1 minute read

Um mig

Next Article
Hljóðkirkjan

Hljóðkirkjan

María Björt Ármannsdóttir

Ég heiti María Björt Ármannsdóttir og er fædd og að mestu uppalin í Eyjafirði. Ég er sveitastelpa og sem barn sótti ég mikið í sköpun. Ef ég var ekki að syngja nýja frumsamda lagið mitt, þá var ég að safna hlutum í plastpoka til þess að föndra úr eða monta mig á einhverju snilldar listaverki sem ég hafði búið til. Þessi ást á sköpun hefur fylgt mér inn í fullorðinsárin og sæki ég ennþá mikið í að skapa, það er því ekkert skrítið að ég hafi rambað inn á grafíska miðlun þar sem það er mjög skapandi nám.

Ég hef komið inn á margar greinar sköpunar og finnst ekkert skemmtilegra en að bæta í reynslubankann og læra eitthvað nýtt. Ég er söngkona í 2 hljómsveitum, hef hannað leikmyndir og búninga fyrir leiksýningar, ég smíða silfurskartgripi og tek ljósmyndir, ég hef líka mjög gaman af því að sauma föt og hef gert mikið af því í gegnum árin, þá mest á sjálfa mig. Ég hef unnið mikið með áhugaleikfélögum höfuðborgarsvæðisins bæði sem leikkona en einnig sem höfundur, leikstjóri og útlitshönnuður. Þetta er fullkomin vettvangur til þess að fá útrás fyrir sköpunargleðina og kemur sífellt á óvart.

Gangandi inn í námið vissi ég ekki alveg við hverju ég átti að búast. Ég kannaðist við einhverjar greinar en vefhönnun var það sem ég kveið hvað mest, ég er ekki mikið tæknigúrú og trúði því ekki að ég mynd geta skilið neitt af því sem þurfti til þess að kóða vefsíður. Það kom mér því mjög skemmtilega á óvart hvað mér þótti þetta gaman og var þetta með skemmtilegri áföngum námsins. Námið í grafískri miðlun nærir listaspíruna og opnar nýjan heim sköpunar, þetta er fullkomið fyrir alla sem hafa einhvern áhuga á hönnun og mæli ég eindregið með þessu.

Draumurinn er auðvitað sá að geta unnið við það sem ég elska, hver vill það ekki? Ég vona að ég fái tækifæri til þess í framtíðinni. Eftir nám í grafískri miðlun opnast nýjar dyr sem bjóða upp á endalausa möguleika, hvort sem það er áframhaldandi nám eða atvinna. Ég er svo stolt af sjálfri mér fyrir að hafa tekið skrefið og farið í þetta nám og hlakka til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.

This article is from: