1 minute read

Frakkar á Íslandsmiðum Lifandi nærmynd af lífi sjómanna um borð í frönsku skútunum

Frakkar á Íslandsmiðum er áhugaverð sýning á Fáskrúðsfirði um frönsku sjómennina sem sigldu á skútum um Íslandsmið og hlutu sumir vota gröf. Árni Páll Jóhannsson hannaði sýninguna.

Safnið sjálft er til húsa í tveimur byggingum, Læknishúsinu og Franska spítalanum, sem Frakkar reistu upp úr aldamótunum 1900. Sjálf sýningin er hins vegar í undirgöngum sem tengja húsin saman; undirgöngin eru líkan skútu en þar má sjá vistarverur 20 - 27 sjómanna sem bjuggu við hræðilegar aðstæður í um sjö mánuði í senn. Tekist hefur að skapa sérstakt andrúmsloft hvað varðar hönnun sýningarinnar í undirgöngunum.

Advertisement

Gestir sjá með eigin augum meðal annars hvernig káeturnar hafa verið. Þegar gestir ganga inn í skútulíkanið í undirgöngunum er hægt að ímynda sér hvernig aðstæður þeirra hafa verið sem og daglegt líf.

Þeir skiptu þúsundum Frakkarnir og Belgarnir sem veiddu við Íslandsstrendur og talið er að um 500 gólettur, eða skonnortur, hafi farist og með þeim á milli fjögur og fimm þúsund manns. Flestir gestir safnsins eru franskir en safnið gerir einnig sögu Belganna góð skil. „Í skútulíkaninu má sjá sjó á vegg þar sem nöfnin þeirra flæða um í ölduróti. Hljóð, lýsing og lykt gerir það að verkum að gestum finnst þeir þurfi að stíga ölduna,“ segir Fjóla Þorsteinsdóttir safnvörður.

Fimm hús tilheyra safninu og auk þeirra tveggja sem þegar hafa verið nefnd eru það sjúkraskýlið, litla kapellan og líkhúsið.

Hönnun safnsins hefur vakið mikla athygli sem og nálgun við viðfangsefnið og svo er það andrúmsloftið sem tekist hefur að skapa.

Gestir geta hlustað á söguna í söguborðum á íslensku, frönsku og ensku og tók Pétur Gunnarsson saman.

Þegar leiðsagnartúrum lýkur hefur skapast sú hefð að syngja saman í kapellunni til að létta lund.

This article is from: