2 minute read

ÁVARP FORSTÖÐUMANNS MENNINGARMÁLA

Þegar horft er yfir litríkt og fjölbreytt starfsár menningarmála árið 2022 endurspeglast sú ástríða og metnaður sem starfsfólk menningarmála leggur í störf sín. Stórauknar aðsóknartölur síðasta árs sýna einnig að breiður hópur gesta kunni vel að meta þann fjölbreytileika menningarviðburða sem boðið var upp á. Forstöðumenn menningarhúsanna hafa stýrt starfseminni af mikilli hugmyndaauðgi og sköpunarkrafti og notið þar liðsinnis verkefnastjóra menningarmála og starfsmanna sinna.

Á síðasta ári voru fastir starfsmenn menningarmála um 36 í 32,7 stöðugildum og 34 starfsmenn í tímavinnu. Einnig voru ráðnir til einstakra starfa hátt í 600 starfsmenn úr ólíkum geirum menningar- og fræðasamfélagsins auk tækni- og iðnaðarmanna. Þannig var virðisauki af starfsemi menningarmála ekki einungis á sviði andlegrar upplyftingar fyrir gesti heldur einnig sem atvinnuskapandi starfsvettvangur fyrir hundruð lista- og fræðimanna.

Advertisement

Árið 2022 heimsóttu 281.840 gestir menningarhús bæjarins sem er 48% aukning á milli ára og og eru þetta fleiri gestir en áður en heimsfaraldur skall á. Alls tóku 64.022 gestir þátt í þeim 962 viðburðum sem boðið var upp á fyrir almenning og skóla í menningarhúsunum árið 2002, sem er 54% aukning á fjölda gesta milli ára og voru að meðaltali 32% fleiri gestir á hverjum viðburði árið 2022. Þessi gríðarlega aukning er vissulega mjög ánægjuleg og góð vísbending um að samfélagið sé að rétta úr kútnum eftir kórónuveirufaraldurinn.

Eins og undanfarin ár snerist stór hluti starfseminnar um menningarfræðslu fyrir leik- og grunnskólabörn í Kópavogi. Kappkostað var að bjóða upp á skapandi og örvandi verkefni fyrir börnin í öllum menningarhúsunum og með alþjóðlega verkefninu Vatnsdropanum sem hundruð barna í Kópavogi tóku þátt í. Alls sóttu 11.493 börn og ungmenni á öllum skólastigum menningarhúsin heim í 449 heimsóknum og skipulögðum fræðsluviðburðum.

Þetta er í fimmta sinn sem ársskýrsla menningarmála og starfsáætlun er gefin út með þessu sniði. Tilgangur hennar er að gefa ítarlegt yfirlit yfir helstu rekstrarþætti í starfsemi menningarmála í Kópavogi eins og gestaheimsóknir, viðburði, fræðslu, fjármál og mannauðsmál, auk víðtæks yfirlits yfir starfsemi hvers menningarhúss fyrir sig. Skýrslan telur 88 blaðsíður og er tekin saman af forstöðumönnum húsanna og forstöðumanni og verkefnastjórum menningarmála.

Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi

This article is from: