
1 minute read
Sýn bauð 50% af kostnaðarmati
Vodafone sér áfram um fjarskiptaþjónustu Hafnarfjarðarbæjar
Hafnarfjarðarbær og Vodafone hafa undirritað nýjan samning til þriggja ára um síma og fjarskiptaþjónustu fyrir bæinn með heimild til framlengingar um að hámarki tvö ár. Vodafone hefur séð um síma og fjarskiptaþjónustu Hafnarfjarðarbæjar frá árinu 2006. Útboðsgögn voru send til fyrirtækja á fjarskiptamarkaði sem hafa rammasamning við Ríkiskaup og voru tilboð opnuð í júlí 2022. Tvö tilboð bárust, annars vegar frá Símanum og hins vegar frá Sýn hf. sem rekur Vodafone.
Advertisement
Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 2,6 milljónir króna. Tilboð Sýnar var um 1,3 milljónum króna undir kostnaðarmati eða 1.302.770 kr. og helgaðist hagstætt tilboð aðallega af breytingum á tækni og notkun og aukinni áherslu á sölu á gagnamagni umfram tengingar. Síma og fjarskiptaþjónusta Vodafone fyrir Hafnarfjarðarbæ tekur til allra vöruflokka, farsíma, fastlínu, gagnatenginga, gagnaflutnings og leigu á viðeigandi búnaði fyrir tengingar.
Þormóður hættir
Nýr skipulagsfulltrúi verður brátt ráðinn
Þormóður Sveinsson skipulagsfulltrúi hefur sagt starfi sínu sem skipulagsfulltrúi eftir 8 ára starf en hann hafði áður starfað sem arkitekt á skrifstofu skipulags og byggingarfulltrúa í Hafnarfirði og m.a. hjá Plús arkitektum frá 2005 og hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík.
Staða skipulagsfulltrúa, sem er yfirmaður skipulagsmála, hefur verið auglýst og var umsóknarfrestur til 9. febrúar sl.

Ekki hefur borist svar frá Hafnarfjarðarbæ um fjölda umsókna eða hver staðan er í ráðningaferlinu.