5 minute read

LISTA- & MENNINGARFRÆÐSLA

Jazzbadass | Unglingastig

Í mars 2022 var öllu unglingastigi í grunnskólum Kópavogs boðið á jazztónleikasýningu í Salnum. Sunna Gunnlaugsdóttir, jazztónskáld og píanóleikari, setti saman tónleikasýninguna en Sunna er bæjarlistamaður Kópavogsbæjar árið 2021. Hljómsveitina skipuðu auk Sunnu þau Margrét Eir söngkona, Leifur Gunnarsson á bassa og Scott McLemore á trommur.

Advertisement

Um var að ræða nokkurs konar þeysireið um jazzinn, allt frá árdögum hans í New Orleans og til okkar tíma. Leiknar voru nokkrar af einkennisperlum jazzins og inn í tónleikana fléttuðust fróðleiksmolar, landafræði og spurningakeppni þar sem sigurvegarinn var krýndur jazzbadass! Tónleikarnir tóku um 40 mínútur í flutningi og var boðið upp á ferna tónleika.

Kópavogsskóli, Smáraskóli og Vatnsendaskóli þáðu boðið. Gestir voru alls 349.

Búkolla | 3. bekkur

Þann 8. apríl var þriðju bekkingum í grunnskólum Kópavogs boðið á splunkunýtt tónlistarævintýri, Búkollu. Verkið, sem er eftir Gunnar Andreas Kristinsson, er fyrir sögumann, klarínett, píanó, slagverk og kontrabassa. Sögumaður var Huld Óskarsdóttir og með henni komu fram þau Ármann Helgason, Sólborg Valdimarsdóttir, Kjartan Guðnason og Hávarður Tryggvason. Tónleikarnir tóku um 30 mínútur og var boðið upp á tvenna tónleika.

Álfhólsskóli, Kópavogsskóli, Kársnesskóli Kópavogsskóli, Lindaskóli, Salaskóli og Vatnsendaskóli, þáðu boðið. Gestir voru alls 363.

Manndýr | 2. bekkur

Öðrum bekkingum var boðið á sýninguna Manndýr, barna- og þátttökuverk eftir Aude Busson í maí. Verkið skoðar hlutverk manneskjunnar í heiminum með augum barna, en verkið og hljóðmynd þess var að miklu leyti byggt á viðtölum Aude við börn. Gestum er boðið inn í heim þar sem hægt er að upplifa með eyrum, augum og höndum, sjálf eða í samvinnu. Sýningarnar voru sex talsins en einungis var rými fyrir um 30 gesti á hverja sýningu og er sýningin um klukkutími að lengd.

Álfhólsskóli, Kópavogsskóli, Lindaskóli og Smáraskóli þáðu boðið. Gestir voru samtals 180.

Stefnumót við listamann | 4. bekkur

Gói Karlsson, bæjarlistamaður Kópavogs 2022, tók á móti fjórðu bekkingum á Bókasafni Kópavogs í byrjun haustsins 2022 og spjallaði við þá um sköpun, bóklestur og fleira út frá alls kyns sjónarhorni.

Pinquins | 3. bekkur

Tónleikar með Pinquins í október í Gerðarsafni. Á tónleikunum var áhorfendum boðið upp á óvenjulegt og náið ferðalag þar sem hljóðið var rannsakað frá ýmsum sjónarhornum. Hristur, vasadiskó, söngur, og hópgöngutúr, klukkan tifar og fimm mínútur koma aftur og aftur. Pinquins er slagverkstríó frá Osló og samanstendur af Sigrun Rogstad Gomnæs, Jennifer Torrence og Ane Marthe Sørlien Holen. Tónleikarnir fóru fram inni í sýningunni Geómetríu, börnin sátu á gólfinu og tónlistarkonurnar færðu sig um rýmið. Hörðuvallaskóli, Kópavogsskóli og Lindaskóli þáðu boðið. Gestir voru alls 198.

Ein stór fjölskylda | 7. bekkur

Gunnar Helgason og Felix Bergsson, betur þekktir sem Gunni og Felix, buðu upp á sambland af fræðslu og skemmtun í október í Salnum. Gunnar var með fyrirlestur um hvernig á að skrifa geggjaðar sögur og Felix með fyrirlestur um mismunandi fjölskylduform. Að fyrirlestrum og spurningum loknum skemmtu þeir krökkunum með söng og glensi. Sýningin var um klukkustund að lengd og var boðið upp á hana tvisvar.

Álfhólsskóli, Kársnesskóli, Kópavogsskóli, Lindaskóli, Smáraskóli, Snælandsskóli og Vatnsendaskóli þáðu boðið. Samtals voru 408 gestir.

Góðan daginn, faggi | 10. bekkur

Heimildasöngleikurinn Góðan daginn, faggi eftir Bjarna Snæbjörnsson og Grétu Kristínu Ómarsdóttur var sýndur í nóvember í Salnum. Fram komu Bjarni Snæbjörnsson og Axel Ingi Árnason. Verkið er sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur þar sem fertugur hommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag.

Eftir vandasaman leiðangur um innra líf sitt og fortíð og samtíma rekst hann á rætinn hommahatara á óvæntum stað. Sýningin er berskjaldandi leiðangur um skömm og mennsku og einlægt samtal við drauminn um að tilheyra. Sýningin er um 60 mínútur að lengd og var hún sýnd tvisvar.

Álfhólsskóli, Hörðuvallaskóli, Kársnesskóli, Kópavogsskóli, Lindaskóli, Salaskóli, Smáraskóli, Snælandsskóli, Vatnsendaskóli og Waldorfskóli þáðu boðið. Samtals 517 gestir mættu á sýninguna.

Jólakötturinn | elsta stig leikskóla

Fræðandi og skemmtileg jólakattastund á Bókasafninu. Á Náttúrufræðistofu var heimur fjölmargra kattategunda kynntur á spennandi hátt og nemendur fengu að taka virkan þátt í dagskránni og bregða á leik.

Menningarkrakkar

Vikuna 15.- 19. ágúst var boðið upp á sumarnámskeiðið Menningarkrakkar sem leitt var af myndlistarfólkinu Þór Sigurþórssyni og Hildigunni Birgisdóttur. Átján börn sóttu námskeiðið sem haldið var frá mánudegi til föstudags, frá 9 – 11 alla daga.

Forvitni var höfð að leiðarljósi í vettvangsferðum um menningarhúsin og nágrenni þeirra. Skapandi æfingar á hoppudýnu og óstýrilátar fyrirsætur komu við sögu og í listasmiðjum var sköpunarkrafturinn leystur úr læðingi með spennandi efniviði svo sem bleki og gifsi. Vikunni lauk með uppskeruveislu í fordyri Náttúrufræðistofu Kópavogs föstudagsmorguninn 19. ágúst og var foreldrum boðið að sækja opnunina.

Vetrar- og haustfrí grunnskólanna

Venjan er að í vetrar- og haustfríum grunnskóla Kópavogs bjóði Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs og Náttúrufræðistofa Kópavogs upp á skemmtilegar og fjölbreyttar smiðjur fyrir börn og þeirra fylgifiska. Vetrarfrí grunnskólanna var 17.-19. febrúar og var m.a. boðið upp á barmmerkjasmiðju, perl, 3D penna, sólarprentsmiðju og bíó. Haustfrí grunnskólanna var 24.-25. október og var þá m.a. boðið upp á skrímslabókasmiðju, barmmerkjasmiðju, hrekkjavökuperl og bíó. Ókeypis var á sýningar í Gerðarsafni fyrir fullorðna í fylgd barna og ratleikur var í boði á öllum hæðum aðalsafns Bókasafnsins.

This article is from: