Tímarit um lyfjafræði - 2. tbl. 2016

Page 8

FRÆÐIN

Doktorsvörn

Frá vinstri: dr. María Ólafsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, dr. Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir og sérfræðingur í geðlækningum, Engilbert Sigurðsson, prófessor við Læknadeild HÍ, Bjarni Sigurðsson – doktorsefni, dr. Jussi Jokinen, prófessor og yfirlæknir við Háskólann í Umeå, Svíþjóð, dr. Magnús Karl Magnússon, prófessor og forseti Læknadeildar HÍ, dr. Magnús Jóhannsson, prófessor emeritus við Læknadeild HÍ. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson/Háskóli Íslands

Bjarni Sigurðsson

Greining þunglyndis karla í samfélaginu og tengsl þess við kortisól og testósterón Í lok nóvember 2015 varði Bjarni Sigurðsson l y f j a f r æ ð i n g u r, doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum. Ritgerðin ber heitið:Greining þunglyndis karla í samfélaginu og tengsl þess við kortisól og testósterón (e. Diagnosis of male depression in the community and its correlation with cortisol and testosterone). Andmælendur voru dr. Jussi Jokinen, prófessor í geðlækningum og yfirlæknir við Háskólann í Umeå og dr. Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlækningum við Læknadeild Háskóla Íslands. Umsjónarkennari var dr. Magnús Jóhannsson, prófessor emeritus í lyfjafræði við Læknadeild Háskóla Íslands, og leiðbeinandi var dr. Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir og sérfræðingur í geðlækningum. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. María Ólafsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, dr. Ólafur Þór Ævarsson, sérfræðingur í geðlækningum, og dr. Eva Lindström, prófessor í geðlækningum við Háskólann í Uppsölum. Kynjamunur hefur verið áberandi í faraldsfræðilegum rannsóknum á lyndisröskunum þar sem kvíðasjúkdómar og þunglyndi hafa verið algengari meðal kvenna en hegðunarraskanir og misnotkun á áfengi

8

og/eða annarra vímuefna hafa verið algengari meðal karla. Sjálfsvíg eru mun algengari meðal karla, en sjálfsvíg eru talin vera form árásargirni sem beinist inn á við. Einnig er talið að sjálfsvíg tengist geðsjúkdómum í meirihluta tilfella. Lýst hefur verið sérstöku „þunglyndi karla“ sem einkennist af lágu þoli gegn álagi, árásargirni, hvatvísi og misnotkun áfengis og annarra vímugjafa. Markmið þessa verkefnis var að bæta greiningu og þannig meðferð á þunglyndi meðal karla. Í fyrsta lagi með því að kanna geðlyfjanotkun eftir kyni og bera þá notkun saman við notkun bólgueyðandi og sýrulækkandi lyfja. Í öðru lagi með því að meta í samfélagsrannsókn næmi og sértækni og um leið gildi Gotlands-skalans (GMDS) við mat á hugsanlegu þunglyndi meðal karla, samanborið við Becks skalann (BDI) og mat geðlæknis (DSMIV). Í þriðja lagi að kanna möguleg tengsl kortisóls og testósteróns við þunglyndi karla. Karlar reyndust ólíklegri til að nota þunglyndislyf á árunum 2004-2013 og til skemmri tíma. Marktæk aukning reyndist í notkun þunglyndislyfja á tímabilinu hjá konum en ekki körlum. GMDS skalinn reyndist gildur til skimunar fyrir þunglyndi karla og algengi á þunglyndi karla reyndist

Tímarit um lyfjafræði

tölublað 2 - 2016

hærra en fyrri rannsóknir höfðu gefið til kynna (14-15%). Þunglyndir karlar voru líklegri til að vera með hækkað kortisól og testósterón í munnvatni að kvöldi. Marktækt samband reyndist milli hækkunar á kortisóli og testósteróni sem gæti skýrt ytri einkenni hegðunarröskunar hjá þunglyndum körlum. Samantekið gefa niðurstöðurnar vísbendingu um að þunglyndi sé vangreint og vanmeðhöndlað hjá körlum. Jafnframt styðja niðurstöðurnar skimum fyrir þunglyndi karla með GMDS skalanum í klínísku starfi. Frekari rannsóknir og einkum langtímarannsóknir þarf að gera á sambandi kortisóls og testósteróns í meingerð þunglyndis karla þó mæliniðurstöður gefi til kynna að þær styðji við greiningu. Doktorsritgerðin var tileinkuð körlum sem hafa fallið fyrir eigin hendi og aðstandendum þeirra. Bjarni Sigurðsson er fæddur árið 1964 og lauk kandidatsprófi í lyfjafræði í febrúar 1997 frá Háskóla Íslands. Bjarni starfaði áður sem framkvæmdastjóri Lundbeck en starfar nú sem lyfjafræðingur hjá Lyfju og sem stundakennari við Læknadeild HÍ.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.