
2 minute read
Til minnis
mörgum skógræktargirðingum eru leirflög, melar og rofabörð. Í slíkt land má ekki gróðursetja tré nema rækta jafnhliða annan gróður, til dæmis lúpínur.
Plöntun
Fátt virðist einfaldara en setja niður trjáplöntur. En þetta verk verður að leysa af hendi af nákvæmni og fyllstu alúð. Annars er allt unnið fyrir gýg.
Oft heyrist því fleygt að trjáplöntum sé víða holað niður í flaustri og þar við látið sitja.
Sannarlega má ekki kasta til þess höndum að planta trjám. Sakir hroðvirkni hafa margar plöntur farið forgörðum, margfalt fleiri en þær sem deyja af öðrum orsökum, t. d. í þurrki, frosti og illri meðferð í upptöku eða við flutning.
Hvenær á að planta?
Plöntun getur hafist þegar snjóa leysir á vorin og jafnvel áður en frost er úr jörðu. Þá er jarðrakinn mestur. Halda má verkinu áfram til miðs júní þegar tíð er vætusöm. En þá er vissara að hætta plöntuninni í bili. Mesta hitatímabil sumarsins er þá framundan og jarðvegurinn farinn að þorna. Í byrjun ágúst má venjulega hefjast handa á nýjan leik en hætta aftur í lok þess mánaðar. Þó má halda áfram nokkru lengur ef gróðursett er inni í skógi eða kjarrlendi.
Staðarval
Enginn skyldi hefja trjáplöntun fyrr en hverri tegund hefur verið valinn staður og reiknað út hve mikið land fer undir væntanlega plöntun. Þetta þarf að gera áður en plönturnar eru pantaðar svo tryggt sé að hver tegund fái jarðveg við sitt hæfi. Flokkun á landi eins og sagt er frá í kaflanum um jarðveg og grósku kemur í veg fyrir að menn panti óhentugar trátegundir.
Útvegun plantna
Þá kemur að því að útvega plöntur en þær verður að panta tímanlega frá næstu gróðrarstöð. Ef gróðursetja á greni mega plönturnar ekki vera yngri en fjögurra ára. Stærð og aldur plantnanna verður þó ætíð að miða við vaxtarskilyrði á staðnum. Þar sem grasvöxtur er mikill skal eingöngu planta stórum og þroskamiklum plöntum. Ekki sakar að skýra frá plöntunarstað, ástandi girðingar, landstærð og landgæðum um leið og plönturnar eru
31
pantaðar svo að skógarverðir eigi auðveldara með að átta sig á verkinu og gefa leiðbeiningar.
Vinnutilhögun
Alla vinnu verður að skipuleggja mjög vel áður en plönturnar koma á áfangastað. Verkfæri þurfa að vera næg og góð og útvega þarf eftirfarandi áhöld í tæka tíð: bjúgskóflur, haka, stunguskóflu, þjalir, trjáklippur, beittan hníf, plöntupoka, snúrur og hæla eða merkjaflögg.
Allt á að vera komið á staðinn áður en plönturnar koma svo að verkið geti hafist án tafar.
Þegar plöntur koma á áfangastað skulu þær strax leystar úr umbúðunum, greiddar varlega í sundur og síðan settar í rásir.
Rásirnar skulu vera á skuggsælum og skjólgóðum stað. Þannig má geyma plöntur í nokkra daga. Ef sólfar er mikið er nauðsynlegt að breiða yfir þær en forðast skal að vökva þær um of.
Verkfæri
Hér á landi eru einkum notuð tvenns konar verkfæri við plöntun. 1. Bjúgskófla. Hún er aðallega notuð þar sem jarðvegur er ekki grýttur. Fljótlegt er að planta með þessu verkfæri og getur vanur maður sett niður sjö til átta hundruð plöntur með því á einum degi í góðu landi. 2. Plöntuhaki. Hann er notaður þar sem land er grýtt. Nokkru seinlegra og erfiðara er að planta með haka en bjúgskóflu.
Hvernig á að planta?
Trjáplöntur eru settar niður á mismunandi hátt.en eitt verður ávallt að hafa hugfast þegar planta er handleikin:
Hún er lifandi! Plöntuhaki Ljósmynd. Einar Pétur