Ferðabók Húnakórsins 2002

Page 9

Sumar í sex löndum 2002 Mánudagur 17. júní 2002 Að morgni þjóðhátíðardags vaknaði fólk í hinu fegursta veðri, sól og “sunnan” þey og væri það talið hið besta heyskaparveður í Húnaþingi. Allir gengu glaðir í bragði til morgunverðar þrátt fyrir mjög misjafnan aðbúnað á Hótel Siuliai. Herbergi þau sem hluta hópsins var úthlutað væru ekki talin bústaðir manna á Íslandi en hinn hlutinn væri talinn vart ásættanlegur. Kl. 8:30 var boðið upp á ferð á markað í fylgd þeirra ágætu hjóna Eyjólfs og Vilmu. Hluti hópsins fór í þá ferð en aðrir kusu að verja tímanum með öðrum hætti. Kl. 10:00 var haldið af stað í rútuferð um næsta nágrenni Siuliai undir leiðsögn Vilmu. M.a. var skoðað “Árbæjarsafn” Litháa, en þar eru nokkur gömul hús varðveitt ásamt nokkrum búvélum. Í ferðinni var stansað á veitingastaðnum Zariga. Verið er að byggja þennan stað upp og eru þar m.a. fögur listaverk höggvin í trjádrumba. Undirrituðum fannst athyglisvert að aka um sveitir Litháen og sjá hina frumstæðu búskaparhætti m.a. hestum beitt fyrir plóg og rakstrarvél. Kl. 14:00 – 18:00 var frjáls tími og þá var nú heldur betur tekið á rás og verslunargatan stikuð fram og til baka. Sumir vildu helst bara stika fram og þurfa ekki að stika til baka. En að lokum komu samt allir til baka þar sem Vilhjálmur og Halldór formenn þeirra tveggja fylkinga sem hér ferðast saman höfðu boðað til æfinga. Æfingar gengu vel og um kl. 19:30 var gengið í skrúðgöngu undir íslenska fánanum og sungin ættjarðarlög. Ferðinni var heitið á veitingastaðinn Juoné Pastuocé þar sem haldin var þjóðhátíðarsamkoma. Var það hin besta skemmtun sem tókst í alla staði mjög vel. Í tilefni dagsins færði Eyjólfur Húnakórnum að gjöf lag sem hann samdi þegar hann var kennari á Hvammstanga fyrir c.a. 30 árum. Sem þakklætisvott fyrir veitta aðstoð og velvild færði kórinn þeim Eyjólfi og Vilmu að gjöf fána og disk Húnakórsins. Yndislegur og hamingjuríkur dagur. Á morgun bíður langur og strangur dagur og er því tími til að ljúka þessari bókfærslu. María og Hjálmur

Ferðadagbók Húnakórs

9


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.