Áhrif 1. tbl . 2003

Page 23

ngar upplýsingar eru aðgengilegar á einum stað um þátt áfengis í alvarlegum slysum sem tengjast hestamennsku. Margir muna þó tímana þegar mikil áfengisneysla fylgdi gjarnan þeim sem stunduðu reiðmennsku og hestasport og var þá ekki óalgengt að rekast á ofurölvaða hestamenn í sjálfheldu á baki hestsins. Allra síðustu misseri hefur mikil breyting orðið á þessari ásýnd reiðmennskunnar og þykir nú frekar tíðindum sæta ef reiðmaður misbýður sjálfum sér og hesti með svo ótæpilegri ölvímu. Síðustu 8 árin hefur þeim fjölgað gífurlega sem stunda hestamennsku hér á landi og kemur þar margt til. Mikill áhugi skapaðist á hrossarækt fyrir nokkrum árum og kynning á íslenska hestinum virðist hafa skilað sér í þessum sívaxandi áhuga almennings á hestamennsku. Óteljandi hópar fólks, ekki síst erlendir ferðamenn, ríða um fjöll og fyrnindi á hverju sumri og virðist ekkert lát á eftirspurninni. Við þessar aðstæður eru nú gerðar mun meiri kröfur um aðbúnað og uppbyggingu sem miðast við að vanda vel til þess sem gera þarf svo að fólki og hestum farnist sem best í þessu nýjasta ævintýri ferðaþjónustunnar. Hestamannafélög hafa á þessum tíma tvíeflst og uppbygging reiðhalla um allt land síðstu árin ber þess vitni að mikil gróska er í þátttöku almennings í hestasportinu. Unga fólkið er þar engir eftirbátar og þátttaka þeirra í hestamennsku verður æ meira áberandi, bæði þegar kemur að þjálfun, sýningu og keppni. Það er ekki hvað síst í þágu

þessa unga fólks sem nauðsynlegt er að vinna gegn þeirri ímynd að áfengi og hestamennska eigi einhverja samleið. Hér, eins og svo víða, eru fyrirmyndirnar sterkur áhrifavaldur. Ungt fólk, sem venst á það frá byrjun að þátttaka í hestamennskunni kalli á færni og uppbyggileg viðhorf gagnvart hestinum, er líklegra til að vera sér og íþróttinni/áhugamálinu til sóma. Þeir sem eldri eru þurfa því að vera meðvitaðir um eigin ábyrgð þegar fyrirmyndir eru annarsvegar og leggja það á sig að endurskoða eigin viðhorf og hegðun þar sem hestar og hestamennska eru. Aðeins þannig getum við vænst þess að unga fólkið tileinki sér vímulausan lífsstíl. Forvarnagildi íþrótta- og tómstundastarfs er löngu

viðurkennt og þátttaka í hestamennsku á ekki að vera þar undantekning. Sú ímynd að ótæpileg áfengisneysla fylgi hestaferðum hefur hins vegar verið lífsseig og því þurfa félög og yfirvöld að einbeita sér ef breyta á til betri vegar. Allir eru sammála um hætturnar og óþægindin sem skapast með ölvuðum reiðmönnum en eiga e.t.v. erfitt með að taka á málum á vettvangi. Því þurfa reglur og stefnumarkmið hjá félögum, fyrirtækjum og forráðafólki í hestamennskunni að vera beinskeitt og sýnileg eigi að efla forvarnir meðal ungmenna í þessu starfi. Þátttaka í hestamennsku, eins og í öðrum íþróttum, getur haft varanleg áhrif á lífsstíl og viðhorf ungs fólks og fátt er verra en tvískinnungur um notkun vímuefna. Þar gegna fullorðnir því veigamikla hlutverki að vera sú fyrirmynd sem ungir líta til, hvort heldur er við hlið hestsins eða á þeysireið um óspillta náttúru Íslands.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.