
1 minute read
Hljóðkirkjan
Hljóðkirkjan er hlaðvarpsamsteypa sem tengir saman og heldur utan um þau hlaðvörp sem hún vinnur og aðrir vinna í samstarfi við hana. Þannig styðja hlaðvörpin hvort við annað og gera hlustendur eins þáttar meðvitaða um hina.
Hljóðkirkjan er stofnuð af bræðrunum Baldri og Snæbirni „Bibba“ Ragnarsonum og fór formlega af stað í byrjun maí 2020. Þá bættust tvö ný hlaðvörp við þau tvö sem fyrir voru, síðan hafa tvö í viðbót bæst við þannig að nú eru sex hlaðvörp undir hatti Hljóðkirkjunnar.
Bræðurnir höfðu báðir verið með hugmyndir um einhvers konar hlaðvarpssamsteypu, þó í sitt hvoru lagi en eins og með svo margt ákváðu þeir að fara í þetta í sameiningu, það lá beint við, Baldur með upptökumál og tæknina og Bibbi með texta og ímyndarmál.
Hlaðvörpin sem Hljóðkirkjan framleiðir eru: Á mánudögum er Dómsdagur, elsta hlaðvarpið undir hatti Hljóðkirkjunnar. Þar spjalla Baldur Ragnarsson, Haukur Viðar Alfreðsson og Birna Pétursdóttir um og gefa stjörnur, ýmsu sem venjulega þykir ekki ástæða til að gefa stjörnur.
Á þriðjudögum er það Kokkaflakk í eyrun þar sem Ólafur Örn Ólafsson framreiðslumeistari spjallar við fólk um mat og matarmenningu.
Á miðvikudögum eru Draugar fortíðar. Baldur og Flosi Þorgeirsson, sagnfræðingur með meiru, draga fram einhvern atburð úr fortíðinni, Flosi sviðsetur atburðinn og svo spjalla þeir um eftirköst hans og fara þá gjarnan um víðan völl.
Á fimmtudögum er Snæbjörn talar við fólk sem er akkúrat það. Bibbi býður áhugaverðu fólki heim í stofu og rekur úr því garnirnar.
Á föstudögum eru svo tvö hljóðvörp. Annars vegar Besta platan þar sem Bibbi og Dr. Arnar Eggert Thoroddsen ræða um bestu plötu tónlistarmanna, að mati Bibba, með Baldur á hliðarlínunni til að halda þeim við efnið.
Hins vegar er það hinn goðsagnakenndi spurningarþáttur Nei hættu nú alveg, þar sem Vilhelm Anton Jónsson spyr spurninga og liðstjórarnir Anna Svava Knútsdóttir og Vignir Rafn Valþórsson reyna ásamt gestum að svara eftir bestu getu.
Stefnan Hljóðkirkjunnar er að bæta við fleiri hlaðvörpum þegar fram í sækir en þó gæta þess að spenna bogann ekki of hátt svona fyrst í stað. Stefnan er á stærri og fjölbreyttari dagskrá og þá gjarnan með fleiri konum við stjórnvölin.


breyttvidhorf.is
