
32 minute read
II Örnefni og aðrar minjar um landbúskap
Um miðbik tuttugustu aldar voru skráð örnefni á öllum jörðum í hreppnum, tuttugu og einni að tölu, auk Þingeyrar. Að stofni til var það verk Ara Gíslasonar í samvinnu við kunnuga heimamenn á hverri jörð. Síðar voru margar skránna endurskoðaðar og endurbættar. Í skránum er getið fjölda örnefna sem beint eða óbeint tengjast landbúskap. Sum þeirra vísa til minja sem taldar voru sýnilegar á þeim tíma þegar örnefnaskrárnar voru gerðar.
Hér á eftir verður fjallað um nokkur þessara örnefna og þá helst þau sem sögð eru tengjast sýnilegum minjum. Tekið skal fram að ekki er um tæmandi umfjöllun að ræða, enda líklega seint sem svo getur orðið.
Advertisement
ÖRNEFNI OG MINJAR Í aðalatriðum tengjast búskaparörnefnin tvennum starfa fyrri kynslóða: Sauðfjárhaldi með einum eða öðrum hætti, þar með talið beit, annars vegar, en hins vegar heyskap. Fyrri flokkurinn er þó mun stærri. Sauðfé og afurðir þess voru kjölfestan í lífi hreppsbúa allt fram á tuttugustu öld. Sauðland var sagt vera gott í dölum við Dýrafjörð „enda leggja menn hér meira kapp á sauðfjárrækt en nautgripa“, skrifaði Olavius á átjándu öld.56
Síst er því að undra að örnefnin stekkur og sel séu skráð á þorra jarðanna. Raunar má telja víst að stekk hafi verið að finna á flestum ef ekki öllum jörðum og þá fleiri en einn á fleirbýlisjörðunum, þótt örnefnið hafi ekki varðveist og minjar séu horfnar. Rétt er að gera greinarmun á stekk og kví. Stekkurinn er mjaltastaður með lambakró. Það form má t.d. sjá á stekkum Arnarnúps og Kirkjubóls. Kví var aðeins mjaltastaður og þá oftast nær bæ en stekkurinn, kallaður kvíaból. Á Brekku voru þrír stekkir, einn fyrir hvert býli, segir í örnefnaskrá, kallaðir ból. Sama var í Haukadal: Þrír stekkir, jafnmargir gömlu býlunum þar. Stekkjar-heitið, eitt sér eða sem hluti örnefnis er að finna á 17 jörðum.
Örnefnið sel, eitt eða sem hluti örnefnis, er að finna á 16 jörðum. Um selin í sveitinni, raunar firðinum öllum, hefur sérstaklega verið fjallað á öðrum stað.57 Þeirra verður því aðeins getið stuttlega og þá í kafla hér á eftir. Þær minjar sem bera örnefnið sel eru mjög mismunandi að íburði – allt frá einföldum mannvirkjum, með kví og hugsanlega litlu skýli til tófta af nokkrum húsum þar sem sýnilega var dvalið um lengri tíma.
Jafn algengt örnefninu seli er örnefnið ból – eða bæli. Aðeins í 2-3 tilvikum kemur bæli fyrir í samsettu orði, sem kvíaból. Má ef til vill túlka það svo að það hafi verið staður þar sem búsmali bældi sig, lagðist til hvíldar, en sjaldnast mjaltastaður. Því til stuðnings má líka nefna örnefnið stöðul. Það kemur fyrir á einni jörð – í Höfn – og þar er einnig nefnt ból.
Útbeit á vetrum var mikilvægur þáttur sauðfjárhalds fyrri tíðar. „Beitarhús eru sumstaðar höfð á vetrum, einkum við sjóa“ segir í sóknalýsingum frá því um 1840.58 Margar jarðir hreppsins buðu sauðfé útbeit á vetrum og þá sérstaklega fjörubeit. Minjar eru nokkrar um þennan þátt
Stekkur á Kirkjubóli; einfalt málsett riss. Við hlið kvíarinnar var lambakró. Talið er að stekkurinn hafi verið notaður fram á fyrsta tug tuttugustu aldar.

56 Ólafur Olavius: Ferðabók I (1964), 146. 57 Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður við Dýrafjörð“. (2020). Sjá líka „„ef vaxinn ertu hrjóstrum þessum af”. Um forna landnýtingarhætti við Dýrafjörð“. (2012), 89-105. 58 Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 61.

Höfundur stendur á tóftum beitarhúsanna frá Brekku sem eru skammt ofan við núverandi Spennistöð á innanverðu Skeiði. Til vinstri er lauslegur uppdráttur af tóftunum. Minni tóftin gæti hafa verið heytóft eða hlaða en hin „sauðahúsið“, sem Þorbergur Steinsson getur um; hún er um 7,1 x 2,6 m að stærð. Til sjávar er vegalengdin tæplega 150 m.

búskaparins. Þær lýsa sér til dæmis í örnefnunum hlað og byrgi. Að þeim verður sérstaklega vikið í kafla hér á eftir.
Beitarhús gegndu sama hlutverki og hlöðin en voru vandaðri. Frá Svalvogum voru beitarhús á Sléttanesi. Í seljatóftunum þar má raunar líka greina hlaðforma tóftir. Beitarhús voru frá Hrauni hið næsta Skeri og um þau segir örnefnaskrá: „Þar var búðartóft, og þar voru fjárhús, sauðahús; þegar hlíðin var beitt, var hún ætluð 60 sauðum, og þótti harður vetur, ef þurfti poka af heyi fyrir hvern sauð. Beitin þótti ágæt í hlíðinni og Koppum . . . [sauðirnir gengu] að mestu sjálfala . . . og þari með sjónum inn í Bóluvík.“ Við sjóinn á Arnarnúpi, skammt innan við ós Langár, eru þrjár tóftir beitarhúsa sem þar stóðu fram yfir aldamótin 1900. Heyhlaða var nærri enda heitir þar Hlöðubali.
Athyglisverð er frásögn Þorbergs Steinssonar (1878-1954) um beitarhúsin frá Brekku, á Steinkunesi undir Brekkuhálsi. Þar er nú . . .
. . . sauðhústótt frá Brekku, og voru þar á vetrum hafðir sauðir, til að geta notið fjörubeitar, en Brekka er fyrir ofan háls þann, er um getur, og þaðan erfitt að koma sauðum til fjöru, en Brekka á ekki beitiland fyrir neðan [Háls] og því enga fjörubeit, fengu svo sauðabeit hjá Hvammi gegn því, að Hvammsbóndinn mátti reka vorlömb sín eftir fráfærur yfir fjallið og niður í Brekkuhvilft hins vegar í fjallinu, og hélzt fram á mína daga, nema hvað sauðahúsið var þá lagt orðið niður, en í þess stað kom aftur uppsáturspláss fyrir einn bát frá Brekku til hrognkelsaveiða að vori; fyrst var það í Miðskeiðslág, en fluttist síðan út í Gras. Nú eru báða þessar kvaðir niður lagðar59 . . .
Nokkur örnefni tengjast beitarkostum. Flest hafa þau Smjör að forskeyti, og er að finna á einum sex bæjum.
Kemur þá að öðru. Nokkru fyrir framan miðjan Gjálpardal, sem gengur upp (vestur) af Hrauni er mikill grjóthóll sem heitir Afréttarhóll og Dalbotnahillur „eru klettahillur fyrir botni dalsins efst. Sagt er, að geldneyti hafi verið geymd þar áður fyrr.“ Frammi í Ártungum í Haukadal eru leifar mikils garðs sem þar gengur þvert á dalinn, á milli tveggja áa sem þar falla fram.60 Um garð þennan, sem sýnilega er mjög forn, er fjallað á öðrum stað í þessu riti. Ef til vill hefur hlutverk hans verið að halda geldneytum í haga þar fremst á Koltursdalnum með svipuðum hætti og gert hefur verið fremst á Gjálpardal. Hvort Veturlönd fremst á Ketilseyrardal vísa til svipað hlutverks skal ekki fullyrt um. Á fyrri hluta tuttugustu aldar var þar á dalnum komið fyrir girðingu fyrir þarfanaut félags bænda um nautahaldið.

Á gróinni eyri við Kjaransstaðaána hefur nátthaga verið komið haganlega fyrir. Stutt hefur verið að sækja grjótið í girðinguna umhverfis hagann. Hann er um 1350 m2 að flatarmáli – tæp hálf dagslátta. Í fremra horni hans eru tvær tóftir, neðst til hægri á myndinni. Tóftin t.h. hefur sýnilega verið mjaltakví, allstór, 1,8 x 6,3 m að innanmáli.
59 Þorbergur Steinsson skráði 1. maí 1942. Örnefnaskrá Hvammur. 60 Sjá bls. 18 hér að framan.
Á ofanverðri nítjándu öld óx umræða um nátthaga og notagildi þeirra. Aðeins einn slíkur er nefndur í örnefnaskrám hreppsins. Hann í Haukadal, sagður vera „afgirt svæði“ innan við Nasa. Úr öðrum heimildum er vitað um nátthaga á Múla og á Brekku. Ef til vill voru þeir svo „ungt“ örnefni, ung mannvirki, að heimildarmönnum um örnefni þótti ekki ástæðu til þess að tíunda þá? Á Kjaransstöðum fast utan við Kjaransstaðaána, skammt ofan Vestfjarðavegar er svæði umgirt miklum grjótvegg. Verður ekki betur séð en að þarna hafi verið gerður nátthagi með töluverðri fyrirhöfn megi marka grjótið í girðingu um hann. Nátthagans er þó ekki getið í örnefnaskrá. Mjög er ósennilegt að þarna hafi verið heyjað.
ÁVEITUR, BEÐASLÉTTUR OG SLÆGJUR Áveita er eldgamall háttur við ræktun. Áveitna er m.a. getið í lagaákvæðum Grágásar. Minnast má frásagnar Landnámu um lækinn Ósóma á Ingjaldssandi sem Grímur kögur, bóndi á Brekku, veitti á engi sín, og af hlutust alvarlegar nágrannaerjur.61 Þessi áhrifamikli ræktunarháttur efldist aftur þegar kom að endurreisn ræktunar á nítjándu öld. Á fáeinum bæjum í Þingeyrarhreppi kemur fyrir örnefnið veita. Hvort það örnefni eigi fremur við votlendi en land sem veitt hefur verið á skal ekki fullyrt; ég hallast þó að hinu síðarnefnda: Vitað er að form áveitu voru ýmis, allt frá einfaldri stíflu í læk, sem breiddi út rennsli hans, eða smágarði, er skapaði uppistöðu til formlegra kerfa uppistöðu og dreifirása (seytluveitu) yfir stærra engjaland.
Áveitu er aðeins getið á einum stað í örnefnaskrám sveitarinnar. Það er á Sveinseyri. Til stóð að nota Eyrarána í því skyni. Það tókst ekki því áin hljóp í læk sem þar er. Áveita hefði áreiðanlega komið sér vel þar því hinn sendni jarðvegur Eyraroddans er gróðri afar þurr á sprettutíma. Á Söndum má enn sjá glöggar minjar um áveitu. Það er langur skurður sem gerður hefur verið framan úr Brekkudalsánni undir Holtsmúla og heim á Sandatún. Talið er að hann sé frá tíma sr. Jóns Jónssonar sem sat Sanda árin 1882-1884. Hann lét „gjöra vatnsveitingaskurð til að veita Sandaá heim á túnið, og er það talin talsverð jarðabót og þykir til nytsemdar vera“, segir í vísitazíubók prófastsdæmisins. Má ætla að þurft hafi að leiða vatnið um 500 m vegalengd.
Þá segja kunnugir að í Hvammi hafi verið lækur, forn og í manngerðum farvegi á svo sem 500 m kafla. Lækurinn átti uppsprettur sínar undir fjallinu, en úr þeim var fyrir áratugum virkjað neysluvatn í veitu fyrir Þingeyri. Sagt var að hluta af hinum manngerða læk hafi verið veitt niður yfir Yxnavöll er svo heitir þar í Hvammstúni, skammt fyrir utan Mið-Hvamms-bæina. Mun lengi vel hafa sést móta fyrir framrásinni, skarði efst í Yxnavelli.62
Á milli heimabæjanna og holtabæjanna í Haukadal er mýrlendi, jafnan kallað Veitan. Um það skrifaði Ólafur Ólafsson skólastjóri frá Miðbæ: „Mýrlendi þetta var nefnt „Veitan“, vegna þess að báðum bæjarlækjunum, sem runnu gegnum hana, var veitt yfir hana vor og haust [lbr. hér]. Vegurinn, er lá frá heimabæjunum niður í þorpið, var því upphlaðinn og nefndist Veitugarður.“
61 Íslendinga sögur Landnámabók (1981), 107-108. 62 Lárus Hagalínsson frá Bræðratungu í Hvammi, í tölvubréfi til BG 25. apríl 2018.

Áveituskurðurinn á Söndum þar sem hann liggur heim á Sandatún, sennilega frá árunum 1882-1884. Skurðurinn virðist hafa verið býsna mikil framkvæmd á sínum tíma.
Annar garður, Sjóargarðurinn, lá yfir mýrina allnokkru utar.63
Annar ræktunarháttur, sem á sér eldfornar rætur eins og áveita, eru beðaslétturnar. Á fyrstu árum skipulegrar túnasléttunar – á ofanverðri nítjándu öld – var hvatt til þess að slétta túnin í beðum. Búnaðarskólar kenndu þá aðferð og búfræðingar frá þeim kynntu og kenndu aðferðina. Hugsunin, auk þess að fá slétta bletti til að auðvelda þurrkun heysins og umferð um túnin, var að vatnið stæði ekki uppi á túnunum og ylli kali. Grasrótin var rist ofan af og síðan var jarðvegurinn pældur eða plægður upp. Búfjáráburði eða móösku var jafnvel blandað saman við jarðveginn eftir að mótað hafði verið bungulaga beð, 4-6 m á breidd og að lengd eftir aðstæðum. Þá var þakið að nýju. Gjarnan voru gerð fleiri beð hlið við hlið – gerð beðaslétta. Þegar sláttuvélar tóku að sigra heiminn þóttu beðasléttur til trafala; þær hentuðu ekki vélslætti. Því lögðust þær af í hinu gamla formi.
Minjar um beðasléttur má nú hvað helst sjá í Haukadal: Innan við Sæbólsbæinn eru glögg beð, svo sem 4 m breið hvert. Þau virðast mynda þar tvær sléttur. Sömuleiðis eru glögg beð á Kaupstaðartúninu; þau liggja þar mörg samhliða, um 5 m breið. Fjallmegin í Miðhól framan við Höll liggja ein þrjú svo sem 5 m breið beð. Framan til við Meðaldalsbæinn voru fjögur beð, tæplega 5 m breið en rúmlega 40 m löng, sjá næstu mynd. Minjarnar hafa dofnað og að hluta spillst við ræktun golfvallarins.
63 Ólafur Ólafsson: „Endurminningar úr heimahögum“. (1959), 86.

Beðaslétta í Meðaldal á þriðja áratug síðustu aldar. Þarna má sjá ein fjögur beð (ljósm.: Kristján Helgi Kristjánsson).
„Staggarður . . . ; ágætar slægjur í Krókunum, rétt fyrir neðan“, segir í örnefnaskrá Hofs. Myndin er af slægjunni og hólnum þar sem þúfnagerið geymir líklega leifar heystakka, sem þar voru settir ár eftir ár.
Hugsanlega eru allar þessar beðasléttur frá fyrstu árum Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps; jafnvel unnar undir stjórn Sigurðar búfræðings Sigurðssonar, sem vann á vegum félagsins í hreppnum á árunum kringum 1890, sjá bls. 57-58. Vafalítið hafa beðasléttur verið gerðar í túnum margra annarra bæja í hreppnum þótt þær hafi síðar horfið fyrir sléttun túnanna með stórvirkum vélum.
Þá eru það minjar og merki um slátt og heyskap. Örnefnin Sláttunes, -vík og -hvolf finnum við í graslendi á Dröngum. Þá má minna á örnefnið Samvinnu fram undir Fornaseli í Keldudal. „Það var óskipt land milli ábúenda á Arnarnúpi, en þeir voru oft margir áður fyrr“, segir í örnefnaskrá. Í slægjulandi heiman við Þverá, handan Langár í landi Saura, heitir einnig Samvinna. Sennilega dæmi um gott samkomulag þar sem margir ábúendur voru um takmarkaða heyskaparkosti.
Þá er það örnefnið Stagggarðar/garður, svo skrifað eftir framburði. Það er á Hofi, Kirkjubóli og í Meðaldal. Á öllum stöðunum hagar eins til: Líklegt slægjuland og hóll/ hæð eða annað þurrlendi þar sem setja má hey. Stórar þúfur þar eru líklega leifar af torfi sem notað hefur verið til þess að verja þurrkuð og uppborin heyin fram á vetur. Örnefnið hefur sennilega lagast til frá upphaflegu innihaldi þess – Stakkgarðar/Stakkgarður.

AF SELJUM Sem fyrr sagði má finna minjar um sel á sextán jörðum í sveitinni; ýmist örnefni eða sýnilegar minjar. Selin voru lögð niður áður en stekkir og kvíar voru af lagðar. Munaði þar einni öld eða meiru. Samkvæmt sóknalýsingum frá því um 1840 virðast selin hafa verið aflögð á þriðja áratug þeirrar aldar þannig:
Svalvogar 1830 Hraun 1820 Haukadalur 1828 Meðaldalur 1833 Kirkjuból 1823 Sandar á Galtadal 1827-1828
„Allar þessar selstöður hafa niðurlagzt vegna illviðra, líka hafa þær þótt fólkskilar [mannfrekar] en ábati ekki samsvarandi fyrirhöfn“ segir þar.64 Heimildir eru fyrir því að selfarir hafi verið teknar upp að nýju a.m.k. á Söndum svo og í Meðaldal en þar var haft í seli á síðasta fjórðungi nítjándu aldar. Má raunar gera ráð fyrir að þannig hafi það einnig gerst á fyrri öldum. Svo virðist því sem „kerfið“ sel – stekkur hafi verið breytilegt í þeim skilningi að aðstæður, svo sem tiltækur mannafli o.fl., hafi að einhverju marki ráðið því hvort búpeningurinn hafi verið hafður í seli yfir hásumarið eða hvort honum hafi verið haldið til beitar frá stekknum allan þann tíma. Jafnvel hefur munurinn á seli og stekk í einhverjum tilvikum verið óljós – eða að minnsta kosti ekki einhlítur og skýr.
Sel eru talin hafa fallið heldur fyrr úr notkun í Þingeyrarhreppi en norðan fjarðarins. Hugsanlega stóð það að einhverju leyti í sambandi við það að í Þingeyrarhreppi tóku bændur upp færikvíar í meira mæli en Mýrhreppingar á ofanverðri nítándu öld.


Tvenn sel í Þingeyrarhreppi: T.v. er selið frá Brekku. Það er hálftíma gang frá bæ. Margar tóftir; það bendir til fjölbreyttra verkefna og líklega fastrar búsetu selfólks – að þar hafi verið alsel. Einnig virðast vera þar tóftir af eldra seli; það gæti bent til fleiri tímaskeiða seljabúskaparins. T.h. er selið frá Hólum sem er í tæplega tuttugu mínútna gang frá bæ. Tóftir benda til mjög einfaldra mannvirkja – e.t.v. var það aðeins mjaltasel.
64 Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 59.
Minjar um selin sýna að þau hafa verið mjög mismunandi að gerð. Sum hafa sýnilega verið alsel skv. hinni norrænu gerð þar sem seljafólkið hefur haft fasta búsetu um seljatímann. Önnur hafa verið mjaltasel, með eða án aðstöðu til næturhvíldar. Myndir sýna dæmi um gerðirnar tvær.
Flest liggja selin á framdölum. Meðalvegalengd á hvert sel frá bæ er um tveir og hálfur kílómeter og göngutíminn um fjörutíu mínútur. Breytileikinn er þó mikill (staðalfrávikið er um 20 mín).
Svo er að sjá af staðsetningu seljanna að úr henni megi lesa mjög hyggilega reglu sem varðar nýtingu gróðurlendis: Með því að draga hringi í kringum sel og bæ með geisla (radius) sem er hálf vegalengdin á milli sels og bæjar má sjá að saman þekja hringirnir svo til allt gróið land jarðarinnar. Þetta er skýrt með dæmi úr Meðaldal á meðfylgjandi mynd.
Þá má spyrja hvort þetta hafi verið grundvallarhugsunin við staðarval seljanna: Að fullnýta takmarkað gróðurlendið með skipulögðum hætti án óþarfa reksturs eða ráps málnytupeningsins, sem jafnframt var þá haldið fjarri húshögum, eins og þeir hétu í hinni fornu lögbók, Jónsbók. Tilgátan gæti því verið sú að gróðurlendinu hafi verið skipt í húshaga og selhaga, þannig að til alls gróðurlendisins mætti ná með hóflegri fyrirhöfn málnytupenings til beitarleitar og vinnufólks til gangs og flutninga mjólkurinnar og afurða úr henni.Húshaginn var einkum slægjulönd (tún) og takmörkuð sumarbeit t. d. fyrir kýr en selhaginn beitilönd með takmörkuðum slægjulöndum (engjar og útheyskapur) og eftir því sem við átti öðrum landnýtingarkostum (mótekju, grasatekju o.fl.).
Annars má lengi gamna sér við að lesa í örnefnin og finna þar skírskotun til mannlegra athafna.
Í Keldudal má til dæmis sjá afar athyglisvert dæmi um nýtingu landkosta og þá ekki aðeins með hliðsjón af staðsetningu seljanna. Minjar um sel frá bæjunum í dalnum standa í þyrpingu niður undan Álftaskál en í henni var af mörgum talið vera . . . „eitt besta sumarbeitiland í Dýrafirði. Þarna er mjög fjölbreyttur gróður, brok, stargresi, víðir, fjalldrapi og birki mun hafa lifað þar lengst á láglendi í Keldudal“, skrifaði Guðmundur Sören, síðasti bóndinn í Hrauni.65 Í þeirri þyrpingu er einnig Nýjasel frá Arnarnúpi. Það hefur á einhverju stigi verið flutt þangað frá Fornaseli, sem er heimar á dalnum, sennilega til þess að nýta kosti nábýlis við sel annarra bæja í dalnum. Nábýlið létti selfólkinu vistina.
Tilgáta um landnýtingu: Hringirnir þrír í Meðaldal – frá húshaga heima við bæ (nyrst – efst), um selhagana frá Heimraseli (í miðju) til selhaga Fremrasels (syðst – neðst).

65 Guðmundur Sören Magnússon frá Hrauni í bréfi til BG 3. maí 1982.

Og reglan frá Meðaldal, sem áður var nefnd, endurtekur sig. Á Keldudals-myndinni, sem hér fylgir, má sjá hringina tvo – húshaga og selhaga – sem hvor um sig marka nýtingarsvæði gróðurlendis annars vegar frá stærstu býlum dalsins, Arnarnúpi og Hrauni, og frá seljaþyrpingunni hins vegar, en hún stóð við ármót Langár/Geldingadalsár og Þverár úr Álftaskál. Stutt var að víkja ánum upp í hið góða beitiland uppi í Álftaskál. Í dalbotninum eru hins vegar tvær hvilftir: Geldingadalur og Lambaskál. Nöfn þeirra gætu bent til þess að þar hafi hinn hluti fjárstofnsins haldið sig. Fyrr á tímum skiptist fjárstofninn í þrjá nokkurn veginn jafnstóra hluta sem hver þurfti sérstaka umhirðu: ær, lömb og sauði.66 Hér höfum við því sterkar vísbendingar um vel skipulagt landnýtingarkerfi í þessum annars harðbýla dal, opnum mót úthafi. Svipaða bendingu Húshagar og selhagar í Keldudal, þar sem gefa Geldinga- og Lamba-örnefni á fleiri jörðum við örnefnin Geldingadalur og Lambaskál Dýrafjörð. bæta við landnýtingarmyndina með athyglisverðum hætti. Seljum var því valinn staður með skipulegum hætti og með þann ásetning að nýta vel kosti jarðanna hvað snerti gróður og beit. Má jafnvel ímynda sér að þannig hafi tekist, þrátt fyrir hið takmarkaða gróðurlendi, að framfleyta bústofni sem varð – með sjósókn – undirstaða þéttrar byggðar og þess margmennis sem löngum var í hreppnum.67 Hvað nærumhverfi seljanna snerti er líka um allskýra samsvörun að ræða: Flest virðast þau hafa verið sett nálægt vatnsfalli, á eða læk og gjarnan á dálítilli þurrlendishæð þaðan sem vel sést til beitilands. Á sumum selstöðunum hefur verið hægt að afla heyja í nokkrum mæli, svo sem frá Arnarnúpi, í Haukadal, á Kirkjubóli og Söndum (á Galtadal), þótt víðast virðist þeir kostir hafa verið takmarkaðir. Um aðra nýtingu landkosta nálægt seljunum virðist ekki hafa verið að ræða. AF HLÖÐUM Á Leitinu innan við Múla, skammt frá merkjum á móti Bakka hét Hlað. Um það segir í örnefnaskrá: „Gömlu mennirnir byggðu þetta sem skjól fyrir fé; hlöð þessi voru yfirleitt hringmynduð.“ Því miður var minjum þessum rutt upp í bílveginn þegar gerður var á milli Múla og Bakka á sjötta áratug síðustu aldar. Hlað heitir á Sveinseyri utan við hæðina Nasa; þar er „gömul, löng skálatóft og smátúnstæði.“ Hlaðsnes kallast í Svalvogum „lítið nes fram
66 Arnór Sigurjónsson: „Þættir úr búnaðarsögu“. (1970), 65. Sjá líka bls. 48. 67 Bjarni Guðmundsson: „„ef vaxinn ertu hrjóstrum þessum af“ Um forna landnýtingarhætti við Dýrafjörð“. (2012), 89-105. Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður í Dýrafirði“. (2020).
úr bökkum.“ Þar eru tóftir, sennilega þó frá útræði sem þar er sagt hafa verið. Á Ketilseyri er Lambabyrgi en um það segir í örnefnaskrá:
Það er grjótborg, hlaðin í hring og veggirnir hlaðnir úr hellum, þannig að þeir hölluðust að sér og veittu því skjól í hretum. Þar í voru fráfærulömb höfð á nóttinni, þar til þau voru rekin á fjall, um 2 vikur, voru svo geymd á daginn í Partinum niður af Byrgi. Ærnar voru reknar þar fram dalinn, utan við ána, og komu því aldrei nálægt lömbunum. Byrgislaut er svolítil laut í kringum Byrgið. Þetta er skjólgóð laut ofan til í svonefndum Parti.
Finna má viðlíka minjar á fleiri jörðum: Á Dröngum til dæmis skammt utan við læk úr Haukshvilft. Líka á Kjaransstöðum, við Kjaransstaðakot. Hlað blasir við á Ketilseyri, fast við þjóðveginn svo sem 70 metrum fyrir utan við mót Vestfjarðavegar og vegarins út til Þingeyrar. Á Stekkanesi [athugið örnefnið!] í Hvammi „er hlaðinn allstór garður í hring með einu opi inn; sést vel enn.“ Svipaðar minjar eru við Selið frá Hvammi á Ausudal og við Heimrasel á Meðaldal. Skrifarinn telur sig muna hlaðforma tóft á Eyjunni í Hólum og svipað mannvirki virðist hafa verið á Selinu í Haukadal rétt framan við Þverá.


Tvenn hlöð. Efra á Ketilseyri og það neðra á Dröngum. Þau standa bæði skammt upp af fjöru. Í gerð þeirra hefur verið lögð mikil vinna. Torf og grjót voru byggingarefnin. Hringlaga form. Einar dyr sem á báðum hlöðunum snúa eins: Örlítið undan austan/norðaustanáttinni sem þarna getur orðið ári stíf – út Fjörðinn.

Ekki stóðu öll hlöðin við sjó. Hér er hlað við selið frá Hvammi frammi á Ausudal (ljósm.: Lárus Hagalínsson). Að hlöð hafi verið við einhver seljanna kann að skýrast af því að fé hafi verið haldið þar á haustum fram til jóla líkt og vitað er að gert var í Holtsseli á Bjarnardal í Önundarfirði.68 Þá komu þau sauðunum vel í áhlaupaveðrum á vetrum. Vitað er að sauðahald var töluvert í hreppnum á fyrri tímum, sjá bls. 48-50. Í Skjólvík á Þingeyri er sagt að verið hafi skúti þar sem fé gat fundið skjól. Nokkur flæðihætta var talin þar, segir í örnefnaskrá. Skútinn mun löngu fallinn.
Hlöðin virðast hafa verið misstór en lögun þeirra hin sama: Hringur með einum dyrum. Hér má sjá dæmi um stærðir nokkurra hlaða sem mæld hafa verið:
Innanmál Flatarmál Drangar 6,8-7,4 m 40 m Kjaransstaðir 6,0 - 28 Ketilseyri 5,5-6,0 - 26 Hvammur 4,4-5,2 - 18 Meðaldalur 6,5-7,0 - 36 - Haukadalur 7,3-7,8 - 45 - Arnarnúpur (Ólafarkví) 5,3-5,5 - 23 -
Ólafarkví á Arnarnúpi er sett í þennan flokk, þótt hlutverk hennar hafi líklega verið fleiri. Frá henni er sagt í næsta kafla.
Merkilegt var líka skjólið sem sauðirnir í Höfn höfðu. Um það segir í örnefnaskrá Hafnar: „Framan í Svaðshól . . . liggur gata. Undir Svaðshól er hellir skammt frá flæðarmáli. Var hann alltaf nefndur Hellir. Um 1875 rúmaði hann 30-40 sauði (sögn).“
Hellumynnið er greitt aðgöngu. Er svo sagt, að það hafi áður verið notað sem sauðabyrgi á vetrum. Er sú sögn sennileg, því oft urðu sauðirnir að bjargast mest við fjörubeit. Og þá hægur nærri að reka þá í hellismynnið, þegar verst voru veður, og ekki var stórstreymt. Um stórstreymi gat sjór gengið í hellismunnann svo engri skepnu hefir þar frítt verið. . . Gamalt fólk mundi til þess, að hellirinn hefði verið notaður sem fjárbyrgi. . .
Gömul sögn var einnig að hellirinn næði alla leið frá sjó upp í Hafnarkarlinn sem er ofarlega í bæjarfjallinu, en það er önnur saga og ævintýralegri.69
68 Ólafur Þ. Kristjánsson: „Vinnubrögð í Holtsseli“. (1979), 137-145. 69 Arngrímur Fr. Bjarnason: „Hellir í Hafnarfjalli“. Vestfirzkar þjóðsögur II (1954-1956), 175-176.

Á miðri mynd glittir í mynni sauðahellisins í Höfn undir Svaðshól. Brim hefur á seinni árum borið grjót upp í hellismynnið. Einnig hefur efni sem rutt var niður við gerð Svalvogavegar, er liggur á brúninni ofan hellisins, borist fyrir mynni hans. Kristján Gunnarsson frá Miðbæ man hellinn fast að 20 m langan og vel gengan um miðbikið en hoknum manni innst og við inngönguna.
Ólafarkví á Arnarnúpi; horft til norðurs.
ÓLAFARKVÍ Á ARNARNÚPI

Þegar komið er út fyrir Eyrarófæru á leið í Keldudal liggur bílvegurinn utan í holtarana og sveigir þar fram til dalsins. Þannig sveigir hann mjúklega ofan við og fram hjá hringmyndaðri tóft við áberandi stóran stein, sem þar stendur. Heimafólk á Arnarnúpi taldi þetta vera gamlan stekk, Ólafarkví. Þótt hún sé ekki nefnd því nafni í örnefnaskrá jarðarinnar er þar um hana eftirfarandi saga:
Áður fyrr bjó ríkur bóndi á Núpi í Dýrafirði. Eins og siður var, hafði hann fé sitt í seli á Núpsdal á sumrin. Hann átti dóttur sem var selráðskona. Ungan mann hafði hann fyrir smala. Sagt er, að dóttirin hafi orðið vanfær af völdum smalans. Er bóndi komst að þessu ætlaði hann að fyrirfara piltinum, en vinnumenn földu hann milli þúfna í túninu, meðan bóndi leitaði. Smalinn náði loks í reiðhest bónda og komst þannig undan. Það fylgir sögunni, að hann hafi farið til útlanda. Barnið, sem þau áttu, bóndadóttir og smali, var stúlkubarn og var það látið heita Ólöf. Hún varð síðar búkona á Arnarnúpi og var kölluð Ólöf ríka, því faðir hennar átti að hafa komið hingað til lands á kaupskipi og fært henni mikinn auð. Stekkurinn, sem áður er getið, á að vera stekkjarkví hennar.70

Ólafarkví á Arnarnúpi. Teikning Sigurðar E. Breiðfjörð frá 1. mars 1934, varðveitt með gögnum hans í Skjalasafninu á Ísafirði. Málin 1x150 eiga ekki við því teikningin hefur verið minnkuð hér.
70 Örnefnaskrá, Arnarnúpur.
Ólafarkví er langt til hringlaga og er 5,3-5,5 m þvermáls að innan. Á henni sýnist hafa verið op eða dyr mót norðri. Í veggi kvíarinnar hefur verið borið mikið efni, grjót og torf, eins og sjá má á bls 34. Veggir eru þykkir, allt að 2 m, og nú afar vel grónir grasi. Til viðmiðunar um gildleik kvíarveggjanna má hafa það að steinninn stóri, sem kvíin er byggð utan í, er um 1,7 m á hæð. Undir steininum og inni í kvínni er mikið af grjóti, stóru hleðslugrjóti, og virtist það mynda óljósa en líklega ferhyrnda hleðslu, líkt og þar hafi verið sjálf mjaltakvíin (?). GPS-punktar kvíarsteinsins stóra (R) eru N 65°54,589 og V 23°43,569.
Í grasþykkninu umhverfis kvína má hér og hvar greina vegghleðslur sem saman mynda eins konar girðingu í kringum hana. Girðingin er mjög nærri því að vera ferningur að lögun, um 40 m á hvora hlið – 1600 m2. Hleðslan hefur verið vönduð og gerð úr vænum steinum, sem nóg hefur verið af þarna úr holtunum við rætur Arnarnúpsins. Raunar virðist mannvirkið allt hafa með haganlegum hætti verið fellt að stórgrýti, nánast steinbjörgum, sumum jarðföstum, sem þarna hefur verið fyrir, ættað úr fjallinu, sem gnæfir yfir staðnum.
Langfrændi minn, Lárus Hagalínsson frá Bræðratungu í Hvammi, vakti athygli mína á teikningu af Ólafarkví, sem hagleiksmaðurinn Sigurður E. Breiðfjörð (1904-1957) hafði gert, og væri í gögnum hans í Héraðsskjalasafninu á Ísafirði.71 Fylgir hún hér með. Það sem upp veit á teikningunni snýr upp að akveginum; það sem veit niður er í átt til sjávar og snýr nokkurn veginn til norðurs. Teikning Sigurðar virðist vera býsna nákvæm og er með glöggum skýringum. Hún er eftir því vel gerð enda var Sigurður listfengur svo af bar.72

Horft upp til Ólafarkvíarinnar. Stóri steinninn er hluti af veggnum, og undir honum er grjótrúst, líklega úr annarri hleðslu.
71 Skjalasafnið Ísafirði: Einkaskjalasafn Sigurðar E. Breiðfjörð. 72 Frá Sigurði E. Breiðfjörð var sagt í Alþýðublaðinu 18. október 1957.
En hver var Ólöf sem kvíin er kennd við?
Ólöf hét húsfreyja á Arnarnúpi á árunum í kringum 1870 og var Jónsdóttir. Hún var gift Guðmundi Guðmundssyni bónda þar. Þau urðu m.a. foreldrar Guðmundar, langafa míns, sem tók við búi af þeim á Arnarnúpi, en drukknaði á besta aldri, árið 1888. Mjög ósennilega er það þó sú Ólöf, sem sagan í upphafi greinarinnar fjallar um. Líklegra er að til hafi verið önnur Ólöf húsfreyja á Arnarnúpi, áratugum eða hundruðum fyrr, og hugsanlega búið þar sem ekkja – eða ein, því varla hefði kvíin verið kennd við hana annars. Nafnið gæti hins vegar bent til skyldleika yngri Ólafar við hina eldri. Sérstakt ættfræðiverkefni væri að grafast fyrir um það.
En Ólöf hefur orðið heimilisfólki á Arnarnúpi hugstæð fyrir fleira ef marka má munnmæli, sem þar hafa lifað, og náð inn örnefnaskrá jarðarinnar. Fyrst er það, að á hlaðinu á Arnarnúpi stóð steinn . . .
. . . á að gizka 60-80 cm á kant og um 80 cm á hæð. Virðist hafa verið klöppuð laut í hann, og var sagt, að hún hafi tekið 10 merkur. Hafði Ólöf átt að flytja steininn heim og haft hann fyrir mjaltakonur til að þvo sér um hendurnar, þegar þær komu frá mjöltum. Átti hún að hafa sagt að ekki mundu verið [svo] fleiri mjaltakonur á Arnarnúpi en gætu þvegið sér úr skálinni. Steinninn var nefndur Holusteinn. Hann var farinn að slitna þegar Guðbjörg [húsfreyja á Arnarnúpi 1922-1956 og heimildarmaður um örnefnin] man til, því að fiskur hafði verið barinn á steininum.

Holusteinninn á Arnarnúpi. Kirkjubólssystkin, Bjarni og Sigrún (ljósm.: Ásdís B. Geirdal).
Þá segir í örnefnaskránni: „Um fjárfjölda Ólafar er það sagt, að þegar fé hennar rann til fjöru af dal, hver kind af annarri, og fyrsta kind var á Stapahrygg, hafi sú síðasta verið á Stekkahrygg“. . . Þar á milli eru nær tveir kílómetrar svo eftir því hefur fjárfjöldinn á Arnarnúpi verið ævintýralegur í bókstaflegri merkingu.73
Dálítið undrunarefni er að Ólafarkví skuli vera kennd við stekk, eins og haft var eftir Arnarnúpsfólki í örnefnaskrá. Ber þar einkum tvennt til: Í fyrsta lagi er lögun mannvirkisins
73 Kjartan Ólafsson taldi líklegt að Ólöf sú, sem sagan um Holustein tengist, hafi verið Ólöf húsfreyja á Arnarnúpi, kona Össurar Jónssonar, sem í sumum útgáfum þjóðsagnanna er nefnd Ólöf ríka og kynni þannig að vera ruglað saman við Ólöfu Björnsdóttur, húsfreyju í Hrauni, Guðnasonar í Ögri, sem uppi var nokkru fyrr . . . Sjá Firði og fólk 900-1900 Úr vinnuhandriti Kjartans Ólafssonar Þingeyrarhreppur Arnarnúpur, (án ártals), 2-5. Hugsanlega er Ólafarkví þá einnig kennd við Ólöfu, sem hér er fyrr nefnd.
ólík stekkjum. Tóftin við steininn stóra er hringlaga, þótt vera kunni að grjótrústin fast við steininn sé úr mjaltakví sem þar hafi staðið. Í öðru lagi er óvanalegt á þessum slóðum að stekkir standi sjávarmegin við bæ. Venjulega var sótzt eftir dalbeitinni og stekkum komið fyrir í samræmi við það. Þá er varla hægt að segja að beitilandið umhverfis Ólafarkví sé mjög sumarvænt. Í sömu átt fellur það svo einnig að „stekkjarveg“, eða svo sem 1200 m, framan við Arnarnúpsbæ eru samkvæmt örnefnaskrá „tvær grjóttóftir með litlu millibili. Sú efri er minni. Þetta eru stekkjartóftir. Amma Guðbjargar [áðurnefnds heimildarmanns] sagði henni, að lömb hefðu verið höfð í hinni minni en ær mjólkaðar í þeirri stærri.“ Þarna í kring eru mörg Stekkjar-örnefni, svo sem Stekkahryggur, Stekkagil, Stekkeyri, Stekkalækur og Stekkapartar. Fjöldi örnefnanna bendir til þess að þarna hafi landnýtingin verið hefðagróin og sambærileg við það sem finna má minjar um á öðrum jörðum við Dýrafjörð.
Án þess að útiloka hlutverk Ólafarkvíar sem stekkjar á einhverjum tíma sumars eða ára grunar mig að líklegra hlutverk hennar hafi verið hlað – sauðabyrgi. Íburðarmiklir veggir kvíarinnar (innri hleðslan) svara til hlaðs eða fjárborga, eins og verið hafa á fleiri jörðum í hreppnum. Með girðingunni umhverfis hefur verið enn auðveldara að halda utan að fénu og veita því skjól í hrakviðrum. Þarna er stutt til sjávar, rétt liðlega 200 m, þar sem fjörubeit kom sér vel á vetrum, sem og beitin í teigunum inn undir Ófæruna, því með sjónum er snjóléttara en frammi á dalnum. Flöturinn innan girðingarinnar hefur líka að vissu marki getað gegnt hlutverki nátthaga, þótt lítill sé, auk skjóls. Mikilvægt hefur hlutverkið alla vega verið úr því svona mikið hefur verið lagt í mannvirkið: kvína og girðinguna.

Horft út yfir Ólafarkví í átt til Helgafells. Í forgrunni myndarinnar og frá hægri brún hennar má sjá móta fyrir girðingunni sem umlykur kvína, sjá teikningu Sigurðar E. Breiðfjörð hér framar. Ólíklegt er að heyjað hafi verið innan girðingarinnar; frekar að hún hafi verið aðhald fyrir sauðfé sem skjól hafði í kvínni/hlaðinu, jafnvel lítill nátthagi?
En huga má að fleiru. Getur verið að grjótrústin undir stóra steininum, sem áður var nefnd, hafi verið einhvers konar var eða geymsla fyrir hey? Hringlaga hlöð fyrir sauðfé voru einnig þekkt í Skotlandi og þá meðal annars þannig að fé var að einhverju marki fóðrað í þeim. Hringjötu var komið fyrir í miðju hlaðsins og með útvegg.74 Arnarnúpur var líklega besta heyskaparjörðin í hreppnum í fornum sið svo hugsanlegt er að Arnarnúpsbóndi hafi haft tök á því að hára útigangsfé sínu með fjöru og annarri útbeit. Þá hefur verið hagræði af því að koma nauðsynlegum heyforða fyrir í dálitlu skýli hlöðu úr grjóti þar undir steininum stóra. Já, hver veit?
Annars má helst álykta að auk þess að hafa getað gegnt hlutverki stekkjar hafi meginhlutverk Ólafarkvíar verið að létta fjárgæslu á vetrum og þá einkum við beit í fjöruna. Svo mikil mannvirki hafa Arnarnúpsmenn, hverjir sem það nú voru, varla reist til fárra vikna notkunar á ári hverju – eins og hefur verið bent á varðandi mörg selmannvirkin í Dýrafirði.
En svona í lokin væri gaman að vita, hví Sigurður E. Breiðfjörð hafi lagt svona mikla vinnu og alúð í að mæla upp mannvirkið og búa út vandaða teikningu af því. Fremur sjaldgæft mun það hafa verið á þeim árum að menn utan þröngs fræðimannahóps gæfu sig að slíku verki. Sigurður var óvenjulegur og sérstæður um margt og kann það hafa ráðið. Einnig má vera að sr. Sigurður Z. Gíslason (1900-1943), sóknaprestur í Sandaprestakalli, sem lét sig varða ýmislegt óhefðbundið í umhverfi sínu, hafi hvatt nafna sinn Breiðfjörð til verksins. Prestur hefur oft átt leið fram hjá Ólafarkví á leið sinni til embættis á annexíunni í Hrauni. Kvíin hefur þá ef til vill vakið sérstaka athygli hans.
SILUNGALÆKUR, KIRKJUAUGA . . . Nokkurt gagn höfðu heimilin af silungi og er fáeinna dæma getið um það í örnefnaskrám Þingeyrarhrepps. Úr Brekkuhvilft í Brekkudal fellur til dæmis lækur sem heitir Reiðarlækur (Reyðar-?). Nafnið gæti vísað til bleikjusilungsgengdar. Örnefnið Klegghólar á Söndum (framborið Kleggjhólar) hefur valdið heilabrotum, hvort tengist klaki (silungs) á einhvern hátta. Þar eru sögð vera „nokkur djúp vatnsaugu, sem heita Pyttir (í þá gekk silungur snemma á vorin)“, hermir örnefnaskrá. Skammt fyrir framan Hof, á allbreiðu flatlendi meðfram Kirkjubólsá, tekur við „landsvæði, sem heitir Krókar, þetta er grösugt land með smátjörnum, en þurrum bökkum í kring. Helzt virðist þarna vera silungaklakstöð, og í Krókalænu, sem er djúp læna um Krókana, er hægt að veiða silungana með berum höndum.“ Í bréfi Kristjáns V. Guðmundssonar frá Kirkjubóli segir svo frá veiði þar í septemberlok 1905: „Þegar ég kom heim var Helgi á Hofi . . . kominn með tvo silunga úr Krókunum. Var þá bannað að veiða meira“. . .75 Þórður Flóventsson hét maður þingeyskur, kunnáttusamur um veiðiskap sem m.a. ferðaðist um héruð og kynnti sér fiskræktarmöguleika. Hann kom að Hofi sumarið 1927 og skoðaði Krókalænuna, sem hann taldi mjög góða . . .
74 Schumann, Johan: Faarehold i Norge II Praktisk faarestel. (1899), 864-866. 75 Bjarni Guðmundsson: „Guðmundar saga og Margrétar“. (2001), 128.
. . . til að varðveita silunginn fyrir öllum rándýrum, og rennur í mjög góða á, sem rennur hiklaust ofan til sjávar, með góðum fljótum líka, og sýndi jeg samferðamönnum mínum polla í læknum, sem gott væri að geyma laxa eða silungssíli í yfir sumarið, sem hefði þá samgang til sjávar76 . . .
Raunar skrifaði Þórður einnig að svo mikill silungur hafi verið í lænunni að goldið hafi verið eftir hana „sem jarðarkúgildi (6 ær)“. Aðrar heimildir um það mat hef ég ekki rekist á . . .
Í Keldudal geta örnefnaskrár um vatnagagn, enda skilyrði þar góð frá náttúrunnar hendi: „Í Kirkjuauganu og Garðalæk í Hrauni veiddist töluvert af silungi áður fyrr“, skrifaði Kristján Jón Guðmundsson frá Arnarnúpi í örnefnaskrá fyrir Hraun frá árinu 1953. Og ekki munaði minna um Silungalækinn á Skálará að því er segir í örnefnaskrá:
Upp af Oddnýjareyri eru svo Bugar, það eru mýrar, er fer að draga til hlíðarinnar. Í Bugunum er lækur, sem heitir Silungalækur. Hafði verið svo mikil silungaveiði í þessum litla læk, að hún var metin til kúgildis. En svo gerðist það eitt sinn, er bændurnir að framan komu frá kirkju á hvítasunnudag, að þeir veiddu silung í læknum. En himnaföðurnum blöskraði sú andskotans græðgi, svo ekki hefur sézt þar branda síðan.
Minni sem þetta eru þekkt allvíða. Þau má taka sem dæmi sjálfbæri og umhverfisvernd fyrri tíðar – að taka ekki meira af auðlindinni en nemur vöxtum af henni.
Þótt ár og lækir hafi ekki boðið mikla veiði hefur mátt sækja þangað nokkur búdrýgindi eins og áðurnefnd dæmi benda til. Þau eru áreiðanlega fleiri.
ÖRNEFNIN SEGJA MARGT . . . Það sem hér hefur verið rakið um búskaparörnefni og -minjar í Þingeyrarhreppi ber fremur að líta á sem dæmi en tæmandi upptalningu. Sjálfur hef ég sannfærst um að minjadæmin eru mun fleiri. Á nokkrum stöðum í úthögum er að finna minjar eða grun um minjar sem fátt er vitað um. Mjög líklega tengjast þær búskap og þá einkum sauðfjárhaldi, sem var svo mikilvægt fyrir afkomu fyrri kynslóða. Verðugt væri að leita þeirra minja með skipulegum hætti, skrá þær og rannsaka í því skyni að varpa sterkara ljósi á það hvernig gengnar kynslóðir nýttu sér landið og kosti þess til framfærslu. Þá væri einnig æskilegt að gera rækilegri rannsóknir á ýmsum þeim minjum sem vakin hefur verið athygli á með þessum skrifum.
76 Þórður Flóventsson: „Laxa- og silungaklak á Íslandi”. (1927), 148.
41