
29 minute read
I Um búskap Gísla Súrssonar í Haukadal
INNGANGUR Gísla saga er elsta heimildin um búskap í Þingeyrarhreppi. Sjálfsagt má deila um áreiðanleik hennar í einstökum atriðum. Staðfræði sögunnar er þó býsna trúverðug og fleira rennir stoðum undir hana. Þegar ég kom til barnaskóladvalar í Haukadal um miðja síðustu öld varð mér fljótlega ljóst að sagan um Gísla Súrsson var mörgum þar hugstæð. Allmörg örnefni skírskota til sögunnar og talað var um helstu persónur hennar eins og fólk er flutt hefði úr dalnum fyrir fáeinum áratugum. Haukdælir höfðu skoðun á sögupersónunum og voru stoltir af mörgum þeirra; höfðu m.a. nefnt ungmennafélag sitt eftir aðalpersónunni, Gísla Súrssyni. Ég komst því ekki hjá því að kynnast sögunni og viðhorfum Haukdæla til hennar. Við þrálestur sögunnar síðar óx hún með mér, einkum sá kafli hennar sem í dalnum gerist. Hin glögga staðfræði eykur trú lesanda á sannleiksgildi sögunnar, og flókinn örlagavefur hennar er hvort tveggja í senn heillandi og harmrænn. Við hverja heimsókn mína í Haukadal rís sagan því upp úr öllu umhverfi þar, flest trúlegt, annað orpið vafa og spurningum en um sumt er sagan steinþögul. Hvernig bjó þetta fólk og hvernig sá það sér farborða og komst af frá degi til dags? Um það á þessi hugleiðing að fjalla. Hún getur þó vart orðið meira en vangaveltur byggðar á sárafáum staðreyndum en mestan part ályktunum dregnum af Gísla sögu svo og öðrum heimildum og almennri vitneskju um náttúrulegar aðstæður og verkhætti á tímum sögunnar.
GÍSLI SÚRSSON OG UPPRUNI HANS Þorbjörn súrr er sagður hafa komið til Haukadals frá Súrnadal á Mæri í NV-Noregi með stórfjölskyldu sinni, m.a. börnum er við þessa sögu koma: Þórdísi, Þorkatli og Gísla en Ari, er yngstur var kemur ekki við hana. Sagan segir að Þorbjörn hafi búið á bænum Stokkum (Stokke), eins og faðir hans, Þorkell. Má því ætla að um gamalgróið ættarbýli hafi þar verið að ræða. Súrnadalur, með hliðardölum sínum, var og er góðsveit: . . . „ en af de største, betydeligste og frugtbareste Dalstrækninger Nordenfields . . .“ var skrifað um hann á ofanverðri átjándu öld. Þar hafði áin Surna mótað „grøderikt kornland . . .“ og kornrækt hafist tvö þúsund árum fyrir okkar tímatal. Beitilönd í fjalldölum þóttu væn og þar var búfé haldið í seljum á sumrum; kvikfjárrækt var helsta búgreinin: . . . „ jordbruksnæringa i større monn var basert på seterbruket og fedrifta.“1
Advertisement
Þorkell, faðir Þorbjarnar og afi Gísla, sem var hersir, megandi maður í byggð sinni, hafði viðurnefnið Skerauki. Bent hefur verið á að það sé heiðursnefni, gefið dugandi stórbónda: hafi raunar verið Skyr-auki og merkt þann sem eykur skyrmagnið.2 Mjólk sem hleypur, skerst, og mjólkin sker sig, er sagt enn í dag þar um slóðir.3 Sagan um stórbrunann á Stokkum, sem kveiktur var í óvinafagnaði þar í kjölfar ástamála, og heimamenn reyndu að slökkva með sýru er þar stóð í tveimur keröldum, vísar líka til töluverðrar mjólkurvinnslu. Sýrukeröldin benda
1 Hyldbakk, H.: Bygesoge for Surnadal I (1957). 2 Þótt sé e.t.v. ögn úr leið má nefna að mörgum öldum seinna bjó í Yztabæ í Haukadal Hákon nokkur Jónsson. Hákon „var ekki gefinn fyrir sjósóknir, en stundaði búskapinn þess betur . . .“ Það var líklega þess vegna sem „hann var stundum kallaður“ Hákon „bóndi“, skrifaði Ólafur Ólafsson í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga, 4. ár, 1959, 87. Sérstaða Hákonar dugði til nafngiftarinnar, líklega með sama hætti og gerst hafði hvað snerti Þorkel skyrauka. 3 Mogstad, E.: Dei norske stadnamna i Gísla saga. Univ. i Oslo (2003), 11.
til mjólkurvinnslu svipaðrar og síðar varð algeng á Íslandi – skyrgerðar og/eða súrsöfnunar. Vafa er hins vegar undirorpið hvort nafnið Súrr, sem Þorbjörn fékk og þeir Súrs-synir, sé frá sýrukeröldunum komið, það kunni allt eins að vera tengt Súrnadal, er dregur nafn sitt af votlendi og súrri jörð ósengja árinnar sem lengi fyrir landris þar voru umflotin sjó.4 Líklega ekki ósvipaðar aðstæður og sjá má til dæmis við engi og ósa Hvítár í Borgarfirði. Komnir til Íslands hafi því Stokka-menn verið nefndir Súrdælir einfaldlega af því að þeir komu frá Súrnadal.
Hverfum samt aftur til Gísla. Hann var sagður . . . „hagr maðr ok iðjumaðr mikill, hógværr í skapi.“ Og á öðrum stað segir . . . „sat Gísli í stofu ok smíðaði“5. Helsta ástæðan fyrir því að Gísli slapp með sínum úr brunanum á Stokkum var að við byggingu bæjarins (sem var stokkahús?) hafði hann komið fyrir hugvitsamlegum flóttabúnaði er . . . „þótti útan að sjá sem heilt væri. . .“ svo opna mátti vegginn með því að hrinda „út stokkinum . . .“ 6
Þegar Gísli, nauðugur viljugur, yfirgefur Súrnadal í kjölfar harðvítugra deilna og stórbrunans á Stokkum má því ætla að hann hafi verið orðinn reynsluríkur framkvæmdamaður til smíða og sennilega einnig til búskapar í ljósi ættarsögunnar á Stokkum og þeirra góðu skilyrða og hvetjandi er þar voru til búskapar frá náttúrunnar hendi. Bent hefur verið á að landþröng hafi einnig ýtt undir leit landnámsmanna að betri afkomumöguleikum og þá sókn þeirra til Íslands.7 Gerðahægð Þorkels bróður Gísla, sem var yngri, og sagan getur um, hefur án efa aukið ábyrgð og annan hlut Gísla við búskapinn. Að öllu eðlilegu hefði Gísli sennilega tekið við föðurleifð sinni á Stokkum enda virðist forystuhlutverkið orðið hans þegar stórfjölskyldan hóf að nema land á nýjum slóðum – í Haukadal við Dýrafjörð.
SÚRDÆLIR SETJAST AÐ Í HAUKADAL Nokkuð er á reiki hvernig byggð var háttað við Dýrafjörð er skip Súrndæla kenndu þar grunns. „Öll lönd váru þá ónumin á hvárritveggju strönd“ segir sagan, og Þorbjörn Súr . . . „ keypti land á inni syðri strönd, á Sæbóli í Haukadal.“8 Í yngri gerð Gísla sögu segir hins vegar að þá væri . . . „ byggt víðast um Vestfjörðu . . . Byggt var áðr fyrir innan [Haukadals]ána. . .“9 en þar bjó Þorgrímur nef. Landnámabók segir líka: „Þorbjörn súrr kom út at albyggðu landi. Honum gaf Vésteinn Végeirsson hálfan Haukadal.“10 Síðan varð Gísli tengdasonur Vésteins, kvæntist Auði dóttur hans. Það skapaði Gísla áreiðanlega mikilvægari stöðu þar í dalnum en ella hefði orðið, eins og nánar verður vikið að.
4 Mogstad, E.: Dei norske stadnamna i Gísla saga. (2003), 10-11. 5 Íslendinga sögur V, Gísla saga (Y), 110 og 114. Vísað til texta Gísla sögu er Guðni Jónsson bjó til prentunar og Íslendingasagnaútgáfan gaf út, V. bindi (1953), og ómerkt orð innan gæsalappa eru þaðan fengin; (Y) merkir að stuðst er við yngri gerð sögunnar. 6 Íslendinga sögur V. Gísla saga (Y), 118. 7 Kristján Eldjárn: „Hugleiðing um land og þjóð“. Búnaðarblaðið Freyr, LXXVII (1981), 10-11. 8 Íslendinga sögur V. Gísla saga, 8. 9 Íslendinga sögur V. Gísla saga (Y), 121. 10 Íslendinga sögur I. Landnámabók, 105.
Hvað sem byggð líður að öðru leyti var fljótlega á blómatíð Gísla í Haukadal getið nokkurra nágranna svo sem Þorkels landnámsmanns á Saurum í Keldudal, Önundar í Meðaldal, Þorvaldar gneista á Þingeyri; einnig var búið í Hólum. Síðan eru það önnur setin býli í Haukadal, dreifð um dalinn: á Nefsstöðum, Orrastöðum, Skammfótarmýri og Annmarkastöðum.11 Á sögunni má einnig skilja að margmenni hafi verið með Súrndælum.
Þótt vopnaburður hafi eflaust verið tamur þeim Súrndælum er næsta líklegt að það hafi einnig verið vel kunnandi bændur sem réðust til búsetu í Sæbóli í Haukadal. Við þeim lá því beinast að taka upp búskaparhætti sem þeim voru tamir úr heimahéraði þegar að því kom að tryggja afkomu fjölskyldu og vinnufólks á nýjum og um margt framandi slóðum . . . „ hér fundu þeir fyrir skilyrði sem gerðu þeim kleift að stunda áfram hefðbundna kvikfjárrækt sína í óbreyttri mynd“, svo gripið sé til orða dr. Kristjáns Eldjárns.12 Nokkur viðbrigði hafa það samt verið að koma úr víðlendi og frjósemi Súrnadals í heldur þröngan Haukadalinn. Flatlendið áttu þó botnar dalanna sameiginlegt sem og fjöll er afmörkuðu þá. Viðbrigðin urðu þó varla jafn mikil og Önundur tréfótur lýsti í vísu sinni:

Hefk lönd ok fjölð frænda flýit, en hitt es nýjast: Kröpp eru kaup, ef hreppik Kaldbak, en lætk akra. 13
Og þar sem kallaðist Sæból hófst Þorbjörn þegar handa með fólki sínu, sonunum Gísla og Þorkatli og dótturinni Þórdísi. Gísli, er snemma virðist hafa farið þar fyrir, „vann nótt með degi“; hafði lítið lið af Þorkatli bróður sínum, segir þar, enda skiptu þeir bræður búi sínu bráðlega –. . . „ Gísli hafði bú eftir og saknar engis í, að nú sé búit verra en áður.“14 Nöturlegar mátti vart lýsa búmennsku Þorkels. Gísli, verkmaðurinn, reisti bæ í Sæbóli, en síðar á Hóli, aðeins um 250 m framan við Sæból, og hafði þá þokað fyrir Auði systur sinni og manni hennar Þorgrími goðorðsmanni. Líklega hafði þá þrengst svo um í Sæbólsskála.
11 Sjá uppdrátt; Kristján G. Þorvaldsson: „Vestur-Ísafjarðarsýsla“. (1951), 127. 12 Kristján Eldjárn: „Hugleiðing um land og þjóð“. (1981), 12. 13 Íslendinga sögur VI, Grettis saga Ásmundarsonar. (1953), 19, eða með öðrum orðum: „Eg hefi flúið lönd mín og frændlið, en hitt er mér efst í huga: Það eru kröpp kaup, ef eg hreppi Kaldbak, en missi akra mína.“ 14 Íslendinga sögur V. Gísla saga, 20.
Í samræmi við fyrri stórbúnað með nautgriparækt á Stokkum reisti Gísli með fólki sínu myndarlegt fjós í Sæbóli: „Þar stóðu þrír tigir kúa hvárum megin“, hermir sagan.15 Um Sæból skráðu Árni Magnússon og Páll Vídalín í Jarðabók sumarið 1710: „Fornt eyðiból skamt austur frá heimatúninu; þar eru girðingar stórar og tóftaleifar miklar, en ekki hefur verið hjer bygð verið síðan í gamallri tíð.“ Segja þeir ennfremur að á sérhverju eyðibólanna í dalnum séu „ . . . ljós byggingamerki af tóftarústum og sumstaðar af túngarðsleifum, nema á Annmarkastöðum, þar er stórt jarðhlaup yfir runnið . . .“16

Hluti uppdráttar Sigurðar Vigfússonar byggður á fornminja-rannsókn hans að Sæbóli í Haukadal hans sumarið 1882, er sýnir skálann þar sem og fjósið. Örin vísar til norðurs.
SÆBÓLSFJÓSIÐ OG NAUTGRIPAFJÖLDINN ÞAR Sigurður Vigfússon fornfræðingur taldi sig með rannsókn sinni undir lok nítjándu aldar hafa fundið Sæbóls-fjósið og hann staðfesti rými þess: . . . „ er auðsætt, að í fjósinu hefir verið hæfilegt rými fyrir þessar 60 kýr“, skrifaði Sigurður enda hafi það verið fjórstætt.17
„Eg gerði mér mikið far um að ransaka gólf tóttanna,“ skrifaði Sigurður, „því að það sýnir bezt, hvað þær hafa verið.“ Hann gróf því sjö grafir í ætlaða fjóstóft og: „ þar fann eg svarta flekki neðan í öllum hnausunum, í öllum gröfunum nema einni; þetta var því auðsjáanlega vottr af gamalli mykju, sem aldrei getr leynt sér, þó gamall verði í moldinni; og þar sem eg fann þetta hingað og þangað innan um alla tóttina þori eg að fullyrða, að hér sé fundið hið gamla fjós á Sæbóli.“18
Síst er að undra að afkomendur Þorkels „Skyr-auka“ komnir á nýjar slóðir vildu áfram leggja rækt við framleiðslu mjólkurmetis. Myndarleg fjós og fjöldi nautgripa virðast að vísu einkenni
15 Íslendinga sögur V. Gísla saga, 35. 16 Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók. (1940), 39. 17 Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882“. (1884), 16. 18 Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882“. (1884), 19.
eldri stórbýla þessara tíma19 en sextíu nautgripa fjós er samt stærra en önnur miðaldafjós hérlend sem rannnsökuð hafa verið.
Tvennt má athuga sérstaklega, þó nátengt. Annars vegar er það stærð fjóssins sem gripahúss en hins vegar gripafjöldinn. Að koma upp sextíu nautgripum tekur nokkurn tíma; rúm í skipum eða eftirbátum leyfði aðeins flutning örfárra gripa yfir hafið, ef til vill einungis 1-2 mylkra og fenginna kúa og 3-5 kvígu- og nautkálfa. Fræðilega er mögulegt að ná þessum gripafjölda upp á fáum árum.20 Það er heldur ekki útilokað að nautgripi til ásetnings hafi Sæbólsbændur einnig fengið frá nágrönnum, í ljósi þess hve byggð virðist hafa verið orðin þétt er þeir komu til Haukadals. Geldneyti munu hafa verið stærri hluti nautgripastofns á þessum árum en síðar varð; þau m.a. notuð til dráttar, svo nautgripastofninn í Sæbóli var því blandaður; sennilega hafa allir kálfar verið settir á. Ekki er óhugsandi að Gísli og félagar hans hafi byggt fjósið með hliðsjón af framtíðarþörfum og með reynslu og hefðir heiman frá Súrnadal í huga; því hafi fjósið verið nokkuð við vöxt allra fyrstu ár stórfjölskyldunnar í Haukadal.
Sigurði Vigfússyni mældist fjósið hafa verið 32 x 18 álnir (um 20 x 11 m) að flatarmáli. Um er að ræða utanmál en gera má ráð fyrir fast að 2 m veggjaþykkt. Hve margir gripir gætu hafa rúmast þar?
Gísli Gestsson rannsakaði fornt fjós að Gröf í Öræfum. Þar reyndist básabreiddin vera tæpur 1 m og lengdin um 1,6 m; flórinn var 0,7 m og þannig var innanbreidd fjóssins 3,4-3,8 m (tvístætt).21 Tæpur möguleiki er á því að fjórstætt hafi gripirnir komist fyrir; til þess hefði þurft 8 m breidd, en fast að 15 gripir hefðu komist fyrir á lengdina. Nautgripirnir, sem þá voru áreiðanlega smærri að vexti en eru nú, voru án efa á ýmsum aldursstigum og vera má að básastærð hafi verið mismunað samkvæmt því. Þá má taka tillit til hugsanlegrar vetrarbeitar þeirra; kunna t.d. fleiri en einn gripur að hafa verið saman á bás en þannig nýttist plássið betur, jafnvel einhvers konar stíu-„bæsing“ gripanna sbr. það að Sigurður fann mykjuleifar . . . „ hingað og þangað innan um alla tóttina. . .“ – hugsanlega þá einhvers konar lausagöngu að hætti síðari tíma.
Stærðirnar má meta á ýmsa vegu en gripafjöldinn samkvæmt sögunni er þó í efstu mörkum þess að hafa getað rúmast í Sæbólsfjósinu er Sigurður taldi sig hafa fundið. En í öllu falli er ljóst að fjósið hefur verið stórfengleg bygging í ljósi þeirra tíma, bygging sem mikils þurfti hvað snerti vinnu og hráefni, þar með talið stórviði í burðarvirki.22
19 Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands IV. (1989), 77. 20 Magnús B. Jónsson búfjárfræðingur hefur reiknað það út fyrir mig að ein kýr geti alið af sér nær fimmtíu nautgripi á tíu árum, hafi öll afkvæmi lifað og öll verið sett á; í samtali 18. janúar 2018. 21 Hér má benda á rannsókn Gísla Gestssonar á fjósinu í Gröf í Öræfum, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. (1959), 36-43. 22 Vísa má til athyglisverðrar frásagnar Þorbergs Steinssonar, sem hann skráði 1. maí 1942 (sjá Örnefnaskrá Hvammur). Í Hvammi segir hann „merki til, að höfðingi hafi búið til forna, bæði stórar bæjarrústir, stórir öskuhaugar, stórt fjós með vatnsleiðslu í, þannig að læk, sem rennur í gegnum túnið, hefur verið veitt í gegnum fjósið, og varð þessa vart nú á síðustu árum, er sléttað var í tóttum þeim.“ Í samtali BG við Garðar Sigurðsson
BÚHÆTTIR Í HAUKADAL
Eins og þegar hefur verið ráðið af Gísla sögu virðist mjólkurmeti hafa verið mikilvæg, ef ekki mikilvægasta undirstaða manneldis Súrndælinga, bæði þar eystra sem og eftir að þeir settust að í Haukadal, rétt eins og síðar varð helsta einkenni daglegrar fæðu Íslendinga.23 Sagan studd minjum í Haukadal bendir til þess að nautgripir hafi verið helsti búpeningurinn og mannfjöldinn, sem sagan segir að þar hafi verið, þurfti mikinn mjólkurmat. Rannsóknir sýna enda að á þessum tímum byggðist kvikfjárhald á nautgripum öðrum fremur.24
En eitt er að reisa sextíu kúa fjós og annað er að sjá þeim bústofni og öðru kvikfé fyrir nauðsynlegu fóðri. Þar kom til sumarbeit, heyskapur vegna vetrarfóðurs og ef til vill einnig takmörkuð vetrarbeit. Hagstæðara veðurfar og ráðandi búnaðarhættir geta þó hafa gert hana drýgri en ætla mætti af seinni tíma reynslu. Ganga má út frá því að sumarið með gróanda sínum hafi eins og allt fram á síðustu öld verið tími framleiðslu og verkunar mjólkurmatarins; veturinn var tími takmarkaðrar viðhaldsfóðrunar húsdýranna með lítilli (mjólkur)framleiðslu. Innistaða nautgripa í hinu stóra Sæbólsfjósi kallaði þó á umfangsmikla heyöflun. Gísli „vann nótt með degi“ og „lét alla menn vinna heyverk“ segir á einum stað. Heyin voru Gísla dýrmæt eins og ráða má af viðbrögðum hans er af tók aðra síðu þaksins á Hólsbænum í SV-stórviðrinu haustið þegar Vésteinn bóndi á Hesti í Önundarfirði gisti Haukadal með sögulegum afleiðingum. Stórvirði af suðvestri eru vel þekkt í Haukadal en það er ein varhugaverðasta vindáttin þar og í nágrannadölum: . . . „ Gísli fór ok nær allir mennirnir með honum til heyjanna, at duga við þeim.“25 Þá hefur auðsýnilega verið búið að bera upp hey sumarsins til vetrargeymslu í útihey eða dyngjur sem svo voru nefndar þar í sveit á síðustu öld. Vésteinn, þá gestur að haustblóti í Haukadal, bauð aðstoð sína en Gísli þáði hana ekki. Vésteinn hefði betur gert það því þá hefði hann sennilega sloppið undan launmorðingjanum er vó hann á meðan heimilismenn á Hóli sinntu heybjörgunarstörfunum.
Lítið vitum við um heyskaparhætti eða heyskapar-amboð Haukdæla. Gísla saga greinir frá húskörlum Þorvarðar í Holti í Önundarfirði er „hjuggust með ljám“. Vésteinn, á leið sinni til haustblótsins í Haukadal, skildi þá að og stillti til friðar þar í slægjunni. Gætu húskarlarnir þá hafa verið við síðbúinn heyskap fyrir húsbónda sinn á engjablettunum kringum selið frá Holti, sem enn má sjá á Bjarnardal. Má ætla að ljáir hafi því einnig tíðkast í Haukadal enda þeir hið forna uppskeruáhald í Norðurálfu en það er önnur saga. Sambærilegur haustheyskapur við sel kann einnig að hafa verið stundaður í Haukadal.
frá Neðsta-Hvammi 10. ágúst 1980 nefndi hann að við jarðvinnslu vegna túnasléttunar í Hvammi hefðu komið í ljós hleðslur sem vöktu grun um allstórt fjós, m.a. hellur á milli bása. Ekkert frekar var gert með þær minjar. Ég bar frásögnina undir Lárus Hagalínsson frá Bræðraparti í Hvammi er svaraði með tölvubréfi 19. apríl 2018: „Ég get því miður engu bætt við frásögn Garðars um hin fornu fjós í Hvammi, [öðru en því] sem maður heyrði sem barn/unglingur af vörum eldra fólks, að í ljós [hefði] komið fornt Fjós við jarðrask vestan við „Flötina,“ Bæjarhólinn [í Mið-Hvammi] “. . . Þá gefa fornleifarannsóknir bendingar um allstórt miðaldafjós í Kjaransstaðakoti, innan við Kjaransstaði, skv. Margréti Hallmundsdóttur fornleifafræðingi, í samtali við BG 22. júlí 2019. 23 Hallgerður Gísladóttir: Íslensk matarhefð. (1999), 53-54. 24 Øye, Ingvild: „Utmarka i vestnordisk perspektiv“. (2012), 68. 25 Íslendinga sögur V. Gísla saga. (1981), 26.

Gætu skáli og fjós í Sæbóli hafa litið svona út?! Alger í-mynd mín byggð á uppdrætti Sigurðar Vigfússonar frá 1882 af tóftum bygginganna.26
Sextíu nautgripir, og þó eitthvað færri væru, kröfðust mikils fóðurs bæði með beit og vetrarfóðri. Má vera að útiganga nautgripa, meiri en síðar tíðkaðist, hafi heppnast, m.a. í ljósi sagna um Haukadalsskóga27. Miðað við lágmarks vetrarfóðrun, 10-20 hestburði á grip (1000-2000 kg) að hámarki, hefur þurft um 20 x 60 = 1200 hestburði til vetrarfóðurs gripanna í Sæbólsfjósi. Það svarar til heys af að minnsta kosti 40 hekturum vel sprottins úthaga, en það slagar upp í samanlögð tún ræktunaraldar í Haukadal saman talin. Hafa því varla margir engjablettir verið óslegnir í Haukadal, eða hagar óbitnir á þeim árum. Mikinn mannafla hefur einnig þurft til heyöflunarinnar. Hér má minna á Vatnið, er Haukdælir nítjándu aldar nefndu svo28, Seftjörn í Haukadal, en það gaf 40-50 hestburði af kúgæfu starheyi árlega. Gísla saga, eins og Haukdælir síðustu aldar29, kallar það sef en það nýttist Gísla er hann fór hina örlagaríku hefndarför til Sæbóls í skjóli myrkurs og vó Þorgrím mág sinn.30 Sef virðist hafa verið notað sem eins konar teppalögn á skálagólfið í Sæbóli. Sú notkun þess bendir a.m.k. ekki til fóðurskorts í Sæbólsfjósi.
Sagan og minjarnar benda til þess að fyrstu árin a.m.k. hafi lífsbarátta Súrndæla í Haukadal einkennst af eindrægni og samstöðu stórfjölskyldunnar undir forystu dugnaðar- og hagleiksmannsins Gísla, sem auk þess hefur haft styrka stöðu í byggðinni vegna venzla, verandi
26 Höfunda/umráðamanna mynda er jafnan getið í myndatextum; ómerktar myndir eru frá BG. 27 Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882.“ (1884), 29. 28 Ólafur Ólafsson: „Nokkur atriði úr Gísla sögu Súrssonar.“ (1954), 75-81. 29 Kristín Jónsdóttir frá Vésteinsholti í tölvubréfi til BG 7. janúar 2018. Knútur Bjarnason (1917-2013), er dvaldi sem barn nokkra hríð í Árholti í Haukadal vegna skólagöngu, heyrði einnig nafnið vatnstaða notað um sefið af tjörninni. 30 Íslendinga sögur V. Gísla saga. (1981), 35.
tengdasonur Vésteins, eiganda Haukadals. Líklega hefur þröngbýli, auk atgervismunar Gísla og Þorkels, bróður hans, auk tilkomu mægða við Þorgrím, ýtt undir það að hann reisti bæ á Hóli. Sá bær lá hins vegar aðeins örskots veg, um 250 m, frá Sæbóli. Tæpast hefur því verið um að ræða nýtt (lög)býli sakir hins takmarkaða landrýmis, miklu frekar „viðbótarhús á jörð“ svo líkt sé við nútímann. Því er reist sú tilgáta að Gísli hafi áfram staðið fyrir rekstri hins stóra bús í Sæbóli enda enn ekki vitað til mikilla gripahúsa á Hóli. Hins vegar lifðu í Haukadal munnmæli, studd óljósum minjum, um smiðju Gísla á Miðhól31 sem er skammt undan Hóli og upp af Sæbóli.
SELSTAÐA HAUKDÆLA?
Mikill heyskapur Gísla og þeirra Haukdæla þótt ekki væri nema vegna Sæbólsfjóssins þrengdi beitarkosti heimavið sem og slægnaþörf annarra býla í dalnum; það fólk þurfti líka að komast af með nokkurn búskap. Hvernig gæti Gísli hafa komist af með hinn stóra bústofn?
Gróðurlendi Haukadals hefur sýnilega þurft að nýta til hörguls með slægjum og beit að ekki sé nú gleymt skóginum sem sagan greinir frá. Varla hafa þó Haukadalsskógar verið miklir beitarskógar að því er sagan hermir: . . . „ heldr ógreiðfært [var] um skóginn“32 og þá ekki síst nautgripum. Ekki skal útilokað að leitað hafi verið eftir slægjum út fyrir dalinn þótt engar frásagnir séu um það. En Gísli hefur kunnað annað ráð, ráð sem beitt var á heimaslóðum hans í Súrnadal. Það var að hafa málnytupening í seli um hásumar. Selför var eldforn búskaparháttur sem þróast hafði upp úr hjarðbúskap þar sem fólk reikaði um með hjarðir sínar eftir hentugum beitilöndum á hverjum tíma. Með seljum mátti nýta beitilönd í nokkurri fjarlægð frá bæ yfir hásumarið og hlífa um leið heimalöndum (slægjum og akurlendi) fyrir beit og öðrum ágangi búsmalans. Þótt slíkir úthagar virtust fjarstæðir í þrengsta búskapar-tilliti gátu þeir verið búunum – heimilunum – miðlæg verðmæti þegar horft var til heildarhags þeirra.33
Á dögum Ólafs konungs Haraldssonar er getið um seljabúskap á Suður-Mæri í Noregi og má því ætla að hann hafi verið útbreiddur. Í Súrnadal lágu selin uppi í hlíðabrúnum dalsins, flest í svo sem „fjerdings“ fjarlægð frá bæ, en það er um 2,8 km vegalengd (fjórðungur).Selin voru talin vera jafngömul bæjunum sem þau tilheyrðu. Góð selstaða ásamt slægjulandi heima fyrir töldust eftirsóknarverð verðmæti, „store herlegdomar“.34 Fornsögur geta um sel og selfarir norrænu nýbúanna hérlendis, sbr. frásagnir Laxdælu um selin í Sælingsdal og í Vatnshorni í Skorradal.35 Þeir fluttu verktæknina með sér. En hvar gæti Gísli Súrsson og þeir Haukdælir hafa haft búpening sinn í seli?
31 Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882.“ (1884), 21. 32 Íslendinga sögur V. Gísla saga. (1981), 47. 33 Ingvild Øye orðar þetta þannig: „Det som fra en snevrere jordbrukssynsvinkel kan oppfattes som marginale områder, kunne være sentrale i et videre økonomisk perspektiv“, sjá Øye:„Utmarka i vestnordisk perspektiv,“ (2012), 52. 34 Hyldbakk, H.: Setrane i Surnadal. Útg. höfundar (1998), 7-9. Ennfremur eftir sama höfund: Bygdesoga for Surnadal II. Surnadal kommune. (1957), 218. 35 Íslendinga sögur IV. Laxdæla saga. (1981), 169-173 og 189-199.
Þótt komin séum út á þunnan ís er freistandi að fylgja þeirri tilhneigingu, sem jafnvel má kalla reglu, um að hefðir og venjur eigi það til að berast lítt breyttar á milli ótrúlega margra kynslóða á sömu slóðum. Gjarnan er tilhneigingin/reglan þá byggð á mannlegum frumþörfum sniðnum að aðstæðum, náttúrulegum og/eða félagslegum: Að sömu þarfir leiði til sömu eða svipaðra lausna.
Minjar um selstöðu er enn að finna í Haukadal, selstöðu sem sögð er hafa verið lögð niður árið 1828.36 Enginn veit hve gamlar þær minjar eru að stofni til. Ólafur Ólafsson, lengi skólastjóri á Þingeyri, sem staðkunnugur var í Haukadal enda fæddur þar og upp alinn, áleit að Annmarkastaðir Gísla sögu hafi verið þar sem síðar stóð Selið37, rétt framan við Þverá er fellur fram úr Lambadal en hann gengur til vesturs úr Haukadal um miðbik hans (sjá mynd á bls. 11). Til gamans má geta þess að fjarlægðin heiman frá Sæbóli og fram að Seli er einmitt „fjórðungs“-vegur, 2,8 km, hvort sem þar er um að ræða súrndælska meðalreglu um lengd seljagötu eða hreina tilviljun. . .
Athuganir á minjum um selstöður við Dýrafjörð38 sýna að skipulag þeirra í landinu fylgir mjög skýrri reglu: Selin voru sett á framdölum og undra oft má draga tvo jafnstóra hringi, er snertast, með miðpunkta annars vegar við heimabæinn en hins vegar í selstöðu viðkomandi bæjar. Þekja hringarnir þá mestan hluta af gróðurlendi þeirrar jarðar. Gróðurlendið skiptist þannig í heimaland og úthaga (sellandið).39 40 Með því móti mátti lágmarka rekstur með málnytupening og aðra fyrirhöfn en hámarka nýtingu landsins til beitar og slægna með hætti sem Súrs-feðgum var án efa tamur úr heimahögum þeirra í Súrnadal. Reglan fellur prýðilega að Haukadal. Vel er grösugt kringum Selið svo maklega kann engjaheyskapur að hafa verið stundaður þar líkt og Vésteinn kom að hjá Holtsseli á Bjarnardal á leið sinni til hins örlagaríka veturnáttablóts í Haukadal.
Og fleira kann að styðja tilgátuna um að selstaðan hafi verið á Annmarkastöðum: Þar bjó ekkjan Auðbjörg með syni sínum Þorsteini. Hann var sagður nær jafnsterkur Gísla og þeir „jafnan sér í leik“. Í átakadeilum Haukdæla skaut Gísli skjólshúsi yfir Þorstein og kom honum raunar undan er óvinir vildu sækja að honum.41 Af því má ráða að góður vinskapur hafi verið með Gísla og mæðginunum á Annmarkastöðum og ef til vill hafa þau búið þar undir verndarvæng hans. Sagan greinir ekki frá öðrum sambærilegum þar í dalnum. Það skyldi þó ekki vera að vinskapurinn hafi átt staðfestu í (fyrstu?) selstöðunni þar; að mæðginin hafi verið selfólk Gísla en haft þar fasta búsetu?
36 Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 58. 37 Ólafur Ólafsson: „Nokkur atriði úr Gísla sögu Súrssonar.“ (1954), 78. 38 Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður í Dýrafirði“. (2020). 39 Bjarni Guðmundsson: „ef vaxinn ertu hrjóstrum þessum af.“ (2012), 95-103. 40 Daugstad, Karoline: Mellom romantikk og realisme – om seterlandskapet som ideal og realitet. (1999), 283352. 41 Íslendinga sögur V. Gísla saga. (1981), 42.
Hér má líka auka því við að frammi á Haukadal fann Sigurður Vigfússon fornfræðingur minjar um voldugan garð um dalinn þveran: „Mun garðrinn vera fornmannaverk, og hefir verið hlaðinn upp í hlíðar báðu meginn . . .“42 Leifar garðsins eru enn vel sýnilegar frammi þar sem heitir í Ártungum þó horfnar séu úr hlíðum beggja megin hafi garðurinn náð svo langt. Garðurinn hefur sýnilega verið töluvert mannvirki því leifar hans eru 2-3 m á breidd og allt að 0,8 m á hæð. Framan hans og uppi á Koltursdal gæti geldgripum verið haldið43 en á dalnum eru dágóðir hagar, einkum til haustbeitar, sem og skjólsælt, segir vel kunnugur heimamaður.44 Þar gæti því hafa verið þriðja deilingin í landnýtingu dalsins, þ.e. heimaland, selland og geldneytaland.
45
Þegar horft er til landshátta og landkosta í Haukadal og hugmynda um nýtingu þeirra virðast nokkur líkindi með honum og Súrnadal: Flatlent heimaland, kyrrlát á fellur til sjávar, beitiland á framdölum til selstöðu og fjalldalir til geymslu geldpenings þótt allt umhverfi í Haukadal hafi verið þrengra og gróðurfar markað af svalara veðurfari. Ýmislegt kann því að hafa minnt Gísla og aðra Haukdæli á fornar heimaslóðir og auðveldað þeim að halda áfram fyrri búskaparháttum.
BLÓT HAUKDÆLA – KORN OG ÖL? En fleira þurftu Haukdælir sér til uppheldis en mjólkurmatinn. Í Gísla sögu fer töluvert fyrir frásögnum af blótum þeirra, drykkjum og ölærum mönnum. Þær vekja spurninguna um áfeng drykkjarföngin, hvaðan eða hvernig fengin voru? Ekki glöddu þeir gesti sína með kaffi svo mjöður af einu eða öðru slagi var því það sem gestum var borinn og eflaust af metnaði bæði hvað snerti magn og gæði.
„Víst er að landnámsmenn hafa reynt allt sem hægt var til að rækta korn í hinum nýju heimkynnum“, skrifaði Jónatan Hermannsson og áfram: „Vafalaust hafa þeir samt orðið fyrir vonbrigðum með kornþroskann því að sumarhiti er hér 3-4 °C lægri en á heimaslóðum þeirra. Í Eiríkssögu rauða er átakanleg saga af óyndinu sem sótti á húsbóndann þegar leið að jólum og hann átti ekkert korn til að brugga úr jólaölið.“46
Í vestnorrænum miðaldabúskap var akuryrkja nauðsynleg vegna daglegs framfæris og hún gaf mikilvægan hluta orku daglegrar fæðu.47 Mjög er því sennilegt að Haukdælir hafi að hætti
Þann 25. maí 2018 skoðaði ég leifar garðsins. Þær eru enn vel sjáanlegar þar í Ártungum (N 65°50,652; V 23°38,864). Gróður á garðsleifunum sker þær frá umhverfinu. Garðsleifarnar eru um 3 m á breidd og hnéháar, þar sem þær eru gleggstar. Augljóslega hefur garðurinn því verið efnismikill á sínum tíma. Í honum eru stórir hleðslusteinar svo vandað hefur verið til verks.
42 Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882.“ (1884), 28. 43 Sagnir eru um slíka skipan í nágrenni Haukadals, t.d. í landi Hrauns í Keldudal, sjá Örnefnaskrá Hrauns, og á Nesdal frá Ingjaldssandi. 44 Kristján Gunnarsson bóndi frá Miðbæ í Haukadal í samtali við BG 28. maí 2018. 45 Hér má minna á örnefnið Geldingadalur sem m.a. kemur fyrir við svipaðar aðstæður á Keldudal. 46 Jónatan Hermannsson áður tilraunastjóri LbhÍ á Korpu í greinargerð til BG 17. maí 2019. 47 Øye, Ingvild: „Utmarka i vestnordisk perspektiv“, (2012), 51.
forfeðra sinna, bændanna heima í góðsveitum Súrnadals, að minnsta kosti reynt að rækta bygg í þessum tilgangi eða aðrar jurtir er gefið gátu kolvetni til ölgerðar. Einnig má vera að grautar og öl hafi verið unnið úr aðfengnu korni, til dæmis keyptu af farandkaupmönnum á vorþingum.48
Í rækilegri greiningu fornra heimilda fann Björn M. Ólsen ekki marga kornyrkjustaði á Vestfjörðum en benti á að örnefni þar gætu tengst kornyrkju, eins og Garðar og Tröð; sagði þó örnefni „fá og engin óræk“.49 Ólafur Olavíus fann samt leifar fornra akra, „fyrir komið að hinni fornu akuryrkjuvenju“, að Kollsá í Grunnavík.50 Hafi menn getað ræktað korn þar, ætti það við sama stig verkþekkingar einnig að hafa lukkast í Haukadal, enda taldi Olavíus Dýrafjörð meðal fimm vænlegustu staða í Ísafjarðarsýslu(m) vildu menn gera tilraunir til kornræktar.51
Tilraun með ræktun byggs á Vestfjörðum var gerð sumarið 1998: „Mjög kom á óvart góður þroski korns í Dýrafirði og á Rauðasandi“ sagði í skýrslu um hana.52 Ekki hefur þó enn spurst til neinna kornyrkjuminja í Haukadal eða nágrenni hans né heldur er vikið að kornyrkju í sögu Gísla. Vel mætti samt kanna þennan þátt nánar.
Nefna má að Gísla saga er heldur ekki margorð um sjósókn eða sjávargagn. Við sögu í framhjáhlaupi kemur að vísu „fiskistöng“ Önundar í Meðaldal en fátt annað. Þarf það ekki að þýða það að sjósókn hafi verið lítill þáttur í lífi Haukdæla. Hugsanlega getur það þó hafa skipt máli að Súrnadalur er við fjörð langt inni í landi, þar sem afkoman byggðist meira á jarðyrkju og kostum gróðurlendis með nýtingu þeirra heldur en útræði; að sjósókn hafi ekki verið Súrndælum mjög töm.53 Þótt áin Súrna og Haukadalsá séu ekki sambærilegar kann sú síðarnefnda samt að hafa orðið Gísla og hans mönnum nokkur búbót.
AÐ LOKUM Árétta verður að hér er aðeins um vangaveltur að ræða byggðar á misskýrum (eða óskýrum) bendingum. Helstu þætti þeirra má draga saman þannig:
dz Þorbjörn og þeir Súrssynir komu úr góðsveit Súrnadals þar sem afkoma byggðist öðru fremur á nýtingu lands með kvikfjárrækt við grónar verkhefðir. Fjölskyldan hörfaði undan ófriði en hugsanlega einnig landþrengslum og skorti á olnbogarými. Gísli var dugandi og hagur eljumaður af góðum bændum kominn enda hafði Þorkell afi hans fengið viðurnefnið Skyr-auki.
48 Hér má minna á frásögn Fóstbræðrasögu er Jöður Klængsson á Skeljabrekku í Andakíl fór „út á Akranes at mjölkaupum“ svo sem frægt varð. Má vera að á Akranesi hafi menn ræktað korn og selt, örnefnið ýtir a.m.k. undir þá hugmynd (Íslendinga sögur V, 206). Svo kann einnig að hafa verið á fleiri stöðum. 49 Björn M. Olsen: „Um kornyrkju á Íslandi til forna“. (1910), 121-125. 50 Ólafur Olavíus: Ferðabók I. (1964), 159. 51 Ólafur Olavíus: Ferðabók I. (1964), 174. 52 Hólmgeir Björnsson og Þórdís Anna Kristjánsdóttir (ritstj.): „Jarðræktarrannsóknir 1998“. (1999), 63. Áréttað í tölvubréfi Jónatans Hermannssonar til BG 21. júní 2018. 53 Hér er tekið mið af byggðalýsingu H. Hyldbakks: Bygdesoge for Surnadal I.
dz Gísli virðist, bæði sakir eigin verðleika en einnig vegna vensla sinn, hafa orðið forgöngumaður þeirra Súrndæla í daglegri lífsbaráttu er í Haukadal kom, sem í fyrstu virðist hafa verið mjög eindræg en síðan raknað upp í misklíð og morð.
dz Kominn til Haukadals tók Gísli með sínum að nýta dalinn til framfærslu með líkum verkháttum og hann hafði vanist í uppvexti sínum í Súrnadal – of hið sama far. Þrönga landkosti við mikla matvælaþörf mátti bæta upp með selför – skipulegri úthaganýtingu sem fólkið kunni full skil á frá fyrri heimkynnum.
dz Að reisa sextíu kúa/nautgripa fjós í Sæbóli sýnir mikla og inngróna búnaðarkunnáttu og bendir til þess að mjólkurmatur hafi verið meginuppistaða fólksins, svo sem síðar varð Íslendinga um aldir. Hinn stóri bústofn krafðist mikillar elju við heyöflun.
dz Stærð fjóssins samkvæmt fornleifarannsókn Sigurðar Vigfússonar árið 1882 svo og tímgunargeta nautgripa varpar nokkrum efa á þann nautgripafjölda sem Gísla saga getur um; hann er í efri mörkum þess líklega.
dz Giskað er á að selstaða Gísla hafi verið sú er síðar stóð um aldir í Haukadal. Ennfremur að selstaðan, á einu eða öðru formi, hafi verið Gísla og fólki hans hvað traustasta undirstaðan til öflunar matvæla til daglegra þarfa um ársins hring; að vel fylltir skyr- og sýrusáir eftir nytgóð sumur hafi bjargað lífi Haukdæla oftar en aðeins í stórbrunanum þar austur í Súrnadal.
dz Skipting landsins í heimaland, selland og geldingahaga, sem bent er á, gæti verið helsta skýringin á því að stunda mátti stórbúskap að þeirrar tíðar hætti í Haukadal.
dz Vakin er spurning um hugsanlega akuryrkju til kornræktar í Haukadal í ljósi tíðra blóta og annarra mannfagnaða þar er kölluðu á ríkuleg ölföng.
dz Frásagnir Gísla sögu benda til afar mikils þröngbýlis í Haukadal. Þótt ástamál hafi verið áhrifamikil undirrót deilna sem alvarlegar afleiðingar höfðu, er ekki ósennilegt að nágrannaerjur vegna karps um landkosti og landnýtingu hafi einnig kynt undir óeiningu og ófriði þar í dalnum.
dz Þótt kominn væri í framandi umhverfi gat Gísli með dugnaði sínum, arfborinni og traustri verkþekkingu úr heimasveit sinni í Súrnadal séð sér og sínum farborða uns flýja varð úr Haukadal undan grimmum örlögum og óvinum sem settust um líf hans.
dz Því verður ekki betur séð en að Gísli Súrsson hafi fyrst og fremst talist til dugandi og iðjusamra bænda sem . . . „þaulkunnugir [voru] blönduðum búskap . . .“, rétt eins og
Kristján Eldjárn, fyrrum forseti vor, sagði þorra landnámsmanna raunar hafa verið.54 Félagslegar aðstæður ófu hins vegar grimm örlög er urðu tilefni hinnar magnþrungnu frásagnar sem öðrum fremur skóp sögudalinn Haukadal.55
Þakkir Kristínu Jónsdóttur frá Vésteinsholti í Haukadal, áður kennara við MR, þakka ég kærlega fyrir yfirlestur greinarinnar á vinnslustigi svo og fyrir gagnlegar ábendingar um efnið og atriði þess sem betur máttu fara. Sömuleiðis þakka ég Magnúsi B. Jónssyni á Hvanneyri, Jónatan Hermannssyni frá Galtalæk og Sigrúnu Guðmundsdóttur á Kirkjubóli liðveizlu, sem og Kristjáni Gunnarssyni frá Miðbæ í Haukadal. Sérstakar þakkir fær svo Steinar Hasselø bókavörður við Bókasafnið í Súrnadal fyrir verðmæta aðstoð við útvegun heimilda þaðan (http://www. mrbibliotek.no/surnadal )
54 Kristján Eldjárn: „Hugleiðing um land og þjóð“. (1981), 10-11. 55 Ritgerðin birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga 2019. 57 (2019), 9-26. Hér hafa verið gerðar á henni minni háttar breytingar.