3 minute read

MARKAÐSSETNING & KYNNINGARMÁL

MEKÓ festir sig í sessi

Nýtt merki menningarmála í Kópavogi, MEKÓ, náði að festa sig í sessi á árinu en allir viðburðir styrktir af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar eru nú annað hvort auglýstir undir merki MEKÓ eða merktir með lógó MEKÓ.

Advertisement

Farið var í herferðir á árinu til að auka meðvitund um MEKÓ sem heimili menningarmála í Kópavogi. Í lok ársins 2021 var gerður 6 mánaða samningur við Billboard um auglýsingar á strætóskýlum og auglýsingaskiltum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið fyrir sýningar í Gerðarsafni, tónleika í Salnum og MEKÓ. Þessi auglýsingaleið jók verulega meðvitund um vörumerki MEKÓ og var þessi miðill því notaður meira á árinu til að auglýsa MEKÓ, Salinn og Gerðarsafn.

Fjárfest var í föstum auglýsingakubbi á forsíðu Kópavogspóstsins til að auka meðvitund um MEKÓ og er merki MEKÓ því ávallt á forsíðu póstsins. Einnig var gerður samningur við RÚV um fasta birtingu í skjáauglýsingum á skjávarpinu á RÚV2. Sá vettvangur er nýttur til að vekja athygli á MEKÓ en einnig eru sýningar og viðburðir auglýstir sérstaklega þar.

Dregið var úr notkun samlesinna auglýsinga en þess í stað var meira sett í birtingar á leiknum auglýsingum fyrir MEKÓ, Fjölskyldustundir á laugardögum og Menningu á miðvikudögum. Einnig birtust reglulega MEKÓ borðar á síðum Fréttablaðsins.

Mekó.is

Ný heimasíða MEKÓ var opnuð í ágúst 2022 en meko.is er fjölmiðill þar sem safnað er saman öllum menningarviðburðum í bæjarfélaginu, ásamt menningartengdum fréttum.

Menningartímarit

Í fyrstu bylgju Covid-19 árið 2020 fæddist sú hugmynd að gefa út menningartímarit fyrir Kópavogsbúa.

Þann 1. september 2022 kom út þriðja menningartímarit Kópavogs. Brynhildur Björnsdóttir blaðakona var ráðin sem blaðamaður tímaritsins þriðja árið í röð og skrifaði hún áhugaverðar listaog menningartengdar greinar fyrir það. Basic markaðsstofa sá um uppsetningu blaðsins í takt við nýja ásýnd menningarmála í Kópavogi, MEKÓ. Íris María Stefánsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri menningarmála í Kópavogi, var ritstjóri blaðsins. Blaðið fékk með eindæmum góð viðbrögð og auðsjáanlegt að MEKÓ tímaritið er komið til að vera, enda frá mörgu að segja þegar kemur að hinu blómlega menningarlífi sem fyrirfinnst í Kópavogi. MEKÓ tímaritið var prentað í 3.500 eintökum og var hægt að nálgast blaðið víðsvegar um Kópavog, þar á meðal í menningarstofnunum bæjarins.

Menningarhúsin á samfélagsmiðlum

Samfélagsmiðlar, og þá sérstaklega Facebook, eru orðnir einn stærsti vettvangur kynningarstarfs menningarmála í Kópavogi. Allar menningarstofnanirnar eru með sína eigin Facebook-síðu, að Héraðsskjalasafni undanskildu. Fylgni húsanna á samfélagsmiðlum hefur aukist til muna á árinu og má tengja það við aukna virkni stofnananna á miðlunum. Instagram hefur einnig verið að færast í aukana hjá stofnununum og hefur fylgi þeirra á Instagram aukist svo um munar.

Á árinu voru samfélagsmiðlar helsti vettvangur auglýsinga fyrir fasta viðburði og hátíðir ásamt því að reglulega var farið í auglýsingaherferðir til að minna á MEKÓ og kynna nýja heimasíðu.