Grænu plöntunun er skipt í þrjá flokka eftir lífsskeiði þeirra: einærar, tvíærar og fjölærar plöntur. Einærar jurtir spretta upp af fræi að vori, blómgast, fella fræ og deyja að hausti. Til þessara jurta teljast mörg fegurstu sumarblómin sem ræktuð eru í görðum. Tvíærar jurtir safna forðanæringu fyrra sumarið en hið síðara blómgast þau, bera fræ og deyja að því loknu. Margar nytjajurtir teljast til þessa flokks, t. d. gulrófan og gulrótin. Fjölærar plöntur eru þannig úr garði gerðar að þær geta lifað langa ævi og eru trén langlífust en þau geta lifað áratugum eða jafnvel öldum saman. Broddfuran sem margir kannast við hér á landi, getur þannig orðið allt að fjögur þúsund ára gömul. Hins vegar verður t. d. íslenska birkið aðeins um hundrað til eitt hundrað og fimmtíu ára gamalt. Í skógunum þurfa að vaxa samtímis smáplöntur, ungur skógur, frætré og fullvaxinn skógur í hæfilegum hlutföllum. Ef ungu trjáplönturnar ná ekki að þroskast, eyðast skógarnir smátt og smátt.
17