25 minute read

VII Leitir og fjallskil í Þingeyrarhreppi fyrr á tíð

INNGANGUR Fjárleitir og fjallskil eru eitt elsta form samvinnu íslenskra bænda. Haustleitum hefur með vissum hætti mátt líkja við herkvaðningu meðal nágrannaþjóða. Lagaákvæði um fjallskil rekja sig til fyrstu lagabálka þjóðarinnar. Í Grágás segir til að mynda svo:

Búandi hver er skyldur að láta safna geldfé öllu um land það er hann býr á, því er aðrir menn eigu, og láta reka til lögrétta þeirra er hreppsmenn [K: héraðsmenn] eru sáttir á að vera skulu.147

Advertisement

Framkvæmdin hefur trúlega verið í sífelldri mótun, löguð að reynslu, héraðabundnum aðstæðum148 og þörfum hvers tíma. Hér verða rifjuð upp fáein einkennisatriði þessara mikilvægu hauststarfa í Þingeyrarhreppi, einkum með herslu á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þá er einnig litið til eldri tíma svo langt sem helstu heimildir leyfa.

ÚTHAGAR OG BEITILÖND Beitilönd búfjár í Þingeyrarhreppi eru heimalönd sem tilheyra einstökum jörðum – dalirnir. . . . „Í dölum þessum er gott sauðland, enda leggja menn hér meira kapp á sauðfjárrækt en nautgripa“. . . , skrifaði Olavius undir lok 18. aldar.149 Um afrétti í almennri merkingu hefur því vart verið að ræða. Nefna má þó að á miðjum Gjálpardal í landi Hrauns í Keldudal er örnefnið Afréttishóll og allglöggur vörslugarður þar hjá.150 Hvort tveggja gæti bent til einhvers konar skiptingar lands líkt og alþekkt er í landmeiri héruðum þar sem um almenninga er að ræða. Svipað gilti um kirkjujörðina Sanda sem átti Galtadal að upprekstrarlandi. Frá Söndum

Brekkurétt – lögrétt Þingeyrarhrepps lengst af tuttugustu aldar.

147 Grágás (1992), 168. 148 Bragi Sigurjónsson: Göngur og réttir III (1985), 129. 149 Ólafur Olavius: Ferðabók I (1964), 146. 150 Frásögn Guðmundar S. Magnússonar frá Hrauni.

fram að Seli á Galtadal er fast að 2 klst rekstur með fé.151 Fleirbýli hefur verið á nokkrum jörðum í Þingeyrarhreppi og þótt tún væru aðskilin var úthagi jafnan óskiptur og beitiland því sameiginlegt. Átti það t.d. við um Hraun, Haukadal, Brekku og Hvamm.

Fram undir lok nítjándu aldar var öll byggð í Þingeyrarhreppi jarðaskipt og dreifð. Hún breyttist með þorpsmyndun á Þingeyri um og upp úr 1880. Margir þorpsbúar komu sér upp fjárstofni. Fjáreign varð mikil og almenn vel fram yfir 1960. Það ásamt fækkun fólks og byggðra jarða leiddi til breytinga á fjallskilum og smölunum í hreppnum.

Fyrstu frásagnir um afrétti og göngur í Þingeyrarhreppi eru í sóknalýsingum frá því um 1840. Þar segir m.a. um Sanda- og Hraunssóknir í frásögn sr. Bjarna Gíslasonar prests á Söndum:

Afréttarlönd eða almenningar eru hér hvergi, og er geldfé rekið í ýmsra jarða búfjárhaga, t.d. á Drangahlíð, land, sem liggur undir Dranga, á Brekkudal, landareign Brekku, á Stúfudal, landareign Granda, á Galtardal, landareign Sanda, á Meðaldal, landareign Meðaldal[s], á Haukadal, landareign Haukadal[s], á Eyrarhlíð, landareign Sveinseyr[ar]. Gengið er að fé 22 vikur af sumri og þá aðskilið nálægt eða við bæi, þar eð réttir eru hér engar og aðrar sveitir hafa hér ekki heldur upprekstur.152

Lýsingin er skýr og minnir á áðurnefnda lýsingu Grágásar: Fé var gengið í sundur og réttir engar. Ær voru jafnan nálægt bæjum á meðan fært var frá. Geldfé og lömb héldu sig fjær. Þeirra vegna helst varð að gera fjallskil.

FJÁRFJÖLDI Í HREPPNUM Margir þættir hafa ráðið því hvernig fjallskil hafa breyst og þróast í áranna rás. Þar kemur fjárfjöldinn mjög við sögu, samsetning hans og fleira. Verulegar breytingar hafa orðið á fjárfjölda í Þingeyrarhreppi á því tímabili sem hér er einkum til athugunar. Það má m.a. sjá á meðfylgjandi mynd sem byggð er á búnaðarskýrslum:153

Langt fram eftir nítjándu öldinni var fjöldi fullorðins fjár í hreppnum nálægt einu þúsundi. Undir lok aldarinnar tók fjáreignin að vaxa og með mestum þunga á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldarinnar. Á fjórða áratugnum hafði fjárfjöldinn náð þeim hjalla sem hann hélt allt fram til 1980. Á næstu 15 árum fækkaði fé í hreppnum um nær helming. Síðustu 15-20 árin hefur fjárfjöldi í fyrrum Þingeyrarhreppi verið svipaður; í kringum 17-18 hundruð fjár á fóðrum.

Framanvert á nítjándu öldinni var sauðaeign mikil. Almenna reglan var þá víðast sú að sauðféð skiptist í þrjá nærri jafnstóra hópa sem hver um sig krafðist sinnar sérstöku umhirðu: ær, lömb og sauðir.154 Samkvæmt búnaðarskýrslum frá fyrri hluta þeirrar aldar nam sauðafjöldi

151 Guðmundur S. Magnússon, í bréfi til BG 10. apríl 1998. 152 Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 59. 153 Búnaðarskýrslur (í Skýrslum um landshagi, Stjórnartíðindum og Hagskýrslum Íslands). 154 Arnór Sigurjónsson: „Þættir úr íslenzkri búnaðarsögu“, 65.

Sauðfjáreign hreppsbúa 1820-2020.

í Þingeyrarhreppi þriðjungi og allt að helmingi fullorðins fjár, sem þá var tíundað. Upp úr 1860 tók sauðum mjög að fækka og virðast þeir hafa verið orðinn óverulegur hluti fjáreignar hreppsbúa undir aldamótin 1900.

Þriðji þátturinn sem nokkru réði um fjallskilaskipanina var fjáreign þéttbýlisbúa á Þingeyri. Hún óx með þorpinu og komst í það að nema sjöttungi alls fjár í hreppnum um miðbik tuttugustu aldarinnar. Um fjáreign Þingeyringa var fjallað fyrr í þessari bók.

FYRIRMÆLI, LÖG OG FJALLSKILAREGLUGERÐIR Það var fyrst árið 1969 sem Alþingi setti sérstök lög um afréttarmálefni og fjallskil. Voru þá felld úr gildi ákvæði annarra laga um þetta efni sem gilt höfðu í hart nær sjö aldir.155 Með tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi árið 1872 var sýslunefndum falin yfirstjórn fjallskila.156 Árið 1890 voru sett lög um löggiltar reglugerðir sýslunefnda (nr.14, 22. mars 1899). Með skírskotun til laganna var Ísafjarðarsýslu sett fjallskilareglugerð árið 1894 er sýslunefndin hafði samið.157 Vafalítið hefur hún borið blæ af þeirri skipan fjallskila í sýslunni sem áður hafði gilt. Í reglugerðinni sagði m.a. að í hverjum hreppi skyldi vera ein lögrétt; þó mætti „brúka smárjettir, þó hvergi fleiri en 2 í sama hreppi“. . . Bændum, sem að þeim ráku, var skylt að reka óskilafé („sem þeim ekki tilheyrir eða nágrönnum þeirra“) tafarlaust til lögréttar. Það er einnig athyglisvert ákvæði 16. greinar reglugerðarinnar er segir:

Á vorhreppsskilaþingi ákveður hreppsnefndin með samkomulagi við bændur, hvar lögrjett og aðrar rjettir skuli standa í þeim hreppum, sem þetta er enn óákveðið [leturbr. hér] og skipar fyrir um byggingu þeirra

Þetta sýnist ekki hafa átt við Þingeyrarhrepp því um þessar mundir virðist sveitarrétt (lögrétt?) hafa verið komin að Brekku ef marka má bókun á hreppsnefndarfundi í Meðaldal 9. júní 1894:

155 Lýður Björnsson: Saga sveitarstjórnar, seinna bindi (1979), 275-276. 156 Lýður Björnsson: Saga sveitarstjórnar, fyrra bindi (1972), 252. 157 Stjórnartíðindi 1894 B-deild: Reglugjörð fyrir Ísafjarðarsýslu . . . nr. 56, 18. júní 1894, 69-70 og 73-75.

. . . rætt um byggingu á sveitarrétt, sem hrundi í vetur [á Brekku] og var samþykt að flytja hana þaðan sem hún hefur verið, þar eð hún liggur undir skemmdum, og var ályktað, að fengnu samþykki prestsins að flytja hana að Söndum ef þar fengist svo mikið og gott verkefni að það álítist fært, ella uppi í Brekkuhálsi. . . 158

Þá þegar hefur komið til álita að færa lögréttina svo sem síðar var gert. Líklega hefur efnisskortur komið í veg fyrir flutninginn þá því hleðslugrjót var torfengið á Söndum (verkefni skorti eins og hreppsnefndarmenn virðast hafa haft grun um!).

Heimildirnar benda til þess að á árabilinu 1840-1894 hafi nokkur breyting orðið á fjallskilum í hreppnum; frá því að ókunnugt fé var gengið úr heima við bæi, eins og sagði í sóknalýsingunum, til þess að reka hafi átt til lögréttar í samræmi við skerptar lands- og héraðsreglur. Hugsanlega hefur það gerst og sveitarréttin verið reist í framhaldi af áðurnefndri nýskipan sveitarstjórna árið 1872. Hafa verður í huga að á þessum tíma var mest um lausagöngu geldfjár að ræða og óskilafé því nær eingöngu úr þeim hópi sauðfjárstofns hreppsbúa. Flestum ám hefur verið haldið heimavið fram undir göngur, vegna málnytunnar, eins og raunar tíðkaðist svo lengi sem fært var frá ánum.159

Árið 1902 var Vestur-Ísafjarðarsýslu sett ný fjallskilareglugerð.160 Samkvæmt henni virðist lögréttarákvæðið hafa verið rýmkað nokkuð: Í hverjum hreppi skyldi vera að minnsta kosti ein lögrétt. Hreppsnefnd mátti heimila þær fleiri en „þó aldrei fleiri en 3 lögrjettir í hverjum hreppi“. . . að því er virðist allar jafnt settar. Sama skylda var áfram á hverjum búanda að reka óskilafé til lögréttar; hann mátti þó undanskilja fénað . . . „sem hann [vissi] hver eigandinn er og hann sje nær en lögrjettin.“

Ný fjallskilareglugerð var sett árið 1914.161 Réttarákvæðum var þá breytt þannig að í hverjum hreppi skyldi . . . „að minsta kosti ein lögrétt vera og svo margar aukaréttir sem hreppsnefnd ákveður“. . . Enn var slakað á gangnaákvæðum: Ekki þurfti að reka kvíaaær til lögréttar eða aukaréttar. Réttarbóndi skyldi hafa umsjón með sundurdrætti. Nýmæli var að hreppsnefnd

Lögréttin á Brekku; lausleg grunnmynd hennar.

158 Fundargerðabók hreppsnefndar Þingeyrarhrepps. 159 Ottó Þorvaldsson frá Svalvogum, í bréfi til BG 14. maí 1981. 160 Stjórnartíðindi 1902 B-deild: Fjallskilareglugerð f. V.-Ís. nr. 56, 12. maí 1902. 161 Stjórnartíðindi 1914 B-deild: Fjallskilareglugerð f. V.-Ís. nr. 131, 11. nóv. 1914.

mátti . . . „– vegna sjerstakra staðhátta – leyfa að fjeð sje dregið sundur á einstökum heimilum, en reka skal þá alt það fje, sem ekki tilheyrir heimilinu, til næstu rjettar samdægurs.“ Í reglugerðinni var ekki skilgreint hvort væri lögrétt eða aukarétt. Frá aukaréttum skyldi fé rekið . . . „bæ frá bæ til lögrjettar svo fljótt sem auðið er“. . . Virðist þarna vera fest í reglum sú skipan fjallskila sem gilti síðan lengi fram eftir tuttugustu öldinni og nánar verður lýst hér á eftir. Af breytingum reglugerðanna má sjá að menn hafa lagað ýmis ákvæði þeirra að aðstæðum og staðháttum. Þar skipti hvað mestu máli að allir hagar tilheyrðu heimalöndum. Eftir þeim skiptust fjárhjarðirnar. Hjörð frá hverri jörð hélt sig að mestu sér og blandaðist lítt nágrannahjörðum. Hentugt var því að hafa margar aukaréttir (heimaréttir) til þess að spara rekstur á hagföstu heimafé en fylgja þeim mun fastar eftir reglum um meðferð óskilafjár.

Fróðleg er lýsing Þorbergs Steinssonar á hagafestu fjárins í Hvammi um fyrri aldamót. Hann sagði hverja Hvamms-jarða hafa haft sitt upprekstrarland því . . . frá því sögur fóru af og fram á síðustu ár beitti Lægri-Hvammur Innrihlíð og Ausudal, en hinir báðir bæirnir Ytri-Hlíð og Hvammsdal og takmörkin voru svo skýr í mínu ungdæmi, að Lægri-Hvamms búpeningur kom aldrei saman við efri bæja búpening, aðskildi þó annað ekki en Hvammsáin, örlítil spræna á flestum tímum, og sýnir það, hvað vel má venja sauðskepnuna, þegar einbeittur vilji og festa er með í verki og aldrei brugðið út af því vanalega. Meðan fráfærur tíðkuðust, var féð frá Lægri-Hvammi ávallt látið morgunmálið á Ausudal, en kvöldmálið inn á hlíðina millum Hvamms og Ketilseyrar, og aldrei þurfti að vísa því leiðina, þegar sleppt var út úr kvínni, það beindi för sinni í rétta átt. Nú hefir nýi tíminn brotið niður þessa ævagömlu reglu með aðskilnað á fé neðri og hærri bæjar . . . svo nú hefir skapazt sá glundroði, að fé allra bæjanna er alls staðar og hvergi, svo enginn veit nú, hvert leita skal, þegar einhver einn vill smala sínu fé; allt á víð og dreif um alla landareignina.162

Þótt fjallskil hafi orðið eitt af hlutverkum sveitarstjórna við nýskipan þeirra árið 1872 eru gjörðabækur Þingeyrarhrepps fáorðar um þann málaflokk. Hreppsnefndin virðist hafa falið einum nefndarmanna að annast fjallskilamál og aðeins gripið inn í ef meira bar til. Gæti það bent til þess að málin hafi verið í fremur föstum skorðum frá fyrri tíð, sennilega undir stjórn gangnastjóranna (hreppstjóranna?) á hverju svæði. Áður er nefnd bókun hreppsnefndar 1894 um sveitarréttina á Brekku. Þann 22. september 1925 voru fjallskil til umræðu á hreppsnefndarfundi til þess . . .

. . . sérstaklega að koma sjer niður á tilhögun um fjallgöngur í innfirðinum, eða frá landamerkjum Þingeyrar og Hvamms og inn úr.

Hreppsnefndin samþykti að framvegis skyldi ofannefnt svæði vera í umsjón gangnastjórans í Hvammi, og hafi hann ekki nægilega marga menn í sínu umdæmi til að annast leitir þar, þá leitar hann til gangnastjórans á Þingeyri, og verður hann að veita honum þá mannhjálp sem hann með þarf.163

162 Þorbergur Steinsson skráði 1. maí 1942. Örnefnaskrá Hvammur. 163 Fundargerðabók hreppsnefndar Þingeyrarhrepps.

Um þetta leyti fór fé á Þingeyri fjölgandi. Þorpslandið bar aðeins mjög takmarkaðan fjölda fjár. Leiddi það til aukinnar þarfar á því að hreppsnefnd hlutaðist til um beitarmál og fjallskil. Þegar kom fram á þriðja áratug tuttugustu aldar var því töluvert þrýst á hreppsnefnd með að útvega fjáreigendum í þorpinu búskaparland. Frá því er sagt í öðrum kafla bókarinnar.

SKIPAN HAUSTLEITA OG RÉTTARHALDS Þann 5. september 1931 var fyrsti dagskrárliður hreppsnefndarfundar þessi:

Fjallskil þetta haust. Allar ráðstafanir sendar með gangnaseðli, er birtur skyldi á mánudaginn 7. þ.m., af Andrési Kristjánssyni [hreppsnefndarmanni í Meðaldal], frá Sandá og út á hreppsenda, en oddvita var falin birtingin frá Sandá að Dröngum. . . 164

Þótt skipan haustleita hafi lengi haldist í svipuðum skorðum urðu hægfara breytingar á þeim, a.m.k. á meðan sauðfjárbúskapurinn miðaðist einvörðungu við þarfir hvers heimilis. Líklegt er að töluverðar breytingar hafi hins vegar orðið þegar fráfærurnar lögðust af og fé tók að fjölga í kjölfar vaxandi markaða fyrir dilkakjöt. Á mörkum þessara tímaskeiða sem voru á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldarinnar mun skipan réttarhalds í Þingeyrarhreppi í stórum dráttum hafa verið þannig:

Svalvogar og Höfn: Á báðum þessum bæjum var heimarétt; óskilafé komið til Keldudals.

Hraun, Skálará, Saurar og Arnarnúpur: skilarétt (aukarétt) var í landi Hrauns fast við landamerkin á móti Skálará sem smalað var til sameiginlega í dalnum; óskilafé komið til Haukadals.165

Sveinseyri, bæirnir í Haukadal, Meðaldalur og Hólar: Á fyrstu árum aldarinnar var sameiginleg skilarétt fyrir þessa bæi á Saltnesi undan Merkishrygg þar sem eru landamerki Haukadals og Meðaldals.166 Það er hún sem enn sér fyrir þar niður við sjóinn, sjá næstu mynd. Síðar var sett aukarétt í Haukadal fyrir bæina þar, en réttað heima á Sveinseyri, í Meðaldal og í Hólum. Frá aukaréttinni í Haukadal var óskilafé rekið til Brekkuréttar.

Kirkjuból, Hof, Múli, Sandar: Ekki er annað vitað en á þessum bæjum hafi alla síðustu öld verið réttað heima á hverjum bæ. Frá bæjunum í Kirkjubólsdal var óskilafé rekið sameiginlega til Brekkuréttar.

Bakki, Brekka og Grandi: Á þessum bæjum var fé rekið til réttarinnar á Brekku, lögréttar sveitarinnar, þó aðeins óskilafé frá Bakka þar sem fé var jafnan rekið heim á tún daginn fyrir gangnadag.167

164 Fundargerðabók hreppsnefndar Þingeyrarhrepps. 165 Frásögn Guðmundar S. Magnússonar frá Hrauni. 166 Örnefnaskrá, Meðaldalur. 167 Frásögn Knútar Bjarnasonar á Kirkjubóli, 29. nóvember 2006.

Sameiginleg rétt Haukadals og nágrannabæja.

Bæirnir í Hvammi: Þar var réttað sameiginlega í einni rétt sem þó mun ekki hafa verið aukarétt.168 Frá Hvammi var óskilafé rekið til Brekkuréttar.

Ketilseyri, Kjaransstaðir og Drangar: Heimarétt var á hverjum þessara bæja, allar niðri við sjóinn þótt síðar á öldinni væru þær færðar heim að bæjum.169 Óskilafé var rekið bæ frá bæ, eins og síðar verður greint frá.

Þar sem fé er rekið í sameiginlegan afrétt blandast hjarðir frá viðkomandi bæjum gagnstætt því sem gerist þar sem hjörðum er sleppt í heimalönd einstakra jarða. Þá ganga hjarðirnar langoftast hver fyrir sig á sínu heimalandi og blandast óverulega fé frá öðrum bæjum þótt hindranir á landamerkjum séu litlar sem engar. Slíkar hjarðir láta ekki auðveldlega reka sig langt um framandi slóðir og haga nágrannabæja. Það var því einfaldlega léttara að hafa heimaréttir fremur en sameiginlegar réttir nema þéttbýli væri þeim mun meira, svo sem var að nokkru leyti í Keldudal, en fremur þó í Haukadal og í Hvammi þar sem úthagi jarðanna var og er óskiptur.

Gangnaseðillinn var mikilvægt plagg um skipan fjallskila. Var áhersla lögð á að hann bærist skilvíslega rétta boðleið á milli bæja. Það var líklega fyrsta opinbera embættisverk höfundar þessa pistils að fara með gangnaseðilinn boðleið frá Kirkjubóli að Hofi. Þótti honum það bæði ábyrgðarstarf og vegsauki.

Á gangnaseðlinum var tekið fram hvenær réttað skyldi. Réttardagarnir voru tveir: mánudagurinn í 22. viku sumars (fyrri leitir) og mánudagurinn næstur á eftir (seinni leitir).

168 Frásögn Jóhanns Sigurðssonar í Lægsta Hvammi, 1. maí 1997. 169 Frásögn Elísar Kjarans Friðfinnssonar frá Kjaransstöðum 19. maí 2004.

Þingeyrarhreppur skiptist í nokkur svæði sem landfræðilega eru allvel afmörkuð. Má segja að þau marki eins konar fjallskilasvæði sem lengi héldust skýrt afmörkuð. Sumpart var smalað til einnar réttar sameiginlega frá nokkrum bæjum (aukaréttar) en sumpart var réttað á hverjum bæ, eins og fjallskilareglugerð eftir 1914 heimilaði. Á gangnaseðli var hreppnum skipt í þessi svæði, t.d. Hvammsbæi, Kirkjubólsdal, Haukadal og á seðlinum var ákveðið hverjir væru embættismenn þar, þ.e. gangnastjóri og réttarbóndi. Lýsa heitin hlutverkum þeirra. Á gangnaseðli kom einnig fram hve marga menn hvert lögbýli skyldi senda í göngur.

Hér má skjóta því inn að frá fornu fari var mikil ábyrgð fólgin í þessum embættum. Í reglugerð Ólafs amtmanns Stephensen, sem fjallaði um fjallskil og fleira í Borgarfjarðarsýslu frá 1792 en sem gera má ráð fyrir að í allmörgum greinum hafi lýst landsvenju, segir m.a. að gangnamönnum beri að sýna fjallkóngi (gangnastjóra) tilhlýðilega virðingu að viðlagðri sekt. Ennfremur að réttarbóndi væri einvaldur í réttum er sýna skyldi hlýðni – einnig að viðlagðri sekt.170 Í bernskuminningu höfundar frá miðbiki fyrri aldar telur hann gæta leifa þessarar virðingar en minnist þess þó ekki að komið hafi til tyftana vegna þess að út af hafi verið brugðið.

Það mun hafa verið á þriðja áratugnum sem farið var að taka tillit til fjáreignar á Þingeyri þannig að fjáreigendum þar var gert að senda menn til smalana á nágrannajörðum, fyrst og fremst í Inn-sveitinni, eins og þegar hefur verið minnst á. Að Dröngum bar t.d. að senda tvo menn úr þorpinu. Fóru þeir inn eftir kvöldið fyrir gangnadag og gistu þar. Þeim sem bjuggu innan við Ásgarðsnes bar hins vegar að gera fjallskil með Hvammsbændum.171 Síðar var einnig farið að senda smala frá Þingeyri til haustleita á Kirkjubólsdal, sennilega um eða uppúr 1940. Smölum frá Þingeyri var jafnan skipað þar sem hættuminna var að fara.172

Hvammsbændur hjálpuðust að við smölun og réttarhald. Mannmargt var þá á bæjum og hver lagði til mannafla eftir getu. Eldri fjáreigendum var liðsinnt um smala. Gjarnan komu unglingar frá Þingeyri og hjálpuðu til. Grjóthlaðin rétt var þar við ána, með almenningi og þremur dilkum, sennilega mjög forn. Magnús Lárusson var þar lengi gangnastjóri auk þess sem hann stjórnaði réttarhaldi. Síðar var réttin flutt niður fyrir þjóðveg og byggð timburrétt þar skammt fyrir innan Neðsta Hvamm.

Á fyrri árum fjárbúskapar á Þingeyri mun fé þaðan hafa verið réttað á Brekku og að einhverju leyti í Hvammi. Á Brekkurétt var byrjað á því að draga Þingeyrarfé úr safninu. Það var dregið í tvennu lagi til skiptis að fyrirsögn réttarbónda: Innri Þingeyri (innan Barnaskólans) dró sér og Ytri Þingeyri sér. Síðan drógu heimamenn í dalnum sitt fé. Þetta reyndist tafsamt, einkum eftir að Þingeyrarfénu fjölgaði. Mun það hafa kallað á stækkun réttarinnar á þriðja tug aldarinnar. Gátu heimamenn þá dregið samtímis Þingeyringum svo réttarhaldið gekk allt hraðar. Síðan breyttist réttarhald Þingeyringa á þann veg að þeir tóku að rétta þar í þorpinu í eigin rétt. Þeir

170 Lýður Björnsson: Saga sveitarstjórnar, fyrra bindi (1972), 187. 171 Frásögn Knútar Bjarnasonar á Kirkjubóli, 7. jan. 1997. 172 Sama heimild.

Fjárrétt Þingeyringa í hlíðinni ofan við Barnaskólann (ljósm. úr bókinni Ljósmyndir gamla tímans. Þingeyri).

höguðu smölun þannig að nokkrir fóru inn í Grófir á milli Þingeyrar og Hvamms og smöluðu úteftir; aðrir fóru upp á Brekkuháls og smöluðu Sandaland út fyrir Sandafell og inn Sneiðinga. Rekið var til réttar upp og inn af Barnaskólanum en þar í hlíðinni höfðu fjáreigendur byggt allstóra timburrétt, sjá mynd. Þar var Sigmundur kaupmaður Jónsson lengi réttarstjóri. Réttina notuðu Þingeyringar líka við vorsmölun og aftekt. Þeim þótti að vonum úrleiðis að reka fé sitt upp að Brekku.173

GÖNGUR – ÞVÍ MENN GENGU! Heiti þessa haustverks mun lengst af hafa verið réttnefni í Þingeyrarhreppi því langalgengast var að menn smöluðu gangandi. Fyrir tíð erlends skófatnaðar var það töluvert verk að útbúa hina heimagerðu gangnaskó. Sunnudagurinn í 22. viku mun allvíða hafa verið notaður til skógerðarinnar.174 Hestaeign í Þingeyrarhreppi var takmörkuð og hestar lítt þjálfaðir til smölunar. Jón Samsonarson bónda á Múla, sem þangað fluttist norðan úr Strandasýslu, átti þó iðulega vel færa hesta sem hann notaði í göngum, og vera má fleiri. Þar við bættist að alltaf þurfti og þarf nokkur hluti smalanna að fara brattar hlíðar að ógleymdum hvilftum fjalla og dalverpum sem fé sækir jafnan töluvert í. Kom sér vel að einhverjir væru vel færir í fjöllum. Hunda höfðu menn sér til léttis (oftast. . . ). Fátítt var þó að menn ættu þjálfaða fjárhunda. Fáeinir tíðkuðu það að fara ríðandi með rekstur óskilafjár til Brekkuréttar. Á fjórða áratugnum vakti t.d. Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli athygli ungs pilts úr Hvammi fyrir það hann kom þannig á Brekkurétt.175

Á flestum bæjum hreppsins tók smölunin um og innan við 4-5 klst í skaplegu veðri og við eðlilegar aðstæður. Því var ekki til siðs að smalar hefðu með sér nesti. Þess í stað var vel borið í þann mat er beið smalanna heima. Að vænni máltíð lokinni var tekið til við réttarhaldið.

173 Sama heimild. 174 Dagbók Margrétar Bjarnadóttur frá Kirkjubóli árið 1939. 175 Frásögn Gunnars Hvammdal í maí 1997.

MEÐFERÐ ÓSKILAFJÁR Að fjárdrætti á heimaréttum bæjanna loknum var komið að því að reka óskilaféð til lögréttarinnar á Brekku. Óskilafé skyldi hafa forgang svo sem landslög og fjallskilareglugerð sögðu. Bar hverjum bónda að koma því tafalaust áfram til lögréttar. Úr Kirkjubólsdal kom óskilafé síðdegis gangnadaginn. Kjaransstaðamenn biðu óskilafjár frá Dröngum gagnadaginn, og ráku það út að Ketilseyri eftir að hafa tekið úr sitt fé. Með sama hætti komu Ketilseyrarmenn óskilafé út í Hvamm. Hvammsmenn skiluðu því síðan á aðalréttina á Brekku daginn eftir.176 Óskilafé utan af Sveit (utan Kirkjubólsdals) var sömuleiðis komið með á þriðjudegi. Búið var að koma óskilafé úr Keldudal, Höfn og frá Svalvogum inn í Haukadal að kvöldi gangnadags.

Fé úr Þingeyrarhreppi hefur löngum sótt töluvert vestur á Arnarfjarðarströnd enda liggja dalbotnar saman og á fáeinum stöðum er auðvelt fyrir fé að komast yfir fjallgarðinn á milli fjarðanna tveggja. Óskilaféð, annað en áður var um getið, varð að sækja vestur að Hrafnseyri en þar var lögrétt Auðkúluhrepps. Á þriðjudegi eftir gangnadaginn fóru því fjórir menn ríðandi vestur til þess að sækja óskilaféð undir stjórn gangnastjóra. Komu þeir til baka samdægurs, jafnan eftir góðar veitingar húsbænda á Hrafnseyri. Í þennan skilamannahóp bar fjáreigendum á Þingeyri að útvega einn mann, Hvammsbændum annan, bændum í Brekkudal þann þriðja og bændum í Kirkjubólsdal þann fjórða. Inn á Hrafnseyrarrétt hafði óskilafé komið daginn áður. Erfitt gat reynst að reka féð yfir Hrafnseyrarheiði og vildu kindur oft gefast upp á leiðinni. Stundum nam fjárfjöldinn að vestan 100-150 fjár. Iðulega var fólk komið fram að Þverá í Brekkudal til þess að taka á móti rekstrinum og aðstoða við að koma honum heim í skilarétt á Brekku.

Rétt Kelddælinga í landi Skálarár, horft til Arnarnúps; t.h. er lausleg grunnmynd, að hluta löguð eftir ábendingum Guðmundar Sören Magnússonar frá Hrauni.

176 Frásögn Elísar Kjarans Friðfinnssonar frá Kjaransstöðum 19. maí 2004.

Seinni göngur fóru fram mánudaginn í 23. viku sumars. Var þá staðið eins að flestum verkum nema hvað óskilafé var þá ekki sótt sameiginlega í Arnarfjörð. Bændur urðu að nálgast það hver fyrir sig ef þurftu.

Aukarétt var í Keldudal eins og áður sagði. Í henni voru fjórir dilkar, sjá mynd. Í dalnum voru sex býli, þar af þrjú í Hrauni. Hverju þeirra bar að leggja til tvo menn til smölunar í fyrri leitir en fleiri fóru þar að auki. Það bar að senda einn mann í Lokinhamra í samfloti við býlin tvö á Nesinu, Svalvoga og Höfn, sem sendu mann þangað sitt hvort árið. Í Lokinhamra var farið að morgni gangnadags og komið með féð til baka að kvöldi. Það var gömul hefð að sækja fé þannig í Lokinhamradal svo ekki þyrfti að eltast við það inn á lögréttina að Hrafnseyri. Tveir menn skyldu fara frá Hrauni með rekstur óskilafjár úr Keldudal inn í Haukadal. Var það gert síðdegis réttardaginn. Lagt var upp þegar bændur af Nesinu höfðu komið með óskilafé þaðan. Aldrei fóru menn frá sama bæ í báðar áttir, í Lokinhamra og inn í Haukadal. Arnarnúpsbóndi var bæði réttarbóndi og gangnastjóri í Keldudal og gegndi Kristján Guðmundsson embættunum lengi.

Kelddælingar sendu jafnan tvo menn vestur í Lokinhamradal. Eftir að Höfn fór í eyði 1943 sendu þeir aðeins einn mann og þá í samvinnu við Haukdæli er sendu annan. Saman ráku þessir menn óskilaféð úr Lokinhamradal til Haukadals. Þessi háttur var þó ekki hafður á lengi, sagði Guðmundur S. Magnússon frá Hrauni, og bætti við:

Guðmundur Sören Magnússon frá Hrauni fræddi mig um Keldudalsréttina í bréfi 2. febrúar 1999. Hún var gömul þegar hann mundi fyrst eftir sér, um 1930: Það var samvinna um að halda réttinni við, skrifaði Guðmundur. Í vikunni fyrir fyrrileitar komu flestir verkfærir menn í Keldudal saman við réttina til að stinga klömbruhnaus og hlaða upp í það sem hrunið hafði. Hvort þetta var sjálfboðavinna eða borgað af hreppnum veit ég ekki. . . dilkarnir voru kenndir við bæina, dilkurinn yst til vinstri [á uppdrættinum] var Arnarnúpsdilkur. Þegar ég fer að muna eftir mér var Arnarnúpsbóndinn orðinn það fjármargur að almenningurinn var hafður fyrir Arnarnúpsféð en Arnarnúpsdilkurinn fyrir óskilafé. Dilkurinn í miðið var Skálarár- og Sauradilkur . . . Þá var Hraunsdilkurinn yst til hægri . . . Arnarnúpsmenn og Saura- og Skálarármenn ráku inn í almenninginn en Hraunsmenn ráku beint inn í sinn dilk . . .Tóftin að sunnanverðu við réttina var kölluð Oddnýjarstaðir, ég man ekki eftir að ég heyrði neitt um ástæðu fyrir þessu nafni. [Oddnýjareyri (Ullareyri) heitir eyrin niður af réttinni, skv. örnefnaskrár Skálarár.] Keldudalsréttin sker sig frá öllum öðrum réttum í sveitinni þannig að hún var að miklum hluta byggð úr torfi eins og Guðmundur Sören skrifaði. Flestar aðrar réttir, sem enn standa minjar um, voru hlaðnar úr grjóti einu saman.

Ég man að einu sinni var ég sendur í þessa ferð. Venjan var að fara fyrir Nes sem var allt að fimm klukkutíma gangur en ég fór upp úr svokölluðu Hafnarskarði fyrir framan Hraun og yfir Tóarfjall og niður í Dalsdal. Þessi ferð tók rúma tvo tíma. Það mun hafa verið gömul hefð að Haukdælir sendu tvo menn í fyrri leitum vestur í Lokinhamradal.177

Frá merkjum Dranga og Botns var smalað út að Lambadal en þangað var óskilafé úr Þingeyrarhreppi sótt.178

177 Úr bréfi Guðmundar S. Magnússonar frá Hrauni, 10. apríl 1998. 178 Frásögn Jóhanns Sigurðssonar í Neðsta Hvammi, 1. maí 1997.

BREKKURÉTT – LÖGRÉTT SVEITARINNAR Brekkuréttin gamla stendur á skriðu fram úr gilinu úr Brekkuhvilft skammt ofan við þjóðveginn um Brekkudal. Réttin er hlaðin úr grjóti sem gnægð er af nærlendis. Engar heimildir eru tiltækar um hvenær henni var valinn staður þar að öðru leyti en giskað var á hér að framan né heldur hvenær eldri hluti hennar var reistur. Sennilega hefur hann verið endurbættur um 1894 eins og áður var vikið að. Hins vegar er vitað að yngri hluti réttarinnar var hlaðinn um 1925 því á fundi sínum 22. september það ár ákvað hreppsnefndin að . . . „stækka lögréttina . . . þegar á þessu hausti“. . . og fá Ásbjörn Björnsson í Hvammi . . . „til þess að standa fyrir verkinu“. Hreppsnefnd taldi líklegt að fá mætti menn úr Brekkudal til þess að vinna verkið segir í fundargerðarbók hennar.

Á Brekku, þar sem lögréttin stóð, var gæslumaður óskilafjár. Það starf annaðist Árni Guðmundsson, bóndi á fremri bænum þar, um áratuga skeið. Ef þurfti var óskilafé geymt í nátthaganum á Brekku sem var nokkuð framan við bæina þar. Óskilafé á Brekkurétt var fyrst og fremst úr Auðkúluhreppi en fyrir kom að þangað slæddist fé af Barðaströnd og norðan úr Djúpi.

Eldri hluti Brekkuréttar er aðeins eitt hólf; um það bil 13 x 18 m að stærð. Viðbótin eru tveir dilkar misstórir, 7 x 10 og 7 x 7 m sem settir voru neðan við eldri hlutann. Er hæðarstig nokkuð á milli réttarhlutanna tveggja vegna halla sem réttin stendur í þar á skriðufætinum.

Rétt eins og í öðrum sveitum var réttardagurinn hátíðisdagur í augum flestra og lögskilaréttin samkomustaður fólks. Þangað komu margir, bæði fjáreigendur og aðrir. Munaði ekki síst um fjáreigendurna á Þingeyri en nokkuð af fé þeirra kom jafnan á Brekkurétt.

Á Brekkurétt um miðja tuttugustu öldina. (ljósm. úr safni GG frá Hofi).

Veitingar hafði fólk gjarnan með sér á Brekkurétt, veikar og sterkar eftir hætti. Komu þær sér vel á meðan beðið var eftir rekstrum óskilafjár en það tók oft tíma. Sumir fóru heim að Brekku og biðu þar. Andrés bóndi Guðmundsson á Brekku var réttarbóndi þar um árabil og rækti það starf af myndugleik og röggsemi sem ýmsum er enn í góðu minni. Réttarbóndi lögréttar var undanþeginn fjallskilum; hann skyldi hafa réttina tilbúna til réttarhaldsins og stjórna því.

Árið 1964 var lögrétt Þingeyrarhrepps færð frá Brekku að Söndum. Þar var byggð timburrétt skammt utan við Sandatúnið. Vel var þar rúmt um réttina og auðvelt að koma bílum að en þeir gegndu þá vaxandi hlutverki við alla fjárflutninga. Á Söndum var réttað meðan sameiginleg skipun var á göngum í Þingeyrarhreppi. Eftir 1985 varð sú breyting að hinar eiginlegu göngur féllu niður og tekið var að miða smalanir fyrst og fremst við slátrunardaga. Réði því mannfæð og fækkun býla með sauðfé. Fjallskilum og réttarhaldi var því enn breytt til hægræðis vegna breyttra aðstæðna og nýrra þarfa.

YFIRLIT Hér hefur verið gerð nokkur grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á fjallskilum í Þingeyrarhreppi síðustu mannsaldrana. Þær eru miklar og augljóslega tengdar breytingum á búsetu og atvinnuháttum í byggðinni. Ekki síst eru þær nátengdar breytingum á fjölda og dreifingu sauðfjár í hreppnum. Greina má breytingarnar í þrennt eftir tímabilum:

Fyrsta tímabili nær fram á nítjándu öldina. Fjárfæð og jarðaskipt dreifbýli kallaði ekki á flókna skipan fjallskila. Sauðir voru stór hluti fjárhjarða og ær við kvíar og/eða sel meginhluta sumars. Hver ábúandi gerði lögskil líklega á hinum gamla grundvelli þjóðveldislaganna með því að ganga í sundur fé án sérstaks og umfangsmikils réttarhalds.

Annað tímabilið rann upp með mikilli fjölgun sauðfjár og breyttum nytjum þess, þ.e. fækkandi sauðum og síðar einnig fækkandi kvíaaám en aukinni rækt við kjötframleiðslu. Þá óx sýnilega þörf formlegs réttarhalds. Með vaxandi fjáreign bænda og ekki síst þorpsbúa á Þingeyri svo og landþröng fjáreigenda þar má ætla að einnig hafi vaxið hlutur þess fjár sem gekk utan heimalands eigenda. Þörfin fyrir rækileg fjallskil og lögskilarétt og vinna þessu fylgjandi varð því meiri en áður. Fjallskilareglugerð sýslunnar var mikilvæg opinber fyrirsögn um verklag.

Þriðja tímabilið má síðan greina síðustu árin þegar bæði fé en þó fremur fjáreigendum og tiltækum smölum hefur fækkað. Fjallskil og smalanir til slátrunar hafa þá að mestu runnið saman í eitt – fjárbændum til sparnaðar og hagræðis.

Eins og í flestum öðrum sveitum er þó ljóst að göngur og réttir hafa verið það viðfangsefni sem allir bændur áttu sameiginlegt og gerði hvort tveggja í senn að kalla á víðtæka og skipulega samstöðu hreppsbúa og að skapa mikilvæga tilbreytingu í amstri daganna.179

179 Að stofni til birtist þessi kafli sem grein í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga 2007, 47 (2007), 43-62. Hér hefur henni verið breytt.