
4 minute read
Hnútar og brögð
from ASKUR - Haust 2022
by Tækniskólinn
Texti og teiknaðar myndir úr bókinni Fjallabókin eftri Jón Gauta Jónsson
Ef ætlunin er að notast við línur í brattlendi er óumflýjanlegt að læra nokkra hnúta og brögð. Hnútar eru hnýttir á línuna þar sem þeir hafa sjálfstætt líf (dæmi: áttuhnútur, rembihnútur og pelastikk). Bragð er á hinn bóginn hnýtt með línu utan um eitthvað eins og karabínur (hestahnútur, hálfbragð), línuna sjálfa (fiskihnútur, prússikhnútur) eða beint í tryggingar eins og ísöxi eða ísskrúfu (hestahnútur). Stundum er talað um tvöfalda hnúta. Með því er ýmist átt við að hnútur sé bundinn á tvöfalda línu (sbr. tvöfaldur áttuhnútur á miðja línuna) eða að hann sé bundinn með tveimur vafningum (sbr. tvöfaldur fiskihnútur).
Fyrir þá sem sjá aðeins svart eða fara allir í flækju þegar hnútar eru nefndir til sögunnar skal það tekið fram strax að hér verða aðeins sýndir nokkrir þeir helstu og að þeir eru bæði fáir og einfaldir. Best er að æfa sig að hnýta þá heima við góðar aðstæður því of seint er að læra hnútana þegar aðstæður til fjalla kalla skyndilega á notkun línu. Ég sting upp á að þú verðir þér úti um snærisspotta eða notir enda línunnar til að æfa hnútana og temjir þér ávallt að herða uppá hnútum áður en þeir fá átak og að hnýta þá þannig að línan liggi rétt í þeim. Einnig þarf að gæta þess að lausir línuendar séu ekki of stuttir og að minnsta kosti 20 cm og best af öllu ef hægt er að ganga frá þeim með öryggishnút (fiskihnút). Þá er ekki síður mikilvægt að temja sér strax þá góðu reglu frá upphafi að yfirfara hnúta sína og samferðamanna sinna, sérstaklega rétt fyrir sig eða brölt þar sem reynt getur.

Áttuhnútur
Algeng notkun: Til að mynda fasta lykkju á enda línunnar, t.d. Stóra lykkju utan um tryggingu eða um mittið eða litla lykkju til að festa í karabínu. Áttuhnútur er ýmist bundinn fyrst einfaldur og síðan þræddur til baka eða bundinn á lykkju línunnar(tvöfaldur áttuhnútur) Algengast er að hnýta enda línunnar í beltið með þræddum áttuhnút. Athugið: Mikilvægt er að herða vel á hnútnum eftir að hann er bundinn og áður en átak kemur á hann. Það kemur í veg fyrir að hann herðist mjög illa. Enn fremur ætti alltaf að hnýta öryggishnút á endann. Kostir: Einfaldur hnútur sem allir fjallamenn ættu að kunna upp á tíu. Áttuhnútur veikir línuna minna en rembihnútur, þægilegra er að losa hann en t.d. rembihnút ef hann herðist illa. Gallar: Getur herst illa samanborið við pelastikk, flóknari en rembihnútur.
Öryggishnútur
Algeng notkun: Aukahnútur hugsaður til að ganga frá lausum enda og tryggja að hann dragist ekki í gegnum viðkomandi hnút (áttuhnút, rembihnút, pelastikk). Öryggishnútur er ýmist hafður einfaldur eða tvöfaldur ef línuendinn er langur.
Athugið: Til að flækja þetta aðeins þá er öryggishnútur í raun eins og einfaldur fiskihnútur sem er ekkert annað en rembihnútur bundinn utan um línu.

Pelastikk með öryggishnút
Algeng notkun: Pelastikk er aðallega notað til að búa til lykkju, t.d. í tryggingar eða utan um mitti. Mjög mikilvægt er að herða vel upp á hnútnum og hnýta öryggishnút á endann. Kostir: Þægilegt að herða (stilla af). Til eru ýmsar útfærslur sem nota má í margvíslegum tilgangi. Gallar: Auðvelt að hnýta á rangan hátt, getur losnað ef ekki er stöðugt átak á honum. Þarf ávallt að binda með öryggishnút.
Rembihnútur
Algeng notkun: Sama og áttuhnútur. Öfugt þræddur rembihnútur (einnig nefndur borðahnútur) er eini hnúturinn sem nota má til að hnýta saman borða (einnig nefndur lykkja eða slingur). Kostir: Einfaldur hnútur, ekki jafn frekur á línu og áttuhnútur. Gallar: Getur herst mikið undir álagi og er þá erfitt að losa.

Hestahnútur (-bragð)
Hestahnútur er í raun réttri bragð en ekki hnútur þar sem hann verður að vera bundinn um eitthvað. Algeng notkun: Hestahnútur er helst notaður til að festa línur í karabínur sem síðan eru festar við belti eða tryggingu. Mikilvægt er að herða upp á hnútnum áður en álag er sett á hann. Kostir: Auðvelt að stilla, losa og herða. Gallar: Sé hann óhertur getur svolítil lína dregist í gegnum hann. Því er mikilvægt að herða upp á honum áður en hann fær átak.


Hálfbragð (ítalskt bragð)
Algeng notkun: Hálfbragð er hvorki raunverulegur hnútur né bragð. þar sem línan herðist ekki í hálfbragði nema haldið sé fast um dauða enda hennar. Hálfbragði er brugðið á karabínu til að mynda viðnám á línuna og hentar til að taka inn slaka í brölti (3) eða til að síga niður (3b). Til að hindra að línan renni í gegnum hálfbragðið verður alltaf að halda um dauða enda línunnar. Kostir: Einfalt bragð sem hægt er að beita til að tryggja einhvern hvort sem brölt er upp eða sigið niður (virkar í báðar áttir). Myndar mikið viðnám en herðist ekki nema haldið sé um dauða endann.