6 minute read

Tæland

Next Article
Punta Cana

Punta Cana

Tæland er staðsett í Suðaustur-Asíu og hefur landamæri að Kambódíu, Laos, Malasíu og Mjanmar. Íbúar Tælands eru um 66 milljónir og er flatarmál landsins um 5 sinnum stærra en Ísland eða um 513.120 km2. Árið 2019 ferðuðust um 40 milljónir ferðamanna til Tælands en árið 2021 ferðuðust aðeins 427 þúsund ferðamanna til landsins þar sem landið var lokað fyrir ferða mönnum meirihlutann af árinu og opnaði í nóvember.

Ég fór til Tælands með fjölskyldunni minni yfir síðustu jól og áramót og var þá í gildi svokallað „SandBox program“. En Því fylgdu ýmsar kvaðir sem þurfti að uppfylla til þess að fá að ferðast til landsins. Áður en lagt var af stað þurftum við að sýna fram á bólusetningarvottorð, niðurstöður úr PCR prófi fyrir brottför, covid tryggingu, upplýsingar um flug, sækja um og fá Thailand PASS, vera með bókaða nótt á SHA+ vottuðu hóteli og fyrirfram greitt PCR próf við komuna til landsins.

Þegar öll skjöl voru tilbúin og samþykkt var komið að ferðinni til Tælands. Ferðalagið út tók um 25 klukkustundir og flugum frá Keflavík til Amsterdam, svo til Istanbúl og þaðan til Bangkok. Í Bangkok tókum við PCR próf og fórum í sóttkví á SHA+ vottuðu hóteli þar sem við biðum eftir niðurstöðu prófsins. Það tók tæpan sólarhring sem hentaði vel því við áttum flug daginn eftir til Phuket.

Phuket

Phuket er eyja í suður Tælandi og einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Þar eru íbúar rúmlega 416 þúsund og árið 2019 voru um 10 milljónir ferðamanna sem heimsóttu eyjuna.

Ljósm.: Andrea Þórðard.

Eitt af því sem var mest heillandi við Phuket voru strendurnar en við fórum á nokkrar þeirra og þær eru ólíkar öllum öðrum ströndum sem ég hef komið á. Fyrst og fremst er sjórinn í alvörunni heitur og það var aldrei kalt að fara ofaní eða uppúr honum og svo var sandurinn á ströndinni svo mjúkur og alltaf falleg útsýni. Fyrsta ströndin sem við fórum á heitir „Nai Harn“ en hún var mín uppáhalds því hún var frekar lítil og var aðeins út fyrir stærstu bæina á eyjunni svo það voru mjög fáir ferðamenn. Einnig fórum við á „Kata“ ströndina en þar sá ég fallegasta sólsetur sem ég hef nokkurn tímann séð þar sem að himininn varð alveg appelsínugulur. Við fórum líka á Patong ströndina sem er líklegast þekktasta ströndin á Phuket þar sem eru mikið af hótelum, verslunum og næturklúbbum.

Á Phuket eru 29 búdda hof og merkilegast þeirra er Wat Chalong sem er tileinkað tveimur virðulegum munkum, Luang Pho Chaem og Luang Pho Chuang. Þeir leiddu íbúa Chalong í baráttunni gegn kínversku uppreisninni árið 1876 og hjálpuðu slösuðum með jurtalækningum. Við fórum að skoða hofið og var magnað að sjá byggingarnar á svæðinu, þær voru ótrúlega fallegar í gylltum, hvítum og rauðum tónum. Það er líka magnað að hugsa til þess að þessi hof með öllum litlu smáatriðunum voru byggð snemma á 19 öld þegar að meirihluti Íslendinga bjó enn í torfbæjum.

Suður og austur af Phuket eru fullt af eyjum sem er skemmtilegt að skoða og er mikið úrval af allskyns bátsferðum þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Við fórum í tvær bátsferðir þar sem við sigldum á milli nokkurra eyja. Í fyrri bátsferðinni skoðuðum eyjarnar Phi Phi Don og Phi Phi Leh, en á þeirri síðarnefndu er Maya Bay sem er þekktast fyrir að hafa verið tökustaður kvikmyndarinnar „The Beach“ með Leonardo DiCaprio í aðalhlutverki sem kom út árið 2000. Á

Ljósm.: Andrea Þórðard.

Khao Phing Kan Ljósm.: Andrea Þórðard.

milli eyjanna stoppuðum við til þess að snorkla og skoðuðum fiska í öllum regnbogans litum. Áður en við lögðum af stað til baka til Phuket fórum við á Khai eyjuna sem er aðeins 255 metra löng og tæplega 200 metra breið en þar var lítill bar þar sem var hægt að fá sér drykki og narsl og njóta útsýnisins.

Í seinni bátsferðinni fórum við að skoða Ko Panyee sem er sjávarþorp byggt á stöplum af malasískum fiskimönnum. Þar búa um 360 fjölskyldur sem eru afkomendur tveggja múslima ætta frá Indónesíu. Það var magnað að sjá hvernig þorpið var byggt og menninguna. Ég upplifði í raun að þetta væri ein stór fjölskylda sem hjálpaðist að í einu og öllu í lífinu. Við skoðuðum einnig Khao Phing Kan sem er betur þekkt sem James Bond eyjan en þar var tekið upp frægt atriði í James Bond kvikmyndinni „The man with the golden gun“.

Á Þorláksmessu fór ég á matreiðslunámskeið á veitingastaðnum Blue elephant. Við byrjuðum á að fara á matarmarkað að kaupa í réttina sem við vorum að fara elda. Það var ótrúlega skemmtilegt að byrja á markaðnum og sjá hvaðan hráefnin komu og læra um allskonar grænmeti og jurtir sem finnast ekki á Íslandi og varla í Evrópu. Af réttunum fjórum sem við elduðum var fiskurinn í rauðu karrýsósunni minn uppáhalds og er uppskriftin af honum á næstu síðu.

Markaður í Phuket Ljósm.: Andrea Þórðard.

Einn af mínum uppáhalds dögum í Phuket var þegar við fórum á næturmarkað í gamla bænum. Markaðurinn er settur upp á 350 metra langri götu sem gömul kínversk-portúgölsk hús í öllum regnbogans litum standa við. Á markaðnum voru básar með allskonar mat, t.d. sushi, lítil lasagne, grilluð skordýr á priki, Dragon´s Breath puffs sem búið er til með því að hella fljótandi köfnunarefni yfir morgunkorn. Þessi næturmarkaður var ótrúlega skemmtileg upplifun og ég myndi mæla með fyrir alla sem fara til Phuket að kíkja á hann.

Bangkok

Síðustu dögunum í Tælandi eyddum við í Bangkok sem er eins ólík Phuket og hægt er. Bangkok er höfuðborg Tælands og fjölmennasta borg landsins með tæplega 11 milljónir íbúa. Ef ég ætti að lýsa Bangkok í einföldu máli er hún samansafn af húsum, bílum, götum og lestum á frekar litlu svæði miðað við fjölda íbúa. Ástæðan fyrir því er líklega sú að á 20 ára tímabili fjölgaði íbúum í borginni um átta milljónir.

Við vorum á hóteli í Pathum Wan hverfinu sem er eitt af fimmtíu hverfuf í Bangkok og tókum þaðan lestir eða Tuk-Tuk á staðina sem okkur langaði til þess að skoða þar sem það er frekar erfitt að ganga á milli staða í borginni. Við vorum í Bangkok yfir áramótin og á gamlársdag fórum við að skoða konungshöllina og hofin við hana. Eftir það fórum við yfir Chao Phraya ánna og skoðuðum Wat Arun hofið sem dregur nafn sitt af hindúaguðinum Aruna sem er kenndur við upprisu sólar. Wat Arun er meðal þekktustu kennileita Tælands og líklega fallegasta hofið sem ég skoðaði í Tælandi. Við enduðum árið með flugeldasýningu á 18. hæð hótelsins en fjöldi þeirra var aðeins örlítið brot af því sem er venjan á Íslandi. Á nýársdag skoðuðum við okkur meira um og enduðum daginn á bátsferð með kvöldverði á Chao Phraya ánni og nutum ótrúlega fallegs útsýnis.

Þá var komið að heimferð til Íslands sem endaði með 50 klukkutíma ferðalagi sem er efni í aðra grein en var samt klárlega þess virði fyrir geggjaða ferð til Tælands.

This article is from: