5 minute read

að ræða lagafrumvarp fyrir hið væntanlega ungmennafélag“

2. Svipmyndir úr hundrað ára sögu

„að ræða lagafrumvarp fyrir hið væntanlega ungmennafélag“

Advertisement

„Þriðjudaginn 12. des. (1911) kl. 4. e. h. var settur og haldinn fundur í I. bekk bændaskólans á Hvanneyri. Fundarefni var að ræða lagafrumvarp fyrir hið væntanlega ungmennafélag, sem þar til kosin nefnd hafði samið, og lagt fyrir fundinn, og einnig að kjósa stjórn U.M.F.”

Þannig hefst stofnfundargerð Ungmennafélagsins Íslendings. Hér að framan hefur verið vikið að þeim félagslegu hræringum sem þá voru meðal íslensku þjóðarinnar. Að sínum hluta áttu þær mikinn þátt í því að hópur ungs fólks kom saman þarna í hinu nýja og glæsilega skólahúsi á Hvanneyri til þess að mynda með sér ungmennafélag. Í Bændaskólanum, eins og hann hét þá, var hópur ungra manna við nám auk nokkurs fjölda starfsfólks. Nokkru fyrr (1907) hafði starfsháttum skólans verið breytt í kjölfar nýrra laga og til skólans höfðu ráðist nýir starfsmenn, ungir og vel menntaðir. Námið snerist ekki aðeins um túnasléttun og góða gripahirðingu – það er að segja hinn verk- og tæknilega þátt búskaparins heldur skyldi líkaminn efldur og andinn einnig með ýmsu móti, svo sem með íþróttum, söng og málfundastarfi. Í þeim efnum naut skólinn þess ekki síst að skólastjórinn, Halldór Vilhjálmsson, hafði kynnst dönsku lýðháskólahreyfingunni og hrifist af henni m. a. við vetrarveru sína í hinum þekkta lýðháskóla í Askov. Sá skóli var um þær mundir í forystu lýðháskólahreyfingarinnar á Norðurlöndum. Halldór lagði mikið kapp á að efla félagsþroska og sjálfstæði nemenda sinna.11 Í Hvanneyrarskóla var öflugt málfundastarf. Veturinn 1907-1908 munu skólapiltar og heimafólk á Hvanneyri hafa stofnað með sér málfundafélag sem nefnt var Fram. Félagið starfaði um margra

11 Bjarni Guðmundsson: Halldór á Hvanneyri. Bls. 63-66. áratuga skeið en það er önnur saga. Það var á fundi í Fram laugardaginn 2. desember 1911 sem Hvanneyringar ræddu m.a. spurninguna: „Hvort er meiri þörf á andlegri eða líkamlegri mentun í landi voru?” Í þeirri umræðu lagði Vigfús Guðmundsson til að nemendur á Hvanneyri stofnuðu með sér ungmennafélag. Vigfús var frá Eyri í Flókadal en þá nemandi á Hvanneyri. Hann varð síðar landskunnur veitingamaður. Vigfús hafði kynnst félagsstarfi í Ungmennafélagi Reykdæla, auk þess sem hann hafði verið viðriðinn stofnun Umf. Dagrenningar í Lundarreykjadal sumarið áður. Fundarmenn tóku flestir vel undir hugmynd Vigfúsar. Kosin var framkvæmdanefnd til þess að halda málinu vakandi. Nefndina skipuðu þeir

Páll Zóphóníasson, kennari á Hvanneyri,

Valdimar Bjarnason, nemandi, frá Ölvisholti í

Hraungerðishreppi og

Vigfús Guðmundsson, sem fyrr var nefndur.

Nefndin hafði hraðar hendur í vinnu sinni og tæpri viku síðar, eða föstudaginn 8. desember 1911, boðaði hún til undirbúningsfundar í stofu 1. bekkjar skólans. Valdimar frá Ölvisholti hafði framsögu fyrir hönd nefndarinnar en hann var vel kunnugur ungmennafélagsstarfi áður en hann kom að Hvanneyri. Var m.a. stofnandi Ungmennafélagsins Baldurs í Hraungerðishreppi þremur árum fyrr og hafði setið í fyrstu stjórn þess. Framkvæmdanefndin hvatti eindregið til þess að stofnað yrði ungmennafélag. Tóku fundarmenn

Úr stofnfundargerð Ungmennafélagsins Íslendings.

mjög undir það en talsvert var rætt um það hvort félagið skyldi aðeins ná til heimafólks á Hvanneyri eða til stærra svæðis. Framkvæmdanefndin hallaðist einkum að því að nefna hið nýja félag „Framsókn“ en í umræðum á eftir skaut Páll Zóphóníasson fram tveimur hugmyndum í viðbót, þ.e. nöfnunum „Skúli fógeti“ og „Íslendingur.“

Undirbúningsfundinum þarna í 1. bekkjar-stofu hins nýja skólahúss á Hvanneyri lauk svo með því að kjörin var nefnd til þess að semja lög fyrir væntanlegt ungmennafélag. Í hana voru kjörin þau

Svava Þórhallsdóttir, skólastjórafrú á Hvanneyri, Ingimar Jóhannesson, nemandi, frá Meira Garði í Dýrafirði og Valdimar Bjarnason frá Ölvisholti, sem áður var nefndur.

Laganefndin starfaði einnig hratt. Hún lauk verki sínu innan fjögurra nátta og þriðjudaginn 12. desember boðaði hún til fundar. Áreiðanlega hefur munað um það að nefndarmenn þekktu vel til ungmennafélagsstarfa fyrir. Svava skólastjórafrú hafði starfað mikið í Ungmennafélaginu Iðunni í Reykjavík. Nefna má líka að hún var ritari sambandsstjórnar Ungmennafélags Íslands árin 1908-1911. Svava, sem nú var nýkomin að Hvanneyri, var því gjörkunnug ungmennafélagshreyfingunni. Ingimar var meðal stofnenda Ungmennafélags Mýrahrepps í Dýrafirði en það var stofnað haustið 1909, og áður var sagt frá reynslu Valdimars frá Ölvisholti.

Svava hafði orð fyrir nefndinni. Hún gat þess „meðal annars ... [að nefndin] hefði orðið að hafa þessi lög dálítið öðruvísi en lög annara ungmennafélaga, af því að starfsemi þessa félags yrði dálítið öðruvísi en starfsemi þeirra.“12 Við komum nánar að þeim mismun síðar. Lagafrumvarp þremenninganna var samþykkt og taldist fundurinn því stofnfundur félagsins. Félagið hlaut nafnið Íslendingur, og skyldi starfssvæðið vera Andakíls- og Skorradalshreppar. Tilgangur félagsins skyldi m.a. vera að „útbreiða stefnu og hugsjónir ungmennafélags-hreyfingarinnar og styðja að því að sem flestir kynnist starfsemi og tilgangi hennar.“ Rifjum því upp stefnuskrá ungmennafélaganna á þessum árum:

12 Fundargerð stofnfundar Ungmennafélagsins

Íslendingur. Páll Zóphóníasson kennari á Hvanneyri, fyrsti formaður Ungmennafélagsins. (Hve).

1. Að reyna af alefli að vekja löngun hjá æskumönnum til þess að starfa fyrir sjálfa sig, land sitt og þjóð 2. og að temja sér að beita starfskröftum sínum í félagi og utan félags 3. að reyna af fremsta megni að styðja, viðhalda og efla allt það, sem þjóðlegt er og ramm-íslenskt, og horfir til gagns og sóma fyrir hina íslensku þjóð. Sérstaklega skal leggja stund á að fegra og hreinsa móðurmálið.13

Félagsmenn skyldu undirrita skuldbindingaskrá Ungmennafélags Íslands. Fól hún í sér kröfu um bindindi á áfenga drykki og það að fylgja stefnuskrá UMFÍ í einu og öllu. Einum og hálfum áratug síðar varð þó lífleg umræða í félaginu sem leiddi til þess að samþykkt var að færast undan bindindisheitinu en talið sjálfsagt að ungmennafélagið „gangist fyrir bindindisstarfsemi á frjálsum grundvelli“. Af athyglisverðum ákvæðum fyrstu félagslaganna má annars nefna: „Allir sem eru í félaginu skulu þúast“ (5. gr.) og „Alla fundi skal hefja og enda með því að syngja einhver ættjarðarkvæði eða önnur vel til fallin ljóð“ (11. gr.). Félaginu var kjörin stjórn og þá fyrstu skipuðu þau

Páll Zóphóníasson, kennari, sem varð formaður14 Svava Þórhallsdóttir, skólastjórafrú, ritari og Einar Jónsson, kennari og ráðsmaður á Hvanneyri, sem kosinn var gjaldkeri.

Með sama hætti var kosið í varastjórn félagsins. Þar hlutu sæti eftirtaldir, sem allir voru nemendur Bændaskólans: Ingimar Jóhannesson, sem áður var nefndur, varaformaður; Guðmundur G. Kristjánsson frá Mýrum í Dýrafirði, vararitari, og Davíð Árnason frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði, varagjaldkeri.

13 Gunnar Kristjánsson: Ræktun lýðs og lands. Bls. 31-32. 14 Páll Zóphóníasson minntist fyrstu ungmennafélagsáranna m.a. í grein sem birtist í ritinu

Ungmennasamband Borgarfjarðar 50 ára, bls. 7-10.