild sinni, frá einstaklingnum til þjóða og þvert á landamæri. Fræðimaðurinn Alan Brown hefur gert huglægt kort um gildi lista- og menningarstarfsemi.
Það er í raun rammi sem hjálpar okkur að skilja fjölbreytileika og gildi lista og menningar fyrir mismunandi hópa samfélagsins.
Árangursmælingar má einnig gera með því að mæla aðsókn að viðburðum, söfnum og menningarmiðstöðvum, sértekjur, fjölgun starfa á sviðinu og fjölda ferðamanna er sækir Múlaþing heim vegna lista- og menningarstarfsemi, hamingjustuðla og fjölgun íbúa. Má í því samhengi nefna kannanir sem Ferðamálastofa gerir árlega og umferðamælingar Vegagerðarinnar sem nýta má í tengslum við ákveðna viðburði og markaðsátök.
Aðgerðaráætlun skal endurskoða árlega samhliða fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Byggðaráð úthlutar fjárhagsramma og felur sviðsstjóra að útfæra aðgerðir í samræmi við stefnumótun og forgangsröðun ráðsins.
Heilsa og vellíðan
Tilfinningin að tilheyra
Félagsfærni
Tengslanet
Huglægt kort sem sýnir gildi lista- og menningarstarfsemi. Heiðdís Hólm setti saman. Byggt á hugmynd Alan Brown.
Samfélagsþátttaka
Samvinna
Menningararfur
Andleg örvun
Efling andans
Skilningur
Skapandi virkni
Fegurðargildi
Staðarstolt
Sameiginlegar minningar
Vettvangur til að deila upplifunum
Samskipti
Sjálfsmynd
Skaðaminnkun
Gagnrýnin hugsun
Hugmyndaflug
Tilfinningarlegur þroski
Lífsfylling
Umburðarlyndi
Þátttakendur í rýnihópum
Þakkir fá öll þau sem lögðu hönd á plóginn við gerð þessarar menningarstefnu.
Vinnustofa Austurbrúar, þátttakendur í tveimur sérhópum Múlaþings þann 17. maí 2023.
Fundir í kjörnum Múlaþings í júní. Fjölmörgum var boðin þátttaka en þeir sem þáðu boðið voru eftirtaldir:
Alda Marín Kristinsdóttir, Andri Björgvinsson, Arngrímur Viðar Ásgeirsson, Ásgrímur Ingi Arngrímsson, Áskell Heiðar Ásgeirsson, Bryndís Snjólfsdóttir, Eyþór Stefánsson, Jón Þórðarson, G. Magni Ásgeirsson, Óttar Már Kárason, Guðrún Sigurðardóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Kristján Ingimarsson, Þorbjörg Sandholt, Þór Vigfússon, Þórdís Sigurðardóttir, Þórdís Sævarsdóttir, Erla Guðný Pálsdóttir, Halldór B. Warén, Heiðdís Halla Bjarnadóttir, Jónína Brá Árnadóttir, Óðinn Gunnar Óðinsson, Ragnhildur Ásvaldsdóttir, Torvald Gjerde, Ingvi Örn Þorsteinsson, Jessica Auer, Julia Martin, Lasse Høgenhof, Pari Stave, Elfa Hlín Pétursdóttir, Elsa Guðný Björgvinsdóttir, Gauti Jóhannesson, Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, Kolbrún Erla Pétursdóttir, Stefán Bogi Sveinsson.
Sérstakar þakkir fá Tinna K. Halldórsdóttir hjá Austurbrú fyrir ráðgjöf og yfirlestur, Esther Ösp Gunnarsdóttir hjá Austurbrú fyrir uppsetningu, textarýni og prófarkalestur og Heiða Ingimarsdóttir og Andy Morgan fyrir þýðingu og prófarkalestur.
Á Austurlandi hefur mikið verið unnið með matarmenningu og hráefni úr héraði á síðustu árum. Frá Matarmóti 2023. Mynd: Tara Tjörvadóttir
