Öflun fæðu úr jarðvegi Jurtanæringarefnin leysast upp í vatni jarðvegsins og berast gegnum ræturnar og upp eftir viðaræðunum. Næringarefnin sem trén taka til sín úr jarðveginum eru aðallega köfnunarefni, fosfór og kalí. Af öðrum næringarefnum má nefna kalk, magníum, brennistein, járn og bór. Fyrrgreind efni hverfa aftur til jarðar þegar grös sölna eða tré falla og fúna. Öðru máli gegnir þegar land er slegið eða beitt, tré felld og flutt brott úr skógunum. Þá fer jarðveginn að skorta sum þessara efna, einkum köfnunarefni, fosfór og kalí. En unnt er þá að bæta úr næringarskorti með áburði. Plönturnar verða veikbyggðar og hætta að vaxa, ef jarðveginn vantar steinefni eða köfnunarefni. Þess vegna er oft nauðsynlegt að gefa ungum trjám og runnum áburðarskammt en gæta verður þess að hafa hann ekki stóran. Of mikil áburðargjöf hefur skaðleg áhrif og getur grandað smáplöntum. Eitt hið vandasamasta við alla ræktun er því að skera úr um áburðarþörfina. Köfnunarefni eykur vöxt blaða og sprota. Fosfór og kalí örva rótarvöxt og flýta fyrir blómgun og aldinþroska. Tré, sem fá næga næringu, verja henni ekki eingöngu til vaxtar, heldur safna þau líka forðanæringu. Í sólríkum sumrum safnast mikil forðanæring í trjánum til næsta árs. Vöxtur þeirra fer því mjög eftir veðráttu undanfarins sumars.
Vöxtur trjánna Á hverju ári bætist við hæð trjánna. Þetta sést best á furu og greni, því að krans af greinum vex út úr stofninum þar sem ársvöxturinn byrjar. Þess vegna er auðvelt að geta sér til um aldur ungra trjáa með því að telja greinakransana.
ÆSKAN OG SKÓGURINN | 19