Aðgerðaáætlun menningarstefnu Múlaþings

Page 1


Listir og menning í Múlaþingi

Aðgerðaáætlun menningarstefnu 2024-2030

Inngangur

Ævilöng inngilding

Stuðningur við listamenn

Menning og listir í öllum kjörnum

Menningarafur, -verðmæti og safnastefna

Útgefandi: Múlaþing

Ritstjórn: Aðalheiður Borgþórsdóttir

Umbrot: Esther Ösp Gunnarsdóttir, Austurbrú Forsíðumynd: Eggin í Gleðivík. Icelandic Explorer.

3

4

8

12

14

Inngangur

Hér eru settar fram sérstakar aðgerðir sem stuðla munu að því að þau markmið sem unnið hefur verið með og koma fram í stefnunni munu uppfyllast í síðasta lagi árið 2030. Tillögurnar sem hér eru settar fram eru unnar út frá samtölum við hagaðila í lista- og menningargeira Múlaþings. Fundir voru haldnir í öllum kjörnum sveitarfélagsins og fleiri boðaðir en mættu.

Sumum aðgerðum þarf einungis að ýta af stað og því hægt að standa við nú þegar, aðrar þurfa örlítinn stuðning. Sumar aðgerðir þarf að endurskoða árlega með tilliti til sérstakrar fjármögnunar eða annarrar íhlutunar sveitarfélagsins og ríkisins þar sem á við.

Listir og menning er mikilvæg atvinnugrein í Múlaþingi og mikilvægt að styðja við þá starfsemi sem nú þegar er til staðar í sveitafélaginu og efla til nýsköpunar.

Aðgerðaráætlun menningarstefnu Múlaþings var samþykkt á fundi byggðaráðs 18. júní 2024.

Aðalheiður Borgþórsdóttir, Jónína Brá Árnadóttir og Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir

Ævilöng inngilding

Aðgerð 1.1. Samtal við skólana vegna ferða á söfn og sýningar.

Aðgengi grunnskóla að menningarstofnunum sveitarfélagsins verði jafnað. Kostnaður vegna ferða á söfn og sýningar verði tekinn inn í fjárhagsáætlanir grunnskólanna.

Menningarstofnanir í Múlaþingi gera sameiginlega fræðsluáætlun sem miðar að því að allir grunnskólanemendur í sveitarfélaginu hafi komið í allar menningarstofnanir sveitarfélagsins þegar grunnskólagöngu þeirra líkur. Menningarstofnanir leggja einnig áherslu á að koma til móts við skólana í nærumhverfi þeirra og að fræðsluáætlanir og verkefni taki mið af aðalnámskrá grunnskóla

Mögulegt markmið: Börn í Múlaþingi hafa heimsótt öll söfn í sveitarfélaginu þegar þau útskrifast úr grunnskóla.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið og fræðslustjóri í samvinnu við skóla, menningarstofnanir og söfn í Múlaþingi.

Tímaáætlun: 2024

Kostnaður: Undirbúningsvinna og kostnaðargreining rúmast innan fjárhagsramma. Áframhaldandi vinna metin í kjölfarið.

Aðgerð 1.2. Stofnanir vinna gegn menningarlegri aðgreiningu.

Greina og kortleggja þarf þann hóp sem menningarstofnanir þjóna og stefna að því að ná til allra. Virkja stöðugt barnastarf, mögulega með sérstökum styrkjum. Koma upp barnvænum rýmum í söfnum og stofnunum.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið, söfnin og aðrar menningarstofnanir í Múlaþingi.

Tímaáætlun: 2024

Kostnaður: Undirbúningsvinna og kostnaðargreining rúmast innan fjárhagsramma. Áframhaldandi vinna metin í kjölfarið.

Aðgerð 1.3.

Efla starf með eldri borgurum.

Að þeim verði sérstaklega sinnt með skipulögðum heimsóknum í söfn og menningarstofnanir Múlaþings og/eða sérverkefnum varðandi miðlun menningararfsins og listsköpun.

Að þeim verði boðin þátttaka í vinnustofum er lúta að söfnun sagna og arfleifðar þeirra samtíma.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið og menningarstofnanir og söfn í Múlaþingi.

Tímaáætlun: 2024

Kostnaður: Undirbúningsvinna og kostnaðargreining rúmast innan fjárhagsramma. Áframhaldandi vinna metin í kjölfarið.

Aðgerð 1.4.

Kynningarmál fyrir menningu í Múlaþingi.

Auka þarf sýnileika og upplýsingaflæði varðandi menningarstarfsemi í Múlaþingi í samstarfi við Austurbrú. Unnin verði greining á miðlun og gerð kostnaðaráætlunar. Skoða þarf hvort Múlaþing geti gefið út dagskrá með list- og menningarviðburðum í sveitarfélaginu, t.d. að vori, bæði í starfrænu og prentuðu formi.

Ábyrgð: Atvinnu,- kynningar- og menningarsvið Múlaþings.

Tímaáætlun: 2025

Kostnaður: Vinna rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 1.5 Virkt samtal við íbúa og listamenn í Múlaþingi.

Menningarsviðið og stofnanir eru í virku samtali við íbúa um listir og menningu. Stofnanir viðhalda öflugu tengslaneti listafólks á svæðinu og eru opnar fyrir samtali við íbúa um þá þjónustu sem þar í boði er.

Menningarsviðið í samvinnu við menningarstofnanir sveitarfélagsins mun halda úti opnum fundum með reglubundnum hætti þar sem allir fá að taka þátt. Skipuleggja þarf starfið með tilliti til hvers hóps, aðstöðu og tíma.

Tilgangurinn er að efla samfélagsvitund, samkennd og að fólk finni sig í lista­ og menningarstarfi. Ræða opinskátt um tilgang, þörf, metnað, skapandi samfélag og hvernig má tryggja að sem flestir fái notið sín. Má þar nefna samfélagsmiðjur bókasafnanna sem aðstöðu, tungumálakaffi, listasmiðjur af ýmsu tagi, opið spjall yfir kaffibolla, þátttöku í listviðburðum stofnananna og atvinnuleiksýningum, vinnu með fagfólki o.s.frv.

Ábyrgð: Atvinnu,- kynningar- og menningarsvið.

Tímaáætlun: 2024

Kostnaður: Vinna rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 1.6.

Listmenntun í Múlaþingi.

Kortlagning listmenntunar barna og ungmenna í sveitarfélaginu og unnin aðgerðaáætlun varðandi úrbætur þar sem er þörf. BRAS, LungA skólinn, Hallormsstaðaskóli, Menntaskólinn á Egilsstöðum, leik- og grunnskólar Múlaþings verði boðið til samtals um málefnið.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið og fjölskyldusvið.

Tímaraáætlun: 2025

Kostnaður: Vinna rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 1.7.

Efla starf með nýbúum og innflytjendum.

Nýbúar og innflytjendur fá athygli menningarstofnana Múlaþings með sérstakri kynningu á möguleikum til þekkingaröflunar, skapandi starfs og viðburðahalds að lágmarki einu sinni á ári.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið, þjónustu- og stjórnsýslusvið, félagsmálasvið, söfn og menningarstofnanir Múlaþings.

Tímaáætlun: 2025

Kostnaður: Vinna við undirbúning rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 1.8.

Efla starf með fólki með fötlun.

Fólk með fötlun fær athygli menningarstofnana Múlaþings með skipulögðum hætti. Skipulagðar verða heimsóknir á söfn og í menningarstofnanir. Fólki með fötlun verður gert kleift að stunda listnám sem verður sérstaklega aðlagað að þörfum hvers og eins.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið, félagsmálasvið, söfn og menningarstofnanir Múlaþings, m.a. í samstarfi við listmenntastofnanir í sveitarfélaginu.

Tímaáætlun: 2025

Kostnaður: Vinna við undirbúning rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 1.9. Skapandi sumarstörf.

Kallað hefur verið eftir því að sveitarfélagið styðji við skapandi sumarstörf. Gera þarf úttekt á verkefninu, kanna samstarf við Fjarðabyggð, kostnaðarmeta og skapa því fjárhagslegan grundvöll.

Ábyrgð: Umhverfis­, fjölskyldu­, atvinnu- og menningarsvið.

Tímaáætlun: 2025

Kostnaður: Ófjármagnað

Stuðningur við listamenn

Aðgerð 2.1.

Auðvelda þarf nýliðun í viðburðahaldi og tryggja ósjálfbærum verkefnum rekstrargrundvöll.

Ef verkefni hefur hlotið styrk þrjú ár í röð hjá sveitarfélaginu verður hægt að sækja um langtímasamstarf. Lagt er til að stoðkerfi menningar­ og lista verði skoðað og hvort ástæða sé til að stofna framkvæmdasjóð menningar, líkt og framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið í samstarfi við stoðkerfi menningar og lista, ríki og bæ.

Tímaáætlun: 2025

Kostnaður: Vinna rúmast innan fjárhagsáætlunar.

Aðgerð 2.2. Húsnæði í biðstöðu hjá sveitarfélaginu.

Komið verði á fót tímabundnum verkefnarýmum fyrir listræn verkefni í húsnæði Múlaþings sem er í biðstöðu og úthlutað á sanngjörnu verði. Setja þarf upp kerfi sem auðveldar ferlið.

Virkja húsnæði eins og Samfélagssmiðjuna, félagsheimilin o.fl. sem mætti nýta betur, t.d. fyrir námskeiðahald, vinnustofur og fleira sem myndi falla undir sama kerfi.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið í samstarfi við framkvæmda­ og umhverfissvið.

Tímaáætlun: 2024-2025

Kostnaður: Leiga sem dekkar rekstur húsnæðis, t.d. hita og rafmagn.

Aðgerð 2.3.

Minnisvarðar og listaverk í almannarými.

Gera sérstaka úttekt á útilistaverkum og minnisvörðum í eigu sveitarfélagsins, kortleggja, kanna ástand og gera viðhaldsáætlun. Móta verklag um uppsetningu listaverka í almannarými þar sem horft verði til opinberra bygginga, opinna svæða í þéttbýli og víðerna sveitarfélagsins. Áætlun um kaup á útilistaverkum verði sett í farveg.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið í samstarfi við umhverfis og framkvæmdasvið.

Tímarammi: 2025-2026

Kostnaður: Vinna við úttekt og viðhaldsáætlun rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 2.4.

Rannsóknir og störf án staðsetningar.

Mikilvægt er að störfum án staðsetningar á sviði lista og menningar fjölgi og að listamönnum verði gert kleift að koma til dvalar (gestavinnustofur).

Skoða rannsóknir og störf án staðsetningar á sviði lista, fara á fund menningar- og viðskiptaráðherra og leita eftir samstarfi um málið. Vinna með og uppfæra lista yfir húsnæði fyrir störf án staðsetningar sem og til listadvalar. Leggja drög að því að slík aðstaða verði til staðar í öllum kjörnum sveitarfélagsins í samstarfi við hagaðila.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið í samstarfi við Austurbrú.

Tímaáætlun: 2025

Kostnaður: Vinna rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 2.5.

Menningarmiðstöðvar Múlaþings.

Styðja þarf sérstaklega við menningarmiðstöðvar Múlaþings með árlegu rekstrarfjárframlagi og leggja drög að frekari fjármögnun í samstarfi við SSA, Austurbrú og menningar- og viðskiptaráðherra.

Menningarmiðstöðvarnar gegna lykilhlutverki fyrir listamenn sem koma til starfa í sveitarfélaginu, leita eftir sýningaraðstöðu, dvalarstað eða annarri aðstöðu til listsköpunar.

Virkja þarf heimafólk með markvissum hætti, t.d. að bjóða því að sýna, virkja við uppsetningar og samstarf við atvinnulistamenn sem koma til starfa í húsunum.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið í samstarfi við forstöðumenn miðstöðvanna, SSA og Austurbrú.

Tímaáætlun: 2024

Kostnaður: Ófjármagnað. Samningur við SSA rennur út 2024. Vinna þarf sérstaklega að fjármögnun fyrir 20252030.

Aðgerð 2.6. Ferðastyrkir innanlands.

Atvinnu- og menningarmálasvið mun beita sér fyrir því að komið verði á sjóði í samstarfi við ríkið sem veitir sérstaklega ferðastyrkir innanlands vegna listviðburða og listamanna í sveitarfélaginu, líkt og áður þekktist hjá félagsheimilasjóði. Einnig að skoða hvort mögulegt væri að koma upp framkvæmdasjóði menningarmála líkt og þekkist varðandi uppbyggingu ferðamannastaða. Kostnaður við listviðburði er hærri úti á landi og mótvægisaðgerðir nauðsynlegar.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið í samstarfi við ríkið.

Tímaáætlun: 2024-2025

Kostnaður: Vinna rúmast innan fjárhagsramma.

Frá BRAS menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir

Menning og listir í öllum kjörnum

Aðgerð 3.1. Árlegir menningarviðburðir heimamanna í kjörnunum.

LungA hátíð, Bræðslan, Hammondhátíð, Ormsteiti, Skógardagurinn mikli, List í ljósi, BRAS, Rúllandi snjóbolti og aðrir árlegir lista- og menningarviðburðir þurfa á stuðningi að halda nú sem endranær. Viðburðir sem eru staðarstolt og gera sveitarfélagið áhugavert heim að sækja eru mikilvægir fyrir bæði íbúa og efnahag. Tryggja þarf að hátíðir nái að dafna áfram á eigin forsendum, frjálst og skapandi. Sveitarfélagið styrki áfram við viðburðina eins og rúmast innan fjárhagsramma hverju sinni líkt og verið hefur.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið

Tímaáætlun: Árlega

Kostnaður: Ófjármagnað að hluta til, auka þarf framlag til árlegra viðburða í samstarfi milli ríkis og sveitarfélags, sjá einnig aðgerð 2.6, ferðastyrkir innanlands.

Aðgerð 3.2. Endurskoðun á 17. júní, sjómannadeginum og áramótum. Dagskrá í öllum kjörnum.

Mikilvægt er að tryggja að sambærilegur stuðningur verði veittur til hátíðarhalda í öllum kjörnum Múlaþings.

Ábyrgð: Fjölskyldusvið, umhverfisog framkvæmdasvið, atvinnu- og menningarmálasvið.

Tímaáætlun: 2024.

Kostnaður: Vinna við endurskoðun, rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 3.3.

Samgöngur og menningarstrætó.

Kannað hvort hægt verði að bjóða upp á strætó samhliða viðburðum í kjörnum sveitafélagsins, t.d. með því að semja við sérleyfishafa sem sjá um áætlunarferðir milli staða um að færa til ferðir eða bæta inn í. Slíkar ferðir verði niðurgreiddar með fjármagni úr ríkissjóði.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið.

Tímaáætlun: 2025.

Kostnaður: Vinna við að kanna möguleikana, rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 3.4.

Sértækir samningar við Seyðisfjörð og Djúpavog.

Gera þarf úttekt á verkefnum eins og Miðstöð menningarfræða, Jaðarstyrk á Djúpavogi og stuðningi „norðausturnefndar“ við stöðugildi á Djúpavogi.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið.

Tímaáætlun: 2024.

Kostnaður: Vinna við að kanna möguleikana, rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 3.5.

Samstarf við þjóðarstofnanir í menningu og listum.

Leggja þarf ríka áherslu á samstarf við listastofnanir á borð við Þjóðleikhús og Listasafn Íslands, stofnanir sem samkvæmt samningi eiga að sinna ákveðnu hlutverki gagnvart landsbyggðinni. Útfærslu á slíku samstarfi þarf að vinna með forstöðumönnum viðkomamndi stofnana og ráðherra málaflokksins. Ljóst er að kostnaður við slíkt samstarf er stofnunum út á landi oft ofviða. Þessi tillaga tónar vel við áherslu um aðgengi og þátttöku (markmið 1 Listir um allt land) sem birtist í Menningarsókn mennta- og menningarráðuneytisins.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið, viðburðahaldarar og forstöðumenn listastofnana í Múlaþingi.

Tímaáætlun: 2024-2025.

Kostnaður: Vinna við að kanna möguleikana, rúmast innan fjárhagsramma.

Kjarvalshvammur, samastaður Jóhannesar S. Kjarval, í Hjaltastaðaþinghá norðan við Egilsstaði.
Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson

Menningararfur, -verðmæti og safnastefna

Aðgerð 4.1. Safnahúsið Egilsstöðum

Safnahús verður klárað og aðstaða safnanna í húsinu verður endurbætt, söfnin áfram aðgengileg fyrir alla, óháð stétt eða stöðu og söfnunum þremur gert kleift að sinna öflugra samfélagsstarfi. Mikilvægt er að gert verði ráð fyrir kostnaði við innanstokksmuni fyrir söfnin í húsinu, að unnin verði áætlun þar að lútandi áður en hafist er handa og að sú áætlun verði unnin í samráði við forstöðumenn. Uppbygging safnahússins rúmist innan fjárfestingaáætlunar sveitarfélagsins.

Ábyrgð: Umhverfis­ og framkvæmdasvið og bygginganefnd.

Tímaáætlun: 2024-2026.

Kostnaður: 330 milljónir eru í fimm ára fjárfestingaáætlun Múlaþings. Áætluð verklok 2026.

Aðgerð 4.2.

Samfélagsmiðjur Múlaþings.

Samfélagsmiðja hvers kjarna verði skilgreind, útfærð og kostnaðargreind. Tillaga verði sett fram í fjárhags- og fjárfestingaáætlun.

Bókasöfn Múlaþings standa á tímamótum og þurfa athygli við.

Móta þarf stefnu til framtíðar í samræmi við þær hugmyndir sem koma fram í menningarstefnunni kafla nr. 4, bls. 18.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið, bókasöfnin í Múlaþingi og heimastjórnir.

Tímaáætlun: 2025-2030.

Kostnaður: Ófjármagnað að stórum hluta. Vinna við undirbúning rúmast innan fjárhagsáætlunar.

Aðgerð 4.3. Lindarbakki, Borgarfirði eystri.

Lindarbakki fær fasta umsjón; starfsmann sem annast bæði viðhald og yfirsetu í samstarfi við áhaldahús Borgarfjarðar. Gera þarf áætlun um opnunartíma, viðhald og ráðningu starfsmanns. Kostnaður við rekstur starfsmanns rúmist innan fjárhagsramma hjá atvinnu- og menningarmálasviði og eignasviði framkvæmda­ og umhverfismála. Gera þarf áætlun um viðhald og setja á fjárfestingaáætlun.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálastjóri & framkvæmda- og umhverfisstjóri.

Tímaáætlun: 2024.

Kostnaður: Vinna við áætlun rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 4.4. Ríkarðshús Djúpavogi.

Stjórn Ríkharðshúss klárar vinnu sína varðandi húsnæðismál safnsins á árinu og gerir áætlun um næstu skref og fjármögnun.

Ábyrgð: Stjórn Ríkharðshúss og heimastjórn Djúpavogs.

Tímaáætlun: 2024.

Kostnaður: Sjóður Ríkharðshúss.

Aðgerð 4.5.

Félagsheimilið Herðubreið, Seyðisfirði.

Viðgerðir á hátíðarsal og klæðningu utanhúss. Almennt viðhald hefur lengi verið á dagskrá. Mikilvægt er að sú vinna klárist sem fyrst.

Ábyrgð: Umhverfis­ og framkvæmdasvið.

Tímaáætlun: 2024.

Kostnaður: 100 milljónir í fimm ára fjárfestingaáætlun Múlaþings.

Aðgerð 4.6.

Fjarðarborg, Borgarfirði eystri.

Verkefnið verði klárað á þeim grunni sem nú þegar liggur að miklu leyti fyrir. Rekstrarfyrirkomulag verði endanlega lagt fram til umfjöllunar og afgreiðslu hjá heimastjórn Borgarfjarðar og byggðaráði. Fjarðaborg verði samfélagsmiðja Borgarfjarðar.

Ábyrgð: Fulltrúi Betri Borgarfjarðar, heimastjórn Borgarfjarðar og framkvæmda­ og umhverfissvið.

Tímaáætlun: 2026.

Kostnaður: 214 milljónir á fimm ára fjárfestingaáætlun Múlaþings.

Aðgerð 4.7. Miðlun

Upplýsingar um menningararf svæðisins eru aðgengilegar fyrir alla. Menningarsvið sveitarfélagsins mun halda utan um kynningarmál í samstarfi við viðburðastjórnendur og stjórnendur menningarstofnana sveitarfélagsins. Merkingar og upplýsingaskilti við staði sem hafa menningar- eða sögulegt gildi verða yfirfarin og uppfærð eftir þörfum þar sem við á. Greining á kostnaði fer fram 2024.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið.

Tímaáætlun: 2024.

Kostnaður: Greiningarvinna rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 4.8. Varðveisla á menningarverðmætum.

Unnin verði greining á þörf fyrir geymsluhúsnæði, kortlagðar leiðir til úrbóta og fjármögnunar.

Ábyrgð: Söfnin í samstarfi við atvinnu- og menningarmálasvið Múlaþings.

Tímaáætlun: 2025.

Kostnaður: Undirbúningsvinna rúmast innan fjárhagsramma.

Aðgerð 4.9. Verndun gamalla húsa.

Vinna við verndarsvæði í byggð er í ferli á Seyðisfirði, Egilsstöðum og á Djúpavogi. Mikilvægi menningararfsins er dregið fram í dagsljósið, gömlum byggingum gefin ný hlutverk og menningararfurinn er sýnilegur og kynntur íbúum og ferðamönnum.

Ábyrgð: Menningar­, umhverfis­ og framkvæmdasvið, skipulagsfulltrúi.

Tímaáætlun: 2026.

Kostnaður: 4 milljónir áætlaðar í fimm ára fjárfestingaáætlun Múlaþings. Annars ófjármagnað.

Aðgerð 4.10. Hagræn áhrif menningar og menningartengdrar ferðaþjónustu.

Lögð verður áhersla á að hagræn áhrif menningar og menningarferðaþjónustu verði kortlögð. Sveitarfélagið leggur áherslu á að hagræn gögn verði unnin eins og kostur sé og að lykilstofnanir eins og Ferðamálastofa, Hagstofan og Austurbrú verði hvattar til að vinna að slíkri samantekt.

Ábyrgð: Menningarmálasvið.

Tímaáætlun: 2025.

Kostnaður: Rúmast innan fjárhagsáætlunar.

Aðgerð 4.11. Fornleifarannsóknir í Firði á Seyðisfirði.

Við gerð snjóflóðavarnargarða undir Bjólfi á Fjarðaröldu Seyðisfirði hefur samhliða verið unnið að fornleifarannsóknum. Antikva ehf hefur annast fornleifauppgröft og rannsóknir frá árinu 2021 til dagsins í dag. Við uppgröftinn hafa fundist merkir munir og mannvistaleifar frá landnámi sem mikilvægt er að varðveita og miðla. Unnið verði að því að svæðið verði aðgengilegt ferðamönnum þegar uppgreftri og uppbyggingu varnargarða verður lokið. Gæta skal að því að samstarf verði um frágang á svæðinu.

Ábyrgð: Atvinnu- og menningarmálasvið og framkvæmda­ og umhverfissvið í samstarfi við Minjastofnun, Antikva ehf og Ofanflóðasjóð.

Tímaáætlun: 2024 - 2025

Kostnaður: Undirbúningur og skipulagning rúmast innan fjárhagsáætlunar.

Tónlistarflutningur Ínu Berglindar Guðmundsdóttur við úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands.
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.