Síldin pækluð Það var komið fram í ágúst þegar Sigga og Jóa tókst að fá vinnu á söltunarstöðinni hjá Róald. Það var alltaf þörf fyrir stráka að vinna alls kyns létt störf – og það var í fyrsta sinn á ævinni sem Siggi vann sér inn pening! Vinnan var fólgin í því að pækla síldartunnur frá morgni til kvölds og þegar flutningaskipin komu þá tóku þeir þátt í útskipun eins og það heitir. Þá voru þeir og fleiri unglingar látnir velta tunnum fram bryggj una að skipshlið. Þaðan voru þær hífðar um borð og raðað ofan í lestina. Mörg þúsund tunnur í hvert skip. Að pækla var að hella pækli, sterku saltvatni, ofan í lítið gat á hverri tunnu sem var svo lokað með tappa – það var vinnan þeirra. Með þeim vann fullorðinn maður sem sló botna í tunnurnar með verkfærum sem hétu dixill og drífholt. Og stór strákur velti tunnunum til og frá – en þetta var gert til þess að síldin verkaðist rétt og yrði góður matur. Strákurinn hét Andrés og var 16 ára, langur og mjór og mjög hress náungi sem var sífellt að segja skemmtilegar sögur af skrýtnu fólki á staðnum og þeir hlógu mikið, sérstaklega þegar hann fór að tala norskuna. Ein saga Andrésar þótti Sigga merkileg þótt hún væri ekkert sérstaklega fyndin. „Það var fyrir nokkrum árum, þá var ég tólf ára,“ sagði Andrés og settist klofvega á eina tunnuna. „Það eru bara fjögur ár síðan og þorpið hérna var þá mjög lítið, það voru svo fá hús að það var varla hægt að kalla þetta þorp. Þá var fyrsti síldardagurinn og ég man hann eins og það hefði verið í gær.“ „Þetta var vorið 1903,“ bætti dixilmaðurinn við. Hann lagði frá sér verkfærin og settist á tunnu hjá þeim. „Þá kom ókunnugt seglskip siglandi inn fjörðinn sem reyndist vera norska skonnortan Cambria. Asskoti stórt skip. Hún var full af timbri og tunnum. Öllu var varpað útbyrðis í sjóinn og síðan dregið upp í fjöru.“ „Við strákarnir hjálpuðum til við að raða tunnunum og spýtunum ofan við fjörukambinn og við vorum nokkra daga að þessu og svo fengum við borgað með peningum,“ sagði Andrés. „Og það voru svo miklir peningar að við urðum að moka þeim upp í tunnu og fengum svo Jón hérna dixilmann til að loka henni og grófum hana síðan í jörð. Og nú eigum við fjársjóð á földum stað. Silfurpeninga í tunnu!“ Siggi og Jói horfðu hvor á annan – þá grunaði að sagan væri nú ekki alveg sönn.
43