4 minute read

Búfjárhald, beitarþol og landnýting

Þegar svo var komið ákváðu bændur að slíta félaginu og á hreppsskilaþingi á Hvítárvöllum vorið 1944 segir að haldinn hafi verið skilafundur félagsins. Ríkið í nafni Bændaskólans á Hvanneyri keypti eigur félagsins og gekk frá skuldbindingum þess. Með því lauk tilraun bænda í Andakílshreppi til loðdýraræktar. Búið var rekið áfram á vegum Bændaskólans í nokkur ár enda hafði Runólfur skólastjóri mikinn hug á því að efla grundvöll íslenskrar loðdýraræktar. Í árslok 1949 var búið lagt niður og síðustu silfurrefunum lógað.

Refaræktin á Hvanneyri á árunum 19371944 var „tilraun bænda til að bæta afkomu sína í þeirri efnahagskreppu sem þá þjakaði alla landsbyggðina“, skrifaði Bergur Þórmundsson. Lítinn hagnað höfðu bændur í Andakílshreppi af refaræktinni en skaðlaust munu þeir hafa komist frá henni, töldu þeir Björn í Laugarholti og Júlíus í Laugabæ. Óhætt mun að fullyrða að á meðan búreksturinn stóð með mestum blóma hafi refabú Loðdýraræktarfélagsins á Hvanneyri verið á meðal stærstu og virtustu refabúa landsins.

Advertisement

Refabú Loðdýraræktarfélags Andakílshrepps á Hvanneyri eftir vetrarbyl; búr, varðturn og vörslugirðing. (Ljósm.: T.M. Gravem).

Búfjárhald, beitarþol og landnýting

Á sjöunda áratugnum fór að kræla á umræðum um beitarþol hagalanda. Sauðfé á flestum afréttum hafði farið fjölgandi eftir mæðiveikiárin, hlýindaskeiðið 1930-1960 var að baki og rannsóknir á beitarþoli afrétta hófust. Önnur helstu rök fyrir hinni miklu framræslu á þessum árum var að mýrlendið yrði verðmæta haglendi svo létta mætti á afréttum.122 Á þessum misserum var einnig vaxandi umræða um markaðsmál sauðfjárræktarinnar þar sem framleiðsla var orðin meiri en nam tiltækum mörkuðum.

Málefni landnýtingar voru til umræðu á aðalfundi Búnaðarfélagsins árið 1969 þar sem stjórn lagði fram þessa tillögu:

Þar sem nú liggur ljóst fyrir að beitarþol afréttar Andakílshr[epps] leyfir ekki að allt sauðfé úr upprekstrarfélaginu gangi þar sumarlangt, samþykkir fundurinn: Hver sauðfjáreigandi er rekur fé sitt á afrétt er skyldur til að skilja eftir í heimahögum a.m.k. 1/5 hluta þess fjár er hann hafði á fóðrum næstliðinn vetur.

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Töluverð umræða hafði orðið um málefnið misserin á undan, meðal annars á aðalfundi Búnaðarfélagsins árið 1967. Þá hafði verið kosin nefnd til að athuga „nýtingu beitilanda sveitarinnar“; skilaði hún verki sínu á aðalfundi 1969 þar sem talsmaður hennar, Magnús Óskarsson, kennari á Hvanneyri, lagði tillögu nefndarinnar fyrir fundinn, sem samþykkt var með 18 samhljóða atkvæðum. Fól aðalfundurinn félagsstjórn „að vinna að því að kunnáttumenn mæli beitarþol heimalanda í hreppnum. Jafnframt leiti hún álits Landgræðslu Íslands um hvert sé beitarþol sameiginlegs upprekstrarlands Andakíls- og Lundarreykjadalshreppa. Stjórnin leiti samvinnu við hreppsnefnd Andakílshrepps um að koma þeirri rannsókn, sem hér um ræðir, í framkvæmd.“ Í annarri tillögu „beitilanda“ nefndarinnar var því beint til endurskoðunarnefndar fjallskilareglugerðar að færa fyrstu skilaréttir fram „svo að þeim verði lokið ekki síðar en um miðjan september.“ Ennfremur hvort ekki væri rétt að setja í reglugerðina skýrari ákvæði „er banni lausagöngu hrossa.“ Fyrri liðurinn var samþykktur samhljóða og umræðulaust en skiptari skoðanir voru um seinni liðinn, sem þó var samþykktur með 13 samhljóða atkvæðum.

122 Óttar Geirsson: „Framræsla mýrlendis.“ Íslenskt votlendi (1998).

Dæmi um túnkort úr Andakílshreppi frá sjöunda áratug síðustu aldar. Kortið sýnir þáverandi tún á InnriSkeljabrekku, gert af Þorvaldi G. Jónssyni búfræðikandídat, sem mældi túnið 14. ágúst 1966. (Héraðsskjalasafn Borg.).

Heyskapur á Hvanneyri á sjötta áratug síðustu aldar. (Ljósm.: Ólafur Guðmundsson).

Og fleira kom til atkvæða á aðalfundinum 1968. Sturla Guðbjarnason í Fossatúni bar fram tillögu um áskorun til landbúnaðarráðherra um að hann beiti sér fyrir því „að sauðfé í eigu ríkisins í Andakílshreppi verði stórlega fækkað vegna þrengsla á afrétti og sökum erfiðleika í sölumálum landbúnaðarins.“ Inn í tillöguna var bætt orðunum „[sauðfé] sem ekki er notað til tilrauna“ og hún þannig samþykkt með 10 atkvæðum gegn 3. Ekki var undarlegt að sauðfjárbændur hefðu hnýfil í síðu „ríkisfjár“ í hreppnum þegar þrengdi að kjörum þeirra en tíminn leið án stóraðgerða.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins gaf út gróðurkort af meginhluta Andakílshrepps árið 1977 og byggðust þau á vettvangsvinnu sem var unnin árið 1968.123 Beitar- og landnýtingarmálin voru rædd við hin ýmsu eldhúsborð og manna á milli, tíðast við óformlegar aðstæður, og bændur breyttu samkvæmt sannfæringu sinni og aðstæðum. Með tilkomu lagabundinna framleiðslutakmarkana sauðfjárræktar um og upp úr 1980 tók beitarálag að minnka í kjölfar fækkunar fjárins. Framundan voru þá einnig tímabil hagstæðra sprettusumra sem styrkjandi áhrif höfðu á gróðurfar afréttanna.

Í þessum kafla má einnig geta þess að Búnaðarfélagið lagði lið því verkefni Búnaðarsambands Borgarfjarðar að mæla og kortleggja tún á sambandssvæðinu og samþykkti á aðalfundi sínum vorið 1958 að innheimta og taka ábyrgð „á þeim kostnaði, sem þessar framkvæmdir kunna að hafa í för með sér í Andakílshreppi enda verði kostnaðinum stillt svo í hóf sem unnt er.“ Kortin voru gerð og eru nú prýðilegar heimildir um túnrækt í sveitinni upp úr miðri síðustu öld.

123 Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Gróður- og jarðakort, Bær, kortblað lll NA, og Hestur, kortblað lll SA (1977).