Fundargerðir stjórnar FKE 2023

Page 1

2023 Fundargerð 441. stjórnarfundar í FKE 4.janúar 2023 í Kennarahúsinu við Borgartún. Mættir voru: Guðmundur Björn Kristmundsson formaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín G.Ísfeld gjaldkeri, Gunnlaugur Dan Ólafsson, Valborg E. Baldvinsdóttir og Skarphéðinn Guðmundsson. Einnig kom Halldór Þórðarson umsjónarmaður nafnalista og fréttablaðs FKE á fundinn. Fjarverandi: Ingibjörg Júlíusdóttir 1. Fundargerð síðasta fundar var samþykkt samhljóma. 2. Ferðir sumarsins a) Vestfirðir – Gunnlaugur Dan var með áætlun varðandi ferðina til Ísafjarðar og út á Hesteyri. Gunnlaugur ætlar að tala við Pétur Bjarnason um hvort hann sé til í að vera fararstjóri. Að öðrum kosti fáum við leiðsögumann frá Vestfjörðum. Samþykkt var að niðurgreiða ferðina um kr.25.000 og er því verð fyrir ferðina kr.105.000. Tilkynna þarf þátttöku fyrir 1. maí. Gunnlaugur gengur frá auglýsingu í næsta fréttabréf í samvinnu við Halldór. b) Álandseyjar- Stjórnin var mjög sátt með skipulag ferðarinnar til Álandseyja. Ákveðið að ferðin verði niðurgreidd um kr. 45.000. Kristín G. Ísfeld greiðir Per mismuninn þegar í ljós kemur hver fjöldinn verður. Ferðin verður því auglýst á kr. 220.000. Per og Guðrún Erla sjá um að senda auglýsingu til Halldórs fyrir 10. janúar. c) Dagsferð til Vestmannaeyja. Stjórnin hefur áhuga á að skoða betur möguleika á slíkri ferð. Gunnlaugur Dan verður í sambandi við Kára Jónasson um frekara skipulag s.s. hvenær sú ferð væri farin, hvar væri hugsanlegt að borða saman. Rétt væri að miða við 30 manns og æskilegt að ferðin væri farin í júní. d) Aðrar dagsferðir mætti skoða betur, t.d. ferð um Fjallabak en ekkert hefur verið ákveðið enn varðandi slíka ferð. 3. Desemberfundur Mikil aðsókn var á jólafundinn 3. desember. Hann sóttu 73 og var spilað á 12 borðum. Þegar hefur verið skrifað um fundinn á heimasíðu FKE. 4. Febrúarfundur Næsti Grandfundur verður 4. febrúar. Guðrún Erla talar við Guðfinnu Ragnarsdóttur jarðfræðing og kennara um hvort hún vilji koma og segja frá nýútkominni bók sinni. Félagar úr stjórninni munu segja frá áætluðum ferðum sumarsins. Guðmundur sér um að panta veitingar. Hann mun einnig kanna hvort hugsanlegt sé að hafa aðalfund FKE föstudaginn 31. mars, þar sem salurinn á Grandhóteli er upptekinn 1. apríl vegna fermingarveislu. 5. Valborg ítrekaði að Bókaklúbburinn verði starfandi áfam í vetur. 6. Næsti stjórnarfundur verður 8. mars 2023 7. Fundi slitið kl.12.20


Fundargerð 442. stjórnarfundar í FKE 4. febrúar 2023 í Kennarahúsinu við Borgartún. Mættir voru: Guðmundur Björn Kristmundsson formaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín G. Ísfeld gjaldkeri, Gunnlaugur Dan Ólafsson, Valborg E. Baldvinsdóttir, Ingibjörg Júlíusdóttir og Skarphéðinn Guðmundsson. Einnig kom Halldór Þórðarson umsjónarmaður nafnalista og fréttablaðs FKE á fundinn. 1. Fundur settur Guðmundur formaður setti fund kl. 10:15 2. Fundargerð 441. fundar lögð fram. Ein athugasemd var gerð; þar stóð að næsti stjórnarfundur ætti að vera 8. mars en átti að sjálfsögðu að vera 8. febrúar. Það var lagfært. 3. Grandfundur 4.febrúar Tókst hann mjög vel og var vel mætt. Eftir spilavistina lásu Guðfinna Ragnarsdóttir og tveir ungir menn,Ragnar Björn og Kjartan barnabörn Guðfinnu, upp úr nýútkominni bók Guðfinnu ,,Á vori lífsins“. Gunnlaugur Dan og Guðrún Erla sögðu frá ferðum sumarsins og haustsins. Næsti fundur á Grandhóteli verður Hátíðarfundur 4. mars og hefst hann kl.12:00 Stefnt verður að því að hafa dögurð (brunch). Ekkó kórinn mun syngja og reynt verður að fá Kristján Gíslason, hringfara til þess að halda erindi. Kristján hefur hjólað nánast um allan heim. Rætt var um að auglýsa þurfi fundi með góðum fyrirvara og biðja fólk að vera duglegt að skrá sig. 4. Ferðamál Rætt var um ferðir sumarsins og um stöðu bókunar í ferðirnar. Margar beiðnir hafa komið frá ferðaskrifstofum sem vilja að við tökum þátt í að auglýsa ferðir þeirra meðal okkar félagsmanna. Stjórnin telur ekki sjáanlegan ávinning af slíku og því ekki áhugi að svo stöddu. Mætti þó skoða betur síðar. Rætt var um að gaman væri að hafa samband við félag eldri borgara á Vestfjörðum ef við gætum hitt einhverja úr félaginu þegar félagar úr FKE fara þangað í júlí. 5. Heimsóknir á vormisseri Heimsókn á Sjóminjasafnið í Reykjavík 26. janúar s.l. tókst mjög vel. Leiðsögn var til fyrirmyndar og gátu gestir sest niður með kaffbolla og spjallað saman í lok sýningar. Óskað er eftir því að stjórnarmenn komi með hugmyndir á næsta stjórnarfund , annað hvort á safn eða fyrirtæki, sem gæti átt sér stað nú á vorönn. 6. Fréttir frá einstöku hópum. Gönguhópur stendur vel, alltaf vel mætt í hann og vinsælt að fá sér kaffi eftir göngu. Kórinn gengur vel. Nokkrar konur hafa bæst í hópinn í vetur en það vantar fleiri karla. Bókmenntahópur er fámennur. Þar mæta 6-7 manns. Þyrfti að reyna að auglýsa hann betur. 7. Undirbúningur næsta ferðaárs Fram komu ýmsar hugmyndir um ferðir næsta sumar. Gott að ræða þær frekar á næsta stjórnarfundi.


8. Önnur mál: Kristín sagði að nú kostaði kr.1500 í hvert sinn sem hún legði inn lausafé í banka eftir Grandfundi. Kristín mun því framvegis leggja peninga eftir Grandfundi inn í hraðbanka. Gunnlaugur Dan kynnti mínígolf sem er til staðar í Skútuvogi 2. Þar ræður ríkjum Sigmar Vilhjálmsson. Hann býður eldri borgurum að koma frítt á þriðjudögum milli kl.13-15 og prófa. Það boð stendur fram að páskum. Annars er opið alla daga frá klukkan 16:00 og fram eftir kvöldi. Hægt er að kaupa mat og kaffi á staðnum. Fólki leist vel á þetta boð og mun Gunnlaugur Dan setja saman texta og biðja Halldór að senda auglýsingu á félagsmenn. 9. Næsti stjórnarfundur verður 8. mars kl.10 10. Guðmundur Björn formaður sleit fundi kl.12:00

Fundargerð 443. stjórnarfundar í FKE 8. mars 2023 í KÍ húsinu við Borgartún. Mættir voru: Guðmundur Björn Kristmundsson formaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín G.Ísfeld gjaldkeri, Gunnlaugur Dan Ólafsson, Valborg E. Baldvinsdóttir, Ingibjörg Júlíusdóttir og Skarphéðinn Guðmundsson. Einnig kom á fundinn: Halldór Þórðarson umsjónarmaður nafnalista og fréttablaðs. 1. Fundargerð síðasta fundar samþykkt einróma. 2. Skipulag næsta Grandfundar Hátíðarfundur með dögurði (bröns) verður haldinn á Grandhóteli 6. maí 2023. Guðmundur hefur þegar fengið staðfestingu um að við getum fengið aðstöðu og veitingar þann dag. Bjartur Logi samþykkti að Ekkókórinn geti komið og sungið og Halldór fékk staðfestingu á að Hringfarinn væri til í að koma og segja okkur frá sínum ævintýrum. Fundurinn hefst kl.12:00 og verð er kr. 3000.- Nauðsynlegt er að auglýsa fundinn vel og með góðum fyrirvara. 3.

Aðalfundur FKE verður miðvikudaginn 29. mars eftir félagsvist og kaffiveitingar. Valborg ætlar að hafa samband við Pétur Bjarnason og athuga hvort hann sé tilbúinn að vera fundarstjóri. Annars verður talað við Emil Hjartarson. Fundurinn er á miðvikudegi þar sem ekki fékkst inni á Grandhóteli á laugardegi að þessu sinni. Á aðalfundinum þarf að kjósa: formann, ritara, gjaldkera og tvo meðstjórnendur. Guðmundur mun fljótlega senda út auglýsingu um aðalfundinn.

4. Ferðamál og staða þeirra. Uppselt er í allar ferðir sumarsins og haustsins nema Vestmannaeyjaferðina. Enn eru nokkur sæti laus í hana.

5. Önnur mál Æskilegt að taka fyrir á fundi fljótlega reglur fyrir stjórnarmenn varðandi ferðir FKE. Einnig þarf að ræða fljótlega orlofsmál kennara á eftirlaunum. Næsti stjórnarfundur verður 26. apríl kl.10 6. Fundi slitið kl. rúmlega 12:00


Fundargerð 444. stjórnarfundar FKE, 26. apríl 2023 í KÍ húsinu við Borgartún. Mættir voru: Guðmundur Björn Kristmundsson formaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Valborg E. Baldvinsdóttir og Skarphéðinn Guðmundsson. Einnig kom Halldór Þórðarson umsjónarmaður fréttablaðs og félagatals á fundinn. Fjarverandi: Gunnlaugur Dan Ólafsson, Kristín G. Ísfeld og Ingibjörg Júlíusdóttir 1. Fundargerð aðalfundar FKE var samþykkt samhljóða. 2.

Rætt um hvernig best væri að kynna starfsemi FKE fyrir eftirlaunakennurum sem búa á landsbyggðinni. Hugmynd kom um að senda bréf á alla skólastjóra með upplýsingum um félagið og biðja þá að segja frá félaginu eða fela það trúnaðarmönnum.

3. Guðmundur Björn hefur samband við Grandhótel varðandi fundinn 6. maí. Mun hann ræða matarmálin, fjölda gesta og tæknimál. 4. Guðmundur sendir til Halldórs auglýsingu um fundinn á Grandhóteli 6. maí og lætur matinn, skemmtiatriði og verð kr. 3000 - koma fram í auglýsingunni. 5. Guðmundur mun einnig ganga frá við Grandhótel dagsetningum funda félagsins næsta vetur. 6. Bókmenntaklúbburinn var til umræðu og er Valborg tvístíga hvort rétt sé að halda klúbbnum áfram. Stjórnin hefur áhuga á að klúbburinn starfi áfram en taka þarf málið aftur upp með haustinu. 7. Ákveðið var að mánudagsgöngufólki verði boðið í kaffi og meðlæti eftir síðustu göngu vetrarins. Skarphéðinn og Valborg halda utan um það. 8. Æskilegt er að á næsta stjórnarfundi sé fólk með einhverjar hugmyndir varðandi skemmtanir og áhugaverðar heimsóknir fyrir næsta vetur. 9. Næsti stjórnarfundur verður 16. maí kl.10 10. Fundi lauk kl.11:40

Fundargerð 445. stjórnarfundar FKE, 17. maí 2023 í KÍ húsinu við Borgartún. Mættir voru: Guðmundur Björn Kristmundsson formaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín G. Ísfeld gjaldkeri, Valborg E. Baldvinsdóttir, Gunnlaugur Dan Ólafsson, Ingibjörg Júlíusdóttir og Skarphéðinn Guðmundsson. Einnig kom á fundinn Halldór Þórðarson umsjónarmaður fréttablaðs og félagatals. 1. Fundargerð síðasta fundar var samþykkt. 2. Brönsfundur Mikil ánægja var með hátíðarfundinn (Brönsfundinn) sem haldinn var 6. maí á Grandhóteli. Kristján Gíslason hringfari var fyrirlesari fundarins. Kristján vildi ekki taka við greiðslu fyrir erindið en stjórnin ákvað að leggja kr. 50.000 í sjóð, sem allur ágóði af bókum Kristjáns rennur í. Sjóðurinn fer óskiptur til góðgerðamála.


3. Stuttar hugleiðingar um störfin síðastliðinn vetur Stjórnarmenn voru sammála um að fundir á Grand hafi gengið vel. Menningarferðirnar hafa verið fámennar en vel heppnaðar. 4. Undirbúningur starfsins næsta vetur Guðmundur er búinn að ganga frá dögum fyrir spila-og skemmtifundi á Grandhóteli næsta vetur. Guðrún Erla var með hugmynd um menningarferð í Hveragerði. Fá góða leiðsögn um skáldagötur þorpsins og annað sem gæti verið fróðlegt og skemmtilegt. Fara svo í kaffi og meðlæti eftir fræðsluna. Ferðin væri hugsuð sem hálfs dags menningarferð. Þá komu einnig fram uppástungur um Hafnarfjörð, Akranes eða Kópavog. Gunnlaugur Dan var með uppástungu um að semja við Nonna Travel á Akureyri, um tveggja nátta ferð um Tröllaskaga og inn í Eyjafjörð. Var því vel tekið og mun Gunnlaugur hafa frekara samband við Nonna Travel um slíka ferð seinni hluta ágústmánaðar 2024. Gunnlaugur hefur þegar haft samband við Per Ekström um að koma með hugmyndir að 5 daga utanlandsferð sumarið 2024. 5. Önnur mál Guðrún Erla sagði lítillega frá vortónleikum EKKÓ kórsins með kór eldri borgara í Garðabæ. Halldór tilkynnti að þeir sem farið hafa á eftirlaun fyrir árið 2000 og ekki starfað við kennslu eftir það, geti ekki skráð sig hjá KÍ en hægt sé að skrá sig í FKE. Síðasta mánudagsganga verður 22. maí og býður FKE þá hópnum upp á kaffi og meðlæti. Taka þarf aftur upp í haust umræðu um kynningu á FKE í skólum landsins. Hugsanlegt væri að stjórnin heimsækti skólana og einnig væri snjallt að vera með kynningu á félaginu í Skólavörðunni. 6. Næsti stjórnarfundur verður 31. maí kl.10 Fundi lauk kl.12:15

Fundargerð 446. stjórnarfundar FKE miðvikurdaginn 31. maí 2023 í KÍ húsinu við Borgartún. Mættir voru: Guðmundur Björn Kristmundsson formaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín G. Ísfeld gjaldkeri, Valborg E. Baldvinsdóttir, Gunnlaugur Dan Ólafsson og Skarphéðinn Guðmundsson. Einnig kom á fundinn Halldór Þórðarson umsjónarmaður fréttabréfs og félagatals. Fjarverandi : Ingibjörg Júlíusdóttir 1. Fundurinn hófst á því að Halldór Þórðarson kynnti fyrir stjórninni nýjan vef sem hann taldi að mundi henta FKE vel. Vefurinn er frá fyrirtæki sem heitir Snædal ehf og er á samningi gegnum Zoho. Jónas Snædal einn eigandi fyrirtækisins mun sjá um eftirlit og uppfærslu. Uppsetning vefsins kostar kr. 180.000. Stjórninni leist vel á og var Halldóri falið að ganga frá samningi við þetta fyrirtæki. 2. Fundargerð síðasta fundar þ.e. 445 var samþykkt samhljóða. 3. Starf stjórnar í sumar Ferðir sumarsins eru nánast fullskipaðar. Einhverjir eru á biðlistum. Ferðir eru endurgreiddar ef fólk þarf að hætta við ferð. 4. Umræða um haustmisseri og vetur Ákveðið var að stefna á menningarferð í Hveragerði í haust og taka síðan ákvörðun um aðra ferð eftir áramót. Guðmundur tekur saman hugmyndalista að ferð eftir áramót.


5. Fréttabréfið Fréttabréfið hefur verið sent út. Um 220 félagsmenn fá blaðið í bréfpósti. Er hugsanlegt að hægt sé að fækka þeim sendingum og færa þær yfir í tölvupóst. Skoða þarf það mál. 6. Önnur mál Stjórnin samþykkti að hækka framlag til Ekkó kórsins um kr.100.000. Guðrún Erla lætur Egil gjaldkera vita um þessa hækkun og einnig að reikningur vegna vorferðar kórsins hafi verið sendur á FKE og það þurfi að sjálfsögðu að leiðrétta. 7. Næsti stjórnarfundur verður 23. ágúst. Fundi lauk rétt fyrir klukkan 12.

Fundargerð 447. stjórnarfundar FKE miðvikudaginn 23. ágúst 2023 í KÍ húsinu við Borgartún. Fundurinn var haldinn á 2. hæð vegna viðgerða á húsnæði Kennarasambandsins. Mættir voru: Guðmundur Björn Kristmundsson formaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín G. Ísfeld gjaldkeri, Valborg E. Baldvinsdóttir og Skarphéðinn Guðmundsson. Einnig kom á fundinn Halldór Þórðarson umsjónarmaður fréttablaðs og félagatals. Fjarverandi var: Gunnlaugur Dan Ólafsson. Júlíusdóttir hefur sagt sig úr stjórn FKE af persónulegum ástæðum.

Ingibjörg

1. Fundur settur 2. Fundargerð síðasta fundar lögð fram Var hún samþykkt með einni breytingu sem kom frá Kristínu Ísfeld. Breytingin varðar 6. lið og hljómar þannig eftir breytingu: Stjórnin samþykkti að hækka framlag til Ekkó-kórsins um kr. 100.000, þannig að upphæð til kórsins frá FKE er kr. 600.000 á ári. 3. Ferðir sumarsins og mat á þeim Ferðir félagsins þetta sumar hafa gengið mjög vel og er það samdóma álit stjórnar að eingöngu hafi heyrst ánægjuraddir með allar ferðirnar þrjár. Nauðsynlegt er að koma betra formi á bókun og greiðslu í ferðir félagsins. Fólk virðist skrá sig en borgar ekki jafnóðum og veit svo ekki hvort það er búið að greiða eða hverjum á að greiða. Æskilegt væri að fólk greiddi ferðina þegar það pantar og svo geti það fengið endurgreitt þar til viku fyrir brottför. Þá sé ekki lengur hægt að fá endurgreiðslu því of seint sé að fylla í skörðin. Einnig er nauðsynlegt að sá sem ber ábyrgð á ferð fái a.m.k. einn úr stjórn til þess að vera sér til aðstoðar. 4. Veturinn framundan Fyrsti Grandfundur verður 7. október og þá verður spiluð félagsvist, sagt frá ferðum sumarsins og sýndar myndir. Grandfundir verða svo 4. nóvember og jólafundur 2. desember. Hvað verður til skemmtunar? Ekkó kórinn syngur á jólafundi en önnur skemmtiatriði hafa ekki verið ákveðin. Kristín Ísfeld hefur samband við Guðmund Gíslason og fær upplýsingar um hljómborðsleikara sem gaman væri að fá á fund í október eða nóvember.


5. Hvenær byrjar starf hópa Gönguhópur byrjar 18. september Ekkó-kórinn byrjar 26. september Bókmenntaklúbbur byrjar 5. október og verður hálfs mánaðarlega fram að áramótum, en þá verður staðan endurmetin hvort rétt sé að halda honum áfram. Menningarferð er áætluð í Hveragerði 28. september. Þá er stefnt á menningarferð upp á Akranes eftir áramót. Hverjir taka að sér umsjón með ferðum. Guðrún Erla skipuleggur ferðina í Hveragerði og Valborg E. Baldvinsdóttir skipuleggur ferð á Akranes. Fréttabréfið kemur út um miðjan september og þurfa allar upplýsingar sem birtast eiga í fréttabréfinu að berast til Halldórs um eða uppúr mánaðarmótum ágúst/september. 6. Endurnýjun félagaskrár Halldór sýndi okkur nýja vefinn sem hann er mjög ánægður með og gefur mikla möguleika. Hann sagði endurnýjun vefsíðu ganga vel. Skoða má vefinn á netfanginu: fke.snaedal.is 7. Önnur mál Næsti fundur verður 18. september kl.10 Fundi lauk kl.12

Fundargerð 448. stjórnarfundar FKE mánudaginn 18. september 2023 í KÍ húsinu við Borgartún. Fundurinn var haldinn á 2. hæð vegna viðgerða á húsnæði Kennarasambandsins. Mættir voru: Guðmundur Björn Kristmundsson formaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín G. Ísfeld gjaldkeri, Gunnlaugur Dan Ólafsson, Valborg E. Baldvinsdóttir og Skarphéðinn Guðmundsson. 1. Fundur settur. Fundargerð síðasta fundar lögð fram. Fundargerðin var samþykkt. 2. Grandfundur 7. október Félagsvist hefst eins og áður kl.13:30. Eftir félagsvist verður kaffihlaðborð og Gunnlaugur Dan segir frá ferðum sumarsins og sýnir myndir. Biðja Halldór að taka myndir í ferð til Álandseyja og segja frá þeirri ferð. Skarphéðinn verður fundarstjóri. 3. Skipulag og undirbúningur á nóvember - og desemberfundum á Grandhóteli. Ekkó kórinn verður á desemberfundi. Guðrún Erla athugar með börn Ingibjargar Jónasar hvort þær væru til í að koma og spila á nóvemberfundinum. 4. Ferðir næsta sumars innanlands og staða mála. Utanlandsferð. Ákveðið er að fara um Tröllaskaga, gista fyrri nóttina á Siglufirði og seinni nóttina í Kjarnaskógi á Akureyri. Hugsanlega væri hægt að fara út í Hrísey. Ferðin er í samvinnu við Nonna travel. Farið verður 29. -31.ágúst 2024. Gunnlaugur gengur frá flugmiðum. Gunnlaugur Dan kom með þá tillögu að stefna aftur á ferð til Álandseyja að ári, þar sem færri komust að en vildu. Hann lagði einnig til að við færum í ferð um Skotland (Skotgöngu). Valborg ætlar að hafa samband við Ingu hjá Skotgöngu um hugsanlega ferð um Skotland, jafnvel alveg norður til Inverness.


Athuga þarf betur hvernig hægt er að einfalda bókun og greiðslur í ferðir félagsins. Gunnlaugur Dan og Kristín vinna saman að því að einfalda skráningafyrirkomulag og greiðslur.

5. Dagsferðir og styttri heimsóknir fram til áramóta. Valborg er í sambandi við sögufélagið í Kópavogi en stefnt er á ferð um Kópavog eftir áramótin. Einnig lagði Guðmundur til að við heimsæktum Edduna og mun hann skoða það mál. Skarphéðinn ætlar að athuga með skoðunarferð í fyrirtæki. Þá kom fram uppástunga um dagsferð um efri byggðir Árnessýslu. Guðmundur kemur með hugmyndir varðandi þá ferð, hvað sé áhugaverðast að skoða. Þá var stungið upp á álfagöngu um Hellisgerði í Hafnarfirði t.d. á aðventunni.

6. Önnur mál Guðmundur hefur samband við Per um að hann verði tengiliður ef eitthvað kemur upp í Álandseyjaferðinni. Guðmundur hefur samband við Fjólu eða Stellu varðandi ýmsar upplýsingar er snerta okkar félagsmenn. Næsti fundur verður 18. október kl.10 Fundi var slitið kl.11:50

Fundargerð 449. Stjórnarfundar 18. október 2023 í KÍ húsinu við Borgartún. Fundurinn var haldinn á 2. hæð vegna viðgerða á húsnæðis Kennarasambandsins. Mættir voru: Guðmundur Björn Kristmundsson formaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Gunnlaugur Dan Ólafsson, Ingibjörg Júlíusdóttir og Halldór Þórðarson. Fjarverandi voru: Kristín G. Ísfeld, Skarphéðinn Guðmundsson og Valborg E. Baldvinsdóttir

1. Fundargerð síðasta fundar lögð fram og samþykkt.

2. Húsnæði til fundarhalda Viðgerðir hafa staðið yfir á húsnæði KÍ og hefur það því ekki verið nothæft til fundarhalda. Vinna hefur gengið mjög hægt en fylgjast þarf með gangi mála.

3. Viðburðir undanfarið Síðast Grandfundur gekk mjög vel og voru þeir sem sáu um veitingar afskaplega liprir og þægilegir. Félagsmenn voru mun fleiri en áætlað hafði verið en því var snarlega bjargað og aukið við veitingar. Gönguhópurinn á mánudögum hefur gengið mjög vel undir stjórn Skarphéðins og Valborgar. Bókaklúbburinn hefur verið í bið vegna húsnæðisleysis en fer væntanlega í gang aftur eftir áramót. Menningarferð í Hveragerði 28. september tókst mjög vel.


4. Viðburðir framundan Næsti Grandfundur verður 4. nóvember, GE athugar með tónlistaratriði nemendenda tónlistaskólans. 5. Ferðir innanlands Búið er að ganga frá ferð um Norðurland 28.-30. ágúst 2024. Þá kom fram áhugi á að fara dagsferð um Suðurland, skoða Hellana við Ægissíður við Hellu, jafnvel fara í Skálholt o.fl. Gunnlaugur hefur samband við Kára varðandi leiðsögn. Þá kom einnig fram að hugmynd um að fara dagsferð í Stykkishólm. 6. Ferðir erlendis Ekki var tekin ákvörðun um utanlandsferð en stjórnarmenn eru að skoða þá möguleika. Lagt var til að orðið ,,Greiðsluþátttaka“ sé notað í stað orðsins niðurgreiðsla yfir það fé sem FKE leggur til í ferðir félagsmanna. 7. Önnur mál Halldór sýndi okkur nýja og glæsilega vefsíðu félagsins sem nú er að verða tilbúin. Búið að setja inn talsvert af fundargerðum, myndum og fleiru sem áhugavert er að skoða. Nýja vefsíðan er greinilega mun aðgengilegri og þægilegri en þær gömlu. Gömlu síðurnar munu detta út þegar nýja vefsíðan verður kynnt félagsmönnum, en áætlað er að sú kynning verði á Grandfundi 2. desember. Jónas Snædal er sá sem hannaði vefsíðuna og hefur Halldór unnið við uppsetningu hennar í samvinnu við Jónas fyrir FKE. Slóðin á vefsíðuna er https://www.fke.snaedal.is . Er sá aðgangur aðeins virkur á meðan verið er að vinna vefsíðuna og verður https://www.fke.is að því loknu . Fréttabréf janúarmánaðar þarf að undirbúa helst fyrir eða um áramót þar sem Halldór mun hætta störfum fyrir félagið um eða fljótlega eftir áramót. Snæland kemur til með sjá um allt varðandi vefinn. Fjóla er yfir félagatalinu hjá Kennarasambandinu en Stella sér um skráningu félagsmanna í FKE. 8. Næsti fundur stjórnar – verður 22. nóvember kl.10 9. Fundi slitið klukkan rúmlega tólf.

Fundargerð 450. stjórnarfundar FKE 22. nóvember 2023 í KÍ húsinu við Borgartún. Vegna framkvæmda við húsnæði Kennarasambandsins var fundurinn haldinn á 2. hæð. Fundinn sóttu: Guðmundur Björn Kristmundsson formaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Gunnlaugur Dan Ólafsson, Valborg E. Baldvinsdóttir, Ingibjörg Júlíusdóttir og Skarphéðinn Guðmundsson. Fjarverandi var: Kristín G. Ísfeld Einnig sóttu fundinn Halldór Þórðarson og Jónas Snædal vegna breytinga á vefsíðu FKE. 1. Fundargerð 449. fundar lögð fram og samþykkt. 2. Grandfundur 4. nóvember gekk mjög vel og var nokkuð vel sóttur.


3. Grandfundur verður 2. desember. Hefst á félagsvist eins og venjulega. Kórinn mun syngja kl.14:45. Kaffi verður eftir að kórinn hefur sungið bæði einn sér og með gestum. Eftir það verður Halldór Þórðarson með kynningu fyrir félagsmenn á nýrri heimasíðu FKE. 4. Ferðir sumarsins 2024 Ákveðið var að auglýsa ferðina til Finnlands sem Per sér um. Guðrún Erla hefur samband við Per. Guðmundur verður í sambandi við Kára varðandi dagsferð um Suðurland. Sennilega verður sú ferð í lok júní. Gunnlaugur Dan og Skarphéðinn sjá um ferðina um Norðurland 28. – 30. ágúst. Sú ferð er nánast tilbúin, búið að panta flug og gistingu. Aðeins á eftir að ganga frá einhverju varðandi mat og kaffi. Valborg tekur að sér menningarferð eða dagsferð eftir áramótin. Ekki ákveðið hvert verður farið.

5. Næsti stjórnarfundur verður 3. janúar kl.10 6. Önnur mál Halldór og Jónas Snædal voru mættir á fundinn. Jónas Snædal kynnti fyrir okkur nýju heimasíðuna og þá möguleika sem eru í boði varðandi notkun síðunnar. Heimasíðasn lítur afar vel út og nú er bara að æfa sig og skoða allt sem Halldór hefur þegar sett inn. Næsta fréttabréf á að koma út í janúar. Það verður í höndum Halldórs en eftir það tekur Jónas við keflinu. Netfangið hjá Jónasi jonas@snaedal.is Fundi var slitið kl.12:50


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.