Tölfræði ÍSÍ 2009

Page 5

TÖLFRÆÐI 2009

FORMÁLI Íþróttahreyfingin er stærsta fjöldahreyfing landsins og tæplega helmingur landsmanna er félagsbundinn í hreyfingunni. Af þeim eru tæplega 27% virkir iðkendur. Það er íþróttahreyfingunni afar mikilvægt að geta fylgst með þróun og vexti hreyfingarinnar, aldursskiptingu, kynjaskiptingu og skiptingu á milli íþróttagreina og landsvæða. Það yfirlit sem orðið hefur til í gegnum áranna rás segir okkur mikla sögu um þátttöku landsmanna í íþróttum og styður vel við þann málstað sem íþróttahreyfingin stendur fyrir. Með skráningu í Felix hefur einnig orðið til saga fyrir hverja einingu sem tryggir aðgengilegar upplýsingar um iðkendur, félagsmenn, stjórnir og ráð. Það hefur reynst vel í hreyfingu þar sem tíð mannskipti vilja verða í stjórnum. ÍSÍ hefur safnað gögnum um skráningar í íþróttahreyfingunni hartnær 60 ár, fyrst í formi svokallaðra kennsluskýrslna sem skilað var á pappírsformi til ÍSÍ og síðar í formi starfsskýrslna. Fyrstu starfsskýrslurnar voru á Excelformi og lesnar inn í Fjölni, fyrsta tölvukerfi íþróttahreyfingarinnar, en með tilkomu Felix, félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ, hefur íþróttahreyfingin getað haldið utan um skráningarnar á miðlægum gagnagrunni með aðgengi í gegnum netið. Innheimta starfsskýrslna á síðustu árum hefur gengið vel og eru skil á bilinu 97-99%. Það verður að teljast afar gott hjá svo stórri hreyfingu, sem telur ríflega 400 félög og annað eins af deildum. Íslendingar eru kröfuharðir á þau kerfi sem þeir nýta í sínu daglega starfi og flókin samsetning íþróttahreyfingarinnar einfaldar ekki rekstur umfangsmikils tölvukerfis. Engu að síður er það svo að Felixkerfið og sú tölfræði sem til er um íþróttahreyfinguna á Íslandi hafa vakið mikla athygli hjá þeim erlendu aðilum sem heimsótt hafa ÍSÍ og fengið kynningu á starfsemi ÍSÍ. Hvergi í heiminum er, svo vitað sé til, eins nákvæm skráning á iðkendum og félagsmönnum eins og hér á landi enda afnot af kennitölum ekki til staðar í flestum löndum í kringum okkur. Gagnagrunnur ÍSÍ um íþróttahreyfinguna á Íslandi er einstakur í sinni röð og mun nýtast okkur í starfi um ókomin ár. ÍSÍ hefur metnað til að bæta enn frekar skráningarmál í íþróttahreyfingunni, því alltaf er hægt að gera betur. Það verður ekki hægt nema með aðstoð allra eininga í hreyfingunni og eru sambandsaðilar hvattir til að stuðla að nákvæmari skráningu svo endurspegla megi sem best umfang starfsemi hreyfingarinnar. ÍSÍ birtir á heimasíðu sinni helstu tölfræði úr starfsskýrslum hvers árs en einnig hefur verið gefið út sérstakt tölfræðirit fyrir Íþróttaþing ÍSÍ. Að þessu sinni birtum við tölfræði vegna starfsemi hreyfingarinnar árið 2009, úr skýrslum sem skilað var inn í apríl 2010. Að auki birtum við lykiltölur um iðkun frá 1994-2009 eftir íþróttagreinum og íþróttahéruðum. Umsjón með tölfræðiriti þessu hefur verið á höndum Rúnu H. Hilmarsdóttur, verkefnisstjóra Felix. Mikil vinna liggur að baki úrvinnslu gagna og uppsetningu og hefur hún notið aðstoðar Andra Stefánssonar, sviðsstjóra Afrekssviðs, við yfirlestur og lokafrágang. Færi ég þeim bestu þakkir fyrir.

Reykjavík, 1. apríl 2011

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ

3


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.