1 minute read

Pylsa og kók í vegasjoppum Hvað kostar?

Blaðamaður Mannlífs kannaði verð á pylsu og gosi í nokkrum vegasjoppum og af þeim var Krambúðin ódýrust. Ætla má að fjöldi landsmanna leggi leið sína um landið nú í sumar. Víðast hvar er pylsa og gos almennt talið með algengustu og þægilegustu skyndibitum sem völ er á. Mannlíf kynnti sér verðlag hjá nokkrum vegasjoppum landsins.

Ef fimm manna fjölskylda kaupir pylsu og litla dós af kók fyrir hvern meðlim, kostar það 3.340 krónur hjá

Krambúðinni en 5.550 krónur ef fjölskyldan skreppur á Ungó í Reykjanesbæ. Munurinn er 60 prósent. En ef þú átt leið um Suðurlandið og stoppar í Söluskálanum Landvegamótum þá kosta pylsa og kók fyrir fimm manna fjölskyldu 4.300 krónur.

Ef kaffiþorsti er til staðar eftir pylsuna, þá er boðið upp á ókeypis kaffi hjá Kletti í Vestmannaeyjum, en ef þú vilt taka það með þá kostar það 250 krónur. En ódýrasta kaffið fyrir utan Klett er hjá N1, þar kostar það 229 krónur, en er dýrast hjá Aðal-Braut í Grindavík á 450 krónur. Munurinn er 96 prósent.

Ís úr vél hefur líka verið vinsæll hjá ferðlöngum á leið um Ísland, en ekki eru allar sjoppur sem bjóða upp á hann. Ódýrasti ísinn sem blaðamaður fann er hjá Aktu taktu sem eru eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Ef fjölskyldan ætlar að gæða sér á litlum ís í brauðformi án dýfu í eftirmat þá er ísinn ódýrastur hjá N1, Krambúðinni og Ungó í Reykjanesbæ á 450 krónur, en dýrastur í Söluskálanum Ólafsvík á 600 krónur. Munurinn er 33 prósent.