5 minute read

MENNINGARSTEFNA KÓPAVOGS

AÐGENGI – FAGMENNSKA – SAMSTARF

Lista- og menningarráð ber ábyrgð á menningarstefnu Kópavogsbæjar sem nær til alls lista- og menningarstarfs á vegum bæjarins. Vinna við nýja menningarstefnu Kópavogsbæjar hófst undir lok árs 2021 og var hún samþykkt í bæjarstjórn 5. maí 2022. Þar með féll úr gildi menningarstefna bæjarins frá maí 2015. Menningarstefnan tekur mið af yfirmarkmiðum bæjarins sem meðal annars lúta að öflugu mannlífi, framúrskarandi þjónustu við bæjarbúa og stuðningi við heilsu og velferð íbúa á öllum aldri. Menningarstefnan var unnin í samstarfi lista- og menningarráðs og starfsmanna menningarmála. Áður en stefnan var samþykkt fór hún í samráðsgátt fyrir íbúa sem höfðu þannig áhrif á niðurstöðu hennar. Einnig var stefnan lögð fram til umsagnar fyrir nefndir og ráð allra sviða bæjarins.

Advertisement

Megintilgangur menningarstefnu Kópavogs lýtur að eflingu menningar, vísinda og lista með það að markmiði að stuðla að bættum lífsgæðum og menningarupplifun Kópavogsbúa á öllum aldri. Öflugt og fjölbreytt starf í menningu, listum og vísindum styrkir bæjarbrag, eykur víðsýni, örvar samfélagið í heild og styður við efnahagslega framþróun þess. Síðast en ekki síst viðheldur það jákvæðri ímynd bæjarins og laðar að gesti og nýja íbúa.

Menningarstefnan felur í sér þrjár stefnuáherslur sem lúta í fyrsta lagi að jöfnu aðgengi allra að menningu, vísindum og listum, óháð m.a. aldri, uppruna, færni og efnahag. Í annan stað lúta áherslurnar að sérstöðu og faglegu starfi menningarhúsa bæjarins og að endingu að víðtæku samstarfi.

Stefnuáhersla 1

Kópavogsbær leggur áherslu á að menningarstarf sé aðgengilegt öllum bæjarbúum.

Stefnuáhersla 2

Kópavogsbær stendur vörð um sérstöðu og faglegt starf menningarhúsa bæjarfélagsins.

Stefnuáhersla 3

Kópavogsbær leggur áherslu á víðtækt samstarf við bæjarbúa, svið og deildir bæjarins og lista-, fræði- og vísindamenn úr ólíkum áttum.

BÆJARLISTAMAÐUR

Leikarinn Guðjón Davíð Karlsson, Gói, var valinn bæjarlistamaður Kópavogs 2022 við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni fimmtudaginn 19. maí. Þar komu fram þau Jón Ólafsson píanóleikari og Katrín Halldóra Sigurðardóttir og fluttu lög sem tengjast leikhúsinu. Guðjón er einn af eftirlætis leikurum þjóðarinnar og hefur skipað sér sess sem handritshöfundur fyrir leikhús og sjónvarp og leikstýrt leikritum og sjónvarpsþáttum. Hlutverk bæjarlistamanns Kópavogs er að vinna með Kópavogsbæ að því að efla áhuga á list og listsköpun í bænum og taka þátt í viðburðum bæjarins með það að leiðarljósi. Styrkupphæð bæjarlistamanns er 1,5 milljón króna. Meðal verkefna bæjarlistamanns á árinu er að semja og frumflytja barnaleikrit ásamt Þresti Leó Gunnarssyni sem börnum í Kópavogi verður boðið á.

STYRKIR LISTA- & MENNINGARRÁÐS

Ráðstöfunarsjóður lista- og menningarráðs árið 2022 var kr. 42.270.300 og hækkaði um tæp 0,75% á milli ára. Lista- og menningarráð úthlutaði kr. 5.243.875 til auka- og skyndiverkefna á árinu 2022. Við aðalúthlutun sjóðsins í desember bárust ráðinu 56 umsóknir vegna lista- og menningarverkefna sem koma eiga til framkvæmda árið 2023. Við aðalúthlutunina úthlutaði ráðið alls kr. 15.248.000 til 27 umsækjenda.

Athöfn fór fram í Salnum og við það tilefni komu fram þau Kristjana Stefánsdóttir söngkona, Þorgrímur Jónsson bassaleikari og Karl Olgeirsson hljómborðsleikari og fluttu ljúfa jólatónlist í jazzbúningi.

Hæsta styrk ráðsins, eða kr. 5.000.000, hlaut Menningarfélagið Rebel Rebel til að standa fyrir listahátíðinni Hamraborg Festival í ágúst. Y gallery hlaut kr. 1.500.000 til sýningahalds í Olís bensínstöðinni við Hamraborg. Ævintýraleiksýning Guðjóns Davíðs Karlssonar og Þrastar Leós Gunnarssonar sem sett verður upp í Salnum á vordögum hlaut kr. 1.000.000 og Úlfur Eldjárn hlaut kr. 600.000 til að ljúka gerð kvikmyndar um hljóðverkið Hamraborgin - Óður til hávaða sem flutt verður í Salnum.

Aðrir sem hlutu styrki frá ráðinu voru:

Kvennakór Kópavogs, Samkór Kópavogs og Karlakór Kópavogs til æfinga og tónleikahalds.

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir, Johanna Gossner, Mercedes Bravo og Rannveig Marta Sarc fyrir tvenna tónleika í Salnum á Óperudögum.

Peter Máté og Kristinn Sigmundsson til tónleikahalds fyrir eldri borgara í Kópavogi og tónleika í Salnum.

Íslenska einsöngslagið fyrir síðari hluta tónleikaraðarinnar sem haldin er í Salnum.

Örn Árnason og Jónas Þórir fyrir ókeypis tónleika fyrir eldri borgara í Kópavogi tileinkaða minningu Sigfúsar Halldórssonar.

Bjarni Lárus Hall til tónlistarflutnings fyrir eldri borgara í Kópavogi.

Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran og Guðrún Dalía Salómonsdóttir fyrir stofutónleikana Níu ljóð úr Þorpinu eftir Jón úr Vör.

Tímaritið Són og Óðfræðifélagið Boðn fyrir málþing um bókmenntagagnrýni í fjölmiðlum.

Catherine Maria Stankiewicz til undirbúnings og listrænnar tónlistaruppákomu á leikskólum í Kópavogi.

Hanna Jónsdóttir fyrir gerð textaverka utanhúss í útjaðri Kópavogs og smiðjur þeim tengdar.

Bylgjur í báðar áttir, þau Heiða Árnadóttir og Gunnar Gunnarsson til að halda þrenna tónleika í heimahúsum í þremur hverfum Kópavogsbæjar.

Hólmfríður Hafliðadóttir og Magnús Thorlacius fyrir einleikinn Flokkstjórinn sem fluttur verður nokkrum sinnum utandyra í Grandahvarfi.

Ólafur Freyr Birkisson og hópur tónlistarmanna til að flytja nýjan, íslenskan söngvaflokk í Salnum.

Björg Árnadóttir til að halda ritsmiðjur á Bókasafni Kópavogs.

Sirkus Ananas til að bjóða upp á sirkussýningar og -kennslu fyrir áhorfendur.

María Sól Ingólfsdóttir og félagar til tónleikahalds í Kópavogskirkju á föstudaginn langa.

Sunna Gunnlaugsdóttir ásamt átta öðrum konum til að halda tónleika með tónsmíðum eftir íslenskar konur frá síðustu öld.

Menntaskólinn í Kópavogi til að setja upp Litlu hryllingsbúðina á 50 ára afmæli skólans.

Sögufélag Kópavogs til reksturs félagsins.

Tónskáldafélag Íslands fyrir tónleika- og viðburðarhald á Myrkum músíkdögum í Salnum og Gerðarsafni.

Lista- og menningarráð styrkir einnig fjölbreytta menningarstarfsemi og hátíðir í menningarhúsunum sem gestum stendur til boða endurgjaldslaust, m.a. Barnamenningarhátíð, Vetrarhátíð, Ljóðstaf Jóns úr Vör og sameiginlega viðburði sem menningarhúsin skipuleggja undir heitunum Menning á miðvikudögum, Fjölskyldustundir á laugardögum og Foreldramorgnar á fimmtudögum. Þá velur ráðið árlega bæjarlistamann Kópavogs með framlagi að upphæð kr. 1.500.000. Ráðið leggur til verðlaunafé að upphæð kr. 1.000.000 fyrir myndlistarverðlaun sem kennd eru við Gerði Helgadóttur, kr. 3.500.000 til listaverkakaupa Gerðarsafns, um kr. 1.500.000 til nýsköpunar í tónsmíðum sem Salurinn stendur fyrir og fjármagnar tónleikaraðir Salarins eins og Tíbrá og Sumardjass. Ráðið samþykkti einnig á síðasta ári að leggja til hliðar kr. 3.000.000 árlega sem nýtast eiga til kaupa á nýju útilistaverki.