
1 minute read
Fjaðrafok í Fjarðabyggð
by valdissam
Allt virðist í hers höndum í Fjarðabyggð, en Mannlíf hefur fjallað um vandræðagang í starfsmannamálum sveitarfélagsins. Fimmtán starfsmenn skrifstofu Fjarðabyggðar hættu störfum á árinu 2022 og það sem af er þessu ári hafa þó nokkrir til viðbótar hætt, þar með talinn bæjarstjórinn sjálfur, Jón Björn Hákonarson, sem lét af störfum í marsmánuði. Einn maður, Gunnar Jónsson, hefur gríðarleg völd í sveitarfélaginu en hann er í senn bæjarritari, mannauðsstjóri, staðgengill bæjarstjóra og hafnarstjóri.
Sendur í leyfi eftir að hann benti á myglu*
Advertisement
Jóhann Valgeir Davíðsson, íþróttakennari í Fjarðabyggð, var afar ósáttur við vinnubrögð starfsmanna Fjarðabyggðar í tengslum við alvarlegar ásakanir á hendur honum.
Jóhann Valgeir starfaði einnig í félagsmiðstöðinni Knellan á Eskifirði, en kvörtun barst Fjarðabyggð frá foreldra eins barns, en foreldrið fullyrti að Jóhann Valgeir hefði sýnt krökkum Netflixþáttinn um raðmorðingjann Jeffrey Dahmer – þættirnir eru eðli málsins samkvæmt stranglega bannaðir innan 16 ára – og vanvirt börnin. Var honum fljótlega sagt upp störfum á meðan rannsókn málsins stóð yfir. Gagnrýndi Jóhann Valgeir verkferla mannauðsstjóra sveitarfélagsins, sem og yfirmanna hans, harðlega í Facebook-færslu þann 1. desember 2022.
Fullyrti hann þar að krakkarnir hefðu sjálf sett þáttinn í gang án hans vitundar og að hann hafi aldrei vanvirt börnin. Segir hann í færslunni að málið hafi haft andlegar afleiðingar fyrir hann enda um þungar ásakanir að ræða. „Ég sé ekkert annað úr út þessu máli að þarna eru yfirmenn í stöðu Fjarðabyggðar að reyna að ná á mig höggi,“ skrifar hann meðal annars í færslunni.
Nokkrum dögum áður en málið í Knellunni kom upp, hafði Jóhann Valgeir kvartað í fjölmiðlum vegna mögulegrar myglu í íþróttahúsinu á Eskifirði þar sem hann kennir grunnskólabörnum, og annars sem þyrfti að laga, enda húsið komið til ára sinna. Hafði hann áður vakið athygli á ástandi hússins, en í færslu frá árinu 2014 gagnrýndi hann húsnæðið og birti ljósmyndir af skemmdum sem þar var að finna. Skal taka fram að ekkert bendir til þess sérstaklega að málin tvö tengist.