
4 minute read
Frí atvinnumálaráðgjöf fyrir ungt fólk 16-25 ára
Viðtal við Breka Bjarnason
" Elís Þór Traustason
Advertisement
Hitt húsið býður upp á ráðgjöf fyrir ungt fólk í atvinnuleit. Ráðgjöfin er ókeypis fyrir öll á aldrinum 16-25 ára. Deildin Atvinnumál og forvarnir er ein af mörgum deildum Hins hússins og sér um þessa ráðgjöf en heldur einnig Vítamín, virkninámskeið fyrir ungt fólk. Breki Bjarnason, ráðgjafi og starfsmaður deildarinnar, var til í að koma í viðtal og kynna atvinnuráðgjöfina.
Hvernig virkar atvinnuráðgjöfin ykkar og hvernig aðstoð veitið þið?
Við bjóðum við upp á fría atvinnuráðgjöf, fyrir öll 16-25 ára ungmenni, frá einu upp í fjögur skipti. Þá hjálpum við til við hvernig á að búa til eða bæta ferilskrá, hvernig á að skrifa kynningarbréf, hvernig á að undirbúa sig fyrir atvinnuviðtal, hvar er hægt að sjá auglýst störf, eftirfylgni á starfsumsókn, alls konar góð ráð sem tengjast atvinnuleitinni.
Hvernig er hægt að bóka tíma í atvinnuráðgjöf?
Hægt er að bóka frítt á vefsíðu Hins hússins. Þá ferðu í flipann Umsóknir og í flipann þar undir atvinnuráðgjöf. Þú fyllir út nafn, netfang og getur skrifað einhverjar frekari upplýsingar inn ef það er eitthvað sérstakt. Þá fáum við það á emailið okkar, að einhver hafi verið að óska eftir atvinnuráðgjöf. Við höfum þá við samband við viðkomandi og finnum þægilegan tíma.
Er hægt að mæta á fjarviðtal ef ég kemst ekki í Hitt húsið?
Það er líka í boði að taka rafrænt. Við vorum einmitt að vinna mikið með það í COVID. Oftast kemur fólk í heimsókn í Hitt húsið Það er því þá líka í boðið að taka þetta rafrænt ef það hentar einhverjum betur, t.d. ef einhver kannski ekki búsettur í þægilegri fjarlægð frá Hinu húsinu eða er bíllaus.
Hvað er Vítamín?
Svo erum við með virkninámskeið, Vítamín, í samstarfi við Vinnumálastofnun. Þá gefur Vinnumálastofnun okkur lista yfir mögulega þátttakendur, þá fólk sem er á atvinnuleysisbótum eða á skrá hjá þeim, og þá tökum við þau í fimm vikna undirbúningsnámskeið í Hinu húsinu. Þátttakendur fá praktísk ráð í atvinnuleitinni en þau læra líka að vinna með eigin styrkleika og huga að eigin vellíðan. Námskeiðin eru sniðin að hverjum hópi fyrir sig og þeirra þörfum, hvað þau þurfa aðstoð með og við fáum alls konar gestaleiðbeinendur.

Eftir þetta fimm vikna undirbúningsnámskeið (frá 10-13, þrisvar í viku) tekur við svokölluð starfsþjálfun. Þá höfum við í samráði við þátttakendur búið til fyrirtækjalista yfir möguleg fyrirtæki sem þau gætu séð fyrir séð að vinna hjá og er líka raunhæft miðað við þeirra menntun, bakgrunn, áhugasvið o.fl. Svo höfum við samband við þessi fyrirtæki og reynum að koma þeim að í starfþjálfum. Fyrst í fjórar vikur, og ef vel gengur, þá reynum við að kynna þann möguleika fyrir fyrirtækjum að halda þeim þar lengur. Annaðhvort með ráðningarstyrkjum, sem Vinnumálastofnun býður upp á, eða hreinlega með því að reyna að ráða viðkomandi.
Við byrjum á bara starfsþjálfun og ef vel gengur er hægt að fá ráðningarstyrki í allt að
6 mánuði og þannig fá fyrirtækin stuðning til að bæta við sig starfskrafti. Eftir að ráðningarstyrkurinn rennur út er oftar en ekki möguleiki á að ráða viðkomandi í áframhaldandi starf, burtséð frá styrkjum eða hjálp. Ef starfsmaðurinn er búinn að standa sig vel í 6 mánuði, þá borgar sig oft fyrir fyrirtæki að halda honum.
En óháð því, þá er starfsþjálfunin líka tækifæri til að stækka tengslanetið og öðlast nýja reynslu á einhverju öðru sviði sem þau hefðu kannski ekki fengið annars.
Ef ég man rétt, er um helmingur af þeim sem fara í starfsþjálfun og klára hana fá áframhaldandi vinnu til styttri eða lengri tíma. Þetta er að skila einhverju.
Haldið þið önnur námskeið eða sinnið fræðslu?
Námskeiðið „Styrkur og vellíðan“ er í boði fyrir alla framhaldsskólanema en hægt er að kynna sér það á heimasíðunni okkar.
Við höfum farið með kynningar í skóla, nýlega fór ég í Tækniskólann og um daginn fengum við heimsókn frá FB. Við erum alltaf opin fyrir hópráðgjöf eða hópkynningum eða alls kyns svona samstarfi. Við erum alltaf til í að taka samtalið um samstarf, koma í heimsókn einhvers staðar með létta kynningu og geta bókað í ráðgjöf eftir á ef einhver vill koma í einn-á-einn spjall.
Er atvinnuráðgjöfin á fleiri málum en íslensku?
Við höfum einnig hjálpað fólki sem er ekki með íslenskan bakgrunn, hvort sem að það er flóttafólk eða aðrir innflytjendur. Það er opið öllum, og þó við getum aðeins aðstoðað á íslensku eða á ensku þá höfum við nota Google Translate í alls konar tilvikum ef þess þarf. Hver sem er getur sótt um og við hvetjum sem flesta til þess. Vítamín hefur oftast verið á íslensku en síðustu 4 námskeið hafa verið á ensku.
Hjálpið þið með námsval eða annað sem er ekki beint starfstengt?
Það er ekki okkar sérsvið. En við förum stundum um víðan völl, þegar um svona ráðgjöf er að ræða, eins og með áhugasvið og hvert þau vilji stefna í framtíðinni, o.s.frv. Stundum kemur fólk til okkar sem vill kannski fara erlendis eða í lýðháskóla eða vill ræða almennar pælingar um hver þau vilji stefna í lífinu. Þá erum við aðallega í því hlutverki að beina þeim til réttra aðila sem geta gefið viðeigandi upplýsingar. Svo kemur líka fyrir að fólk komi í ráðgjöf sem fæst við ýmsa erfiðleika eða eitthvað svoleiðis, og þá erum við ekki beint rétti aðilinn til að tækla svona þyngri mál. Þá höfum við verið dugleg að beina fólki í Bergið. Þar er lágur þröskuldur og auðvelt að komast að hjá fagfólki. Fyrst og fremst erum við sérfræðingarnir þegar kemur að atvinnumálunum. Öllu hinu reynum að beina í réttan farveg.
Einhver lokaorð?
Þetta eru kannski helstu verkefnin en við sinnum líka forvarnarfræðslu? Við höldum líka uppi Jafningjafræðslunni og öllum verkefnum tengdum henni. Það er einmitt rosalega skemmtilegt verkefni sem snýst um að fræða á jafningjagrundvelli. Við ráðum inn sumarstarfsfólk, jafningjafræðara, sem fær flott undirbúningsnámskeið. Helstu sérfræðingar á alls konar sviðum matar þau fróðleik og þau miðla því svo áfram til krakka í vinnuskólum. Það er reyndar búið að loka fyrir ráðningar þetta sumarið en ef þetta hljómar spennandi, að mæta í vinnuskóla og fræða ungt fólk, þá finnst okkur alltaf gaman að fá umsóknir og hvet fólk til að sækja um næsta sumar.