5 minute read

MENNING Í KÓPAVOGI

Mikil uppsveifla var í viðburðahaldi og -aðsókn á árinu eftir takmarkanir síðustu ára vegna kórónuveirufaraldursins. Var það starfsmönnum menningarmála mikið fagnaðarefni að geta þannig að nýju hafið hefðbundið starf snemma ársins 2022. Auk þess var unnið að viðhaldi og endurnýjun á búnaði og tækjakosti fyrir menningarhúsin á árinu.

Styrkur menningarmála Kópavogsbæjar felst í staðsetningu menningarhúsa. Þau eru miðsvæðis og mynda einn klasa við fallegan opinn garð sem er mjög vinsæll meðal bæjarbúa. Húsin eru glæsileg hvert um sig og sérstaklega hönnuð og byggð fyrir starfsemina sem þar fer fram. Mikið og gott samstarf milli húsa tryggir þéttofna dagskrá allt árið um kring sem höfðar til breiðs hóps samfélagsins. Þó vissulega sé styrkur að staðsetningu menningarhúsanna á litlum bletti hefur það þá ókosti í för með sér að lengra er fyrir íbúa í austurhluta bæjarins og efri byggðum að sækja þau heim. Þessu hefur starfsfólk menningarmála reynt að mæta með því að dreifa viðburðum um bæinn rétt eins og gert hefur verið með 17. júní hátíðarhöldin síðastliðin ár. En sá galli er á gjöf Njarðar að það er fátt um góða aðstöðu fyrir menningarviðburði

Advertisement

Aino Freyja Järvelä forstöðumaður annars staðar en í húsunum við Hamraborgina og brýnt að taka á þeim annmarka sem fyrst. Síðla árs 2021 var stofnaður stýrihópur um þróun starfsemi íþróttahússins Kórsins þar sem skoðað var hvort unnt væri að nýta auð rými hússins undir bókasafn og menningarstarfsemi. Starfshópurinn lauk ekki formlegu starfi árið 2022 og enn liggja ekki fyrir frekari áform fyrir staðsetningu nýrrar menningarmiðstöðvar í efri byggðum. Þó má binda vonir við að þær hugmyndir verði að veruleika á næstunni þar sem kveðið er á í málefnasamningi meirihlutans 2022-2026 að stuðlað verði að því að menningarkjarnar verði starfræktir í efri byggðum.

ÞETTA GERÐIST Á ÁRINU

Hér að neðan verður stiklað á stóru yfir helstu verkefni ársins:

Nýtt merki MEKÓ, Menning í Kópavogi, var kynnt á árinu sem yfirskrift menningarmála í Kópavogi. Við sama tilefni var opnuð ný yfirheimasíða menningarmála og í kjölfarið fylgdu nýjar heimasíður menningarhúsanna. Því verkefni lýkur í ársbyrjun 2023.

Vatnsdropinn óx og dafnaði á árinu og voru fjölmargir viðburðir og smiðjur unnar undir merkjum hans.

Kópavogi stóð til boða á árinu að senda inn umsókn um að fá tilnefningu sem ein af Menningarborgum Evrópu árið 2028. Eftir umræður um málið tók bæjarráð þá ákvörðun að sækja ekki um en hugsanlega að sæta færis á næstu árum.

Áfram var unnið með endurskoðun á starfsmati og endurröðun starfa og sér vonandi fyrir endann á því árið 2023.

Starfsviðtöl voru tekin hjá forstöðumönnum og verkefnastjórum menningarmála í marsmánuði þar sem farið var yfir starfslýsingar og önnur brýn málefni eins og gert er ráð fyrir.

Starfsmenn menningarmála áttu í góðu samstarfi við hóp ungmenna í Skapandi sumarstörfum sem stýrt er af Molanum ungmennahúsi. Þátttakendur gátu nýtt menningarhúsin sem sinn vettvang og notið fagþekkingar starfsmanna þeirra og sömuleiðis nutu menningarhúsin góðs af samstarfinu við hópinn sem stóð fyrir ýmsu viðburðahaldi fyrir bæjarbúa.

Forstöðumenn og verkefnastjórar menningarmála héldu starfsdag að vori þar sem farið var yfir komandi dagskrárviðburði og þær áherslur sem framundan voru.

Samhliða gerð menningarstefnu var tekin saman aðgerðaáætlun menningarmála sem notuð var til hliðsjónar við gerð stefnumiðaðrar fjárhagsáætlunar fyrir 2023. Fjárheimildir ársins 2023 voru ekki auknar en í sumum tilfellum var gerð breyting vegna vísitöluhækkana. Stuðst verður við aðgerðaráætlun málaflokksins eins og kostur er á árið 2023.

Kópavogsbær stóð fyrir vinnustaðagreiningu meðal allra starfsmanna. Þátttaka starfsmanna menningarmála var rúm 90% sem telst mjög gott. Starfsánægja, hollusta og tryggð komu vel út en unnið verður með þætti sem kunna að bæta það sem kom síður út, eins og starfsþróun.

Forstöðumenn og verkefnastjórar menningarmála, almannatengill bæjarins og formaður lista- og menningarráðs héldu í starfsþróunarferð til Oslóar í október þar sem þau sóttu fyrirlestra og erindi ólíkra menningarstofnana auk þess að skoða starfsemi þeirra. Samantekt um helstu niðurstöður ferðarinnar var kynnt á almennum starfsmannafundi og verður unnið með afraksturinn árið 2023. Ferðin var styrkt af Starfsþróunarsetri BHM.

Í vor sótti stór hópur alþjóðlegra Rótarýfélaga menningarhúsin heim og fékk kynningu á starfsemi þeirra.

Í borgar- og sveitastjórnarkosningum í maí urðu bæjarstjóraskipti í Kópavogi þegar Ármann Kr. Ólafsson hætti og við tók Ásdís Kristjánsdóttir. Á sama tíma tóku fjölmargir nýir pólitískir fulltrúar til starfa og þar með nýtt lista- og menningarráð.

Undir lok ársins hófst stjórnsýsluúttekt KPMG á menningarhúsum bæjarins samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar. Áætlað er að úttektinni ljúki fyrri hluta árs 2023.

Í fyrsta skipti stóð lista- og menningarráð fyrir vali á jólahúsi Kópavogsbæjar og varð Múlalind 2 fyrir valinu, en bæjarbúar sýndu framtakinu mikinn áhuga. Bryddað var upp á fleiri nýjungum í kringum aðventuna; meðal annars var úbúið kort á heimasíðu bæjarins þar sem hægt var að sjá aðventutengda viðburði.

Fráfarandi forstöðumaður menningarmála í Kópavogi, Arna Schram, sem lét af störfum hjá Kópavogsbæ árið 2017, féll frá langt fyrir aldur fram á árinu. Eru henni þökkuð góð störf í þágu menningarmála hjá bænum.