6 minute read

Páskauppskriftir

Crème brûlée

Hráefni:

Advertisement

• 500ml rjómi

• 1 vanillu stöng

• 5 eggjarauður

• 100g sykur

Aðferð:

Settu rjómann í lítinn pott og hitaðu við miðlungshita. Skrapaðu úr vanillustönginni með hníf og settu fræin saman við rjóman. Á meðan að rjóminn hitnar skaltu setja eggjarauðurnar saman við sykurinn í hræriskál og þeyta með handþeytara í 2 mín. Þegar að mixtúran er ljósgul og sykurinn að mestu leyti sundraður og þegar að rjóminn lítur út fyrir að vera á mörkunum á að sjóða skaltu hella rjómanum hægt út í eggjablönduna, aðeins smá skvettur í einu. Annars býrðu bara til scrambluð egg. Helltu svo í lítil keramík mál (má líka nota ál bollakökumál), þetta ætti að duga í c.a. 5 slík. Kveiktu svo á katlinum til að sjóða vatn. Vatnið setur þú í fat sem þú leggur keramíkmálin svo í þannig að vatnslínan standi um helming hæðar málanna (ATH. hún hækkar þegar að þú setur málin í fatið, passaðu að fá ekkert vatn ofan í creme bruleeið). Með skeið skaltu scoop-a mestu froðuna af sem getur hafa myndast á creme brulee-inu, og skella svo inn í ofn við 160°C í 30-40 mínútur.

Eftir baksturinn skaltu leyfa málunum að kólna vel í ísskáp í minnst 1 klst. Rétt áður en að skal borða skaltu strá sykri yfir og brenna. Best er að nota matreiðslukyndil en það er alveg hægt að nota kveikjara, það tekur bara svolítið langan tíma að bræða allann sykurinn -það er samt þess virði þannig ekki sleppa því!

Rabbabarapæ

Hráefni:

• Rabbabarinn

340g rabbabari

• 50g rúsínur

• Hlynsýróp eða pönnukökusýróp

• 5 bitar af suðu súkkulaði (eða vegan súkkulaði)

• Crumble

100g smjör (eða kókosolíu fyrir vegan útgáfu)

• 1dl hveiti

1dl sykur

• 2dl hafrar

Aðferð:

Skerið rabbabarann niður í smáa bita og setjið í fat ásamt rúsínum. Saxið súkkulaðið mjög smátt og setjið saman við. Hellið svolitlu sýrópi yfir og hrærið til þannig að sýrópið umlykur rabbabarabitana (hann er mjög súr þannig að það veitir ekki af smá magni).

Í sér skál skal blanda hveitinu, sykri og höfrum saman. Smjörinu er svo blandað saman við þurrefnin (þægilegast ef það er við stofuhita eða skorið í bita).

Svo er öllu hnoðað saman þangað til að hægt er að mynda kúlu úr því. Við ætlum samt ekki að gera það, heldur er sniðugt að mynda litla diska úr deiginu með lófunum og raða ofan á rabbabarann í fatið.

Bökunni er því næst skellt inn í ofn við 200°C í u.þ.b. 30 mínútur

Haraldur Þorleifsson

Viðtal við íslenskan athafnamann og fyrrum menntskæling. Rætt er um framhaldsskólaárin, fyrirtækið Ueno, tilvonandi plötu Önnu Jónu Sonar, myndasögur og margt fleira.

Haraldur Ingi Þorleifsson er einstaklega annasamur maður. Hvort sem þú hlustar á nýjungar í íslenskri tónlist, fylgist grannt með ferðum fyrrverandi unnusta Grimes eða lítur út um gluggan öðru hvoru, er líklegt að þú sjáir ummerki eftir störf Haralds.

Hann er handhafi riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu og valinn maður ársins hjá

RÚV, Vísi og Morgunblaðinu árið 2022. Þessi 45 ára maður hefur sannarlega fengist við margt spennandi um ævina. Miðvikudaginn

7. desember árið 2022 náði þessi spenna hápunkti, en þá tók Framhaldsskólablaðið viðtal við hann í gegnum fjarskiptaforritið Zoom. Þar var rætt um framhaldsskólaárin, háskólanám, myndasögur og margt fleira.

Framhaldsskólaárin krefjandi tími ,,Ég var fyrst í Hagaskóla, flestir vinir mínir voru vestur í bæ,” segir Haraldur. Þegar hann er spurður út í framhaldsskólaárin greinir hann frá árum sínum í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hann útskýrir hvers vegna áfangakerfið hentaði honum illa. ,,Ég held ég hefði haft gott á því að vera í bekk og hafa aðeins meiri félagsfræðilegan strúktúr. Mér fannst ég einangrast soldið mikið í MH. Ég náði einhvern veginn aldrei að komast inn í félagslífið. Ég átti vini þarna, en það var ekki stór hópur.” Haraldur minnist þess að hafa liðið frekar illa í framhaldsskóla: ,,Ég ákvað bara mjög fljótt að ég myndi reyna að komast í gegnum þetta eins hratt og ég gat.” Þó tekur hann fram að auðvitað hafi kerfið í Menntaskólanum við Hamrahlíð reynst mörgum mjög vel, en að bekkjarkerfi hefði verið betur sniðið hans þörfum.

,,Ég var mjög feiminn í framhaldsskóla,” viðurkennir Haraldur. ,,En ég [...] allavega lærði að vinna mig út úr því seinna og það hefði verið gott að vita það.” Þegar hann er spurður hvort hann laumi á ráðum fyrir framhaldsskólanema mælir hann með því að setja hluti í breiðara samhengi. ,,Það var ýmislegt sem gerðist í menntaskóla sem mér fannst vera mjög mikilvægt þá, en var síðan ekki mikilvægt. Það er allt einhvern veginn svo stórt og merkilegt akkúrat þegar maður er að upplifa það, sérstaklega þegar maður er á þessum aldri.” Auk þess bendir Haraldur á að hlutir munu ekki alltaf verða eins og þeir eru núna ,,Það mun breytast og lagast og fara í allskonar mismunandi áttir en það sem maður gæti ímyndað sér.”

Námið sem þú kýst ekki endilega aðalatriðið Haraldur lauk framhaldsskóla á undan áætlun og leiddu leiðir hans í áframhaldandi háskólanám. Að því loknu var hann með BA gráðu í heimspeki og BS í viðskiptafræði. ,,Þegar ég var búinn með það [...] fór ég í mastersnám í hagfræði, en kláraði það ekki.”

Haraldur segir að námið sem þú kýst sé ekki endilega aðalatriðið: ,,ekki nema maður sé að fara inn í einhvern sérstakan feril eins og að vera lögfræðingur eða læknir.” Hann telur að námið sé fyrst og fremst gagnlegt í að þróa hugsunarháttinn þinn. ,,Ég fór í heimspeki sem hjálpar manni að hugsa mjög opið. Svo fór ég í viðskiptafræði og fjármál sem var miklu meira, svona, að drífa þér í áttina að einhverri niðurstöðu. Það held ég að hafi verið nokkuð góð blanda.” Haraldur telur að það sé gagnlegt að blanda saman fögum. ,,Nema fólk sé með eitthvað mjög ákveðið í huga [...] þá mæli ég með því að fólk sé opið fyrir því að prófa nokkra mismunandi hluti og fara inn í námið með það við huga að maður viti ekkert hvernig ferilinn eða lífið verður.”

Ævintýri Tinna ákveðin innblástur

Haraldur skapaði eigin heimasíðu (http:// haraldurthorleifsson.com/) og einstaklega glöggir lesendur geta þar greint innblástur frá Ævintýrum Tinna. Þótt ótrúlegt virðist, er þetta engin tilviljun. ,,Ég var mjög mikið í teiknimyndasögum þegar ég var lítill - safnaði teiknimyndasögum.” Haraldur minnist þess að í barnæsku hans hafi fundist ,,merkilega margar teiknimyndasögur á íslensku”. ,,Ég átti allar Tinnabækurnar og Svalur og Valur og allskonar; Lukku Láki og fleiri bækur sem voru gefnar út. Ég fór í það að safna þeim öllum.” Hann nefnir þó að Tinni hafi setið í honum meiri en aðrar teiknimyndasögur.

,,Það er bæði, held ég, að hann er áhugaverður karakter og þessi ævintýragirni og svona, að prófa að fara út um allan heim. Svo finnst mér teikningarnar fallegar. Þannig, já, þetta hefur soldið fest í hausnum á mér og ég held að það séu svolítið margir af minni kynslóð sem eru uppteknir af Tinna.” Þá situr hönnunin einnig fast í Haraldi. ,,Þetta er rosalega fallega hannað, fallegar teikningar. Fyrstu Tinnabækurnar eru auðvitað mjög umdeildar og ekki mjög góðar. Þær eru rasískar. En hann þróaði sig mjög hratt út úr því og seinni bækurnar eru mjög skemmtilegar.”

,,Byrjaði bara hérna heima á Íslandi í eldhúsinu”

Haraldur þekkir sjálfur eitt og annað um hönnun. Hann stofnaði hönnunarfyrirtækið Ueno árið 2013. ,,Ég byrjaði bara hérna heima á Íslandi í eldhúsinu og það óx upp í það að verða frekar stórt.” Hann minnist þess að hafa verið með um 100 starfsmenn á einum tímapunkti. ,,Við vorum að vinna aðallega fyrir stærri tæknifyrirtæki í því að þróa og hanna vörurnar þeirra.” Haraldur segir að Ueno hafi meðal annars unnið fyrir Facebook, Messenger og Google. Í þessum samstörfum hafi þau aðstoðað við þróun allskonar varnings. En hugmyndaflug Haralds hefur nýtts sér vel að mörgu leyti. Nú á dögum birti hann lagið Almost over you sem er fyrsta lagið á nýju plötunni hans. Lagið er birt undir listamannsnafninu Önnu Jónu Son og hefur verið lengi í þróun. Á plötunni verða samtals ellefu lög. ,,Helmingurinn af þeim eru samin fyrir rúmlega 20 árum og helmingurinn af þeim voru samin bara mjög nýlega.” Haraldur segir að hvert lag veiti ákveðna innsýn í líf hans. ,,Allir textarnir eru tengdir að miklu leyti einhverju sem ég upplifði. Ég man ekki alltaf um hvað þeir voru þegar ég samdi þá, en ég tengi ennþá við þá núna að einhverju leyti.”

Haraldur segir að platan sé tilbúin, en verði ekki birt fyrr en öll tónlistarmyndböndin eru fullgerð. ,,Hluti af því sem við gerðum hjá Ueno var oft að búa til allskonar svona efni, ekki tónlistarmyndbönd, en allskonar videoefni. Þannig ég hef alveg unnið í því, en ekki á svona skala áður.” Tónlistarmyndböndin eru gerð í samstarfi við ellefu leikstjóra út um allan heim. ,,Myndböndin eru í raun bara litlar smásögur. Ég er ekki í myndböndunum sjálfur.” Haraldur útskýrir að lögin standi sjálfstætt en að vonandi myndist eins konar heildarmynd úr þeim saman. ,,Það er verið að taka upp í Sómalíu og Brasilíu og fleiri stöðum. Þannig það eru bara allskonar leikstjórar að gera allskonar. Það verður alveg svolítið kaotískt og smá scary að vita ekki nákvæmlega hvað kemur út úr því. En líka mjög áhugavert og gaman að vinna með allskonar fólki.”

Já, Haraldur hefur sannarlega fengist við margt um ævina og endurspeglar þetta viðtal aðeins brotabrot af hans skrautlega starfsferli og lífi. En, líkt og þið flest, var hann eitt sinn bara framhaldsskólanemi. Hann sat í stærðfræði- og íslenskutímum og velti fyrir sér hvers vegna það væri svona erfitt að komast inn í félagslífið. Hann gekk inn í háskólanám með veika hugmynd um hvað framtíðin myndi bera í skauti sér. Eins og Haraldur segir, er margt sem virkar afskaplega stórt og afdrifaríkt í framhaldsskóla sem hefur lítil sem engin áhrif á framtíðina. Mundu að slaka aðeins á og njóta líðandi stundar. Reynist það erfitt er það ekkert mál, að öllum líkindum bíða þín spennandi tímar í framhaldinu.

This article is from: