Bókasafnið 36. árgangur 2012

Page 1

Bókasafnið 36. árgangur • maí 2012


gegnir.is er vefviðmót bókasafnskerfis sem hýsir samskrá íslenskra bókasafna. Í samskránni eru einkum bækur, tímarit, tímaritsgreinar, tónlistarefni og myndefni. Allar prentaðar íslenskar bækur og íslensk tímarit eru skráð í gegnir.is. Kerfið veitir aðgang að upplýsingum um safnkost flestra bókasafna landsins, auk þess sem margvísleg þjónusta er í boði fyrir notendur.

Landskerfi bókasafna hf. www.landskerfi.is


bókasafnið

36. árg. 2012

Efnisyfirlit 4

Baldur Sigurðsson Ritver og bókasafn – ást við fyrstu sýn?

46

9

Eva Ósk Ármannsdóttir Upplýsingaarkitektúr. Þú getur ekki notað það sem þú finnur ekki

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir Áhrif kreppunnar í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni

47

Guðbjörg Garðarsdóttir Skólasöfn á erfiðum tímum

17

Bragi Þorgrímur Ólafsson Lakasta bók Íslandssögunnar? Af ritdómi Jóns Sigurðssonar forseta 1844

48

Eyrún Ýr Tryggvadóttir Sá sem á garð og bókasafn þarfnast einskis frekar. Hugleiðingar um mikilvægi bókasafna

22

Sigrún Klara Hannesdóttir Á leið til fagstéttar. Bókavarðafélag Íslands 50 ára

49

Áslaug Agnarsdóttir Skemman og Opinn aðgangur

28

Sigrún Klara Hannesdóttir Það var jafnvel svolítill söknuður að fleygja allri spjaldskránni... Viðtal við Huldu Sigfúsdóttur

54

Þórhallur Þórhallsson Tvö ljóð

31

Kolbrún Björk Sveinsdóttir og Svanhildur Eiríksdóttir Sögupokar til að efla tengsl og örva ímyndunarafl

55

Bækur og líf

58

33

Steinvör Haraldsdóttir Upplýsingahegðun og óhefðbundnar heilsumeðferðir. Ritrýnd grein

Hólmkell Hreinsson Minning þriggja bókavarða

60

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir Minning: Finnbogi Guðmundsson 1924-2011

40

Sólveig Þorsteinsdóttir Niðurskurður hjá Heilbrigðisvísindabókasafni Landspítalans. Áhrif á vísindavirkni og klínískt starf á Landspítalanum

61

Afgreiðslutími safna

66

Höfundar efnis

45

Guðrún Hannesdóttir Aðföng. Ljóð

Frá ritstjóra Í þessu hefti Bókasafnsins eru nokkrar greinar undir fyrirsögninni Bókasöfnin og kreppan. Óneitanlega hefur samdráttur undanfarinna ára haft áhrif á starfsemi bókasafna. Hér er ekki um skipulagða rannsókn að ræða, en í einni grein er þó sagt ítarlega frá því hvernig kreppan hefur haft áhrif á starfsemi Heilbrigðisvísindabókasafns Landspítalans. Og vissulega hefur kreppan líka áhrif á þetta rit, áskrifendum hefur fækkað og auglýsingar eru vandfengnari. En óþarft er að berja lóminn. Við höfum ekki þurft að kreista út ritsmíðar, þvert á móti komst ekki allt það efni fyrir sem ritnefnd stóð til boða. Blaðið þyrfti því að stækka, og reyndar hefur það löngum verið stærra en nú er, en það kostar líka meira. Almennt er ekki verið að berja lóminn á sviði bókasafna og upplýsingafræða, þvert á móti lifum við spennandi tíma, að sönnu nokkuð ógnandi í bland, en til þess eru ógnir að mæta þeim. Miklar umræður eru á þessum vettvangi og má þar til dæmis nefna viðbrögð bókasafna við hinni rafrænu þróun, sem er í senn ógnandi og gefur líka fyrirheit um nýja möguleika: er hin efnislega bók að hverfa, leysast upp í rafeindir, eru gælur fingurs við pappír að víkja fyrir köldum tökkum eða snertiskjá? Eru mannleg samskipti að breytast í rafboð, lyktarlausan sýndarveruleika? Nokkur íslensk almenningsbókasöfn eru í samvinnu við bókasöfn á hinum Norðurlöndunum farin að spá í „næsta bókasafn“ og þar er horft bæði til hinnar rafrænu byltingar og menningarlegs og félagslegs hlutverks bókasafnins. Efni bókasafnins er ekki bara að leysast upp í rafbylgjur, suður á Reykjanesi fá börnin sögur í poka. „Frá bókasafni til samfélags-/menningarhúss“ var heiti á námskeiði á vegum Upplýsingar í vetur og í vor var viðfangsefni eins Morgunkorns Upplýsingar ímynd bókasafns- og upplýsingafræðinga og bókavarða. Í grein í tilefni 50 ára afmælis Bókavarðafélags Íslands er vikið að þróun bókavarða til fagstéttar en í annarri grein er meðal annars fjallað um starfsheitið „upplýsingaarkitekt“. Hulda Sigfúsdóttir rifjar upp í viðtali þegar spjaldskrá Borgarbókasafns var hent og annars staðar er fjallað um registur yfir Landsbókasafns Íslands frá miðri 19. öld og má segja að langur vegur sé milli þess og Gegnis nútímans. Skipulag upplýsinganna er mikilvægt sem og tæknin til að leita og hversu opinn aðgangurinn er. En hvað um þann sem leitar upplýsinga og vinnur úr þeim? Um það er fjallað annars vegar í grein um ritver og bókasöfn og hins vegar í fyrstu ritrýndu grein Bókasafnsins, grein um upplýsingahegðun græðara. Frá og með þessu hefti birtir Bókasafnið ritrýndar greinar í bland við aðrar. Einar Ólafsson

Útgefandi: Upplýsing. Félag bókasafns- og upplýsingafræða Lyngási 18 | 210 Garðabæ | Sími 864 6220 | Netfang: upplysing@upplysing.is Veffang: www.upplysing.is Prentun: GuðjónÓ – vistvæn prentsmiðja Forsíðumyndin er bútasaumsteppi eftir Sigurbjörgu Júlíusdóttur, fyrrverandi bókavörð í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Gerðubergi. Í Gerðubergi var öflugur bútasaumshópur um margra ára skeið og var Sigurbjörg mjög virk í honum. Um þessa starfsemi var fjallað í 19. árgangi Bókasafnsins árið 1995. Ljósmyndirnar í teppinu eru annars vegar af móður listakonunnar, Hildi Þorfinnsdóttur, og vinkonu hennar, Hönnu Karlsdóttur, og hins vegar af ömmu listakonunnar, Steinunni Egilsdóttur.

Bókasafnið • 36. árgangur maí 2012 • ISSN 0257-6775

Ritnefnd: Einar Ólafsson, ritstjóri – bokasafnid.timarit@gmail.com Kristín Ingunnardóttir, gjaldkeri – kingunnar@gmail.com Sigurborg B. Ólafsdóttir, ritari – sigurborg@internet.is Hallfríður Hr. Kristjánsdóttir, – hallfridurk@landsbokasafn.is Áslaug Óttarsdóttir – aslaugo@hi.is Kristína Benedikz – krist@hi.is Bókasafnið hefur frá árinu 1989 verið lyklað í Library & Information Science Abstracts (LISA)


bókasafnið

36. árg. 2012

Af bókum og brettum Mótsagnakenndar hugleiðingar

Gróa Finnsdóttir

Um miðbik 15. aldar var fyrst byrjað að búa til lesbretti af sömu stærð og útliti og þau sem notuð eru í dag við lestur svonefndra rafbóka. Eini munurinn var sá að þau gengu ekki fyrir rafmagni og einungis var hægt að lesa eina blaðsíðu á þeim. Þessi bretti voru gerð úr kjörviði sem á var lögð pappírsörk með ýmsum fróðleik sem hafði fræðandi gildi fyrir börn svo sem stafrófið, talnaspeki og bænir. Yfir þetta var svo lögð örþunn hornhimna sem var meðhöndluð með sérstökum aðferðum úr horni af geitum, sauðfé eða nautgripum. Hornhimnur þessar höfðu hins vegar þekkst lengi við bókagerð og voru þá meðal annars notaðar til að verja leðurband bókanna gegn hnjaski og þá einkum titlanna á kjölum þeirra. Þessar hornbækur (horn-books), eins og þær voru nefndar, hafa varðveist ótrúlega vel og mjög vafasamt er að lesbretti og tölvur dagsins í dag geti nokkru sinni staðist tímans tönn jafn vel og þau. Hið sama má segja um ýmsar vaxtöflur eða vaxspjöld sem þjónuðu sama tilgangi og fundist hafa meðal annars hérlendis í fornleifauppgröftum. Af teikningum af þessum lesbrettum miðaldanna að dæma má ráða að þau hafi þótt jafn mikill fengur ungu fólki þá og lesbretti dagsins í dag eins og sjá má á meðfylgjandi teikningu þar sem tvö ungmenni eru á gangi með þessar gersemar. Stúlkan hefur sitt bretti í snúru við beltið á meðan ungi maðurinn heldur á sínu undir hendinni – ekki svo ýkja ólíkt því og tíðkast meðal fólks í dag sem gjarnan vilja berast á og sýna dýrgripi sína.

4

En þetta var útúrdúr frá því sem ég ætlaði eiginlega að skrifa hér um, nefnilega kosti og galla rafbóka samanborið við venjulegar bækur. Það verður að játast að ég var mjög á varðbergi þegar rafbækur fóru fyrst að líta dagsins ljós. Þá brá svo við að ég, sem að jafnaði tel mig mjög nýjungagjarna og tek öllum þeim uppgötvunum fegins hendi sem gera manni lífið auðveldara, leit þessi fyrirbæri tortryggnisaugum. Auðvitað fór ég í markvissa sjálfskoðun á viðbrögðum mínum en fann engin rök fyrir þeim. Ég lagði mig fram við að kynna mér alla kosti rafbóka, las þær í tölvunni minni, fékk mér Kindle á Amazon og fékk lánuð annars konar lesbretti svo ég yrði nú viðræðuhæf um þessa nýju tækni. Og viti menn, þetta var stórkostlegt! Það

Ungmenni með hornbækur. Myndin er úr bók Charles H. Sylvester, Journeys Through Bookland (Chicago: Bellows-Reeve Company, 1909).


bókasafnið

Alvöru bók úr pappír klæddri í fallega kápu – eða taka heilt bókasafn með sér á heimsenda...

álit mitt varð meira að segja ofan á þrátt fyrir þessa neikvæðu tuðandi rödd sem barst frá undirmeðvitundinni sem ég reifst stöðugt við. Ég keypti mér bækur inn á kyndilinn minn og reyndi að nota allt það sem hann hafði upp á að bjóða, gerði orðaleit, fletti upp í orðabókinni, setti inn athugasemdir, merkti við fallegar setningar, stækkaði og minnkaði letrið, fletti fram og til baka, keypti meira... Svo fékk ég lánaðar rafbækur hjá bókasafni Norræna hússins, því frábæra bókasafni, sem ég gat því miður ekki hlaðið niður á kyndilinn, en las þá bara í fartölvunni minni. Ég hlóð niður rafrænum bókum í gríð og erg sem ég fann víðsvegar á vefnum og allt í einu uppgötvaði ég að ég var eingöngu farin að lesa rafrænar bækur! Bæði í vinnunni minni og heima las ég allt sem ég þurfti að lesa í rafrænu formi og vildi þá auðvitað deila þessu með mér – en úps! Það var ekki hægt nema að ég lánaði viðkomandi kyndilinn minn í leiðinni. Og þá gerði ég aðra uppgötvun: Það vantaði eitthvað í sálina mína og ég var orðin undarlega eirðarlaus og skorti fyrri einbeitingu við lesturinn. Ég gat ekki séð að þetta ætti sér neina augljósa skýringu þangað til ég gerði mér ljóst að ég hafði ekki haldið á BÓK – alvöru bók úr pappír klæddri í fallega kápu – í langan tíma! Það var svona eins og þegar maður hefur verið að horfa á fallegt litskrúðugt landslag í miklu sólskini sem hægt og rólega hefur látið undan síga fyrir gráum skýjum. Ég sé landslagið, mikil ósköp, en það hefur tapað ljómanum. Ég hafði meðtekið innihald textans sem ég hafði lesið af skjánum eða lesbrettinu en hann var hulinn einhverjum gráma, líkt og ég hefði verið að skoða fallega vöru í gegnum illa þveginn búðarglugga.

36. árg. 2012

Ég flýtti mér heim og tók eina af uppáhaldsbókunum mínum niður úr bókahillunni. Ég fann ljúfa pappírslyktina (það lykta engar tvær bækur alveg eins) og renndi fingrunum eftir upphleyptum stöfunum í titlinum á kápunni sem skiptu um lit eftir því hvernig birtan féll á þá. Ég heyrði snarkandi hljóðið þegar ég fletti síðunum og fann áferð pappírsins undir fingrunum og fann himneskt marrið í leðurbandinu. Á blaðsíðu 165 hafði ég sett inn hugleiðingu til minnis frá fornu fari þegar ég las bókina fyrst. Hún var illa skrifuð sem sagði mér að ég hefði legið út af og því ekki verið að vanda mig mikið og ég gat líka ráðið í frá hvaða tíma athugasemdin var af rithöndinni einni saman. Á öðrum stað hafði ég skissað upp rós og brostið hjarta. Allt þetta gerði þessa bók og bara þessa bók að einstökum grip með mikla þýðingu sem engin rafbók í heiminum gæti áorkað. Ég tók fram aðra bók úr hillunni og kom mér fyrir í besta stólnum mínum og hnoðaði fótunum innundir mig sem gerir það að verkum að ég kemst í betri tengsl við bækurnar mínar. Við hliðina á mér hafði ég hunangssætt te og í kringum mig var djúp kyrrð full af hljóðum. Ég hélt um bókina, skynjaði áþreifanlegan mátt hennar, áferð, kaflaskipti. Ég fletti aftur til að skilja uppbyggingu höfundarins á verkinu, horfði á þykkt og lögun blaðsíðnanna, heildina, samræmið. Ég skynjaði samhljóm hennar, hvernig innihaldið kallaðist á við ytra útlitið, hvernig allt studdi hvert annað, nokkuð sem kemst aldrei til skila á rafrænan hátt. Ég tók aðra bók sem var ljóðabók og las þar ljóð sem teygði sig yfir heila opnu. Ljóðið fjallaði um barn sem hoppaði ofan í drullupoll og orðin þeyttust í allar áttir líkt og vatnið í pollinum. Þetta var ekki bara ljóð, heldur mynd sem ekki var skynjuð nema á pappír í nákvæmlega þeim hlutföllum sem skáldið hafði gefið því í nákvæmlega þessari stærð bókar. Og ég hélt áfram að taka fram fleiri bækur uns ég var umkringd þessum vinum mínum, hver með sinn einstaka karakter, lykt, liti, áferð, visku og allt í einu var þetta eirðarleysi sálarinnar horfið. Og þá komst ég að annarri niðurstöðu, nefnilega þeirri að athöfnin að lesa felur ekki bara það í sér að meðtaka þann texta sem fram er settur heldur stuðlar það umhverfi sem lesandinn er staddur í hverju sinni mjög við þá upplifun sem verður til við lesturinn. Höfundur textans hlýtur að eiga það inni hjá lesanda sínum að hann njóti og skynji til fulls allt það sem hann hefur fram að færa og því gefur auga leið að við verðum að skapa kjöraðstæður til að nema og njóta listilega smíðaðs texta. Það er til dæmis annað að lesa innan um skvaldur á fjölfarinni lestarstöð eða á kaffihúsi en í notalegu umhverfi stofunnar okkar eða svefnherbergisins heima. Lestrarnautnin fullkomnast síðan meðan við eigum þess kost að halda á raunverulegri bók, þreifa á blaðsíðunum, kilinum, bókbandinu, skynja hvernig höfundurinn og hönnuður bókarinnar hafa náð fram réttu áhrifunum með nákvæmlega réttu letri, réttri stærð bókarinnar, réttu jafnvægi á hverri síðu sem kallast á við innihaldið í hvívetna. Ég vil geta teygt út hendina eftir bók í bókahillunni, opnað hana og byrjað að lesa, í stað þess að kveikja á rafknúnu tæki og leita þar að bókinni minni sem síðan birtist mér í brotum en ekki sem heild. Ég get ekki þreifað á henni, fundið hana,

5


bókasafnið

36. árg. 2012

Á blaðsíðu 165 hafði ég sett inn hugleiðingu...

ég fæ því aldrei að sjá hana nema sem lítið brot í senn af þeirri dýrð sem henni er ætlað að færa mér. Að halda á ólesinni bók er svolítið eins og að standa á fjallsbrún og skynja allt útsýnið, og þótt augun festi ekki sjónir á nema einum hluta þess í senn, þá ertu umvafin landslaginu. Að halda á rafbók sem alltaf er eins er líkt og að allt þetta undurfagra útsýni sé klippt burtu nema það eina sem birtist í glugganum hverju sinni. Þess vegna hef ég gert nýja uppgötvun varðandi sjálfa mig: ég er bókamanneskja. Sá friður sem fylgir því að halda á bók, horfa á bækur í bókahillum og láta þær umvefja sig er einhver sú mesta sálarró sem hægt er að öðlast – og ég sem var næstum búin að gleyma af hverju ég kaus mér þetta starf mitt sem ævistarf. Ég vil einfaldlega geta opnað bókina mína nákvæmlega á þeim stað þar sem ég hætti síðast og setti fallega bókamerkið mitt, (það tekur u.þ.b. 2 sekúndur), en ekki þurfa að opna kyndilinn, bíða eftir að hann opnist, slá inn lykilorðið og síðan velja bókina (styst tekur þetta hálfa mínútu hafi maður ekki „lokað“ bókinni og enn lengur hafi ég gert það). Ég vil fá að fletta bókinni minni en ekki þurfa að klikka á takka til að gera það. Það er svolítið eins og að koma sífellt við aðra manneskju með sótthreinsuðum hönskum. Ég vil líka alltaf geta séð vini mína, bækurnar, í stað þess að hafa þá alltaf læsta inni í tölvu sem þar að auki þarf að hlaða rafmagni með reglulegu millibili. Ég er mjög stolt af þessum vinum mínum og vil geta sýnt þá gestum og gangandi og vakið umræður um þá í stað þess að láta þá dúsa í myrkrinu. Og síðast en ekki síst eru bækurnar ekki bara andleg verðmæti hvers og eins, heldur einnig veraldleg auðæfi sem oft á tíðum eru mikilfenglegir prentgripir. Sá listiðnaður sem felst í fallegu bókbandi og prentverki og kallast á við efnivið bókarinnar verður seint ofmetinn né aflagður.

6

En samt verð ég að endurtaka og komast í mótsögn við sjálfa mig um leið: mér finnast rafbækur stórkostlegar! Það er auðvelt að taka heilt bókasafn með sér á heimsenda, falið inni í örþunnu spjaldi, það er létt og þægilegt og rifnar ekki. En þar með eru líka kostirnir upptaldir. Sumir myndu benda mér hér á að rafrænar bækur séu mun ódýrari en þær prentuðu, en það er því miður ekki algilt. Flestar þær bækur sem ég hef fest kaup á í gegnum Amazonvefinn eru svipaðar að verði og jafnvel dýrari en þær sömu sem fást í pappírskilju hjá Eymundson. Það þarf því að vega þetta og meta allt saman hverju sinni. Hvað mig, forréttindamanneskjuna, varðar ætla ég því að halda áfram að eignast fallegar bækur sem ég geri að vinum mínum og set mark mitt á í tímans rás við endurtekinn lestur og ég ætla að njóta þeirra með öllum þeim skynfærum sem mér hafa verið gefin. Hins vegar ætla ég að eiga þau tæki sem til þarf til að lesa efni í rafrænu formi en þar verður væntanlega fremur lítið um skáldverk eða annað sem auðgar andann varanlega (hverjum myndi til dæmis detta í hug að lesa Óvíd sem rafbók?!). Ég ætla hins vegar að skjálesa ýmsar tímaritsgreinar, handbækur, orðabækur og annað í þeim dúr, eitthvað sem ég þarf að afla mér staðreynda um, en ekki fagran bókmenntatexta í miklu samhengi við umhverfið og þær manneskjur sem slíkum textum er ætlað að setja mark sitt á. Að lokum má svo hugleiða svolítið umhverfishlið þessarar nýju tækni og sameiginlega ábyrgð okkar á þessu sviði. Sumir telja að rafbækur séu umhverfisvænni en pappírsbækur þar sem minnkandi pappírsbókaútgáfa minnki koltvísýringinn í andrúmsloftinu. Aðrir halda því fram að þessu sé þveröfugt varið því sá skógur sem nýttur sé til pappírsgerðar sé unninn úr plöntuðum fljótsprottnum trjám á afmörkuðum svæðum


bókasafnið og auk þess sé stór hluti þess pappírs sem fer til bókagerðar endurnýttur pappír. Bókaútgefendur halda því einnig á lofti að þeir séu yfirleitt mjög meðvitaðir umhverfisverndarsinnar. Við framleiðslu spjaldtölva og snjallsíma (smartphones) sé hins vegar vafasamur efnaiðnaður oft stundaður, þar sem níðst sé á fátækustu þjóðum heims með skelfilegum afleiðingum (sbr. nýlegan sjónvarpsþátt: Blood in the mobile). Í framhaldi af því má minna á að stór hluti þjóða heims, sem eru jú hluti af IFLA með sín fögru markmið um jafnrétti allra til menntunar og þroska, eiga sér ekki einu sinni eiginleg bókasöfn. Þar eru dýrir hlutir eins og spjaldtölvur fjarlægur draumur, enda yrðu þær reyndar víðast hvar gagnslausar þótt svo ólíklega vildi til að einhver hefði efni á slíku, þar sem rafmagn og rafskiptasambönd eru víða hverful ef nokkur hjá talsvert stórum hluta mannkyns. Nýlega hefur UNESCO samþykkt stefnuyfirlýsingu IFLA um rafræn bókasöfn þar sem lögð eru fram fögur markmið: „... to assist libraries in undertaking sustainable and interoperable digitisation activities to bridge the digital divide – a key factor in achieving the Millennium Development Goals of the United Nations. Digital libraries are essential for access to information, and for preserving national heritage.“ Guð láti á gott vita en því miður er oft himinn og haf milli fagurra yfirlýsinga og raunverulegra athafna en orð eru þó til alls fyrst. Trúlega kæmu rafrænar bækur og rafræn bókasöfn hvergi betur að notum en hjá þeim þjóðum sem lítils mega sín bæði fjárhagslega og menningarlega séð.

36. árg. 2012

Ég velti þess vegna fyrir mér svona í lokin hvort við, þessi (tækja)gráðuga þjóð þægindanna, ættum ekki að láta vit okkar og raddir heyrast á réttum vettvangi, til dæmis með eftirfylgni IFLA-yfirlýsingarinnar, sem styrkt gæti þá sem minnst hafa á þessu sviði. Það er eftirsóknarvert að sem flestar þjóðir verði samferða okkur svo við gætum notið þess að ganga saman í takt öllum til góðs í stað þess að olnboga okkur áfram. Um leið gætum við minnt okkur á að við erum manneskjur með að minnsta kosti fimm skilningarvit sem okkur ber að nýta til fulls. Til stuðnings:

Schaverien, Adele. (2006). Horn. Its history and its uses. [Wahroonga, N.S.W. : s.n.]. Jönsson, Jan. (2008). Läsmaskinen. Aspekter på bild och bok med utgångspunkt i Anders Billows verksamhet 1923-1953. Smygehamn : Jan Jönsson. Margrét Hallgrímsdóttir. (1990). Rannsóknir í Viðey. Vaxspjöld frá 15. öld finnast við uppgröft rústa Viðeyjarklausturs. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1990, bls. 91-132. „Book buzz - Economics of e-readers“, Eco-Libris. Sótt 28. des. 2011 af: http://www.ecolibris.net/bookbuzz.asp „Books are eternal“, Sarcasm is an art. Sótt 28. des. 2011 af: http:// iperfectedcramming.wordpress.com/tag/books-vs-ebooks/ Blood in the mobile. Sótt 29. des. 2011 af: http://bloodinthemobile.org „UNESCO endorses the IFLA Manifesto for Digital Libraries”, IFLA : Digital libraries. Sótt 3. jan 2012 af: http://www.ifla.org/en/news/ unesco-endorses-the-ifla-manifesto-for-digital-libraries

Hversu vel þekkir þú íslenskt samfélag? Árbók Hagstofu Íslands, Landshagir Landshagir, hefur komið út í 20 ár. Hún er ómissandi rit um flesta þætti íslensks samfélags. Traustar hagskýrslur eru í raun forsenda þess að reka flókin velferðarsamfélög og markaðshagkerfi nútímans. Tuttugasti árgangur Landshaga var gefinn út aukinn og endurbættur á fyrsta alþjóðadegi hagtalna 20. október síðastliðinn. Bókin kostar aðeins 4.900 krónur og hana má panta á netinu.

Áskrift

9 9 9 9

Yfir 300 töflur Yfir 50 gröf og skýringarmyndir 468 blaðsíður, allar í lit Skýringartexti bæði á íslensku og ensku

Hagstofan býður bókasöfnum landsins að kaupa áskrift að Landshögum með 10% afslætti, en það má gera á auðveldan hátt á vefnum. Bækurnar hafa mikið upplýsingagildi og ættu að vera öllum aðgengilegar.

Vantar þig eldri árganga í safnið? Þau bókasöfn sem kaupa áskrift að Landshögum gefst kostur á að kaupa eldri árganga á aðeins 1.000 krónur stykkið. Hringið eða sendið tölvupóst og við sendum ykkur það sem vantar um hæl.

www.hagstofa.is/landshagir

20 ÁRA

 528-1100 | h upplysingar@hagstofa.is

7


Hrappseyjarprentsmiðja

Kristín Bragadóttir

Ekki þarf að fjölyrða um hve báglega hagaði til um bókaútgáfu Íslendinga alla sautjándu öld og langt fram á hina átjándu. Strjálbýli og fátækt gerðu framleiðslu og dreifingu bóka erfiða. Þorri manna lifði við þvílíka fátækt, að ef nokkuð bar út af var hungursneyð fyrir dyrum. Embættismenn voru fáir og margir þeirra álíka snauðir og alþýðan. Annarsstaðar voru auðugir aðalsmenn og höfðingjar oft miklir styrktarmenn bókaútgáfu, en á Íslandi var sjaldnast slíku að heilsa. Enginn vísir var að borgarmyndun og engin menningarmiðstöð, nema ef telja skyldi biskupsstólana að Hólum og Skálholti. Þó er sagan ekki nema hálfsögð með þessu því biskupar annars stiftisins, lengst af Hóla, réðu einir hvað út var gefið í einu prentsmiðju landsins, en þar hafði Guðbrandur biskup skapað með fordæmi sínu þá föstu venju, sem enginn eftirmanna hans vildi brjóta að prentsmiðjan skyldi eingöngu hafa sáluhjálp manna að leiðarljósi og ekki sinna neinu öðru. Það má heita eina undantekningin sem verulegu máli skiptir alla sautjándu öld að Þórður biskup Þorláksson lét prenta fáeinar sögur sem voru Íslendingabók, Landnáma, Kristnisaga, Ólafs saga Tryggvasonar og Grænlands saga Arngríms lærða í Skálholti 1688 og 1689. En hann vildi ekki vera guðsorðinu til trafala og tók fram að ekki hafi hann „áformað að leggjast svo í sagnaprent, að þess vegna hindrist guðs orð, hvað ætíð

1.

8

á og skal mest metast, á meðan eg og mínir höfum ráð á þessu prentverki“.1 Hann hálfsá eftir þessu hliðarspori. Ekkert framhald varð á þessum útgáfum. Flestir munu líka hafa kunnað vel við gamla siðinn, svo rótgróinn sem hann var orðinn, og hafa naumast skilið til hlítar þvílíkur annmarki það var fyrir menn sem eignast þurftu innlent, veraldlegt rit að verða að setjast sjálfir við eða fá einhvern til þess að skrifa það upp ef þá var nokkur leið að ná í handrit að skrifa eftir.

Adam og Eva í aldingarðinum Eden. Tréð hlaðið gómsætum eplum og ormurinn vondi sýnilegur á miðri mynd. Trérista.

Jón Helgason: Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. (Safn Fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga, VI). Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafjelag; 1928, bls. 5-6.


bókasafnið

Barn nagar fjaðurstaf sinn djúpt hugsi. Trérista.

Undanfari Hrappseyjarprentsmiðju Fróðlegt er að skoða starfsemi Hólaprentsmiðju næstu tvo áratugina áður en Hrappseyjarprentsmiðja var sett á stofn. Afrakstur þeirrar prentsmiðju var ekki mikill, að jafnaði frá tveim og upp í fimm bækur á ári og fæstar stórar. Einna skást er árið 1753 með átta bækur og kver. Árin 1760-1763 virðist prentverkið hvílast alveg, og sum önnur ár kemur harla lítið út, til dæmis 1752 aðeins Lögþingisbókin og eitt smákvæði eftir Gunnar Pálsson, 1758 Lögþingisbókin ein og 1764 ekkert annað en ný prentun Lærdómskvers Eriks Pontoppidans sem hversdags var kallaður Ponti. Það sem út er gefið er að langmestu leyti gamalt guðsorð, sem náð hafði hylli meðal fólks og sífellt þurfti að endurnýja; Passíusálmar, Grallari, Hugvekjusálmar síra Sigurðar í Presthólum, Krossskólasálmar, Genesissálmar, Gerhardshugvekjur, Vídalínspostilla og annað í þeim dúr. Nýstárlegasta tiltæki þessa tímabils var það, að 1756 voru gefin út tvö bindi Íslendingasagna Nokrer Margfrooder söguþætter og Agiætar Fornmanna Sögur, svo og þýðing á erlendum róman, Þess svenska Gustav landkrons og þess engelska Bertholds fábreytilegir Robinsons eður lífsog æfisögur.2 Hér var um nýjung að ræða sem rekja mátti til Þýskalands en þar naut þessi nýja bókmenntagrein mikilla vinsælda. Á biskupsstólnum lá þá fjöldi andlegra bóka sem ekki gengu út. Lögþingisbókin er nálega hið eina sem út kom á Hólum veraldlegs efnis, en ekki var atorkan meiri en það, að sum árin féll prentun hennar alveg niður. Við og við voru íslenskar bækur prentaðar í Kaupmannahöfn svo sem fáeinar

36. árg. 2012

Annálar Björns á Skarðsá voru með því fyrsta sem prentað var í Hrappsey, í því nýa Konúnglega prívilegerada Bókþrykkerie, eins og sjá má á titilblaði. Trérista.

æfisögur eða minningar nýlátinna manna, að ótöldu því sem íslenskir menn gáfu þar út á latínu eða dönsku. Víða erlendis var átjánda öldin eitt gróskumesta skeiðið í bókagerð. Einmitt á því tímabili, sem hér hefur verið getið, fjölgaði bókum stórum í Danmörku, landinu sem öll samskipti Íslendinga miðust þá við. Æ fleiri menn urðu læsir og tímarit, blöð og bækur birtust á hverju ári, þar sem ritað var í léttum, ljósum og „snotrum“ búningi um margvíslegar fræðigreinar, fornar og nýjar. Farið var að huga að útliti bóka. Menntaleiðtogar þjóðanna höfðu bjargfasta trú á bókviti og nytsemi þess fyrir askana. Ef fólki væri kennt meira og því veittur betri kostur að fræðast, myndi það verða dygðugra, siðprúðara og atorkusamara. Menn skildu mátt prentverka og hve auðvelt var til dæmis að fræða eða reka áróður með prentun rita. Ekki er að efa, að ungum og áhugasömum Íslendingum, sem ólu aldur sinn í Kaupmannahöfn, hafi oft orðið þungt í skapi að hugsa heim til landsins, þar sem Hólaprentsmiðja var ein um hituna, og gegndi skyldum sínum með þeim hætti að gefa út aftur og aftur Það andlega bænareykelsi eða svipaðar bækur, en vanrækti allt annað, meðal annars atvinnuvegina og umbætur þeirra sem voru knýjandi. Ný prentsmiðja í burðarliðnum Eitthvað þessu svipað vakti fyrir Ólafi Ólafssyni, sem kallaði sig Olavius, þegar honum hugkvæmdist að stofna nýja prentsmiðju á Íslandi til að bæta úr helstu bókaþörf landsmanna en hann var hvatamaður að stofnun Hrappseyjarprentsmiðju. Ólafur

2. Svanhildur Gunnarsdóttir: Þýddir reyfarar á íslenskum bókamarkaði um miðja 18. öld. Ritmennt: Ársrit Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns (8) 2003, bls. 79-92. 3. Ingi Rúnar Eðvarðsson: Prent eflir mennt : saga bókagerðar frá upphafi til síðari hluta 20. aldar. (Safn til Iðnsögu Íslendinga, VIII). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag; 1994, bls. 41.

9


bókasafnið

36. árg. 2012

hafði útskrifast úr Skálholtsskóla, lesið um hríð guðfræði við Hafnarháskóla, en hætt því og gefið sig að náttúruvísindum og hagnýtum fræðum án þess að ljúka prófi. Frá 1770 vann hann mest að ritstörfum, bókaútáfu og rannsóknum á íslenskum atvinnuvegum. Síðar varð hann „kammersekreteri“ að nafnbót og tollheimtumaður á Skagen.3 Samtímis honum í Kaupmannahöfn var íslenskur maður, Eiríkur Guðmundsson, prestssonur austan frá Hofi og kallaði sig Hoff eftir bænum. Hann hafði verið prentari á Hólum árin 1764-68 en fór til Kaupmannahafnar til þess að læra meira um iðn sína. Olavius hafði hann með sér í ráðum, og er jafnvel sagt að það hafi einkum verið Eiríkur sem átti upptökin og eggjaði til framkvæmda.4 Hann taldi að illa hefði verið farið með sig á Hólum og vildi hefna harma sinna með því að koma upp annarri prentsmiðju.5 Olavius sótti 5. janúar 1772 um leyfi til stjórnarinnar að fá að stofna nýja prentsmiðju í Skálholtsbiskupsdæmi. Hann minntist fyrst á vesaldóm Hólaprentsmiðju og taldi niðurlægingu hennar vera hluta af bágindum Íslands. Menn séu án nauðsynlegrar kunnáttu í mikilsverðum fræðigreinum, og landið missi talsvert fé sem fari til bókaútgáfu í Kaupmannahöfn. Skólapiltar eigi jafnvel ekki kost á að kaupa námsbækur, heldur verði að skrifa þær upp. Eina úrræðið sé að stofna nýtt og gott prentver í landinu. Olavius vildi taka að sér að gefa út alls konar bækur veraldlegs efnis, fornar og nýjar, á íslensku og öðrum tungum, meðal annars skólabækur og orðabækur og annað til almennra nota.6 Leyfið var veitt að því undanskildu að Hólaprentsmiðja héldi einkarétti sínum til prentunar trúmálarita.7 Með konungsbréfi 4. júní 1772 fékk stúdíósus Ólafur Olavius leyfi til að setja nýja prentsmiðju í Skálholts stipti með þeim kjörum að hann mætti prenta í henni alls konar rit nema guðsorða bækur og skólabækur en skyldi greiða Skálholts kirkju árlega 100 dali frá árinu 1776.8 Þessi kvöð féll af prentsmiðjunni 1789. Þegar Ólafur Olavius hafði fengið konunglegt leyfi til að flytja nýtt prentverk hingað á land, leitaði hann fast eftir við Boga bónda Benediktsson að lána sér álitlega summu peninga til kaupa á prentverkinu. Hann átti ekki sjálfur fé en falaðist eftir því hjá Boga.9 Olavius hafði komist að því að Bogi ætti talsvert af fornsögum í handritum til að prenta. Olavius fékk lánið hjá Boga bónda Benedikssyni og keypti bestu tæki og tól í Kaupmannahöfn sem völ var

4. 5. 6. 7. 8. 9. 10. 11.

10

á. Næsta sumar eða 1773 flutti Olavius þau til Íslands á Stykkishólmsskipi. Var með í þeirri för Eiríkur Hoff prentari og sænskur stílsetjari, Magnús Moberg. Prentsmiðjan var sett á laggirnar í landi Boga í Hrappsey á Breiðafirði. Bogi lét þá reisa stórt og vandað hús undir hana á eyjunni. Það var „stofa góð, tilhöggvin utanlands“.10 Engum vafa er undirorpið að brotið var í blað í prentlistarsögu Íslendinga með stofnun Hrappseyjarprentsmiðju 1773. Nú var farið að huga að því að fræða fólk og kenna því fleira en guðsorð. Ýmis fræðslurit sáu dagsins ljós og voru vel þegin af fólkinu í landinu. Átjánda öldin er eitt mesta breytingaskeið í menningarsögu síðari tíma. Vegur alþýðunnar óx og af því spratt alþýðufræðsla. Það bar á framfaratrú, trú á landið og að vel væri hægt að nýta jarðir betur eins og rit Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal bera með sér. Fræðsla fyrir bændur og almenn fræðslurit urðu til og skiluðu árangri í bættum hag fólksins en sá hængur var á að stíll sem menn skrifuðu á átjándu öld var iðulega þunglamalegur og stundum uppskrúfaður. Ólafur rak prentsmiðjuna einungis í eitt ár en hvarf þá til Danmerkur, seldi Boga sinn hlut og varð Bogi þá eini eigandinn. Bryddað upp á nýjungum Letur sem kennt er við Hrappsey var notað til að prenta mansöngva og aðra stuttra kafla, en aldrei til heilla bóka. Letrið var hreinlegt og fallegt. Sérstaklega einkennilegur er í þessu letri bókstafurinn g. Hrappseyjarprentsmiðja átti 11 letur í upphafi, en síðar var tvennum nýjum bætt við. Það var árið 1784. Ekki var notaður rauður litur á letri í Hrappseyjarprentsmiðju. Tréristur sem notaðar voru til skreytinga voru keyptar erlendis. Frá starfsmönnum við Hrappseyjarprentsmiðju er það að segja að fram til 1780 hafði Bogi við hana tvo sveina og einn dreng, og stúdenta til prófarkalesturs, síðan voru tveir sveinar til 1784, og einn eftir það og allir voru sagðir hafa álitleg laun. Eiríkur Guðmundsson Hoff var fyrstur prentari, „en skildi við heiðurslítið 1777, sigldi og dó vesæll í Kaupmannahöfn nálægt 1790“.11 Eftir hann kom Guðmundur Ólafsson og var þrjú ár, 1777-80. Það sem næsta ár var prentað annaðist sænski stílsetjarinn, Magnús Moberg, má nefna Egils sögu, Lögþingisbók og Pósttilskipun 1782, en síðan tók Guðmundur Jónsson við árið 1782. Guðmundur kallaði sig síðar Schagfjörð.

Jón Helgason: Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. (Safn Fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga, VI). Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafjelag; 1928, bls. 5-8. Arngrímur Fr. Bjarnason: Prentsmiðjusaga Vestfirðinga. Ísafjörður: Ísrún; 1937, bls. 54. Jón Helgason: Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. (Safn Fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga, VI) Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafjelag; 1928, bls. 8-9. Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga : brot úr sögu íslenzkrar bókaútgáfu og prentunar frá öndverðu fram á þessa öld. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag; 1995, bls. 99. Jón Jónsson Borgfirðingur: Söguágrip um prentsmiðjur og prentara á Íslandi. Reykjavík: Jón Jónsson; 1867, bls. 39. Klemens Jónsson: Fjögur hundruð ára saga prentlistarinnar á Íslandi. Reykjavík: Félagsprentsmiðjan; 1930, bls. 80. Jón Helgason: Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. (Safn Fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga, VI). Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafjelag; 1928, bls. 10 og 23-24. Sama, bls. 23


bókasafnið

Skjaldarmerki Kristjáns kóngs sjöunda prýðir forsíðu heftanna af Lögþingisbókinni ásamt rósabekk.

Hann var við Hólaprentsmiðju frá því er hann var 14 vetra 1772, aðalprentari þar 1781-8 2. Hann fór síðan til Hrappseyjar og sigldi til kóngsins Kaupmannahafnar 1784. Upp frá því vann Magnús Moberg aftur einn að því sem prentað var og flutti til Leirárgarða ásamt prentsmiðjunni. Síðasta árið sem Bogi í Hrappsey lifði fól hann Benedikt syni sínum að annast Moberg. Prófarkalesendur eru nefndir þrír í Hrappsey. Einn var Jón Gíslason stúdent, sem síðar sigldi til háskólans í Höfn og dó þar. Annar var Markús Sigurðsson, hann tók prestsvígslu 1784 og dó prestur á Mosfelli í Mosfellssveit 1818. Þriðji var Jón skáld Þorláksson. Hann hafði þá tvívegis fengið brauð, en misst hvorttveggja sökum barneigna. Hann var nokkuð við starfsemi prentsmiðjunnar riðinn og gat það komið sér vel að hafa þar hagmæltan mann tiltækan. Jón fékk brauðið Bægisá haustið 1788 og hvarf frá prentsmiðjunni. Þess er getið, að Helgi nokkur Þorkelsson vann um hríð að bókbandi í Hrappsey fyrir Boga, en varð ósáttur við hann og náði sér niður á honum með því að yrkja háðkvæði um prentsmiðjuna. Prentsmiðjan stóð í blóma í 10 ár fyrir frábæra atorku Boga, og voru þar prentaðir ýmsir búritlingar, lagarit, sögur, rímur, kvæði og margt fleira. Hins vegar tók að halla undan fæti eftir það og síðari 10 árin kom lítið út. Margt merkisrita var prentað í Hrappseyjarprentsmiðju. Ekki verða þau öll tíunduð hér. Einungis nokkurra getið sem hafa þótt sérstök á einhvern hátt.

36. árg. 2012

Upphaf Annálanna í fyrstu útgáfu er ríkulega myndskreytt með tréristu. en annars er bókin ekki skreytt að undanteknum rósabekk við upphaf fyrsta kafla.

Bjartara framundan Fyrst og fremst var hugað að nytsamlegum ritum. Hagræðing í búskap og jarðabætur var það sem mest lá á að koma á framfæri við landsmenn. Nauðsynlegt var að færa atvinnuhætti í nútímalegra horf. Framarlega í þessum efnum stóð Eggert Ólafsson sem samdi Stutt ágrip um Lachanologia edur maturtabok sem gefin var út í Kaupmannahöfn 1774 og var um garðyrkju. Hann samdi einnig Bunadar-Baalkur ... um daglegt Buskapar-Lijf Islendinga, 1783 heilræðakvæði sem var ort í samræmi við tíðarandann. Aðrir höfundar stefndu í sömu átt og má nefna Ólaf Olavius sem gaf út bók um litun 1786, aðra um reikningslistina árið 1781. Einkum og sér í lagi var Magnús Ketilsson sýslumaður ötull og gaf ýmislegt út á prenti, sumt sannarlega með sérkennilegum titlum eins og Hestabit er hagaboot, 1776, og Heidner eta hrossakiöt. – Hvenær aa ad fara ad slaa? 1776. Þetta þóttu gagnleg rit fyrir bústörfin. Jafnvel námsbækur í hinum ýmsu efnum komu jafnóðum út.12 Magnús gaf út Tanke om det Rappsøiske Bogtrykkerie árið 1786 og er það góð heimild um prentsmiðjuna. Raunasaga prentsmiðjueiganda Ekki verður sagt að starfsemi Hrappseyjarprentsmiðju gengi létt og lipurlega fyrir sig. Bogi mátti þola ýmislegt mótlæti og óverðskuldað álas frá ýmsum sem ekki gátu unnað honum prentverksins og sem litu hann illu auga og var hann ásakaður um að hafa grætt meira en góðu hófi gengdi á prentuninni. Sú saga gekk að óvildarmenn Boga bónda hefðu fargað lista yfir kaupendur sem lofað höfðu að kaupa rit prentsmiðjunnar svo

12. Uggla, Arvid Hj.: Uppsala universitetsbibliotek samling av nyisländsk litteratur : några meddelanden. Särtryck ur Uppsala Universitetsbiblioteks Minnesskrift 1621-1921, bls. 573 .

11


bókasafnið

36. árg. 2012

ekkert varð af kaupunum. Treglega gekk að selja bækurnar og olli því bæði öfund og óvild ýmissa aðila í garð Boga sem og eymd og örbirgð landsmanna í kjölfar móðuharðindanna. Til að bæta úr reyndi Bogi að prenta guðsorðabækur með leyfi stiftamtmanns en það hafði hann alls ekki haft á áætlun sinni. Það fór á sömu leið. Stórar bækur voru sérlega kostnaðarsamar og tókst ekki að selja þær til þess að hafa upp í kostnað. Bogi var þreyttur af mótstreymi, mæddur af útgjöldum og eilífu þrasi og dró sig í hlé. Hann hætti loks prentumsvifum og kom prentverkinu í hendur tengdasyni sínum Birni bónda Gottskálkssyni. Prentsmiðjan á eyjunni smáu í Breiðafirði starfaði í rúm 20 ár og út af þrykki gengu 83 titlar, langflestir fræðslurit. Frá prentsmiðjunni komu grundvallar bækur og bæklingar um efni sem vörðuðu íslenskt þjóðfélag eins og lög og stjórnmál. Textar voru aðlagaðir og höfðu að markmiði að upplýsa bændur um möguleika á nýtingu lands síns og hagræðingu í atvinnuháttum. Önnur megin áhersla lá á bókaútgáfu til skemmtunar eins og kom glögglega í ljós með rímum eftir yngri höfunda og komu margar þeirra út á árunum milli 1777 og 1784. Úlfars rímur sterka eftir Þorlák Guðbrandsson Vidalín voru snemma gefnar út og nutu vinsælda. Útgáfa skemmtirita var þó á enda með endalokum prentverksins í Hrappsey og fóru lærðir menn upplýsingahreyfingarinnar að láta til sín taka.13 Margar Hrappseyjarbækur eru nú fátíðar og eftirsóttar og hafa ekki allra ötulustu safnarar getað aflað þeirra allra. Jafnvel konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn mun vanta eitthvað af þeim og átti það þó tilkall samkvæmt lögum til allra nýrra bóka í danska ríkinu þegar á dögum prentsmiðjunnar. Má og sjá af kansellíbrjefi 14. mars 1789, að aðstandendur prentsmiðjunnar hafa verið tregir að skila safninu bókum sínum og hafði ekkert frá henni komið þá síðan í árslok 1784.14 Islandske Maanedstidender hófu göngu sína í október 1773 og mun fyrsta hefti þeirra hið elsta sem í Hrappsey var prentað en það var skráð á dönsku sem við fyrstu sýn má teljast furðulegt. Ástæðan fyrir því er talin sú að prentsmiðjan átti um 200 fasta kaupendur í Danmörku sem Olaviusi tókst að safna í upphafi og forstöðumenn prentsmiðjunnar vissu að ekki myndi tjóa að bjóða þeim eintómar íslenskar bækur. Þetta var eitt af því fáa sem prentað var í Hrappsey með latínuletri, en með áramótunum er skipt um og gotneskt letur tekið upp. Þrír árgangar komu út á árunum 1773-76, hinn síðasti reyndar prentaður í Kaupmannahöfn. Er þetta elsta tímarit Íslendinga. Segir þar frá búnaðartíðindum, verslun og tíðarfari svo dæmi séu nefnd. Lögþingisbókin kom út í Hrappsey öll þau ár sem prentsmiðja var þar, alls 22 bækur. Töluvert var lagt í prentun sem Guðmundur Jónsson og Magnús Moberg önnuðust. Hún er

falleg og vönduð að allri gerð eins og margt sem prentað var um þessar mundir. Auk þess komu út í Hrappsey sjö önnur rit um lögfræðileg efni. Var hið mesta þeirra Tilskipanasafnið. Athyglisvert er og jafnframt aðdáunarvert að menn leituðust við að prenta bækur sem alþýða manna gæti haft gagn og gaman af. Stórhuga menn reistu sér hurðarás um öxl en töldu verkið tilraunarinnar virði. Skarðsár annálar voru meðal þess merkasta sem út var gefið í Hrappsey. Höfundur þeirra var Björn Jónsson að Skarðsá og komu fram svo til samtímis tvær útgáfur á árunum 1774-75. Var önnur þeirra jöfnum höndum á íslensku og latínu þannig að hinn íslenski frumtexti var prentaður á fyrri síðu, en latnesk þýðing hinum megin á opnunni. Var sú útgáfa í tveim bindum, sitt árið hvort, og sagt að hún væri ætluð „lærðum mönnum og útlendingum“. Hin, sem ætluð var Íslendingum, var prentuð á íslenzku eingöngu og kom út í einu bindi fyrra árið, 1774, með formála útgefandans Olaviusar. Átti hann einnig þátt í latínuþýðingu fyrra bindis stærri útgáfunnar, en talið er að þar hafi hann notið aðstoðar Jóns Þorlákssonar.15 Upphaf Annálanna í fyrstu útgáfu er ríkulega myndskreytt með tréristum en að öðru leyti er bókin ekki skreytt að undanteknum rósabekk við upphaf fyrsta kafla. Af kvæðum og rímum voru gefin út 20 rit, þar á meðal svonefnd Tullinskvæði sem voru eftir Christian Braunmann Tullin eða Nockur þess alþeckta danska Skálds sál. Herr Christ. Br. Tullins Kæ-væde, med ltlum Vidbætir annars efnes eins og það var kallað. Það var gefið út 1774 og enginn minni þýðandi en Jón Þorláksson, síðar prestur að Bægisá, þýddi það áíslensku. Einnig voru í bókinni nokkur ljóð eftir aðra en fyrrnefndan Tullin, þeirra á meðal eftir Jón sjálfan. Þessi bók þótti mikil nýjung á Íslandi mest megnis vegna þess að efni var eftir ungan samtímamann. Áhugi á rímum jókst meðal landsmanna og þóttu þær hin besta skemmtun. Jarðvegurinn var því hagstæður fyrir útgáfu slíks efnis. Þorlákur Guðbrandsson sendi frá sér Riimur af Ulfari Sterka sem komu út 1775. Úlfarsrímur eru fyrstu veraldlegu rímur prentaðar hér á landi. Þær urðu vinsælar, allnokkuð keyptar og fóru víða. Fleiri rímur gengu út úr Hrappseyjarprenti. Rímur þóttu nýjung og nutu um langt skeið vinsælda hjá þorra almennings. Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal var maður nýrrar hugsunar og hann hafði mikla þörf fyrir að láta gott af sér leiða með því að benda fátækum og ómenntuðum Íslendingum á nýjar leiðir til að afla sér matar og bæta búskap. Björn er þekktur fyrir að hafa fyrstur ræktað kartöflur á jörð sinni í Sauðlauksdal og hvatti menn til tilrauna á þessari jurt sem reyndist nokkuð auðræktuð og munaði um í pottum landsmanna. Björn var hluti af kynslóð upplýsingarmanna sem töldu að menntun og

13. Davíð Ólafsson: Wordmongers : post-medieval scribal culture and the case of Sighvatur Grímsson. Drg. University of St Andrews; 2008, bls. 91-92. 14. Jón Helgason: Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. (Safn fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga, VI). Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafjelag í Kaupmannahöfn; 1928, bls. 25. 15. Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga : brot úr sögu íslenzkrar bókaútgáfu og prentunar frá öndverðu fram á þessa öld. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag; 1995, bls. 101-104.

12


bókasafnið

Titilblað Egilssögu í fyrstu útgáfu bókarinnar. Sama tréskurðarmynd er notuð á lokasíðu bókarinnar.

36. árg. 2012

Íburðamiklir bókahnútar í enda hefta Lögþingisbókanna, hver með sínu móti.

upplýsing væri leiðin út úr fátækt. Hann rak áróður fyrir þeim nýjungum sem hann hafði trú á. Hann er þekktur fyrir rit sitt Atli eðr ráðagjørðir yngismanns um búnað sinn, helzt um Jarðar- og Kvikfjárrækt, Atferð og Ágóða, með Andsvari gamals Bónda, Samanskrifað fyri Fátækis Frumbýlinga, einkanlega þá, sem reisa Bú á Eyðijörðum Anno 1777 og var fyrsta útgáfa prentuð 1780. Þetta er bók um búnaðarmál og þrykkt af Guðmundi Ólafssyni. Hún var gefin út á kostnað konungs í Hrappsey og skyldi upplagið vera 800 eintök á prentpappír og 30 á skrifpappír. Skyldi síðan binda það inn að íslenskum hætti, og stiftamtmaður úthluta því ókeypis. Höfundi voru greiddir 2 ríkisdalir fyrir hverja prentaða örk. Sparlega var farið með skreytingar. Þrjár skreytimyndir og fáeinir litlir rósabekkir eru þó í bókinni. Annað upplag var prentað 1783 og hið þriðja árið 1834, þá að vísu í Kaupmannahöfn.16 Bókin þótti hið mesta þarfaþing og var eftirsótt. Sagan af Egle Skallagríms Syne var merkileg frumraun, gefin út 1782. Þetta er elsta útgáfa Egils sögu og var texti Möðruvallabókar til grundvallar prentuninni. Magnús Moberg sá um prentunina.Við upphaf fyrsta kafla er myndarlegur skrautbekkur og upphafsstafir. Bókahnútur er prentaður aftast. Afar fá titilblöð hafa varðveist og þykir bókin hið mesta fágæti. Jafnvel var hugað að þörfum barna. Gunnar Pálsson prestur í Hjarðarholti sá nauðsyn þess að fræða ungmenni. Hann tók því saman Lijtid wngt Støfunar Barn.17 Þessa bók prentaði

Guðmundur Schagfjörð árið 1782. Myndir til skreytingar eru til dæmis við upphaf fyrsta kafla þar sem talað er til lesandans. Grannir skreytingabekkir eru víða til aðgreiningar á efninu. Þetta er falleg bók og vönduð kennslubók í lestri.Við kaflaskipti eru rósabekkir. Í bókinni er meðal annars dálítið málsháttasafn, gátur og fáeinar vísur, þar á meðal stafrófsvísurnar tvær, sem nú eru alkunnar og hefjast á, A,b,c,d,e,f,g ... og mun séra Gunnar vera höfundur þeirra. Athyglisvert er að nú var farið að huga að lestrarefni við hæfi barna. Búnaðarbálkur Eggerts Ólafssonar eða Nockrar Hugleidingar, frammsetter i Liódum sem nefnast Bwnadar-Baalkur, rit sem gefið var út 1783. Þetta er mesta og merkasta kvæði Eggerts Ólafssonar, 160 erindi í þremur köflum, er nefnast Eymdaróður, Náttúrulyst og Munaðar-dæla. Er fyrsti hlutinn lýsing og ádeila á framtaks- og fyrirhyggjuleysi svo og hindurvitni og hleypidóma landsmanna. Hinir tveir fræðandi og leiðbeinandi um það er vísar til betri vegar.18 Neðanmáls eru skýringar Eggerts prentaðar með latínuletri, og mun það hvergi annars staðar notað í íslensku í Hrappseyjarbókum, enda ekki til þess ætlast, því að ekki er til í því bókstafurinn þ. Heldur th sett í þess stað. Dreifing afurðanna Bóksala gekk heldur skrykkjótt á Íslandi og markaðurinn var tregur. Hvernig bóksala gekk hér fyrr á öldum sést vel af einu dæmi. Árið 1779 lá fjöldi óseldra bóka á Hólum. Næsta áratuginn grynnkaði þar að vísu nokkuð á, en lager var enn

16. Bibliographical Notices, I. Nr. 85. 17. Bibliographical Notices, IV. Nr. 83. 18. Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga : brot úr sögu íslenzkrar bókaútgáfu og prentunar frá öndverðu fram á þessa öld. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag; 1995, bls. 102.

13


bókasafnið

36. árg. 2012

stór. Mönnum kom þá helst það ráð í hug, að senda nokkuð af birgðunum með Hofsósskipi til Kaupmannahafnar, en þar átti að skipta þeim niður á Íslandsför til ýmissa annarra hafna, og fela loks próföstum söluna samkvæmt kansellíbréfi 1. maí 1790. Drjúgan tíma þurfti til að koma öllu þessu í kring og ekki síður til að selja bækurnar og koma andvirðinu aftur norður til Hóla. Íslensk bókmenntaumsýsla og útgáfufyrirtæki voru þá betur sett í Kaupmannahöfn en nokkursstaðar á Íslandi sjálfu. Varla hefur verið fyrir því haft að senda rit til fjarlægra héraða og líklegast að Hrappseyjarprentsmiðja hafi átt mest allt traust sitt undir grannsýslunum einum. Bækur hennar eru líka flestar samdar eða gerðar úr garði í námunda við hana í Hrappsey, Búðardal, Galtardal, Hjarðarholti, á Helgafelli og Ökrum. Hlutdeild annarra fjórðunga var lítil og til dæmis alls engin í Austfirðingafjórðungi. Prentsmiðjan stóð í raun réttri skár að vígi að selja bækur sínar til Kaupmannahafnar, heldur en til dæmis austur í Múlasýslur, eða jafnvel til annarra héraða sem nær voru. Hún hafði og nokkurn markað í Danmörku framan af, en þar var sá hængur á, að bækur, sem þangað átti að selja, urðu að vera á erlendu máli, eða að minnsta kosti með þýðingu. En slíkar þýðingar voru seinunnar og kostnaðarsamar og ein ástæða þess, að prentsmiðjan hætti var sú, að hana skorti bolmagn til að þjóna tveimur mörkuðum. En ef kaupendur erlendis brugðust, þá gerðu Íslendingar það ekki síður sjálfir. Bækurnar lágu óseldar og grotnuðu niður. Ýmsar ástæður voru til þessa, almenn fátækt, gömul tregða og óvani að kaupa annað en guðsorð. Prentsmiðjan barðist í bökkum um hríð þangað til Skaftáreldar, einhver hræðilegasta óáran, sem yfir Ísland hefur dunið, reið baggamuninn og keyrði hana um koll, að heita mátti. En þó að kver hennar síðasta áratuginn væru bæði þunn og strjál, voru þau hið eina, sem þá birtist bókakyns á Íslandi sjálfu. Hólaprentsmiðja þraukaði ekki einu sinni fram til Skaftárelda, heldur hætti 1782, og aðalprentari hennar hvarf þá vestur til Hrappseyjar. Eftir að svo var komið, var leyft að gefa út nokkrar guðsorðabækur í Hrappsey, en engin var í þeirra tölu, sem nauðsynlegastar voru taldar af almenningi. Hólaprentsmiðja lá alveg niðri þangað til 1797, að rígur við Landsuppfræðingarfélagið hleypti í hana dálitlu fjöri. Einum tveimur árum síðar gaf hún út hinstu bók sína, sem jafnframt var minning síðasta Hólabiskups.19 Eigandi Hrappseyjarprentsmiðju, Bogi Benediktsson, bar fjártjón af henni og tvisvar bauð hann hana konungi til kaups, 1785 og 1787. Konungur hafði ekki minnsta áhuga. Haustið

1789 auglýsti Bogi í Lögþingisbók prentsmiðjuna fala fyrir sanngjarnt verð, þar sem honum virtist, að prentverkið „kinni ad verda landenu til stærra Gagns og Uppbiggingar være þad sett i eitt hentugra Plaats under lærdra, vitra og drijfande Manna Forsion“.20 Hagur prentsmiðjunnar batnaði aldrei svo að hún greiddi dómkirkjunni einn skilding. Bogi var nú tekinn að eldast og þreyttur orðinn á andstreymi sínu við rekstur prentsmiðjunnar og hefur hann talið sér meiri von að geta losnað við hana, eftir að skyldan um gjald var afnumin. Í lögþingisbók 1789 auglýsti hann prentverkið falt fyrir sanngjarnt verð með því að líklegt sé, að það „kynni að verða landinu til stærra gagns og uppbyggingar væri það sett í eitt hentugra pláts undir lærðra, vitra og drífandi manna forsjón.“21 Í Hrappsey gaf Björn Gottskálksson út eina bók veturinn 1793-94, Missiraskiptaoffur eftir sr. Jón Guðmundsson, er var meðal þess síðasta sem þar var prentað. Árið 1794 keypti Björn Gottskálksson prentsmiðjuna af Boga og árið eftir var hún flutt að Leirárgörðum.22 Prentsmiðjan að Hólum lagðist af stuttu síðar og sameinaðist starfseminni að Leirárgörðum. Aftur var aðeins um eina prentsmiðju að ræða í landinu og nú undir veraldlegri stjórn.23 Þegar Hrappseyjarprentsmiðja var komin á fallandi fót tók starf Magnúsar Stephensens við í íslenskri bókaútgáfu og hann hafði fram að færa fjölbreyttari bókakost en áður hafði verið boðinn og stóð að umfangsmeiri bókaútgáfu en hér hafði þekkst síðan á dögum Guðbrands biskups Þorlákssonar eins og Ólafur Pálmason fyrrum forstöðumaður Íslandsdeildar Landsbókasafns hefur bent á.24 Er Magnús Stephensen kom heim frá námi, var svo ástatt um bókaútgáfu hér á landi að heita mátti að prentsmiðjurnar tvær, Hólaprentsmiðja og Hrappseyjarprentsmiðja, stæðu báðar aðgerðarlausar. Á Hólum hafði engin bók verið prentuð á síðustu sex árum. Björn Gottskálksson, sem áður hafði stýrt prentsmiðjunni í Hrappsey, en hvarf norður að Hólum 1789, lýsti ástandi prentsmiðjunnar svo: „Hér standa Prenthúsin gluggalaus, Veggirnir sígnir niður frá Þekiuni, Stílkössunum samanhladid og slegit fyri allt i ödrum Endanum, Pressan skémd og fordiörfud og Rammarner ridgadir og svívirdtir so margt af þessu má fina danskin ádur brúkad verdur...“25 Ljóst er að ástandið var ískyggilegt. Lestrarþörf landsmanna var nokkur og þrátt fyrir fátækt komust menn yfir prentað efni. Eftir sem áður var skrifað

19. Jón Helgason: Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. Safn fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga. Kaupamannahöfn: Hið íslenska fræðafjelag í Kaupmannahöfn; 1928, bls. 74-76. 20. Lögþingisbókin 1789, bls. 78. 21. Jón Helgason: Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. (Safn fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafjelag í Kaupmannahöfn; 1928, bls. 22. 22. Jón Jónsson Borgfirðingur: Söguágrip um prentsmiðjur og prentara á Íslandi. Reykjavík: Jón Jónsson; 1867, bls. 41. 23. Davíð Ólafsson: Wordmongers : post-medieval scribal culture and the case of Sighvatur Grímsson. Drg. University of St Andrews; 2008, bls. 9192. 24. Ólafur Pálmason: Magnús Stephensen og bókmenntastarfsemi hans. Óútgefin kandidatsritgerð frá Háskóla Íslands 1963, bls. 4. 25. Sama, bls. 60-64.

14


bókasafnið upp og mörg merk handrit urðu til. Ekki var óalgengt að menn fengju lánaðar prentaðar bækur til að skrifa upp eftir. Menn höfðu tíma en að jafnaði ekki peninga til að versla sér lestrarefni. Um og eftir 1790 voru stofnuð hér á landi tvö félög er unnu í fræðsluátt, þótt aldrei yrðu þau fjölmenn. Þetta voru fyrstu lestrarfélögin hér á landi. Hið íslenzka Suðurlands bókasöfnunar – og lestursfélag, var stofnað í Reykjavík 1. febrúar 1790. Vorið 1792 var stofnað norðlenskt lestrarfélag, er náði til Eyjafjarðar-, Skagafjarðar- og Húnavatnssýslna. Lestrarfélögin urðu aldrei fjölmenn. Í félaginu syðra voru milli fimmtíu og sextíu, þegar flest var. Félögin keyptu einungis erlendar bækur, einkum danskar, svo að þátttaka var bundin því að geta lesið erlend mál. Ekki var því mikillar sölu bóka frá Hrappseyjarprentsmiðju að vænta af slíku lestrarfélagi enda fjárhagur hennar jafn bágur sem áður. Hrappseyjarprenti endanlega lokið Hólaprentsmiðja var í dróma en áhugi á að reisa upp prentsmiðjuna syðra. Sumarið 1794 hafði Björn Gottskálksson sótt til kansellíis um aukin réttindi Hrappseyjarprentsmiðju og hafði til þess meðmæli Ólafs stiftamtmanns og Stefáns amtmanns. Með bréfi 13. september 1794 veitti kansellíið prentsmiðjunni rétt til að prenta allar þær bækur, gamlar og nýjar, sem nýtilegar væru og Hólaprentsmiðja gæti ekki gefið út. Í öðru lagi var Hrappseyjarprentsmiðju veittur jafn réttur við Hólaprentsmiðju til að prenta bækur á öllum tungumálum og hvers efnis, sem væri, þó þannig, að hvor prentsmiðjan prentaði þýðingu nýs barnalærdómskvers, sem Hannes

36. árg. 2012

biskup hafði til endurskoðunar. Leyfið var prentsmiðjunni hinn mesti happafengur því að barnalærdómskverið var örugg söluvara. Alls komu út 83 sjálfstæðar útgáfur á 22 ára starfstíma prentsmiðjunnar. Þess ber hins vegar að gæta að hér eru meðtaldar 22 Lögþingsbækur og einnig komu Islandske Maaneds-Tidender út í þrennu lagi hjá prentsmiðjunni og teljast því sem þrjár bækur. Það er því ekki hægt að segja að um umfangsmikla starfsemi hafi verið að ræða, og lágu til þess ýmsar ástæður. Þó er augljóst að mikil breyting varð á efnisvali miðað við útgáfur Hólaprentsmiðju, sem áður var ein um hituna og hefði því getað boðið landsmönnum hið fjölbreytilegasta lestrarefni, þótt hún léti guðsorðið að mestu nægja. Ekki mátti við svo búið standa að eina prentsmiðja landsins legði upp laupana og eina prentverk íslenskra rita færi fram í Kaupmannahöfn. Landsuppfræðingarfélagsmenn ákváðu að efna til hlutafélags til að festa kaup á Hrappseyjarprentsmiðju. Stefán Stephensen var þegar sendur vestur í Hrappsey til að semja um kaupin, en prentsmiðjan var þá föl fyrir 400 ríkisdali, sem var helmingi lægra verði en Bogi hafði greitt fyrir hana. Margvíslegur sómi var að Hrappseyjarprentsmiðju þrátt fyrir erfiðleikana og væri íslensk menningarsaga snökktum snauðari án hennar. Veturinn 1794-95 var prentsmiðjunni valinn staður í EystriLeirárgörðum og hófst ný og aftur merkileg saga prentunar á Íslandi þótt með allt öðru sniði væri.

Háskóli Íslands Háskólatorgi S. 570 0777 - Háskólinn í Reykjavík Sólinni Nauthólsvík S. 599 6469 boksala@boksala.is

www.boksala.is

26. Ólafur Pálmason: Magnús Stephensen og bókmenntastarfsemi hans. Óútgefin kandidatsritgerð frá Háskóla Íslands 1963, bls. 67.

15


NordINFOLIT – tíu ára afmæli og breytingar Christina Tovoté, formaður stýrihóps NordINFOLIT, 2001-2010. Þýtt og staðfært af Stefaníu Arnórsdóttur og Astrid Margréti Magnúsdóttur.

„Hvaðan kemur ykkur kraftur til að draga þetta þunga hlass?“ Sú sem spyr er ein af lykilpersónum í bókasafnsfræðslu í Svíþjóð. Já, hvað höfum við eiginlega fram að færa? Að halda alþjóðlega ráðstefnu undir þeim talsvert háfleyga titli „Creating Knowledge“ hefur það markmið að beina sjónum að einum hinna nýrri háskóla, kemur okkur svolítið áleiðis en nær alls ekki að gera tæmandi grein fyrir því gæðastarfi sem á sér stað innan fræðsludeildar háskólabókasafnsins í Linköping. Hvernig byrjaði NordINFOLIT og verður framhald á því? „Fyrir alla muni finnið nú upp á einhverju sem kemur háskólanum í Malmö á kortið og snýst um brennandi spurningar í einmitt þessu samhengi!“ Það er forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs hins splunkunýja háskóla sem varpar þessari áskorun til okkar, samankominna fulltrúa svokallaðra sviða – ekki deilda, hins nýja lærdómsseturs, þar með talið háskólabókasafnsins. Við fjögur nýráðnu förum strax að hugsa um hugtakið sem farið er að bera á hér og þar í bókasafnsheiminum: information literacy eða upplýsingalæsi. Hugsað, sagt og gert. Tvö okkar eru send til Bandaríkjanna, þar sem málið er virkilega efst á baugi, til þess að sækja sumarskólann „Immersion“, sem haldinn er ár hvert í ýmsum ríkjum sem eru þátttakendur í Amerísku bókavarðasamtökunum (ALA – American Library Association). Þar halda allir kennararnir því ákaft fram að „to be a librarian today is to be a teacher.“ Þegar við erum komin heim til Malmö byrjum við svo að halda alþjóðlegar ráðstefnur með áherslu á upplýsingalæsi frá ýmsum sjónarhornum og nefnum þær „Creating Knowledge“. Við leggjum áherslu á að bjóða alltaf þekktum og viðurkenndum fyrirlesurum frá ýmsum löndum. Má þar nefna Patricia Senn Breivik frá Bandaríkjunum, Christine Bruce frá Ástralíu og Sheila Webber frá Bretlandi. Í einni af fyrstu ráðstefnunum vorið 2001 tekur Sigrún Klara Hannesdóttir forstjóri NORDINFO (Norræna ráðið um vísindalegar upplýsingar) þátt. Með sinni einstöku atorkusemi horfir hún einbeitt á okkur og segir hvetjandi: „Nú verðum við að koma þessu á í norrænu löndunum. Komið til okkar á 25 ára afmælisráðstefnuna „Content is King – Nordic Forum on Information Policy“ í Helsingfors í haust og við

16

bjóðum upp á styrk fyrir tvo frá öllum Norðurlöndunum og svo finnið þið upp á einhverju góðu sem við getum stutt í framhaldinu“. Þetta var tilboð sem ekki var hægt að hafna. Í framhaldinu varð samstarfsverkefnið NordINFOLIT (Nordiskt forum för samarbete inom området informationskompetens Nordic Forum for Information Literacy) til með einum fulltrúa frá hverju norrænu landi. Sporin fjögur sem við ákváðum í Helsingfors að við vildum vinna eftir hafa í stórum dráttum enst í tíu ár þrátt fyrir að NORDINFO hafi verið lagt niður 2004 og styrkurinn legðist af. 1. skref: Miklar gæðakröfur gerðu að Sumarskóli í upplýsingalæsi hefur verið haldinn í eina viku árlega til skiptis í hverju Norðurlandanna fyrir sig. Fyrsta námskeiðið sem haldið var í Kaupmannahöfn stóð reyndar í tvær vikur en svo kom í ljós að erfitt var að fá þátttakendur sem gátu verið svona lengi fjarverandi. Samtals hafa verið haldnir tíu sumarskólar fyrir norræna bókasafnsfræðinga, alltaf á sérstökum stöðum eins og í Færeyjum, í skerjagarðinum í Stokkhólmi og Finnlandi, á Jótlandi í Danmörku, í fjörðunum í Noregi og á heimili Snorra Sturlusonar í Reykholti á Íslandi. 2. skref: Ráðstefnan „Creating Knowledge“ hefur verið haldin annað hvert ár með um það bil 120 þátttakendum í hvert sinn. Viðfangsefni hafa meðal annars verið námsumhverfið (the learning environment), kennsluhlutverk bókasafnsfræðingsins (the educational role of the librarian), upplýsingahegðun (information behavior), samvinna stofnana (cross-institutional collaboration) og upplýsingalæsi og margbreytileiki (information literacy and diversity). 3. skref: Vefsetrið hefur verið erfiðasta viðfangsefnið gegnum árin. Eins og allir vita sem reynt hafa, er erfitt að halda úti lifandi og virkum vef, en metnaðurinn hefur líka verið mikill hvað honum viðvíkur. Í dag lítur vefsetrið svona út: http:// infolit10.latina.pedit.hio.no.


bókasafnið

36. árg. 2012

Við Goðafoss eftir stjórnarfund stýrihóps NordINFOLIT haustið 2003. Talið frá vinstri, Hans Martin Fagerli (Noregur), Nina Ström (Svíþjóð), Christina Tovoté (Svíþjóð), Kaisa Sinikara (Finnland), Annette Skov (Dannmörk) og Arnbjørn Dalsgarð (Færeyjar). Astrid Margrét Magnúsdóttir tók myndina.

4. skref: Málstofur um ýmis efni, til dæmis kennslufræði, í norrænu MLIS háskólunum, Bolognaferlið og svo framvegis. Málstofurnar voru að lokum lagðar niður þar sem þær eru venjulega of stuttar til að fólk legði á sig langa ferð innan Norðurlandanna. NordINFOLIT hefur sem sagt haldið áfram að þróast í áratug, en hugtakið upplýsingalæsi hefur á þeim tíma verið mikið í umræðunni um allan heim. Nú stöndum við frammi fyrir breytingum sem sennilega þýða að aðeins ráðstefnuskrefið lifir áfram. Eftirfarandi bréf sendi nýi stýrihópurinn á alla póstlista norrænu landanna í byrjun árs 2012: NordINFOLIT hefur boðið upp á stuðning, fræðslu og innblástur fyrir háskólabókasöfnin í starfi þeirra við að þróa kennslufræðihlutverk bókasafnsfræðinga og í samvinnu þeirra við deildir háskólanna vegna kennslu í upplýsingalæsi. Eftir innleiðingu Bolognaferlisins hefur þýðing almennrar leikni, þar á meðal upplýsingahæfni, hlotið viðurkenningu og er nú orðin þáttur í flestum greinum í háskólum og á mörgum stöðum eru dæmi um vel skipulagða samvinnu milli bókasafns og háskóladeilda í norrænu löndunum. Kennsluhlutverk bókasafnanna er í stöðugri þróun en stendur föstum fótum. Vegna þessarar jákvæðu þróunar má segja að NordINFOLIT hafi lokið sínu hlutverki. Þess vegna leggur sitjandi stýrihópur til að hin norræna samvinna finni sér nýjan farveg. Við stingum upp á eftirfarandi: Samvinna í núverandi NordINFOLIT verður lögð niður og einnig hinn árlegi sumarskóli. Norræna samvinnan heldur áfram með skipulagningu á hinni farsælu ráðstefnu „Creating Knowledge“. Norrænu

löndin skiptast á að halda ráðstefnuna og það land sem heldur hana hverju sinni gegnir einnig forystu í þessari samvinnu. „Creating Knowledge“ var síðast haldin í Bergen 2010 og nú er komið að Svíþjóð að taka við stjórninni. Jákvæð svör hafa þegar borist og það lítur út fyrir að NordINFOLIT gangi inn í nýjan áratug virkt en með breytta starfsemi og áætlanir um enn eina stóra alþjóðlega ráðstefnu, sennilega í Lundi. Í dag er stýrihópurinn skipaður eins og fram kemur hér að neðan. Fulltrúar Danmerkur og Færeyja, Anne Cathrine Trumpy og Arnbjørn Ó. Dalsgarð, hafa ekki setið í stýrihópnum síðan vorið 2011. Nánari upplýsingar gefa meðlimir stýrihópsins, sem tekur einnig gjarnan við athugasemdum, tillögum og hugmyndum. Astrid Margrét Magnúsdóttir, formaður, Ísland, astrid@unak.is Bolethe Olsen, Grænland, bool@uni.gl Karin Jönsson, Svíþjóð, Karin.Jonsson@sambib.lu.se Lars Egeland, Noregur, lars.egeland@hio.no Päivi Helminen, Finnland, paivi.helminen@helsinki.fi

17


Ímynd bókasafns- og upplýsingafræðinga Ímyndarhópur Upplýsingar og SBU.

Þessi grein er byggð á vinnu Ímyndarhóps Upplýsingar og SBU. Hún fjallar um mikilvægi þess að taka upp yfirheitið upplýsingafræðingur í stað bókasafns- og upplýsingafræðingur. Víða um heim hafa háskólar tekið upp heitið upplýsingafræði fyrir námsgreinina. Í greininni er lögð áhersla á mikilvægi þess að laga ímynd bókasafnsog upplýsingafræðistéttarinnar og lögð er til stutt en hnitmiðuð lýsing sem hún gæti sameinast um. Hún hljóðar svo: Upplýsingafræðingur skipuleggur upplýsingar og greiðir almenningi, atvinnulífi, skólum og vísindasamfélagi aðgang að afþreyingu og áreiðanlegri þekkingu (hvort sem er á stafrænu eða áþreifanlegu formi). Inngangur Það var þetta langa heiti, bókasafns- og upplýsingafræðingur, sem stjórnir SBU (Stéttarfélags bókasafnsog upplýsingafræðinga) og Upplýsingar voru alltaf að hnjóta um. Félag sem stendur í kjarabaráttu fyrir félagsmenn á ekki auðvelt uppdráttar þegar viðsemjendur eru sífellt að hnjóta um starfsheitið og vita ekki hvað félagar þess starfa við. Nema kannski að raða upp bókum! Bókasafns- og upplýsingafræðingar (hér eftir nefndir upplýsingafræðingar) vinna fjölbreytt störf á mörgum sviðum þjóðfélagsins. Stéttina sárvantar hnitmiðað starfsheiti, sem skilgreinir starfið almennt þrátt fyrir ólík sérsvið félagsmanna, starfsheiti, sem sameinar og styrkir heildina. Auk þess þarf stöðugt að vinna með ímynd bókasafns- og upplýsingafræðinga eins og ímynd annarra stétta þeim til framdráttar og vegsauka. Noa Aharony (2006, s. 236) vitnar til skilgreininga í Veforðabókinni fyrir bókasafns- og upplýsingafræði (The Online Dictionary for Library and Information Science (ODLIS)) frá 2004 og í greinum eftir R. Taylor frá 1966 og H. Borko frá 1968. Veforðabókin skilgreinir upplýsingafræði sem kerfisbundna rannsókn og greiningu heimilda, þróun, söfnun, skipulag, dreifingu, mat, notkun og stjórnun upplýsinga í öllum myndum þeirra, þar með taldar boðleiðir (formlegar og óformlegar) og tæknin sem notuð er við miðlun þeirra.

18

Taylor lagði til aðra og miklu víðtækari skilgreiningu: [Upplýsingafræði er] vísindin sem kanna eiginleika og hegðun upplýsinga, öflin sem stýra flæði upplýsinga og aðferðirnar við vinnslu upplýsinga til að hámarka aðgengi og notagildi. Ferlin fela í sér skipulagningu, miðlun, söfnun, skipulag, vörslu, endurheimt, túlkun og notkun upplýsinga. Fræðasviðið spannar eða tengist stærðfræði, rökfræði, málvísindum, sálfræði, tölvutækni, rannsóknum, grafík, fjarskiptum, bókasafnsfræði, stjórnun, og nokkrum öðrum sviðum. Aharony bendir á að í þessari skilgreiningu megi greina nokkra eiginleika upplýsingafræða: 1. Áhersla upplýsingafræðinnar er fyrirbærið upplýsingar. Sviðið spannar alla þætti upplýsinga, óháð formi þeirra. 2. Upplýsingafræðingurinn sinnir upplýsingum allan „líftíma“ þeirra. 3. Sviðið er þverfaglegt. 4. Þessi skilgreining miðast hvorki við stofnun né stað, heldur er öll áherslan á tilgang bókasafnsins: aðgengi og notagildi/nýtingu upplýsinga. Þótt með þessari skilgreiningu sé reynt að greina á milli upplýsingafræðinnar og bókasafnsfræðinnar, fylgir hún skilgreiningu ALA (American Library Association) á bókasafnsfræði. Aharony vitnar síðan í Borko sem segir: Upplýsingafræði er það fag, sem rannsakar eiginleika og hegðun upplýsinga, öflin sem stjórna flæði upplýsinga, og aðferðir við úrvinnslu upplýsinga til hámarks aðgengis og notagildis þeirra. Hún fjallar um þann þátt þekkingar sem snertir uppruna, söfnun, skipulag, vörslu, endurheimt, túlkun, miðlun, umbreytingu og nýtingu upplýsinga.


bókasafnið

36. árg. 2012

Lagt er til að félagsmenn ofangreindra samtaka sameinist um nýtt starfsheiti, það er upplýsingafræðingur, sem kostar ekkert en gerir stéttina nútímalegri og öflugri. Samkvæmt lögfræðiáliti Láru V. Júlíusdóttur, sem hún gerði fyrir Upplýsingu, er félagsmönnum heimilt að nota hvort heldur sem er starfsheitin bókasafns- og upplýsingafræðingur, bókasafnsfræðingur eða upplýsingafræðingur. Enn fremur eru dæmi um aukna aðsókn í fagið erlendis þar sem skólar hafa breytt fagheiti úr bókasafnsfræði í upplýsingafræði. Einnig sýna dæmi mikinn launamun á milli bókasafnsfræðinga og upplýsingafræðinga í stéttinni víða erlendis. Vinnuhópurinn Formaður Upplýsingar, Hrafnhildur Hreinsdóttir, kallaði eftir upplýsingafræðingum til að vinna að ímyndarvinnu stéttarinnar haustið 2010 og komu um 15 manns saman á fyrsta fundi. Í dag telur hópurinn átta manns af margvíslegum sviðum atvinnulífsins. Fljótlega komst hópurinn að þeirri niðurstöðu að kalla til Fjalar Sigurðarson almannatengslaráðgjafa til að fá hlutlausa sýn á málið og sérfræðiálit. Lýsing á vinnuferli: Fyrsta verk Fjalars var að setja hópnum fyrir heimavinnu. Meðlimir Ímyndarhóps áttu að punkta niður hvað þeir gerðu í vinnunni. Sjálfur lagðist Fjalar í heimildavinnu um fræðin og stéttina. Hann fékk síðan senda lýsingu frá okkur í hópnum. Fjalar lagði til að nálgast þetta viðfangsefni með lyftufrasa, meðal annars til þess að við gætum sagt fólki á 30 sekúndum hvað stéttin gerir og haldið athygli þess. Þá var unnið upp úr starfslýsingum okkar sem og starfslýsingu sem SBU var búið að útbúa. Með því móti var hægt að finna út það sem er öllum félögum sameiginlegt og hverfa frá því að kenna stéttina við stað, (bókasafn), en þess í stað fremur við innihald starfsins. Ímyndarhópurinn sameinaðist um þennan lyftufrasa eftir mikla yfirlegu. Hann er þó ekki endanlegur, enda æskilegt að hann þróist áfram í breytilegu vinnuumhverfi. Lyftufrasinn: Upplýsingafræðingur skipuleggur upplýsingar og greiðir almenningi, atvinnulífi, skólum og vísindasamfélagi aðgang að afþreyingu og áreiðanlegri þekkingu (hvort sem er á stafrænu eða áþreifanlegu formi). Þegar Ímyndarhópurinn hafði komist að niðurstöðu um að starfsheitið upplýsingafræðingur (sjá mynd 1) hentaði betur en bókasafns- og upplýsingafræðingur okkur til framdráttar, hvort sem það væri í starfi eða í kjarabaráttu, var tekin sú ákvörðun að halda sameiginlegan kynningarfund haustið 2011 með félögum Upplýsingar og SBU. Á þeim fundi var verkefnið kynnt fyrir félagsmönnum og fengið vilyrði fyrir áframhaldandi starfi Ímyndarhópsins um starfsheitið upplýsingafræðingur. Áður hafði verið kynningarfundur á Morgunkorni Upplýsingar um ímynd bókasafns- og upplýsingafræðinga og bókavarða, 14. apríl 2011 þar sem Fjalar

Mynd 1 - Upplýsingafræðingur

Sigurðarson kom og kynnti fyrir félagsmönnum af hverju ástæða væri fyrir okkur að fara út í þessa vinnu. Það þarf að horfa til þróunar í námi og starfi stéttarinnar. Rannsóknir víða um heim varpa ljósi á þörf fyrir þróun í námi og starfi og hafa margir háskólar orðið við henni. Fræðin og þróun stéttar Taiga Forum lagði fram ögrandi staðhæfingar um framtíð fræðanna: 1.

2.

3.

4.

Á næstu fimm árum mun skipulag bókasafna/upplýsingastöðva leysast upp og fletjast út. Söfnin munu hafa minna sjálfræði og staða safnafólks heyra undir aðrar deildir eða önnur svið. Þessi þróun er þegar hafin. Innan fimm ára munu stjórnvöld krefjast enn meiri niðurskurðar á fjárveitingum til sérfræðisafna og lögð verður áhersla á róttækari samvinnu og sameiningu meðal háskóla í samkeppni, samnýtingu safnkosts þeirra og aukna úthýsingu með sameiginlegu starfsmannahaldi og samþættri þjónustu. Innan fimm ára munu háskólasöfn annaðhvort velja samstarfsaðila eða þeir verða valdir fyrir þau. Bókasafnsfræðingarnir munu ekki lengur geta haldið fram kenningunni um bókasafnið sem samkomustað án þess að opna það fyrir annars konar starfsemi. Innan fimm ára munu viðskiptavinir bókasafna fullnægja öllum upplýsingaþörfum sínum á vefnum og munu aldrei fara í söfnin. En á sama tíma munu þeir dásama þau sem helgidóma þar sem hægt sé að eiga samneyti við bækur. Söfnin munu svara með því að bjóða upp á hannaðar sýningar á bókum sem skrauti og fegurðarauka.

19


bókasafnið

36. árg. 2012

5.

Á næstu fimm árum mun upplýsingaþörf fólks verða svarað með „peþ“ (pöntun eftir þörfum). Stórum samningum um safnsuppbyggingu/kaup á gögnum verður sagt upp og uppbygging safnkosts verður aðeins á hendi fárra til þess kjörinna bókasafna/stöðva. 6. Innan fimm ára munu tilburðir við að þróa gagnaforrit (e. research data management) til stjórnunar og umsýslu hafa leitt til nýs líkans innan upplýsingafræðinnar sem einblína mun á innihald og samtengingu stofnana/safna. 7. Á næstu fimm árum munu starfsmenn bókasafna gangast undir hæfni-/hæfileikaúttekt og byrjað verður að ráða fólk til að bæta úr nýrri þörf. Þau söfn sem lifa af munu hafa þróað starfslýsingar/starfsmannastefnu og endurskipulagt starfsmannahaldið með fækkun og endurþjálfun og menntun. Hin ólánsömu söfn munu tapa hafi þeim ekki lánast að uppræta andstöðu við breytingar sem mundi fæla burt besta og hæfileikaríkasta starfsfólkið. 8. Eftir fimm ár verða öll bókasöfn, kerfi og þjónusta í skýjunum (gögn vistuð í „clouds“). Þetta mun kalla á enn meiri samvinnu safna og stofnana. 9. Innan fimm ára munu bókasöfnin neyðast til að viðurkenna að gögn hafi hrannast upp „í geymslum“. Til að hreinsa til munu söfnin grípa til skipulagðra afskrifta og eyðingu gagna. 10. Innan fimm ára mun safnakerfið hafa framleitt of marga meistaranámsnema (MLSs), og það hraðar en doktorsnema (PhDs) í húmanísku greinunum og yfirfyllt viðvarandi smækkaðan markað fyrir slíka. (Taiga Forum 2011 Provocative Statements, 2011). Meðal háskóla á Vesturlöndum eru flestar deildir að þokast í þessa átta, það er að segja að útskrifa upplýsingafræðinga (e. Information specialists/Information scientists). Enda ber kennslan öll þess merki að innihald hennar er upplýsingafræði fremur en bókasafnsfræði. Ekki ber að skilja það svo að bókasafnsfræði sé skammarheiti heldur fremur heiti sem átti við stéttina fyrir tækni- og upplýsingabyltinguna þar sem hún starfaði nær eingöngu á vettvangi bókasafna. Danir breyttu danska heitinu á Konunglega bókasafnsog upplýsingafræðiháskólanum (Danmark biblioteksskole) í Det Informations-videnskabelige Akademi, en í kjölfarið á breytingunni má sjá 55% aukningu í aðsókn í Kaupmannahöfn og 21% í Álaborg (Det Informations-videnskabelige Akademi, 2011). iSchools hreyfingin er vaxandi samtök skóla úr öllum heimsálfum sem kenna sig við upplýsingafræði. Samtökin voru stofnuð árið 2005 og telja yfir 30 skóla í dag. Forsvarsmenn iSchools einsettu sér að vinna markvisst að endurnýjun og framgangi upplýsingafræða sem byggjast á á grunni hefðbundinna bókasafnsfræða. Tæknin hefur breytt bókasafnsfræði í upplýsingafræði og iSchools skólarnir vinna með þann veruleika. Rannsóknir benda til nauðsynjar þess að bókasafnsfræði lagi sig að breytingum á sviði fræðanna. Nám

20

í takt við samfélagið er forsenda þess að fagið og fræðin haldi velli og að fólk sæki í námið (sótt af vef iSchools). Hér eru fleiri dæmi um skóla þar sem lögð hefur verið meiri áhersla á upplýsingu: University of California, Berkeley: School of information University of Brighton: Department of Information Studies Cornell University: Cornell Information Science Aberystwyth University - Department of Information Studies Syracuse University: The School of Information Studies Loughborough University: Department of Information Science University of Sheffield: Information School Det Informations-videnskablige Akademi Yfirlit og tillögur um breytingar í þessa átt má lesa í rannsókninni Information Science in Europe (Ibekwe-Sanjuan, Aparac-Jelušić, Ingwersen og Schloegl, 2010). Fram kemur í tímaritsgrein, sem Golub (2009) skrifar, að þótt stétt bókasafns- og upplýsingfræðinga sé að meirihluta konur virðist víða um heim sem karlar hafi fremur verið í hærri stöðum og fengið hærri laun á síðastliðinni öld. Þar sem upplýsingageirinn (e. information sector) sérhæfist í auknum mæli hafa skapast tækifæri fyrir tæknisérfræðinga (e. technical specialists) í mörgum greinum og ógnað tilveru bókasafnsog upplýsingafræðinga (e. LIS profession). Á sama tíma hefur aðsókn kvenna í tækninám (e. technology literature) dregist saman um 20%. Mismunur á launum bókasafnsfræðings (e. librarian) og upplýsingafræðings (e. information specialist) er mikill og fer vaxandi. Meðallaun bókasafnfræðinga árið 2002 voru $43.090 á meðan upplýsingafræðingur var með $77.760 og eru karlar í meirihluta upplýsingafræðinga eða 70% mannaflans. Bókasafns- og upplýsingfræði er kennd í Háskóla Íslands. Þegar námsskráin er skoðuð kemur orðið upplýsingafræði í langflestum tilvikum fyrir en bókasafnsfræði mun sjaldnar. Sanders (2008) rannsakaði viðhorf forstöðumanna bókasafna til nýútskrifaðra bókasafns- og upplýsingafræðinga. Í ljós kom skortur á námi í takt við breytt landslag upplýsinga. Bókasöfn kvörtuðu undan því að þurfa að ráða fólk með aðra menntun og bakgrunn til að sinna verkþáttum sem eiga þó heima innan bókasafns- og upplýsingafræði. Ef fagstéttin ætlar að vera í takt við samfélagið þarf að bjóða upp á fleiri tækninámskeið sem skyldu en eru í dag. En það breytir ef til vill ekki því að heitið upplýsingafræðingur er meira í takt við umhverfið og námið. Framtíðin Framtíð upplýsingafræðinga er í okkar höndum. Hvort framtíðarsýn Taiga Forum er raunveruleiki er góð spurning. Eitt er víst að tæknin á eftir að breyta miklu á næstu misserum í starfi okkar. Það er okkar að þróast með henni. Sem dæmi má nefna að búið er að loka um 20% bókasafna í Svíþjóð þar sem þau eru ekki með nægjanlega aðsókn (Scandinavian companies and market, 2011). Fagið verður að þróast


bókasafnið áfram þannig að stéttin geti verið skrefi á undan framþróun samfélagsins og séð fyrir þær breytingar og tileinkað sér þær, áður en þær verða úreltar. Við viljum ekki breyta okkur breytinganna vegna, heldur vegna nauðsynlegrar starfsþróunar og til þess að ná utan um, skilja og nýta þær okkur til framdráttar. Niðurstöður rannsókna sýna að breytingar á námsskrám eiga að haldast í hendur við breytingar í samfélaginu á sviði tækni og upplýsinga. Nemendur með menntun á sviði upplýsingafræða auka möguleika sína á atvinnu hjá ólíkum atvinnurekendum. Starfstitillinn bókasafnsfræðingur gerir menntuninni og þar með hæfninni ekki nægilega góð skil. Upplýsingafræðingar starfa ekki bara á bókasöfnum. Þróunin í faginu hjá háskólum víða um heim hefur verið að sameina deildir í upplýsingavísindum við aðrar deildir eins og blaðamennsku og tölvunarfræði. Sú þróun hefur verið faginu til framdráttar (Abdullahi og L. Kajberg, 2004; Dugan, 2010; Gerolimos, 2009; Kajberg, 2003; Ross og Sennyey, 2008; Sanders, 2008; Steierwald, 2006; Willard, Wilson, og Cole, 2003). Janúar 2012 Ímyndarhópur Upplýsingar og SBU: Margrét Sigurgeirsdóttir Hrafn Andrés Harðarson Sara Stef. Hildardóttir Sigrún Guðnadóttir Erna Björg Smáradóttir Óskar Þór Þráinsson Kristín Ósk Hlynsdóttir Andrea Ævarsdóttir

Abstract

36. árg. 2012

Heimildir Abdullahi, I. og Kajberg, L. (2004). A study of international issues in library and information science education: survey of LIS schools in Europe, the USA and Canada. New Library World, 105(9/10), 345–356. Aharony, Noa. (2006). The librarian and the information scientist: different percaptions among Israeli information science students. Library & Information Science Research, 28, 235-248. Det Informations-videnskabelige Akademi. (2011). Sótt í ágúst 2011 af http://iva.dk/omiva/nyheder/default.asp?cid=27479. Dugan, C. (2010). Undergraduate LIS education in the US and Europe: practices and trends. Sótt 6. janúar 2012 af http://dspace-unipr.cilea.it/ handle/1889/1285. Gerolimos, M. (2009). Skills developed through library and information science education. Library Review, 58(7), 527–540. Golub, Erin Marie. (2009). Gender devide in librarianskip: past, present, and future. Library Student Journal, október, 2009. Ibekwe-Sanjuan, F., Aparac-Jelušić, T., Ingwersen, P., & Schloegl, C. (2010). Information science in Europe. Proceedings of the American Society for Information Science and Technology, 47(1), 1–2. Kajberg, L. (Höf.). (2003). Cross-country partnerships in international library and information science education. New Library World, 104, 218226. Ross, L. og Sennyey, P. (2008). The Library is Dead, Long Live the Library! The Practice of Academic Librarianship and the Digital Revolution. The Journal of Academic Librarianship, 34(2), 145-152. Sanders, R. (2008). Current demand and future need for undergraduate LIS education in Australia. The Australian Library Journal. 57(2), 102. Scandinavian companies and market. (2011). Libraries in Sweden are also closing down as so far, one fifth of the country’s libraries are now closed. Sótt 15. janúar af http://www.scancomark.se/Regional/Librariesin-Sweden-are-also-closing-down-as-every-five-libraries-are-closed. html. Steierwald, U. (2006). Five aspects of current trends in German library science. Education for Information, 24(4), 193–200. Taiga Forum 2011 Provocative Statements. (2011). The community of AULs and ADs: challenging the traditional boundaries in libraries. Sótt 5. september 2011 af http://taigaforumprovocativestatements.blogspot. com/2011_05_01_archive.html. Upplýsing: fagfélag um bókasafns- og upplýsingafræði, af http:// www.upplysing.is

The image of Library- and Information Scientists This article is based on the work of a task-group set up by Upplýsing (Association of Library- and Information Science) and SBU (Union of Professional Library- and Information Scientists) to find ways to improve the image of the profession. The group proposes the profession to use only the title of information scientist instead of library - and information scientist. In many countries, universities have changed the names of their departments and field of studies to Information science or studies. The task group stresses the importance of improving the image of the profession by constructing a short but exact description of it, acceptable by everyone. Thus: An information scientist organises information (digital and physical) and facilitates access to popular and reliable knowledge by the general public, businesspeople, students and the scientific community.

21


Við erum hætt að vera svona hæversk Einar Ólafsson ræðir við Önnu Torfadóttur

Anna Torfadóttir hefur starfað við Borgarbókasafn Reykjavíkur frá árinu 1978, sem borgarbókavörður frá 1998 og lætur nú af störfum. Hún rifjar upp nokkur minningabrot með Einari Ólafssyni. Ég hef ósjaldan spurt mig að því hvers vegna ég, og raunar margir samstarfsmenn mínir á Borgarbókasafni, hef starfað svo lengi á sama stað. Skýringin er einföld. Stofnunin og störfin eru stöðugt að breytast og því erum við alltaf í ,,nýju“ starfi á spennandi stofnun. Tæknilegar breytingar vega þungt ásamt gjörbreytingu á rými en ekki síst opnari hugur okkar sem vinnum í almenningsbókasöfnum varðandi viðfangsefni og hlutverk almenningsbókasafna á hverjum tíma. Að sækja Bæjó Fyrstu kynni mín af Borgarbókasafninu, sem engan skyldi undra að mér þykir afar vænt um, eru þau að ég fer að sækja Bæjó, eins og safnið kallaðist hjá okkur krökkunum, sjö, átta ára. Með vinkonum mínum hjóla ég vestan úr Skjólunum, stundum daglega á sumrin. Á veturna höfðum við aðgang að útibúi eða lesstofu Bæjarbókasafnsins í Melaskólanum. Þetta glæsilega hvíta hús í Þingholtsstræti var sannkölluð ævintýrahöll, enda gjarnan talið með fallegustu steinhúsum í Reykjavík. Margir hafa fjallað um þessa hvítu ævintýrahöll sem hafði svo mikil áhrif á þá. Grófarhús, sem hýsir aðalsafn nú, er ekki alveg eins áhrifamikið fyrir barnssálina. Það var ótrúleg upplifun að ganga inn í garðinn, upp breiðar tröppur, fara inn og finna lyktina af gólfbóninu og af bókunum sem voru allar í þessu sérstaka rauðbrúna bókasafnsbandi. Bækurnar voru enn dularfyllri en ella því ógjörningur var að geta sér til um innihaldið þar sem þær litu allar nánast eins út, aðeins misstórar. Barnadeildin á þessum tíma var fjórar bókahillur í háum fallegum bogaglugga og sætin voru í gluggakistunni. Útlánsdeildin öll var aðeins helmingur miðhæðar þessa glæsilega húss, ekki var rými fyrir sæti til að tylla sér. Starfsmenn voru mestmegnis konur, ekkert sérstaklega mikið fyrir börn, en mér er minnisstæðastur Páll Sigurðsson sem sat í stóra afgreiðsluborðinu í miðjunni. Hann svaraði öllum spurningum af mikilli hlýju og leiðbeindi. Aðeins mátti taka þrjár bækur að láni í einu og við gættum

22

Fjórir borgarbókaverðir: Eiríkur Hreinn Finnbogason (1966-75), Þórdís Þorvaldsdóttir (1985-97), Elfa-Björk Gunnarsdóttir (1975-85) og Anna Torfadóttir (1998-2012).

þess alltaf vinkonurnar að taka ekki sömu titlana til að ná sem mestu í hverri heimsókn. Það jók svo ljómann af ævintýrahöllinni að ég vissi að frændi minn réði þar ríkjum, en Snorri Hjartarson skáld og pabbi voru systkinasynir. Áhrifin af bókasafnsheimsóknunum voru þau að við vinkonurnar bjuggum til bókasafnsleik í stað þess að vera í búðarleik. Við vélrituðum og settum ,,vasa“ og spjöld í bækurnar heima, útbjuggum lánþegavasa og lánuðum út með ,,Brown“kerfinu. Við notuðum Íbúaskrá Reykjavíkur, sem til var heima, til að skrá lánþega á réttan hátt inn, það er setja inn fæðingardag og heimilisfang, alveg eins og á Bæjó. Nánast fyrir tilviljun – nám í bókasafnsfræði Þrátt fyrir heimsóknirnar á bókasafnið og bókasafnsleikinn er það nánast fyrir tilviljun að ég hef nám í bókasafnsfræði. Ásamt því að starfa sem flugfreyja hafði ég flakkað á milli


bókasafnið

Óður, myndverk eftir Helga Gíslason. Á veggnum til vinstri er upphafið að kvæði Snorra Hjartarsonar, Í Úlfdölum.

deilda í Háskóla Íslands í tvö ár. Var alltaf að reyna eitthvað nýtt, lögfræði, sænsku, íslensku og þjóðfélagsfræði. Mágkona mín, Sigrún Magnúsdóttir (nú í Háskólanum á Akureyri), vann við bókabílana sem voru staðsettir í Tjarnargötunni, þar sem gamla slökkviliðsstöðin var. Hún var byrjuð að læra bókasafnsfræði og þannig byrja ég í náminu. Við Sigrún áttum reyndar eftir að verða samferða í fjarnámi til mastersgráðu löngu síðar. Ég lauk BA-prófi í bókasafnsfræði og bókmenntasögu 1976 og fer þá beint norður að vinna á Amtsbókasafninu á Akureyri. Það var mikil gæfa fyrir mig að lenda einmitt þar, sannkallað háskólanám, því Amtsbókasafnið var og er blanda af rannsóknarbókasafni og almenningsbókasafni. Fyrir var í safninu einstaklega gott fólk, sem tók mér mjög vel, nýútskrifuðum bókasafnsfræðingi að sunnan. Félag bókasafnsfræðinga, sem að sjálfsögðu barðist fyrir því að stéttin nyti sannmælis, hafði reyndar lagt Amtsbókasafnið í bann nokkrum misserum fyrr vegna þess að yfirbókavörðurinn, sem var ráðinn þá, var ekki bókasafnsfræðingur. Með því að hefja störf sem bókasafnsfræðingur á Amtsbókasafninu rauf ég bannfæringuna og fékk dálítið bágt fyrir. Mér fyrirgafst það þó fljótt og var ég í stjórn Félags bókasafnsfræðinga í nokkur ár. Vinnan í Borgarbókasafni ævinlega ögrandi Ég flyt suður í árslok 1978 og hef störf í Borgarbókasafni, í Bústaðasafni og bókabílunum, undir stjórn Erlu Kristínar Jónasdóttur með frábæru fólki, mörgu að norðan, og líkaði afar vel strax. Í Bústaðasafni var mikil gróska, starfsmenn í yngri kantinum og útibússtjórar höfðu verið þrír ungir bókasafnsfræðingar. Ég var einn vetur í Bústaðasafni, en þegar ný staða, staða deildarstjóra í aðalsafni, er auglýst sæki ég um og er ráðin 1. júní 1979. Ég hafði reyndar unnið í aðalsafni í 2-3 vikur í námsvinnu nokkrum árum fyrr og er

36. árg. 2012

mér minnistætt að ég var klöguð fyrir borgarbókaverði, Eiríki Hreini Finnbogasyni, fyrir að vera of lin við að rukka börn um sektir. Engin eftirmál urðu nú af þessu. Fyrsta árið mitt í nýja starfinu gerði til mín miklar kröfur og er eftir á að hyggja ef til vill erfiðasta árið á mínum vinnuferli. Það var snúið fyrir starfsmenn að fá yfirmann sem var miklu yngri og einnig höfðu myndast mjög sterkar hefðir í aðalsafninu um hver ætti að gera hvað og hvenær. Sumir pössuðu vel upp á sína þúfu. Ágætt dæmi var að það átti að vera búið að raða öllum bókunum upp fyrir hádegi. Margt var í óþarflega föstum skorðum þannig að það var erfitt fyrir mig að koma inn, rétt orðin þrítug, og fara að hrófla við, en borgarbókavörður, Elfa-Björk Gunnarsdóttir, studdi mig mjög vel og allt gekk ljómandi vel að lokum, en það var dálítil eldskírn að koma inn í þetta samfélag. Þó að vinnan í Borgarbókasafni hafi ævinlega verið ögrandi, eins og að vera sífellt í nýju starfi, fjölbreytnin mikil og stöðugar breytingar, eins og ég nefndi áður, kom stöku sinnum smáleiði í mig. Mig vantaði ögrun. Til að vinna bug á þessu fór ég til dæmis í vistaskipti í fjóra mánuði í bókasafn Kennaraháskólans árið 1982, í mastersnám í stjórnun við Háskólann í Wales, þar sem ég lauk prófi árið 1995, og var stundakennari í bókasafns- og upplýsingafræði 1995 til 1997. Flutningur aðalsafns úr húsnæðinu í Þingholtsstræti var stöðugt í umræðunni. Aðstaðan fyrir gesti og starfsmenn í hvítu ævintýrahöllinni var orðin ,,ævintýraleg“. Starfsmenn nánast sátu á hnjánum hver á öðrum og safnfræðsla skólabarna fór fram á skrifstofu minni og annarra með því að færa skrifborðin okkar til hliðar og raða upp bekkjum. Þetta gerðum við oft í viku. Einn stóll var í fullorðinsdeildinni við útidyr þar sem gamla fólkið tyllti sér. Við vorum endalaust að bíða eftir að nýtt aðalsafn risi í ,,nýja miðbænum“ í Kringlumýrinni þar til það var á endanum slegið af. Upp frá því var farið að leita að hentugu húsnæði í miðbænum. Fyrst var verið að tala um hluta af Morgunblaðshöllinni við Aðalstræti. Frá upphafi treysti Þórdís Þorvaldsdóttir borgarbókavörður mér til að leiða undirbúningsvinnuna að nýju aðalsafni. Starfsmenn safnsins lögðust yfir það hvort Morgunblaðshöllin kæmi til greina og niðurstaða okkar var sú að svo væri ekki. Það var sem betur fer létt verk að sannfæra borgaryfirvöld um að það húsnæði hentaði ekki og í kjölfarið, 1996, kom upp sá möguleiki að flytja aðalsafn í Grófarhús, eins og það heitir í dag. Það varð ofan á og hefur þetta gamla pakkhús dugað ótrúlega vel þótt ekki sé það óskahúsnæði. Nýtt aðalsafn var opnað árið 2000, en það ár var Reykjavík ein af níu menningarborgum Evrópu. Jafnframt eru þrjár aðrar menningarstofnanir borgarinnar á sömu þúfunni, á besta stað í borginni, sem áður var fremur skuggalegt hverfi. Við hliðina á Grófarhúsi er auð byggingarlóð sem við höfum augastað á fyrir hvers konar menningarstofnun. Ég get tekið dæmi um hvílík bylting flutningurinn var, að barnadeildin varð aldrei stærri í Þingholtsstrætinu en lítið herbergi á efri hæðinni, um 10 fermetrar, en nú er barnadeildin í Grófarhúsi yfir 200 fermetrar og allt rými fyrir gesti sexfaldaðist við flutninginn. Í kjölfar menningarborgarársins 2000 fór af stað bylgja framfara

23


bókasafnið

36. árg. 2012

fyrir Borgarbókasafn, sem ég leyfi mér að segja að hafi líka haft áhrif á önnur almenningsbókasöfn í landinu, sveitarfélögin kepptust um að gera vel við bókasöfnin sín, bókasafnabóla blés út. Við fengum nýjan bókabíl, Höfðingja, 2001 og síðar sama ár flytur Bústaðasafn í nýtt húsnæði í Kringlumýri og kallast þá Kringlusafn, Ársafn í Árbæjarhverfi var opnað 2004 og sögubíllinn Æringi fer af stað 2008. Lánaðist að stofna Landskerfi bókasafna Því miður, þegar Borgarbókasafn og fleiri söfn tölvuvæddust í kringum 1990, þá tókst ekki að sameinast um eitt kerfi fyrir bókasöfn landsins, það var reynt á þeim tíma, en tókst ekki. Það var alveg stórkostleg breyting þegar Borgarbókasafn og fleiri söfn tóku Feng í notkun og Landsbókasafn og fleiri söfn Gegni, en þessi aðskilnaður tölvukerfa var því miður hamlandi fyrir samstarf, nú svo ekki sé talað um óþarfa tvíverknað. Við finnum svo vel muninn. Þegar okkur lánaðist að stofna Landskerfi bókasafna fyrir rúmum tíu árum, árið 2001 og taka í notkun árið 2003 eitt kerfi fyrir allt landið, sem fékk nafnið Gegnir, breytti það miklu varðandi samstarf, verkaskiptingu, samþættingu. Slagkrafturinn í bókasöfnum landsins hefur orðið meiri og erum við öfunduð af erlendum kollegum vegna þessa. Samstarfið vegna Landsaðgangsins hvar.is hefur enn frekar aukið slagkraftinn í bókasöfnunum. Árið margumtalaða 2007 var hafin vinna við að þróa þjónustu Landskerfis enn frekar með því að bæta viðmót kerfisins en svo verður hrunið 2008 og þá voru menn við það að gefast upp. Sem betur fór létum við hrunið ekki slá okkur út af laginu og leitir.is leit dagsins ljós. Hér má líka nefna sjálfsafgreiðsluvélarnar sem teknar voru í notkun árið 2007 og rétt sluppu í hús fyrir hrunið, en þær hafa gjörbreytt vinnu starfsmanna Borgarbókasafns. Auðvitað voru margir á varðbergi gagnvart þessu og héldu að starfsmönnum yrði sagt upp, en það kom auðvitað aldrei til greina. Innleiðing sjálfsafgreiðsluvélanna hefur hins vegar losað starfsmenn undan rútínuvinnu og gefið þeim færi á að fara í önnur og fjölbreyttari verkefni. Rýmið – hætt að vera svona hæversk Ég hef stundum sagt að almenningsbókasafn væri starfsmennirnir, safnkosturinn og húsnæðið eða rýmið í þessari röð. Lengst af var Gerðubergssafn, sem var opnað 1986 í Breiðholti, eina safnið sem var í ásættanlegu húsnæði, rými þar sem hægt var að bjóða upp á alvöruþjónustu og viðburði. Rýmið hefur stækkað, ekki aðeins innan fjögurra veggja bókasafnanna. Við lítum æ meir á alla borgina sem almenningsrými þar sem Borgarbókasafn er mótandi og tekur þátt. Við erum inni í húsnæði annarra með til dæmis fjölmenningarverkefni, á götum úti, til dæmis menningargöngur og hátíðir, eða í sýndarheimi eins og með bókmenntavefinn. Við vildum ekki vera uppáþrengjandi, vildum gæta virðingar, áttum bara að vera til staðar og fólk átti að koma til okkar. Við erum hætt að vera svona hæversk. Nú erum við miklu ófeimnari, jafnvel við að gera mistök, við erum í fjölmiðlum og starfsmenn koma fram sem talsmenn einstakra verkefna safnsins. Ég hef alltaf

24

Bókasýning menningarborganna árið 2000.

lagt mikla áherslu á það sem yfirmaður að það sé ekki ég sem er alltaf að segja frá starfseminni. Hver yrði ekki hundleiður á því að heyra alltaf í sama starfsmanni safnsins? Þeir sem eru með verkefnin gera það miklu betur en ég og af miklu meiri eldmóði. Ég treysti samstarfsmönnum mínum sem nánast undantekningarlaust gera miklu meira og miklu betur en einhverjir hefðu kannski haldið fyrirfram. Það er bara þannig. Við erum einhvern veginn miklu afslappaðri með hvað ,,á við“ í bókasafninu, óhræddari við að bjóða einstaklingum eða hópum sem eru með spennandi hugmyndir að vinna með okkur. Við leggjum áherslu á sem fjölbreytilegasta viðburði af því nú getum við það rýmisins vegna. Gott dæmi er að núna í maí verður fundaröð, þrír fundir, þar sem fram fer kynning á forsetaembættinu og frambjóðendur kynna sig. Samræmi í þjónustu – hvert sitt svipmót Við erum löngu búin að úthýsa orðinu útibú! Söfnin eru hverfissöfn en ekki ,,útibú“ frá, ja hverju, aðalsafni? Þótt það þurfi auðvitað að vera mjög gott samræmi í þjónustu, þá er miklu skemmtilegra að söfnin hafi hvert sitt svipmót. Áherslur og leiðir geta verið mismunandi og þó að eitt safn sé að gera eitthvað, þá þarf ekki endilega næsta safn að vera að gera nákvæmlega sama hlutinn. Það er bara skemmtilegra að það sé breytileiki, bæði í rýminu, hvað fólk sér þegar það kemur inn og hvað er að gerast. Mér finnst það mikið atriði að starfsfólkið á hverfissöfnunum hafi tiltölulega frjálsar hendur, því það veit best hvað hentar í hverju hverfi, þar eru mismunandi stofnanir, vinnustaðir, skólar og mismunandi möguleikar og tækifæri. Mjög oft er það sama að gerast í mörgum, jafnvel í öllum söfnum en líka hafa þau ólíkar áherslur og fara ólíkar leiðir til að örva. Ég nefndi áður að Reykjavík varð ein af menningarborgum Evrópu árið 2000. Þá settum við upp í nýja aðalsafninu stóra farandsýningu með bókum frá öllum menningarborgunum níu. Afar minnistætt og hefði ekki verið mögulegt að gera nema í þessu nýja húsnæði. Það afsprengi menningarborgarársins 2000 sem lifir er Bókmenntavefurinn, bokmenntir.is, sem er ein af skrautfjöðrunum okkar. Hann var upphaflega hluti af samstarfsverkefni sex af níu menningarborgunum. Verkefnið


bókasafnið

Fagra veröld, myndverk í Grófarhúsi. Glerlistaverk eftir Leif Breiðfjörð og brjóstmynd af Tómasi Guðmundssyni eftir Sigurjón Ólafsson.

fékk í upphafi styrk frá Evrópusambandinu og það var búinn til lítill evrópskur bókmenntavefur sem átti að vera sýnishorn af því hvernig svona bókmenntavefur gæti litið út. Ekki voru tök á því á þessum tíma að halda áfram með þetta evrópska verkefni en við ákváðum að halda áfram. Bókmenntavefurinn er mjög mikilvægur til þess að kynna íslenskar bókmenntir, bæði erlendis og innanlands. Viðbrögð notenda sýna það. Við erum stolt af því hve honum hefur verið haldið vel við, en úthaldið skiptir auðvitað miklu máli. Bókmenntagöngurnar fyrir erlenda ferðamenn eru gott dæmi um úthald, við vorum nánast að gefast upp, en gáfum því einn enn séns, þriðja sumarið og þá allt í einu varð sprenging. Það varð okkur mikil lyftistöng þegar Reykjavík varð ein af menningarborgum Evrópu og á sama hátt hefur líka skipt miklu máli að borgin var útnefnd bókmenntaborg UNESCO í ágúst 2011. Borgarbókasafnið tók mikinn þátt í umsóknarferlinu og fylgdi glæsileg skýrsla umsókninni um stöðu mála í borginni og þau verkefni sem framundan eru. Eitt verkefnið er hinn lestrarhvetjandi Sleipnir, bokmenntaborgin.is. Myndlist sem víðast Ég hef alltaf talið að myndlist eigi að vera sem víðast í umhverfinu, í almenningsrými eins og bókasöfnum, minnug þess hve myndverk, veggmyndir og leiktjöld Barböru Árnason í Melaskóla höfðu mikil áhrif á okkur börnin í skólanum. Mér var það því kappsmál að myndlist yrði mikilvægur hluti af rýminu í nýju aðalsafni en tvö föst myndverk eru á fyrstu hæðinni í Grófarhúsi. Annað er glerverk, Fagra veröld, tileinkað Tómasi Guðmundssyni, Reykjavíkurskáldinu, eftir Leif Breiðfjörð en brjóstmynd sem Sigurjón Ólafsson gerði af skáldinu er hjá. Hitt verkið er eftir Helga Gíslason, en hann umbreytti einni af burðarsúlum hússins þannig að verkið minnti á menningarhlutverk þess, þannig að súlan bæri uppi þetta hlutverk hússins. Súlan sem stendur í ,,þekkingarbrunni“ minnir á grundvöll okkar vestrænu menningar. Súluhöfuðið er stílfærður forngrískur, jónískur stíll. Það er dálítið gaman að segja frá því að svona rúmri viku áður en húsið var opnað hringdi Helgi í mig dálítið áhyggjufullur og sagðist ekki vita

36. árg. 2012

hvað hann ætti að láta listaverkið heita. Mér datt í hug að leita í brunn Snorra Hjartarsonar og fann strax heitið Óður, en orðið kemur fyrir í fyrstu ljóðlínu fyrsta kvæðis í fyrstu ljóðabókinni hans. Óður merkir meðal annars hugur, sál, vitsmunir, skáldskapur, kvæði, skáldagáfa. Bæði bókabíllinn Höfðingi og sögubíllinn Æringi eru fagurlega myndskreyttir að utan eftir annars vegar Gunnar Karlsson og hins vegar Brian Pilkington og vekja athygli hvar sem þeir fara. Þá er gaman að segja frá því að í vor var afhjúpað vegglistaverk í Ársafni eftir Kristínu Arngrímsdóttur, listamann en einnig starfsmann safnsins. Í öllum söfnunum gleður gesti fjöldi listaverka í eigu Reykjavíkurborgar. Í Borgarbókasafninu í Helskinki hefur um árabil verið starfrækt svokallað Artótek eða útlán/leiga/sala á myndlist starfandi listamanna. Ég hafði um tíma reynt að selja hugmyndina um að Borgarbókasafn reyndi slíkt nú þegar húsnæðið bauð upp á það. Ráðamenn áttu erfitt með að sjá þetta fyrir sér, en svo vildi svo heppilega til að menningarmálanefnd (pólitíkusarnir) fór ásamt okkur forstöðumönnum menningarstofnana Reykjavíkur í kynnisferð til Helsinki. Ég setti heimsókn í Artótekið finnska á dagskrána og eftir það voru allir einhuga um að hugmyndin væri góð, – ekki málið. Engu að kvíða Á þessum rúmu 33 árum sem ég hef starfað við Borgarbókasafnið hafa eins og gefur að skilja orðið gífurlegar breytingar og takast bókasöfnin stöðugt á við samfélagslegar og tæknilegar breytingar. Þess vegna hefur Borgarbókasafnið undanfarin tvö ár tekið þátt, ásamt Amtsbókasafninu á Akureyri og Bókasafni Kópavogs, í samnorrænu verkefni, Nordic camps, öðru nafni Next library. Ég bind miklar vonir við það verkefni og það hefur sannað sig held ég að þetta hafi haft mjög góð áhrif á starfið í safninu. Á það hefur verið lögð áhersla að yngri kynslóðin, þeir sem taka við, taki þátt í þessu verkefni, fari í þessar vinnusmiðjur og að hún fái tækifæri til þess að koma með framtíðarhugmyndir. Eins mikilvægt og það er að yngri kynslóðin móti framtíðina þá er jafnmikilvægt að byggja á reynslu eldri kynslóðarinnar. Hverri kynslóð hættir til að telja að lítið hafi áunnist áður en hún tók við og alla vega í íslensku nútímasamfélagi er reynsla hinna eldri stórlega vanmetin. Í rúmt ár hefur svokallað samráð 12-14 starfsmanna innan safnsins unnið að gerð langtímastefnu Borgarbókasafns með aðgerðabindingu. Aðferðafræðin byggist meðal annars á gerð sviðsmynda, eins og það er kallað, og samstarfi við rýnihópa. Það er því engu að kvíða um framtíð Borgarbókasafns, sem mér þykir afar vænt um, eins og ég sagði í upphafi. Þegar upp er staðið er besta minningin mín tilhugsunin um allt það góða fólk sem ég hef unnið með innan Borgarbókasafns, innan Reykjavíkurborgar og innan bókasafnageirans hér á landi í á fjórða áratug.

25


og þér munuð finna

leitir.is … og þér munuð finna

á vettvangi bókasafna og annarra safna eftir að bætast í leitargrunninn. Leitarvefurinn opnar á nýjan hátt aðgang að ómetanlegum menningarverðmætum sem fólgin eru í söfnum landsins og gera notendum kleift að afla sér margþættra upplýsinga á einum stað sér til verulegs hagræðis.

Sveinbjörg Sveinsdóttir

1. Inngangur Á ráðstefnu sem Landskerfi bókasafna hf. hélt þann 11.11.11 í tilefni af tíu ára afmæli félagsins opnaði Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra nýjan leitarvef Landskerfis bókasafna leitir.is.

Fjölbreytileiki gagna í leitir.is

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra (t.h.) opnar leitir.is með aðstoð Sveinbjargar Sveinsdóttur framkvæmdastjóra Landskerfis bókasafna (t.v.). Ljósmyndari Telma Rós Sigfúsdóttir.

Á vefnum leitir.is er auðvelt að leita og niðurstöður eru birtar samtímis úr ólíkum gagnaskrám jafnt íslenskum sem erlendum. Í dag er leitað í Gegni, fjölmörgum íslenskum gagnasöfnum ásamt erlendum áskriftum að stafrænu vísindaefni í Landsaðgangi. Enn eiga mörg gagnasöfn, bæði

26

Velþekkt ljósmynd Ólafs Magnússonar af fjárrekstri við Þjórsá í Þjórsárdal varð kveikjan að nafni leitarvefsins. Á ljósmyndinni sést fé renna niður dalinn haustið 1927. Bændur eru í leitum og reka féð í réttirnar. Þetta má heimfæra á leitir.is enda fara menn þar í upplýsingaleitir og smala niðurstöðunum saman. Þannig kallast gamli og nýi tíminn á í heitinu leitir.is. Kennimerki vefsins er táknrænt fyrir nafn hans en þar koma fyrir grasi gróin fjöll, troðnar slóðir og árfarvegir.


bókasafnið

21. september 1927, fjárrekstur við Þjórsá í Þjórsárdal. Ljósmyndari Ólafur Magnússon. Höfundarréttur hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

2. Upphafið Síðla árs 2007 fékk stjórn Landskerfis bókasafna erlendan ráðgjafa, Dr. Karl Wilhelm Neubauer, til liðs við sig til að taka þátt í hugmyndavinnu um hvernig efla mætti þjónustu félagsins. Niðurstaða vinnunnar var að áhugavert væri að kanna möguleika á að koma á laggirnar samþættri leitarvél (integrated search engine) fyrir Ísland, en í heitinu fólst að komið yrði á samleit í Gegni og tengdu stafrænu íslensku efni ásamt erlendum áskriftum í Landsaðgangi. Lagt var til að gengið yrði til samstarfs við Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn og Danska tækniháskólann (DTU) um að útbúa frumgerð að slíku kerfi og yrði það byggt á líkani dönsku samstarfsaðilanna. Horft var til þess að leit að greinum í Landsaðgangi yrði í gegnum svokallaða DADS (Digital Article Database Service)1 þjónustu Danska tækniháskólans en aðrir sambærilegir möguleikar voru ekki í boði á þessum tíma. Vinna við frumgerðina var að mestu greidd af Landskerfi bókasafna en einnig fengust styrkir frá Borgarbókasafni Reykjavíkur, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og frá menntamálaráðuneyti í tengslum við verkefni á stefnuskrá ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið, Netríkið Ísland 2008-2012. Vinna við frumgerðina hófst síðla árs 2008 og stóð hún fram á mitt næsta ár. Þá var orðið ljóst að um afar vænlegan kost væri að ræða og í kjölfarið hófst athugun á mögulegum fjármögnunarleiðum. Huga þurfti að stofnkostnaði sem fólst í kaupum á kerfinu og uppsetningu þess, en ekki síður aukningu á árlegum rekstarkostnaði í tengslum við hýsingu og daglega umsjón kerfisins þar sem nýir tekjumöguleikar voru ekki í sjónmáli. Þegar hér var komið sögu var allt annað en augljóst að hægt yrði að ráðast í verkefni af þessari stærðargráðu þrátt fyrir að ávinningurinn væri augljós öllum

1. 2. 3.

36. árg. 2012

þeim sem að vinnu við frumgerðina höfðu komið en miklar breytingar höfðu orðið í íslensku samfélagi frá því að vinnan hófst á árinu 2007. Eftir skoðun á mögulegum leiðum var lagt til að verkefninu yrði skipt í nokkra áfanga. Í fyrsta áfanga skyldi horft til Gegnis og stafræns íslensks efnis bókasafna. Tenging Landsaðgangs var fyrirhuguð í áfanga tvö að því gefnu að fjármögnun þess áfanga væri tryggð. Í næstu áföngum yrði svo horft til annarra safna menningarsögulegs efnis. Eigendur Landskerfis bókasafna veittu samþykki sitt fyrir því að því að fyrsti áfangi yrði fjármagnaður í gegnum afskriftasjóð félagsins enda mætti líta svo á að um kerfislega endurnýjun Gegnis (gegnir.is) væri að ræða. Þegar á reyndi kom í ljós að framleiðandi kerfisins, Ex Libris, var tilbúinn til þess að koma verulega til móts við félagið varðandi leyfis- og viðhaldsgjöld vegna kerfisins. Samningur um kaup á kerfinu, sem undirritaður var síðla desember 2009, innihélt einnig ókeypis eins árs tilraunaáskrift að glænýrri þjónustu. Þjónustan kallast Primo Central Index (PCI)2 og var hér kominn nýr og áður óþekktur möguleiki til að tengja Landsaðgang inn í samleitina. Nánar verður sagt frá þessari þjónustu síðar. Hér opnaðist ný leið til að taka Landsaðgang með í tilraunaskyni í fyrsta áfanga. Gífurlegar framfarir höfðu orðið á tímabilinu í aðgengi að rafrænum tímaritsgreinum en við upphaf þess var það aðeins Danski tækniháskólinn sem gat státað af gagnagrunni með lýsigögnum frá fjölmörgum útgefendum og birgjum auk þjónustu fyrir utanaðkomandi til að tengjast honum. Vinnan við uppsetningu og innleiðingu hins nýja samleitarkerfis hófst á árinu 2010 en hún var unnin í góðu samstarfi við Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn og Ex Libris. Kerfið var formlega opnað í nóvember 2011 á léninu leitir.is, en hafði verið opið á netinu í prófunarútgáfu frá lokum mars á sama ári.

3. Grunnlýsing á kerfi Vefurinn leitir.is byggir á Primo3 hugbúnaðinum frá Ex Libris sem er jafnframt framleiðandi Aleph bókasafnskerfisins (Gegnir) og SFX krækjukerfisins og vinna kerfin öll mjög vel saman. Leitarvélin að baki Primo er Lucene leitarvélin sem er sama leitarvél og notuð er hjá Google. Því má segja að verið sé að færa google-leitina yfir á efni safnanna. Þegar leitað er í leitir.is er leitað samtímis í öllum gögnum leitarvélarinnar og kerfislega er mögulegt að leita í heildartexta þó að sá möguleiki hafi ekki verið virkjaður enn. Þar sem leitarniðurstöðurnar eru meðhöndlaðar og birtar sem ein heild burtséð frá því hvaðan þær koma, verður notandinn ekki var við að hann sé í raun að leita í mörgum gagnasöfnum samtímis. Í leitir.is er til staðar öll sú grunnvirkni sem notendur bókasafna þekkja. Notendur geta meðal annars endurnýjað

http://www.dtic.dtu.dk/infosog/dads.aspx http://www.exlibrisgroup.com/category/PrimoCentral http://www.exlibrisgroup.com/category/PrimoOverview

27


bókasafnið

36. árg. 2012

útlán sín og beðið um frátektir, pantað millisafnalán og flutt færslur í heimildaskráningarforrit. Mikið af þeirri þjónustu, sem er í boði, krefst innskráningar, en til að skrá sig inn í kerfið er notað sama notandanafn og lykilorð og notað er á gegnir.is. Undanfarin ár hefur þróun almennt verið í átt til einfaldra leitarkerfa og eru flestir orðnir vanir því að nota einfalda leit sem auðvelt er að þrengja og aðlaga. Notendur gera kröfur um leitarvef sem er í takt við þá þá leitarvefi sem þeir þekkja annars staðar frá og segja má að með Primo hugbúnaðinum hafi verið kynnt til sögunnar ný kynslóð leitarvéla fyrir bókasöfn. Notandinn getur auðveldlega valið hvort hann notar einfaldan leitarglugga sem birtist strax á forsíðu eða notar ítarlega leit þar sem hægt er að tengja saman leitarorð úr ólíkum leitarsviðum. Hvor möguleikinn sem valinn er, þá er sama afmörkun eftir flokkum (facets) alltaf til staðar. Framsetning á leitarniðurstöðum í leitir.is er bæði skýr og myndræn. Myndir af bókarkápum, bæði íslenskum og erlendum, hafa verið tengdar við leitarniðurstöðurnar og vonir standa til að einnig verði hægt bæta við forsíðumyndum DVD mynda og hljóðrita ásamt smámyndum af ýmsu efni svo sem ljósmyndum. Rafrænu efni er gert hátt undir höfði og auðvelt er að sjá strax og leit hefur verið framkvæmd hvaða efni er aðgengilegt rafrænt. Að auki er FRBR (Functional Requirements for Bibliographic Records) hluti af grunnvirkni leitir.is, en með þeirri virkni eru ólíkar útgáfur sama rits paraðar saman til að auðvelda notandanum að finna aðgengileg eintök.

4. Möguleikar Með leitir.is opnast ýmsir nýir möguleikar sem gera leit að upplýsingum bæði einfaldari og skemmtilegri en áður var. Hér á eftir er tæpt á nokkrum þeirra, en listinn er langt í frá tæmandi og víst er að í framtíðinni verður þjónustan enn fjölbreyttari og möguleikum á virkni, sem auðvelda heimildaleitir, mun fjölga. Árvekniþjónusta Í leitir.is er hægt vera áskrifandi að RSS-veitum auk þess sem boðið er upp á þann möguleika að vista leitir sem framkvæmdar eru. Hér er talað um árvekniþjónustu en þrenns konar árvekniþjónusta er í boði í leitir.is: • RSS straumar (rss) gera notendum kleift að fylgjast með nýjum leitarniðurstöðum á vefsvæðum að eigin vali. Nota þarf sérstök forrit, RSS lesara til að skoða RSS straumana. Flestir vafrar bjóða einnig upp á þann möguleika að birta RSS strauma. Þegar notandi hefur skráð sig í áskrift að RSS straumi á leitir.is er nýjustu niðurstöðum safnað saman og þær birtar í RSS lesaranum. Þetta sparar notandanum endurtekna leit að tilteknu efni sem hann vill vera í áskrift að. • Geymsluleitir (vista leit) en þá er leit vistuð á rafrænni hillu í leitir.is og þaðan má framkvæma hana aftur eftir þörfum.

28

• Árvekniþjónusta (vista & tilkynna leit) þar sem leit er vistuð og notandinn fær sendar upplýsingar í tölvupósti þegar nýtt efni á hans áhugasviði bætist við. • Tveir síðasttöldu þjónustuþættirnir krefjast innskráningar í leitir.is. Tungumálavirkni Í dag er boðið upp á viðmót á tveimur tungumálum í leitir.is – íslensku og ensku – en mögulegt er að bæta fleiri tungumálum við. Primo kerfið býður einnig upp á mismunandi virkni eftir tungumáli viðmóts, en í dag er uppsetningin þannig að virknin er óháð tungumáli og tungumálavirkni að mestu samkvæmt grunnuppsetningu kerfisins. Til að ná fram virkni tengdri tungumálum þarf að leggja í mikla vinnu við uppsetningu á íslenskum orðalistum og því er nauðsynlegt að sú vinna fari fram í samstarfi bæði við aðila á orðabókamarkaði og ekki síður aðila frá söfnunum sjálfum. Sem dæmi um virkni tengda tungumáli má nefna eftirfarandi: Stopporð eru orð sem kerfið lítur framhjá við leit og breytir í stafabil. Dæmi um stopporð geta til dæmis verið smáorð eins og „a“ „but“ „or“ og eins hafa boolean leitarskipanirnar „and“ „or“ „not“ með lágstöfum verið meðhöndlaðar sem stopporð. Stopporð þarf að meðhöndla með varkárni þar sem orð geta haft gjörólíka merkingu eftir tungumáli. Sem dæmi má nefna að orðið „and“ hefur gjörólíka merkingu í ensku og dönsku og erfitt gæti reynst að finna heimildir um Andrés önd á dönsku ef „and“ er meðhöndlað sem stopporð. Orðstofnastytting (stemming) felst í því að ef leit skilar færri en skilgreindu lágmarki leitarniðurstaðna (í dag er miðað við 25 niðurstöður) er leitarorðið stytt niður í næsta orðstofn. Dæmi um þetta er til dæmis leit að orðinu Langanes, en sú leit skilar einnig leitarniðurstöðum fyrir orðið langan. Orðstofnastyttingin í leitir.is byggir á Kstem algoritmanum. Samheitaleit virkar á þann hátt að þegar leit er framkvæmd er samtímis leitað að þekktum og skilgreindum samheitum. Þannig leitar kerfið bæði að „11“ og „ellefu“ ef leitarorðið „11“ er slegið inn að því gefnu að búið sé að skilgreina þessi orð sem samheiti. Áttirðu við? (Did you mean?) er virkni sem notendur þekkja orðið frá flestum leiðandi leitarvélum. Þessi virkni byggir á upplýsingum úr tungumálaskrám ásamt upplýsingum úr gögnunum sem eru í leitir.is og kemur með uppástungur um ný leitarorð, til dæmis ef leit skilar engum niðurstöðum. Röðun Röðun niðurstaðna (ranking) eftir fyrirframskilgreindum atriðum er ekki ný af nálinni og á leitir.is er hægt að raða leitarniðurstöðum efir höfundi, titli, útgáfuári og vægi. Vægisröðunin er nýmæli, en hún er sjálfgefin í leitir.is. Sú röðun gæti virst algjörlega tilviljunarkennd en svo er ekki. Við vægisröðun er einkum horft á staðsetningu leitarorðs og hversu oft það kemur fyrir í færslunni. Þannig raðast leitarniðurstöður ofar í niðurstöðulista ef leitarorðið kemur fyrir í höfundar- eða titilsviði heldur en ef það kemur fyrir í


bókasafnið öðrum sviðum eins og til dæmis athugasemdarsviði. Að auki spila vinsældir ritsins inn í röðunina, en þær bækur sem eftirsóttastar eru og fara oftast í útlán raðast þá ofar í niðurstöðulista.

5. Gögnin Með leitir.is hefur opnast sá möguleiki að leita frá einum stað í fjölbreyttu efni safna, hvort sem um ræðir hefðbundið efni eins og bækur og tímarit eða óhefðbundið efni eins og ljósmyndir og rafbækur. Efnið er ýmist rafrænt eða prentað, íslenskt eða erlent og má nefna bækur, tímarit, tímaritsgreinar, námsritgerðir, tónlist, kvikmyndir, kort og ljósmyndir. Eigendur og/eða ábyrgðaraðilar gagnanna eru bókasöfn landsins auk Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Gögnin eru uppfærð reglulega, allt niður í uppfærslu á klukkustundar fresti. Leitarvélinni leitir.is er þó ekki aðeins ætlað að leita í gögnum bókasafna, heldur er ætlunin að gera þar einnig leitarbær önnur söfn svo sem minjasöfn og listasöfn svo fátt eitt sé nefnt. Hér er verið að horfa til þess að gera aðgengilegar ljósmyndir, myndir og lýsingu á munum af ýmsu tagi, hljóðog myndupptökur auk ýmis konar rafræns efnis. Leitir.is ræður enda ekki aðeins við lýsigögn á Marc-sniði heldur flest gögn á stöðluðu formi, til dæmis MarcXML og Dublin Core. Leiðarstefið er að notandinn finni ætíð í upplýsingaleit sinni fjölbreytt gögn sem eru í umsjá eða eigu íslenskra safna.

Leitargluggi með tveimur flipum á leitir.is

Í dag eru gögnin aðgengileg á tveimur flipum í leitir. is. Á fyrri flipanum, Bækur, tímarit og fleira, er hægt að leita í Gegni og öðru íslensku efni. Á flipa tvö, Greinar í landsaðgangi, er leitað í Landsaðgangi. Vegna gífurlegs magns gagna í Landsaðgangi hefur ekki verið talið fýsilegt að gera hann leitarbæran á sama flipa og Gegni og annað íslenskt efni. Leggja þyrfti í mjög mikla vinnu við röðun til að tryggt væri að íslenska efnið týndist ekki í leitarniðurstöðunum. Bækur, tímarit og fleira Í dag eru eftirfarandi gagnasöfn aðgengileg þegar leitað er á fyrri flipa á leitir.is: • Bækur.is - stafræn endurgerð gamalla íslenskra bóka. • Elib - áskrift bókasafns Norræna hússins að hljóð- og rafrænum bókum. • Gegnir - samskrá íslenskra bókasafna. • Hirsla - geymir vísinda- og fræðigreinar starfsmanna Landspítala- háskólasjúkrahúss. • Myndavefur Ljósmyndasafns Reykjavíkur - inniheldur fjölmörg ljósmyndasöfn í eigu safnsins. • Skemman - safn námsritgerða og rannsóknarita íslenskra háskóla.

36. árg. 2012

• Timarit.is - veitir aðgang að fjölmörgum dagblöðum og tímaritum sem hafa verið gefin út á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Greinar í landsaðgangi Rafrænar áskriftir Landsaðgangs – hvar.is hafa verið gerðar aðgengilegar á sérstökum flipa í leitir.is. Nýmæli er að hægt er að leita í rafrænum tímaritsgreinum í áskrift Landsaðgangs en ekki einungis tímaritstitlum eins og áður var. Þegar leitað er í greinum í Landsaðgangi skilar leitin mjög yfirgripsmiklum niðurstöðum. Þetta er gert kleift á grunni þjónustu sem keypt er í áskrift af Ex Libris, en hún heitir Primo Central Index (PCI). Í PCI er búið að safna saman og lykla lýsigögn rafrænna tímaritsgreina frá fjölmörgum útgefendum og endursöluaðilum tímarita. Þegar leitað er frá flipanum Greinar í landsaðgangi í leitir.is er í reynd verið að leita í lýsigögnum PCI, sé áskrift til staðar sér SFX krækjukerfið um að veita aðgang að heildartexta greinar. Segja má að nánast allt efni Landsaðgangs sé aðgengilegt í gegnum leitir.is og hefur Ex Libris náð samningum við flesta útgefendur. Enn eru þó nokkrir útgefendur sem ekki hafa náðst samningar við og á Ex Libris nú í viðræðum við þá. Af þessum útgefendum má helst nefna EBSCO, Proquest og OVID en þó að ekki hafi náðst samningar er yfir 70% af efni þeirra nú þegar aðgengilegt í leitir.is gegnum aðra útgefendur og heildartexti aðgengilegur með SFX krækjukerfinu. Rafrænu áskriftirnar eru á mikilli hreyfingu og stöðugt er verið að bæta við nýjum gagnasöfnum. Þar af leiðir að efni sem vantar í leitarniðurstöður í dag gæti verið komið í grunninn næst þegar hann er notaður. Þá er efni í Oxford Art og Music Online (Grove söfnin) og Encyclopedia Britannica ekki leitarbært en tenglar á leitarvélar þeirra birtast neðst í leitarniðurstöðum í leitir.is. Úr leitarglugga á heimasíðu Landsaðgangs, hvar.is, er leit vísað í leitir.is. Niðurstaðan er sú sama og þegar leitað er beint frá flipanum Greinar í landsaðgangi. Þetta eru þannig tvær leiðir að sama marki. Rétt er að benda á að umhverfi leitir.is er að mörgu leyti ólíkt umhverfi einstakra gagnasafna Landsaðgangs og því gefur beinn samanburður á niðurstöðum úr leitir.is og niðurstöðum úr einstökum gagnasöfnum ekki alltaf rétta mynd af undirliggjandi gögnum. Á næstunni er fyrirhugað að hefja vinnu við að gera rafrænar séráskriftir safna sem skráðar eru í SFX krækjukerfið aðgengilegar í leitir.is. Sú vinna mun hafa í för með sér nokkrar breytingar á kerfislegri uppsetningu en fyrir notendur verður þessi breyting fyrst og fremst fólgin í því að lánþegar þeirra safna sem kaupa rafrænar áskriftir munu fá aðgang að rafrænum áskriftum síns safns til viðbótar við áskriftir Landsaðgangs. Virkjun séráskriftanna á ekki að hafa nein áhrif á virkni kerfisins. Tilraunaáskrift að PCI lýkur í lok apríl 2012. Rætt er um að Landsaðgangur og söfn með rafrænar séráskriftir skipti á milli sín árlegum kostnaði vegna áskriftar að PCI frá og með maí 2012.

29


bókasafnið

36. árg. 2012

Ábendingarþjónusta fyrir rafrænar greinar

6. Lokaorð

Á leitir.is er í boði ábendingarþjónustan bX. Ábendingarþjónustur (recommender service) þekkja margir, meðal annars frá vefversluninni Amazon, en þjónustan bendir notendum á skylt efni. Í leitir.is er þessi þjónusta eingöngu í boði fyrir rafrænar tímaritsgreinar og er aðgengileg undir flipanum ábendingar í leitarniðurstöðum. Einnig má nálgast þjónustuna í SFX krækjukerfinu. Ábendingarþjónustan sem rekin er af Ex Libris notar data-gögn sem eru sótt í loggskrár SFX krækjukerfisins víðs vegar um heiminn (data mining). Um er að ræða kostaða þjónustu sem Landskerfi bókasafna greiðir árlegt gjald fyrir. Þessi viðbótarþjónusta er bókasöfnunum þó að kostnaðarlausu. Í framtíðinni verður þjónustan fjölbreyttari. Þegar þessi grein er skrifuð hefur Ex Libris nýlega kynnt til sögunnar það sem þeir kalla bX vinsælar greinar (bX Hot Articles) og er þar um að ræða að notendur ákveðins fræðasviðs geta fylgst með því hvaða tímaritsgreinar eru vinsælar á fræðasviði viðkomandi. Þessar upplýsingar verður hægt að sækja í gegnum farsímaforrit (apps).

Hraðvirk samleit af því taginu sem möguleg er í leitir.is er nýjung í safnaheiminum á Íslandi. Leitir.is samrýmist stefnu íslenskra stjórnvalda, ríkisins og margra sveitarfélaga í upplýsingamálum og er í takt við tækniþróun á vettvangi bókasafna erlendis. Hún uppfyllir að talsverðu leyti óskir upplýsingaleitenda í dag um nútímalegt leitarumhverfi, gagnvirka upplýsingamiðlun og fjölbreytta þjónustu svo nokkuð sé nefnt. Bylting hefur orðið í aðgengi að Landsaðgangi en nú er möguleg samleit í tímaritsgreinum en ekki aðeins tímaritatitlum líkt og áður var. Í gegnum ábendingarþjónustu geta fræðimenn og námsfólk glöggvað sig á því hvaða tímaritsgreinar það eru sem vekja athygli í heiminum í dag. Leitir.is á að geta styrkt söfn í því að gera fjölbreytt menningarverðmæti sýnileg og aðgengileg landsmönnum. Einnig á hún að geta stuðlað að markvissari notkun á kostuðum safnkosti líkt og Landsaðgangi. Í dag er það fyrst og fremst safnkostur íslenskra bókasafna sem er leitarbær í leitir.is en að því er stefnt að bæta við öðrum gagnasöfnum. Ljósmyndir í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur eru þegar aðgengilegar í leitir.is og er það vísir að því sem koma skal, aðgengi á einum stað að bókasöfnum, minja- og listasöfnum, skjalasöfnum ásamt fleiri gagnasöfnum.

Stöndum vörð um íslenka tungu Verzlunarskóli Íslands

4.

30

http://www.exlibrisgroup.com/category/bXUsageBasedServices


Nýr leitarvefur Hvað finnur þú á leitir.is?

Myndefni Ljósmyndir

Bækur Greinar

Tónlist

Ritgerðir

Tímarit

Notandanafn og lykilorð eru þau sömu og á gegnir.is

Frekari upplýsingar á bókasafninu

31

© 2012 Landskerfi bókasafna hf.


Hugleiðingar um skólasöfn grunnskólanna og Félag fagfólks á skólasöfnum

Siggerður Ólöf Sigurðardóttir og Anna Björg Sveinsdóttir

Útdráttur Hér verður fjallað um skólasöfn grunnskólanna, þróun þeirra og starfsemi. Lög og námskrár mynda ytri ramma safnanna en hinn mannlegi þáttur er einnig áhrifavaldur í starfseminni. Skólasöfn hafa þróast í takt við breytta tíma og þarfir en hindranir eru í veginum. Mikilvægt er að marka skýra stefnu bæði varðandi fagmenntun starfmanna sem og hvaða gæðakröfur má gera til skólasafns í metnaðarfullu skólasamfélagi sem vinnur að upplýsingalæsi. Sagt er frá stofnun nýs fagfélags, Félags fagfólks á skólasöfnum, sem er ætlað að tengja betur allt fagfólk á skólasöfnum og efla samvinnu þeirra á milli. Félaginu er einnig ætlað að vera vettvangur þeirra sem vilja stuðla að bættri umgjörð um starfsemi skólasafna. Inngangur Hér verður farið lauslega yfir sögu skólasafna grunnskólanna og hvernig þau hafa breyst á síðustu árum. Sagt er frá þróun skólasafnanna hér á landi en einnig er aðeins litið út fyrir landssteinana. Samfara þeim breytingum sem hafa orðið hefur margt áunnist á undanförnum árum. En stefna stjórnvalda virðist enn nokkuð óljós sem og stefna Kennarasambands Íslands, sem heldur utan um stóran hóp starfsmanna skólasafnanna. Nýtt fagfélag, Félag fagfólks á skólasöfnum, var stofnað á rótum Félags skólasafnskennara. Sagt er frá stofnun félagsins í tengslum við breytt starfssvið

32

og hlutverk skólasafnanna. Farið verður yfir stefnumótun félagsins til framtíðar og helstu baráttumál. Í áranna rás hafa orðið breytingar á skólasöfnunum bæði hvað varðar mönnun þeirra og starfsemi (Sigrún Klara Hannesdóttir, 1997). Í upphafi voru söfnin lesstofur og svo virðist sem enn í dag hafi söfnin sterk tengsl við lestur í hugum margra. Í rannsókn Siggerðar Ólafar Sigurðardóttur (2011) er að finna vísbendingar um að margir skólastjórar tengi starfsemi skólasafnanna mun meira við lestur og bókaútlán en að þeir líti á þau sem upplýsingaver eða upplýsingamiðstöðvar. Á undanförnum árum hafa skólasöfnin mátt þola tímana tvenna, bæði hvað varðar minnkandi fjárveitingar en einnig breytingar á lögum og reglugerðum. Því er mikilvægt, sérstaklega nú á tímum erfiðra efnahagsaðstæðna og aukins samdráttar, að standa vörð um fagleg störf og vert er að minna á að það sem getur verið sparnaður í dag getur valdið miklum skaða þegar til lengri tíma er litið. Í rannsókn Siggerðar (2011) má sjá vísbendingar um þetta en þar má greina merki um varanlegan skaða ef ekki verður brugðist hratt og örugglega við. Stofnun félagsins og uppruni Þegar skólasöfnin voru stofnuð í grunnskólunum má gera ráð fyrir að í flestum tilfellum hafi þar starfað almennir kennarar. Þeir voru félagsmenn Kennarasambands Ísland og gjarnan kallaðir skólasafnskennarar. Félag þeirra, Félag skólasafnskennara, var rekið innan vébanda Kennarasambandsins og starfsheitið, sem hefur þó aldrei verið formlega viðurkennt eða löggilt á Íslandi, var mjög kennaramiðað. Þegar fór að færast í vöxt að ráða starfsfólk með mismunandi bakgrunn á skólasöfnin höfðu aðeins kennarar aðgang að Félagi skólasafnskennara, sem gerði allt samstarf erfiðara í framkvæmd. Þrátt fyrir að ekki hafði farið fram nákvæm rannsókn á menntun starfsmanna skólasafnanna síðan Sigrún Klara Hannesdóttir gerði sína rannsókn 1997 er ljóst að þar starfaði fólk með mismunandi faglegan bakgrunn (Sigrún Klara Hannesdóttir, 1997). Einhver söfn höfðu kennaramenntaðan starfsmann, á öðrum söfnum voru


bókasafnið kennarar sem tekið höfðu viðbótarnám í bókasafnsfræðum, nokkur skólasöfn voru mönnuð bókasafns- og upplýsingafræðingum og á enn öðrum var mönnun leyst með öðrum hætti. En þrátt fyrir ólíkan faglegan bakgrunn þótti ljóst að það var fleira sem sameinaði starfsmenn safnanna en aðskildi og því var ákveðið að stuðla að stofnun sameiginlegs fagfélags. Vorið 2007 var boðað til fundar þar sem tekin var sú ákvörðun að stofna nýtt félag með það að markmiði að stefna að uppbyggingu skólasafnanna á landsvísu og að skólasöfnin yrðu vettvangur fræðslu (Félag fagfólks á skólasöfnum, [án árs]). Félaginu var ætlað að styðja við fagmenntun og fagvitund félagsmanna auk þess að stuðla að samvinnu milli skólasafna og standa vörð um hag þeirra á einn eða annan hátt. Á aðalfundi Félags skólasafnakennara 15. mars 2007 var stofnað Félag fagfólks á skólasöfnum, skammstafað FFÁS. Fyrsta stjórn félagsins var þannig skipuð: Formaður : Pia Viinikka, Húsaskóla, Reykjavík. Varaformaður: Guðný Ísleifsdóttir, Ingunnarskóla, Reykjavík. Ritari: Hallbera Jóhannesdóttir, Brekkubæjarskóla, Akranesi. Gjaldkeri: Þóra Sjöfn Guðmundsdóttir, Langholtsskóla, Reykjavík. Meðstjórnandi: Árný Jóhannesdóttir, Foldaskóla, Reykjavík. Varamenn: Guðbjörg Garðarsdóttir, Breiðagerðisskóla, Reykjavík. Guðríður Kristjánsdóttir, Réttarholtsskóla, Reykjavík. Í lögum Félags fagfólks á skólasöfnum er kveðið á um að félagið sé félag fagmenntaðs starfsfólks á skólasöfnum. Þeir sem eru kennaramenntaðir og hafa viðbótarmenntun í bókasafns- og upplýsingafræðum geta orðið félagar sem og þeir sem hafa lokið námi í bókasafns- og upplýsingafræði. Um hlutverk félagsins segir: • að efla starf á skólasöfnum og stuðla að viðurkenningu starfsins sem sérhæfðrar starfsgreinar. • að gæta hagsmuna félagsmanna við gerð kjarasamninga í þeim stéttarfélögum sem þar á við. • að efla samheldni, tengsl og stéttarvitund félagsmanna. • að gæta faglegra og félagslegra hagsmuna félagsmanna gagnvart innlendum og erlendum aðilum. • að efla faglegt starf meðal félagsmanna og vinna að því að allir sem starfa á skólasöfnum hafi menntun við hæfi. • að stuðla að endurmenntun félagsmanna. • að efla rannsókna- og fræðistörf sem varða skólasöfn. • að efla samstarf við sambærileg erlend félög (Félag fagfólks á skólasöfnum, 2007).

36. árg. 2012

Félagsmenn hafa lagt áherslu á að tekið verði upp starfsheitið forstöðumaður skólasafns en það er í samræmi við starfsheiti bókasafns- og upplýsingafræðinga í framhaldsskólunum sem kallast forstöðumenn bókasafna. Þróun og starfsemi skólasafna í grunnskólum Saga skólasafna á Íslandi spannar orðið allmörg ár. Óljóst er hvenær fyrsta safnið var stofnað en flestir tengja uppruna þeirra lesstofum sem nokkrir skólar opnuðu í Reykjavík. Tilgangurinn var einkum að skapa nemendum hæfileg viðfangsefni og kenna þeim að nota safn (Sigrún Klara Hannesdóttir, 1997). Saga lesstofanna, sem og skólasafnanna, er líka nátengd því framsýna fólki sem barðist fyrir bættu aðgengi barna að bókum. Í byrjun virðast helstu baráttumálin hafa verið bætt aðgengi, en staðsetning safnanna var oft á tíðum mjög óheppileg, sem og almennt bættur hagur safnanna. Á fundi fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1970 voru lagðar fram reglur um bókasöfn í skólum. Þessar umræður leiddu til þess að ráðinn var skólabókafulltrúi sem hafði eftirlit og umsjón með skólabókasöfnum í Reykjavík og var jafnframt starfsmaður Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Þessi vinna leiddi svo af sér Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur sem þjónar nú öllum grunnskólum borgarinnar (Sigrún Klara Hannesdóttir, 1997). Það var stórt skref að starfsemi skólasafna var tilgreind í lögum um grunnskóla árið 1974. Þar var talað um að skólasafnið væri hjarta skólans og eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu (nr. 63/1974). Stuðningur við starfsemi skólasafnanna og breytt viðhorf um hlutverk þeirra gáfu nýja möguleika á fjölbreyttu og þverfaglegu starfi með tilliti til samþættingar og sjálfstæðrar vinnu nemenda. Skólasafnið átti að koma inn í það samstarf sem eins konar þungamiðja. Til að styðja við lögin stóð til að setja reglugerð um starfsemi skólasafna. Hún kom þó aldrei út þrátt fyrir að kveðið væri á um setningu slíkrar reglugerðar í eldri grunnskólalögum bæði frá 1974 og 1991 (nr. 49/1991). Því hefur verið erfitt að vísa í ákvæði um hvernig mennta- og menningarmálamálaráðuneyti og síðar sveitarfélög hygðust þróa söfnin. Við yfirtöku skólanna hafa sveitarfélögin því aldrei fengið eða sett ákveðnar reglur um starfsemi skólasafna í grunnskólum (Friðrik G. Olgeirsson, 2004). Á síðustu árum hefur krafan um aukna samvinnu milli landa og einnig milli hinna ýmsu sviða samfélagsins orðið nokkuð áberandi í Evrópu. Innan menntakerfisins hefur krafan um að hver nemandi hafi meira um nám sitt að segja orðið æ háværari, ekki bara til að auka áhuga hans á náminu heldur einnig til að búa hann betur undir að fást við hin ýmsu verkefni sem bíða hans í lífinu. Þessar kröfur þekkingarsamfélagsins kalla á breytingar innan menntasamfélagsins (Kerr, 2004). Krafan um bætta menntun og símenntun færist í vöxt hjá nágrannaþjóðum okkar og einnig krafan um meiri samvinnu milli skóla og skólasafns sem og almenningssafna. Þar er samfélagið að bregðast við stefnuyfirlýsingum IFLA/UNESCO (Marquardt, 2008).

33


bókasafnið

36. árg. 2012

Í stefnuyfirlýsingu UNESCO og IFLA um skólasöfn er lýst stefnu starfsemi skólasafnanna og tekið er fram að starfsfólk bókasafnanna eigi að styðja við notkun bóka og annars upplýsingaefnis. Lögð er áhersla á að safnkosturinn sé mikilvæg viðbót við námsbækur og kennslu nemenda og tryggja þurfi nemendum gott aðgengi að safninu. Í stefnuyfirlýsingunni eru ennfremur sett fram rök sem sýna fram á að þegar bókasafns- og upplýsingafræðingar og kennarar vinna saman, nái nemendur betri tökum á læsi, upplýsinga- og samskiptatækni og námi almennt (Stefnuyfirlýsing UNESCO/IFLA um skólasöfn, 2003). Kjarni samvinnunnar er námskráin segir Bruce (2003) en að henni koma kennarinn, forstöðumaður skólasafns og fagaðili á sviði upplýsingatækni. Samvinnan verður að vera innan þess ytri ramma sem lagaákvæði tilgreina og einnig verklagsreglur um upplýsingalæsi og rannsóknir.

í samvinnu við heimilin er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun (Lög um grunnskóla nr. 91/2008). Þegar hlutverk skóla er skoðað og hvar áherslur liggja í kennslumálum er undarleg sú ákvörðun yfirvalda að fella úr lögum ákvæði um skólasöfn bæði í framhalds- og grunnskólum eins og gerðist árið 2008 (Lög um grunnskóla nr. 91/2008; Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008). Ákvörðunin virðist hafa verið tekin án allrar faglegrar umræðu eða sýnilegra ástæðna og hafði í för með sér miklar breytingar á vinnuumhverfi safnanna. Þessi lagabreyting átti sér stað þrátt fyrir aðild Íslendinga að alþjóðlegum yfirlýsingum um upplýsingalæsi eins og Pragyfirlýsingunni, en þar segir: „Upplýsingalæsi ætti að vera órofa hluti af menntun fyrir alla“ (Pragyfirlýsingin um eflingu upplýsingalæsis í samfélaginu, 2003). Þremur árum síðar eða vorið 2011 birtust aftur ákvæði um skólasöfnin í grunnskólalögum. Þar stendur: Í öllum grunnskólum skal gera ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns sem skal vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist námsgreinum og námssviðum aðalnámskrár grunnskóla (Lög um grunnskóla nr. 91/2011).

Mynd 1. Samþætt vinna um námskrá og viðmiðunarreglur um upplýsingalæsi (Bruce, 2003).

Mikilvægi samvinnunnar kemur líka fram í viðmiðunarreglum bandarísku skólasafnssamtakanna um upplýsingalæsi. Með því að auka getu hvers og eins til að vinna sjálfstætt hefur nemandinn kunnáttu og færni til að afla upplýsinga, meta þær og miðla þeim í takt við kröfur um siðferði og þær reglur sem við eiga. Þannig má með velvilja og skilningi þeirra sem stýra skólamálum vinna að bættu námi þegar til framtíðar er litið bæði fyrir nemandann, skólann og samfélagið í heild (American Library Association of School Librarians, 2007). Mikilvægt er að hver nemandi fái kennslu við hæfi hverju sinni en ekki sé einungis miðað við nemanda sem hluta af ákveðnum hópi. Þetta hefur verið kallað einstaklingsmiðað nám. Með því að kennarar og skólasafn vinni náið saman á þverfaglegan hátt og í samræmi við námskrár, má gera ráð fyrir að enn betur megi sinna hverjum og einum nemanda. Eða eins og segir í grunnskólalögum, hlutverk grunnskóla

34

Í orðalagi lagaákvæðisins má finna þverfaglega áherslu sem kallar á að skólasöfnin sinni enn frekar eflingu upplýsingalæsis. Mætti því ætla að sá starfsmaður, sem ber ábyrgð á starfsemi safnsins, þyrfti að hafa til að bera þekkingu og hæfni á sviði bókasafns- og upplýsingafræða sem og menntun í uppeldisog kennslufræði. Því hefði verið fengur að því að fá ákvæði um fagmenntun starfsmanns inn í lagaákvæðið. Þegar ekki er gerð krafa um fagmenntun starfmanns, sem þó er ætlað það hlutverk að sinna daglegum rekstri safnsins, styðja við kennslu og leiða kennslu í upplýsingaog tæknimennt, er margt að óttast. Því er mikilvægt að til komi skilningur skólastjórnenda á starfsviði skólasafnsins. Með fagmenntun starfsmanna eru mun meiri líkur á að þekking sé til staðar þannig að starfið er unnið í takt við skólasamfélagið, fyrir nemendur, kennara og foreldra. Fagmenntaður starfsmaður ætti að hafa á valdi sínu þekkingu á stjórnun, hæfni í samskiptum og samvinnu, þekkingu á sviði upplýsingalæsis og tækniþekkingu á sviði ýmissa miðla. Fagmenntunin stendur einnig fyrir hæfni til að sinna samskiptum við aðrar safnaeiningar og að unnið sé samkvæmt viðmiðum um upplýsingalæsi og innan þess ramma sem lög og aðalnámskrá marka (Lög um almenningsbókasöfn nr. 36/1997). Skortur á ytri ramma skólasafnanna hefur valdið óöryggi við skipulag safnanna. Lagabreytingarnar hafa þar vissulega haft áhrif en ekki síður sú staðreynd að sveitarfélög og skólar virðast geta að stórum hluta ráðið hvernig unnið er að skipulagi kennslu í upplýsinga- og tæknimennt og hvernig skipulag safnsins kemur inn í þá vinnu. Og ljóst er að miklu


bókasafnið getur munað. Þegar reglur um starfsemi safnanna skortir er hætta á að þjónusta við nemendur og starfsfólk séu háð geðþótta þeirra sem stjórna skólunum. Þessir þættir hafa þó ekki verið nægjanlega kannaðir hér á landi síðustu ár en hætt er við að efnahagsaðstæður geti valdið ýmsum breytingum. En í óformlegri könnun FFÁS (vor 2011) má einkum sjá þess merki eftir árið 2008 bæði á þjónustu, bókakosti, aðgengi og starfsmannahaldi safnanna (Félag fagfólks á skólasöfnum, 2011). Styðja má við starfsemi skólasafnanna og það nám sem þar fer fram með skýrri námskrá. Um þessar mundir er unnið að útgáfu nýrrar námskrár og hefur almennur hluti hennar þegar verið gefinn út en það er hinn sameiginlegi kjarni sem öll námssviðin og greinarnar byggjast á. Þar er talað um grunnþætti í allri menntun sem eru: Læsi í víðum skilningi. Menntun til sjálfbærni. Heilbrigði og velferð. Lýðræði og mannréttindi. Jafnrétti. Sköpun. (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011) Þessir grunnþættir eiga að vera leiðarljós í allri almennri menntun og starfsháttum grunnskólans. Þeir eiga að birtast í inntaki námsgreina og námssviða aðalnámskrár, í hæfni nemenda, námsmati, skólanámskrá og innra mati skólans (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011). Mikilvægt er að vel takist til og aðkoma upplýsinga- og tæknimenntar sé skýr sem þverfaglegur námsþáttur sem tengist öllum greinum skólans. Í ritstjórn kaflans um upplýsinga- og tæknimennt sitja fulltrúar frá Félagi fagfólks á skólasöfnum og 3f Félagi um upplýsingatækni og miðlun og eru þeir fulltrúar faglegra þátta námssviðsins. Með þeim breytingum, sem eru að verða á skólasöfnunum í átt til upplýsingamiðstöðva, má ætla að skoða þurfi lagasetningu um menntunarkröfur starfsmanna skólasafna í grunnskólum en í dag er ekki gerð nægjanleg krafa um fagmenntun þeirra er þar starfa. Í lögum um almenningsbókasöfn, sem eru skilgreind sem bókasöfn fyrir almenning rekin af sveitarfélögum, er kveðið á um að forstöðumenn þeirra hafi menntun á sviði bókasafns- og upplýsingafræða (Lög um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997). Því er spurning hvort sömu lög nái ekki yfir skólasöfnin sem eru einnig rekin af sveitarfélögunum. Lögin eru nú í endurskoðun en með auknum kröfum um samvinnu bókasafna og mikilvægi þeirrar starfsemi sem þar á að fara fram er brýnt að skólasöfnin geri sömu kröfur til menntunar og starfsemi og önnur bókasöfn. Ef kennsla á að fara fram á skólasöfnum eða stuðningur við kennslu sem eflir upplýsingalæsi er nauðsynlegt að menntun starfsfólks sé í samræmi við það. Árið 1984 úrskurðaði þáverandi menntamálaráðherra í deilumáli skólasafnskennara og bókasafns- og upplýsingafræðinga um hvor starfsstéttin væri rétthærri til starfs á skólasöfnum.

36. árg. 2012

Lagt var að jöfnu hvort viðkomandi starfsmaður hefði lokið grunnnámi í menntunarfræðum og viðbótarnámi í bókasafnsog upplýsingafræðum eða grunnnámi í bókasafns- og upplýsingafræði og viðbótarnámi í menntunarfræðum (Friðrik G. Olgeirsson, 2004). Í rannsókn Sigrúnar Klöru Hannesdóttur frá 1997 kemur fram að meirihluti starfsmanna skólasafna í grunnskólum voru þá kennarar. Margir höfðu þó viðbótarmenntun í bókasafnsog upplýsingafræðum en einungis lítill hluti starfsmanna var bókasafns- og upplýsingafræðingar (Sigrún Klara Hannesdóttir, 1997). Veturinn 2010-2011 gerði Félag fagfólks á skólasöfnum könnun á högum félagsmanna. Könnunin var rafræn og lögð fyrir öll grunnskólasöfn sem gáfu upp virk netföng. Á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis kemur fram að grunnskólar landsins eru 174. Ekki eru til tölur um hvort allir skólarnir hafi skólasafn eða aðgang að skólasafni en eitthvað er um samsteypusöfn, einkum í skólum á landsbyggðinni. Þess vegna kom ekki nægilega skýrt fram hvert var hið raunverulega svarhlutfall. Engu að síður gefur könnunin vísbendingar um stöðu mála. Svörun var misjöfn eftir landshlutum. Fá svör bárust frá Austurlandi og Suðausturlandi sem og af Vestfjörðum. Til að ná til sem flestra var könnunin send á póstlista forstöðumanna skólasafnanna. Svarendur höfðu vikuna 11.15. apríl til að svara. Svör bárust frá 84 skólum sem er um 48% svarhlutfall. Svo lítil svörun vekur upp ýmsar spurningar og rýrir jafnframt upplýsingagildið. Svarkvarðinn var í kennslustundum en ekki klukkustundum. Þegar spurt var um stéttarfélag forstöðumanns skólasafns var svörunin á þessa leið: Hér kemur ýmislegt á óvart. Í rannsókn Sigrúnar Klöru Stéttarfélag

Fjöldi svara

Svarhlutfall

Kennarasamband Íslands (KÍ)

37

44%

Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU)

23

27%

Önnur félög

24

29%

Hannesdóttur frá 1997 kom fram að á skólasöfnum grunnskólanna voru oftast starfandi kennaramenntaðir einstaklingar þar sem sumir hverjir höfðu viðbótarmenntun á sviði bókasafnsfræða. Nú eru hins vegar 27% svarenda bókasafns- og upplýsingafræðingar. Jafnframt kemur fram að 29% svarenda eru í öðrum stéttarfélögum. Þessar niðurstöður eru ekki alveg ljósar og þarfnast frekari rannsókna. Ætla má að um nokkuð hátt hlutfall ófaglærðra einstaklinga sé að ræða. Eins má velta því fyrir sér hvaða hópi þeir tilheyra sem ekki svara, eða hvort það voru söfn án fastra starfsmanna (Félag fagfólks á skólasöfnum, 2011). Varðandi menntun starfmanna á skólasafni má benda á að Háskóli Íslands býður upp á framhaldsnám í bókasafns- og upplýsingafræði, MLIS (e. Master of Library and Information

35


bókasafnið

36. árg. 2012

Science) ætlað fólki sem hefur lokið grunnnámi í annarri grein. Stór hluti nemenda í þessu framhaldsnámi hefur lokið kennaranámi (Ágústa Pálsdóttir, 2009). Jafnframt má benda á að Menntavísindasvið Háskóla Íslands (fyrrum Kennaraháskóli Íslands) hefur boðið upp á námskeið á sviði tæknimenntar sem nefnist upplýsingatækni og miðlun. Það nám er byggt upp á ólíkan hátt og MLIS námið við Háskóla Íslands í bókasafns- og upplýsingafræðum. Í því námi er mun meiri áhersla lögð á tæknifærni og samskiptatækni kennaraefnanna en bókasafns- og upplýsingafræði. Staðan í dag og stefnumótun til framtíðar Skólasöfnum á Íslandi er almennt skipt upp í tvo flokka, skólasöfn í grunnskólum annars vegar og skólasöfn í framhaldsskólum hins vegar. Starfsemi þessara safna hefur löngum verið nokkuð ólík af ýmsum ástæðum. Skólasöfn framhaldsskólanna hafa haft ólík verksvið en það kemur fram bæði í lögum um framhaldsskóla sem og í kröfum til starfsfólks (Lög um framhaldsskóla, nr. 80/1996). Söfnin starfa þó öll á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er upplýsingalæsi kjarni upplýsingamenntar. En þótt nemendur grunnskólans séu í skyldunámi og eigi rétt á að fá þjálfun í helstu grunnþáttum upplýsinga- og tæknimenntar er ekki þar með sagt að allir fái sambærilega kennslu og nái tilsettum markmiðum. Einnig þarf að skilgreina betur hver markmiðin eru og hvaða hæfni hver nemandi skuli hafa að loknu námi í grunnskóla. Þegar nemendur koma í framhaldsskóla er gert ráð fyrir að þeir hafi tileinkað sér ákveðna kunnáttu og færni í upplýsinga- og tæknimennt til samræmis við þau markmið sem sett eru fram í aðalnámskrá grunnskóla. Hins vegar virðist allur gangur vera á þekkingu nemenda og færni á þessu sviði. Hvort skýringin felist í óskýrri, opinberri markmiðssetningu eða mismunandi áherslum skólanna skal ósagt látið. En ljóst er að slíkt kann að valda nemendum óþægindum nú þegar upplýsingalæsi og tækniþekking gegna svo mikilvægu hlutverki í námi og starfi. Þótt lög og reglugerðir skipti máli fyrir starfsemi safnsins þá eru vissulega fleiri áhrifavaldar, svo sem húsnæðið eða rýmið sem skólasafnið hefur til afnota. Í rannsókn Siggerðar (2011) töldu flestir skólastjórnenda gott aðgengi að skólasafni mikilvægt og að staðsetningin væri með þeim hætti að sem flestir ættu leið um safnið eða hjá því. Staðsetning hefði áhrif á notkun og starfsemi þess. Í rannsókninni kom einnig fram að stærð skólasafnsins væri ekki endilega mæld í fermetrum heldur í opnunartíma og máli skipti að það væri opið nemendum sem lengst á skólatíma. Þessi svör eru í ákveðnu ósamræmi við könnun FFÁS (2011) frá sama tíma en þar kemur fram að víða í skólum hefur stöðuhlutfall starfsmanna safnanna verið skert til muna, mismunandi mikið og sjá má tölur niður í allt að 70% skerðingu. Við þessar aðstæður er erfitt að halda uppi metnaðarfullu starfi, hvað þá að sinna stefnumótun til framtíðar. Því má velta fyrir sér hvort sveitarfélög og skólastjórnendur ætli nú að reka skólasöfn sín sem lesstofur með sem lengstan

36

opnunartíma með aðaláherslu á að sinna þörfum nemenda í frjálsum lestri og hlutverk starfsmanns safnsins sé fyrst og fremst að sjá um bókaútlán. Þá vaknar einnig sú spurning hverjar séu áherslur skólans á fagmenntun starfmanns á skólasafni en í rannsókn Siggerðar (2011) kom fram að í einhverjum skólum væru kennarar komnir á kennsluafslátt sem sinntu vinnuskyldu sinni á skólasafninu við útlán bóka og annarra gagna. Þó litið sé fram hjá faglegum sjónarmiðum hlýtur sú ákvörðun að vera á verulega gráu svæði eða jafnvel ólögmæt vegna kjarasamninga kennara við sveitarfélög landsins. Þar er talað um að kennarar sem komnir eru á kennsluafslátt sökum aldurs geti fyllt sína stöðu með vinnu við önnur fagleg störf svo lengi sem það er ekki vinna með nemendum (Kennarasamband Íslands, 2005- 2007). Metnaðarfullt starf hefur oft aukinn kostnað í för með sér og þverfaglegt nám og samþætt kennsla er dýrari leið ef skólastarf er einungis metið í peningum. Hins vegar er ávinningurinn mun meiri þegar til lengri er tíma litið. Því er mikilvægt fyrir allt skólastarf að skólastjórnendur og skólayfirvöld taki höndum saman og að ekki sé litið eingöngu til kostnaðar heldur til ávinnings annarra þátta. Niðurskurður virðist hins vegar nú þegar vera farinn að hafa veruleg áhrif á skólasöfn landsmanna, of lítið eftirlit virðist vera með fjármagni sem renna á til skólasafnanna og uppbyggingar þeirra. Starfsemi skólasafnanna virðist einnig vera mjög háð áhuga skólastjórnenda og sveitarstjórnarmanna (Brynhildur Þórarinsdóttir, 2011). Fleira þarf að koma til svo safnið virki eins og því ber í skólasamfélaginu og voru safnkostur og starfsmaður nefnd í því sambandi (Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, 2011). Huga þarf að endurnýjun safnkosts, því ekki má bregðast væntanlegum lesendum, og ljóst er að slakt ástand er ekki hægt að umbera nema í mjög takmarkaðan tíma. Skólastjórnendur nefndu líka að starfsmaðurinn skipti máli fyrir starfsemina (Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, 2011). Flestir þeirra töldu að þverfaglegt eða samþætt nám væri undir því komið hvort skólasafn hefði til að skipa hæfum starfsmanni með viðeigandi menntun, sem væri hæfur í samskiptum, í senn hvetjandi og styðjandi. Þannig sjái kennarar kostina við samvinnu og samþættingu námsgreina og séu viljugir að starfa þvert á greinar í takt við virkan starfsmann á skólasafni. Þess skal getið að rannsókn Siggerðar var unnin í skólum þar sem um var að ræða fagmenntaðan starfsmann sem var hvetjandi og styðjandi og vann yfirleitt í miklu samstarfi við skólasamfélagið. Ætla má að þar hafi skólastjórnendur stutt öðru vísi við starfsemi skólasafns en þar sem um litla eða mjög takmarkaða samvinnu var að ræða. Ljóst er að ef vel á að takast þarf skólasafnið að veita nemendum og kennurum gott aðgengi og rými til að takast á við síbreytileg verkefni samtímans. Skólinn vinni sem samfélag að verkefnum undir ákveðinni stjórn, hafi skýra stefnumörkun gagnvart samvinnu og verkefni séu unnin í takti við þarfir nemenda hverju sinni. Skólasafnið þarf að vera liður í því samfélagi. Í þessu umhverfi starfar Félag fagfólks á skólasöfnum. Brýnt er að vinna að stefnumörkun félagsins og styðja og hvetja


bókasafnið félagsmenn til að vinna að bættu skólasamfélagi og aukinni þátttöku í eflingu upplýsingalæsis. Til að stefnumörkun verði hvað markvissust hefur verið lögð áhersla á koma að sem flestum verkefnum sem koma að ytri og innri ramma skólasafnanna. Sem dæmi má nefna aukið innlent samstarf, ekki einungis á milli bókasafnanna heldur einnig á milli hópa, sem vinna að barnabókum og barnamenningu. Árið 2010 var tekin upp samvinna um dag barnabókarinnar sem er 2. apríl. Þá hófst samvinna IBBY á Íslandi við Ríkisútvarpið, Rithöfundasamband Íslands og skólasöfn grunnskólanna (Ibby á Íslandi, 2011). Eins og komið hefur fram er stór hluti félagsmanna Félags fagfólks á skólasöfnum í Kennarasambandi Íslands sem grunnskólakennarar. Lengi hefur verið beðið um skýra stefnumörkun félagsins á starfsemi skólasafnanna. Það er afar bagalegt að Kennarasamband Íslands skilgreini ekki sérstöðu þess starfs sem unnið er á skólasöfnunum. Afskiptaleysi þess virkar því miður ekki hvetjandi fyrir þá einstaklinga sem vilja endurmennta sig og velja þessa námsleið og gerir þeim enn erfiðara um vik að standa vörð um faglegt starf sem skólasöfn grunnskólanna og nemendur þeirra eiga kröfu á. Sem kennarasamtök ættu þau að hlúa að viðbótarfagmenntun félagsmanna og áhuga þeirra á endurmenntun auk þess að meta hana til launa. Þessi barátta hefur nú staðið í að minnsta kosti 16 ár. Það er dapurlegt að á meðan kjarasamningar kennara og Launanefndar sveitarfélaganna geta ekki skilgreint sérstöðu skólasafnanna þá grunnraðast kennarar með viðbótarmenntun á sviði bókasafns- og upplýsingafræða í lægsta mögulega launaflokk háskólamenntaðra kennara. Á sama tíma raðast sérkennarar tveimur launaflokkum ofar og námsráðgjafar heilum fimm flokkum ofar. Afstaða Kennarasambandsins til endurmenntunar er í raun mjög athyglisverð því framhaldsmenntun allra þriggja hópanna er sambærileg, það er tvö ár á meistarastigi. Af hverju þessu er ekki breytt fæst ekki neitt svar en lesa má kjarasamninginn í heild sinni bæði til fróðleiks og til skemmtunar. Einkum má benda á kafla 2.1.6.7, Störf kennara á skólasafni, þar sem kemur nokkuð skýrt fram að ekki er mikill skilningur á eðli þessara starfa. Finna má lýsingu á starfssviði kennara sem vinnur á skólasafni í óskýrri framsetningu. Textinn virðist ekki hafa verið yfirlesinn í kjaraviðræðum lengi (Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands, 1. maí 2011 - 31. mars 2014). Á meðan Kennarasambandið sýnir ekki með skýrum hætti í kjarasamningi hvert starfsheiti starfsmanns á skólasafni á að vera er það alfarið undir sveitarstjórn eða skólastjóra komið hverju sinni hvort viðkomandi starfsmaður fái laun sem hæfir hans verksviði. Í apríl 2011 fór Stjórn Félags fagfólks á skólasöfnum formlega fram á skrifleg svör við þessum vangaveltum, en án árangurs. Þá hefur Kennarasambandi Íslands einnig verið boðið upp á kynningu á starfsemi skólasafnanna en það boð hefur ekki verið þegið.

36. árg. 2012

Lokaorð Hér höfum við rakið þróun skólasafna grunnskólanna og einkum þá breytingu sem orðið hefur á síðustu árum. Farið var yfir þá breytingu sem varð á starfsemi og mönnun skólasafnanna sem leiddi til stofnunar nýs fagfélags. Það er greinilegt að félagsmenn kalla á skýra námskrá sem skerpi á ytri ramma skólasafnanna og standi því vörð um innri starfsemi skólasafnanna. Sú krafa er í takti við skólasamfélagið þar sem áhersla er lögð á fagmenntun starfsmanna skólasafnsins, fagmenntun sem byggist á haldgóðri þekkingu á sviði uppeldis- og kennslufræða auk bókasafns- og upplýsingafræða. Starfsheiti er eitt baráttumál félagsmanna, sem vilja fá starfsheitið forstöðumenn skólasafna viðurkennt. Með því móti má leggja áherslu á fagmenntun og mæta þannig auknum kröfum um stjórnunarhæfileika, hæfni á sviði samvinnu og samskipta sem og góða innsýn í skólastarf í tæknivæddu samfélagi. Til að forstöðumenn skólasafna megi verða við þessum kröfum þurfa þeir að fá viðurkenndan sveigjanleika í starfi, bæði í stundaskrá og samvinnu. Mikilvægt er að menntun forstöðumanna skólasafna verði metin til launa hvort sem þeir tilheyra stéttarfélagi kennara eða bókasafns- og upplýsingafræðinga. Það er kominn tími til að forystumenn á sviði menntasamtaka taki frumkvæði og virði og meti sambærilega framhaldsmenntun félagsmanna sinna á sama hátt. Stöndum vörð um fagþekkingu og samvinnu á sviði bókasafns- og upplýsingamála. Framtíðin er núna og við þurfum að bregðast við breyttu námsumhverfi nú þegar. Heimildir American Library Association of School Librarians. (2007). Standards for the 21st Century Learner. Chicago: Höfundur. Sótt 28. desember 2011 af http://www.ala.org/aasl/sites/ala.org.aasl/files/content/ guidelinesandstandards/learningstandards/AASL_Learning_ Standards_2007.pdf. Ágústa Pálsdóttir. (2009). Framhaldsnám á meistarastigi í bókasafnsog upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Bókasafnið, 33, 4-6. Bruce, C. (2003). Seven faces of information literacy. Towards inviting students into new experiences. Faculty of Information Technology, QUT. Thinking like a higher educator. Sótt 28. desember 2011 af http://www. bestlibrary.org/digital/files/bruce.pdf. Brynhildur Þórarinsdóttir. (2011). Er hjartað hætt að slá? Skólabókasöfn á krepputímum. Í Ása Guðný Ásgeirsdóttir, Helga Björnsdóttir og Helga Ólafsdóttir (ritstj.), Rannsóknir í félagsvísindum XII: erindi flutt á ráðstefnu i október 2011, 133-140. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Félag fagfólks á skólasöfnum. [án árs]. Félag fagfólks á skólasöfnum. Sótt 26. desember 2011 af http://www.ki.is/?PageID=3238. Félag fagfólks á skólasöfnum. (2007). Lög Félags fagfólks á skólasöfnum; lögð fyrir aðalfund 15. mars 2007. Sótt 26. desember 2011 af http://ki.is/?PageID=2697. Félag fagfólks á skólasöfnum. (2011). Könnun á starfi og starfsemi skólasafna grunnskólanna vorið 2011. Sótt 28. desember 2011 af http:// ki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=12947.

37


bókasafnið

36. árg. 2012 Lög um grunnskóla nr. 91/2011. Marquardt, L. (2008). The Leopard’s Spots on the Move: School

Félag grunnskólakennara. (2007). Frá Félagi skólasafnakennara. Sótt

Libraries in Europe. International Federation of Library Associations and

26. desember 2011 af http://www.fgk.is/web/?&OZON=Z3JvdXA9MzU3

Institutions. E-prints in Library and Information Sience. Sótt 7. janúar 2011

OSZwYXJlbnQ9MTU5NQ.

af http://hdl.handle.net//10760//14272.

Friðrik G. Olgeirsson. (2004). Á leið til upplýsingar. Saga

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2011).

Bókavarðafélags Íslands, aðildarfélaga þess og Félags bókasafnsfræðinga.

Aðalnámskrá grunnskóla; almennur hluti. Reykjavík: Mennta- og

Reykjavík. Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða.

menningarmálaráðuneytið. Sótt 27. desember, af http://www.

Ibby á Íslandi. (2011). Samlestur smásögu víðs vegar um Ísland. Sótt 10. janúar 2012 af http://ibby.is. Kennarasamband Íslands. (2005–2007). Kjarasamningur Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla. Sótt 8. mars 2011 af http://new.ki.is/pages/1344.

menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/nr/3953. Pragyfirlýsingin um eflingu upplýsingalæsis í samfélaginu. (2003). Þórdís T. Þórarinsdóttir þýddi. Fregnir, 28(3), 28-29. Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands. (1. maí 2011 - 31. mars 2014). Kjarasamningur Sambands íslenskra sveitarfélaga

Kerr, D. (2004, nóvember). Education for Democratic Citizenship

og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara. Sótt 28.

2001–2004: All- European Study on Policies for Education for Democratic

desember 2011 af http://www.ki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=13054.

Citizenship (EDC). Regional study. Western Europe Region. (DGIV/

Siggerður Ólöf Sigurðardóttir. (2011). Upplýsingalæsi. Kjarni

EDU/CIT (2003) 21 r). Strasbourg: Council of Europe. Sótt 4. febrúar

upplýsingamenntar eða ferli í öllu námi grunnskólanemenda í

2011 af http://www.coe.int/t/dg4/education/edc/Source/Pdf/

nútímasamfélagi. Óbirt lokaverkefni til MLIS gráðu: Háskóli Íslands.

Documents/2003_21rev2_All-EuropeanStudyWesternEuropeRegion_ En.PDF.

Sigrún Klara Hannesdóttir. (1997). Skólasöfn í grunnskólum. Guðrún Pálsdóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir (ritstjórar). Sál aldanna. Íslensk

Lög um almenningsbókasöfn nr. 36/1997.

bókasöfn i fortíð og nútíð, 305-320. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Lög um grunnskóla nr. 63/1974.

Háskólaútgáfan.

Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996. Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008. Lög um grunnskóla nr. 49/1991. Lög um grunnskóla nr. 91/2008.

38

Stefnuyfirlýsing UNESCO/IFLA um skólasöfn. (2003). Þórdís T. Þórarinsdóttir þýddi. Bókasafnið. 27(1), 72-73.


Starfsánægja á almenningsbókasöfnum Eigindleg rannsókn á starfsánægju starfsmanna almenningsbókasafna á Stór-Reykjavíkursvæðinu

Ragnhildur Sigríður Birgisdóttir

Greinin er byggð á niðurstöðukafla lokaverkefnis til MLISgráðu með áherslu á stjórnun og stefnumótun í bókasafnsog upplýsingafræði við Háskóla Íslands í febrúar 2012. Efni rannsóknarinnar er starfsánægja og líðan starfsmanna almenningsbókasafna á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Markmið rannsóknarinnar var að leita svara við því hvernig þátttakendum rannsóknarinnar liði í starfi, hvernig þeim líkaði við starfið og hver þáttur samstarfsmanna, yfirmanns og annarra þátta starfsins er á líðan þeirra. Skoðaðir voru vefir almenningsbókasafna með tilliti til starfsmannastefnu þeirra og skilgreiningar fræðimanna á starfsánægju og hvað það er sem getur valdið óánægju í starfi. Ennfremur var leitast við að máta líðan starfsmanna inn í tveggjaþáttakenningu Herzbergs og þarfapýramída Maslows með tilliti til starfsánægju og nokkrar erlendar rannsóknir, sem fjalla um þætti sem hafa áhrif á starfsánægju bókasafnsstarfsfólks, kynntar stuttlega. Aðferðin sem notuð var í þessari rannsókn flokkast undir eigindlegar rannsóknaraðferðir. Niðurstöður rannsóknarinnar eru byggðar á viðtölum við níu konur sem starfa á almenningsbókasöfnum og endurspegla því eingöngu þeirra upplifun og viðhorf með tilliti til líðanar í starfi á almenningsbókasöfnum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Rauði þráðurinn í niðurstöðunum er gagnkvæm virðing og traust. Hrós, hvatning, eftirtekt, frumkvæði, skilningur, gott upplýsingaflæði, fjölbreytileiki starfsins, nálægð við yfirmann

og gott aðgengi að honum, samstarf við önnur söfn, léttleiki og ábyrgð er það sem ýtir undir vellíðan og gerir þátttakendur rannsóknarinnar ánægða í starfi. Lokaverkefnið í heild er á Skemmunni. Niðurstöðum er skipt í fjóra meginkafla út frá rannsóknarspurningum (Ragnhildur Sigríður Birgisdóttir, 2012). Í fyrsta kafla koma fram viðhorf viðmælenda til starfsins og vinnuumhverfisins. Annar kafli er um viðhorf til vinnufélaga og samskipti við þá. Þriðji kafli er um viðhorf þeirra til yfirmanns safnsins. Og í fjórða kafla eru aðrir þættir sem hafa áhrif á líðan þeirra og starfsánægju. Í þessari grein er ekki farið í fræðilegan bakgrunn né vísað í einstaka viðmælendur en helstu niðurstöður kynntar lauslega. 1. Viðhorf til starfsins og starfsumhverfis Viðmælendur voru spurðir hvort einhver tiltekin ástæða væri fyrir því vali að starfa á almenningsbókasafni. Það var ekki hik á svari þeirra. Flestar svöruðu konurnar, sem rætt var við, því til að það væri vegna áhuga á bókum og notalegu vinnuumhverfinu en einnig leiddi eitt af öðru eins og starf á safni og síðan nám tengt starfinu eða öfugt. Staðsetning vinnustaðar með tilliti til búsetu skipti einnig máli því fimm af níu nefndu að fyrra bragði að það væri sannarlega kostur ef safnið væri staðsett í göngufæri frá heimili. Þær segjast allar ánægðar með starfið. Og hvort sem þær höfðu lokið námi í bókasafns- og upplýsingafræði eða ekki þá á starfið hug þeirra allan. Sumar tala um starfið sem eitthvað sem þær eiga, „vinnuna sína“, og almennt mæta þær með tilhlökkun í vinnuna og meta mikils að vinna á safninu hvort sem þær eru ánægðar með allt varðandi starfið eða ekki. Stærð vinnustaðarins og starfsmannafjöldi hefur greinilega áhrif og er misjafnt hvað hverri finnst. Þegar grannt er skoðað er þrennt sem skín í gegn. Í fyrsta lagi fer viðhorf þeirra til vinnunnar og vinnustaðarins eftir upplifun þeirra á starfinu sjálfu. Tvær þeirra segjast hafa haft ranghugmyndir um starfið á meðan þær voru í námi og höfðu enga starfsreynslu á almenningsbókasafni. Annarri

39


bókasafnið

36. árg. 2012

þeirra finnst starfið hafa upp á annað og meira að bjóða en hún gerði sér grein fyrir, hinni finnst fagkunnátta sín ekki fá að njóta sín nægilega í starfi. Allar hafa þær áhuga fyrir starfinu og vilja hæfilega krefjandi verkefni til að spreyta sig á. Í öðru lagi markast viðmót þeirra allra og líðan af tilfinningu þeirra fyrir þeim starfsanda sem ríkir meðal vinnufélaga, þar á meðal yfirmanns. Og í þriðja lagi kemur fram hversu heppnar þær segjast vera að hafa og halda vinnu miðað við atvinnuástandið í dag og vera þar að auki í starfi sem þær hafa sóst eftir sjálfar og eru ánægðar í. Samskipti vinnufélaga, virðing og öryggi virðast vera þeir þættir sem þær meta mest og segja að einkenni góðan vinnustað. 2. Líðan með vinnufélögum og væntingar til þeirra Stærð safna, fjöldi starfsmanna og samsetning hefur mikið að segja hvað varðar líðan og sitt sýnist hverjum. En einstaklingur, framkoma hans og viðhorf, virðist geta haft afgerandi áhrif á líðan annarra starfsmanna. Þeir eru ekki eingöngu vinnufélagar heldur bera þeir starfsemina uppi og starfsandi meðal þeirra, líðan og áhugi hefur ekki bara áhrif á innri starfsemi safnsins heldur getur einnig haft áhrif á viðmót starfsmanna gagnvart viðskiptavinum. Viðmælendur voru beðnir um að segja frá hvernig þeim liði á vinnustað innan um vinnufélaga sína og hvaða eiginleikum góður vinnufélagi á að vera gæddur. Hér er fjallað um mikilvægi vinnufélagans út frá samskiptum, nálægð á vinnustað, stuðningi við upphaf starfs, samstöðu við innleiðingu breytinga og við áföll í lífi og meðal starfsmanna. Allar eiga konurnar, sem rætt var við, vinnufélaga en misjafnt er hversu náin samskiptin þeirra í milli eru. Aldursblöndun og kynjablöndun álíta þær sem eru á stærri söfnum góða starfsmannablöndu. En nokkrar á minni söfnunum tala um kvennavinnustaðinn sinn og vinkonuandann. Flestar vilja geta treyst samstarfkonum sínum og rætt um fjölskyldumálin eins og vinkonur, inn á milli faglegrar umræðu. En ein gefur í skyn að hún eigi litla samleið með samstarfskonum sínum og önnur vill halda ákveðinni fjarlægð í samskiptum við vinnufélaga. Samvera, hvatning, stuðningur, áhugi og öryggi eru þættir sem þær segja að skipti máli í fari vinnufélaga og yfirmanns. Þær meta góðan starfsanda mikils og tvær sögðust hiklaust gefa eftir ef upp kæmi þras eða pirringur til að tryggja áframhaldandi góð samskipti. Allar hafa þær einhvern tíma verið nýliðar og sú upplifun virðist geymd en ekki gleymd. Þær segjast vel geta sett sig í spor nýliðans, upplifunina af óöryggi og stressi í starfsbyrjun. Og þær eru sammála um hversu mikilvægt það sé að taka vel og markvisst á móti nýjum starfsmanni. Hann þarf að finna félagslegan stuðning, að starfið hafi tilgang og að starfskraftar hans nýtist starfsemi safnsins. Mismikil nýliðun hefur átt sér stað á söfnunum. Það er áhugavert hvaða merkingu þær leggja í mikla og litla nýliðun. Hvort tveggja telja þær gott, segja það lýsa ánægju ef starfsmannaveltan sé lítil og þar sem hefur verið einhver starfsmannavelta að ráði þá kemur fram að nýliðun sé góð vegna ferskleika og nýrrar þekkingar.

40

Breytingar eru að jafnaði gerðar til að bæta og auka þjónustu safnsins. Tillögum er oftast vel tekið en innleiðing þeirra er svo í höndum starfsfólksins. Hér á vel við orðatiltækið „glöggt er gests auga“. Því svo virðist sem nýtt fólk sé opið fyrir breytingum, lumi á þekkingu og reynslu sem það vilji hrinda í framkvæmd. Margar minni háttar breytingar hafa áhrif og kannski ekki erfitt að hrinda þeim í framkvæmd svo fremi þær hafi ekki óþægindi í för með sér að mati annarra starfsmanna. En stærri breytingar þurfa innleiðingu og samstöðu. Viðmælendur rannsóknarinnar voru fylgjandi breytingum og áttu jafnvel frumkvæðið en þær þekkja líka efasemdarviðbrögð og jafnvel að samstarfsfólk sé vísvitandi ekki samstíga og hindri breytingar. Fagleg samskipti, léttleiki og hvatning hafa jákvæð áhrif á líðan, en stirð samskipti og ágreiningur hafa tvímælalaust neikvæð áhrif. Veikindi aftur á móti þjappa oft fólki saman. Svo virðist sem stærð safnanna skipti ekki miklu máli þegar áföll verða meðal vinnufélaga. En hvort tveggja, veikindi og ágreiningur, hefur mikil áhrif á líðan þeirra. Þó safnið sé stórt eru alltaf einhverjir nálægir sem taka áfallið nærri sér. Fólk sem veikist þarf að bregðast við sínu vinnuumhverfi og jafnvel yfirgefa vinnustaðinn. Sumir fara skyndilega frá vegna veikinda og eru þar með utan við vinnustaðinn og vinnufélaga og eru líklegir til að mæta skilningi og stuðningi vinnufélaga. En þeir sem lenda í samskiptaerfiðleikum á vinnustað geta átt í stríði við vinnufélaga og virðast geta komið sjálfum sér og öðrum í klemmu. Ef ágreiningur vex, þrátt fyrir viðbrögð og aðgerðir á vinnustað, kemur stundum til þess að leita þurfi utanaðkomandi aðstoðar. Viðkomandi kemur ójafnvægi á vinnubraginn og ef það er eitthvað sem skiptir máli þegar viðmælendur mæta til vinnu þá er það að hafa hlutina í lagi og finna góða strauma mæta sér. 3. Hlutverk yfirmanns almenningsbókasafns með tilliti til líðanar og starfsánægju Þegar konurnar sem rætt var við voru spurðar út í hvað einkenni góðan yfirmann þá nefna þær allar nálægð og gott aðgengi að honum. Flestar voru þær ánægðar með sinn yfirmann og gátu talið upp kosti hans og galla. Þær eru einnig allar á því að yfirmaður „leggi línurnar“ og gegni því miklu hlutverki í líðan starfsmanna og starfsanda á vinnustað. Nálægð við hann virðist vera meiri á minni söfnunum en að þeirra mati er hún ekki síður mikilvæg á stærri söfnunum. En starfsumfang yfirmanna við rekstur stærri safna geri það að verkum að þeir eiga erfiðara um vik að starfa á gólfinu með sínu fólki. Það getur verið vandmeðfarið hjá yfirmanni að standa sig í starfi gagnvart starfsfólki sínu og þræða þá fínlegu línu að vera „mannlegur“ og halda vissri fjarlægð. En samantekið segja þær að góður yfirmaður eigi að þekkja starfsfólk sitt, vera skilningsríkur og vera í reglubundnu sambandi við það og áríðandi sé að hann sé þeim aðgengilegur. Hann á einnig að vera framtaksamur, opinn fyrir nýjungum, halda starfsfólki upplýstu, dreifa ábyrgð og hafa heildaryfirsýn yfir starfsemina og líðan starfsmanna og búa yfir aga og festu en ekki stífni. Hér er fjallað aðeins um


bókasafnið mikilvægi yfirmanns vegna upplýsingaflæðis, hvatningu og trausts og starfsmannaviðtala. Viðmælendur telja að oftast sé upplýsingaflæði á söfnunum gott, sumt gleymist þó og getur þá valdið starfsmanni óþarfa pirringi og óþægindum. Samkvæmt þeim virðast flest söfnin vera með ákveðið ferli til að koma upplýsingum áleiðis. Verkefni eru kynnt og ákvarðanir teknar á fundum, fundagerð er birt á innra neti, tilkynningar eru hengdar upp á upplýsingatöflu, styttri en áríðandi skilaboð eru send með tölvubréfi eða upplýsingar berast á milli, svona „maður á mann“ til dæmis í spjalli á kaffistofu. Fyrir flestar þeirra veitir það öryggi í starfi að vita nokkurn veginn hvað er í gangi og hvað aðrir starfsmenn eru að gera. En það er ekki bara í höndum yfirmanns að upplýsa starfsfólk, segja þær, heldur verður það líka að fylgjast með. Þær vilja gjarnan fá að sýna sjálfstæði og frumkvæði, segja að það fylgi lifandi starfi. Það er hvetjandi ef hrós vinnufélaga fylgir í kjölfarið. Ef yfirmaður felur starfsmanni ábyrgð meta þær það sem jákvæða traustsyfirlýsingu. Og þær eru sammála um að það sé mikilsverð tilfinning að finna að vinnan sem þær inna af hendi sé yfirmanni einhvers virði. Viðmælendur eru á því að starfsmannaviðtal með yfirmanni sé gott fyrir báða aðila. Flestir yfirmenn tryggja starfsmönnum sínum viðtal einu sinni á ári en þó er það ekki öruggt á öllum söfnunum. Þær sem til þekkja eru mjög ánægðar með að geta rætt stöðu sína og líðan í formlegu viðtali. 4. Aðrir þættir sem hafa áhrif á sálartetrið Í þessum kafla er hugað að öðrum þáttum sem hafa áhrif á líðan og starfsánægju. Til dæmis hvað starfsfólki finnist skemmtilegast í starfinu og hvar launin séu á ánægjuvoginni. Spurt var hvað starfsfólk geri til að halda léttum starfsanda í dagsins önn og hvort samskipti og samstarf starfsmanna safnsins við starfsmenn annarra safna hefðu áhrif á starfsánægju? Ef starfsmanni finnst starfið skemmtilegt er sennilegt að honum líði vel í vinnunni. Þær voru sammála um að skemmtilegasti staðurinn væri afgreiðslan. Þó að þjónusta við viðskiptavini væri oft krefjandi væri hún jafnframt lifandi og skemmtileg. Þessi spurning var ekki lögð formlega fyrir alla þátttakendur en það skín í gegn að þjónustustarfið og samskipti við viðskiptavini ásamt léttum samskiptum við vinnufélaga geri vinnuna skemmtilega. Þær kunna vel að meta huggulega morgunfundi og góðgæti með kaffinu. Það vekur notalega stemningu. Svo er ýmislegt sem vinnufélagar gera til þess að hrista hópinn saman og brjóta upp hversdaginn. Það er farið út að borða, í leikhús, haldin jólagleði og farið í menningar- og vísindaferðir en léttleiki skapast einnig vegna einhverra lítilla atburða á safninu sem ekki er síður skemmtilegt að halda upp á. Fjölbreytt starf þeirra virðist hafa mikil áhrif á líðan og viðhorf þeirra til vinnunar. Þær leggja mikla áherslu á hversu gott það sé að brjóta upp vinnudaginn með því að flytjast á milli verkefna. Hámark virðist vera tveir til þrír tímar við hvert verkefni. +Með þessu fyrirkomulagi verða þær virkari,

36. árg. 2012

ferskari, fjölhæfari og óþreyttari. Þar að auki gerir þetta þeim auðveldara að ganga í störf vinnufélaga þegar leysa þarf forföll. Og með þessu fyrirkomulagi eru allir að vinna með öllum. Þær segja endurmenntun vera hluta af starfinu og hún fari fram á ýmsan máta. Endurmenntun segja þær styrkja sig í starfi og hún sé í formi einstaklingsmenntunar eða sameiginlegrar símenntunar. Þær eru greinilega mjög ánægðar með það form símenntunar að hitta starfsfólk annarra safna. Fyrir utan að það geti verið „hugguleg“ stund þá hittast kollegar, spjalla saman, hlusta á erindi, liðsinna, ýta undir samstarf, mynda tengsl, rölta um og skoða hvað gestgjafar hafa verið að gera, fá hugmyndir og sá fræjum. Svona heimboð á milli samstarfssafna er besta endurmenntunin, segja þær sem til þekkja. Þær vilja hæfilega krefjandi verkefni og gegna ábyrgðarhlutverki í starfi. Eins segja þær mikilvægt að dreifa ábyrgð á milli starfsmanna. Þær segja að ef þeim sé falin ábyrgð fylgi henni traustsyfirlýsing yfirmanns og í kjölfarið ánægja þeirra. Jafnframt því sem þetta sé mikil hvatning gera þær sér líka grein fyrir því að aukin ábyrgð geti valdið álagi og stressi. Það er ekki mikið að segja um launin nema þær segja að þau séu lág en þær eru ekki í vinnu á almenningsbókasafni vegna launanna heldur starfsins. Bestu launin er ánægjulegt starf, vellíðan í góðu starfsumhverfi og öryggi. Lokaorð Niðurstöður verkefnisins afmarkast af aðferð rannsóknarinnar. Engu að síður gefa þær ákveðna innsýn í líðan og starfsánægju starfsfólks bókasafna. Það er vonandi að starfsfólk bókasafna, bókasafns- og upplýsingafræðingar og annað fagfólk er kemur að starfsmannamálum, starfsemi og rekstri bókasafna geti nýtt sér rannsóknina og niðurstöðurnar á leiðbeinandi hátt við að gera gott safn betra með tilliti til líðanar starfsmanna og þar með þjónustu safnsins. Í samanburði við þær kenningar og erlendu rannsóknir um starfsánægju sem fjallað er um í fræðilega hluta verkefnisins eru niðurstöður sambærilegar og engin ástæða til annars en að huga af fullri alvöru að öllum þeim þáttum sem varða ánægju og vellíðan starfsmanns bókasafns.

Abstract Job Satisfaction in Public Libraries: A qualitative research on job satisfaction among public library employees in the Greater Reykjavík Area The aim of this study was to find answers to the following questions: How do public library employees feel at work? What are the main factors affecting their job satisfaction? To what extent is their sense of well-being affected by their relationship with their colleagues and supervisors? Job satisfaction and dissatisfaction are observed in accordance with Maslow´s Hierarchy of Needs and Herzberg‘s Two Factor

41


bókasafnið

36. árg. 2012

Theory. The research methods are qualitative and include face-to-face interviews with nine employees in five public libraries in the Greater Reykjavík Area. The results show that respect and trust between colleagues and supervisors is the most important factor in job satisfaction and well-being in the work place. Other factors, such as motivation, initiative, encouragement, responsibility, support, acknowledgement and understanding from colleagues and supervisors, good information flow, good access to supervisors, a sense of ease and cooperation with other libraries also have a substantial effect on how participants feel at work in their public library. For further information about this study see full text in Skemman (Ragnhildur Sigríður Birgisdóttir, 2012).

42

Heimild Ragnhildur Sigríður Birgisdóttir. (2012). Starfsánægja á almenningsbókasöfnum: Eigindleg rannsókn á starfsánægju starfsmanna almenningsbókasafna á Stór-Reykjavíkursvæðinu. MLIS-ritgerð við Háskóla Íslands. Vistuð á Skemmunni, http://skemman.is/item/view/1946/10606


Er vilji allt sem þarf? Skólasafnið og samstarf bókasafns- og upplýsingafræðinga, fagaðila í tölvum og kennara

Halla Ingibjörg Svavarsdóttir

Inngangur Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil og ör þróun í upplýsingaaðgengi. Heimurinn hefur skroppið saman og nú tekur örskotsstund að nálgast upplýsingar hvaðanæva að og í meira magni en áður hefur þekkst. Þetta getum við þakkað tækniþróun þriggja síðustu áratuga. Skólarnir hafa ekki farið varhluta af þessum breytingum. Áherslur, þarfir og væntingar þeirra sem þar nema og starfa eru aðrar en þær voru og hlutverk grunnskólans og skólasafnsins hafa sömuleiðis breyst. Í þessari grein fjalla ég stuttlega um niðurstöður rannsóknar sem ég gerði í lokaverkefni til MLIS-gráðu í bókasafnsog upplýsingafræði við Háskóla Íslands 2011 á skólasöfnum í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og samstarf bókasafnsog upplýsingafræðinga, fagaðila í tölvum og almennra kennara sem allir koma að kennslu í upplýsinga- og tæknimennt. Verkefnið var unnið undir handleiðslu dr. Ágústu Pálsdóttur. Hægt er að nálgast ritgerðina í heild sinni á skemman.is. Ástæður þess að ég valdi þetta efni í lokaverkefni mitt voru þær að á tuttugu ára kennsluferli hef ég oft verið í samstarfi við bókasafns- og upplýsingafræðinga skóla og séð hvaða möguleika öflugt starf í skólasöfnum getur haft. Ég hafði á þessum tíma séð að starfsemi þeirra hafði ekki alls staðar jafnmikið vægi og möguleikar skólasafna virtust sums staðar vannýttir. Samstarf bókasafns- og upplýsingafræðinga og annarra starfsmanna var stutt á veg komið í sumum skólum á

meðan það var lengra komið í öðrum og þar orðinn til vísir að þróaðri upplýsingaverum. Það vakti því áhuga minn að kanna hvað ylli því að árangur af slíku samstarfi innan sumra skóla var áberandi meiri en annarra. Hér á eftir skýri ég frá starfsemi skólasafna og samstarfi. Í öðru lagi geri ég grein fyrir aðferðafræðinni sem var notuð við rannsóknina. Í þriðja lagi fjalla ég um niðurstöður rannsóknarinnar í þremur köflum sem nefnast skólasafnið, aðkoma yfirvalda og skólastjórnenda og samstarf og samstarfsverkefni innan skólans. Í fjórða lagi kem ég með samantekt og umræður og síðan lokaorð. 1. Starfsemi skólasafna og samstarf Skólasöfnin þurfa að verða kraftmikil námsver þar sem bókasafns- og upplýsingafræðingurinn sér um að þróa nýjar námsleiðir. Starfsemi safnanna snýst ekki einungis um upplýsingalæsi heldur leiðsögn í að tileinka sér nýja hæfni til að öðlast þekkingu, skilning og sköpun í síbreytilegu tækniumhverfi. Þróun þeirra þarf að fylgja breytingum varðandi menntun á upplýsingaöld. Bókasafns- og upplýsingafræðingar hafa sérþekkingu og reynslu til að finna, meta og nota upplýsingar. Þeir hafa úrræðin, þekkja safnkost bókasafnsins og möguleika Internetsins og samfélagsins í heild. Án sérþekkingar þeirra geta kennarar aðeins að litlu leyti náð fram markmiðum í upplýsingalæsi sem gerð er krafa um á 21. öld (Kuhlthau, 2010). Kennarar verða að breyta aðferðum sínum til þess að nemendur öðlist hæfni, frumleika og getu til þess að skapa sér starfsvettvang í samfélaginu. Skólasöfnin geta komið þar að og tengst námsefninu, búið til verkefni sem krefjast þátttöku og frumkvæðis til að víkka tæknikunnáttu nemenda og grunnlestrarhæfni. Þau geta verið verkfærið sem gerir öllum nemendum jafn hátt undir höfði til að takast á við 21. öldina og geta lagt til gögn og upplýsingar sem læra má af (Martin, 2008). Samstarf kennara og bókasafnsog upplýsingafræðinga getur skapað það umhverfi sem nemendur þurfa til upplýsingaöflunar, þátttöku, sköpunar og náms í upplýsingaumhverfinu. (Kuhlthau, 2010). Þetta er

43


bókasafnið

36. árg. 2012

í samræmi við Stefnuyfirlýsingu UNESCO/IFLA um skólasöfn (2003). Þar segir að sýnt hafi verið fram á að nemendur nái betri tökum á læsi, lestri, námi, verkefnum sem og upplýsingaog samskiptatækni þegar bókasafns- og upplýsingafræðingar og kennarar vinna saman. Dr. Patricia Montiel-Overall hefur rannsakað samstarf kennara og bókasafns- og upplýsingafræðinga undanfarin ár. Fimm meginþemu komu fram og birtust sem nauðsynlegir þættir í árangursríku samstarfi. Þar má fyrst nefna skólamenningu, það umhverfi sem skólinn veitir og hvaða þættir skólastarfsins fá hvatningu. Í öðru lagi eru það jákvæðir eiginleikar og viðmót samstarfsaðilanna sem hafa áhrif á samstarfið og auðvelda það. Í þriðja lagi þurfa samskiptin að byggja á gagnkvæmu trausti. Í fjórða lagi er talað um stuðning og skipulagningu af hálfu skólastjórnenda varðandi skýr markmið, sveigjanleika í stundatöflu og skipulagningu samstarfstíma. Í fimmta lagi fundu þátttakendur hvatningu í því að sjá hvaða árangur samstarfið hafði á nemendurna. Það vakti athygli að þátttakendur gáfu í skyn að hægt væri að sigrast á tímaþættinum þrátt fyrir takmarkanir þegar samstarfið var mikils metið og spennandi. Þá kom fram að kennurum fannst helstu annmarkar varðandi samstarfið vera meðal annars litlar væntingar frá stjórnendum, lítið traust frá umhverfinu, of lítil viðurkenning á sérhæfingu fagaðila, ósveigjanlegar tímatöflur og skortur á faglegri þróun. Niðurstöðurnar sýndu einnig að aðaltilgangur samstarfs er að auka námsgæði fyrir nemendur (Montiel-Overall, 2008). Algengt er að kennarar hafi ekki enn öðlast skilning á nýju hlutverki bókasafns- og upplýsingafræðingsins sem samstarfsaðila í kennslunni og sjái þá enn í sínum gömlu hefðbundnu hlutverkum. Þeir hafi oft litla sem enga reynslu af samstarfi við þá (Montiel-Overall, 2010). Kennarar stæra sig oft af því að hafa ákveðið frelsi til kennslu og að þeir séu sérfróðir um sín málefni og hafi sjálfsforræði. Ef þeir stofna til samstarfs við bókasafns- og upplýsingafræðing gera þeir það vegna þess að þeir sjá að nálgun tveggja samstarfsaðila til kennslunnar er líklegri til árangurs. Samstarf kallar á gagnkvæmt traust og að báðir aðilar leggi eitthvað af mörkum. Bókasafns- og upplýsingafræðingar kvarta oft yfir því að kennarar skipuleggja ekki verkefni fram í tímann þannig að skólasafnið geti komið að raunverulegu gagni. Eins álíta margir kennarar að bókasafns- og upplýsingafræðingar hafi lítinn áhuga á því sem gerist í skólastofunni. Slíkar ályktanir eru algengar og leiða oftast til lítt notaðra skólasafna, vannýtts safnkosts, misnotaðrar tækni og skorts á gagnkvæmu trausti. Góðir hlutir gerast ekki sjálfkrafa. Báðir aðilar þurfa að vinna í að skipuleggja tímann og nýta tækifærin til að meta árangur allra sameiginlegra verkefna (Loertscher,1988). Bandarísk könnun á stuðningi skólastjóra við samstarf kennara og bókasafns- og upplýsingafræðinga leiddi í ljós að góðir skólastjórnendur leiðbeina kennurum varðandi hlutverk þeirra en þrátt fyrir hæfni kemur fyrir að þeir gera sér ekki grein fyrir þeim stuðningi sem nauðsynlegur er samstarfi af þessum toga. Forysta skólastjórans er nauðsynleg og það er á hans ábyrgð að fylgja því eftir að það sé framkvæmt.

44

Góð samskipti og hagstætt vinnuumhverfi þar sem traust og gagnkvæm virðing ræður ríkjum tryggja árangur samstarfsins. Skólastjóri sem sér til þess að þessir tveir þættir fyrirfinnist innan skólans er líklegur til að uppskera blómlegt samstarf. Einnig eru meiri líkur á góðu samstarfi þegar skólastjóri spyr bekkjarkennara hvernig þeir nýti sér sérfræðikunnáttu bókasafns- og upplýsingafræðings við kennsluna (Morris og Packard, 2007). Á tímum erfiðra ákvarðana varðandi fjármál og þar sem allt er metið og mælt sýna bandarískar kannanir að vel útbúið bókasafn sem er mannað vel menntuðum bókasafns- og upplýsingafræðingum gefur mun hærri einkunnir í stöðluðum prófum. Eins og víðar hafa skólasöfn og starfsmenn sætt niðurskurði. Skortur á nýjum safnkosti svo sem tölvum og bókum háir skólasöfnum og starfi þeirra sem og skilningur á arðsemi þeirra (Martin, 2008). 2. Rannsóknaraðferðir, þátttakendur og gagnaöflun Markmið rannsóknarinnar var að skoða hlutverk skólasafnsins í upplýsingasamfélaginu og hvernig það tengist inn í skólastarfið. Rannsókninni er ætlað að sýna hvernig ný tækni og upplýsingaaðgengi nýtist bókasafns- og upplýsingafræðingum, fagaðilum í tölvum og almennum kennurum við kennslu í upplýsinga- og tæknimennt í gegnum samvinnu þeirra. Ennfremur hvort samvinnan gæti verið rétta leiðin við undirbúning og þjálfun nemenda fyrir nám og starf í framtíðinni, eflingu skólastarfsins innan frá, nýtingu mannauðs, tækja og fjármuna skólans. Rannsóknin byggir á eigindlegum rannsóknaraðferðum með opnum viðtölum þar sem litið er á fólk og aðstæður sem eina heild og sjónarhorn allra eru jafn mikilvæg. Við greiningu gagna var beitt aðferð sem kallast opin kóðun og felur í sér að safna saman og rannsaka öll gögn sem hafa þýðingu fyrir meginþemu, það er draga fram helstu efnisþætti og undirflokka sem skipta máli (Taylor og Bogdan, 1998). Tekin voru níu opin einstaklingsviðtöl til að fá heildstæðan og djúpan skilning á viðhorfi hvers viðmælanda fyrir sig á rannsóknarefninu. Markvisst úrtak var notað við val á viðmælendum í rannsókninni og þurftu viðmælendur að uppfylla ákveðin skilyrði (Ritchie, Lewis og Elam, 2003). Í rannsókninni leitaði ég eftir fagmenntuðu fólki, það er bókasafns- og upplýsingafræðingi og einstaklingi með menntun í tölvu- og upplýsingatækni eða ákveðna sérhæfingu á því sviði og almennum kennara. Einnig gerði ég þær kröfur að þeir hefðu samstarf sín á milli og störfuðu í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þrjú viðtalanna voru við yfirmenn skólasafna, þrjú við fagaðila í tölvum og þrjú við almenna kennara. Allir viðmælendurnir voru konur sem koma að kennslu í upplýsinga- og tæknimennt í skólunum. Þar sem þeim var heitið fullum trúnaði voru þeim gefin dulnefni sem og skólunum sem þær starfa við. Í Bugðuskóla ræddi ég við þær Jóhönnu Elíasdóttur, bókasafns- og upplýsingafræðing, Þórdísi Önnu Káradóttur, kennsluráðgjafa í tölvum, og Unni Stefánsdóttur, kennara. Í Flugumýrarskóla ræddi ég við Svövu Tryggvadóttur, deildarstjóra, en hún hefur framhaldsmenntun á sviði


bókasafnið skólasafna, auk þess Guðrúnu Kristjánsdóttur, deildarstjóra í tölvum, og loks Kristínu Eddu Júlíusdóttur, kennara. Í Tunguskóla ræddi ég við Erlu Ósk Helgadóttur, bókasafnsog upplýsingafræðing, Vigdísi Jónsdóttur, kennsluráðgjafa í tölvum, og Þórhildi Atladóttur, kennara. Konurnar höfðu allar starfsreynslu í viðkomandi starfi en mislanga þó. Þar sem rannsóknin var eigindleg er ekki hægt að alhæfa um niðurstöður hennar. Enginn skólanna þriggja sem rannsóknin nær til er heildstæður. Bugðuskóli er tæplega 300 nemenda skóli fyrir nemendur í 1. til 7. bekk. Flugumýrarskóli er einnig tæplega 300 nemenda skóli fyrir nemendur í 7. til 10. bekk. Tunguskóli er rúmlega 400 nemenda skóli fyrir nemendur í 1. til 7. bekk. Það er nauðsynlegt að hafa þennan mun á skólum í huga þegar niðurstöður rannsóknar eru lesnar því starfsemi skólanna er ekki alveg sambærileg. Öflun rannsóknargagna hófst í lok ágúst 2010 og lauk 31. janúar 2011. Því næst tók við greining gagnanna og þá komu í ljós þrjú meginþemu sem skiptust síðan í nokkur undirþemu. Hér verður einungis fjallað um meginþemun. Fyrsta meginþemað nefnist skólasafnið. Annað meginþemað er aðkoma yfirvalda og skólastjórnenda. Þriðja og síðasta meginþemað heitir samstarf og samstarfsverkefni innan skólans. 3. Skólasafnið Ef starfsemi allra þriggja safnanna er borin saman þá sést að í Bugðu- og Flugumýrarskóla er starfað á líkan hátt og þar er mikið samstarf á milli bókasafns- og upplýsingafræðings, fagaðila í tölvum og kennara. Þeir líta á sig sem samstarfsteymi og skipuleggja starfsemina saman. Þeir sinna hver sínu fagsviði en saman leiðbeina þeir nemendum í upplýsingaog tæknimennt, standa fyrir og taka þátt í stórum og smáum verkefnum sem oft eru þvert á námsgreinar. Þá veita þeir samstarfsmönnum sínum faglega ráðgjöf hver á sínu sviði. Í Flugumýrarskóla hafa safnið og annað tölvuver skólans verið sameinuð og gerð að upplýsingamiðstöð skólans. Þar er upplýsinga- og tæknimenntin undir sama hatti. Í Bugðuskóla hefur slík sameining ekki átt sér stað en þrátt fyrir það stendur safnið engu að síður undir nafni og er upplýsinga- og menningarmiðstöð skólans. Gott aðgengi er að tölvum og þar á sér stað náið samstarf milli fagaðila í tölvum og kennara án þess að það tengist þeirri kennslu sem fram fer í tölvuverum. Fyrir utan þessi samstarfsverkefni fara kennarar með bekkina sína í tölvuver og sinna þar tölvukennslu sem sérfagi í samstarfi við fagaðila í tölvum sem tengist yfirleitt ekki verkefnum skólasafnsins. Samskonar kennsla í tölvuverum á sér stað í Tunguskóla. Hins vegar sker starfsemi skólasafns Tunguskóla sig frá hinum söfnunum tveimur að því leyti að þar er ekki komin mikil hefð fyrir samstarfi þessara þriggja aðila. Þar er Erla Ósk bókasafns- og upplýsingafræðingur tiltölulega ný í starfi og hefur verið að koma á breytingum og móta starfsemi safnsins. Líkt og í Bugðuskóla hafa safn og tölvuver ekki verið sameinuð en húsnæðið býður upp á möguleika á samgangi sem ekki hefur verið nýttur. Almenn ánægja var með störf fagaðila í tölvum, þjónustu þeirra og stuðning. Mikilvægi þeirra og bókasafns- og

36. árg. 2012

upplýsingafræðinganna er ótvírætt og kennarar treysta á ráðgjöf þeirra og þjónustu. Þeir gera kennurum kleift að ráðast í viðamikil verkefni og ættu að veita allan þann stuðning sem hægt er til að bæta námsárangur nemenda. Það kemur einnig fram að bókasafns- og upplýsingafræðingar hafa áhyggjur af stöðu og framtíð skólasafna þar sem hún er ekki lengur tryggð í lögum um grunnskóla (nr. 91/2008). Einnig var komið inn á aðstæður sem skapast á samdráttartímum. Söfn skólanna þriggja hafa orðið fyrir niðurskurði með ýmsum hætti, til dæmis með skerðingu starfshlutfalla sem skapar hættu á að sérþekking hverfi. Þá hafa fjárframlög til eflingar safnkosts og tækjakaupa dregist saman. 4. Aðkoma yfirvalda og skólastjórnenda Aðkoma yfirvalda og skólastjórnenda er lykilatriði fyrir tilveru skólasafna og hlutverk þeirra. Viðmælendurnir nefndu bæði jákvæð og neikvæð atriði er snerta skólasöfn og upplýsingaog tæknimennt í grunnskólum. Stefnumörkun hvað varðar framkvæmd kennslu og samstarfs innan skólans er mikilvæg og einnig endurmenntunarmöguleikar starfsfólks er málin varða. Viðmælendur mínir nefndu flestir lögin um grunnskóla (nr. 91/2008) og námskrár menntamálaráðuneytisins (2006 og 2007) sem sneru beint að þeirra sérsviði. Bókasafns- og upplýsingafræðingarnir nefndu allir lögin um grunnskólann og stöðu skólasafna í þeim. Þrátt fyrir að ákvæðið um skólasöfn væri ekki lengur í lögunum væri upplýsinga- og tæknimennt þar enn til staðar sem sérstakt námssvið sem Aðalnámskrá grunnskóla legði línur fyrir. Fagaðilar í tölvum ræddu stöðu upplýsinga- og tæknimenntar út frá aðalnámskránni og kennslutilhögun hennar. Hjá þeim kom einnig fram að við skipulagningu verkefna væri aðalnámskráin höfð til grundvallar. Í Bugðu- og Flugumýrarskóla er upplýsinga- og tæknimenntin skipulögð þvert á námsgreinar. Í Tunguskóla kom það álit fram að betur megi gera í upplýsingamennt, henni þurfi að sinna markvissar eins og tölvukennslunni. Þar er upplýsinga- og tæknimenntin samtvinnuð námsefninu þótt markmið fyrir þau séu í sitt hvoru lagi í námskránni. Skólarnir þrír hafa það markmið að allir nemendur fái ákveðna þjálfun í tölvufærni en í Flugumýrarskóla á það líka við um upplýsingamenntina. Það var álit eins viðmælanda að skólasamfélagið verði að ákveða tilhögun kennslu í upplýsinga- og tæknimennt svo það samræmist námskrá. Í Tungu- og Bugðuskóla er komin ákveðin stefna fyrir tæknimenntina. Stjórnendur skólanna þriggja styðja vel við sín skólasöfn þótt greina megi þar áherslumun því í Tunguskóla er bókasafns- og upplýsingafræðingur aðeins í hlutastarfi. Allir viðmælendur voru sammála um jákvætt viðhorf skólastjórnenda til skólasafna og vilja þeirra til að viðhalda og verja starfsemi þeirra í erfiðum efnahagsaðstæðum. Þeir gera sér grein fyrir mikilvægi þeirra í kennslunni og þeim tækifærum sem þar felast. Í Bugðu- og Flugumýrarskóla sýna þeir samstarfsverkefnum áhuga og hvetja til þeirra en í

45


bókasafnið

36. árg. 2012

Tunguskóla hefur áhugi stjórnenda enn sem komið er meira beinst að útlánum en breytingar eru í vændum. Sveigjanleiki í starfsemi skólans er lykilatriði þegar kemur að skipulagningu skólasafnsins. Stjórnendur þurfa að skapa svigrúm fyrir samstarf og verkefnavinnu þegar stundatöflur starfsmanna og nemenda eru skipulagðar. Þá þurfa starfsmenn einnig að sýna sveigjanleika til að samstarf gangi upp. Sameining skólasafns og tölvuvers og fullt starf bókasafns- og upplýsingafræðings og fagaðila í tölvum skapa kjöraðstæður fyrir samstarf og aukna verkefnavinnu. Aðstaða og búnaður skólasafns ræður afar miklu þegar starfsemi skólasafns er skipulögð. Þættir eins og staðsetning, stærð húsnæðis, mannafli, bókakostur, tölvur og annar tæknibúnaður skipta máli. Viðmælendur voru allt frá því að vera mjög ánægðir með safnið sitt niður í það að vera þokkalega ánægðir. Bókakostur og tækjabúnaður safnanna var yfirhöfuð góður en fer að þarfnast endurnýjunar. Það voru helst húsnæðismál og mannafli sem þurfti að bæta. 5. Samstarf og samstarfsverkefni innan skólans Samstarf bókasafns- og upplýsingafræðings, fagaðila í tölvum og kennara byggist á samstarfsvilja, svipaðri sýn á skólastarfið og stuðningi stjórnenda. Grundvöllur þess er háður vilja stjórnenda, starfshlutfalli, samstarfsvilja og þjónustulund. Ekki er víst að þessir þættir séu ávallt til staðar. Í Bugðu- og Flugumýrarskóla er öflugt samstarf við kennara og verkefnin skipulögð á sameiginlegum fundum. Tekið er mið af námskrá upplýsinga- og tæknimenntar og hún samþætt öðrum námsgreinum. Frumkvæði og hugmyndir koma oft frá bókasafns- og upplýsingafræðingum og fagaðilum í tölvum en lokaniðurstaða fæst með aðkomu kennara. Þó fá kennarar stundum fullmótaðar verkefnislýsingar. Í Tunguskóla er samstarfið skemur á veg komið. Þar kemur frumkvæði að samstarfsverkefnum frá fagaðila í tölvum. Samstarfið hefur þróast í tengslum við Evrópuverkefni og eru bundnar vonir við að kennarar sjái sér áframhaldandi hag í því. Í öllum skólunum er lögð áhersla á upplýsingaöflun og tölvufærni og það ríkir ánægja með samstarfið. Þá kemur fram að viðamikil verkefni væru vart gerleg nema með aðstoð frá bókasafnsog upplýsingafræðingi og fagaðila í tölvum við undirbúning, framkvæmd og framsetningu. Hver samstarfsaðili gegnir ákveðnu hlutverki. Í Bugðuog Flugumýrarskóla er verkaskipting milli fagaðila skýr hvað varðar upphaf, undirbúning og úrvinnslu og komin er reynsla á hana. Í Tunguskóla tengist hún sérsviðum fagaðila. Bókasafns- og upplýsingafræðingurinn leiðbeinir nemendum við upplýsingaöflun, mat á heimildum og skráningu þeirra. Fagaðilinn í tölvum leiðbeinir nemendum með forrit og úrvinnslu verkefna. Kennarinn sér um kennsluna og sinnir agamálum. Oft er nemendahópnum skipt upp á milli kennara og bókasafns- og upplýsingafræðings og hvor aðili sinnir ákveðnum verkefnum með sínum hópum. Sérstakar aðstæður þurfa að vera til staðar í skólum og skólasöfnum svo samstarf af þessum toga geti átt sér stað. Fram kemur að það þurfi bæði bókasafns- og upplýsingafræðing og fagaðila

46

í tölvum í tvær heilar stöður eigi slíkt samstarf að vera gerlegt. Þær ástæður sem eru nefndar fyrir samstarfi eru áhugi, svipuð sýn á skólastarfið og ákveðin framtíðarsýn ásamt viðhorfi og vilja til breytinga og löngun til að nýta mannaflann og þekkingu starfsfólksins. Loks eru tölvurnar nefndar sem áhrifavaldur og svipaður bakgrunnur hvað varðar nám og reynslu samstarfsaðila. Allir viðmælendurnir voru sammála um ótvíræðan ávinning af samstarfi þeirra í skólunum, bæði fyrir starfsmenn og nemendur. Þeir sáu gróskumikið skólastarf, breytta kennsluhætti og fjölbreyttari úrvinnslu námsefnis. Nemendur urðu hæfari og lærðu að búa til vefsíður, glærukynningar, framkvæma upplýsingaleit og ganga frá heimildum. Þá öðluðust þeir öryggi og lærðu sjálfstæð vinnubrögð. Samstarfið létti undir með kennurum og nemendur fengu betri aðgang að fagmönnum, bókakosti og tölvum. 6. Samantekt og umræður Í þeim skólum sem rannsakaðir voru hefur hlutverk skólasafna verið að breytast. Það er í samræmi við það sem Kuhlthau (2010) nefnir í sinni grein en þar kemur fram að þróun skólasafna þurfi að fylgja breytingum varðandi menntun á upplýsingaöld. Rannsókn mín leiðir í ljós að hefðbundin útlánastarfsemi bókakosts er ekki lengur aðalatriðið en í staðinn hefur upplýsingaöflun, verkefnavinna og samstarf við kennara og fagaðila í tölvum að sama skapi aukist. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að tilurð samstarfs af þessum toga er algjörlega undir starfsmönnum skólans og skólastjórnendum komið, þar sem skólar hafa jafnan ekki markað stefnu um slíkt samstarf. Í grein Morris og Packard (2007) staðfestu niðurstöður könnunar þeirra að góður árangur af samstarfi tengdist stuðningi skólastjórnenda og eftirfylgni þeirra við framkvæmd þess. Viðmælendur mínir töldu að skólastjórnendur þyrftu að skapa rammann utan um starf hvers skóla og jafnframt sýna ákveðinn sveigjanleika varðandi bindingu vinnutíma og stundaskrárgerð til að skapa svigrúm fyrir samstarf og verkefnavinnu. Í áðurnefndri rannsókn Montiel-Overall (2008) komu fram fimm meginþemu til árangursríks samstafs. Þau samræmast skoðunum viðmælenda minna um jákvætt viðhorf, stuðning og vilja stjórnenda til að viðhalda starfsemi safnanna. Sá stuðningur er enn mikilvægari í efnahagsþrengingum. Í Bandaríkjunum hafa skólasöfn einnig sætt fjárhagslegum niðurskurði. Enn verri er sá skortur á skilningi hjá kennurum, skólastjórnendum og foreldrum á því hversu arðbært gott skólasafn getur verið sé það metið í námsárangri nemenda (Martin, 2008). Þetta kemur heim og saman við mína rannsókn. Skólastjórnendur þurfa að gera sér grein fyrir mikilvægi safnanna og þeim tækifærum sem í þeim felast. Mikilvægt er að bókasafns- og upplýsingafræðingur og fagaðili í tölvum séu í fullu starfi. Þá þurfa skólastjórnendur að sýna samstarfsverkefnum áhuga og hvetja til þeirra. Starfsmennirnir verða að hafa samstarfsáhuga, svipaða sýn á skólastarfið og sýna sveigjanleika innan vinnutímans til þess


bókasafnið að samstarfið gangi upp. Þeir verða að sjá samstarfið sem hluta af stefnumótun skólans og tilgangur þess og árangur verður að vera ljós. Starfsmenn safnanna verða að geta sýnt frumkvæði, vera tilbúnir til að leiða samstarfið og vera virkir í því. Montiel-Overall (2010) segir algengt að kennarar hafi ekki skilning á nýju hlutverki bókasafns- og upplýsingafræðings í kennslunni. Í mínum niðurstöðum kemur fram að til þess að svona samstarf geti orðið þurfi kennarar að sjá möguleikana sem samstarf við sérmenntaðan bókasafns- og upplýsingafræðing og fagaðila með menntun á sviði tölvuog upplýsingatækni býður upp á. Hvatinn að slíku samstarfi kemur af áhuga starfsmanna með svipuð viðhorf, menntun og framtíðarsýn auk vilja til breytinga. Þá spilar einnig inn í vilji til að nýta betur þann mannafla sem fyrir er í skólanum og þekkingu hans. Sú breyting sem tölvubyltingin hafði í för með sér og þeir möguleikar sem þá opnuðust hafa orðið sumum hvatning til að nýta tæknina í verkefnavinnu nemenda og til samstarfs. Loertscher (1988) heldur fram að það sé sama hve góður kennari telur sig vera þá geti hann ávallt bætt sig. Með samstarfi við bókasafns- og upplýsingafræðing verði árangur kennslunnar meiri því tveir saman séu þeir sterkari. Þetta sama sjónarmið kom fram í rannsókn minni. Það er því mikilvægt að í skólanum sé til staðar bókasafns- og upplýsingafræðingur og fagmaður á tölvusviði auk kennara því saman geta þeir allir lagt til sérfræðiþekkingu til samstarfs- og verkefnavinnu og veitt nemendum ítarlegri leiðsögn og stuðning. Þannig verða til teymi fólks með víðtækari reynslu og sérfræðiþekkingu innan veggja skólans. Kuhlthau (2010) nefnir að bókasafnsog upplýsingafræðingar séu frumkvöðlar og geri nemendum kleift að læra í gegnum fjölbreytt úrræði hluti sem kennarar ráða ekki við einir. Stefnuyfirlýsing UNESCO/IFLA um skólasöfn (2003) heldur fram að nemendur nái betri tökum á námi þar sem samvinna þessara aðila á sér stað. Góður árangur af samstarfi af þeim toga sem hér er til umræðu er ótvíræð niðurstaða rannsóknarinnar, bæði fyrir starfsmenn og nemendur. Einnig kemur fram að árangurinn ýtir undir frekari löngun til áframhaldandi samstarfs. Starfsmenn njóta góðs af því að fleiri koma að skipulagningu og úrvinnslu verkefna sem geta orðið viðameiri þar sem vinnan dreifist á fleiri. Að sama skapi njóta nemendur þess að verkefnin verða fjölbreyttari og þeir fá meiri þjónustu og leiðsögn frá fleirum. Þetta eykur öryggi þeirra til sjálfstæðari vinnubragða. Ann M. Martin fyrrum forseti félags skólasafnsfræðinga í Bandaríkjunum hefur einmitt hvatt til þess að kennarar breyti starfsaðferðum sínum og nýti sér samstarfið við skólasafnið til þess að nemendur öðlist færni, getu og frumleika sem auðveldi þeim að finna sér starfsvettvang í okkar nútíma samfélagi (2008). Fjölbreytni í kennsluháttum og tilbreyting í skólastarfi veitir nemendum þjálfun í að vinna með tölvur og forrit í hagnýtum verkefnum sem nýtast þeim einnig í þeirra daglega lífi og til framtíðar. Til að tryggja innleiðingu samstarfs af þessum toga væri vafalaust best að tilskipun þess efnis kæmi frá yfirvöldum

36. árg. 2012

menntamála, bæjaryfirvöldum eða skólastjórnendum. Þá þarf einnig að taka af öll tvímæli um hlutverk og stöðu skólasafna innan skólasamfélagsins og tryggja þeim þar sess þannig að þau séu viðurkenndur aðili í skólastarfinu. Einnig þarf að mæla svo fyrir að menntaður bókasafns- og upplýsingafræðingur sé þar í forsvari. Skólastjórnendur væru þá bundnir af þessum reglum og um leið væri mismunun milli skóla úr sögunni. 7. Lokaorð Rannsókn mín er lítil í sniðum og því er vafasamt að alhæfa um of út frá niðurstöðum hennar. Þær eru þó að mörgu leyti samhljóma niðurstöðum úr erlendum rannsóknum um þetta efni. Niðurstöður úr rannsókninni sýna að samstarfið byggir á frumkvæði og vilja starfsmanna og stuðningi skólastjórnenda. Þær kalla eftir skýrari stefnumörkun frá yfirvöldum menntamála, bæjarfélaga og skólanna sjálfra til að tryggja tilvist og framgang skólasafna. Yfirvöld og skólastjórnendur þurfa að gera sér grein fyrir mikilvægi safnanna og tækifærum sem þar felast og að menntaðir fagaðilar hafi umsjón með þeim. Samstarf bókasafns- og upplýsingafræðinga, fagaðila í tölvum og kennara er nauðsynlegt til að tryggja aðkomu upplýsinga- og tæknimenntar að öllum námsgreinum. Það býður upp á betri þjónustu við nemendur, fjölbreyttari kennsluhætti og ítarlegri leiðsögn sérfræðinga á öllum sviðum. Þetta leiðir til betri námsárangurs, ánægðari nemenda og starfsmanna og kemur heim og saman við niðurstöður fyrrnefndra rannsókna. Allar vegferðir byrja á einu skrefi og síðan feta menn sig áfram að markmiðinu. Það er hins vegar framtíðarverkefni að breiða þennan boðskap út til fleiri skóla og verði niðurstaðan sú sama má ef til vill gera ráð fyrir að hægt verði að tryggja víðtækt samstarf fagaðila í sessi í gegnum aðalnámskrá og lög um grunnskóla.

Abstract Is will all that is needed? The school library and cooperation between librarians, computer specialists and teachers This study addresses school libraries in elementary schools in the Greater Reykjavík area and cooperation between librarians, computer specialists and teachers who all teach information communications technology. The purpose was to find out why the result of such cooperation differed, what it contributed to the schools and how such cooperation can best be applied into the schoolwork. The survey took place in late 2010 and early 2011. The research method was qualitative and data was acquired by open interviews with nine individuals. The results indicate that this kind of cooperation depends on the will and initiative of school personnel and administrators. The authorities need to support the existence of school libraries. Schools need to lay down certain rules on how the policy can be implemented and how the librarian can be intergrated into all subjects. Foreign research supports

47


bókasafnið

36. árg. 2012

that the achievements of such cooperation is substantial for the students, personnel and the school as a whole. It ensures more diverse teaching methods, more specialized service for the students, better use of personnel, library assets and facilities.

Menntamálaráðuneytið. (2007). Aðalnámskrá grunnskóla – Upplýsinga- og tæknimennt. Sótt 1. febrúar 2011 af http://www. menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar//nr/3953. Montiel-Overall, P. (2008). Teacher and Librarian Collaboration: A qualitative study. Library & Information Science Research. 30(2), 145–155. Montiel-Overall, P. (2010). Further Understanding of Collaboration: A case study of how it works with teachers and librarians. School Libraries

Heimildir

Worldwide. 16(2), 31–54. Sótt 10. febrúar 2011 af http://findarticles.

Kuhlthau, C. (2010). Guided Inquiry: School libraries in the 21

st

century. School Libraries Worldwide, 16(1), 17–28. Sótt 10. febrúar 2011 af

com/p/articles/mi_7728/is_201007/ai_n56445216/?tag=content;col1. Morris, B. J. og Packard, A. (2007). The Principal´s Support of

http://comminfo.rutgers.edu/~kuhlthau/docs/GI-School-Librarians-in-

Classroom Teacher-Media Specialist Collaboration. School Libraries

the-21-Century.pdf.

Worldwide. 13(1), 36–55. Sótt 10. febrúar 2011 af http://findarticles.

Loertscher, D. V. (1988). Taxonomies of the School Library Media Program. Englewood, Colorado: Libraries unlimited, INC. Lög um grunnskóla nr. 91/2008. Sótt 1. febrúar 2011 af http://www. althingi.is/lagas/135b/2008091.html. Martin, A. M. (2008). School Libraries Renewed: Library media specialists connect curriculum and technology to real-world skills. District Administration. Sótt 10. febrúar 2011 af http://www. districtadministration.com/viewarticle.aspx?articleid=1726. Menntamálaráðuneytið. (2006). Aðalnámskrá grunnskóla – Almennur hluti. Sótt 1. febrúar 2011 af http://www.menntamalaraduneyti.is/

com/p/articles/mi_7728/is_200701/ai_n32230961/?tag=content;col1. Ritchie, J., Lewis, J. og Elam, G. (2003). Designing and Selecting Samples. Kafli 4 í J. Ritchie og Lewis, J. (ritstj.), Qualitative Research Practice: A guide for social science students and researchers (3. útgáfa) (bls. 77–108). London: SAGE Publications. Stefnuyfirlýsing UNESCO/IFLA um skólasöfn. (2003). (Þórdís T. Þórarinsdóttir þýddi). Bókasafnið, 27, 72–73. Taylor, S. J. og Bogdan, R. (1998). Introduction to Qualitative Research Methods: A guidebook and resource (3. útgáfa). New York: John Wiley & Sons, Inc.

utgefid-efni/namskrar//nr/3953.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

http://www.facebook.com/pages/Reykjavik-Iceland/Landsbokasafn-IslandsHaskolabokasafn/49834298059

Handritasafn

http://www.facebook.com/pages/Reykjavik-Iceland/Handritadeild-Landsbokasafns-IslandsHaskolabokasafns/358872531088

Tón- og myndsafn

http://www.myspace.com/ton_og_myndsafn

Arnar Óðinn Arnþórsson

Til frænda Sæll vertu frændi og velkominn heim víst ertu fagur að sjá. Sælt þig að líta með augun svo hrein áður en ferð þú á stjá.

48

Veldu hvert spor þitt og vandaðu leið veginn um daga sem nætur. Vertu án ótta þó dimmi á heið verndarar hafa á þér gætur. Faðir og móðir og agnarsmá hönd fjallstinda háa þið klífið. Far þú í friði um höf bæði og lönd í ferðina löngu um lífið.


EX LIBRIS „Hver sá er stelur þessari bók lokar hliðum Himnaríkis“

Sindri Freysson

Eigendur fágætra handrita og bóka hafa frá örófi alda gætt þeirra sem sjáaldurs augna sinna. Það sætir því engri furðu að snemma hafi menn reynt að merkja sér þessi djásn, og má nefna að í virtum söfnum á borð við British Museum, Louvre og Yale University Gallery er að finna smágerðar glerungshúðaðar plötur af egypskum uppruna, frá því um 1400 fyrir Krist, sem festar voru við papírushandrit, og er ritað á þær að þær tilheyri bókasafni faraóans Amenhóteps III. Segja má að um sé að ræða elstu bókamerki sögunnar, eða Ex libris. Allar götur síðan eru þekkt dæmi um að höfðingjar hafi látið mála skjaldarmerki sín inn í dýrmæt handrit í von um að fyrirbyggja þjófnað. Upphaf bókamerkja í nútímaskilningi má hins vegar rekja til fyrri hluta fram að miðbiki 15. aldar, og hefur tímabilið 14401450 verið nefnt í því sambandi. Er þá horft til þess að um það leyti litu dagsins ljós nokkur bókamerki í norðanverðri Evrópu, sum handmáluð en önnur skorin í tré. Í síðarnefnda flokkinn fellur elsta bókamerkið sem vitað er um, merki Þjóðverjans Johannesar Knabensberg, einkaprests Schönstett-ættarinnar. Knabensberg var kallaður Igler, sem þýðir broddgöltur á þýsku, og lét hann gera sér bókamerki er sýnir broddgölt í lágu grasi og þar fyrir ofan er áletrun: „Hans Igler að broddgölturinn megi kyssa þig.“ Má að líkindum lesa úr þessu einhverja hótun til handa fingralöngum, enda broddarnir hvassir. Er bókamerkið talið frá því um 1450. Aðrir telja að eitt fyrsta bókamerkið hafi tilheyrt munkinum Hildibrandi (eða Hilprand) Brandenburg, kenndum við

Biberach, sem gaf klaustri karþúsareglunnar í Buxheim í Bæjaralandi bókasafn sitt og þar á á meðal bókamerki, skorin í tré og handmáluð eftir þrykkingu, er talin eru frá 14701480. Bókamerki Brandenburgs er af ætt skjaldarmerkja. Meðfylgjandi var ritað eigin hendi staðfesting þess að hann gæfi bókasafninu bækurnar og bað hann lesandann um að biðja fyrir sálu hans og þeim sem stóluðu á hann. Einnig má nefna bókamerki eignað Wilhelm von Zell frá svipuðum tíma, og merki eignuð kirkjunnar manni að nafni Jakob Hainrichmann, en það er handmáluð tréstunga með stöfunum S.M.C, eða Spes Mea Christus; Von mín Kristur. Af þessum dæmum má sjá að lítill vafi leikur á að ex libris-merki eigi rætur að rekja til Þýskalands. Gutenberg hóf tilraunir með laust prentletur á fjórða áratug 15. aldar og á árunum 1455-1456 varð fyrsta Gutenbergbiblían að veruleika, kölluð svo þótt hún væri tæknilega séð úr smiðju lánadrottins Gutenbergs, Johanns Fust að nafni, og leturhönnuðar hans, Peters Schoeffer. Eftir það fór prentverk eins og eldur í sinu um lönd Evrópu með tilheyrandi fjölgun bókverka. Eigendur sístækkandi bókasafna vildu að vonum sýna eignarrétt sinn á verkunum og þar eð óheyrilegur kostnaður var samfara því að láta handmála ex libris merki inn í hvert eintak, var gripið til þess ráðs að fá listamenn til að rista mynd – oftast skjaldarmerki ættarinnar – á málmeða tréplötu til þrykkingar. Þessi myndmót voru síðan þrykkt á bækur og handrit. Notkun bókamerkja fékk byr undir báða vængi þegar lærisveinn Michail Wohgemut (er gerði sjálfur nokkur merki), hinn hæfileikaríki listamaður Albrecht Dürer (1471-1528), útbjó tréskurðamyndir í þessu skyni, alls um tuttugu talsins. Má segja að Dürer hafi lagt línuna fyrir þróunina í þessum efnum alla tíð síðan. Auk hans má nefna hóp listamanna er gjarnan var nefndur „Kleinmeistern“, eða litlu meistararnir, vegna smæðar verka þeirra. Eldri aðferðir voru hins vegar seinlegar og kostnaðarsamar og síðar meir, eða á 18. öld, urðu koparstungur allsráðandi og svokallaðar raderingar, en með aukinni tækniþróun margvíslegar aðrar aðferðir, svo sem grafík, steinþrykk og prentun og fleiri. Með

49


bókasafnið

36. árg. 2012

nútímatækni, tölvum og myndaskannerum, er hægðarleikur að búa til bókamerki. Ef litið er út fyrir Evrópu má þess geta að í Japan komu bókamerki (zosho-in) fram um líkt leyti og í Evrópu, og er eitt þeirra alfyrstu úr smiðju Daigoji-hofsins frá um 1470, en þar er ritað: „Hver sá er stelur þessari bók lokar hliðum Himnaríkis, og hver sá sem fargar henni opnar hlið Helvítis. Hver sá er tekur þessa bók ófrjálsri hendi verður refsað af öllum guðum Japans.“ Ex libris að vestrænni fyrirmynd urðu síðan allsráðandi hjá bókasöfnurum í Japan og Kína á sjöunda áratug 19. aldar og eru enn víða notuð. Ex libris er latína og þýðir„úr bókasafni“. Venjan er sú að nafn eiganda standi á merkinu til að sýna hver eigandinn er og nær undantekningalaust er á því smágerð mynd, skjaldarmerki eða áletrun. Síðan er merkið límt inn í bókina, venjulega innan fremra bókspjalds á innbundnum bókum, gjarnan rétt ofan við miðju. Þó er það ekki einhlítt. Sumir líma það á fremra titilblað eða ofan á það. Ekki þykir hins vegar góður siður að festa merkið á fyrstu blaðsíðu bókar. En nú segja þeir efagjörnu: hver er munurinn á stimpli og bókamerki? Það er torvelt um margt að skilgreina. Einkum er torvelt að skilgreina hvort um bókamerki eða stimpil sé að ræða þegar stimplað er á límpappír sem síðan er límdur inn í bók. Dæmi eru til þess að menn hafa þrýst með brennimerkjajárni sínu á stimpilpúða, og síðan á titilsíðu bókar, eða þá á límpappír, síðan límt hann inn í bókina. Önnur dæmi eru um að keyptur er pakki með stöðluðum bókamerkjum, mörgum vel skreyttum, í næstu ritfangaverslun. Stöðluð merki eru jafnað áprentuð með eyðu fyrir nafn. Á flestum stendur „ex libris“ en á öðrum „þessi bók tilheyrir“ eða „úr bókum“ eða „á þessa bók“. Bókareigandi prentar svo nafn sitt í eyðuna. Aðrir láta gylla nafn sitt þar en aðrir vélrita eða skrifa nafn sitt á „bókamerkið“. Ef haft er fyrir því að vélrita, prenta eða gylla á stöðluð ex libris-merki, sem keypt eru tilbúin í ritfangaverslun, verður að teljast eðlilegt að flokka þau með í skráningu bókamerkja en hafna venjulegum stimplum eða afþrykktu kennimarki. Hér verður einnig að nefna svokölluð supralibros eða super-exlibris öðru nafni, en um er að ræða smáristar myndir, oftast skjaldarmerki með gyllingu, sem þrykkt var á band bókar að utanverðu. Supralibros-merki voru algengari í suðurhluta Evrópu en í Þýskalandi, Sviss og öðrum löndum Norður-Evrópu að Englandi undanskildu, og hefur því jafnvel verið haldið fram að þau hafi hamlað útbreiðslu ex librismerkja í löndum á borð við Frakkland, Ítalíu og Spán. Torvelt er hins vegar að setja supralibros-merki á annað efni en gott leðurbókband og þarf helst að nota blaðgull, nema ef um blindstimplun (án gyllingar) sé að ræða, þannig að kostnaður við þessa aðferð var og er mikill og til þess fallinn að draga úr notkun hennar. Fyrsta íslenska bókamerkið er ef til vill LL. Brynjólfur biskup (1605-1675) lét þrykkja það framan á skinnið á bókaspjöldunum á bókum í safni sínu. LL stóð fyrir Lupus Loricatus, eða úlfur brynjaður. Brynjólfur stundaði nám í meðal annars guðfræði, heimspeki, læknisfræði og stjörnufræði í

50

Kaupmannahöfn á árunum 1624 til 1629, og má telja víst að þar hafi hann komist í kynni við bókamerki, en Svíar tóku að nota þau um 1595 (merki Ture Bielke, ríkisráðs) og þýsk handrit voru þar fjölmörg. Danir voru hins vegar talsvert hallari undir supralibrosmerkin á þessu skeiði og bókamerki í hefðbundinni mynd ruddu sér ekki til rúms þar í landi fyrr en í byrjun 18. aldar. Af þeim bókum úr safni Brynjólfs sem hafa varðveist og bera bókamerki hans má nefna Rökræðulist Rudolfs Agricola, sem hann eignaðist 1630 og er varðveitt í Konungsbókhlöðunni í Kaupmannahöfn, Philosophia naturalis (Náttúruspeki), bók með verki eftir Platón, Pindar í Hróarskeldu 1633, Schedismata variorum er bundin er saman við Dichaerardi Geographia, Photius á grísku og Adagia (Málsháttasafn) eftir Erasmus, en það eintak er varðveitt í Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni. Öll þessi rit eignaðist hann á árunum 1630-1640 og merkti sér væntanlega á sama tímabili. Einnig má nefna að á fyrstu síðu Konungsbókar Eddukvæða Sæmundar-Fróða (Codex Regius), nú varðveitt á Árnastofnun, sem Brynjólfur sendi í handriti til Friðriks III Danakonungs árið 1662, er merkið LL, en Brynjólfur hafði eignast þetta handrit tæpum tveimur áratugum fyrr, árið 1643. Annað bókamerkið íslenska í röðinni er að líkindum merki Gríms Jónssonar Thorkelíns leyndarskjalavarðar (1752-1829), en safn hans er nú varðveitt í Skotlandi. Páll Jónsson frá Örnólfsdal (1909-1985), hinn þekkti bókavörður á Landsbókasafninu, heldur því fram í grein sinni um séra Þorstein Helgason í Reykholti (1806-1839), að hann hafi merkt bækur sínar með rúnaletri ÞH, en þó er varla hægt að kalla það hreint rúnaletur. Önnur bókamerki svo gömul eru fátíð og virðist þessi siður ekki hafa náð fótfestu hérlendis að ráði fyrr en á 3. og 4. áratug liðinnar aldar. Kunn bókamerki einstaklinga og stofnana eru nú um fjögurhundruð talsins. Bókamerki bera tískustraumum í listum hvers tíma vitni en þó hefur nokkrum sinnum, til dæmis á 19. öld, orðið vart við afturhvarf til eldri stíltegunda. Stærð þeirra er afar mismunandi og eru þau minnstu örsmá. Hin almenna viðmiðun er þó sú að stærð merkisins henti bókinni sem það er sett í og eru dæmi þess að sama merkið sé til í mismunandi stærð. Þess eru einnig dæmi að sami aðili noti fleira en eitt ex libris-merki fyrir bókasafn sitt, til dæmis eftir því hvernig flokkun safnsins er háttað. Sérstök bókamerki eru þá notuð fyrir tiltekinn söfnunarflokk, til dæmis ferðabækur um Ísland eða erótísk rit, og stendur þá yfirleitt Ex Eroticis eða Ex Libris Eroticis á þeim síðarnefndu. Á íslenskum bókamerkjum er hin hefðbundna útfærsla, með áletruninni „ex libris“, hin algengasta en einnig eru kunn merki þar er segir „úr bókum“ eða „á þessa bók“ á eftir nafni eiganda. Einkunnarorð, málsháttur, eða skjaldarmerki af einhverju tagi eru oft samofin, og sömuleiðis táknræn auðkenni önnur er tengjast eiganda, til dæmis áhugasviði hans, starfi, skapferli eða uppruna. Reyna menn oftast að setja merkið í svo persónulegan búning að það skeri sig skýrt frá öðrum merkjum. Bókamerkið er því ekki aðeins táknmynd eignarréttarins og þjófafæla af því tagi sem reynir að höfða


bókasafnið

til samvisku hugsanlegs bókaþjófs, áður en hann lætur verða af ætlunarverki sínu, heldur getur það einnig verið mjög afhjúpandi vitnisburður um eigandann. Bókamerkið er eitt hið fyrsta er blasir við þeim sem opnar svo merkta bók og þegar myndskreytingin eða textinn skírskotar beinlínis til sérkenna eigandans, setur það óneitanlega persónulegan blæ á fyrstu kynnin af bókinni. Smæð bókamerkja krefst þess oft á tíðum að listamenn er þau hanna verði að tileinka sér aðra nálgun en þeim er tamast, og þegar vel hefur tekist til er um mjög áhugavert listform að ræða er sýnir nýjar hliðar á listamanninum. Margir víðkunnir og snjallir listamenn hafa spreytt sig á hönnun bókamerkja í eigu íslenskra aðila, íslenskir sem erlendir, og af þeim sem hafa lagt hönd á plóginn má meðal annarra nefna Barböru W. Árnason, Bolla Gústavsson í Laufási, Björn Westergren, Dieter Roth, Edmund Peter, Gerhard Munthe, Gísla B. Björnsson, Guðmund Frímann, Gunnar Hjaltason, Hafstein Guðmundsson, Halldór Pétursson, Hring Jóhannesson, Guðmund Einarsson frá Miðdal, Jóhann Briem, Jörund Pálsson, Kurt Zier, Ríkharð Jónsson, Sigfús Halldórsson, Signe Ehrngren, Sverri Ólafsson, Torfa Jónsson, Tryggva Magnússon, Þórdísi Tryggvadóttur og fleiri. Í ýmsum tilvikum hafa bókaeigendurnir sjálfir hannað merki sín, og margir hönnuðir liggja í þagnargildi. Skipti bókin síðan um eigendur fylgir bókamerkið oftast með, enda jafnan vandkvæðum háð að losa það af síðum bókarinnar, og þannig má segja að eigandinn eða altént tákn hans ferðist með bókinni. Þegar svo ber við að einstaklingar selji eða gefi opinberum bókasöfnum bækur sínar, er ekki

36. árg. 2012

óalgengt að bækurnar séu merktar fyrri eiganda eftirá með bókamerkjum eða auðkennum öðrum, og þekkjast mörg dæmi þess að slíkar merkingar hafi verið gerðar sérstaklega í tilefni af slíkum eigendaskiptum. Þess eru einnig dæmi að slík merki beri mynd fyrri eiganda, og svo sem ex libris dr. Jóns Þorkelssonar (1859-1924), þjóðskjalavarðar, en Háskólabókasafnið í Osló keypti bókasafn hans eftir andlát hans. Listamaðurinn Gerhard Munthe teiknaði flúraðan ramma utan um ljósmynd af Jóni og er nafn háskólasafnsins að ofanverðu, „Universitetsbiblioteket – Oslo“, en undir myndinni stendur „Úr bókum Jóns Þorkelssonar“. Sömu sögu er að segja um bókamerki Magnúsar Helgasonar, skólastjóra, er gaf Háskóla Íslands bókasafn sitt, en það var gert eftir andlát hans og sett á bækurnar. Vegna sérkenna sinna og fagurfræðilegs gildis hafa ex libris merki löngum þótt eftirsóknarverð til söfnunar og víðs vegar um heiminn eru rekin félög þeirra sem sérhæfa sig í bókamerkjasöfnun. Var fyrsta slíka félagið stofnað í Lundúnum árið 1891, The Ex Libris Society, og fimm árum síðar fylgdu Bandaríkjamenn í kjölfarið. Eru hin fágætari ex libris merki afar verðmæt og eftirsótt. Þau eru kannski á meðal smæstu listaverka en jafnframt hinna dýrustu – altént miðað við stærð. Athugasemd höfundar: Föðurbróðir minn heitinn, Snær Jóhannesson, safnaði bókamerkjum og átti ágætt safn slíkra merkja. Fyrir hans áeggjan kynnti ég mér sögu þessara litlu listaverka bókheimsins og skrifaði greinarkornið hér að ofan.

51


Bókasafnið inn að kviku! Nordic Camps: Þriggja ára þróunarverkefni

Einar Ólafsson

Í starfsáætlun fyrir Borgarbókasafn Reykjavíkur 2010 segir: „Borgarbókasafn hefur ásamt almenningsbókasöfnum á öllum Norðurlöndunum fengið styrk frá Nordisk Kulturfond að upphæð 150.000 evrur til að vinna að þriggja ára þróunarverkefni Next Library. Þetta þróunarverkefni mun setja mark sitt á starfsemi safnsins næstu árin. Fyrsta þriggja daga vinnusmiðja verður í Reykjavík í lok júní.“1 Upphafið Heiti verkefnisins er reyndar Nordic Camps – Network of Nordic Libraries. Heitið Next Library, sem notað er í ofangreindri starfsáætlun, vísar til forsögu og upphafs verkefnisins – og raunar áframhaldandi víðtækara verkefnis á vegum bókasafnsins í Árósum. Forsagan er sú að í nóvember árið 2008 héldu borgarbókasöfnin í Árósum, Stokkhólmi og Helsinki sameiginlega ráðstefnu eða camp, eins og það var kallað á ensku, í Helsinki. Í framhaldi af því stóð svo Borgarbókasafnið í Árósum (Århus Kommunes Biblioteker) fyrir ráðstefnu þar í júní 2009 undir heitinu NextLibrary: International un-conference og voru þátttakendur þar frá ýmsum löndum. 2

1. 2. 3. 4. 5.

Upp úr því var ákveðið að fá fleiri bókasöfn á Norðurlöndum til samstarfs um verkefni þar sem unnið yrði að þróun hugmynda um almenningsbókasöfn framtíðarinnar. Til samstarfs komu auk bókasafnsins í Árósum borgarbókasöfnin í Stokkhólmi (Stockholm Stadsbibliotek), Helsinki (Helsingfors Stadsbibliotek) og Osló (Deichmanske bibliotek) og þar sem ekkert íslenskt almenningsbókasafn er af sömu stærð og þessi söfn var ákveðið að bjóða þremur söfnum héðan, Borgarbókasafni Reykjavíkur, Bókasafni Kópavogs og Amtsbókasafninu á Akureyri. Þannig komst Nordic Camps-verkefnið á flot en Árósarbókasafnið hefur haldið Next Library-ráðstefnum sínum áfram og er næsta ráðstefna fyrirhuguð í júní 2013.3 Hugmyndin Í byrjun september 2009 var send inn umsókn til Norrænu menningargáttarinnar4 um styrk til verkefnis sem kallað var á dönsku Nordisk biblioteksnetværk en á ensku Network of Nordic Libraries.5 Verkefninu var lýst þannig að sjö bókasöfn á fimm Norðurlöndum ætluðu að vinna saman að hugmyndum um nýbreytni varðandi hlutverk, starf og stefnu norrænna bókasafna og þróun þeirra sem virkra menningarstofnana og lýðræðislegs rýmis í samfélaginu. Þrjár vinnusmiðjur6 yrðu haldnir þar sem starfsfólk þessara sjö bókasafna kæmu saman. Verkefnið skyldi snúa að nýbreytni og þróun á sviði stefnumótunar og meðal starfsmanna og koma upp samstarfi milli almenningsbókasafna á Norðurlöndunum. Síðan yrði þeirri stefnu, aðferðum og hugmyndum, sem upp úr þessu spryttu, miðlað áfram jafnt innan hvers lands, á norrænum vettvangi og alþjóðlegum. Gert var ráð fyrir þremur vinnu-

http://www.borgarbokasafn.is/Portaldata/16/Resources/um_safnid/Borgarbokasafn_starfs__tlun__2010.pdf, bls. 5 (sótt 26.4.2012). http://www.nextlibrary.net/archive (sótt 25.4.2012). http://www.nextlibrary.net (sótt 25.4.2012) http://www.kulturkontaktnord.org/lang-sv/home (sótt 26.4.2012). Umsókn um styrk, sjá http://nordiccamps.ning.com/page/nice-to-know undir Nordic Culture Point Application (http://api.ning.com/files/*4CwZJz0R Csm8LP2dr1BVvUqGSHLbiw4JsPjptpz268Zc-o5Qb76lTfeg6XJY*2XNYx7tExFlmQHH9HZ1XAq8O6*NSy4MSg7/Application.pdf ) (sótt 26.4.2012). 6. Orðið camp er notað í umsókninni bæði í ensku og dönskum texta, en hér er notað orðið vinnusmiðja eins og í tilvitnaðri starfsáætlun Borgarbókasafnsins.

52


bókasafnið

36. árg. 2012

Reykjavík 2010: „Bridging the physical and the virtual“

smiðjum, í Reykjavík árið 2010, Stokkhólmi 2011 og Osló 2012. Í hverri vinnusmiðju yrðu 10 þátttakendur frá hverju þátttökusafni, samtals um 70 manns. Ástæðunni fyrir verkefninu var lýst svo: Almenningsbókasöfn á Norðurlöndunum eiga í vök að verjast á ýmsum sviðum. Dregið hefur úr fjárhagslegum stuðningi. Þörf almennings fyrir upplýsingar og aðgang að þeim breytist hratt, menningarleg starfsemi og fjölmiðlun eru í örri þróun og hnattræn menningarleg áhrif fara vaxandi. Norrænar hefðir bókasafna byggjast á lýðræðislegum gildum en þessi grundvöllur þarfnast endurnýjunar í ljósi tæknilegra og samfélagslegra breytinga. Spurt er um hinn norræna þráð í norrænum almenningsbókasöfnum framtíðarinnar og hvernig þau geti styrkt hvert annað í starfi og hugmyndum til framtíðar. Samstarfsnetinu er ætlað að vinna að nýbreytni og þróun hinnar lýðræðislegu bókasafnshefðar á Norðurlöndunum og skapa sameiginlega norræna túlkun á hugmyndunum bak við bókasafnið. Í því skyni er mikilvægt að þeir starfsmenn sem að þessu koma kynnist þvert á stofnanir og lönd og þróuð verði fagleg tengsl milli stjórnenda og lykilstarfsmanna bókasafnanna. Lögð er sérstök áhersla á mikilvægi þess að starfsmenn taki þátt í þessari þróunarvinnu sem og að hún fari fram í samstarfi bókasafna frá þessum fimm löndum. Samskipti og kynning Myndaður var undirbúningshópur með fulltrúum frá öllum bókasöfnunum til að undirbúa vinnusmiðjurnar. Bókasafnið í

Árósum heldur utan um verkefnið en bókasafnið í Helsinki sér um samskiptavef (wiki) á netinu.7 Á þessum vef eru allar upplýsingar birtar og þátttakendur geta einnig sett inn efni og haft samskipti sín á milli gegnum hann. Einnig er gert ráð fyrir að eftir hverja vinnusmiðju birtist grein um verkefnið og framgang þess í tímariti bókasafna í hverju landi fyrir sig. Verkefnið verði einnig kynnt á ráðstefnum innan hvers lands sem og á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi, þar á meðal á IFLA-þingunum í Gautaborg 2010 og Helsinki 2012.

Nordic Camp í Reykjavík í júní 2010 - Icecamp Dagana 21. til 22. júní 2010 komu 73 fulltrúar frá fyrrnefndum sjö bókasöfnum á Norðurlöndunum saman í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi í Reykjavík til fyrstu vinnusmiðju Nordic Camps. Segja má að vinnusmiðjan hafi byggst á hugarflæði. Þátttakendur voru lítt undirbúnir og var það með ráðum gert til að þeir mættu með opinn huga, væru ekki búnir í einrúmi eða þröngum hópi sinna vinnufélaga að móta sér skoðanir eða festa sig í einhverjum ákveðnum hugmyndum um það sem tekið yrði fyrir. Þátttakendur ættu óhikað að hleypa út hverri þeirri hugmynd sem skyti upp í kollinum, öllum hugmyndum sem fram kæmu skyldi tekið opnum huga, mistök eru til að læra af. Lögð var áhersla á hópefli, að hrista hópinn saman og mynda traust innan hans.

7. http://nordiccamps.ning.com (sótt 25.4.2012).

53


bókasafnið

36. árg. 2012

Bókasafnið þarf að laga sig að þörfum notendanna, jafnvel áður en þeir gera sér grein fyrir þeim sjálfir, vera sveigjanlegt og fært um að kasta sér út í stöðu nútímans, marg- og síbreytileg stofnun sem byggist ekki á einni óbreytanlegri hugmynd. Mikilvægustu þættirnir eru: a) Starfsfólkið, sem þarf að vera hæft og með fjölbreyttan bakgrunn, metnaðarfullt, með gott viðmót, vel skipulagt og sveigjanlegt. b) Samvinna, bæði út á við og inn á við. c) Innviðir, bæði hvað varðar húsnæði og tækjabúnað, svo sem tölvutækni. Stokkhólmur 2011: „The Nordic Model of the Libray Oasis“

Viðfangsefnin Fyrir vinnusmiðjunni lágu ellefu viðfangsefni (challenges) til að fjalla um. Þau báru þessi nöfn á ensku, en enska er tungumál vinnusmiðjanna til þess að allar þjóðirnar sitji við sama borð:8 • Flexibility • The prosumer • Fabriries • Where is the library • Reclaiming the future • Bridging the physical and the virtual • Loved to death • Visualize and seduce • Business model • Clustering • Pride Þessi viðfangsefni voru skoðuð og síðan valin sex til frekari úrvinnslu: Úrvinnslan Þátttakendum var skipt í sex hópa sem tóku þessu viðfangsefni fyrir, fjölluðu um þau með opnum huga án þess að binda sig endilega við einhverjar ákveðnar niðurstöður. Vinnan fólst frekar í að þróa hugmyndirnar og spurningarnar áfram, opna leiðir frekar en loka þeim með ákveðnum niðurstöðum. Ekki var gert ráð fyrir að hóparnir skiluðu beinlínis skýrslum heldur bara stikkorðum og stuttum setningum sem sett voru fram á glærum með leikrænum eða myndrænum stuðningi.9 Það sem hér fer á eftir er stutt samantekt úr glærunum: 1. Flexibility eða sveigjanleiki: • Hvernig gerum við bókasöfnin sveigjanleg? • Efnislegt / rafrænt rými. • Hugarfar. • Starfsmenn / skipulag / borgararnir (almenningur). Bókasöfn eru nauðsynleg, þau er hluti samfélagsins og samfélagið þróast stöðugt og breytist.

Starfsfólkið er mikilvægast. Sveigjanlegt starfsfólk getur unnið í ósveigjanlegu umhverfi, en sveigjanlegt umhverfi er einskis virði án sveigjanlegs starfsfólks. Það þarf sterka forystu og fjölbreytt starfsfólk. Það á alltaf að vera einu skrefi á undan. Starfsskipulagið á að vera flatt, til dæmis með teymisvinnu, starfsfólkið þarf að fá tækifæri til að koma við í ýmsum deildum/útibúum safnsins og taka þátt í ákvarðanaferlinu. Tryggja þarf þátttöku notendanna og hlusta á þá, en það er alltaf starfsfólkið sem ber ábyrgðina. 2. The prosumer, sett saman úr producent og consumer, sem sagt samruni framleiðanda/geranda og neytanda eða neytandinn sem gerandi: • Hvernig getum við mætt almenningi í senn sem neytendum og gerendum? • Bæði í rafræna og efnislega bókasafninu? • Miðlar almennings – Hefur bókasafnið hlutverki að gegna varðandi rafrænt efni sem notandinn skapar? • Að skapa, deila með sér, endurskapa? Bókasafn þar sem notandinn getur tjáð sig sjálfur, hitt annað fólk og verið sýnilegur, bókasafn sem er vettvangur til að deila hugmyndum, hugsunum og þekkingu, þar sem allir eiga þessa möguleika án tillits til efnahags eða tækniþekkingar. Mikilvægustu þættirnir eru: a) Vettvangurinn. b) Nýi notandinn. c) Bókasafnið sem aðstoðar og veitir aðstöðu (as facilitator). Mikilvægast er „vettvangseldhúsið“, staðurinn til að hittast í skapandi andrúmslofti þar sem er aðstaða og hæfni. Dæmi: kvikmyndastúdíó, opinn hljóðnemi, aðstaða til dæmis til fatagerðar, skartgripagerðar, skapandi skrifa og svo framvegis. Við þurfum samvinnu um þekkingu og tæki, nýja hæfni, gott aðgengi og rúma opnunartíma, við þurfum að mennta starfsfólkið og virkja það, aðstöðu, tæki og tól. Við þurfum að vinna með hverjum þeim sem hefur þá hæfni, þekkingu og tækni sem til þarf. Menningin styrkist. Fólkið eflist. Vettvangur. Lýðræði.

8. Kynningar á þessum viðfangsefnum er að finna á glærum á vefslóðinni http://www.slideshare.net/nextlibrary/ice-camp2010web (sótt 27.4.2012) (glæra 56 o.áfr.). Þar eru einnig upplýsingar um dagskrá, tilhögun, verklag og áherslur við úrvinnslu viðfangsefnanna (glæra 123 o.áfr.). 9. Aðgengilegt í pdf-skjölum og myndböndum á vefslóðinni http://nordiccamps.ning.com/page/camp-2010 (sótt 25.4.2012).

54


bókasafnið 3. Fabriries, sett saman úr families og libraries eða fjölskyldan í bókasafninu. • Frá barnabókasafni til fjölskyldunnar í bókasafninu. • Hvernig má færa rými og þjónustu bókasafnsins nær þörfum fjölskyldunnar? Mikilvægustu þættirnir eru: a) Virkni, svo sem leikir, spurningakeppni, söguflutningur, bókaklúbbar. b) Rými, svo sem aðstaða til lestrar og tónlistar. c) Innihald, svo sem hljóðbækur, upplýsingar, persónuleg þjónusta. Fjölskyldan er á ferðalagi, til dæmis í bíl, rútu, lest, og notar þjónustu bókasafnsins sem á ensku kallast The library to go. Fjölskyldan vill gera eitthvað skemmtilegt saman meðan á ferðinni stendur. Megináherslan er á virkni. Hvernig getur bókasafnið hjálpað, komið til fjölskyldunnar á ferðalaginu? Hvernig má þróa þessa þjónustu, finna samstarfsaðila og gera hugmyndina að veruleika. Hvaða samstarfsaðila? Til dæmis sérfræðinga og fyrirtæki á sviði almenningssamgangna, tölvuleikja, farsíma, upplýsingaþjónustu ferðamála, samfélagið og notendur. Hvaða hæfni? Kunnátta á svið tækni, markaðssetningar, nýsköpunar og djörfung á sviði bókasafna. 4. Where is the library eða hvar er bókasafnið? • Bókasafnið sem mobile application (farsímaforrit). • Bókavörðurinn sem mobile application. • Bókasafnið í borginni – borgin í bókasafninu. • Hvaða gildi hefur bókasafnið fyrir almenning – í hvaða samhengi? • Hvernig er hægt að ná til þeirra sem ekki nota bókasafnið? Hvar er bókasafnið? Undir húð notandans! Mikilvægast: a) Frumkvæði – bókasafnið er ekki nógu virkt og bíður eftir notendunum. b) Auðveldur og aðlaðandi aðgangur. c) „Samsköpun“ (co-creation) með notendum og öðrum aðilum. Mikilvægast er frumkvæðið. Finna þarf leiðir til að styrkja frumkvæðið og breyta viðhorfum bæði stjórnenda og starfsmanna. Hvernig, hvað þarf að gera? Fagleg og persónuleg markaðssetning, tengingar, skapa vettvang fyrir samsköpun, hrista upp í skipulaginu. Þetta kallar á fjölbreyttara fagfólk í bókasöfnunum, samskipti við mismunandi aðila og samstarf við notendurna, ýtir undir meiri fjölbreytni og skilvirkari notkun fjármagns og styrkir það rými samfélagsins sem ekki gengur út á viðskipti. 5. Reclaiming the future eða að endurheimta framtíðina. • Hvernig hætta bókasöfnin að bíða framtíðarinnar og byrja að skapa hana? • Geta bókasöfnin mótað lýðræðislega framtíð samfélagsins? • Endurmótun.

36. árg. 2012

Hvernig skilgreinum við bókasafn framtíðarinnar? Hvaða leið er betri en að láta almenning skilgreina það fyrir okkur? Rafræn þjónusta hlýtur að verða framtíðin en samt þurfum við að hitta annað fólk. Bókasafnið verði vettvangur fyrir félagsskap og ný og óvænt tengsl, það verði skilgreint út frá þörfum notendanna og verði opið almannarými til að hittast, hafa samskipti og skapa. a) Bókasafn sem er drifið áfram af notendunum, þar sem þú getur skilgreint þarfir þínar. Almenningur getur haft áhrif á og lagt línur fyrir form og inntak bóksafnsins. Starfsfólkið þarf að vera opið. b) Nýjar leiðir til samvinnu. Nota ný tengsl til að fá fleiri notendur að bókasafninu, nýta fjölbreyttari sérfræðinga og samstarfsaðila, víkka út þjónustuna. Gera bókasafnið að vettvangi fyrir aðra. c) Tengja fólk á forsendum þess sjálfs. Mikilvægast er að tengja fólk. Í þessari rafrænu eyðimörk höfum við öll þörf fyrir samskipti á ýmsum vettvangi. Við þurfum félagslegt rými, bræðslupott, vettvang til að undrast, vettvang til tjáningar. Við tengjum fólk við nýja miðla og nýja tækni og færum út þjónustuna bæði í raunverulegu og rafrænu rými, tengjum fólk hvert við annað og við umheiminn. Við virkjum allt samfélagið til þátttöku og samskipta, menningarstofnanir, fyrirtæki, samtök, menntakerfi, klúbba, fræðimenn og námsmenn, notendurna. Og þetta eflir lýðræðið, skapar virkari borgara og styrkir nærsamfélagið. 6. Bridging the physical and the virtual, eða að brúa hið áþreifanlega og hið óáþreifanlega. • Hvernig sameinum við hið rafræna og hið efnislega? • Hvernig verður hið áþreifanlega og hið óáþreifanlega skynjað í einu? • Hvernig þróum við nýja þjónustu sem tengir hið áþreifanlega og hið óáþreifanlega? Fjarlægjum brúna og sameinum áþreifanlega og óáþreifanlega bókasafnið. a) „Stappa safninu saman“ (mashing up the collection). b) Gagnverkun milli hins áþreifanlega og óáþreifanlega. c) Rétti tíminn! • Mikilvægust eru miðlunin og tengingin (matchmaking). Hópar, til dæmis söguhringir kvenna. Aukin virkni jafnt í hinu áþreifanlega sem hinu óáþreifanlega bókasafni. Frjálst rými. Bókahillur bæði áþreifanlegar og óáþreifanlegar. Færni í að deila með sér, setja fram og opinbera. „Stappa saman“ efni safnsins. Vera hluti af efni safnsins. Virkja áhugahópa, efna til viðburða. Ekki stjórna heldur aðstoða. Bjóða hópum að koma á bókasafnið á eigin forsendum, aðstoða við að tengja hópa. Veita áþreifanlegt og óáþreifanlegt rými, fá fólk á bókasafnið með eigið efni, veita aðstoð og útvega tæki. Samstarfsaðilar verða áhugahópar, stutt verður við skapandi samfélög, samfélög mynduð, bókasafnið opnað.

55


bókasafnið

36. árg. 2012

Nordic Camp 2 í Stokkhólmi í september 2011 •

Önnur vinnusmiðjan var á Skytteholm skammt utan við Stokkhólm 19. til 22. september 2011. Vegna bágrar fjárhagsstöðu íslensku bókasafnanna voru einungis sex þátttakendur frá þeim nú, fimm frá Borgarbókasafni Reykjavíkur og einn frá Amtsbókasafninu á Akureyri, en alls voru þátttakendur tæplega sjötíu. Þessi vinnusmiðja byggðist eins og sú fyrri mjög á hugarflæði en þó var tilhögunin nokkuð önnur. Kallað var eftir hugmyndapunktum fyrirfram og var þeim safnað saman á samskiptavefinn. Þessir punktar voru misjafnlega orðmargir, sumir bara eitt orð, aðrir fleiri, og þeir sköruðust mikið en hér er reynt að taka þá saman í meginatriðum:10 • Almannaþjónusta. Lýðræði. Símenntun. Opinn aðgangur að upplýsingum og þekkingu. • Nýbreytni í þjónustu. Erum við með úrelta starfsemi og þjónustu – hvernig skilgreinum við nútímalega þjónustu? Hvernig getum við greint þarfir og venjur notendanna, borgaranna og samfélaganna? • Elskað eða afskipt til auðnar – bókasafn án áskorana. Hvernig má stuðla að því að starfsmenn, notendur og stjórnmálamenn krefjist þess að þjónustan samræmist þróuninni? Hvernig getum við fengið gagnrýni eða hrós frá notendunum og yfirstjórn? Hvernig getum við ögrað hefðbundum hugmyndum um bókasöfn, hvatt til umræðna og stuðlað að breytingum? • Efla rafræna þjónustu, teygja sig lengra í hinu rafræna samfélagi. Hefðbundnir miðlar opna leiðir fyrir nýja. Hvernig getur starfsfólk bókasafnanna fylgst með tækniþróuninni, tileinkað sér hana og látið notendurna njóta hennar? Það er auðvelt að hafa rafræn samskipti með rafrænt efni. En hvernig getum við notað hið efnislega bókasafn til að gera rafræna efnið sýnilegt? Sameining hins efnislega og rafræna, hvað þýðir það? • Bókasafnið alls staðar. Bókasafnið sem þriðji staðurinn. Bókasafnsrýmið, mismunandi skipulag, mismunandi hönnun. • Þróa tækifæri til leikja í bókasafninu. Fjölskyldubókasafn framtíðarinnar. • Barna- og unglingamenning. Fjölmenning, hnattvæðing, fjölbreytni. Hvernig skilgreinum við hópa, hvernig náum við til þeirra: börn, unglingar, gamalt fólk, nördar, draumóramenn, ofvirkir... • Hvað um þá sem eiga erfitt með að nýta sér þjónustu okkar? Ef bókasafn byggist á læsi, hvað þá um þá sem eru ólæsir eða búa við lestrarörðugleika? Í æ flóknara

Margt af þessu kom upp í vinnusmiðjunni í Reykjavík árið áður. Þannig varð Stokkhólmssmiðjan beint framhald hennar. Þátttakendur skiptu sér í níu hópa sem tóku sér eitthvað úr þessum umræðupunktum til frekari umfjöllunar og unnu úr þeim á leikrænan og myndrænan hátt sem byggðist meira á sköpunar- og leikgleði en þurri greiningarvinnu. Úrvinnsluna má sjá á samskiptasíðu verkefnisins í formi stuttra kvikmynda.12 Eins og sjá má af umfjölluninni um vinnusmiðjuna 2010 var þar talsvert litið til þeirra tæknilegu og efnislegu breytinga, ef svo má segja, sem eru að verða á upplýsingum og bókasöfnum. Hið efnislega/áþreifanlega bókasafn andspænis hinu rafræna/ óáþreifanlega. En jafnframt var sjónum beint að samfélagslegu, menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki almenningsbókasafna bæði með tilliti til þessarar tækniþróunar og einnig samfélagslegrar þróunar almennt. Þótt þátttakendur í vinnusmiðjunni 2011 hafi nýtt sér nýjustu tækni, svo sem snjallsíma og spjaldtölvur, þá voru þeir ekki uppteknir af tækniþróuninni sem slíkri, hvorki mobile application né rafbókum, heldur var miklu meira fjallað um almenningsbókasafnið sem vettvang og verkfæri til lýðræðislegra og menningarlegra samskipta, upplýsingar og sköpunar, sem sagt grundvöllinn á bak við hið tæknilega yfirborð. Haustið 2012 verður þriðja vinnusmiðjan í Osló. Þá er ætlunin að virkja þetta hugarflæði til einhvers konar stefnuskrár um bókasafn framtíðarinnar, ekki endilega allrar framtíðar, en allavega nánustu framtíðar. Og svo heldur hugarflæðið vonandi áfram um ýmsa farvegi.

10. http://nordiccamps.ning.com/group/nordiccamp2011 (sótt 25. apríl 2012). 11. Sjá t.d. http://www.crowdculture.se (sótt 25.4.2012). 12. http://nordiccamps.ning.com (sótt 25.4.2012).

56

samfélagi verður staða hins illlæsa sífellt veikari. Er bókasafnið ógnun við þetta fólk? Höfum við eitthvað að bjóða því og gerum við nóg til að ná til þess? Ný tækni. Skilvirk þjónusta. Lágmarka þann tíma sem starfsmenn og notendur nota til verka og afgreiðslu, auka hlutfall „gæðatíma“. Hæfni. Sveigjanlegir starfsmenn, áhugasamir, tilbúnir að taka áhættu. Starfsfólkið – teymi, virkni starfsmanna, tilraunaverkefni. Ávallt viðbúin, þar sem er vilji, þar er leið. Virkni og þátttaka notendanna og almennings og samskipti milli þeirra. Gagnvirkni – hvernig? Bókasafnið sem aðstaða og til aðstoðar við virkni og samskipti notendanna. „Crowdculture“, sveigjanlegar leiðir til samstarfs og fjármögnunar á menningarlegum verkefnum.11 Samstarf við fyrirtæki, aðrar stofnanir og einstaklinga. Hins vegar: er samvinna alltaf æskileg? Getur hún ógnað sérstöðu okkar og sjálfsmynd?


bókasafnið

36. árg. 2012

Bækur og líf Bókahlátur SERÍA Jólaserían steindauð eins og venjulega og pabbi orðinn þúsund volta. JÓL Afi kemur með slaufu um hálsinn eins og kisa Kristján Sigurjónsson

KOMMI Eins og hjá fleirum þá er svefnherbergið aðalvettvangur bókalesturs hjá undirrituðum. Fyrir kemur að texti vekur upp spennu þannig að maður mætir nánast ósofinn í vinnuna, en yfirleitt er þetta átakalaus tími, gleraugu sett upp og nokkrar síður lesnar áður en svefninn sigrar. Svona gengur þetta kvöld eftir kvöld. Bækurnar eru misáhugaverðar, eins og gengur. Eins gaman og það nú er að detta niður í virkilega vel skrifaða bók þannig að vart er hægt að hætta að lesa, þá er nú frekar sjaldgæft að lenda í lífshættu við lestur. Það hefur nú samt hent undirritaðan. Þau eru ófá skiptin sem ég hef brosað í kampinn og hlegið lágt með sjálfum mér þegar hnyttilega er að orði komist, en nokkrum sinnum á minni hálfrar aldar lestrarævi hef ég fengið heiftarleg hlátursköst við lestur og það er ekkert grín. Ég er þeim ósköpum gæddur að hlæja tiltölulega hljóðlausum hlátri með tilheyrandi hristingi sem endar síðan í óstöðvandi hósta þanig að nákomnum hefur ekki staðið á sama. Þessi hláturstegund er ekki heppileg liggjandi uppí rúmi og ég hef stundum verið hætt kominn. Ekki oft sem betur fer, en samt vildi ég ekki hafa misst af þessum stundum. Nú er alkunna að húmor eða kímnigáfa er misjöfn milli manna, kynslóða og jafnvel þjóða. Það sem einum finnst sniðugt finnst öðrum ekki. Fyndnar kringumstæður krefjast þess oft að bæði sjón og heyrn, mynd og hljóð þurfa að vera í lagi. Leikarar og brandarakarlar/-kerlingar hafa ýmis trikk og hjálpargögn upp í erminni eins og svipbrigði, raddbeitingu og líkamstjáningu til að framkalla bros og hlátur. Auðvelt er að blekkja og gabba með kvikmynda- og hljóðtækni. En menn, sem einungis með því að setja stafi á blað og geta með því kallað fram dillandi hlátur, að ég tali ekki um hláturskast, hljóta að búa yfir snilligáfu. Í desember sl. las ég mér til ánægju nokkur jólaljóð eftir Þórð Helgason. Þau eru reyndar óútgefin en höfundur var svo vinsamlegur að prenta þau út fyrir okkur hjónin. Þórður bregður upp alveg kostulegum myndum af jólahaldi í fáeinum orðum.

Helvítis kommar alltaf segir amma þegar afi situr fastur í kreppunni og harðneitar að fara heim nema hann fái að syngja Fram þjáðir menn í þúsund löndum kringum jólatréð Að lokum er sæst á Maístjörnuna Ég gerði tilraun til að lesa ljóðin upphátt fyrir konuna mína, en komst ekkert áleiðis fyrir hósta og andköfum. Þá rifjaði ég upp fyrir sjálfum mér hvaða bækur eða bókakaflar hefðu kallað fram viðlíka líkamsviðbrögð. Og niðurstaðan varð þessi (með fyrirvara um gloppótt minni): Kaflar úr skáldsögunni Góði dátinn Svejk eftir Jaroslav Hasek í þýðingu Karls Ísfelds, smásögurnar Klámundurinn úr bókinni Ó fyrir framan eftir Þórarinn Eldjárn og Kóngurinn í Svíþjóð úr bókinni Veturnóttakyrrur eftir Jónas Árnason. Frásögnin af smákökubakstri Bárðar Killian í skáldsögunni Heimskra manna ráð eftir Einar Kárason og sagan af þorrablóti Íslendingafélagsins í Chicago úr bókinni Bréf til Brands eftir Harald Bessason. Það er vel þess virði að líta í þessar bækur og taka áhættu á að deyja ekki úr hlátri. Fyrir nokkrum árum kom út bókin Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal eftir Finnboga Hermannsson. Finnbogi ritar þar æviminningar Steinólfs Lárussonar bónda í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dölum. Eftirfarandi kafli kemst samkvæmt spauggreind undirritaðs á lista yfir lífshættulegan lestur:

57


bókasafnið

36. árg. 2012

Bækur og líf Bros trjónukrabbans Steinólfur hefur í áranna rás varpað fram hugmyndum um ýmsar nýjungar, eins og hér er greint frá. Þegar ég komst til vits og ára fékk ég áhuga á að kanna dýralíf í Breiðafirði með nýtingu sjávarskepna að markmiði. Ég vissi að Pétur Þorsteinsson, sem var sýslumaður í Búðardal á ofanverðri síðustu öld, vildi kanna sjávarnytjar í Hvammsfirði og hafði ekki síst trjónukrabbann í huga, sem þar er krökkt af. Ég skrifaði Pétri bréf þar að lútandi, þar sem segir meðal annars: „Hér framundan láðinu býr ein sérkennileg sjókind bæði djúpt og grunnt og virðist vera af stjarnfræðilegri stofnstærð en meðalstærð þessa kvikindis sem einstaklings er svipuð og eitt handsápustykki, sava de París, en þó frammjókkandi og endar í trjónu búkurinn, augu á stilkum svo sem Marsbúar hafa, og getur dýrið horft aftur fyrir sig og fram, og haft yfirsýn fyrir báða sína enda samtímis, leikur framsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dýrsins. Tvær tennur hefur dýrið, sína í hvoru munnviki, og bítur saman tönnum frá hlið, tennur þessar eru ekki umluktar vörum, heldur nokkurs konar fálmurum, og brosir dýrið þar af leiðandi sífelldlega, og þó heldur kalt. Til að bera sig um, hefur skepnan tíu fætur og ber kné mjög hærra en kviðinn, það er mjög krikagleitt, líkt og hestamenn sem lengi hafa riðið feitu. Ævinlega gengur dýrið út á hlið, ýmist til hægri eða vinstri og virðist vera mjög pólitískt, einnig má það teljast mjög siðferðislega þróað skapnaðarlega þar sem spjald vex fyrir blygðun þess mjög sléttfellilega, einna líkast skírlífisbeltum. Ekki verður dýrið kyngreint af þessum sökum nema með ofbeldi. Ef menn vilja hafa einhverjar nytjar af dýri þessu, er afskaplega örðugt að aflífa það snyrtilega, þar sem það sökum síns skapnaðarlags fæst hvorki hengt né skorið, skotið eða rotað, því brynja hörð umlykur skepnuna gjörsamlega og er lífseigla þessa dýrs með ólíkindum. Sé það geymt í haldi á þurru landi mun sultur einn ganga af því dauðu að því er virðist.

58

Bíður það örlaga sinna mjög stillilega, en þegar því fer að leiðast biðin, gefur það frá sér sladdandi hljóð, sams konar sladdandi hljóð mátti heyra í baðstofum hér áður fyrr, einkum fyrripart nætur, þegar griðkonur feitar voru gnúðar sem ákafast til frygðar. Bíldrykkur sá sem bensín kallast hefur mér reynst einna bestur til að aflífa þessa skepnu óskemmda í þeim tilgangi að þurrka hana innvirðulega og gefa konum í Reykjavík, ágætum og æruprýddum, sem ég hef kunningsskap við utanklæða. Þær stilla þessari skepnu upp við hliðina á Hallgrími Péturssyni ellegar mynd af forsetanum og svo innanum plattana. Tæplega mun vera vænlegt að veiða skepnu þessa í þeim tilgangi, en ef takast mætti að veiða hana í stórum stíl og upphugsa þokkalega aðferð til að aflífa hana, vaknar sú spurning hvort ekki mætti verka þessa skepnu í dægilega krás til að selja þjóðum. Er mér fortalið að japanskir kaupi og eti ólíklegustu kvikindi og borgi þeim mun meira fyrir sem skepnan er svipljótari, samkvæmt okkar smekk í þessu skyni mætti ef til vill biðja dýrðarmenn fyrir sunnan um rannsókn á þessu dýri og fá plögg með línuritum og prósentum, svo sem í eina stresstösku til að byrja með.“ Ekki urðu nú mikil not af trjónukrabbanum, kjötið lítið sem ekkert af honum, og menn orðnir svangir aftur í þann mund sem búið var að nasla af dýrinu. Strákar suður á Akranesi reyndu að hagnýta krabbann, sem ekki gekk. Hann syndir því áfram um Breiðafjörð, krikagleiður, og brosir síst hlýrra en fyrrum.


bókasafnið

36. árg. 2012

Að gleyma sér í skræðunum

Ingibjörg Ingadóttir

Í sveitinni voru Íslendingasögurnar geymdar inní bókaskáp en skápurinn sá var inní svokallaðri baðstofu, en þar sváfum við í ríki ömmu, var lokaður með glerhurðum sem hægt var að renna til og frá. Ef að kom yfir mann sú löngun að handfjatla eða jafnvel strjúka yfir kilina á þessum bókum þá var amma ekki langt undan, hún heyrði þegar litlar hendur bisuðu við að ýta til hurðunum. Þessar bækur vildi hún hafa í friði, ekki það að hún læsi þær oft sjálf hún var örugglega búin að læra þær utanað. Stundum fannst mér koma óendanlega margt úr munni ömmu sem hún hafði lagt á minnið því alltaf átti hún stöku í pokahorninu, morgunbæn fyrir úfna glókolla á hlaðinu sem voru á leiðinni út í daginn eða jafnvel langan ljóðabálk þegar lá við dauðans alvöru og hættan liðin hjá, þá leitaði hún í Matthías og blessaði mann bak og fyrir. Í jólafríinu hlustaði ég andaktug og skelfingu lostin á föðurbróður minn kyrja fyrir mig Grýlukvæði eftir Stefán Ólafsson, sá þetta allt fyrir mér á meðan hann þrumaði kvæðið ótrúlega glottaralegur. Ég lærði að lesa með bandprjónsaðferðinni og það voru langar seturnar á græna sófanum í háhýsinu með móður minni þar sem ég ók mér og hugsaði til krakkanna utandyra. Sennilega þurfti að drífa í þessu af því að það átti að senda mig í tímakennslu til séra Árelíusar sem bauð uppá nokkurs konar upphitun á hverju vori fyrir þá sem hófu skólagöngu að hausti. Eftir að ég komst að leyndardómi þessara tákna fannst mér þetta leikur einn. Það rann upp fyrir mér ljós, ég áttaði mig á um hvað þetta snerist, uppgötvaði leyndardóm mynstursins. Mér fannst sem ég kynntist orðunum hverju og einu og þekkti þau aftur þegar ég rakst á þau. Fyrst kynntist ég stuttu orðunum síðan þeim lengri, hraðinn jókst og mér veittist aðgangur að nýjum víddum. Til Árelíusar þrammaði ég síðan hreykin með hliðartösku um öxl með mynd af Mikka mús og félögum, sem fékkst eftir mikinn grát í skólavörubúðinni efst á Laugarveginum. Ég komst í tæri við ákaflega heillandi

en jafnframt skelfilegar bókmenntir í tímakennslunni. Eftir að við höfðum stritað við að skrifa stafi og hemja ótamda fingur á beinum línum, föndri, mismunandi hressilegu stauti, þá var lesið fyrir okkur. Ég beið í ofvæni eftir lestrarstundinni og fann hvernig ég togaðist inní annan heim þar sem bjuggu ræningjar í helli einum í mið Evrópu, dökkir á hörund og höfðu í haldi ungan bjarthærðan pilt sem ekki fékk að sjá dagsljósið. Þó að oft hefði ég sungið um tíu litla negrasráka þá hreyfðu þeir engan veginn við mér eins og þessi ungi piltur gerði sem og frásögnin af misgóðum félögum hans. Áhrifin voru í senn hrollur og sæla, ógleymanleg kynni og lykill að framandi slóðum. Bókasafnið var við túnfótinn á háhýsinu og þar eyddi ég heilu og hálfu dögunum, ég man enn eftir andrúmsloftinu og lyktinni af bókunum. Lata stelpan og sögurnar af Hjalta litla héldu mér algerlega fanginni, Lína langsokkur var ólíkindatól en Ævintýrabækurnar, Nancy og félagar fóru síðan með mig til útlanda. Ég leitaði því snemma á náðir bóka, komst á flug inní nýja heima og var því fegnust á unglingsárunum í sveitinni þegar rigningin glumdi á þakinu og ekki hægt að vera í heyskap en ég drakk í mig lífið á götum Parísar og skálaði í Calvados eplakoníaki með söguhetjum Sigurbogans. Það þótti samt miður gott að vera bókaormur í sveitinni og verst var að láta grýpa sig með Tímann í tíma og ótíma, það kallaðist að slæpast. Sóleyjarkvæði er ennþá í fersku minni, boðskapurinn, föðurlandsástin og togstreita þess tíma, með tónlistinni varð þetta að hunangi og sungið endalaust. Þegar ég fór síðan að kynna bækur fyrir börnunum mínum tók ég það mjög alvarlega, við vorum lengi í útlöndum og ég með arfinn í rassvasanum. Ég lá með þeim yfir dásemdarbókum frá Þórarni Eldjárn, sögunum um Alla Nalla og Einar Áskel ásamt söngvum sem aldrei voru langt undan. Ég lék söguna um Glókoll en Guttavísur þegar þau voru óþekk og söng fyrir þau ættjarðarsöngva fyrir svefninn, þau áttu algerlega að vera í stakk búin til að hoppa inní íslenskt samfélag! Í dag kenni ég unglingum og reyni eftir fremsta megni að fá þau til að kveikja á lestri góðra bóka en það er vandasamt kapphlaup við tölvuna sem aðalleikfang. Ég verð alltaf jafn himinsæl þegar þau uppgötva leyndardóma lestursins, þegar þau gleyma sér og njóta. Kátust er ég þegar þau koma til mín og segja: ,,Ingibjörg, af hverju sagðir þú mér ekki hvað þetta er skemmtileg bók.“ Þá veit ég að þau eru komin á bragðið, björninn unninn og þau sjá síðan um næstu skref.

59


bókasafnið

36. árg. 2012

Bækur og líf Næring bóka og lesturs

Drífa Viðarsdóttir

Ég var eitt af þeim börnum sem lærði að lesa mjög snemma. Foreldrar mínir þurftu aldrei að hafa fyrir því að sitja með mér tímunum saman og kenna mér hljóð stafana eða að lesa. Þetta bara kom af sjálfu sér. Sum börn eru bara þannig. Mín fyrsta minning tengd bókum er þó þegar þau voru að lesa fyrir mig og segja mér sögur, áður en ég fór að lesa þær sjálf. Þegar ég var lítil var bókin um Mola litla Flugustrák eftir Ragnar Lár, teiknara og blaðamann, lesin mikið. Um Mola komu út nokkrar bráðskemmtilegar bækur sem ég las spjaldanna á milli eftir að ég fór að stauta sjálf og eru myndirnar í bókunum alveg frábærar, í einfaldleika sínum segja þær svo miklu meira en mörg orð eins og auðvitað góðum barnabókum sæmir. Á myndirnar gat maður horft tímunum saman og bókstaflega dottið inn í atburðarásina. Systurnar Maddit og Beta (Astrid Lindgren) komu síðar inn í líf mitt og voru mitt uppáhalds fram að unglingsárum. Las ég margar bækur um ævintýri þeirra systra og fyrir nokkru fann ég eina þeirra í pappakassa inn í bílskúr sem var orðin þvæld og vel lesin. Ég mundi nákvæmlega eftir sögunni og myndirnar voru eins og myndir úr fjölskyldualbúminu, ég þekkti þær svo vel. Ég las síðan söguna með 7 ára dóttur minni sem hafði svo gaman af að eldri systir hennar heimtaði að fá að taka hana með sér í skólann til að lesa. Margir hafa eflaust svipaða sögu að segja, máttur bókanna og minninganna er mikill. Að lesa góða bók gefur manni heilmikla andlega hugarró og nærir sálina á sama tíma. Sumar bækur fá mann til að hlæja, aðrar til að gráta og enn aðrar til að líta lífið öðrum augum. Sumar bækur hafa öll þessi áhrif á lesandann. Enginn upplifir sömu bókina eins. Lengi býr að fyrstu gerð eins og máltækið segir og byrjar lesturinn heima hjá börnunum. Sögustund milli foreldris

60

og barns styrkir þessi mikilvægu tengsl. Að lesa fyrir börn venur þau á að hlusta, veitir öryggi, hlýju og nálægð. Með fyrstu bókum sem barn fær, lærir það að finna gleðina með sögupersónum, setja sig í spor annarra og skilja gildi grimmdar og góðmennsku og muninn þar á milli. Færni í lestri liggur í rótum fyrstu æviára þeirra og segja má að við foreldrarnir séum mikilvægustu mótunaraðilarnir og fyrirmyndir þeirra þegar kemur að lestri. Fjölskyldur sem skapa með sér lestrarhvetjandi hefðir og halda þeim óháð aldri barnsins auka líkur á að barnið haldi lestraráhuganum seinna meir. En tímarnir breytast og mennirnir með. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum frá því amma og afi voru ung, eða bara frá því að við sjálf vorum börn. Hér áður fyrr var lestur hluti af daglegu heimilislífi og félagsleg samskipti í tengslum við lestur voru mikil. Á tíma tæknialdar, hefur lestraráhugi barna og unglinga minnkað, og lestur bóka og dagblaða dregist saman, á meðan sjónvarpsáhorf og tölvunotkun hefur aukist. Það þarf nú varla sérfæðing til að segja okkur það, að getu ungmenna í lestri hefur hrakað, á meðan þessi þróun hefur átt sér stað. Margir unglingar í dag eru stirðlæsir og lesa sjaldan eða aldrei sér til dægrastyttingar. Vissulega hefur skólinn áhrif á bóklestur barna og unglinga, en þar fyrir utan fer lítið fyrir lestri. Ungt fólk eyðir tímanum fyrir framan tölvu- og sjónvarpsskjái og leitar frétta á netmiðlum frekar en í dagblöðum. Það tekur þátt í fréttamiðluninni með bloggi og er virkt á samskiptasíðum eins og til dæmis Fésbókinni. Við sem erum fluglæs og tökum lestri sem sjálfsögðum hlut, eigum ekki auðvelt með að setja okkur í spor þeirra sem eru stirðlæsir eða ólæsir. Það er sennilega erfitt að komast í gegnum lífið án læsi, því við skynjum svo margt í gegnum lesturinn. Flest öll menntun, kunnátta og þekking tengist læsi á einhvern hátt. Lestrarkennsla og lestrarþjálfun barna og unglinga er því mikilvæg fyrir lífið. Allstaðar erum við að lesa, eitthvað ómeðvitað, allann daginn. Að fá að læra að lesa eru forréttindi og við foreldrar megum ekki sofna á verðinum. Virkjum þau í lestrinum. Höldum áfram að hvetja börnin okkar til lesturs, þó svo að þau séu nú jafnvel að breytast í unglinga. Börn sem hafa góðann aðgang að bókum lesa frekar en önnur. Drögum þau með okkur á bókasöfnin, bókabúðir og bókamarkaði. Sýnum áhuga á bókum sem höfða til þeirra, eða lesum jafnvel sömu bók og þau og ræðum hana svo saman. Hjálpum þeim að finna hið sérstaka næringargildi sem við fáum úr bókmenntum. Nærum þau upp úr bókum.


Afgreiðslutími safna Biskupsstofa – bókasafn

Hagstofa Íslands – bókasafn

Kirkjuhúsinu Laugavegi 31, 101 Reykjavík

Borgartúni 21a, 105 Reykjavík

Sími: 528 4003, símbréf: 528 4099

Sími: 528 1100, símbréf: 528 1098

Netfang: ragnhildur.bragadottir@kirkjan.is

Netfang: upplysingar@hagstofa.is

Veffang: www.kirkjan.is/biskupsstofa

Veffang: www.hagstofa.is

Mánud.-föstud. kl. 8.30-16

Mánud.-föstud. kl. 8.30-16

Lokað í hádeginu

Blindrabókasafn Íslands

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn Arngrímsgötu 3, 107 Reykjavík

Digranesvegi 5, 200 Kópavogi

Sími: 525 5600, símbréf: 525 5615

Sími: 545 4900, símbréf: 545 4906

Netfang: upplys@landsbokasafn.is

Netfang: blibok@bbi.is

Veffang: http://landsbokasafn.is

Veffang: www.bbi.is Útláns- og símatími: mánud.-föstud. kl. 10-16

Bóka- og heimildasafn Þjóðminjasafns Íslands Setbergi, Suðurgötu 43, 101 Reykjavík

Afgreiðslutími 1. sept.-15. maí: Almennt safnrými á 2., 3. og 4. hæð Mánud.-fimmtud. kl. 8.15-22, föstud. kl. 8.15-19, laugard. kl. 10-17, sunnud. kl. 11-17

Sími: 530 2247/530 2200 Netfang: groa@thjodminjasafn.is

Íslandssafn á 1. hæð

Veffang: www.natmus.is/fyrir-gesti/boka-og-heimildasafn

Mánud.-fimmtud. kl. 8.15-19, föstud. kl. 8.15-17,

Mánud.-föstud. kl. 13-16

laugard. kl. 10-17, sunnud. lokað

Lokað um mánaðartíma á sumrin Handritasafn á 1. hæð

Bókasafn og upplýsingaþjónusta Listaháskóla Íslands

Mánud.-föstud. kl. 9-17, laugard. og sunnud. lokað Handrit eru sótt í geymslu kl. 10 og 14 þá daga sem opið er

Þverholt – aðalsafn Hönnunar- og arkitektúrsafn

Upplýsingaþjónusta á 2. hæð

Þverholti 11, 105 Reykjavík

Mánud.-föstud. kl. 8.15-17, laugard. og sunnud. lokað

Sími: 545 2217, símbréf: 562 3629 Netfang: bokasafn@lhi.is

Afgreiðslutími 16. maí-31. ágúst:

Veffang: http://bokasafn.lhi.is

Almennt safnrými á 2., 3. og 4. hæð

Mánud.-föstud. kl. 8.30-16

Mánud.-föstud. kl. 9-17, laugard.10-14 (lokað 20.júní-12. ágúst) sunnud. lokað

Laugarnes - útibú Myndlistar- og listkennslusafn

Íslandssafn á 1. hæð

Laugarnesvegi 91, 105 Reykjavík

Mánud.-föstud. 9-17, laugard. og sunnud. lokað

Sími: 520 2402, símbréf: 520 2409 Mánud. kl. 12-16, þriðjud.-föstud. 8.30-16

Handritasafn á 1. hæð Mánud.-föstud. 9-17, laugard. og sunnud. lokað

Sölvhólsgata - útibú Leiklistar- og tónlistarsafn

Upplýsingaþjónusta

Sölvhólsgötu 13, 101 Reykjavík

Mánud.-föstud. kl. 9-16, laugard. og sunnud. lokað

Sími: 545 2295, símbréf: 561 6314 Mánud. kl. 12-16, þriðjud.-föstud. 8.30-16

Listasafn Íslands - heimildasafn Laufásvegi 12, 101 Reykjavík. Sími: 515-9603 Netfang: elin@listasafn.is Veffang: www.listasafn.is Mánud.-föstud. kl. 9-12 og 13-15

61


bókasafnið

36. árg. 2012

Bókasafn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands

Bókasafn Hafnarfjarðar

v/Stakkahlíð, 105 Reykjavík

Strandgötu 1, 220 Hafnarfirði

Sími 525 5930, símbréf: 525 5597

Sími: 585 5690, símbréf: 585 5689

Netfang: menntavisindasafn@hi.is

Netfang: bokasafn@hafnarfjordur.is

Veffang: http://stofnanir.hi.is/bokasafn

Veffang: www2.hafnarfjordur.is/bokasafn

Vetur: mánud.-föstud. kl. 8-18, laugard. kl. 10-15

Mánud.-föstud. kl. 10-18, laugard. (1. okt.-30. ap.) kl. 11-15

Sumar: kl. 9-16, lokað laugardaga

Tónlistardeildin er opin á sama tíma

Myndlistaskólinn í Reykjavík – bókasafn

Bókasafn Álftaness

Hringbraut 121, 107 Reykjavík

Álftanesskóla, 225 Álftanesi

Sími: 5614988 / 5511990

Sími: 540 4708,

Netfang: bokasafn@myndlistaskolinn.is

Netfang: gudrun.gisladottir@alftanesskoli.is

Veffang: http://myndlistaskolinn.is

Veffang: www.alftanes.is/thjonusta/bokasafn

Mánudaga-föstudaga kl. 9-14

Mánud. og fimmtud. kl. 16-19, miðvikud. kl. 16-21

Náttúrufræðistofnun Íslands – bókasafn

Bókasafn Garðabæjar

Urriðaholtsstræti 6-8, 210 Garðabæ

Garðatorgi 7, 210 Garðabæ

Sími: 590 0500, símbréf: 590 0595

Sími: 525 8550, símbréf: 565 8680

Netfang: bokasafn@ni.is

Netfang: bokasafn@gardabaer.is

Veffang: www.ni.is/midlun-og-thjonusta/bokasafn/

Veffang: www.gardabaer.is/bokasafn

Mánud.-föstud. kl. 9-16

Mánud.-föstud. kl. 9-19,

Norræna húsið – bókasafn Sturlugötu 5, 101 Reykjavík

nema fyrsta föstud. hvers mánaðar kl. 11-19, laugard. (1. okt.- 15. maí) kl. 11-15

Sími: 551 7090, 551 7030, símbréf: 552 6476

Bókasafn Kópavogs - aðalsafn

Netfang: nordlib@nordice.is

Hamraborg 6a, 200 Kópavogi

Veffang: www.nordice.is/bokasafn

Sími: 570 0450, símbréf: 570 0451

Alla daga kl. 12-17

Netfang: bokasafn@kopavogur.is

Safnadeild Ríkisútvarpsins Efstaleiti 1, 150 Reykjavík

Veffang: www.bokasafnkopavogs.is Mánud.-fimmtud. kl. 10-19, föstud. kl. 11-17, laugard. kl. 13-17

Sími: 515 3151, símbréf: 515 3010

Bókasafn Kópavogs - Lindasafn

Netfang: safn@ruv.is

Núpalind 7, 200 Kópavogi

Veffang: www.ruv.is

Sími 564 0621

Vetur: mánud.-föstud. kl. 9-17

Netfang: lindasafn@kopavogur.is

Sumar: kl. 9-16

Sept.-maí: mánud.-fimmtud. kl. 14-19, föstud. kl. 14-17, laugardaga kl. 11-14

SUÐVESTURLAND Bókasafn Grindavíkur

Júní- ágúst: mánud.- fimmtud. kl. 12-18, föstud. kl. 12-16

Bókasafn Seltjarnarness Eiðistorg 11, 172 Seltjarnarnesi

Víkurbraut 62, 240 Grindavík

Sími: 595 9170, símbréf 595 9176

Sími: 420 1108, símbréf: 420 1111

Netfang: bokasafn@seltjarnarnes.is

Netfang: bokasafn@grindavik.is

Veffang: www.seltjarnarnes.is/bokasafn

Veffang: www.grindavik.is/bokasafn

Mánud.- fimmtud. kl. 10-19, föstudaga 10-17

Mánud.-föstud. kl. 11-18

Bókasafn Reykjanesbæjar

Borgarbókasafn Reykjavíkur Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík Sími: 411 6100, símbréf: 411 6159

Kjarna, Hafnargötu 57, 230 Reykjanesbæ

Skrifstofa opin: mánud.-föstud. kl. 10-16

Sími: 421 6770

Netfang: borgarbokasafn@borgarbokasafn.is

Netfang: bokasafn@reykjanesbaer.is

Sjá nánar opnunartíma á heimasíðu: www.borgarbokasafn.is

Veffang: www.reykjanesbaer.is/bokasafn

Ennfremur: www.bokmenntir.is; www.literature.is; www.artotek.is

Mánud.-föstud. kl. 10-19, einnig laugard. kl 10-16 að vetri til

62


bókasafnið Aðalsafn Grófarhúsi

Snorrastofa – bókhlaða

Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík

Reykholti, 320 Reykholti

Sími: 411 6100

Sími 433 8006

36. árg. 2012

Netfang: gislina@snorrastofa.is Ársafn

Veffang: www.snorrastofa.is

Hraunbæ 119, 110 Árbæ

Mánud.-föstud. kl. 9-17

Sími 411 6250

Amtsbókasafnið í Stykkishólmi

Foldasafn

Hafnargötu 3, 340 Stykkishólmi

Grafarvogskirkju v/Fjörgyn, 112 Reykjavík

Sími: 433 8160

Sími: 411 6230

Netfang: amtsty@stykkisholmur.is Veffang:www.stykkisholmur.is/thjonustan/bokasafn

Gerðubergssafn Gerðubergi 3-5,111 Reykjavík Sími: 557 9122

Mánud.-föstud. kl. 14-18

Bókasafn Snæfellsbæjar Hjarðartúni 6, 355 Ólafsvík

Kringlusafn í Borgarleikhúsi

Sími: 433-6928

Listabraut 3,103 Reykjavík

Netfang: bokasafn@snb.is

Sími: 580 6200

Veffang: www.snb.is/bokasafn 1. sept.-15 maí: mánud. og miðvikud. kl 16-18,

Sólheimasafn

þriðjud, 10-13 og 20-22

Sólheimum 27, 104 Reykjavík

og fimmtud. kl. 10-13, föstud. kl. 13-15

Sími: 411 6160

Sumaropnun auglýst sérstaklega

Bókabíll Bækistöð í Kringlusafni, sími: 699 0316

VESTFIRÐIR

Bókasafn Mosfellsbæjar

Héraðsbókasafn V-Barðastrandarsýslu

Kjarna, Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ

Patreksskóla, Aðalstræti 53, 450 Patreksfirði

Sími: 566 6822, 566 6860

Sími: 456 1527

Netfang: bokasafn@mos.is

Netfang: bokpatro@vesturbyggd.is

Veffang: www.bokmos.is

Veffang: www.vesturbyggd.is/thjonusta/bokasofn

Mánud.-föstud. kl. 12-18, auk þess miðvikud. frá kl. 10

Sept.-apríl: mánud.-miðvikud. kl. 14-18, fimmtud. kl.19.30-21.30

og laugard. kl. 12-15 (sept - júní)

Maí-ágúst: þriðjud. kl. 13-18, fimmtud. kl. 19.30-21.30

Upplýsingar í síma frá kl. 8.30 mánud.-föstud. Listasalur Mosfellsbæjar er opinn á afgreiðslutíma safnsins

Héraðsbókasafn Strandasýslu Grunnskólanum, Skólabraut 20-22, 510 Hólmavík

VESTURLAND Bókasafn Akraness Dalbraut 1, 300 Akranesi Sími: 433 1200

Sími: 451 3256 Netfang: bokasafn@holmavik.is Veffang: www.holmavik.is/bokasafn Sept.-júní : alla virka daga kl 10-13:30 og þriðjudaga kl 19:30-20:30 Júlí-ágúst: þriðjud. kl. 19:30-20:30

Netfang: bokasafn@akranes.is

Bókasafn Bolungarvíkur

Veffang: www.bokasafn.akranes.is

Höfðastíg 3-5, 415 Bolungarvík

Mánud.-föstud. kl. 10-18, laugard. kl. 11-14 (okt.-apríl)

Sími: 456 7194

Héraðsbókasafn Borgarfjarðar

Netfang: bsafn@bolungarvik.is Veffang: www.bolungarvik.is/efni.asp?id=148&fl=19

Safnahúsi Borgarfjarðar

Þriðjud. og miðvikud. kl. 15-18, fimmtud. kl. 15-19

Bjarnarbraut 4-6, 310 Borgarnesi

1. júní- 31. ágúst: þriðjud. og fimmtud. kl. 17-19

Sími: 430 7200 Netfang: bokasafn@safnahus.is Veffang: www.safnahus.is Kl. 13-18 alla virka daga

63


bókasafnið

36. árg. 2012

Bæjar- og héraðsbókasafnið Ísafirði

Vetur: mánud., miðvikud., föstud. kl. 8-16,

Eyrartúni, 400 Ísafirði

þriðjud. og fimmtud. kl. 8-18

Sími: 450 8220, 895 7138, símbréf: 450 8229

Sumar: mánud.-föstud. kl. 8-16

Netfang: bokasafn@isafjordur.is Veffang: http://safn.isafjordur.is/

Bókasafn Dalvíkurbyggðar

Vefskrá: http://marc.isafjordur.is/mikromarc/

Bergi menningarhúsi, 620 Dalvíkurbyggð,

Útlán í aðalsafni: mánud.-föstud. kl. 13-18, laugard. kl. 13-16

Sími: 460 4930, símbréf: 460 4901

Upplýsingaþjónusta um síma eða net

Netfang: sigurlaug@dalvikurbyggd.is og dalbok@dalvikurbyggd.is

frá kl. 10-18 virka daga og laugardaga kl. 13-16

Veffang: www.dalvik.is/bokasafn Mánud.-fimmtud. kl. 12-18 og föstud. kl. 12-17

NORÐURLAND VESTRA Héraðsbókasafn V-Húnavatnssýslu

Héraðsskjalasafn Svarfdæla Ráðhúsinu, 620 Dalvíkurbyggð Sími 460-4935

Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga

Netfang: dalskjal@dalvikurbyggd.is

Sími: 451 2607

Þriðjud. kl. 10-12 og fimmtud. kl. 13-15

Netfang: bokasafn@hunathing.is Veffang: www.hunathing.is

Bókasafnið á Húsavík

Mánud., þriðjud. og föstud.kl. 10-17,

Stóragarði 17, 640 Húsavík

miðvikud.og fimmtud. kl. 10-18

Sími: 464 6165

Sumaropnun auglýst sérstaklega

Netfang: bokasafn@nordurthing.is

Héraðsbókasafn A-Húnavatnssýslu Hnjúkabyggð 30, 540 Blönduósi

Veffang: http://bokasafn.nordurthing.is Mánud. og föstud. kl. 11-17, þriðjud.-fimmtud. kl. 10-18

Sími: 452 4415

Bókasafn Öxarfjarðar

Netfang: bokhun@simnet.is

Skólahúsinu, Akurgerði 4-6, 670 Kópaskeri

Veffang: http://blonduos.is/bokasafn.asp

Sími: 465 2102

Mánud. og fimmtud. kl. 14-18, þriðjud. kl. 10-16, miðvikud. kl. 16-

Netfang: boknord@islandia.is

19

Veffang: http://bokasafn.nordurthing.is

Héraðsbókasafn Skagfirðinga

Þriðjud. kl. 13-18, fimmtud. kl. 13-16, laugard. kl. 13-15 Á sumrin er lokað á laugardögum

Safnahúsinu v/Símbréfatorg, 550 Sauðárkróki Sími: 453 5424, símbréf: 453 6460 Netfang: bokasafn@skagafjordur.is Veffang: www.skagafjordur.is/bokasafn

AUSTURLAND

Mánud.-fimmtud. kl. 11-19, föstud. kl. 11-18

Bókasafn Héraðsbúa

Afgreiðsla safnsins er lokuð á föstudögum í júní, júlí og ágúst

Laufskógum 1, 700 Egilsstöðum

Bókasafn Fjallabyggðar

Sími: 470 0745, símbréf: 471 1452 Netfang: bokasafn@austurland.is

Gránugötu 24, 580 Siglufirði, sími: 464 9120

Veffang: www.facebook.com/Bokasafn.Heradsbua

Aðalgötu 15, 625 Ólafsfirði, sími: 464-9215

Mánud.-föstud. kl. 14-19

Netfang: bokasafn@fjallabyggd.is Veffang: http://bokasafn.fjallabyggd.is

Bókasafn Seyðisfjarðar

Siglufjörður: þriðjud-föstud. kl. 13.30-17

Austurvegi 4, 710 Seyðisfirði

Ólafsfjörður: mánud. og þriðjud. kl. 16-19

Sími: 472 1384

miðvikud. kl. 14-17, fimmtud. kl. 16-20

Netfang: bokasafn@sfk.is Veffang: www.sfk.is

NORÐURLAND EYSTRA

Sept.-maí: mánud. kl. 15-19, þriðjud.-föstud. kl. 15-18 Júní-ágúst: mánud.-fimmtud. 16-18

Bókasafn Háskólans á Akureyri

Bókasafnið í Neskaupstað

v/Norðurslóð, 600 Akureyri

Nesskóla, Skólavegi 9, 740 Neskaupstað

Sími: 460 8050, símbréf 460 8994

Sími: 477 1521

Netfang: bsha@unak.is

Netfang: boknes@fjardabyggd.is

Veffang: www.unak.is/bokasafn

Mánud. kl. 14-19, þriðjud.-fimmtud. kl. 14-17

64


bókasafnið Bókasafnið á Eskifirði

Bókasafn Árborgar, Selfossi

Grunnskóla Eskifjarðar, Lambeyrarbraut 16, 735 Eskifirði

Austurvegi 2, 800 Selfossi

Sími: 476 1586

Sími: 480 1980

Netfang: bokesk@fjardabyggd.is

Netfang: bokasafn@arborg.is

Mánud, þriðjud. og fimmtud. kl. 14-17, miðvikud. kl. 14-19

Veffang: http://bokasafn.arborg.is

Bókasafnið á Fáskrúðsfirði Grunnskóla Fáskrúðsfjaðrar, Hlíðargötu 56, 750 Fáskrúðsfirði

36. árg. 2012

Mánud.-föstud. kl. 10-19, laugard. kl. 11-14 15.maí-15.sept: mánud.-föstud. kl. 10-18, laugard. kl. 11-14

Sími: 475 9016

Bókasafn Árborgar, Eyrarbakka

Netfang: bokfas@fjardabyggd.is

Túngötu 40, 820 Eyrarbakka

Mánud. kl. 14-19, miðvikud. og föstud. kl. 14-17

Sími 480 1991

Sumarlokun í júlí

Netfang: bokeyr@arborg.is

Bókasafnið á Stöðvarfirði

Mánud.og þriðjud. kl. 16-18 og fimmtud. kl. 19-21

Grunnskólanum á Stöðvarfirði, Skólabraut 20, 755 Stöðvarfirði

Bókasafnið í Hveragerði

Sími: 475 9017

Sunnumörk 2, 810 Hveragerði

Netfang: bokstod@fjardabyggd.is

Sími: 483 4531, símbréf: 483 4571

Þriðjud. kl. 15-19 og fimmtud. 15-17

Netfang: bokasafn@hveragerdi.is

Sumarlokun í júlí

Veffang: http://sites.google.com/site/bokasafnidihveragerdi

Menningarmiðstöð Hornafjarðar – bókasafn

Mánud.-föstud. kl. 13-19, laugard. kl. 11-14

Nýheimum, Litlubrú 2, 780 Höfn

Bæjarbókasafn Ölfuss

Sími: 470 8050, símbréf: 470 8051

Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn

Netfang: menningarmidstod@hornafjordur.is

Sími 4803830 / 8636390

Veffang: www2.hornafjordur.is/menningarmidstod/efni/bokasafn

Veffang: www.olfus.is/bokasafn

Aveturnar: mánud.-föstud. kl. 9-17, á sumrin; mánud.-föstud. kl.

Mánud.-miðvikud. kl. 11-18,

10-16

fimmtud. kl. 11-19 og föstud. kl. 11-17

Sögustundir fyrir börn á veturna á fimmtudögum kl. 14.15-14.45

Ennfremur 1. júní-31. ágúst: laugard. kl. 11-14

SUÐURLAND Héraðsbókasafnið á Kirkjubæjarklaustri

Bókasafn Vestmannaeyja Safnahúsinu v/Ráðhúströð, 900 Vestmannaeyjum Sími: 488 2040, símbréf: 488 2001 Netfang: bokasafn@vestmannaeyjar.is

Klausturvegi 4, 880 Kirkjubæjarklaustri

Veffang: www.vestmannaeyjar.is/safnahus

Sími: 487 4808

1. sept.-31. maí: mánud.-fimmtud. kl. 10-18, föstud. kl. 10-17

Netfang: bokasafn@klaustur.is

og 1. okt-1. maí: laugard. kl. 11-14

Mánud. kl. 14.30-18, þriðjud. kl 13-15.30,

1. júní-31. ágúst: mánud.-föstud. kl. 10-17

miðvikud. kl 13-15.30 og 20-22 Júlí- ágúst: miðvikud. kl. 20-22

Héraðsbókasafn Rangæinga Vallarbraut 16, 860 Hvolsvelli Sími: 488 4235 Netfang: bokrang@bokrang.is Veffang: www.bokrang.is Sept.-maí: mánud. kl. 13-20, þriðjud.-fimmtud. kl. 13-18, föstud. kl. 10-13 Júní-ágúst: mánud. kl. 15-20, þriðjud.-fimmtud. kl. 15-18

Bókasafnið Hellu Grunnskólanum Hellu, 850 Hellu Sími: 487 5745 Veffang: http://grhella.is Sept.- maí: þriðjud. kl. 16-18 og fimmtud. kl. 20-22 Júní- ágúst: fimmtudaga kl. 20-21

65


bókasafnið

36. árg. 2012

Höfundar efnis Anna Björg Sveinsdóttir útskrifaðist með B.Ed.-gráðu frá KHÍ árið 1984. Hún lauk starfsréttindanámi í bókasafnsog upplýsingafræðum frá HÍ 1998 og síðar MLIS-prófi 2006 frá sama skóla. Anna Björg hefur starfað við kennslu í yfir tuttugu ár en þar af um fimmtán ár sem forstöðumaður skólasafns Kópavogsskóla. Anna Björg starfaði í Félagi skólasafnskennara og var formaður þess um tíma. Nú er hún í Félagi fagfólks á skólasöfnum. Arnar Óðinn Arnþórsson er nemi í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands og starfar á Bókasafni Kópavogs. Drífa Viðarsdóttir er ferðamálafræðingur. Einar Ólafsson er með BA-próf í bókmenntum og sagnfræði og hefur lengi unnið á Borgarbókasafni Reykjavíkur. Gróa Finnsdóttir hefur BA-próf í almennri bókmenntafræði ásamt BA-prófi í bókasafns- og upplýsingafræði og 24 ára reynslu sem fagstjóri bóka- og heimildasafns Þjóðminjasafns Íslands. Halla Ingibjörg Svavarsdóttir er kennari við Lækjarskóla í Hafnarfirði. Hún er með B.Ed.-gráðu frá KHÍ frá árinu 1989 og hefur starfað sem kennari síðan. Lauk MLIS-námi í bókasafns- og upplýsingafræðum í júní 2011 frá Háskóla Íslands. Ingibjörg Ingadóttir er kennari við Menntaskóla Borgarfjarðar. Kristín Bragadóttir er doktorsnemi í sagnfræði. Kristján Sigurjónsson er fréttamaður við Ríkisútvarpið. Ragnhildur Sigríður Birgisdóttir lauk í febrúar 2012 MLIS-ptófi í bókasafns- og upplýsingafræði með áherslu á stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Hún útskrifaðist með B.Ed.-gráðu í textílmennt og almennri kennslu frá KHÍ og hefur lengst af starfað við kennslu og skólastjórnun á landsbyggðinni. Siggerður Ólöf Sigurðardóttir er grunnskólakennari með B.Ed.-gráðu frá 1988 með viðbótarmenntun í bókasafns- og upplýsingarfræðum MLIS frá 2011. Hún hefur starfað við Hjallaskóla í Kópavogi í um 17 ár og önnur tvö ár í sama skóla undir nýju nafni, Álfhólsskóla. Hún vinnur sem forstöðumaður skólasafns í Þekkingarsmiðju Álfhólsskóla. Siggerður hefur gegnt formennsku í Félagi fagfólks á skólasöfnum síðan 2007 ásamt því að sitja í stjórn IBBY á Íslandi síðustu tvö árin. Sigurður Örn Guðbjörnsson er mannfræðingur og vinnur á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Sindri Freysson er rithöfundur. Sveinbjörg Sveinsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri Landskerfis bókasafna hf. frá árinu 2006. Sveinbjörg er menntuð sem rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands og Technische Hochschule Darmstadt í Þýskalandi (Dipl. Ing.). Hún er vottaður verkefnastjóri og hefur lagt stund á nám í opinberri stjórnsýslu.

66


67


Softline bókasafnsbúnaður Hannaður til að mæta þörfum allra safnategunda sveigjanlegur og auðveldur í uppsetningu Veitum ráðgjöf og gerum tillögur að uppsetningu búnaðar.

Laugavegi 163

sími 561-2130


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.