
3 minute read
Tíska 20. aldar
from ASKUR - Haust 2022
by Tækniskólinn
1900–1920
Í byrjun aldarinnar verður fatnaður kvenna léttari að klæðast en áður. Tískan losaði sig hægt og rólega við lífstykkin og rasspúðana. Í daglegri tísku voru konur í stífum jakka og undir honum voru þær í blúndu skyrtu með standkraga, pilsin sem voru notuð náðu niður á ökkla og voru þrengri en á árum áður. Það sama átti við um kjóla.
1920–1930

Allar breytingar sem urðu á meðan heimsstyrjöldinni stóð höfðu mikil áhrif á tískuna. Tískan var orðin mestmegnis án allra þvingana. Pilsin urðu styttri og styttri, þangað til aðeins hnén voru hulin og kjólarnir beinir og sýndu ekki líkama kvenna, hvorki mitti né mjaðmir. „Kynlaust” útlit var í tísku þar sem konan var orðin hálf drengjaleg.
1930–1950
Í byrjun fjórða áratugarins varð stíllinn kvenlegri þar sem kvenlegar líkamslínur fengu að njóta sín. Konur áttu að vera háar og grannar. Kjólarnir féllu að líkamanum. Árin í kringum seinni heimsstyrjöldina höfðu mikil áhrif á tískuna.
Skortur á efnum hafði þær afleiðingar að daglegur klæðnaður kvenna varð styttri, þrengri og strangari. Dragtir mjög vinsælar því hægt var að nota þær við flest tækifæri.
1950–1960
Á sjötta áratugnum urðu fóru pilsin aftur niður að kálfum og voru annaðhvort víð eða níðþröng. Efri hlutinn var þröngur og mittið var sérstaklega áberandi. Áhersla var á brjóst, mitti og mjaðmir. Viðeigandi hanskar tilheyrðu, einnig hattar, skór og handtöskur. Hattarnir gátu verið litlir eða fyrirferðamiklir, flatir og áberandi. Skórnir voru þröngir með breiðum hæl. Konur urðu að eiga dragt til að vera í hversdags.

1960–1970


Um miðjan sjöunda áratuginn tók hippatískan völdin hjá ungu kynslóðinni. Unga fólkið klæddist fötum andstætt tískuvenjum. Hippahreyfingin breiddist út til Evrópu frá Ameríku og fatnaðurinn einnig. Brátt varð hippafatnaðurinn að söluvöru og það sem upphaflega átti að vera ádeila á tískuna varð að alþjóðlegri tísku.

1970–1980
Áttundi áratugurinn var ekki með neitt sérstakt útlit. Gallabuxur voru vinsælar og notaðar við öll tækifæri. Nánast engar reglur voru um klæðaburð og lífsstíll fólks virtist mótandi fyrir tískuna.
1980–1990
Á níunda áratugnum voru stórar gallabuxur og stuttir bolir eða stórir bolir (over sized look) mikið í tísku. Gallaefni með gallaefni (denim on denim) eða gallabuxur og gallajakki saman var líka vinsælt á þeim tíma. Þessi tíska er byrjuð að spretta upp aftur nú til dags.






Margrét Lóa Björnsdóttir
Ég heiti Margrét Lóa Björnsdóttir en er kölluð Lóa. Ég fæddist 15. apríl árið 1999 en átti að fæðast í júlí, en þar sem ég er fyrirburi ákvað ég að flýta mér í heiminn. Ég er uppalin á Álftanesi sem er oft kallað sveit í borg en bý núna á Háteigsveginum með kærastanum mínum og hundinum okkar Týra. Ég útskrifaðist með stúdentspróf árið 2018 af félagsfræðibraut frá Flensborg. Eftir útskrift vissi ég ekkert hvað ég vildi gera í framhaldinu og ekkert nám vakti áhuga minn fyrr en ég uppgötvaði grafíska miðlun í Tækniskólanum.
Hestamennska er mitt helsta áhugamál og má segja að lífið mitt snýst aðallega um það. Ég er mikill dýravinur og þegar ég var yngri var ég búinn að ákveða að verða dýralæknir eða bakari þegar ég yrði stór en eitthvað hefur það nú breyst. Einnig hef ég áhuga á kvikmyndum, sjónvarpsseríum og föndri.
Nám í grafískri miðlun býður upp á fjölbreytta möguleika og er ég búinn að nýta mér það mikið í mínu daglega lífi t.d. hannaði ég nýtt lógó og bjó til bók fyrir fyrirtæki sem mamma mín rekur.