
2 minute read
Erum við að verða komin?
Á mínum æskuárum fór ég ósjaldan í ferðalög vestur á firði með foreldrum mínum. Á lítilli eyri með langa sögu átti fjölskyldan hús sem bar nafnið Ömmuhús. Langamma mín, Jakobína, bjó þar áður en hún lést. Þaðan af var húsnæðið notað á sumrin og í öðrum fríum. Úti stóð hjallur, líklega var þar einhvern tímann þurrkaður fiskur. Þegar ég var barn var hann orðinn að geymslu fyrir garðbúnað, efri hæðina fékk ég til afnota. Mér leið alltaf vel á Flateyri. Þrátt fyrir hörmungarsögu þorpsins ríkti þar friður.
Þegar við fjölskyldan vorum á eyrinni fann ég að tengslin voru sterkari. Án öngþveitis höfuðborgarinnar og áreiti vinnustaðanna voru foreldrar mínir í eins konar núvitund. Sérstaklega pabbi, símtölum fækkaði úr tuttugu í tvö á dag og athyglin var nánast óskipt á mér. Mér þótti skemmtilegast þegar við feðginin fórum rúnt um þorpið, en það var dagleg rútína. Þá sagði hann mér sögur af æskuárunum á Flateyri og ég sá myndrænt fyrir mér lifandi menningu fiskiþorpsins. Eyrin náði sér aldrei að fullu eftir snjóflóðið sem skall á í október árið 1995, það tók með sér líf tuttugu íbúa á öllum aldri. Ég ímynda mér að þorpið hafi gránað eftir það áfall. Því fleiri sögur sem pabbi sagði mér, þeim mun skýrari varð myndin af liðinni tíð. Ég var ekki há í loftinu þegar ég beit það í mig að þegar ég næði aldri yrði ég að bjarga Flateyri. Hvernig ég færi að því var dulin ráðgáta.
Advertisement
Ég á fjögur eldri systkini og er okkur stundum skipt, án neinnar alvöru, í tvo hópa. Gömlu börnin og nýju börnin. Þau voru þrjú sem flokkuðust sem gömul, við tvö yngstu vorum nýju. Ég ólst þó að miklu leyti upp sem einkabarn enda er ég langyngst. Æsku eldri systkina minna er nánast ekki hægt að bera saman við mína. Þau komu þrjú á einu bretti og ólust upp á Flateyri. Ég kom átta árum á eftir yngsta bróður mínum og fell vel undir skilgreiningu malbiksbarns. Sumrin á Flateyri gáfu mér þefinn af því frelsi sem fylgir því að alast upp á landsbyggðinni. Ferðalag þangað fylgdi öllum sumarfríunum mínum. Aksturinn upplifði ég óralangan. Firðirnir voru endalausir. Ég sá til þess að foreldrum mínum leiddist ekki á leiðinni og gólaði oftar en eðlilegt þykir „erum við að verða komin?“. Þegar Flateyri var í augsýn setti pabbi alltaf sama lagið á, Hafið eða fjöllin. Því fylgdu ávallt jákvæðar tilfinningar.
Á fullorðinsárum hef ég haldið í þá hefð að heimsækja Flateyri að sumri til. Stórfjölskyldan fylgir oftast með. Staðurinn er að mörgu leyti eins, þótt Ömmuhús hafi verið selt og nafninu breytt í Fríðuhús. Amma er komin á elliheimili, húsið hennar á Drafnargötu hýsir nýja íbúa. Nýlega leigðum við fjölskyldan hús á Flateyri. Við maðurinn minn keyrðum með börnin okkar tvö aftur í og ég öðlaðist nýja hæð af virðingu fyrir foreldrum mínum þegar dóttir mín spurði í sjötta skiptið hvort við værum nú ekki að verða komin. Þegar við nálguðumst þorpið reyndi ég að hafa uppá laginu hans pabba. Í stað geisladisksins notaði ég Spotify. Ég fann lagið, í kolvitlausum flutningi Fjallabræðra. Það var látið duga. Tilfinningarnar streymdu yfir mig og í aftursætinu grátbað dóttir mín um að það yrði lækkað í þessum óhljóðum. Hún heyrði ekki í YouTube.
Tímarnir eru breyttir. Æskan er farin og loforð mitt um að bjarga Flateyri stóðst ekki. Nýtt líf færðist þó yfir eyrina þegar Lýðháskólinn hóf starfsemi sína, sem betur fer. Einn daginn munu börnin mín kannski nenna að keyra með mér hring eftir hring um þorpið og hlusta á sögurnar sem ég lærði hjá pabba.