77 minute read

IV Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps 1889-2011

INNGANGUR Lengi vel bjó hvert heimili að sínu; var sjálfstæð eining, jafnvel sjálfbær eins og sagt er nú á dögum. Hinir félagslegu innviðir byggðarlaganna voru fáir og einfaldir. Mikilvægir þó, svo sem hreppsskipanin, til sinna hlutverka. Hvað landbúnaðinn í skilningi nútímans varðaði lutu fjallskil snemma á sögulegum tíma fastmótuðum reglum, eins og síðar verður vikið að; sjósóknin sömuleiðis svo og önnur nýting auðlinda til lands og sjávar. Búnaðarbylting nítjándu aldar, sem átti þó eldri rætur, var að verulegu marki félagsleg bylting: Menn sóttu þrótt í samneyti og samvinnu við að fylgja eftir hugmyndum til nýsköpunar verkhátta eins og fréttir bárust af á rísandi upplýsingaöld. Félög um búnaðarumbætur urðu til.

Hérlendis var stofnað til fyrsta búnaðarfélagsskaparins árið 1837 með Suðuramtsins Húss- og bústjórnarfélagi, forvera Búnaðarfélags Íslands og síðar Bændasamtaka Íslands. Fyrirmyndin var sótt til evrópskra nágrannalanda þar sem félagslegar hreyfingar bænda voru þá komnar vel á legg. Búnaðarfélag Suðuramtsins var í fyrstu frjáls félagsskapur sérstakra áhugamanna um búnaðarframfarir, sem flestir komu úr röðum embættismanna og betur megandi bænda. Brátt komu til fyrstu hreppabúnaðarfélögin; það fyrsta árið 1842 í Svínavatnshreppi í A.Húnavatnssýslu. Almennir bændur tóku vaxandi þátt.

Advertisement

Með endurreisn Alþingis um miðja nítjándu öld, og ekki síst markvissri baráttu og forystu Jóns Sigurðssonar forseta var vaxandi þungi lagður á umbætur í atvinnumálum þjóðarinnar, tiltekið jarðyrkju svo auka mætti og bæta fóðrun búpenings til meiri og betri afurða. Búnaðarfræðsla og ráðgjöf efldust. Fyrir allt þetta voru hreppabúnaðarfélögin mikilvægur farvegur sem brátt var markaður með landslögum. Fór svo að á áratugnum 1880-1890 voru búnaðarfélög stofnuð í flestum sveitum landsins. Hreppabúnaðarfélögin áttu eftir að gegna mjög áhrifamiklu hlutverki í nýsköpun búnaðarhátta og raunar framförum þjóðlífs.

Hér verður að öðru leyti ekki fjallað um almenna sögu búnaðarfélagsskparins heldur eiga þessi orð að verða almennur inngangur að sögu Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps. Um margt er hún lík sögu annarra hreppabúnaðarfélaga landsins. Í öðru vatt henni fram eftir sérstökum aðstæðum á félagssvæðinu, svo og atvikum og einstaklingum, sem í því störfuðu á hverjum tíma. Vel má því halda til haga áhrifum Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps á byggð og búskap í hreppnum á starfstíma þess.

FÉLAGSSAGAN SKRÁÐ Í tilefni aldarafmælis Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps samþykkti aðalfundur þess þann 15. maí 1987 að láta skrá sögu félagsins og að stefna að því að koma henni út á afmælisárinu 1989. Að beiðni þáverandi formanns félagsins, Kristjáns E. Björnssonar á Múla, tók ég verkið að mér.

Á grundvelli gagna Búnaðarfélagsins og fleiri heimilda tók ég saman þætti úr aldarsögu félagsins en vék einnig að ýmsum atriðum úr búskapar- og atvinnusögu hreppsins. Af miklu er að taka en í aldarsögu félagsins var aðeins hægt að stikla á stóru. Til varð 32 blaðsíðna rit sem út kom á afmælisárinu: Úr aldarsögu Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps 1889-1989.

Nú, aldarþriðjungi síðar, tók ég efnið fram að nýju. Textinn, sem fer hér á eftir, er að miklum hluta sá sem birtist í áðurnefndu afmælisriti. Ég hef endurskoðað hann, breytt og lagfært eftir ástæðum og þörfum en einnig bætt við efni m.a. um síðustu starfsár Búnaðarfélagsins en það var lagt niður árið 2011.

Sögu Búnaðarfélagsins þótti mér síðan við hæfi að fella inn í þessa bók því að sagan gefur nokkra hugmynd um félagslegar aðstæður varðandi landbúskapinn í Þingeyrarhreppi á einu mesta breytingaskeiði í lífi þjóðarinnar.

ÁRIÐ 1889 Þótt níundi áratugur nítjándu aldar hafi verið erfiður hvað tíðarfar og árferði snerti dró það ekki úr viðleitni manna til búnaðarbóta. Búnaðarfélög urðu til og stofnaðir voru búnaðarskólar. Með verðlaunaveitingum og verkfæraútvegun að erlendum fyrirmyndum hafði einnig verið reynt að hvetja til framfara. Árið 1875 fór Alþingi að veita fé til starfs landsbúnaðarfélagsins og ekki munaði minna um það þegar þingið tók að veita almennum búnaðarfélögum starfsstyrk árið 1887. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar fjölgaði þeim. Sú hreyfing náði einnig til Þingeyrarhrepps og árið 1889 var stofnað búnaðarfélag þar.

Skoða má hvernig umhorfs var í hreppnum um þær mundir. Þá (1890) bjuggu 493 manns í hreppnum, þar af 427 í sveitinni og 66 í þorpinu. Í Sandasókn töldust vera 389 en 104 í

„Þessi fjarðarbyggð, Dýrafjörðurinn, hefur verið mjög farsæl alla tíma sögu okkar, boðið fram þægilega leið til hafs og veiða og góð veður inn með firðinum. Sveitin hefur alltaf haft margt fram að bjóða, sem íbúum hennar hefur þótt gott við að una“ . . . Arnór Sigurjónsson: Vestfirðingasaga (1975). Myndin er tekin við Meðaldalsvör; sér til Sandafells t.h.

Býlin í Þingeyrarhreppi sem frá fornu hafa verið, auk Botns í Mýrahreppi og bæja á Arnarfjarðarströnd. Merktar eru seinni tíma samgönguleiðir, þó ekki Dýrafjarðargöng.

Hraunssókn. Allar jarðir frá Svalvogum til Dranga voru setnar. Á sumum þeirra var fleirbýli. Landbúskapur í bland við sjósókn var lifibrauð alls þorra hreppsbúa. Verslun var stunduð bæði í Haukadal og á Þingeyri, en á báðum stöðum óx þéttbýli. Fardagaárið 1889-1890 voru gjaldendur í hreppnum 63. Tæpur helmingur þeirra var bændur, 31 að tölu; búlausir voru 16, og jafnmargir töldust húsmenn og vinnumenn. Í hópi gjaldenda voru aðeins tvær konur.

Af ræktuðu landi í hreppnum voru 153 dagsláttur (um 50 hektarar) og 984 ferfaðmar (3.500 m2) í kálgörðum og öðru sáðlandi. Búfjáreign hreppsbúa var 79 nautgripir, þar af 71 kýr og kefld kvíga, 1365 fjár og 65 hross. Meðalfjáreignin var 38 fjár; fjárríkastur var Sandaprestur með 96 fjár. Sjá einnig III. kafla.

BÚNAÐARFÉLAGIÐ STOFNAÐ Stofndagur Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps var 9. mars 1889. Fyrstu lög félagsins voru samþykkt á fundi þess á Þingeyri 25. mars sama ár. Lögin lýsa því hvað fyrir mönnum vakti með félagsstarfinu:

1. grein

Það er tilgangur fjelagsins, að efla og bæta landbúnað í Þingeyrarhreppi, og skal það því í orði og verki og á hvern hátt, sem því þykir við eiga, stuðla til þess að auka og bæta jarðrækt, garðrækt, skepnukyn og skepnumeðferð í hreppnum og yfir höfuð allt sem að landbúnaði lýtur.

2. grein

Fjelagsmaður getur hver orðið, sem vill, hvort heldur er karl eða kona, utan eða innan sveitar, en hafa þó samþykki fjelagsins.

3. grein

Hverjum fjelagsmanni, sem er búandi í Þingeyrarhreppi, er skylt að greiða fjelaginu á hverju ári 2 kr.

Búlausir fjelagar og allir fjelagar utan sveitar greiði því 1 kr. á ári.

4. grein

Hver fjelagsmaður skal hafa lokið árstillagi sínu til formanns fyrir lok ágústmánaðar ár hvert. Nú hefur einhver eigi greitt tillag í 2 ár og er hann þá rækur úr fjelaginu, en gjaldi eigi að síður tillög sín. En heimil er honum þó innganga á ný er hann greiðir hin ógoldnu tillög sín.

5. grein

Stjórn fjelagsins er 3 manna nefnd, formaður og 2 meðstjórar, og skulu þeir kosnir árlega úr flokki fjelagsmanna á aðalfundi. Fjelagsstjórnin skal vinna kauplaust, en ritföng og önnur bein gjöld, er leiðir af embættisstörfum í þarfir fjelagsins, má endurgjalda úr fjelagssjóði.

6. grein

Formaður stjórnar öllum fundum fjelagsins og sjer um að þar fari allt fram með reglu. Hann skal sjá um að fjelagslaganna sje vandlega gætt. Hverju áríðandi máli, sem eigi má bíða fundar til úrslita, má formaður með ráði meðstjóra ráða til lykta, og sje þá að minnsta kosti annar þeirra honum samþykkur. Á hverjum aðalfundi skal hann gjöra grein fyrir framkvæmdum fjelagsins og ráðsmennsku stjórnarinnar. Formaður hefur á hendi fjárgæzlu fjelagsins, tekur við öllum tekjum þess og greiðir öll gjöld þess og heldur glögga dagbók yfir. Hann skal sjálfur varðveita eða láta á sína ábyrgð varðveita allar eignir fjelagsins. Hann skal hafa bók, er rita skal í ályktanir funda þegar á fundunum og getur kosið einhvern fundarmanna til skrifara. Í þess bók skal og skrifa ársreikning fjelagsins og skal honum vera lokið fyrir aðalfund og þar til sýnis. Fela má formaður meðstjórum sínum hver embættisstörf sín, sem eru, en þó á sína ábyrgð.

7. grein

Fjelagið hefur á hverju ári aðalfund 9. marz, stofnunardag fjelagsins. En beri þennan dag upp á sunnudag eða sje þá ófært veður, skal fundi frestað til næsta rúmhelgs dags eða veðurfærs dags á eftir. Til aukafunda boðar formaður, þegar honum þykir þörf, eða ef að minnsta kosti helmingur fjelagsmanna skorar á hann um það. Alla fundi skal formaður boða með nægilegum fyrirvara. Á fundum hafa allir fjelagsmenn atkvæði og ræður meiri hluti úrslitum mála.

8. grein

Á aðalfundi skal rætt um, hvað fjelagið skuli framkvæma á því ári. Skal formaður þá skýra frá framkvæmdum fjelagsins á umliðnu ári og gefa glögga skýrslu um framfarir þær, er fjelagið hefur á því komið til vegar. Hann hefur þá og til sýnis ársreikning fjelagsins, og kýs fundurinn 2 menn, sem ekki eru í stjórninni, til að endurskoða reikninginn. Á aðalfundi skal formaður skýra frá, hverjir hafa eigi greitt tillög sín.

9. grein

Enginn fundur er lögmætur nema ¼ hluti fjelagsmanna mæti. Lögum fjelagsins má eigi breyta nema 2/3 fjelagsmanna mæti.

10. grein

Hvenær sem efni fjelagssjóðs leyfa má á aðalfundi veita verðlaun 1 eða 2 mönnum, sem, eptir mati 3 manna, þar til kvaddra af fundinum, hafa komið á hjá sjer mestum jarðabótum eða gjört sjer mest í þá átt, er til einhverra framfara í landbúnaði [lýtur] fyrir lok yfirstandandi árs.

11. grein

Vilji einhver segja sig úr fjelaginu er það ógilt, nema hann hafi skýrt formanni brjeflega frá því fyrir árslok, og hefur formaður brjefið til sýnis á aðalfundi. Þótt einhver flytji búferlum úr hreppnum, er hann eigi vikinn úr fjelaginu fyrir það.

Fyrsta árið gengu 32 menn í félagið, þar af 21 bóndi. Kristján Andrésson, skipstjóri í Meðaldal, var kjörinn fyrsti formaður félagsins en meðstjórar með honum þeir Guðmundur Eggertsson bóndi í Höll og Guðmundur Nathanaelsson bóndi á Kirkjubóli.

Kristján Andrésson (1851-1941) bóndi og skipstjóri í Meðaldal, fyrsti formaður Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps, og kona hans Helga Bergsdóttir (1866-1932) (Einkasafn).

Ekki er til skrá um stofnfélaga en hins vegar félagatalið árið 1890. Þá hafði félögum fjölgað í 36. Voru „22 búandi menn en 14 búlausir“. Fer félagatalið hér á eftir eins og það var skráð í fundargerðabók félagsins:

1. F.R. Wendel verzlunarstjóri á Þingeyri 2. Oddur Jónsson læknir s.st. 3. Kristinn Daníelsson prestur á Söndum 4. Bjarni G. Jónsson söðlasmiður í Haukadal 5. Kristján Andrjesson skipstjóri í Meðaldal 6. Andrjes Pjetursson skipstjóri í Haukadal 7. Hákon Jónsson bóndi sama st. 8. Steinþór Egilsson skipstjóri á Brekku 9. Guðmundur Nathanelsson bóndi á Kirkjubóli 10. Benjamín Bjarnason skipstjóri á Múla 11. Guðleifur Jónsson bóndi á Bakka 12. Guðmundur Eggertsson bóndi í Höll 13. Ólafur G. Jónsson bóndi s.staðar 14. Eggert Andrjesson bóndi á Skálará 15. Ólafur Jónsson bóndi á Sveinseyri 16. Ólafur Guðmundsson bóndi í Hólum 17. Aðalsteinn Pálsson bóndi á Hrauni 18. Guðrún Ívarsdóttir ekkja á Hrauni 19. Jón Jónsson skipstjóri sama st. 20. Þorvaldur Þorvaldsson vinnum. í Hólum 21. Magnús Jónsson skósmiður á Sveinseyri 22. Guðbjartur Jónsson bóndi í Svalvogum 23. Guðbrandur Guðmundsson tómthúsm. á Þingeyri 24. Guðbjörg Bjarnadóttir ekkja á Arnarnúpi 25. Kristján Fr. Einarsson bóndi í Hvammi 26. Gísli Björnsson bóndi sama st. 27. Sigurður Jónsson skipstjóri í Haukadal 28. Ari Kristjánsson vinnum. á Sveinseyri 29. Jóhannes Ólafsson hreppstjóri á Þingeyri 30. Óli Kr. Kristjánsson tómthúsm. á Ásgarði 31. Jón Eggertsson tómthúsm. í Sæbóli 32. Helgi Einarsson bóndi á Hofi 33. Guðmundur Jensson bóndi á Brekku 34. Finnur Thordarson verzlunarm. á Þingeyri 35. Lárus Einarsson vinnum. í Hvammi 36. Sigurður Sigurðsson búfræðingur í Meðaldal

Liðlega tveir þriðju allra bænda í hreppnum höfðu gerst félagar, allir embættismenn þar og margir lausamenn. Félagsmenn voru af flestum bæjum utan frá Svalvogum og inn í Hvamm en af þremur innstu bæjunum var enginn í félaginu.

FYRSTU VERKEFNI FÉLAGSINS Fyrsta árið var ekkert unnið að jarðabótum á vegum félagsins þar eð ekki tókst að útvega búfræðing til starfa. Engu að síður hlaut félagið 40 króna starfsstyrk úr landssjóði að tilhlutan sýslunefndar. Sumarið 1890 réði félagið til sín Sigurð Sigurðsson (1864-1926) frá Langholti í Flóa, þá nýútskrifaðan búfræðing frá Búnaðarskólanum á Hólum í Hjaltadal. Sigurður varð síðar kunnur undir nafninu Sigurður ráðunautur til aðgreiningar frá Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra en báðir störfuðu þeir hjá Búnaðarfélagi Íslands. Í Þingeyrarhreppi var Sigurður frá Langholti hins vegar þekktur sem Sigurður búfræðingur.

Sigurður Sigurðsson (1864-1926) búfræðingur og síðar ráðunautur Búnaðarfélags Íslands var fyrsti starfsmaður Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps. Hann átti þátt í mótun þess fyrstu starfsárin. Hann kom að ýmsum félagsmálum í hreppnum á árunum 1890-1895, m.a. barnakennslu og útgáfu handskrifaða blaðsins Kveldúlfs (Einkasafn). Elsta fundargerðin sem varðveist hefur er frá aukafundi Búnaðarfélagsins höldnum á Þingeyri 20. desember 1890. Á þeim fundi pöntuðu félagsmenn alls 136 dagsverk er búfræðingurinn skyldi vinna á næsta sumri. Ákveðið var að ráða mann „er ynni með búfræðingnum yfir vorið eða sumarið 8 vikur alls.“ Þá var rætt um verkfærakaup fyrir félagið og samþykkt „að fara þess á leit við sýslunefnd Ísafjarðarsýslu, að hún lánaði fjelaginu næsta sumar eða gæfi því herfi og aktygi.“ Þá var ennfremur samþykkt, að fela Kristjáni Einarssyni í Hvammi „að smíða fyrir fjelagið 1 ristuspaða og 1 skera fyrir sama verð sem Torfi í Ólafsdal smíðar þá, sem sje 4 kr.“

Skoðum fyrsta ársreikning Búnaðarfélagsins; hann var fyrir árin 1889 og 1890. Félagið naut opinber stuðnings og árgjöld innheimtust vel. Gjöldin voru laun búfræðingsins, ferðakostnaður hans og skóleður. Einnig virðist hafa verið útveguð taðkvörn, sem þá var nýjung á landsvísu, sem og áhöld úr smiðju Kristjáns í Hvammi. Til viðmiðunar um verðlag má nefna að um þær mundir var kýrverð skv. verðlagsskrá liðlega 107 kr. Má því telja að árskaup Sigurðar búfræðings hafi verið dágott, tæplega tvö kýrverð.

Fyrsta ræktunarár félagsins voru unnin 132 dagsverk að jarðabótum hjá 18 jarðabótamönnum. Framkvæmdirnar voru þessar:

Skurðir „til veitu“ 1434 faðmar (2.700 m) 17.847 teningsfet (~ 500 m3) Kálgarðar 33 ferfaðmar (117 m2) Túnasléttur 675 ferfaðmar (2.394 m2)

Í skýringum með skýrslunni segir að allir skurðir hafi verið grafnir með 45 gráðu halla og 300 teningsfet (8,5 m3) lögð í hvert dagsverk. Túnaslétturnar voru „gjörðar með skera, spaða og skóflu.“ Tíu ferfaðmar (~35 m2) voru lagðir í dagsverkið við túnasléttun. Ræktunartækni þeirra ára var þaksléttun í beðum: Rist var ofan af, jafnað, borið í og síðan þakið að nýju.

Fyrsti ársreikningur Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps.

FYRRI RÆKTUNARUMBÆTUR Ræktunarumbætur voru ekki nýmæli í Þingeyrarhreppi þegar Búnaðarfélagið hóf störf. Hvað elstu heimildir um þær eru frá ofanverðri átjándu öld. Þá var danskur undirkaupmaður á Þingeyri, Jens Larsen Busch að nafni. Hann hlaut verðlaun konunglega danska búnaðarfélagsins, „hinn stærri silfurpening“ fyrir garðrækt sína árið 1776. Tveimur árum síðar sendi félagið honum eina tunnu af útsæði; ennfremur tvo plóga, ásamt ritlingum um notkun þeirra, er afhenda skyldi mönnum.87 Olavius taldi sig sumarið 1775 sjá leifar fornra akra „hjá verzlunarstaðnum á Þingeyri. Þar virðist akuryrkjan alls ekki hafa verið svo lítils háttar, nema ef akurreinarnar eru aðeins leifar endurtekinna tilrauna“, skrifaði hann. Olavius lýsti einnig garðyrkju Larsen Busch, sem virðist hafa verið afar fjölbreytt með grænmeti, kartöflum rúgi og byggi, í garði „sem var umgirtur traustum torfgörðum.“88 Þegar Ebenezer Henderson fór um Þingeyri árið 1815 vakti athygli hans fallega umgirtur blettur að baki verslunarhúsunum „sem mjög prýðir staðinn og stingur ánægjulega í stúf við skuggaleg fjöllin í kring“89 . . . Búnaðarskýrslur þessara ára greina líka frá nokkrum áhuga hreppsbúa á garðyrkju, sveiflukenndum þó eftir aðstæðum, eins og eftirfarandi tölur um fjölda heimilisgarða (køkkenhaver) sýna:

1819 á 4 bæjum

1826 á 17 bæjum

1833 á 5 bæjum

Skýrslur greina frá ýmsum jarðabótum hreppsbúa er kom fram á nítjándu öldina. Fram til 1890 var þar helst um að ræða vatnsveitingar, en einnig nokkra túnasléttun svo og kálgarðagerð. Í sóknalýsingum frá því um 1840 sagði þó m.a.: „Ekki er nokkurskonar almenn jarðarrækt stunduð, utan máske greftir til vatnsveitinga . . . Mjög fáir stunda hér kálgarðarækt, en aðrar jarðar- eða sáðjurtir enginn.“90

87 Ólafur Olavius: Ferðabók I (Forspjall Jóns Eiríkssonar) (1964), 26 og 29. 88 Ólafur Olavius: Ferðabók I (1964), 146 og 174-174. 89 Henderson: Ferðabók (1957), 296. 90 Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 61. Í Hvammi um

1900. Mynd úr safni Lauritz og Martha Berg. Af þýfinu var nóg (Þjóðminjasafn).

Á Fögrubrekku – tóftum Skála þar sem Guðmundur Guðmundsson, kallaður norðlenski, reisti sér bústað árið 1858. Sunnan undir húsatóftunum má enn greina 80 m2 garð. Í honum hefur Guðmundur sennilega ræktað kartöflur sínar og ef til vill einnig jurtir sem hann nýtti síðan í seyði sín og lækningameðöl. Garðurinn er því minningamark um merkilegt ræktunarstarf í Þingeyrarhreppi á nítjándu öld.

Nefna má Guðmund Guðmundsson (1799-1885) er um tíma (1858-1868) bjó á Fögrubrekku (Guðmundarskála) í landi Sanda. Hann varð þekktur fyrir lækningar sínar og ýmislegt fleira, sigldur maður, sérstæður mjög en sagður vel verki farinn og driftugur og duglegur búhöldur.91 Knútur Bjarnason hafði það eftir föður sínum að Guðmundur, sem kallaður var norðlenski, hafi verið frumkvöðull kartöfluræktar í Þingeyrarhreppi.92 Líklegt er að fleiri jurtir hafi hann ræktað vegna lækningastarfa sinna á meðan hann bjó á Fögrubrekku.

Sr. Jón Jónsson, sem sat Sanda árin 1882-1884 lét „gjöra vatnsveitingaskurð til að veita Sandaá heim á túnið, og er það talin talsverð jarðabót og þykir til nytsemdar vera,“ segir í vísitazíubók prófastsdæmisins, sjá mynd á bls. 60. Hugsanlega er eitthvað af Veitunum sem svo heita á nokkrum stöðum í sveitinni frá þessum tíma. Áttundi áratugur aldarinnar fram til hörðu áranna um 1880 varð allmikið ræktunarskeið.

FRAMTAK Í FJÁRRÆKT Í samræmi við lög Búnaðarfélagsins var það ekki aðeins til eflingar jarðrækt heldur skyldi einnig sækja fram í meðferð búfjárins sem og því að bæta skepnukyn, eins og þar stóð. Í því skyni gekkst Búnaðarfélagið fyrir vigtun fjár í hreppnum veturinn 1890-1891. Félagssvæðinu var skipt í þrennt: Innan frá og út að Kirkjubóli, frá Hólum til Sveinseyrar og svo bæirnir utan við Hálsa. Tveir félagsmenn önnuðust verkið á hverju svæði. Fé á flestum bæjum var vigtað og nákvæm skrá um niðurstöður færð í gjörðabók félagsins. Til fróðleiks eru meðaltölur þeirra birtar hér á eftir:

91 Halldór Kristjánsson: „Guðmundur norðlenski“. (1992), 67-116. 92 Knútur Bjarnason í samtali við BG 3. ágúst 1993.

Meðalþyngd ær veturg. lömb í 2. viku vetrar 1890 47 kg 45 kg 27 kg 21.-24. janúar 1891 43 - 39 - 26 3.-6. apríl 1891 45 - 40 - 27 -

Þungatölurnar sýna að féð hefur að jafnaði aðeins verið fóðrað til viðhalds og raunar mjög tæplega það, eins og tölurnar um lömbin sýna. Ætla má að vetrarbeit hafi verið hin viðtekna venja og hey sparað. Óbreyttur þungi lamba frá hausti til vors lýsir alvarlegu næringarástandi þeirra jafnvel þó þau hafi ekki verið með fangi. Til samanburðar má bregða upp meðalþunga fjár á svæðinu um það bil einni öld síðar:

Meðalþyngd ær lömb 15. október 1987 65 kg 38 kg 1. febrúar 1988 68 - 45 30. apríl 1988 79 - 58 -

Hér hafa miklar breytingar orðið í kjölfar kynbóta og stórbættrar fóðrunar og annarrar umhirðu, rétt eins og Búnaðarfélagið ætlaði sér, skv. fyrstu grein félagslaganna . . . að bæta . . . skepnukyn og skepnumeðferð.

Veturinn 1891-1892 var féð enn vigtað á vegum félagsins. Vorvigtunin féll þó niður á Innsveitinni það ár. Hinn þriðja vetur mun ekki hafa orðið af vigtun fjár í hreppnum þótt félagsfundur haustið 1892 hafi kosið menn til þess.

Búnaðarfélagið gerði nautgriparæktinni ekki viðlíka skil. Hins vegar er vitað að formaður félagsins, Kristján í Meðaldal, hélt skýrslur um nyt kúa sinna árið 1890. Meðalnyt þriggja kúa þar, sem voru á skýrslu allt árið, var 2.104 pottar.

Um og upp úr 1890 virðist mikill framfarahugur hafa gert um sig í hreppnum hvað búskapinn snerti. Líklega má rekja hann að töluverðu marki til Sigurðar búfræðings en fleiri beittu sér. Þessara hræringa gætti líka í nágrannabyggðunum. Þannig var haldinn almennur búnaðarfundur á Þingeyri 17. mars 1893 fyrir vesturhluta Ísafjarðarsýslu. Matthías Ólafsson úr Haukadal stýrði fundinum en þar tóku ríkan þátt í fundarstarfinu auk hans þeir búfræðingarnir Sigurður Sigurðsson og Kristinn Guðlaugsson á Núpi, einnig sr. Þórður Ólafsson og fleiri. Fundargerðin sýnir að stór mál voru tekin til umræðu: Um [sauð]fjárskoðanir. Um stofnun kornforðabúra. Um ábyrgðarsjóði fyrir kýr. Um sundurpörtun jarða í smá ábúðir. Um búnaðarnám og loks Um vinnutíma. 93

93 Þjóðviljinn ungi II (1893), 50, 54-55.

ANDBYR Ekki hafði Búnaðarfélagið starfað lengi þegar af því tók að draga. Til þess lágu vafalaust ýmsar ástæður. Erfiðlega gekk að útvega menn til jarðabótastarfa. Samkeppnin um vinnuafl var orðinn talsverð sakir þess að sjávarútvegur við Fjörðinn var vaxandi á þessum árum. Þar munaði til dæmis um hvalveiðistöðina í Framnesi og atvinnu sem þar var að hafa. Vegna erfiðra ræktunarskilyrða vannst oft minna eftir dagsverkatali en ákveðið var í reglum landshöfðingja. Gekk því illa að fullnægja skilyrðum fyrir veitingu landssjóðsstyrksins til jarðabótanna á vegum Búnaðarfélagsins. Það var ef til vill af þeim sökum sem rætt var um það á félagsfundi haustið 1892 að breyta lögum félagsins á þann veg að hver búandi félagsmaður væri „skyldur að láta vinna árlega í minnsta lagi 8 til 10 dagsverk“. Það ákvæði var í anda hinna eldri laga um jarðabætur – Þúfnatilskipunarinnar, er svo var kölluð, frá 1776.

Fróðlegt er að grípa niður í bréfi sr. Kristins á Söndum til Sigurðar búfræðings frá 15. ágúst 1892. Þá var prestur nýlega orðinn formaður Búnaðarfélagsins. Sigurður hafði haft milligöngu um útvegun búfræðings fyrir félagið í sinn stað; Stefán hét hann Sigurðsson, líklega búfræðingur frá Hólum 1889. Í bréfinu segir sr. Kristinn m.a.:

. . . hann kom of seint, allt of seint. Við þurftum að hafa ársmann, en ekki daglaunamann því að með ársmanninn hefði þá minna gjört, þótt nokkrir dagar hefðu liðið, sem eigi varð unnið, en daglaunamann var náttúrl. ekki gott að fá, upp á það, að hann fengi eigi strax að taka til vinnu. Jæja, þeir Stefán geta ekki nærri því unnið upp þá vinnu, sem félagsmenn hafa pantað. En þeir láta sér nú standa á sama því árferði er vont. – Ekki getur verið um að tala að fá neinn, enda hefur þeim ekki unnizt eins mikið eptir dagsverkatali, eins og lagt er í dagsverk eptir alþingisreglunum. Túngarðsspotti t.d. sem þeir hlóðu hjá mjer, varð rjettum helmingi styttri, en átt hefði að vera eptir nefndum reglum. Ekki er þetta af því, að mennirnir sjeu ekki fullduglegir, heldur af því að hjer er svo illt til allra jarðabóta. Í þennan túngarðsspotta fengu þeir t.d. ekkert efni, því að ekki er nema svo sem 2 þuml. alstaðar ofan að grjótharðri, óvinnandi mölinni, altsvo enginn hnaus, ekkert innaní nema möl.

Ég met nú reyndar lítils landssjóðsstyrkinn, en það er ómennskulegt, að geta ekki komið til greina. Landssjóður ætti ekki að kasta út neinu fje í þessi gorkúlu-búnaðarfélög út um allt land, nema ef vera skyldi bara til þess, að menn spjöruðu sig svona ögn betur, til að geta með herkjum talizt með, þá mundi kannski margt fjelagið þykjast gott fyrir sinn hatt og eigi hirða að hlaupa meira, og er þá lítið unnið. Nei, bara burt með styrkinn, því fje skyldi heldur verja til fárra stærri fyrirtækja, sem gagn væri að, t.d að brúa einhverja lækjarsprænu . . . Búnaðarfjelagið er annars ómögulegt og gagnslaust í því horfi, sem það er; það er ekki nema tómt kál. Það þarf að taka til með krapti í túngörðunum. . .

Utan dagskrár má geta þess að sr. Kristinn á Söndum var tengdasonur Halldórs Kr. Friðrikssonar yfirkennara og forseta Búnaðarfjelags Íslands á þessum árum; kvæntur Ídu, dóttur hans. Undir forystu Halldórs mótaði Búnaðarfjelagið sennilega öðrum fremur þær reglur um opinberan stuðning við búnaðarbætur sem í gildi voru. Hér var því með skildum að skipta – hvort sem það nú breytti einhverju.

Vonbrigðin virðast hafa náð til fleiri því töluverðar hræringar voru í Búnaðarfélagi Þingeyrarhrepps um þær mundir. Meðal annars voru skipti stjórnarmanna tíð og allmikið um úrsagnir úr félaginu. Eftir þessu fór félagsstarfið og á aðalfundi 1899 kom fram að félagið „sá sjer eigi fært að ráðast í jarðabætur á næsta sumri sökum mannfæðar“. . . Var þá samþykkt sú „bráðabirgðaákvörðun um hag fjelagsins, að næstu 3 ár greiði fjelagsmenn að eins 50 aura tillag á ári, þó svo þessi ákvörðun fellur niður jafnskjótt sem fjelagið starfar svo mikið, að það getur fengið landssjóðsstyrk og skal þá tillagið verða sem áður“ . . .

Má segja að með nítjándu öldinni hafi lokið fyrsta skeiði í starfi Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps. Það einkenndist af snöggu risi, þar sem starf umferðarbúfræðinganna og þá sérstaklega Sigurðar búfræðings, og jarðabætur voru allar unnar með handafli og hinum einföldu verkfærum. Hnignunin gerðist jafnskjótt, árferði var erfitt og bændur að því er virtist ekki tilbúnir til stórátaka í ræktun með þeim áhöldum sem tiltæk voru og fyrir þá hvatningu er bauðst. En búnaðarframfarir voru þó hafnar. Til þess hafði Búnaðarfélagið séð.

TUTTUGASTA ÖLDIN GEKK Í GARÐ Með tuttugustu öldinni tók félagsmönnum Búnaðarfélagsins aftur að fjölga þótt engin straumhvörf yrðu í félagsstarfinu. Á aðalfundi 1901 kom til tals að hækka árstillag í því skyni að félagið gæti framvegis . . . „með fleiri verðlaunum hvatt menn til búnaðarframfara.“ Samþykkt var að félagið héti tvennum verðlaunum, . . . „10 og 5 kr. að upphæð, fyrir bezta meðferð á áburði.“ Skyldu verðlaunin veitast tveimur félagsmönnum, er tilkjörnir menn álitu verðugasta, og skyldi um þau sótt fyrir áramót hverju sinni. Árið 1902 sótti Matthías Ólafsson um verðlaunin og fékk „hin meiri verðlaun 10 kr.“ Það ár ákvað félagið að veita auk þess verðlaun fyrir kartöflurækt . . . „þeim þurrabúðarmanni, sem er fjelagsmaður og álitinn verðastur til, þó má framleiðslan eigi vera minni en 4 tunnur.“ Um þetta leyti var þurrabúð fólks orðin algeng í Þingeyrarhreppi, einkum á Þingeyri og að nokkru í Haukadal. Virðist félagið hafa ætlað að örfa þurrabúðarfólkið til sjálfsbjargar um það meðlæti sem kartöflur voru.

Það setti mark á búskapinn í hreppnum að sjórinn kallaði nú á meira vinnuafl en áður. Í bréfkafla heimamanns til Sigurðar búfræðings frá haustinu 1903 er dregin upp þessi mynd:

Sr. Kristinn Daníelsson prestur á Söndum. (Alþingi)

Nú sem stendur drejer allt sig um ráðningar bæði til sjós og lands, en það er eins og fólkið sökkvi þegar það kemur af skipunum á haustin, alltaf vantar fólk. Útgjörðarmaðurinn og Bóndinn keppa hver við annan að ná í þessa hausa sem upp úr standa, báðir hræddir um ekki að geta rekið sínar Forretningar, annar með að koma skipunum á vatnið, hinn með að fá slegin túnin, sem þó víst bráðum verður farið að hætta við í Dýrafirði, því enginn vill verða til að bera á að haustinu94 . . .

94 Guðmundur Kristjánsson skipstjóri í bréfi til Sigurðar Sigurðssonar búfræðings 3. nóvember 1903. Þjskjs. E.76.2 [Sig.Sig. búfr.]

Hafið var það skeið þegar varanlegar breytingar urðu á atvinnulífi í hreppnum og til sögunnar kom sérhæfður sjávarútvegur með fiskverkun og vaxandi þéttbýli á Þingeyri. Svipuð varð þróunin í Haukadal þar sem fólki fjölgaði fram á annan áratug tuttugustu aldar.

Um þessar mundir beindist athygli bænda í vaxandi mæli að beitingu hestafls við búverk. Á aðalfundinum 1905: „Fundurinn heitir þeim manni, sem á komandi sumri vildi læra plægingar með plógi 100 krónu styrk, gegn því að hann að afloknu námi setjist að í hreppnum og plægi eða kenni plægingu.“ Hér var um myndarlegan fjárstyrk að ræða sem m.a. sést af því að þá voru árslaun aukakennara á Hvanneyri 300 kr. – skólaárið 1906-1907.

Ekki munu hafa orðið bein viðbrögð við þessari samþykkt. Hitt má þó nefna að þetta haust hóf Ólafur Hákonarson frá Ystabæ í Haukadal nám við Hvanneyrarskóla. Hann átti eftir að koma mjög við sögu Búnaðarfélagsins. Við hann bundu menn þá þegar vonir og á aðalfundi veturinn 1907 var málið rætt og þannig fært til bókar:

Formaður [þá Matthías Ólafsson í Haukadal] stakk upp á, að félagið útvegaði sér, þegar á næsta sumri, plægingarmann, plægingarhesta, plóg, herfi og aktygi. Kvaðst hann hafa augastað á Ólafi Hákonarsyni frá Haukadal, er nú stundar búfræðinám á Hvanneyri til að læra plægingar nú á næsta vori í Brautarholti og ætti hann að hafa hesta þá, er félagið keypti með sér þangað og fá þá æfða þar við plægingu. Ef það brygðist, að Ólafur fengist til þess, skyldi snúa sér til Búnaðarfél. Ísl. með útvegun á plægingarmanni, en áhöld og hesta skyldi farið fram á við Jón bústjóra Jónatansson í Brautarholti að útvega, nema plægingarmaðurinn hefði þá sjálfur til og skyldi honum þá gefinn kostur á að félagið keypti hestana. . .

Uppástungan var samþykkt. Síðan segir í fundargerðinni:

Á fundinum var gert ráð fyrir, að búfræðingnum mundi vinnast tími til að slá fóður handa hestunum að vetrinum og var þess farið á leit við síra Þórð Ólafsson á Söndum, að hann lánaði slægjur og kvað hann líklegt, að hann mundi geta lánað slægjur á Galtardal.

Í helstu atriðum gekk þetta eftir. Ólafur búfræðingur Hákonarson kom um vorið, lærður plægingarmaður frá Brautarholti á Kjalarnesi, og að því er best er vitað með tvo plægingarhesta úr Borgarfirði. Í Reykjavík biðu hans aktygi á tvo plóghesta, plógur og herfi, sem Búnaðarfélagið hafði keypt að forgöngu Matthíasar Ólafssonar, formanns þess.95 Næstu árin vann Ólafur að jarðabótum í hreppnum, einkum túnasléttun, megi marka jarðabótaskýrslur. Einnig lánaði félagið hesta sína og verkfæri til vinnu. Nutu félagsmenn sérstakra kjara umfram aðra hreppsbúa.

Ólafur Hákonarson þótti vandvirkur og mikilvirkur plægingamaður. Nokkrir bændur einnig unnu að jarðabótum með eigin hestum áður en dráttarvélar komu til sögunnar, svo sem bændurnir á Brekku, Kirkjubóli og í Hólum.96

95 Jón Friðrik Matthíasson frá Haukadal í samtali við BG 27. apríl 1983. 96 Kristján Guðmundsson frá Höll, síðar á Akranesi, í samtali við BG 16. mars 1983.

En félagsstarfið seig aftur í lægð, fundir voru fáir og fundasókn dræm. Aðalfundur félagsins árið 1912 skoraði á stjórnina að gera allt sem hún gæti . . . „til að glæða áhuga á búnaði t.d. meðal annars með því að gangast fyrir búnaðarsamkomum og tíðari fundum.“ Það kom fyrir ekki. Félagið lognaðist út af um 1915. Lá starfsemi þess niðri allt til ársins 1922. Um 1910 tók fólki í sveitinni að fækka og nokkur deyfð færðist yfir búskap þar. Þorpið á Þingeyri var hins vegar í örum vexti. Þangað fór vinnuafl úr sveitinni svo búskapurinn þar gerðist óhægari en áður. Ekki bætti það heldur að árferði var iðulega erfitt á þessum árum. Árin 1914-1921 voru skýrslufærð dagsverk við jarðabætur engin í hreppnum.

HVAÐ UNNIST HAFÐI Áður en lengra er haldið er rétt að draga upp tölur um jarðabætur í Þingeyrarhreppi á tímabilinu fram til þess að Búnaðarfélagið lagðist í dvala. Meðfylgjandi mynd gefur hugmynd um jarðabætur í hreppnum á tímabilinu 1877-1911:

Jarðabætur í hreppnum hófust, eins og áður sagði, fyrir daga Búnaðarfélagsins. Af hinum skýrslufæru verkum fór mest fyrir veituskurðunum. Af þeim var mikið gert á áttunda áratug nítjándu aldar, enda voru áveitur þá sú ræktunaraðgerð sem hvað áhrifamest þótti á þeim árum. Sömuleiðis óx þá útbreiðsla kálgarðanna. Má segja að þá hafi risið fyrsta bylgja ræktunarumbóta í hreppnum. Sú næsta reis með stofnun og starfi Búnaðarfélagsins. Þá fór mest fyrir jarðabótum með þúfnasléttun og túngarðahleðslu en veituskurðirnir voru þó áfram á dagskrá. Ætla má að á þessu skeiði hafi sérstaklega munað um þá verkþekkingu sem Búnaðarfélagið hafði forgöngu um að afla með búfræðingunum. Líka komu til hentug verkfæri svo sem undirristuspaðinn. Enn í dag sjá minjar um túnasléttun á þurrlendi nálægt bæjum sem sennilega eru frá þessum tímum. Skrifarann grunar að minjar um beðasléttur sem má sjá í Meðaldalstúninu framan og ofan við bæinn, á Kaupstaðartúninu svonefnda í Haukadal, innan við Sæbólsbæinn og framan við bæinn í Höll (vestan í Miðhólnum) séu sléttur gerðar á fyrstu árum Búnaðarfélagsins.

Á þriðja tímabilinu, 1905-1910, komu hestaverkfærin til sögunnar. Þá færðist túnasléttunin aftur í vöxt. Um þær mundir voru gaddavírsgirðingarnar að ryðja sér til rúms sem búnaðarnýjung. Þær breyttu miklu um ræktun og nýtingu lands. Með þeim mátti friða tún og önnur slægjulönd fyrir beit.

Heyfengur hreppsbúa fór jafnt og þétt vaxandi allt fram til 1918 að árferði spillti svo grasvexti á túnum að allmörg ár liðu áður en hann náði sér að nýju.

FERÐ SIGURÐAR BÚFRÆÐINGS 1920 Sumarið 1920 ferðaðist Sigurður búfræðingur, sem nú var orðinn ráðunautur Búnaðarfélags Íslands, um Vestfirði að tilhlutan Búnaðarsabands Vestfjarða. Tilgangur ferðar hans var að leiðbeina um áveitur, framræslu og túnrækt, kynna sér verkfæranotkun og skilyrði fyrir notkun sláttuvéla, svo og að afla upplýsinga um afurðir búfjárins, einkum sauðfjár. Sigurður skrifaði ítarlega greinargerð um ferð sína. Þar sagði hann m.a. um Þingeyrarhrepp . . .

. . . Margbýlt er þar á sumum jörðum. Í Haukadal búa 7 bændur. Þar bjuggu lengst af áður þrír og þótti nóg. Í Hrauni eru ábúendur 5 og í Hvammi er fjórbýli. - En af þessu margbýli á jörðunum leið meðal annars, að túni og engjum er skift í ótal smáskákir milli búendanna, og hefir það í för með sjer margskonar óþægindi, tímatöf og ýmsa aðra annmarka . . .

Jarðabætur töluverðar voru gerðar þar um eitt skeið, en nú um all-mörg ár, eða síðan 1910, hefir lítið verið átt við þær . . . Girðingar um tún, nokkurnveginn gripheldar og góðar, eru á 6 jörðum í hreppnum, og á 4 jörðum eru túnin girt með 1-2 strengjum.

Áburðarhús eru 5 í sveitinni og forir eru á 5 eða 6 bæjum. Vatn til neyslu er leitt inn á 6 heimilum, og á sumum þeirra er því einnig veitt inn í fjenaðarhús.

Garðrækt er meiri eða minni á hverju býli. – Fyrir 30 árum gætti hennar lítið þar. Þá voru að nafninu til garðholur á öðrumhvorum bæ. Hefir því garðræktinni farið þarna mikið fram síðan.

Húsakynni mega teljast góð í Þingeyrarhreppi. Íbúðarhús úr steini eru þar á tveimur eða þremur bæjum, utan Þingeyrar. Íbúðar-timburhús eru víða, og ella góðir torfbæir. - Peningshús eru þar víða góð og nálega alstaðar sæmileg. Líklega óvíða betri í sýslunni. Steinsteypt fjós eru þar á 6 eða 7 jörðum, og hlöður, steyptar, gerðar úr timbri eða hlaðnar úr torfi eru á flestum, ef ekki öllum jörðum í hreppnum, og víða fyrir alt heyið. – En votheysgerð hefir víst lítið eða ekkert verið reynd til þess.

Margir færa enn frá í Dýrafirði, þar á meðal í Haukladal og víðar.

Jafnvel þó landbúskapur sje lítið eitt meiri í Dýrafirði en Arnarfirði (Auðkúluhreppi), þá er þó sjómennskan þar, bæði á þilskipum, mótorskipum og opnum bátum, annars vegar, og stunduð jöfnum höndum, og landbúnaðurinn. Samt sem áður eru þar fáeinir bændur, er teljast mega lifa að mestu eða öllu leyti á landbúskap97 . . .

Sjóarhúsið í Hólum, meira en aldar gamalt, er minnir á að sjósókn og landbúskapur voru jafngildar stoðir flestra heimila í Þingeyrarhreppi langt fram á tuttugustu öld.

Hestarnir lögðu bændum lið við jarðvinnslu og nýrækt. Hér plægir Gunnar á Hofi með hestum sínum land í Kirkjubólsdal. Myndin gæti hafa verið tekin um 1930 en hún er úr myndasafni Gunnars.

Þannig kom búskapurinn í Þingeyrarhreppi skömmu áður en ný tíð í landbúnaði gekk í garð fyrir augu búfræðingsins. Margt var nú að breytast.

FÉLAG ÚR DVALA Á þriðja áratug tuttugustu aldar urðu miklar breytingar í landbúnaði. Með vissum hætti má segja að þá tæki hann af fullum þunga að mótast sem atvinnuvegur. Í vaxandi mæli fór íslenskt samfélag að skipast í sérhæfðar atvinnugreinar í kjölfar markaðs- og tæknivæðingar.

Búskapartækni tók stakkaskiptum. Æ fleiri búvélar og búverkfæri komu til sögunnar og tilbúinn áburður var innan seilingar. Þá breytti tilkoma jarðræktarlaga nr. 43 1923 miklu. Með þeim var skerpt á skipulagi ræktunarmála og opinberu fjármagni beint til þess að efla ræktun og framleiðni búvöruframleiðslunnar. Með lögunum var lagður nýr og traustari grundvöllur að túnrækt og fóðuröflun en áður var. Ekki spillti heldur að í garð gekk tímabil hlýinda og árgæsku sem átti eftir að vara fram yfir miðja öldina. Allt þetta er óþarfi að tíunda frekar hér en staðreyndin varð sú að það lifnaði einnig yfir Búnaðarfélagi Þingeyrarhrepps.

Þann 18. mars 1922 var haldinn fundur í Búnaðarfélaginu og . . . „var tilgangurinn að endurreisa það“ . . . Samþykkt var „að félagið tæki til starfa“ sem og „að sækja um inntöku í Búnaðarsamband Vestfjarða fyrir næsta aðalfund þess.“ Upp frá þessu starfaði félagið reglulega um áratuga skeið. Félagsmönnum fjölgaði. Félagið réði sér mann til jarðabótavinnu hjá félagsmönnum nokkur sumur. Frá aðalfundi 1926 segir m.a. í fundargerð: „Ólafur Hákonarson gaf kost á sér að taka þessa vinnu að sér og var því tekið með þökkum.“ Ólafur var þá og hafði raunar verið lengi formaður Búnaðarfélagsins og hafði á blómaskeiði félagsins unnið mikið á vegum þess, eins og áður var getið.

Ýmis nýmæli tóku að skjóta upp kollinum. Á fundinum 1926 var t.d. samþykkt að styrkja Gunnar Guðmundsson bónda á Hofi til þess að kaupa hestasláttuvél . . . „með þeim skilyrðum að hann láni öðrum félagsmönnum vélina til reynslu.“ Nokkru áður hafði Gunnar eignast rakstrarvél. Þar með mun vélvæðing heyskapar í Þingerarhreppi hafa hafist. „Rófnafrag“ pantaði félagið fyrir meðlimi sína og það festi kaup á hestareku til jarðvegsvinnu.

Til er skrá um verkfæraeign bænda í hreppnum frá 1931. Fara fjöldatölur verkfæra hér á eftir:

Ólafur Hákonarson (18861976) búfræðingur og bóndi í Yztabæ. Hann starfaði um nær fjörutíu ára skeið á vegum Búnaðarfélagsins við jarðabætur og var formaður þess um árabil. Hann var kosinn fyrsti heiðursfélagi Búnaðarfélagsins árið 1945 (Einkasafn).

Kerrur og vagnar 17 Steingálgar 1 Plógar 2 Forardælur 2 Herfi 3 Áburðardreifarar 3 Valtar 3 Sláttuvélar 1 Hestarekur 1 Rakstrarvélar 1

Vélvæðingarstig búanna í hreppnum var nálægt meðaltali búnaðarsambandssvæðisins alls; heldur undir hvað jarðyrkjutæknina snerti en ofan meðaltals í tækni við meðferð áburðar.

FENGIN DRÁTTARVÉL Þann 1. desember 1927 var haldinn aukafundur í Búnaðarfélaginu. Í fundargerð segir m.a.:

Rætt um kaup á dráttarvél, til að plægja og herfa. Um málið var talað frá ýmsum hliðum og allir eindregið því fylgjandi. Samþykkt að fela stjórninni að leita samvinnu við Búnaðarfélag Mýrahrepps og jafnvel fleiri félög um undirbúning til kaupa á vélinni, ef mönnum virðist leggjandi í fyrirtækið.

Aftur kom málið til umræðu seinna um veturinn. Í millitíðinni hafði upplýsinga verið aflað, meðal annars um reynslu Djúpmanna sem þá höfðu nýlega fengið Fordson-dráttarvél til starfa. Í bréfi Jóns H. Fjalldal bónda á Melgraseyri til Bjarna á Kirkjubóli, dags. 17. janúar 1928, voru lokaorðin þessi: „Ráðlegg ykkur að hefjast handa og fá ykkur eina. Ykkur mun ekki iðra þess. En gáið að, að velja vel hæfan mann til að stjórna henni, hann þarf að vera búfræðingur vanur jarðvinnslu.“ Að lokinni umræðu var hins vegar samþykkt:

Af gefnum upplýsingum ræður fundurinn til að kaup á vélinni séu látin bíða næsta ár, en árið notað til undirbúnings undir það annaðhvort að kaupa vél eða taka hana að láni.

Menn vildu hugsa sig vel um. Þann 3. desember 1928 var svo haldinn sérstakur félagsfundur um dráttarvélamálið. Sextán félagar voru mættir. Umræður urðu miklar og vildu flestir að stofnað yrði til kaupanna. Það þótti stórkostlegt að fá vél sem gæti brotið landið til ræktunar. Samþykkt var einróma að kaupa vélina í félagi við Mýrhreppinga. Var hófanna leitað um frjáls framlög til kaupanna. Á fundinum fengust loforð fyrir 855 kr. en vélin kostaði 3.000 krónur. Samkomulag um kaupin náðist við Búnaðarfélag Mýrahrepps. Þá fékkst 600 kr. styrkur til kaupanna frá Búnaðarsambandi Vestfjarða.

Það var svo um sólstöðurnar 1929 að dráttarvélin kom í Dýrafjörð: Fordson-dráttarvél þrjátíu og tveggja hestafla, írsk að gerð, smíðuð í Cork, en keypt af Páli Stefánssyni frá Þverá, umboðsmanni fyrirtækisins. Vélin var fyrst reynd við herfingu á Fögrubrekku í landi Sanda. Þar var reynt herfi smíðað í Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri en að tillögu Snorra Arnfinnssonar frá Brekku í Langadal. Snorri var fyrsti vélstjórinn. Herfið var rótherfi er að miklu leyti skyldi koma . . . „í stað plógs til jarðvinnslu með dráttarvél,“ eins og segir í ársskýrslu Búnaðarsambandsins um verkfærið. Herfið reyndist ekki eins og vonir stóðu til og segir ekki meira af því.

Fyrsta sumarið var unnið með dráttarvélinni allvíða um sveitir. Meðal annars var brotist með hana yfir Sandsheiði út á Ingjaldssand. Þar gerðist það að dráttarvélin bilaði alvarlega við plægingu í stórþýfi. Guðmundur Bernharðsson bóndi í Ástúni hefur lýst þessum atvikum.98 Á aðalfundi Búnaðarfélagsins veturinn 1930 . . . „lýstu menn sem vonlegt var óánægju sinni yfir

. . . hin eina trygga undirstaða . . .

Bjarni M. Guðmundsson [á Kirkjubóli] kvaðst vera þeirrar skoðunar nú eins og áður að hin eina trygga undirstaða búskaparins væri aukin túnrækt og taldi að það mundi vera álitleg leið til framfara að ná tökum á þessu verkfæri . . . Í umræðum um dráttarvélakaupin á félagsfundi 3. desember 1928.

98 Guðmundur Bernharðsson: Bærinn í hlíðinni. (1985), 110-117.

Gunnar Guðmundsson á Hofi við Fordsondráttarvélina. Á hana byggði hann haganlegt ekilshús, sem til mikilla þæginda var í hrakviðrum (ljósm. úr safni GG frá Hofi). þeim óhöppum, sem fyrir hana hafa komið, þar sem ekki er fyrirsjáanlegt annað en félagið sé neytt til að líða það bótalaust eða bótalítið,“ eins og segir í fundargerð. Óvíst var hvort sami maður fengist áfram á vélina svo stjórn Búnaðarfélagsins var falið að útvega og senda mann með styrk félagsins á námskeið sem þá stóð til að halda fyrir stjórnendur dráttarvéla.

Á námskeiðið fór Gunnar Guðmundsson bóndi á Hofi. Heim kominn og útlærður tók hann við dráttarvélinni, vann með henni og annaðist viðhald hennar um langt árabil. Reyndist hann afar farsæll í þeim störfum. Með Fordson breytti Gunnar mörgum þúfnakarga á bæjunum við Dýrafjörð í véltækan töðuvöll. Eftir byrjunarerfiðleikana átti dráttarvélin eftir að þjóna bændum við fjörðinn dyggilega allt fram til ársins 1948 að beltavélar með ýtitönn leystu hana af hólmi.

Dráttarvélafélag Dýrafjarðar rak vélina en það var sameignarfélag búnaðarfélaganna tveggja við fjörðinn. Auk Fordson-vélarinnar átti félagið í árslok 1947 diska-, rót- og fjaðraherfi, plóg, flaggrind og „dúnkraft“. Dráttarvélafélaginu var formlega slitið árið 1949. Þá keypti Gunnar á Hofi Fordson-vélina og notaði hana í nokkur ár á búi sínu. Upp úr síðustu aldamótum tóku snæfellskir sonarsynir Gunnars dráttarvélina til aðhlynningar og hafa nú gert hana fagurlega upp.

Gunnar á Hofi og dráttarvélin:

[Árið] 1929 kom fyrsta dráttarvélin hingað á vegum Búnaðarfélagsins, af Fordson gerð. Enginn kunni á [hana] fyrr en ég hafði farið á námskeið fyrir sunnan, enda vann ég gríðarlega mikið með henni fyrir bændurna næstu ár. Ég plægði, herfaði og sléttaði tún út um allt, þótt sumir væru að vísu tregir til að láta slétta mikið hjá sér í upphafi. Það var mikill hugur í mér þegar ég sótti Véla- og ræktunarnámskeið Búnaðarfélags Íslands í 6 vikur 1930. Verklega kennslan fór fram í Steðja og Landsmiðjunni í Reykjavík en útivinnan við Hveragerði í Ölfusi. Bóklegt nám stunduðum við í Iðnskólanum. Alls voru nemendurnir 29, hver af sínu landshorni. Þetta námskeið hafði geysileg áhrif á minn búskap.

Þegar heim kom hóf ég fljótlega störf fyrir Búnaðarfélög Mýra- og Þingeyrarhrepps, stundaði þau síðan árin 1930-1944 og vann oft 16 tíma á dag við jarðvinnsluna, auk minna föstu bústarfa. Auðvitað mæddi þá mikið á konunni, sem sat heima með barnahópinn.

Árin 1930-1942 vann ég stundum dag og nótt með dráttarvélinni, en stöku sinnum leystu aðrir mig af. Það var byrjað í endaðan apríl og verið að fram í miðjan október eða eins lengi og hægt var fyrir frostinu . . .

Úr viðtali við Gunnar í tímaritinu Heima er bezt nr. 9-10, 1984.

BREYTINGASKEIÐ – ÞINGEYRARBÆNDUR Tímabilið 1930-1948, sem vissulega má kenna við Fordson-dráttarvélina, var mikið framkvæmdaskeið í Þingeyrarhreppi. Það einkennir líka framkvæmdir á fjórða áratugnum hve stór hluti jarðabótamanna voru Þingeyringar. Hreppurinn keypti land kirkjustaðarins á Söndum í því skyni að útvega þorpsbúum sem kvikfé áttu framfærslu þess. Þéttbýlið á Þingeyri óx meðal annars með fólki sem þangað flutti úr sveitinni eða átti þar rætur. Margir þeirra tóku landbúskapinn með sér til búdrýginda. Í smáum stíl þó og að mestu til þess að styrkja matbjörg heimilanna. Um Sanda og búskap þorpsbúa er fjallað í V. kafla þessa rits svo nánar verður ekki um þau efni fjallað hér. Þess skal aðeins getið að framan af tuttugustu öldinni var bústofn þorpsbúa einkum kýr og kindur. Er leið á öldina fækkaði kúm þar og mjólkursala úr sveitinni til þorpsins færðist í vöxt, sjá VI. kafla. Þingeyringar urðu margir hverjir vel virkir í búnaðarfélagsskap hreppsins enda mjög áhugasamir bændur í eðli sínu.

Á þessu tímabili urðu allmikar hræringar í búnaðarfélagsskapnum rétt eins og varð á landsvísu. Nokkur sérfélög um búnaðarmál urðu til eins og í öðrum sveitum. Þannig var stofnað nautgriparæktarfélag árið 1929 og fóðurbirgðafélagið Græðir árið 1938, hvort tveggja fyrir nokkra hvatningu Búnaðarsambands Vestfjarða. Verður vikið að þeim síðar.

BÚNAÐARSJÓÐURINN Jarðabætur kosta og kostuðu þá jafnvel þótt mikill hluti þeirra væri eigin vinna sem misjafnlega hefur jafnan verið verðlögð. Á aðalfundi Búnaðarfélagsins 16. janúar 1932 var staðfest skipulagsskrá fyrir Búnaðarsjóð Þingeyrarhrepps. Stofnendur voru 14 bændur og var Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli kosinn fyrsti formaður hans. Stofnfé sjóðsins var kr. 1963,72 . . . „þar af kr. 956,16 í peningum og skuldabréf Nautgriparæktarfélags Þingeyrarhrepps að upphæð kr. 1008,56“, eins og segir í fyrstu grein skipulagsskrárinnar. Það skyldi vera hlutverk sjóðsins samkvæmt reglugerð um hann . . . „að veita bændum og þurrabúðarmönnum í Þingeyrarhreppi lán, fyrst og fremst til alls konar jarðyrkju, svo sem grasræktar, garðræktar, áburðarkaupa, frækaupa, girðinga o.fl. sem að jarðyrkju lýtur, svo og til annarra búnaðarframkvæmda svo sem bygginga íbúðarhúsa og fjárhúsa.“ Þá var Fordson-dráttarvélin komin til jarðvinnslunnar, tilbúinn áburður og sáðvara; m.ö.o. viðskiptabúskapurinn var að vaxa með tilheyrandi fjármagnsþörf.

Búnaðarsjóðurinn reyndist á tíðum drjúgur til þess að styðja við jarðabætur í sveitinni. Hann veitti mönnum lán til framkvæmda. Jarðabótasstyrkir skv. gildandi jarðræktarlögum hverju sinni og veð í skepnum voru tryggingar fyrir lánum. Vextir voru heldur lægri en í sparisjóði en þar munu lán til búnaðarumbóta lengst af hafa verið torfengin.

HITAMÁL – NAFNAKALL Á aðalfundi Búnaðarfélagsins 28. mars 1935 var meðal annars lagt fram frumvarp til nýrra laga fyrir félagið, samið af nefnd sem til þess hafði verið kosin. Þeir tíu félagsmenn, sem á

fundinn mættu, samþykktu frumvarpið „án nokkurra verulegra breytinga“, segir í fundargerð. Með frumvarpinu var gerð veruleg breyting á hinum eldri lögum sem virtust þá hafa staðið óbreytt frá stofnun félagsins. Lögin voru í flestum greinum samin að nýjum tímum. Eitt ákvæði laganna átti eftir að draga dilk á eftir sér. Það var ákvæðið um félagsaðild. Áður en frá því verður sagt má minna á að á landsvísu var orðin allmikil umræða um félagskerfi bænda og stöðu heildarsamtakanna, Búnaðarfélags Íslands, í ljósi framlaga ríkis til ræktunarstyrkja og þjónustu sem Búnaðarfélagið var tekið að veita. Einnig skal minnt á vaxandi áhrif búskapar þorpsbúa á Þingeyri og samskipti þeirra við bændur á nágrannajörðum þorpsins, sem nánar er sagt frá í þættinum um Sandabúskap, V. kafla.

Í hinum nýju lögum var gerður greinarmunur á félögum og aukafélögum. Reglulegir félagar munu þeir hafa talist sem fullnægðu settum skilyrðum reglugerðar um kosningu til Búnaðarþings og voru búsettir á félagssvæðinu. Aðrir töldust aukafélagar og guldu lægra félagsgjald. Að baki þessu lá meðal annars það að í hreppnum voru tveir hópar jarðabótamanna. Annars vegar voru þeir sem sátu lögbýlin og höfðu landbúnað sem staðfestu. Hins vegar voru þeir sem atvinnu höfðu í þorpinu en stunduðu nokkurn búskap með bæði til heimils og til tekjuauka. Þeir síðarnefndu voru um þær mundir stór hópur og margir hverjir hinir áhugasömustu um búskapinn. Vegna ákvæða jarðræktarlaga um styrki til jarðabóta var búnaðarfélagsaðildin þeim mikilvæg.

Árið 1936 urðu miklar og heitar umræður meðal bænda, ekki síst á Búnaðarþingi, um ný jarðræktarlög (nr. 101 1936). Deiluatriðið var einkum það hvort Búnaðarfélag Íslands ætti með ákveðnum skilyrðum að taka að sér framkvæmd laganna eða ekki. Deilurnar verða ekki raktar hér að öðru leyti en því sem þær bárust inn á aukafund Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps skömmu fyrir jólin árið 1936, þann 15. desember:

Í fundarbyrjun óskuðu ýmsir aukafélagar eftir því að fá að greina atkvæði á fundinum. Urðu um það allsnarpar umræður. Varð niðurstaðan sú . . . „að þeim var neitað um atkvæðisréttinn samkvæmt lögum félagsins.“ Gekk þá annar þeirra, er sótt hafði um félagsaðild á þessum fundi, Ólafur kennari Ólafsson á Þingeyri, af fundi eftir að hafa dregið umsókn sína til baka. Hinn var Eiríkur kaupfélagsstjóri Þorsteinsson, er fyrstur tók til máls um aðalefni fundarins – jarðræktarlögin nýju. Flutti hann svofellda tillögu:

Fundurinn lýsir því yfir, að hann telur jarðræktarlögin nýju til bóta í öllum atriðum, frá því sem áður var. Jafnframt vítir hann þá framkomu meiri hluta Búnaðarþings, að neita að taka við framkvæmd laganna og skorar á næsta Búnaðarþing að samþykkja að Búnaðarfélag Íslands taki við framkvæmd hinna nýju laga og breyti lögum sínum í samræmi við þau.

Þá tók til máls Jón Þórarinsson í Hvammi, einn stjórnarmanna Búnaðarfélagsins, og flutti tillögu er hófst svo:

Fundurinn viðurkennir fúslega að hin nýju jarðræktarlög eru að ýmsu leyti til bóta frá því, sem áður var. En jafnframt lætur hann eindregið það álit sitt í ljósi, að ýmis ákvæði þeirra laga sjeu miður heppileg fyrir þann farsæla félagsskap, sem bændur hafa starfrækt um margra ára skeið með góðum árangri fyrir sín áhugamál.

Síðan komu beinar tillögur til breytinga á jarðræktarlögunum og var hin síðasta þessi:

Fundurinn hyggur að bændur hafi skoðað styrk þann sem Alþingi hefur veitt þeim til umbóta á jörðum sínum, sem verðlaun fyrir vel unnið starf, einkum fyrir eftirkomendurna, en ekki til að skapa nýjan meðeiganda að jörðum sínum.

Í síðustu málsgreininni er sýnilega vísað til þess atriðis hinna nýju jarðræktarlaga er kvað á um sérstaka skráningu verðmætaaukningar sem nam jarðabótastyrknum og telja skyldi fylgifé jarðanna – vera ríkiseign sem fylgdi þeim.

Umræður um málið stóðu í fimm stundir að því er segir í fundargerð. Yfir tuttugu ræður voru fluttar áður en gengið var til atkvæða um tillögu Eiríks. Nafnakall var viðhaft. Mun þetta vera eina skiptið í allri sögu Búnaðarfélagsins sem sá háttur var við hafður við afgreiðslu mála. Tillaga Eiríks var samþykkt með 13 atkvæðum gegn 12 svo ekki gat munurinn orðið minni. Ekki verður þeirri hugsun varist að viðhorf félagsmanna til stjórnmála hafi að einhverju leyti ráðið afstöðu þeirra til hins umdeilda máls – rétt eins og gerst hafði þegar um það var fjallað á landsvísu. En málinu var ekki lokið.

Lög Búnaðarfélagsins voru enn til umfjöllunar veturinn 1937. Þá lagði stjórnin fram tillögu til lagabreytinga því aðalfundur félagsins árið 1936 hafði falið henni tillögugerð . . . „að því er viðvíkur réttindum meðlima félagsins innbyrðis í félaginu.“ Tillaga stjórnarinnar var þessi:

Reglulegir félagar eru þeir einir, sem hafa jörð til ábúðar, svo og þeir þurrabúðarmenn, sem hafa 2/3 hektara af ræktuðu landi til umráða, samkvæmt samningi til fleiri ára. Vottorð trúnaðarmanns útheimtist um að land sé ræktað. Aðrir eru aukafélagar.

Í umræðum kom fram breytingartillaga frá Andrési Guðmundssyni á Brekku:

Fullgildir eru þeir, er hafa búsforráð í sveit og þeir er hafa minnst tvo hektara af ræktuðu og brotnu landi. Þeir er minna land hafa til nytja teljast félagar með takmörkuðum réttindum og hafa þeir ½ atkvæði, enda borgi þeir ekki nema ½ árstillag. Aukafélagar með engar búsnytjar, hafa ekki atkvæðisrétt, aðeins málfrelsi og tillögurétt á fundum. Hver félagsmaður, sem skuldar tveggja ára félagsgjald, missir atkvæðisrétt sinn, þar til hann hefur greitt þá skuld sína við félagið.

Fór svo eftir miklar umræður að tillaga Andrésar var samþykkt með 13 atkvæðum gegn 7. Fleiri breytingar gerði aðalfundurinn á lögunum, m.a. þá að tillögu Andrésar á Brekku að

Heyskapur í Haukadal – í Höll; heyflekkir í rifgörðum allt fram á Miðhól. Myndina tók Hans Kuhn sumarið 1938, (Þjóðminjasafn). Sjá einnig bók Hans Kuhn og Reinhard Prinz: Úr torfbæjum inn í tækniöld II (2003), 366-367.

kjörgengir í stjórn félagsins væru aðeins . . . „fullgildir félagar búsettir í sveit.“ Ekki virtust fundarmenn þó telja að landi væri náð hvað lagabreytingar snerti því enn var kosin nefnd til þess að athuga félagslögin og gera tillögur þar um til næsta aðalfundar. Kom því næst að stjórnarkjöri. Um það segir í fundargerð: „Í tilefni af því urðu töluverðar umræður um framkomu ýmissa félagsmanna á fundi félagsins 15. desember 1936, og komu fram harðar árásir á stjórnina, sem henni fundust ómaklegar; svaraði hún fyrir sig og margir félagsmenn tóku svari hennar.“ Fram kom tillaga með ákúrum á stjórnina og áskorun um að meiri hluti hennar, þeir Ólafur Hákonarson í Yztabæ og Jón Þórarinsson í Neðsta Hvammi, segðu af sér. Ólafur, sem var formaður, kvaðst ekki taka tillöguna til greina. Jón sagði sig hins vegar þegar úr félaginu og gekk af fundi. Var Andrés á Brekku kjörinn stjórnarmaður í hans stað.

Eftir þetta kyrrðist um í félaginu. Atburðina má taka sem dæmi um nokkra spennu á milli manna vegna breyttra búskaparhátta – á milli þorpsbænda og þeirra sem lögbýli sátu – sem og vegna þeirra deilna sem þá voru á landsvísu um framkvæmd gildandi jarðræktarlaga. Árið 1938 samþykkti aðalfundur ný félagslög sem stóðu að meginstofni óbreytt það sem eftir var af starfstíma Búnaðarfélagsins. Sérstök ástæða er til þess að nefna nýmæli sem í þeim var:

Nú vill félagsmaður ráðast í stórvirki, eða einhverja þá framkvæmd, er mikinn vinnukraft þarf til. Getur þá aðalfundur, eftir ósk hans og tillögum stjórnar, ákveðið, að aðrir félagsmenn veiti honum hjálp til að framkvæma verkið.

Deilurnar virtust því ekki hafa haft djúpstæð áhrif í félaginu. Mikið var um samhjálp bænda í hreppnum að ræða við verklegar framkvæmdir, þótt hvergi finnist í bókum félagsins bein aðalfundarsamþykkt fyrir því – í samræmi við lagaákvæðið frá 1938.

MÁLFUNDADEILDIRNAR Á fundum Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps hefur fleira verið rætt en hin hreinræktuðu búnaðarmál svo sem nærri má geta. Hér má til dæmis minnast framtaks, sem rekja má til tillögu Stefáns Guðmundssonar í Hólum:

Fundurinn ályktar að reyna að vekja áhuga manna fyrir vaxandi félagsþroska, með því að skipta félaginu [hreppnum] niður í fjórar deildir

1. frá Hvammi til Kjaransstaða 2. frá Brekkuhálsi að Hólahrygg 3. frá Hólahrygg að Hálsum 4. Keldudalur og Nesið

Hvert þessara svæða kjósi sér formann til þess að koma á fundi einu sinni í mánuði, til þess að ræða áhugamál búnaðarfélagsins og mál, sem varða hreppsfélagið í heild. Elsti maður hvers svæðis boðar til fyrsta fundar.

Ekki er vitað hvernig tókst til með framkvæmd tillögunnar. Þó er til gerðabók annarrar deildar, þ.e. málfundadeildar Brekku- og Kirkjubólsdals. Sýnir hún að deildarfundir voru haldnir nokkrir veturna 1943 og 1944. Fundirnir voru haldnir til skiptis á bæjunum. Formleg framsaga var höfð um mál og ítarlegar fundargerðir færðar. Ýmis mál voru tekin til umfjöllunar í deildinni. Af þeim má nefna varnir gegn landbroti Sandár, ítölumál og um beitartoll á fé úr kaupstaðnum, frumvarp Gunnars Bjarnasonar um ráðunautaþjónustu o.fl., og afurðasölumálið en um það var rækilega fjallað eins og nánar verður vikið að. Menn ræddu um sjálfstæðismálið þegar 17. júní 1944 nálgaðist og . . . „voru flestir á því að fá sér fána og vinna sem mest að framgangi sjálfstæðismálsins með góðri þátttöku í atkvæðagreiðslunni [um lýðveldisstofnunina].“

Í ljósi mikillar umræðu sem varð um og upp úr síðustu aldamótum um félagskerfi landbúnaðarins er athyglisvert að skoða tillögu sem Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli lagði fram á einum þessara málfunda í deildinni (nr. 2). Hún gekk út á að sameina öll félögin sem tilheyra landbúnaðinum í hreppnum: Búnaðarfélagið, Fóðurbirgðafélagið, Nautgriparæktarfélagið og Búnaðarsjóðinn. Skyldu öll þessi félög vera undir einni fimm

manna stjórn, þar sem hver meðstjórnandi væri fulltrúi sinnar greinar. Í umræðu um tillöguna kom m. a. fram það sjónarmið að menn hefðu ekki enn nægan félagsþroska til slíkra breytinga og að þær yrðu því til einskis ef hann væri ekki þroskaður fyrst! Varð svo ekki meira úr þeim.

Það vekur athygli að Þingeyri var ekki með í afmörkun deildasvæðanna. Voru þó margir þorpsbúar félagsmenn Búnaðarfélagsins. Hugmyndin kann að einhverju leyti hafa verið sú að í deildunum gæfist bændum betra tækifæri til þess að ræða sérmál sín. Val viðfangsefna á fundum annarrar deildar bendir meðal annars til þess.

AFURÐASALAN Lengi vel snerust viðfangsefni Búnaðarfélagsins fyrst og fremst um það hvernig bæta mætti búreksturinn með aukinni túnrækt til fóðuröflunar. Það virðist ekki hafa verið fyrr en um miðjan fjórða áratug tuttugustu aldar sem afurðasölumál komu fyrst upp á félagsfundi. Að einhverju leyti var það endurómur umræðu meðal bænda almennt í landinu en um það leyti voru afurðasölumál landbúnaðarins í mikilli deiglu. Það ýtti sýnilega undir umræðuna í Búnaðarfélagi Þingeyrarhrepps. Vaxandi sérhæfingar gætti í búrekstri félagsmanna og búvörumarkaður fór stækkandi á Þingeyri.

Á aðalfundi Búnaðarfélagsins 20. janúar 1934 hóf Stefán Guðmundsson í Hólum máls á mjólkursölunni (til Þingeyrar) og taldi of lágt verð að selja mjólkina á 25 aura lítrann. Kjörin var nefnd „til að koma á skipulagi á afurðasölumál bænda.“ Ekki virðist sú nefnd hafa skilað áliti, en réttum áratug síðar voru afurðasölumálin til umræðu í Málfundadeild Brekku- og Kirkjubólsdals, þeirri er fyrr var sagt frá. Þar samþykktu bændur m.a. eftirfarandi ályktun:

. . . kominn upp á faktorinn

Miklar breytingar urðu á afurðasölu bænda á tímum Búnaðarfélagsins. Taka má dæmi frá haustinu 1904 en þá þurfti Guðmundur Nathanaelsson á Kirkjubóli að koma fé sr. Kristins Daníelssonar á Söndum í kaupstaðinn. Sr. Kristinn var þá nýfluttur frá Söndum og tekinn við Útskálaprestakalli. Guðmundur skrifaði presti svo, fyrst 11. ágúst 1904:

Nú fyrst þann 9. þ.m. gat eg náð í Wendel [faktor á Þingeyri] til að semja við hann um verð á fénu yðar og varð niðurstaðan, að hann lofaði 18 aurum fyrir pundið af kjötinu yfirleitt, 25 aura fyrir pundið af gærunum líka yfirleitt og 35 aura fyrir pundið af mörnum og 1 kr. fyrir innan úr kindinni. Mér var ekki í neinu falli mögulegt að komast lengra og síst þar sem hann setti fyrir sig peningaborgunina og þóttist hann þá gjöra okkur vel. Að reka [féð] til Ísafjarðar gat eg ekki með neinu móti séð að svaraði kostnaði . . .

Og úr bréfi Guðmundar dagsettu 16. október sama ár:

Jeg rak [féð] til Þingeyrar þann 21.[sept.]. Þegar eg kom á Þingeyri skellir hann á því óviðri, að það varð ekkert slaktað þann dag, og var jeg þá kominn upp á faktorinn [Wendel], sem reyndist mér svo mæta lipur í þeim snúningum, og varð eg þar þangað til daginn eftir, af því að mig langaði til að sjá um slöktun á því og vigtun. . .

Þar sem vitað er að bændur hér innan hrepps selja nokkrar landbúnaðarafurðir sínar misháu verði, sömu vörutegund, en slíkt misræmi veldur óáænægju meðal kaupenda og skaða mörgum seljendum þá leggur fundurinn til, að bændur komi sér saman um sama verð á sömu vörutegund, án þess þó að það brjóti í bág við fastákveðið verð verðlagsnefndar.

Hæsti-Hvammur. Steinhúsið byggt á grunni hægri hluta torfbæjarins. Þilin snúa til austurs. Þversum að bæjarbaki er baðstofa, á öðru húsi frá vinstri eru bæjardyr, þá skemma og lengst t.h. er eldiviðargeymsla (mógeymsla). Skúrinn við steinhúsið er matvælageymsla (búr). Timburbyggingin lengst. t.h. er hlaða sem var svo gisin að hún virkaði eins og súgþurrkunarhús. Kálgarður er framan við bæinn og framan við hann „Hlaðbrekka“. Hvítklæddu konurnar eru Ágústa Guðjónsdóttir og Ingibjörg Kristjánsdóttir. Sveinn Þorvaldsson silfur- og gullsmiður 17981834 bjó þarna. Þarna bjuggu tvær fjölskyldur er myndin var tekin líklega á milli 1935-´40. (Minjasafnið á Akureyri, ljósm.: Jón og Vigfús).

Kosin var nefnd til að vinna að málinu „með því að fá helst alla bændur til samstarfs og ákveða verð, sem allir geta sér að skaðlausu gengið að.“ Á þessa samþykkt mun lítið hafa reynt því brátt komst á farsæl skipan á landsvísu sem greiddi að mestu úr þeim vanda sem við var að glíma. Samþykktirnar gefa þó dálitla hugmynd um það hvernig afurðasölumálin blöstu við bændum í Þingeyrarhreppi en frá þeim er annars nánar sagt í VI. kafla.

Vaxandi mikilvægi þess málaflokks leiddi öðru frekar til þess að gengist var fyrir stofnun Stéttarsambands bænda. Þann 7. júlí 1946 kusu bændur í Þingeyrarhreppi atkvæði um skipulag Stéttarsambandsins. Á kjörskrá voru 39 félagar; 32 greiddu atkvæði, 4 voru fjarverandi en 3 neyttu ekki atkvæðisréttar. Verður því ekki annað sagt en að áhugi bænda á málefnum stéttarinnar hafi verið mikill.

HEIMSÓFRIÐUR, DÝRTÍÐ EN FRAMFARIR ÞÓ Heimsstyrjöldin síðari varð íbúum Þingeyrarhrepps þung í skauti. Framfarahugur virðist þó hafa verið í bændum framan af því tímabili. Á aðalfundi Búnaðarfélagsins 1942 var gerð grein

fyrir jarðabótum félagsmanna á liða árinu. Jarðabótamenn voru þá 48 að tölu og túnræktin nam alls tæpum 7 hekturum. Þá segir í fundargerð: „Auk þess hefir nokkuð verið unnið að jarðabótum sl. haust bæði á túni og óræktuðu landi, svo að þrátt fyrir dýrtíð og stríð hafa jarðabætur orðið hér svipaðar að vöxtum og að undanförnu, þegar dráttarvélin hefir verið allt árið í hreppnum.“

Á aðalfundinum 1940 hafði trúnaðarmaður Búnaðarfélags Íslands, Jóhannes Davíðsson í Neðri Hjarðardal, getið þess að „komið gæti til mála, að bændur yrðu að taka hestana meira til jarðvinnslu en verið hefur undanfarið.“ Menn óttuðust siglingastöðvun og vöruskort. Í svipaða átt hneig ábending Sigurjóns Sveinssonar á Granda um „að bændur gerðu of lítið af kornrækt, sérstaklega til alifuglafóðurs.“ Hér má raunar geta þess að samkvæmt jarðabótaskýrslum árin 1938 og 1940 voru kornakrar í hreppnum, smáir að vísu – fyrra árið hjá Gunnari á Hofi en seinna árið hjá Jóni Arasyni í Hæsta Hvammi. Ekki er vitað til þess að korn hafi í annan tíma verið ræktað á seinni tímum í Þingeyrarhreppi, með þeirri undantekningu þó að á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins var kornræktartilraun gerð á Sveinseyri sumarið 1998. Hún skilaði furðu góðum árangri.99

Í stríðsbyrjun varð Búnaðarfélagið að falla frá stækkun steypumóta sem það kom sér upp árið 1936, því „ekkert efni hefði fengist, sem nothæft hefði verið“ eins og segir í fundargerð. Er leið á seinni hluta stríðsins dró úr framkvæmdum bænda, einkum jarðræktinni. Þannig mældust túnrækt og nýrækt í hreppnum aðeins 0,6 hektarar árið 1943.

JARÐÝTAN OG SKURÐGRAFAN Á dögum heimsstyrjaldarinnar síðari komu tvær vinnuvélar sem áttu eftir að valda straumhvörfum í framvindu undirstöðuþáttar landbúnaðar hérlendis – túnræktinni. Hafði þó margt gerst í þeim efnum. Þetta voru beltavélin sem brátt fékkst með ýtitönn – jarðýtan, og skurðgrafan. Á landsvísu var ákveðið að greiða fyrir notkun stórvirkra vinnuvéla með stuðningi ríkisvaldsins á grundvelli laga sem sett voru um bygginga- og ræktunarsamþykktir í sveitum, lög nr. 7 1945. Búnaðarsamband Vestfjarða setti sér ræktunarsamþykkt samkvæmt þeim árið 1946. Á grundvelli hennar varð til Ræktunarfélag Vestur-Ísafjarðasýslu, oftast kallað Ræktunarsambandið. Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps samþykkti á aðalfundi sínum 24. mars 1948 að ganga til liðs við Ræktunarsambandið með greiðslu stofngjalds er var 3.000 kr. Með þeirri gerð lauk að mestu afskiptum Búnaðarfélagsins af ræktunarmálum. Samgöngur á landi voru að batna og til sögunnar að komu vélar sem gátu komist yfir vinnu á mun stærri svæðum en áður höfðu þekkst.

Ræktunarsambandið festi kaup á vélum til jarðvinnslu sem síðan fóru um félagssvæðið, sýsluna, hvert vor um árabil, brutu land og unnu til túns, bæði með endurvinnslu hinna gömlu túna sem og nýrækt. Má segja að á flestum bæjum í hreppnum hafi þessar vélar komið að

99 Hólmgeir Björnsson og Þórdís Anna Kristjánsdóttir (ritstj.): „Jarðræktarrannsóknir 1998“. Fjölrit Rala nr. 198, (1999), 63.

Áhuginn á mýrunum

Eg komst fyrir nokkrum árum yfir fá hundruð af Haukadal, aðeins 1/12 jarðarinnar og fékk þá í skiptunum allstórt mýrarstykki, sem lá innagarðs, móti öllu tilkalli til útengis, en þetta mýrarstykki liggur ágætlega vel við, með afardjúpum jarðvegi grjótlausum, og hæfilegum halla og er sem næst 6 vallardagsláttur. Mér er því mikið hugleikið að koma þessu í verk, eigi svo mjög vegna hagnaðarvonarinnar, heldur af því, að hér liggur allmikið land rétt við túnið í mestu vanrækt, en bændur eru að basla við að slá fjarlægar mjög rýrar mýrar, þar sem maður sjaldnast fær meira en 3-4 kapla á dag af misjöfnu mýrargrasi og oft minna. Það er trú mín, að ef mér heppnast þetta mitt fyrirtæki, þá muni þeir eigi lengur geta látið það viðgangast að land það, er eg nefndi, liggi lengur í órækt, og þá gæti orðið gaman að sjá þessa eign. . .

Úr bréfi Matthíasar Ólafssonar í Haukadal til Torfa skólastjóra í Ólafsdal, dags. 18. desember 1912.

Gunnar Friðfinnsson vinnur að sléttun túnspildu á Kirkjubóli vorið 1961 með IHC TD 9 jarðýtu Ræktunarsambandsins sem þarna er beitt fyrir diskaherfi. Fjær vinnur Guðmundur bóndi Jónsson að grjótnámi.

ræktun: International TD6, TD9 og síðar TD14, með diskaherfum og rótherfum, en einnig plógi, jafnvel Skerpiplógi, eftir því sem átti við eftir gerð og gæðum landsins. Árleg ræktun nam mest 22,5 ha, árið 1953, þar af voru 15,9 ha nýrækt. Þótt gamli Fordson undir stjórn Gunnars á Hofi hafi dugað vel og valdið byltingu, voru nú komin til sögunnar tæki sem enn bættu afköstin við túnræktina.

En nýja tæknin ruddi fleiri brautir. Með jarðýtunum var einnig unnt að bæta samgöngur með vegagerð um sveitir. Á þessum fyrstu árum vélanna opnuðust til dæmis bílvegir fyrir Dýrafjörð, yfir Hrafnseyrarheiði og út yfir Hálsa og Ófæru til Keldudals. Jarðýturnar komu sér líka vel við snjóruðning. Bæjarleiðir styttust. Samgöngur og samskipti fólksins breyttust verulega.

Mýrlendi hafði allvíða verið undirstaða útheysskaparins. Nú tóku menn að renna hýru auga til mýranna sem túnræktarlands. Því skoraði aðalfundur Búnaðarfélagsins vorið 1948 á stjórn Ræktunarsambandsins „að hraða því eins og hægt er að fá leigða skurðgröfu nú í vor.“ Slíkar vélar voru þá ríkiseign en útgerð þeirra stjórnaði Vélasjóður fyrir hönd ríkisins. Bændur í hreppnum máttu bíða eftir skurðgröfunni enda biðu þeirra véla afar mikil verkefni á landsvísu. Það var fyrst sumarið 1955 sem skurðgrafa kom í hreppinn, Priestman Wolf-grafa með dragskóflu frá Vélasjóði. Það sumar og raunar fram á haust gróf hún um 20 km af skurðum í Þingeyrarhreppi – um 86 þúsund rúmmetra. Lítils háttar var grafið vorið eftir, eða um 3,6 km, mest á vegum Þingeyrarhrepps í Sandhúsamýrum (Glámumýrum).

Votheysgryfja á Kirkjubóli, steypt sumarið 1954 með mótum þeim sem Búnaðarfélagið hafði þá nýlega keypt. Gryfjur úr þeim risu á nokkrum bæjum. Næst á myndinn má sjá trékubba sem marka brún hringlaga votheystóftar sem þarna var grafin og hlaðin að innan með torfi. Gryfjan sú var gerð um 1930 og stýrði Gunnar Guðmundsson á Hofi gerð hennar. Með tilkomu „traktorsins“ um 1930 óx túnræktin en tvöfaldaðist rúmlega þegar vélar Ræktunarsambandsins komu til

sögu um 1950 – jarðýturnar. Nýtt land var brotið og gömlu túnin sléttuð. Það ræktunarskeið stóð út sjötta áratuginn.

Þar með gátu bændur ráðist til atlögu við mýrarnar og látið heilgrös og heyvinnuvélar leysa starir og orf af hólmi. Á þessum árum – um og upp úr 1955 – lagðist heyskapur á engjum að mestu af í hreppnum. Eftir 1960 var hann með öllu úr sögunni. Töðufengur óx úr 5-7 þúsund hestburðum á ári í 9-10 þúsund hestburði. Hlöður voru byggðar. Búnaðarfélagið gekkst árið 1954 fyrir kaupum á mótaviði til byggingar votheysgeymslna (gryfjum). Kostaði hann liðlega 7.000 kr. og í fjáröflunarskyni var m.a. stofnað til hlutaveltu á Þingeyri um haustið. Allmargir bændur steyptu votheysgryfjur. Komu þær sér vel strax árið eftir þegar óminnilegir óþurrkar gengu sumarlangt. Mót þessi reyndust notadrjúg við byggingar í sveitinni uns steypumót Búnaðarsambandsins komu til sögunnar (Húsagerðarsamþykktin).

BÚVÉLARNAR OG ÁHRIF ÞEIRRA Nú verður um stund vikið frá félagssögunni að þætti sem mikil áhrif hafði á framvindu búskapar í Þingeyrarhreppi – rétt eins og í öðrum sveitum. Sá þáttur er búvélarnar; ný verktækni, sem létti mannshöndinni störfin, leysti hana jafnvel að öllu leyti af hólmi. Vinnuaflsþörf búanna minnkaði án þess að afurðamagn þeirra skryppi saman. Það óx jafnvel og stundum til muna. Kom sér enda vel, því spurn annarra atvinnugreina eftir vinnuafli, svo sem þeirra sem mynduðu Þingeyrarþorp, svo og þéttbýlisins „fyrir sunnan“, fór vaxandi. Landbúskapurinn þurfti einnig að tæknivæðast. Það var sá þungi súgur sem tók að líða yfir allar sveitir á fimmta áratug síðustu aldar.

Skrifarinn telur að hestasláttuvél Gunnars á Hofi, sem áður er getið og Búnaðarfélagið studdi hann til kaupa á, marki upphaf vélvæðingar utanstokks bústarfa í hreppnum. Það gerðist árið 1926. Má þó hafa í huga að nokkru fyrr, eða á fyrsta áratug aldarinnar, komu fyrstu skilvindurnar á bæi þar – engu ómerkari búverkfæri en mörg þeirra er síðar áttu eftir að snúast um tún og grundir.

Með Fordson-dráttarvélinni 1929 kom fyrsti fulltrúi vélarafls til ræktunarverka í Þingeyrarhreppi. Hún var sá eini næsta áratuginn og vel það. Á þeim tíma gerðist margt í búvélasmiðjum heimsins. Farið var að hugsa fyrir dráttarvélum sem hentuðu hverju búi. Krafan var um meiri afköst og meiri framleiðni vinnuaflsins. Til þess þurfti vélar.

Árið 1942 kom og var sett saman á Þingeyri dráttarvél af gerðinni Farmall W4, frá International Harvester Co í Chicago.100 Hana höfðu Kjaransstaðamenn keypt í nafni Búnaðarfélags

Gunnar á Hofi fór um sveitina á sameignarvélinni Fordson og vann að túnasléttun. Þannig skapaðist stærri grundvöllur, í bókstaflegri merkingu, fyrir notkun véla við slátt og heyskap. Þessi mynd, sem er úr safni GG á Hofi, gæti hafa verið tekin um eða skömmu eftir 1930. Þarna er plægt. Á myndina vantar þann sem stýrði plógnum; því hlutverki gegndi gjarnan Magnús Lárusson í Efri-Mið-Hvammi að sögn Gunnars.

100 Það sem hér á eftir stendur er að stofni til skrifað eftir samtali mínu við Guðbrand Stefánsson bónda í Hólum 14. ágúst 1991. Hann var mikill áhugamaður um vélar og tæki og hafði sem unglingur fylgst vel með þegar tímar þeirra gengu í garð.

Þingeyrarhrepps. Þá höfðu búnaðarfélög nefnilega forgang að slíkum kaupum enda hugsunin sú að vélarnar nýttust á félagslegum grunni. Að nokkru marki gerðist það með Kjaransstaðavélina, sem hvað mest var notuð til jarðvinnslu með viðeigandi verkfærum. Óskar Friðfinnsson á Kjaransstöðum sótti námskeið á Hvanneyri vorið 1944 í meðferð dráttarvéla, sem fulltrúi Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps.101

Bylgja aflvæðingar íslenskra sveita með dráttarvélum var nú að rísa og náði hún strax til Þingeyrarhrepps. Farmall A-dráttarvél kom að Brekku árið 1945 og árið eftir sameinuðust bændurnir í Hólum og Meðaldal um kaup á slíkri vél, sem þá kostaði um sex þúsund krónur. Grandamenn fylgdu fast á eftir. Farmall-vélunum fylgdu sláttuvélar. Koma þeirra auðveldaði heyskap til muna, ekki aðeins á þessum bæjum heldur nutu nágrannar einnig góðs með slætti vélfærra bletta. Plóga fengu menn einnig með Farmölunum en þeir dugðu þó lítt til plæginga nema í matjurtagörðum.

Eiríkur kaupfélagsstjóri Þorsteinsson keypti Massey Harris dráttarvél (20 G) á árunum 1946 eða 7 sem hann síðar lánaði Einari Guðmundssyni á Bakka. Sú vél var búin öflugri sláttuvél, en einnig moksturstækjum, sem þóttu mikil nýjung. Reyndust þau þó ekki sem skyldi. Slík tæki munu einnig hafa komið á Kjaransstaðavélina.

Um og upp úr 1950 fetuðu fleiri bændur sömu slóð: Fyrstu Ferguson-vélarnar komu að Bakka og í Mið-Hvamm, sameignar-Ferguson-vélar að Kirkjubóli og Múla, og að Vésteinsholti og Sveinseyri. Þá sameinuðust Miðbæjar- og Húsatúnsmenn um kaup á Massey-Harris Pony dráttarvél.

Þá má nefna að vorið 1955 kom fyrsta dísel-dráttarvélin í hreppinn. Það var Deutz (F1l 514), þeirra feðga Kristjáns og Finnboga Lárussonar í Hæsta-Hvammi. Á Ásgarðsnesi ráku þau Gunnar og Ólafía umfangsmikinn heyskap sinn á Söndum og víðar með smávöxnum Farmall Cub, þeim fyrsta sem í hreppinn kom.

Á Ásgarðsnesi var um tíma rekinn umfangsmikill kúabúskapur. Sigrún J. G. Sigurðardóttir kaupakona ekur Farmall Cub sem dregur McCormick snúnings- og múgavél. Myndin var tekin sumarið 1957 (ljósm. frá Helga Magnúsi Gunnarssyni).

101 Freyr 39 (1944), 79.

Þannig rak hver dráttarvélin aðra. Jeppasagan er annar kafli. Enginn nýtti sér jeppa til búverka í sama mæli og Gunnar á Hofi gerði með fjölskyldu sinni. Á því sviði tækninnar var Gunnar einnig brautryðjandi; að Hofi kom Willys-jeppi árið 1946.102 Willys-landbúnaðarjeppar komu síðar í Höll og að Arnarnúpi; einnig í Efri-Mið-Hvamm (1956), að ógleymdum „Rússunum“ að Múla, Ásgarðsnesi og Vésteinsholti um og eftir 1956. Land-Rover tíminn rann svo upp fyrir alvöru 1962 með Hóla-jeppanum, þótt allnokkru áður hafi jeppi þeirrar tegundar komið til Andrésar á Brekku.

Eitt var vélaaflið en annað verkfærin sem breyttu því í gagnlega vinnu. Þegar er nefnd hestasláttuvélin á Hofi. Þangað kom einnig rakstrarvél um svipaði leiti (1926), einnig fyrir dráttarhest. Fleiri bændur fetuðu í spor Hofsbænda og keyptu rakstrarvélar fyrir hesta, meðal annars afi minn og nafni á Kirkjubóli. Hún varð því sú fyrsta sem mér var trúað fyrir; Deering hét hún, sem unun var að vinna með í þurrum flekk á sléttum og sólvermdum töðuvelli.

Flestum dráttarvélunum fylgdu sláttuvélar eins og þegar er nefnt en síðar fóru að koma fleiri heyvinnuvélar ætlaðar vélarafli. Til heysnúnings kom hvað fyrst gafflasnúningsvél að Granda; síðar snúningsvélar að Brekku, í Hóla og að Hofi, 1948 og 1949.

Gunnar á Hofi varð fyrstur til þess að reyna súgþurrkun heys, árið 1947; fyrstur Vestfirðinga ásamt Sigurði Þórðarsyni á Laugabóli við Djúp.103 Kjaransstaðamenn fylgdu fast á eftir og Stefán í Hólum árið 1955. Aflgjafarnir voru víðast olíumótorar, og nýttust sumir einnig til ljósa. Vatnsaflsvirkjun var sett í Meðaldal 1927, sú fyrsta í hreppnum. Síðar risu vatnsaflsvirkjanir á Kjaransstöðum og á Ketilseyri. Vindrafstöðvar voru settar upp á nokkrum bæjum. Það var hins vegar ekki fyrr en á árunum 1969-1973 að samveiturafmagn var lagt um sveitina.

Líta ber á framantalda punkta sem „staka jaka á reki“ í þeim straumi verktæknibreytinga er urðu í sveitinni um miðbik síðustu aldar. Í verulegum atriðum komu til sögunnar nýir búhættir, sérstaklega hvað snerti jarðrækt og heyskap. Á sumum jörðum kusu bændur að stækka bú sín að fengnum meiri afköstum við heyöflun með vélknúinni verktækni. Aðrir kusu að hætta búskap og/eða snúa sér að öðrum framfærslukostum. Áfram voru þó flest ræktunarlönd á bæjunum nýtt. Búvöruframleiðslan varð síst minni. Þetta er hin alþekkta saga úr öðrum sveitum landsins.

Er þá mál að hverfa aftur að hinni eiginlegu sögu Búnaðarfélagsins.

BREYTTIR TÍMAR Um 1960 urðu ýmsar breytingar á búskap í Þingeyrarhreppi. Á árunum 1954-1962 brugðu margir búi og jarðir lögðust í eyði. Má segja að þá hafi röskun byggðarinnar í sveitinni orðið mest. Eftir stóðu bú sem að meira eða minna leyti löguðu sig að nýjum tímum, hvað

102 Bjarni Guðmundsson: „Vökustund við vélahljóð“. Frá Bjargtöngum að Djúpi. 9, 2006, 33-42. 103 Heima er bezt. (9.-10.), 1984, 279.

ræktun og tækni snerti. Áfram var Búnaðarfélagið hinn sameiginlegi vettvangur bændanna, þar sem ýmis framfaramál bar á góma, þótt ekki væri starf félagsins umfangsmikið; það var ef til vill meira til þess að gegna skyldum sínum sem hluti af félagskerfi bænda á landsvísu. Geta má nokkurra viðfangsefna á fundum Búnaðarfélagsins:

Árið 1964 var sett nefnd til viðræðna við sveitarstjórn um breytta skipan fjallskila í sveitinni, m.a. í kjölfar breyttrar byggðar. Félagið keypti árið 1966 steypuhrærivél til sameiginlegra nota. Árið 1972 knúði félagið á um að fá kýr í hreppnum sæddar og árið 1977 gekk félagið til aðildar við nágranna-búnaðarfélögin um húsagerðarsamþykktina sem fyrr var nefnd (steypumótin).

Þá fjallaði Búnaðarfélagið um ýmis hagsmunamál bændanna í hreppnum, svo sem um rafvæðingu frá samveitu (1964), og að fá ráðunautaþjónustu á sviði búfjárræktar og dýralækni til starfa á Ísafirði (1968). Búnaðarfélagið hvatti eindregið til þess að sláturhúsið á Þingeyri yrði endurbætt fremur en að reist yrði sameiginlegt sláturhús á Ísafirði (1978). Þangað þótti bændum í hreppnum of langt yrði að sækja, og töldu líka að erfitt mundi reynast að manna sláturhús þar. Á aðalfundunum 1984 og 1985 snerist umræðan mjög um riðuveiki sem þá hafði nýlega herjað grimmilega á sauðfé sunnar á Vestfjörðum og ógnað afkomu bænda þar.

FRÆÐSLA OG LEIÐBEININGAR Með beinum og óbeinum hætti hefur Búnaðarfélagið komið að búnaðarfræðslu og leiðbeiningum. Á fyrstu árunum gerðist það með ráðningu og starfi búfræðinganna sem fóru bæ frá bæ og unnu að jarðabótum fyrir bændur og með bændum. Með búfræðingunum barst ný verkþekking og hún breiddist út með þeim.

Um miðja síðustu öld var ekki hlaupið að því að kaupa efni til framkvæmda. Hér hefur Búnaðarfélagið fengið heimild Fjárhagsráðs til þess að kaupa 180 rúmfet af timbri í steypumót til votheysgeymslubyggingar. Einstakir bændur þurftu svo að sækja um fjárfestingaleyfi fyrir hverri geymslu, þar með talið fyrir timbri í þök yfir þær.

Þegar Búnaðarsamband Vestfjarða var stofnað 1907 hófst þáttur fræðslufunda og námskeiða um landbúnaðarmál. Það mun hafa verið í janúar 1910 sem fyrsta búnaðarnámskeiðið var haldið. Það var á Þingeyri og þar fluttu fyrirlestra Hannes Jónsson ráðunautur Búnaðarsambandsins, og Kristinn Guðlaugsson búfræðingur og bóndi á Núpi.

Árið 1923 var haldið bændanámskeið í Haukadal að tilhlutan Búnaðarsambandsins. Stóð það dagana 18.-21. mars. Það var vel sótt, oftast 30-50 áheyrendur.104 Alls voru fluttir 16 fyrirlestrar. Það gerðu þeir Jón Á. Guðmundsson ostagerðarmaður (6), Sigurður Sigurðsson búfræðingur/ ráðunautur (4), Hannes Jónsson ráðunautur (5) og Ólafur Ólafsson kennari (1). Jón fjallaði um meðferð mjólkur og ostagerð, Sigurður um hirðingu á kúm, túnrækt, votheysgerð og verkfæri. Hannes ræddi um sjúkdóma í kúm og óþrif í fénaði og Ólafur um siðfræði forfeðranna.

Tveggja daga námskeið var haldið á Þingeyri í marsmánuði árið 1936. Þar voru fyrirlesarar ráðunautarnir Ragnar Ásgeirsson, Gunnar Árnason og Ólafur Sigurðsson frá Búnaðarfélagi Íslands.

Í febrúarmánuði 1955 var haldinn fræðslufundur á Þingeyri að tilhlutan Búnaðarfæðslu Búnaðarfélags Íslands er svo nefndist. Þar mættu „flestir bændur úr hreppnum.“ Frummælendur voru ráðunautarnir Agnar Guðnason og Þorsteinn Valgeirsson. Fjallað var um jarðrækt og hvatt til stofnunar nautgripa- og sauðfjárræktarfélags. Þar voru einnig sýndar skuggamyndir af verðlaunagripum, kúm, nautum og sauðfé og ennfremur af vélum. Á þessum fundi var ákveðið „að áburðartilraunir undir eftirliti ráðunautanna yrðu framkvæmdar

Mynd þessi er talin hafa verið tekin á samfundi bændafólks úr Þingeyrarhreppi, af Ingjaldssandi og úr Önundarfirði einn sunnudag sumars um miðjan sjötta áratuginn. Kveðjusöngur við Holtssel á Bjarnardal (Einkasafn).

104 Skráðir voru 52 nemendur á námskeiðinu í skýrslu í Búnaðarriti (1925), 148.

næsta vor á Kirkjubóli“. . . Þær voru gerðar sumarið eftir (1955) og voru nokkrir bændur viðstaddir þegar sáning fór fram. Um haustið komu svo ráðunautarnir aftur og gerðu grein fyrir niðurstöðum tilraunanna á fundi með bændunum. Tilgangur tilraunanna var að vekja almenna athygli á gagnsemi tilbúins áburðar og þá einkum fosfóráburðar. Skyldu þær standa í fjögur ár.105 Framkvæmdaárið varð þó aðeins eitt.

Um 1960 tók Búnaðarsamband Vestfjarða að hafa fastráðna héraðsráðunauta í þjónustu sinni, ýmist einn eða fleiri. Við það færðist leiðbeiningastarfið í reglulegra og fastara form en verið hafði, bæði með heimsóknum ráðunauta til einstakra bænda svo og þátttöku ráðunautanna og annarra ráðgjafa í fundum Búnaðarfélagsins.

Síðast en ekki síst skal nefna fræðsluþátt, sem lengi hefur staðið, og alltaf vakið áhuga bænda í hreppnum. Það eru hrútasýningarnar. Þangað komu lengi vel ráðunautar Búnaðarfélags Íslands og Búnaðarsambandsins, dæmdu hrúta og fluttu ávörp og erindi um sauðfjárrækt. Þáttur þessi er dæmi um fræðslu og skipulag sem skilað hefur bændum góðum árangri í ræktunarstarfinu, sjá VI. kafla.

STJÓRNARMANNATAL Samkvæmt gögnum Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps hafa eftirtaldir menn skipað sæti í stjórn félagsins:

. . . áburðartilraunirnar á Kirkjubóli . . .

Skrifaranum er í barnsminni er ráðunautarnir tveir, Agnar og Þorsteinn frá Búnaðarfélagi Íslands, hófu tilraunirnar í maí 1955: Mældir voru og merktir reitir á túninu utan við bæinn. Áburður var veginn og borinn á reitina eftir sérstöku skipulagi. Bændurnir fylgdust áhugasamir með verkum ráðunautanna, sem þeir útskýrðu jafnharðan. Síðar um sumarið voru reitirnir slegnir og uppskeran vegin. Sýni úr henni voru sett í netpoka til þurrks í hjallinum á bænum. Skyldu þau síðan efnagreind fyrir sunnan. Má segja að það væri eina heyið sem náðist grænverkað á Kirkjubóli það magnaða óþurrkasumar! Um haustið var boðað til búnaðarfélagsfundar á Þingeyri þar sem fyrstu niðurstöður voru kynntar. . .

Formenn

Kristján Andrésson í Meðaldal Sr. Kristinn Daníelsson á Söndum Matthías Ólafsson í Haukadal

Sigurður Jónsson á Húsatúni Sr. Kristinn Daníelsson á Söndum Ólafur Hákonarson í Ystabæ

Einar Guðmundsson á Bakka 1889-1892 1892-1893 1893-1894 og 1904-1909 1894-1895 1895-1904 1909-1915 og 1922-1938 1938-1957

Þórður Jónsson á Múla 1957-1958

Knútur Bjarnason á Kirkjubóli

1958-1980 Kristján E. Björnsson á Múla 1980-1992 Guðmundur Grétar Guðmundsson á Kirkjubóli 1992-2011

105 Fræðslurit Búnaðarfélags Íslands. Nr. 22, 1956.

Meðstjórnendur

Guðmundur Eggertsson í Höll 1889-1892, 1894-1895 og 1897-1898 Guðmundur Nathanelsson á Kirkjubóli 1889-1891 og 1902-1905 Ólafur Guðbjartur Jónsson í Miðbæ 1891-1894, 1895-1897, 1898-1902 og 1905-1907

Benjamín Bjarnson á Múla Sigurður Jónsson á Húsatúni Kristján Andrésson í Meðaldal 1892-1893 1893-1894 1894-1895 og 1896-1902

Hákon Jónsson í Ystabæ Jóhannes Ólafsson á Þingeyri Sr. Þórður Ólafsson á Söndum

1895-1896 1902-1907 1907-1911 Carl Proppé á Þingeyri 1907-1911 Guðmundur Jónas Guðmundsson í Hólum 1911-1915 . . . Matthías Ólafsson í Haukadal 1911-1914 Jón G. Guðmundsson í Höll 1914-1915 . . .

Ritarar

Gjaldkerar

Jón Þórarinsson í Neðsta-Hvammi Andrés Guðmundsson á Brekku Gunnar Guðmundsson á Hofi

1922-1937 1937-1956 1956-1984 Sigurbjörn Sigurðsson á Ketilseyri 1984-1990 Sigrún Guðmundsdóttir á Kirkjubóli 1990-2011

Stefán Guðmundsson í Hólum 1922-1942

Sigurjón Sveinsson á Granda

1942-1948 Jens Kr. Gestsson í Miðbæ 1948-1952 Hjörleifur Guðmundsson á Húsatúni 1952-1955 Jón Guðmundsson á Vésteinsholti 1955-1962 Gunnar Jóhannesson á Ásgarðsnesi 1962-1982 Guðmundur Grétar Guðmundsson á Kirkjubóli 1982-1992 Guðmundur Sören Magnússon á Brekku 1992-2006 Guðrún Íris Hreinsdóttir á Ketilseyri 2006-2011

Ekki verður annað sagt en festa hafi einkennt forystu félagsins, ef frá eru talin fyrstu starfsárin. Þannig eru það aðeins ellefu menn sem gegnt hafa stöðu formanns á öllum starfstíma Búnaðarfélagsins.

AF AFMÆLUM OG VIÐURKENNINGUM Ekki hefur Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps varið miklum tíma til hátíðarhalda á ferli sínum eins og sjá má þegar stiklað er á helstu atburðum sem tengjast afmælisáföngum í félagssögunni.

Tilraun var gerð til þess að halda upp á hálfrar aldar afmæli félagsins árið 1939. Þátttaka í fagnaðinum var ekki næg og mun hann því hafa fallið niður. Í fundargerð er skráð það álit Eiríks kaupfélagsstjóra „að ekki kæmi til mála að halda umgetinn fagnað annarsstaðar en á

Þingeyri“ . . . Bendir það til þess að aðrir staðir hafi komið til álita svo sem samkomuhús Kvenfélagsins Hugrún í Haukadal sem þá var nýbyggt.

Hér má einnig geta þess að í fundargerðabók Búnaðarfélagsins var á fimmtíu ára afmæli þess, 25. mars 1939, teiknað svonefnt „minningablað“. Það gerði Sigurður E. Breiðfjörð á Þingeyri, sá einstaklega drátthagi maður. Á minningablaðið eru skráðar þrjár vísur, sennilega eftir Sigurð:

Hræðist eigi heimsins kvöl hatrömm þó að ýli, meðan stillt á stýrisvöl stæltar hendur hvíli.

Tjaldið ekki á tæpust vöð né tildrið undir friðinn, því hálfrar aldar ára röð er að baki liðin.

Eignist nú við birtu brún bjartan minnisvarða. Fyrir akra, engi, tún, áveitur og garða.

Á sjötugsafmæli félagsins árið 1959 var enn rætt um afmælisfagnað, nú í Haukadal um mánaðamótin apríl-maí. Heimildir eru ekki um að hann hafi verið haldinn. Snemmsumars árið 1967 gekkst Búnaðarfélagið hins vegar fyrir eins dags skemmtiferð um Vatnsfjörð, Barðaströnd, Minningarblað í gerðabók Búnaðarfélagsins frá 1938 sem í Sauðlauksdal og um firði til baka. Nær Sigurður E. Breiðfjörð teiknaði. tuttugu manns tóku þátt í ferðinni sem tókst með ágætum. Fleiri slíkar skemmtiferðir voru farnar á vegum félagsins. Níutíu ára afmælisins minntist Búnaðarfélagið með því að gefa Elliheimilinu á Þingeyri eitthundrað þúsund krónur, að tillögu þeirra Valdimars Þórarinssonar á Húsatúni og Gunnars Guðmundssonar frá Hofi. Á aðalfundi Búnaðarfélagsins 1987 var samþykkt tillaga um að fela formanni „að fá mann til að skrá sögu félagsins og stefna að því að koma henni út á 100asta afmælisárinu.“ Varð það ritið Úr aldarsögu Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps 1889-1989 sem hér hefur verið endurgert með nokkrum lagfæringum og viðbótum. Búnaðarfélagið hefur í áranna rás kjörið sér heiðursfélaga. Samkvæmt gerðabókum félagsins eru þeir þessir, taldir í þeirri röð sem þeir voru kjörnir:

1. Ólafur Hákonarson í Ystabæ, 1945. Ólafur hafði þá starfað í og á vegum Búnaðarfélagsins um nær fjörutíu ára skeið, m.a. í umferðarvinnu við jarðabætur og sem formaður félagsins í liðlega tuttugu ár; einnig var hann formaður Nautgriparæktarfélagsins. Ólafur var bóndi í

Ystabæ 1919-1945. 2. Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli, 1945. Bjarni hafði eins og Ólafur starfað lengi í félaginu og m.a. annast vörslu Búnaðarsjóðs þess. Hann var bóndi á Kirkjubóli 1909-1943. 3. Lárus Einarsson í Efri-Mið-Hvammi, 1956. Lárus stundaði þar búskap í meira en hálfa öld 1895-1951. Hann var orðinn félagi Búnaðarfélagsins árið 1891, þá vinnumaður í Hvammi. 4. Einar Guðmundsson á Bakka, 1957. Einar hafði þá verið formaður Búnaðarfélagsins frá árinu 1938. Hann var bóndi á Bakka 1929-1957. 5. Stefán Guðmundsson í Hólum, 1961. Stefán sat í stjórn Búnaðarfélagsins um nær tuttugu ára skeið. Hann var bóndi í Hólum1915-1970. 6. Gunnar Guðmundsson á Hofi, 1967. Gunnar starfaði í Búnaðarfélaginu í rúmlega sextíu ár, þar af sem ritari þess í tæp þrjátíu ár. Hann vann mikið að jarðabótum í hreppnum með

Fordson-dráttarvélinni, fyrstu dráttarvélinni sem í Fjörðinn kom. Hann var bóndi á Hofi 1923-1958. 7. Gunnar Einarsson í Miðbæ, 1983. Gunnar hafði verið félagsmaður í liðug þrjátíu ár og var þá elsti bóndi hreppsins. Hann var bóndi í Miðbæ frá 1952 til dauðadags, 1986. 8. Þórður Jónsson frá Hvammi, 1984. Hann var bóndi á Rana í Hvammi 1936-1949 en var félagsmaður til æviloka. 9. Sigurður Friðfinnsson á Ketilseyri, 1987. Sigurður hafði þá verið félagsmaður í nær fimmtíu ár og var bóndi til æviloka, 2002; hafði búið á Ketilseyri frá 1945. 10. Knútur Bjarnason á Kirkjubóli, 1987. Knútur var formaður Búnaðarfélagsins í liðlega tuttugu ár. Hann annaðist Búnaðarsjóð þess frá 1950. Hann var bóndi á Kirkjubóli til æviloka, 2013, í sextíu ár.

Að lokum er þess að geta að á aðalfundi 1942 var samþykkt „að félagið veiti árlega viðurkenningu fyrir búnaðarframkvæmdir innan félagsins á undanförnum árum eða eftirleiðis“ . . . Viðurkenningin skyldi vera áletraður peningur. Kosin var þriggja manna nefnd til þess að meta verðuga, ásamt stjórn Búnaðarfélagsins. Árið 1943 var þessi viðurkenning veitt Jóni Þórarinssyni, sem hafði verið bóndi í Neðsta Hvammi 1912-1933. Hann hafði starfað að búnaðarmálum í hreppnum. Hann gerði m.a. túnkort á bæjum í hreppnum um 1920, þegar öll tún og garðlönd á Íslandi skyldu mæld og kortlögð.106 Jón sat í stjórn Búnaðarfélagsins um skeið. Þetta mun hafa verið í eina skiptið sem þessi viðurkenning var veitt, ef til vill vegna þess að heiðursfélagakjör leysti hana af hólmi.

ÖNNUR BÚNAÐARSAMTÖK Í HREPPNUM Fleiri samtök um búnaðarmál en Búnaðarfélagið hafa starfað í Þingeyrarhreppi um lengri eða skemmri tíma. Þar er fyrst að nefna nautgriparæktarfélag. Á fyrri hluta tuttugustu aldar munu nokkrir bændur í sveitinni hafa sameinast um nautahald og stofnun „nautafélags.“

106 Sjá https://skjalasafn.is/tunakort_i_thjodskjalasafni_islands

Á Búnaðarfélagsfundi í fundarsal Kaupfélags Dýrfirðinga um 1960. Stjórnarmenn sitja: Jón Guðmundsson Vésteinsholti, Knútur Bjarnason Kirkjubóli og Gunnar Guðmundsson Hofi. Aftar frá vinstri: Garðar Sigurðsson Neðsta Hvammi, Gunnlaugur Sigurjónsson Bakka, Gunnar Jóhannesson Ásgarðsnesi, Þórður Jónsson Múla, Guðmundur Jónsson Kirkjubóli, Sigurður Friðfinnsson Ketilseyri, Gunnar Einarsson Miðbæ, Elís Kjaran Friðfinnsson Kjaransstöðum, Valdimar Þórarinsson Húsatúni, Sigurjón Andrésson Sveinseyri, Guðmundur Sören Magnússon Brekku, Gunnar H. Jónsson Höll, Guðbrandur Stefánsson Hólum og Finnbogi Lárusson Hæsta Hvammi (ljósm. úr safni GG frá Hofi).

Heimildir um það eru af skornum skammti. Þó er vitað að félagið starfaði á árunum 19131929. Það kom upp nautagirðingu á Ketilseyrardal. Jón Þórarinsson í Hvammi mun hafa verið formaður félagsins lengst af. Þetta félag varð undanfari Nautgriparæktarfélags Þingeyrarhrepps sem stofnað var á Þingeyri 30. desember 1929. Það keypti eignir hins eldra félags – naut og fóður. Félagssvæðið var frá Sveinseyri að Dröngum. Bændurnir í Keldudal og á Útnesinu héldu skýrslur um fóðrun og afurðir kúa sinna á vegum fóðurbirgðafélagsins, sem brátt verður getið. Vegna erfiðra samgangna gátu þeir ekki verið virkir í starfi nautgriparæktarfélagsins. Á stofnfundi þess var ákveðið að fá Helga Guðmundsson á Brekku á Ingjaldssandi sem eftirlitsmann félagsins. Gegndi hann því starfi á meðan félagið starfaði. Helgi „mælir“, eins og menn nefndu hann gjarnan, mætti jafnan á aðalfundi og gerði félögum grein fyrir mælingum sínum og athugunum, jafnframt því sem hann ráðlagði um ræktun nautgripanna. Á blómaskeiði félagsins virðist mikill áhugi hafa verið á kynbótum nautgripanna og líflegar

umræður á félagsfundum um nautgriparæktina. Tilfæra má eitt dæmi um það úr fundargerð aðalfundar árið 1939, en þar segir m.a.:

Athugavert þótti, að aðeins 1 kvíga af 10 sem nú eru látnar lifa, sé undan kú, sem hefir yfir 3000 lítra meðalnyt yfir árið. – Allir sem tóku til máls, voru á einu máli um að úr þessu yrði að bæta. Þeim tilmælum var beint til stjórnarinnar, að hún drægi út úr [árs]skýrslunni, hverjar kýr væru bestar til undaneldis, svo að félagsmönnum sé greiður aðgangur að velja. . .

Nokkrum erfiðleikum var bundið að koma þarfanautunum fyrir á vetrum en á sumrin gengu þau oftast í girðingunni á Ketilseyrardal. Lengi var rætt um að byggja yfir naut félagsins á einhverju fleirbýlanna. Var það að lokum gert með bás í fjósi Hjörleifs Guðmundssonar á Húsatúni í Haukadal. Þarfanaut voru á fleiri bæjum. Bændur greiddu bolatollana ýmist í peningum eða heyi.

Fyrstu skýrslunni skilaði Nautgriparæktarfélagið um árið 1930. Voru félagsmenn þá 28 frá Sveinseyri inn að Kjaransstöðum. Áttu þeir alls 29 kýr á skýrslu. Í þessum hópi voru einnig kýreigendur á Þingeyri. Síðasta skýrsla félagsins var um árið 1946. Þá hafði félagsmönnum fækkað í ellefu.

Ýmsan fróðleik má lesa úr kúaskýrslunum: Á árunum 1932-1933 var að mestu hætt að gefa kúm í hreppnum úthey. Votheysfóðrun kúnna færðist mjög í vöxt um miðjan fjórða áratuginn. Notkun annars fóðurs (kjarnfóðurs) varð hins vegar áberandi um miðjan fimmta áratuginn. Á starfstíma félagsins óx nyt fullmjólka kúa félagsmanna úr tæplega 2.600 kg í 3.000 kg.

Formaður Nautgriparæktarfélagsins var lengst af Ólafur Hákonarson í Ystabæ en Andrés Guðmundsson á Brekku tók við af honum árið 1944. Félaginu var formlega slitið 17. september 1950.

Kvöldmjaltir á Kvíabólinu á Kirkjubóli sumarið 1958. Bændurnir þar, Knútur Bjarnason (t.v.) og Guðmundur Jónsson, mjólka Skrauturnar sínar. Líklega er þetta með síðustu dæmunum um notkun kvíabóla og stöðla í Þingeyrarhreppi (ljósm.: Þráinn Þorvaldsson).

Það var svo á aðalfundi Búnaðarfélagsins 26. nóvember 1938 að samþykkt var að stofna fóðurbirgðafélag. Hafði Búnaðarsamband Vestfjarða hvatt til þess. Stofnfélagar voru 11. Félagið var nefnt Græðir. Fyrstu stjórn þess skipuðu þeir Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli og Jón Fr. Arason í Hæsta-Hvammi. Til eru skýrslur um félagið fyrir árin 1938-1945. Þær bera það til dæmis með sér að veturinn 1939-1940 var meðalærfóðrið í hreppnum 54 kg af töðu, 61 kg af útheyi, 21 kg af votheyi og 11 kg af fóðurbæti (beinum, síld og síldarmjöli), samtals um 61 fóðureining á á. Árið 1940 var meðalfóður kúnna 2.700 kg af töðu, 339 kg af votheyi og 62 kg af fóðurbæti, samtals um 1.460 fóðureiningar á kú.

Auk skýrsluhalds og eftirlits með fóðurbirgðum og fóðrun, hafði Fóðurbirgðafélagið milligöngu um útvegum fóðurbætis. Félagið starfaði fram undir 1950. Félagar þess urðu flestir 25 og stóðu þá aðeins örfáir bændur í hreppnum utan félagsins. Kristján Guðmundsson á Arnarnúpi var forðagæslumaður allan þann tíma sem félagið starfaði.

Loks er að geta Sauðfjárræktarfélagsins Kaldbaks sem stofnað var 15. júlí 1981. Starfssvæði þess var Þingeyrarhreppur og Auðkúluhreppur. Stofnendur voru ellefu. Um miðjan sjötta áratuginn hafði verið gerð tilraun til þess að stofna sauðfjárræktarfélag í Þingeyrarhreppi en það félag náði ekki nægum vindi í segl. Á vegum Kaldbaks hófust sæðingar áa á félagssvæðinu árið 1981. Í stjórn félagsins voru þeir Guðmundur Grétar Guðmundsson á Kirkjubóli, formaður, Kristján E. Björnsson á Múla, ritari, og Hreinn Þórðarson á Auðkúlu, gjaldkeri. Með breyttu skipulagi sauðfjárkynbóta á landsvísu, og stóraukinni þátttöku bænda í sauðfjársæðingum og almennu skýrsluhaldi, þvarr þörfin fyrir sérstakt sauðfjárræktarfélag svo starfsemi Kaldbaks leið undir lok.

BÚNAÐARFÉLAGIÐ RANN SITT SKEIÐ Það var á aðalfundi Búnaðarfélagsin 21. janúar 1905, sem haldinn var á Þingeyri, að tekið var til umræðu málefni frá Guðmundi Nathanaelssyni á Kirkjubóli „eftir áskorun frá Þingmálafundi á Flateyri um sameiginlegt búnað[ar]fjelag fyrir Vestur-Ísafjarðarsýslu. Eptir töluverðar umræður komst fundurinn á þá niðurstöðu að slíkur fjelagsskapur mundi vera ákjósanlegur en með því skilyrði, að aðeins búnaðarfjelög hreppanna væru meðlimir þess og hefði 1 fulltrúa í stjórn þessa aðalfjelags, sem annist alla sameiginlega hagsmuni búnaðarfjelaganna.“ Kosinn var fulltrúi til þess að mæta á undirbúningsfund að slíku félagi – Matthías Ólafsson í Haukadal.

Fátt er nýtt undir sólu, þar með taldar hugmyndir, þótt tími þeirra sé ekki alltaf hinn rétti. Félagslegar hræringar urðu í byrjun tuttugustu aldar m.a. til aukinnar samvinnu byggðarlaga. Segja má að hugmynd Flateyrartillögunnar um sameiginlegan búnaðarfélagsskap hafi þróast í stofnun Búnaðarsambands Vestfjarða, sameiginlegan vettvang hreppabúnaðarfélaganna, sem áfram störfuðu þó sem sjálfstæðar einingar.

Einni öld síðar höfðu þær breytingar hins vegar orðið á byggð og búskap að grundvöllur margra búnaðarfélaga, þar með talið Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps, var ekki lengur sá sem verið hafði. Félagsmenn voru innan við tíu, þar af nokkrir aukafélagar. Var þá gripið til svipaðrar hugmyndar og fram kom á þingmálafundi sýslunnar á Flateyri.

Þann 30. júní 2011 var samþykkt að leggja Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps niður. Eignum þess, sem námu þá um 450 þúsundum króna var skipt á milli félagsmanna þess. Áður hafði Búnaðarsjóðurinn verið sameinaður félagssjóði. Ákveðið var að félagsmenn gengju til liðs við nýtt búnaðarfélag sem í undirbúningi hafði verið og þannig var sagt frá í héraðsfjölmiðli:

Fjögur búnaðarfélög í Ísafjarðarbæ sem starfað höfðu í Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði og Skutulsfirði voru sameinuð í eitt undir nafninu Búnaðarfélagið Bjarmi. Stofnfundurinn var haldinn í Holti í Önundarfirði þann 4. apríl 2011. Í tilkynningu um sameininguna sagði að félagið vænti þess að geta á hverjum tíma átt gott samstarf við stjórnsýslu bæjarfélagsins um þau mál sem snerta sérstaklega dreifbýli Ísafjarðarbæjar. Félagið áleit mikilvægt að halda því til haga að hagsmunir dreifbýlis og þéttbýlis í bæjarfélaginu væru gagnkvæmir bæði í atvinnu og menningarlegu samhengi.107

Þar með lauk sögu Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps. Hún varð 122 ára löng og spannaði mesta breytingaskeiðið sem orðið hafði í sögu þjóðarinnar. Ekki höfðu breytingarnar orðið minni á félagssvæðinu: Þegar Búnaðarfélagið var stofnað var hver jörð þar setin. Menn bjuggu að sínu með verkháttum sem landnámsbóndinn níu hundruð árum fyrr hefði sennilega kannast við. Við félagslok var byggð orðin gisin, búið var á innan við tíu jörðum, við tækni- og viðskiptahætti sem flestir voru óralangt frá því sem stofnendum Búnaðarfélagsins hefði til hugar komið.

107 http://www.thingeyri.is/frettir/Bunadarfelagid_Bjarmi_stofnad/