6 minute read

Draugar fortíðar

Next Article
Um mig

Um mig

Eitt vinsælasta hlaðvarp landsins í dag er Draugar fortíðar sem er eitt af sex hlaðvörpum sem Hljóðkirkjan heldur úti. Umsjónarmenn eru þeir Flosi Þorgeirsson og Baldur Ragnarsson og voru þeir meira en til í að mæta í smá spjall.

Segið aðeins frá ykkur sjálfum

B: Ég heiti Baldur og er 36 ára, fæddist á Húsavík en bjó á Laugum framan af en flutti svo til Húsavíkur. Ég er tónlistarmaður fyrst og fremst en í seinni tíð líka upptökumaður. Já og bara svona listamaður, hef verið að leika og gera hitt og þetta. Hef einblínt svolítið á að gera sem allra minnst af því sem mér finnst leiðinlegt. F: Sama hér, mikið til. Ég heiti Flosi Þorgeirsson og fæddist 16. febrúar 1968, í Reykjavík en er meira og minna alinn upp í Kópavogi. Hef búið í Stykkishólmi, á Húsavík og í Danmörku. Ég er bæði sagnfræði- og sjúkraliðamenntaður en tónlistin er nú uppáhaldið.

Hvernig lágu leiðir saman?

F: Í gegnum Bibba, er það ekki? B: Jú, í gegnum Bibba bróðir minn árið 2003. Höfum verið töluvert í sambandi síðan og gert mjög margt saman.

Hvaðan kom hugmyndin að hlaðvarpinu og hvaðan kemur nafnið?

B: Nafnið kom eiginlega á rauntíma í fyrsta þættinum. Ég man að ég sagði Fortíðardraugar og þú sagðir Draugar fortíðar. Við svona fundum út úr þessu. F: Brillíant nafn. B: Flosi var búinn að lýsa yfir áhuga á að gera einhvers kona hlaðvarp. F: Já ég er ofsalega hrifinn af þessu formati. B: Ég er búinn að þekkja Flosa svo lengi að ég veit að hann er einn af okkar allra bestu sögumönnum þannig að fyrir mér var þetta dauðafæri. F: Já fólk var að nefna það við mig að ég ætti að fara í útvarpið með þessa rödd. Ég prófaði að fara í útvarpið, var þar með þætti 2017 en mér finnst hlaðvarpið að mörgu leyti skemmtilegra format. B: Við þekkjumst það vel að við vitum vel um kosti og galla hvors annars og ég veit að ég gæti alls ekki gert svona hlaðvarp einn og Flosi jafnvel enn síður. F: Bara alls ekki. B: En við getum hins vegar gert þetta mjög vel tveir. F: Það er mjög gott að hafa tvo menn með mismunandi hæfileika. B: En ég beið líka með að heyra í þér með að byrja með þetta þangað til ég var búinn æfa mig það mikið að ég væri orðinn góður í að taka upp. Ég tók eitt og hálft ár í að taka upp Dómsdag áður en ég hringdi í þig. Maður verður að vita hvað maður er að gera. F: Ég kunni ekkert á tæknihliðina, ætlaði bara að taka eitthvað upp á símann minn. Þú tókst alveg fyrir það. B: Það hefði verið hryllilegt, þú með þessa rödd, tekinn upp á síma hefði bara hljómað eins og Gosi í gömlu teiknimyndinni.

Hvers konar hlaðvarp er Draugar fortíðar?

B: Þetta er sagnfræðihlaðvarp gert af alúð, vitneskju og menntun í bland við kæruleysi, lífshamingju og lífsleiða. Þetta keyrir svolitið á langri vináttu.

F: Ég átti ekki von á spjallið okkar tæki svona mikið pláss. Margir hafa kommentað á að það sé mikilvægt fyrir kemistríið í þáttunum. B: Við áttuðum okkur ekki á að þetta væri ekki normið en svona höfum við bara alltaf talað saman. Fyrir utan þessa fyrstu viku sem við þekktumst þar sem ég var skíthræddur við hann og fannst hann alltof góður á bassa. F: Það er mikil saga í Draugum fortíðar. Björn Blöndal vinur minn sagði að þetta væri svona Vera Illuga mætir Tvíhöfða.

Koma vinsældir hlaðvarpsins ykkur á óvart?

B: Ég ætla að segja nei. En þær hafa vaxið hraðar en ég átti von á. Ég er búinn að þekkja Flosa það lengi að ég vissi hvað hann væri að fara að gera. Svo það komi fram er Flosi mjög þunglyndur svo þetta gat verið spurning um dagsformið en í ljós kom að dagsformið skiptir ekki máli þegar búið er að ýta á rec. F: Það er ekkert víst að það haldist. Sérstaklega núna yfir dimmustu vetrarmánuðina. En þetta kom mér á óvart enda á ég aldrei von á því að neitt gangi vel. B: Við reyndum eitthvað að leikstýra þessu í byrjun, stytta spjallið áður en við fórum í efni þáttarins en svo sáum við að það var líka mikilvægt F: Leyfum þessu bara að vera eins og það er.

Hvað er skemmtilegast við að vinna með Baldri/Flosa?

F: Þetta er vandræðaleg spurning því að tveir íslenskir karlmenn mega ekki tala vel hvor um annan á meðan þeir eru í sama herbergi. Það hefur verið bannað allt frá þjóðveldisöld. B: Ég var náttúrlega ekki uppi á þeirri öld þannig að ég á auðvelt með þetta. Það skemmtilegasta við að vinna með Flosa er að hann er svo ofboðslega fróður og sögumannseðlið í honum er svo hryllilega sterkt. Í bland við hversu óskaplega mannlegur hann er. F: Mér finnst gott að hafa Baldur hérna af því hann er fyndinn sem ég er alls ekki. Hann er hnyttinn, fljótur að koma með sniðug tilsvör. Maður sér það í umræðuhópnum að fólk er að pikka upp svona „catch phrases“ sem flestar koma frá honum. B: Ef það er fyndið þá er það oft ég en ef það er mannlegur harmur og eftirsjá er það yfirleitt Flosi. F: Samstarfið er alla vega með miklum ágætum. B: Mér finnst gaman að heyra fólk sem hefur brennandi áhuga á einhverju tala um það, alla vega þegar það gerir það svona vel. F: Það hjálpar að þú hefur áhuga á flestum hlutum. Þannig að þér virðist aldrei leiðast.

Hvað var það við hlaðvarpsformatið sem heillaði ykkur?

F: Það er þessi afslappaða stemming. Fólk hefur talað um að því finnist við vera orðnir nokkurs konar heimilsvinir sem koma í heimsókn í hverri viku og segja þeim frá einhverjum spennandi viðburði. B: Þetta verður persónulegra. F: Já útvarp er stífara og meira gamaldags. B: Þar þarf þátturinn að fylgja ákveðnum reglum og enda akkúrat þarna af því annar er að byrja. Mér finnst líka frábært að hver sem er getur gert hvað sem er. Og allir þeir sem hlusta á hlaðvarp hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að gera það. Þú þarft að finna þetta tiltekna hlaðvarp í tækinu þínu og velja að hlusta á það. F: Og fólk sem er kannski ekki nógu vel máli farið til að fá vinnu við dagskrárgerð í útvarpi en hefur brennandi áhuga á viðfangsefninu getur gert hlaðvarp. B: Brennandi áhugi skiptir miklu meira máli gott málfar.

Hvaða verkefni eruð þið að vinna fyrir utan Drauga fortíðar?

B: Ég kem að öllum öðrum hlaðvörpum Hljóðkirkjunnar, mismikið þó. Svo eru það aðallega þessar hljómsveitir sem nú liggja í dvala eins og allt gott, Ljótu hálfvitarnir og Skálmöld. Svo bara tilfallandi verkefni sem yfirleitt tengjast tónlist eða upptökum. F: Ég er bara að basla við að halda mér vakandi og hafa sæmilegan áhuga á því sem er í kringum mig. Svo er ég að taka upp sólóplötu sem er mjög gaman. Það er svona gamall draumur sem er að verða að veruleika. Ég er líka farinn að starfa sem sjúkraliði eftir margra ára hlé. Svo er ég bara að reyna að hafa gaman af lífinu sem í mínu tilfelli er fullt starf.

This article is from: