
3 minute read
Fermingardagurinn minn
Jón Örvar van der Linden
Fermdist árið 1984
Advertisement

Ég og frændi minn vorum að fermast á sama tíma og fermdist ég með hans hópi en ekki með bekkjarfélögunum mínum. Ég hafði voða lítið um undirbúninginn að segja enda líklega með lítinn áhuga á því. Fermingarveisluna héldum við frændurnir saman í Flugbjörgunarsveitarhúsinu á Akureyri þar sem að fjölskyldan okkar kom saman. Fermingin fór fram í Akureyrarkirkju. Ég var mjög stressaður í kirkjunni og þegar röðin kom að mér þá kinkaði ég kolli en presturinn var búinn að ítreka það áður að segja já hátt og snjallt.
Eftirminnilegasta gjöfin var kassettutæki frá mömmu og pabba og reglustika sem var með innbyggðri reiknivél. Tónlistin sem ég hlustaði á þessum tíma var m.a. Duran Duran. Það voru tveir kokkar í fjölskyldunni sem að sáu um veitingarnar en það var bæði matur og kökur. Fötin valdi ég nú ekki sjálfur en eins og sjá má á myndinni er ég í gráum jakka í svörtum buxum með hvítt belti, hvítri skyrtu með lakkrísbindi.
Lind Hrafnsdóttir

Fermdist árið 1996
Ég fermdist sunnudaginn 14. apríl 1996 í Landakirkju.
Mamma leyfði mér að fá strípur í hárið nokkrum dögum fyrir ferminguna. Annars var farið í greiðslu eldsnemma á sunnudagsmorgni þar sem að fermingin byrjaði kl. 11. Lítil sem engin förðun.
Ég kom ekki mikið að undirbúningnum nema vali á fatnaði. Við mamma fórum í bæjarferð til Reykjavíkur og keyptum bæði kjól og skó í Gallerí Sautján. Veislan var haldin heima og var þar nánastu ættingjum og vinum boðið.
Þemaliturinn var grænn og voru keyptar áletraðar servíettur með nafninu mínu og fermingardegi. Grænir dúkar voru á borðunum.
Í veislunni var boðið uppá hlaðborð með alls kyns kræsingum og að sjálfsögðu kransakaka skreytt með machintoshi sem mér finnst reyndar ekkert góð. Eftirminnilegasta gjöfin eru hljómtækjagræjur með geislaspilara fyrir þrjá geisladiska og tveimur kasettuhólfum sem ég fékk frá mömmu og pabba. Ég fékk línuskauta, um 140.000 í peningum, náttföt, skartgripi, penna og pottþétt fullt í viðbót. Einnig fékk ég slatta af skeytum.
Sæþór Vídó
Fermdist árið 1992

Að rifja upp það sem er löngu liðið er nú ekki alveg mín sérgrein. En ég man nú eftir að hafa séð einstaka ljósmynd úr veislunni. Hún fór að sjálfsögðu fram í Þórsheimilinu eins og stór hluti minnar æsku. Ef ég þekki móður mína rétt þá hefur verið þar heljarinnar kökuborð og væntanlega flatkökur með hangikjöti, enda í miklu uppáhaldi. Og ég er líka nokkuð vissum að veisluföngin dugðu okkur langt fram eftir vori. Ég man svo sem lítið eftir fermingardeginum og veislunni en ég man þó að við strákarnir eyddum henni að megninu til niðri í íþróttasalnum og svitnuðum lífinu í fermingarfötin.
Fermingargjafirnar voru nokkuð í takt við tíðarandann. Sanyo hljómflutningsgræjur, með tvöföldu kasettutæki, plötu- og geislaspilara. Einhver pennasett voru á meðal gjafa, rakvél og ýmislegt fleira. Ég man sérstaklega eftir því að hafa fengið brúnt leðurveski merkt mér frá afa Núma sem skemmdist síðar í grenjandi rigningu mér til mikillar mæðu. Einhverjir peningar voru líka í spilunum en ég get ómögulega munað hversu miklir. Man þó að ég keypti mér sjónvarp fyrir hluta fermingarpeninganna, að Sanyo gerð, heilar 13 tommur.
Kristín Halldórsdóttir

Fermdist árið 1999
Ég fermdist 18. apríl 1999, degi fyrir afmælið mitt og var þetta lang fjölmennasti fermingardagurinn það árið sem þýddi að kirkjan var þétt setin. Það varð rosalega heitt inni í kirkju þar sem blíðskapar veður var úti og sólin skein. Eitthvað var einn fermingardrengurinn illa fyrir kallaður, í jakkafötum og fermingarkirtli, í þessum hita því það steinleið yfir hann í miðri athöfn. Annars gekk athöfnin þokkalega þó löng hafi verið og vona ég innilega að Ágúst Halldórs hafi nú samt átt góðan fermingardag þrátt fyrir þessa byltu.
Ég man að það var mikil spenna í kringum ferminguna mína. Við mamma ákváðum að þema liturinn yrði vínrauður. Finnur teiknikennari skrifaði á fallegt vínrautt kerti, við vorum með áprentaðar vínrauðar servéttur og hárskrautið mitt var vínrautt og hvítt. Ég fór eldsnemma þennan morgun í greiðslu til Guðbjargar hár og var hrikalega ánægð með hárið á mér. Ég man að ég keypti fermingarkjólinn minn í Flamingo og skórnir sem ég var í voru með svakalega háum botni. Veislan var í Akóges og boðið var upp á kökur og kaffi.
Ég man eftir ótrúlega mörgum gjöfum sem ég fékk. Ég fékk 116.000 í peningum, yfir 100 skeyti, sængurverasett, teppi, reiðhjálm, græjur með geislaspilara fyrir 3 diska, 2 hálsmen, hring og málverk eftir Sigurdísi Arnars. svo eitthvað sé nefnt. Amma og afi gáfu mér svo PC tölvu sem var örugglega 50 kíló og túbuskjá sem tók allt skrifborðið mitt. Það var mikil ánægja með það að geta tekið símasnúruna og tengt við tölvuna, hringt inn internetið og farið á irkið inni í mínu herbergi. Þegar litið er til baka var þetta dásamlegur dagur sem gekk mjög vel.