Ferð til fjár - sýning Skriðuklaustri

Page 1

HANDVERK OG HÖNNUN - GUNNARSSTOFNUN

17.04 - 24.05 2021

Ferð til fjár

sýningarskrá


Vorsýning í stássstofu Skriðuklausturs. Sýningin "Ferð til fjár" er samvinnuverkefni HANDVERKS OG HÖNNUNAR og Gunnarsstofnunar og er inntak hennar íslenska sauðkindin.


sýnendur Anna Gunnarsdóttir Ásthildur Magnúsdóttir Fræðasetur um forystufé Hélène Magnússon Sólóhúsgögn Ullarselið


ANNA GUNNARSDÓTTIR Gallerí: Hvítspói Óseyri 2 Akureyri s. 897 6064 annagunn.iceland@gmail.com www.annagunnarsdottir.com www.annagunnars.is

Anna Gunnarsdóttir hefur unnið við við textíl í rúm 30 ár og hefur þróað sína eigin aðferð við þæfingu. Í verkum sínum vinnur Anna aðallega með íslenska ull og gerir úr henni þrívíddarverk og hafa verk hennar verið sýnd víða um heim.


ANNA GUNNARSDÓTTIR

Frosin Jörð

Íslensk ull, silki, álrammi Verkið vísar í vetur og kulda á hjara veraldar. Þræðirnir sem hanga úr verkinu tákna sprungur sem myndast í frostinu og mynda skuggaspil á veggnum. Hægt er að láta verkið hanga á marga vegu og þannig leika með verkið og þræðina.

Kuðunga ljós

Þæfð íslensk ull, handþæft og formað og síðan hert. Hugmyndin að forminu vísar í Kuðung eða form sem hægt væri að skriða inní eða horfa á og njóta hlýjunnar sem kemur í gegn með ljósinu. Hægt er að láta ljósið vera á borði eða hanga á vegg.


ÁSTHILDUR MAGNÚSDÓTTIR Ásthildur Magnúsdóttir vefari

Ásthildur Magnúsdóttir er vefari og æðardúnsbóndi. Verk Ásthildar spanna allt frá fínasta damaski yfir röggvarfeldi. Hún er fróðari en flestir um sögu og eiginleika íslensku ullarinnar. Vefari er í beinum tengslum við efnið og gefur verkinu og sjálfum sér tíma til sköpunar


ÁSTHILDUR MAGNÚSDÓTTIR

Trefill 10XZ Handspunnin hrútsull af feldfé. Ofantekin. Vefnaður: Einskefta Einfaldur vefnaður en áferð á yfirborði náð með því að spinna garn í sitthvora áttina og með yfirsnúningi.

Púði Ull í mynstri, einband Vefnaður: Damask


FRÆÐASETUR UM FORYSTUFÉ Svalbarði 681 Þórshöfn s. 852 8899 forystusetur@forystusetur.is www.forystusetur.is

Hvað er forystufé? Forystufé hefur verið til hér um aldaraðir og alltaf verið í miklum metum. Það hefur það í eðli sínu að fara á undan fjárhópi í rekstri og aðrar kindur fylgja forystufénu. Stundum er forystuféð meira vexti en annað fé og fegurra. Góður forystusauður fór á undan í slæmri færð og fann bestu leiðina, hann rataði vel í hríðarbyljum og skilaði fé í hús heilu og höldnu. Einnig var forystufé talið veðurglöggt og var það oft tregt til að fara úr húsi ef von var á slæmum veðrum á vetrum.


FRÆÐASETUR UM FORYSTUFÉ Sýnishorn af forystufjárull 1.Óhreinsuð ull eins og hún kemur frá bóndanum, með lykt og fitu. 2.Handþvegin ull, óunnin að öðru leyti, tilbúin að fara í kembingu og spuna. Ullin er þvegin með vistvænni sápu og við það vægan hita að fitan fer ekki úr henni. Hún hefur þá eiginleika sem ull á að hafa, mjúk og aðeins feit. 3. Vélkembd og lyppuð hrein ull tilbúin í vélspuna, handspuna eða þæfingu. 4. Handspunnið band. 5. Vélspunnið band. 6. Þegar ullin er hreinsuð í spunavél er talsvert af toginu tekið úr henni og verður því bandið mýkra. Togið ásamt óhreinindum verður eftir og er lítið notað, aðeins í uppgræðslu hjá Uppspuna. Hjá Fræðasetrinu er togið hirt, það þvegið betur og hrist. Síðan er þæft úr toginu, sjá sýnishorn. 7. Prjónaðir vettlingar úr vélspunnu bandi. 8. Heklað eyrnaband úr handspunnu bandi. 9. Sýnishorn af litum á ull. Þetta er óhrein ull sem er á leið í þvott og spuna. 80% af forystufé er svart í grunnlit, 10% mórautt í grunnlit og 10% með ýmsa liti. Hvítt er fátítt og mest að hvítu ullinni er rifið frá þeirri svörtu og mórauðu í flekkóttum reyfum. Talsverð vinna er í að fara í gegnum alla ullina, um 100 kíló á ári og flokka hana í liti. 10.Tweed. Fræðasetrið lætur spinna sérstaka þræði og sendir til Suðureyja þar sem þeir eru ofnir í tweed. Þetta er framleiðsla fyrir Kormák og Skjöld. Þeir láta sauma úr þessu ýmislegt og er það dýr og fín vara. Gústi, uppstoppaður haus af forystuhrút.


HÉLÈNE MAGNÚSSON Prjónakerling s. 661 3273 helene@helenemagnusson.com www.prjonakerling.is

Hélène Magnússon hefur rannsakað íslenskt prjón og prjónahefðir í mörg ár og m.a. gefið út bækurnar Rósaleppaprjón í nýju ljósi og Íslenskt prjón. Hélène hefur tekið þátt í fjöllmörgum hönnunarsýningum á Íslandi og erlendis og verk eftir hana hafa verið birt í virtum tímaritum svo og bókum. Einnig hefur Hélène staðið fyrir vinsælum prjónaferðum um Ísland um nokkurra ára skeið.


HÉlÈNE MAGNÚSSON

Love Story Einband er einstaklega fíngert og mjúkt band úr hreinni íslenskri lambsull. Það er spunnið úr hágæða íslenskri lambsull sem er sérvalin af Hélène. Ullin er spunnin í verksmiðju á Ítalíu þar sem engin íslensk verksmiðja getur spunnið svona fínt band. Love Story er einstök og falleg afurð sem nýtist best í fíngert sjalaprjón og minnir á þelband sem var notað í gamla daga. Það er unnið með bæði togi og þeli og er það þar af leiðandi sterkt. Gilitrutt Tvíband er einstaklega fallegt og mjúkt tvinnað band úr hreinni íslenskri lambsull. Það er spunnið úr hágæða íslenskri lambsull sem er sérvalin af Hélène. Gilitrutt er einstök og falleg afurð sem nýtist vel í vettlinga, sjalaprjón auk þess sem það hentar vel í fíngerðar peysur, barnapeysur og húfur. Katla Sokkaband er einstakt band úr hreinni mjúkri íslenskri lambsull með örlitlu silki (1%). Katla er fyrsta íslenska sport/DK band af þessu tagi á Íslandi. Það er bæði mjúkt og sterkt og nýtist vel í sokka, vettlinga, peysur og fleira. Einnig hentar það til litunar


Gylfaflöt 16-18 112 Reykjavík s. 553 5200 solo@solo.is www.solo.is

Sindrastóllinn prýddi mörg íslensk heimili á 6. og 7. áratugnum. Stóllinn var svo ófáanlegur frá árinu 1970 í um fjóra áratugi þar til hann fór aftur í framleiðslu árið 2012 í tilefni 50 ára afmælis hans en það voru GÁ húsgögn sem ákváðu að endurgera stólinn með leyfi frá ættingjum hönnuðarins. Sindrastóllinn er framleiddur á Íslandi. Það eru Sólóhúsgögn sem smíða stálgrindina, Ikan ehf., bátasmiðja og frumkvöðlasetur, sem steypir skelina og GÁ húsgögn annast bólstrun.


Sindrastóllinn var hannaður árið 1962 af Ásgeiri Einarssyni (1927-2001)


Halldórsfjós Hvanneyri 311 Borgarnes s. 437 0077 ull@ull.is www.ull.is

Ullarselið kaupir sérvalda gæðaull beint af bændum sem svo er unnin frá grunni. Ullin er handþvegin, kembd og svo spunnið úr henni eða hún þæfð. Ullarselið er verslun á Hvanneyri rekin af Vestlendingum sem hafa áhuga á ullariðn, þar sem gömul vinnubrögð eru viðhöfð. Í versluninni eru vörur sem unnar eru úr íslensku hráefni með fjölbreyttum aðferðum. Strangt gæðaeftirlit er á þeim vörum sem í boði eru og fer engin vara í búðina án skoðunar. Í Ullarselinu er ekki aðeins unnið úr fyrsta flokks ull heldur einnig kanínufiðu og feldfjárull, af feldfé sem sérstaklega er ræktað með ullargæði að leiðarljósi.


1. Handspunnið band. Ullarselið kaupir sérvalda gæðaull beint af bændum sem svo er unnin frá grunni. Ullin er handþvegin, kembd og svo er spunnið úr henni. 2. Peysa úr handspunnu bandi prjónuð af Ingibjörgu Jónasdóttur 3. LAGÐI, púði unnin úr samkembu (þel og tog kembt saman) af Dóru Líndal. Púðinn er skreyttur með lokkum af 50% feldfé. 4. Þráðaleggir – Kristín Gunnarsdóttir 5. Sessur – Kristín Gunnarsdóttir 6. Horn unnin af Ritu Freyju og Páli



Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.