KJARAMÁL
HVERNIG VERÐA KJARASAMNINGAR TIL? Kjarasamningar skipta vinnandi fólk gríðarlega miklu máli enda kveða þeir á um dýrmæt réttindi launafólks á vinnumarkaði. Kjarasamningi mætti líkja við einskonar leikreglur sem gilda um vinnumarkaðinn um hvað má og hvað má ekki og hver lágmarksréttindi og hverjar skyldur starfsfólks eru. VR (þá Verzlunarmannafélag Reykjavíkur) undirritaði sinn fyrsta kjarasamning árið 1955. Margt hefur breyst síðan þá en baráttan snýr alltaf að því sama: Að bæta lífskjör félagsfólks VR. HVAÐ ER KJARASAMNINGUR? Kjarasamningur er samningur sem gerður er á milli samtaka launafólks (stéttarfélags) og samtaka atvinnurekanda. Kjarasamningar eru lágmarksréttindi starfsfólks í viðeigandi starfsgrein. Eftir að kjarasamningur hefur verið samþykktur er ekki hægt að breyta honum eða að víkja frá honum og verða báðir aðilar að hlíta þessum samningi. Gildistími kjarasamninga getur verið misjafn og er frá nokkrum mánuðum og upp í nokkur ár en þegar skrifað er undir kjarasamning þarf gildistími samningsins að vera ljós. Í kjarasamningi er samið um mikilvæg atriði er varða vinnusambandið eins og laun, vinnutíma, orlof, laun í veikindum, uppsagnarfrest, tryggingar, iðgjöld til lífeyrissjóða og starfsmenntasjóði svo það helsta sé nefnt. Vinnumarkaðurinn er einn af undirstöðuþáttum hins efnahagslega kerfis á Íslandi og eru kjarasamningar sem gerðir eru á vinnumarkaði lykilþáttur í velferðarkerfinu ásamt því að þjóna tilgangi leikreglna á vinnumarkaði. Aðilar á vinnumarkaði þ.e. launafólk og stéttarfélög, atvinnurekendur og félög atvinnurekenda eru bundnir þeim samningi sem er í gildi á hverjum tíma og er talað um að meðan svo er ríki friðarskylda á vinnumarkaði. Á þeim tíma er aðilum vinnumarkaðarins óheimilt að boða til verkfalla eða verkbanna. Áður en samningurinn rennur úr gildi vinna báðir aðilar að undirbúningi fyrir næsta samning.
HVAÐ ER SAMNINGSUMBOÐ? Samkvæmt lögum VR fer stjórn VR með samningsumboð félagsfólks VR og leiðir formaður félagsins samningaviðræður. Fyrir undanfarna samninga hefur stjórnin skipað kjaramálanefnd sem kannar hug og vilja félagsfólks VR með könnun sem send er til alls félagsfólks. Kjaramálanefnd ásamt 28 VR BLAÐIÐ 01 2022
trúnaðarráði VR stillir svo upp kröfugerð gagnvart atvinnurekendum. Þessari kröfugerð er síðan komið á framfæri til félaga atvinnurekanda sem í tilfelli VR eru tvö félög þ.e. Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda. Kjaramálanefnd er skipuð í upphafi hverrar kjarasamningsmyndunar og hefur strax störf. Farið er yfir eldri kröfugerðir, hvað hefur áunnist og hvað má bæta ásamt því að kjaramálanefndin vinnur ítarlega með kjaramálasviði VR til að fá upplýsingar um þau atriði í gildandi kjarasamningi sem virka ekki sem skyldi.
FÉLAGSFÓLK HEFUR ÁHRIF Þegar styttist í að samningar verði lausir er lykilatriði að kanna hug félagsfólks og því er send út könnun til að komast að því hverjar áherslurnar eru en þær snúa alltaf að kjarabótum og er áherslurnar mismunandi eftir aðstæðum í samfélaginu hverju sinni. Með því að svara og koma sínum atriðum á framfæri getur félagsfólk haft áhrif en lokahönd kröfugerðar byggir á niðurstöðu þessarar könnunar. Kröfugerðina leggur stjórn svo fyrir trúnaðarráð og trúnaðarmenn VR til samþykktar áður en hún verður lögð fyrir viðsemjendur okkar. Það er rétt að koma því á framfæri að með því að starfa í trúnaðarráði eða sinna hlutverki sem trúnaðarmaður hefur félagsfólk mun beinni aðkomu að kröfugerðinni og meiri en almennt félagsfólk. Því er mikilvægt að fólk bjóði sig fram til slíkra starfa hafi það áhuga og hafi þannig áhrif.
SKIPULAG VIÐRÆÐNA Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur segir að aðilar, þ.e. atvinnurekendur eða samtök þeirra og stéttarfélög, skuli gera áætlun um skipulag viðræðna vegna endurnýjunar kjarasamnings. Heimilt er í lögum að veita landssamböndum eða heildarsamtökum umboð til að gera viðræðuáætlun og sjá um viðræðurnar. Það er ákveðið á fundi samtakanna með góðum fyrirvara hvort hvert félag fari af stað í viðræður sem heild eða hvert fyrir sig. VR hefur kosið að semja sjálft um sinn kjarasamning enda þótt félagið sé meðlimur í Landssambandi íslenzkra vezslunarmanna (LÍV). Viðræðuáætlun er leiðbeinandi skjal um það hvenær aðilar ætla að hittast og ræða ákveðin atriði og hvenær áætlað er að ná samningi og skrifa undir nýjan kjarasamning.