
3 minute read
Digital nomad“ ferðalag
from ASKUR - Haust 2022
by Tækniskólinn



Hvað heitið þið?
Sigurlaug Þórðardóttir, 27 ára og Einar Brandsson, 29 ára.
Hver er menntun ykkar og starf?
Einar: Ég kláraði BSc Tölvunarfræði frá Háskóla Íslands vorið 2017 og vinn að sjálfvirknivæðingu ferla hjá Sjóvá eða með einfaldari orðum þá bý ég til róbóta sem einfalda ýmis verkefni innan fyrirtækisins.
Sigurlaug: Ég kláraði BSc Hugbúnaðarverkfræði frá HÍ ári seinna, vorið 2018 og starfa hjá Five Degrees við hugbúnaðarþróun á fjármálalausnum.
Hvað kom til að þið fóruð í „digital nomad“ ferðalag?
Sigurlaug: Ég var alltaf með plan að flytja erlendis og fara í meistaranám. Í miðju covid ástandinu sóttum við um nám í Þýskalandi. Þegar það gekk svo ekki upp fengum við þá flugu í hausinn að fara til Tælands í staðin en við eins og margir aðrir vorum orðin þreytt á íbúðinni okkar og covid hversdagsleikanum.
Voru þið lengi að safna fyrir ferðinni?
Einar: Já og nei, við höfðum verið að safna fyrir mastersnáminu í um 2 ár svo við áttum ágætis sparnað en svo vorum við að vinna í 50% fjarvinnu í sömu störfum og áður sem leyfði okkur að lifa nokkuð þægilega.
Var erfitt að fá leyfi til að vinna í fjarvinnu frá fyrirtækjunum?
Sigurlaug: Í raun ekki þar sem ágætis reynsla er á mínum vinnustað að starfsfólk flytji erlendis og haldi starfinu þó það sé ekki nákvæmlega það sem við gerðum. Einar: Í mínu tilviki þurfti fyrirtækið að taka aðeins meiri áhættu en þökk sé covid var það orðið eðlilegra að starfsfólk væri ekki að vinna á skrifstofunni.
Sigurlaug: Við fórum reyndar líka til Tenerife um jólin 2020–2021 með fjölskyldunni minni þar sem við þurftum að vinna aðeins í fjarvinnu og sýndun að við gætum alveg gert það.
Hvað voruði lengi á ferðalagi?
Við lögðum af stað 2. september 2021 og komum aftur heim 30. ágúst 2022. Svo við vorum í 362 daga á ferðalagi og ferðuðumst til þrettán landa í Evrópu og Asíu.
Hvernig gekk að vinna?
Einar: Það gekk misvel eftir löndum og aðstöðunni sem við gátum sett upp á hverjum stað en heilt yfir var þetta frekar auðvelt og alls ekki ósvipað því að vinna heima í covid nema aðeins betra útsýni.
Hvernig vinnuaðstöðu höfðu þið?
Sigurlaug: Í Evrópu vorum við með mánaðarlegan áskriftarsamning við Regus en í gegnum það gátum við bókað skrifstofurými nánast hvar sem er í heiminum og unnið þar til kl. 17–18 á daginn. Þegar við komum svo til Asíu gekk það ekki vegna tímamismunar og gerðum við þá langtímasamning við Regus í Chiang Mai og Bangkok þar sem við áttum ákveðna skrifstofu sem við höfðum aðgang að allan sólarhringinn. Á öðrum stöðum, þar sem við vorum í of stuttan tíma til að geta gert svoleiðis samning reyndum við að finna AirBnB íbúðir sem voru með nægilegu borðplássi til að setja um 2 vinnustöðvar.
Ljósmyndari: Sigurlaug Þórðardóttir



Hvað stóð upp úr ferðinni?
Einar: Klárlega tónleikarnir með PSY sem við fórum á í Seoul og þá sérstaklega mómentið þegar Suga úr BTS mætti á sviðið og tók eitt lag og fólkið í kringum okkur gjörsamlega missti sig.
Sigurlaug: Það var alveg sturluð upplifun en ég held að ég segi daginn sem við eyddum í Chiang Mai. Við byrjuðum í Sticky falls en það er foss sem þú getur labbað niður eins og Spider-man. Eftir það fórum við í fíla athvarf þar sem við kynntumst tveim hefðarfrúm og fengum að gefa þeim að borða, fara með þær í göngutúr og að lokum baða þær í ánni.
Digital Nomad
Fólk sem getur unnið óháð staðsetningu og notar tæknina til að sinna starfi sínu kallast „digital nomad“.
Þau vinna í fjarvinnu með upplýsinga- og fjarskiptatækni. „Digital nomad“ getur unnið á kaffihúsi, strönd, hótelherbergi eða nánast hvar sem er svo lengi sem netsamband er til staðar. Þetta á einnig við um fólk sem er í fjarnámi á ferðalagi.
Kostir við að vera „digital nomad“ getur verið frelsi frá hefðbundinni skrifstofuaðstöðu, hafa meiri stjórn á eigin tíma, tækifæri til að ferðast og læra um nýja menningu.
Helstu ókostir fjarvinnu getur verið einmannaleiki og einangrun frá fjölskyldu og vinum. Auk þess sem erfitt getur reynst að sinna viðskiptavinum á ólíkum tímabeltum og kostnaður getur verið töluverður.
